Um vefinn

Kveikjan að síðunni bjorn.is eru samtöl mín við Arnþór Jónsson og félaga hans, sem stóðu að því að stofna Miðheima (centrum.is) á árinu 1994 og voru meðal fyrstu Íslendinga til að hvetja almenning til að nýta sér netið.

Þeir vöktu áhuga minn á því í nóvember 1994 að tengjast netinu eða veraldarvefnum að heiman frá mér og 19. janúar 1995 sendi Arnþór mér tölvubréf um að á netinu gæfist einstakt tækifæri til að eiga samskipti við fólk á einfaldan en markvissan hátt og hvatti mig til að setja upp heima- eða vefsíðu í samvinnu við þá félaga.

Ég tók hugmyndinni vel og síðan hannaði Gunnar Grímsson síðuna. Útlit síðunnar tók litlum breytingum frá því að hún birtist fyrst í febrúar 1995 fram í október árið 2000. Þá var henni breytt í samvinnu við tæknimenn og vefsíðusmiði Skímu, grunnurinn var óbreyttur en nýtt útlit síðunnar varð til í höndum Rebekku Samper.

Um langt skeið var ég háður þjónustu vefritara sem tóku við efni frá mér og settu það inn á síðuna.

Í nóvember 2002 tók Hugsmiðjan að sér að hýsa bjorn.is og setja í Eplica kerfið sitt. Margeir St. Ingólfsson endurhannaði síðuna og síðan breytti hann útliti hennar árið 2005 þegar aukin áhersla var lögð á dagbókina á forsíðunni.

Bjorn.is fékk Íslensku vefverðlaunin sem besti einstaklingsvefurinn 29. október 2003 og var tilnefnd til sömu verðlauna árið 2005.

Í mars 2017 var síðan uppfærð að nýju og endurhönnuð af Jónu Dögg Sveinbjörnsdóttur hjá Hugsmiðjunni.

Við þá endurhönnun breyttist dagbókin á þann veg að ég varð ekki eins bundinn við eina færslu á dag. Vegna þess ákvað ég að fella niður liðinn pistla af vefslánni en allir eldri pistlar eru varðveittir á síðunni. Á sínum tíma sendi ég þá reglulega á póstlista. Nú hef ég ákveðið að hætta að nota póstlistann á sama hátt og áður.

Leitarvél síðunnar hefur verið endurbætt og útlit hennar tekið stakkaskiptum. Allt efni frá 1995 er aðgengilegra en áður í þessari nýju umgjörð. Síðuna er áfram unnt að nota til samskipta við mig með því að senda fyrirspurn af henni til mín. Aðrir en ég hafa ekki aðgang að síðunni til að setja inn á hana efni.

Við uppfærsluna í mars 2017 er útlit síðunnar einnig lagað að snjallsímum og spjaldtölvum. Hvarvetna þar sem menn fletta upp síðunni á útlit hennar að laga sig að tækinu sem þeir nota.

Við þessa uppfærslu nú bætist við nýr tengill á vefslánni: Þættir. Þar er unnt að skoða hluta þátta minna á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Fyrsta viðtalið á ÍNN í ágúst 2009 við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáv. borgarstjóra. 

Undir hlekknum Þættir eru birt nöfn viðmælenda minna á ÍNN frá desember 2010 þegar stöðin tók að vista þætti sína á netinu. Það er þó ekki fyrr en 2012 sem vistun á netinu verður regluleg. Fram til apríl 2014 notaði ÍNN YouTube og fylgja krækjur á þætti þar með nöfnum viðmælenda. Frá apríl 2014 eru þættir aðgengilegir á Vimeo og nægir að slá á myndina hér á síðunni til að kalla upp viðkomandi þátt. Við nöfnin er birt dagsetning, útsendingardags. 

30. mars 2017

Björn Bjarnason