Æviágrip

Björn Bjarnason

 • bjornavigrip

Ég er fæddur 14. nóvember 1944 að Eiríksgötu 19 í Reykjavík. Foreldrar mínir eru Bjarni Benediktsson, þáverandi borgarstjóri og síðar ráðherra, auk þess var hann um skeið lagaprófessor og ritstjóri Morgunblaðsins, og Sigríður Björnsdóttir. Þau og Benedikt Vilmundarson, systursonur minn, fórust í eldsvoða á Þingvöllum 10. júlí 1970, þegar forsætisráðherrabústaðurinn þar brann til kaldra kola að næturlagi. Systur mínar eru Guðrún, Valgerður og Anna.

Hinn 21. september 1969 kvæntist ég Rut Ingólfsdóttur fiðluleikara. Foreldrar hennar eru Inga Þorgeirsdóttir kennari og Ingólfur Guðbrandsson, tónlistarkennari, ferðamálafrömuður og kórstjóri.

Við Rut eigum tvö börn. Sigríður Sól er viðskiptafræðingur og gift Heiðari Má Guðjónssyni hagfræðingi og eiga þau tvo syni, Orra og Bjarka og eina dóttur, Rut. Bjarni Benedikt lauk vorið 2004 meistaranámi í íslensku og kennslufræðum við Háskóla Íslands með ágætiseinkunn.

Ég hóf skólagöngu mína í Grænuborg, síðar Ísaksskóla, við Miklatorg og var nokkur spölur að fara þangað úr Blönduhlíð 35, þar sem við bjuggum frá 1949 til 1955, þegar foreldrar mínir höfðu reist hús að Háuhlíð 14, þar sem ég bý enn. Eftir Grænuborg fór ég í Austurbæjarskóla, þar sem Siguringi Hjörleifsson var kennari minn. Síðan í Gagnfræðaskóla Austurbæjar, þar sem ég lauk landsprófi og hóf síðan nám í máladeild Menntaskólans í Reykjavík. Varð stúdent þaðan 1964.

Innritaðist haustið 1964 í lagadeild Háskóla Íslands og útskrifaðist sem lögfræðingur haustið 1971. Á háskólaárum mínum var ég virkur í stúdentapólitíkinni með Vöku. Varð varaformaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands 1966-67 og formaður þess 1967-68. Í stjórn Félagsstofnunar stúdenta 1968- 74, formaður 1972-74.

Frá sex ára aldri og fram yfir fermingu var ég jafnan í sveit að Reynistað í Skagafirði hjá Jóni Sigurðssyni alþingismanni. Síðan var ég þrjú sumur á varðskipum og man meðal annars eftir átökum í lok fyrsta þorskastríðsins í upphafi sjöunda áratugarins undir stjórn Eiríks Kristóferssonar skipherra. Þá var ég eitt ár í síld á Seyðisfirði, áður en síldin hvarf, og starfaði þar í verksmiðju Hafsíldar. Síðan hóf ég sumarstörf á Morgunblaðinu, var meðal annars á auglýsingadeild þess en fór síðan að sinna blaðamennsku.

Að loknu námi er starfsferill minn í stórum dráttum þessi:

 • Útgáfustjóri Almenna bókafélagsins 1971-1974.
 • Fréttastjóri erlendra frétta á Vísi frá febr. til okt. 1974.
 • Deildarstjóri í forsætisráðuneytinu frá okt. 1974, skrifstofustjóri þess frá sept. 1975 til okt. 1979.
 • Blaðamaður á Morgunblaðinu 1979-1984, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins 1. maí 1984 til 15. mars 1991.
 • Þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá 1991 til 25. apríl 2009.
 • Menntamálaráðherra frá 23. apríl 1995 til 1. mars 2002.
 • Kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur 25. maí 2002 til 6. júní 2006.
 • Dóms- og kirkjumálaráðherra 23. maí 2003 til 1. febrúar 2009.

Mér hafa meðal annars verið falin þessi trúnaðarstörf:

 • Í stjórn landsmálafélagsins Varðar 1972-74.
 • Formaður utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins frá 1971-86, aftur frá 2009 til 3. febúar 2011.
 • Kjörinn fulltrúi þingflokks í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 17. október 2005 til 25. apríl 2009.
 • Félagi í International Institute for Strategic Studies í London frá 1973.
 • Í stjórn Samtaka um vestræna samvinnu frá 1973, formaður 1982-1986. Varð formaður Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, við stofnun félagsins 9. desember 2010. Lét af formennsku 28. janúar 2021.
 • Í stjórn sjóðsins Þjóðhátíðargjöf Norðmanna 1976-1986.
 • Í stjórn Þjóðhátíðarsjóðs frá 1977-1993, formaður 1977-1986.
 • Í öryggismálanefnd ríkisstjórnarinnar frá 1980 þar til hún var lögð niður 31. des. 1991.
 • Stjórnarformaður Almenna bókafélagsins frá 1987-1991, í bókmenntaráði félagsins frá 1974-1987.
 • Í stjórn Sögufélags frá 1988-2001.
 • Í varastjórn Wagner-félagsins 2010-2020.
 • Kjörinn formaður í félagi qi-gong iðkenda, Aflinum, á stofnfundi félagsins 1. júní 2002.
 • Fulltrúi kirkjuráðs í ráðgjafarnefnd Rannsóknastofnunar í siðfræði.
 • Fulltrúi Íslands á þingi Evrópuráðsins og formaður íslensku sendinefndarinnar frá 1991 til 1995.
 • Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 2002.
 • Í utanríkismálanefnd Alþingis frá 1991-1995 , formaður frá 1992. Settist í nefndina að nýju vorið 2002 til 23 maí 2003 og að nýju 4. febrúar 2009 til 25. apríl 2009.
 • Í nefnd um öryggis- og varnarmál Íslands 1992-1993.
 • Formaður ritnefndar vegna sögu Stjórnarráðsins 1999-2004.
 • Skipaður formaður Evrópunefndar þingflokkanna af forsætisráðherra með bréfi 8. júlí 2004. nefndin lauk störfum með 136 bls. skýrslu í mars 2007. 
 • Kjörinn fulltrúi Borgarbyggðar í stjórn Snorrastofu 5. júlí 2006. Sóknarnefnd Reykholtssóknar tilnefndi mig formann stjórnar og tók ég við formennsku 30. maí 2012 en tilkynnt var um formennskuna 9. júlí 2012. Baðst undan endurkjöri 12. maí 2022,
 • Skipaður formaður heimsminjanefndar Íslands af menntamálaráðherra 12. maí 2007. Nefndinni breytt 2009.
 • Skipaður formaður í starfshópi til að skrifa skýrslu um kosti og galla EES-samstarfsins fyrir Ísland á vegum utanríkisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar 30. ágúst 2018. Skýrslu (301 bls.) skilað 1, október 2019. 
 • Falið 2. desember 2019 af Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir hönd utanríkisráðherra Norðurlanda að gera óskuldbindandi tillögur um samstarf Norðurlanda í utanríkis- og öryggismálum. Skýrslunni (31 bls.) formlega skilað 3. júlí 2020.
 • Falið 15. september 2020 af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að sitja í verkefnisstjórn um landbúnaðarstefnu. Umræðuskjalinu Ræktum Ísland! skilað til ráðherra 30. mars 2021. Síðan tók við kynning á skjalinu um land allt frá 1.-16. júní 2021.
 • Tók 12. júní 2021 heiðurssæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
 • Varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins frá 1991-1995 .
 • Fjórði varaforseti Alþingis 1991-1992.
 • Formaður Þingvallanefndar frá 1992 til 11. ágúst 2009.
 • Formaður nefndar um stofnun Listaháskóla Íslands 1992-1993.
 • Formaður nefndar um þyrlukaup 1991.
 • Í nefnd til að undirbúa lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu 1992-1993. 
 • Í borgarstjórn  Reykjavíkur frá 25. maí 2002 til 6. júní 2006.
 • Í borgarráði frá júní 2002 til 19. júní, 2003.
 • Í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur frá sumri 2002 til 3. júní, 2003..
 • Í stjórnkerfisnefnd Reykjavíkurborgar frá sumri 2002 til 3. júní, 2003.
 • Í almannavarnanefnd Reykjavíkur frá sumri 2002 til 3. júní, 2003.
 • Í stjórn Aflvaka hf. frá sumri 2002 til 3. júní, 2003.
 • Í samstarfsnefnd Reykjavíkurprófastsdæmis frá janúar 2003 til 3. júní, 2003.
 • Í stjórn Skipulagssjóðs Reykjavíkurborgar 20. mars, 2003 til 3. júní, 2003.

17. júní 1996 sæmdur stórriddarakrossi fálkaorðunnar.

3. maí 2006 sæmdi Landssamband lögreglumanna mig gullmerki landssambandsins nr. 8 fyrir frábær störf í þágu lögreglumanna. Gerðist þetta við hátíðlega athöfn á þingi LL í Munaðarnesi.

Hinn 4. maí 2007 sæmdi Félag yfirlögregluþjóna mig gullmerki félagsins fyrir störf mín að lögreglumálum.

Það á við um báðar þessar viðurkenningar, að hvorug þeirra hefur áður verið veitt manni utan lögreglunnar.

5. maí 2012 sæmdi Íþróttasamband lögreglumanna mig gullmerki sambandsins.

17. júní 2020 vorum við Rut heiðruð með Afreksbikar Búnaðarsambands Suðurlands á svæði Búnaðarfélags Fljótshlíðar fyrir framlag til menningarmála. Um er að ræða farandbikar sem veittur er af nefnd með fulltrúum Búnaðarfélags Fljótshlíðar, Kvenfélagsins og sveitarstjórnar.

29. október 2020  á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldið var í fjarfundi vegna COVID-19-faraldursins voru okkur Rut að Kvoslæk í Fljótshlíð veitt Menningarverðlaun Suðurlands 2020. Verðlaunin eru samfélags- og hvatningarverðlaun á sviði menningar á Suðurlandi. Var þetta í annað sinn sem verðlaunin voru veitt. Alls skiluðu sér inn 15 tilnefningar um 12 verkefni.

Sem blaðamaður skrifaði ég einkum um utanríkis- og öryggismál auk þess sem ég fjallaði um stjórnmál almennt, meðal annars sem höfundur Staksteina, leiðara og Reykjavíkurbréfs í Morgunblaðinu. Haustið 2001 gaf Nýja bókafélagið út bókina  Í hita kalda stríðsins undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar rithöfundur með úrvali greina um utanríkis- og öryggismál. Þá ritaði ég einnig bókagagnrýni í Morgunblaðið. Sumarið 2002 tók ég að rita fastan dálk í blaðið á laugardögum. Sumarið 2015 hóf ég að rita fastan dálk um utanríkis- og öryggismál í Morgunblaðið annan hvorn föstudag.

Í janúar 2009 gaf bókafélagið Ugla ehf. út bókina Hvað er Íslandi fyrir bestu? en þar er að finna ritgerðir eftir mig og blaða- og vefsíðugreinar um Ísland og Evrópusambandið.

Hinn 25. maí 2011 gaf bókafélagið Ugla út bók mína Rosabaugur yfir Íslandi um Baugsmálið. Fyrsta prentun seldist upp hjá útgefanda á tveimur vikum. Fyrir aðra prentun leiðrétti ég nokkrar augljósar villur meðal annars þá að ég sagði Jón Ásgeir Jóhannesson hafa verið dæmdan í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir „fjárdrátt“ en hann hlaut dóminn fyrir meiri háttar bókhaldsbrot.

Um miðjan janúar 1995 opnaði ég vefsíðu www.bjorn.is að hvatningu Arnþórs Jónssonar og félaga hans hjá Miðheimum (centrum.is). Hef ég haldið henni úti síðan.  Fyrsta skráða færslan er frá 19. febrúar 1995. Á síðunni  er að finna greinar og ræður auk pistla, sem ég leitast við að rita vikulega. Póstlisti með mörg hundruð nöfnum hefur orðið til í kringum síðuna. Umsjón með síðunni var í höndum Miðheima og síðan Íslensku vefstofunnar, en í nóvember 2002 hóf ég samstarf við Hugsmiðjuna.   Síðan var valin besti einstaklingsvefurinn 29. október 2003 af íslensku vefakademíunni á grundvelli 10.000 tilnefninga.

Á tímum kalda stríðsins var ég virkur í alþjóðlegum umræðum um öryggismál á Norður-Atlantshafi og ritaði meðal annars greinar í safnrit um þau mál. Einnig hef ég birt greinar í íslenskum safnritum, tímaritum og afmælisritum um lögfræði og stjórnmál.

Í apríl 2010 hófum við Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins, að skrifa vefsíðuna Evrópuvaktina þar sem sagðar voru fréttir af gangi mála innan ESB og af aðildarumsókn Íslands. Auk þess rituðum við leiðara þar sem við færðum rök fyrir því hvers vegna Ísland ætti ekki að ganga í ESB. Síðan fékk 4,5 m. kr. í styrk frá alþingi árið 2011 og 1,5 m. kr. árið 2012. Hinn 31. mars 2015 gerðum við hlé á útgáfunni.

Skömmu eftir að Evrópuvaktinni var lokað hóf ég að skrifa á vefsíðuna vardberg.is um utanríkis- og öryggismál.

Sumarið 2010 bað Ingvi Hrafn Jónsson, eigandi sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN, mig að taka að mér viðtalsþátt tvisvar í mánuði undir heitinu Björn Bjarna. Haustið 2014 varð hann vikulega á dagskrá stöðvarinnar í 30 mínútur á miðvikudögum. ÍNN hætti störfum í nóvember 2017.

Hér skulu nefndar nokkrar greinar:

The Security of Iceland, Five Roads to Nordic Security, Oslo 1973; Iceland's Security Policy, Strategic Factors in the North Atlantic, Oslo 1977; Í öryggismálum er enginn annar kostur, Uppreisn frjálshyggjunnar, Rvk 1979; Noen islandske synspunkter i Jan Mayen-saken, Internasjonal Politikk, Oslo 1979; Um starfsstjórnir, Tímarit lögfræðinga XXIX, 1. tbl. 1979; Island og kernevåben, Kernevåbenpolitik i Norden, Khöfn 1982; Iceland and Soviet Security Policy, Bidrag till Öststatsforskningen, Band 11, nr. 4 1983, Uppsala 1984; Úr stjórnarráðinu á Morgunblaðið, Ólafsbók, afmælisrit helgað Ólafi Jóhannessyni sjötugum, Rvk 1983; Iceland's Security Policy: Vulnerability and Responsibility, Oslo 1985; Gildi varnarsamningsins eftir lok kalda stríðsins, Afmælisrit, Davíð Oddsson fimmtugur, Rvk 1998; Erlent sjónvarp - íslensk tunga, Líndæla, Sigurður Líndal sjötugur, Rvk 2001. 

Ég hef íslenskað bækurnar:
Sókn Japana, Rvk 1979; Andspyrnan, Rvk 1980 og Leiðin til Tókíó, Rvk 1982 í bókaflokki Almenna bókafélagsins um síðari heimsstyrjöldina. Árin dásamlegu eftir Reiner Kunze, Rvk 1982. Auk þess hef ég frá 1969 komið að þýðingu NATO Review á íslensku undir heitinu NATO fréttir.

 

CV in English

Born in Reykjavik, November 14th, 1944.

Parents: Bjarni Benediktsson, then mayor of Reykjavik, later prime minister and Sigríður Björnsdóttir.

Björn is married to Rut Ingólfsdóttir, violinist and they have two children, Sigríður Sól and Bjarni Benedikt and three grandchildren.

Education and major career experience:
Matriculated from Reykjavík Junior College in 1964.
Graduated in Law (cand. jur.) from the University of Iceland in 1971.
Editor at Almenna bókafélagið (book publisher) from 1971-1974.
Foreign News Editor at Vísir from February to October 1974.
Division Chief at the Prime Minister}s Office from October 1974, Deputy Secretary General from September 1975 to October 1979.
Journalist at Morgunblaðið 1979-1984, assistant editor from May 1st 1984 to March 15th 1991.
MP for Reykjavik for the Independence Party (right of center) 1991 - 25 April 2009.
Minister of Education, Science and Culture from April 23rd 1995 until March 1st 2002.
Elected to Reykjavik City Council, May 25th 2002.
Minister of Justice and Ecclesiastical Affairs from May 23rd 2003 - 1st February 2009.