21.7.2013

Skálholtsdómkirkja 50 ára - í minningu ljóðs

Seinni dagur Skálholtshátíðar var í dag. Jón Bjarnason organleikari efndi til tónleika klukkan 11.00 og klukkan 12.15 var stofnfundur endurreists Skálholtsfélags og tilnefndi Kristján Valur Ingólfsson formann þess, hann er að minnsta kosti til fyrsta aðalfundar að ári Jón Sigurðsson, fyrrv. ráðherra, seðlabankastjóri og formaður Framsóknarflokksins. Hann er oft kallaður á vettvang sem einskonar brúarsmiður hvort menn sem menn vilja brúa fortíð og framtíð eða smíða nýja brúarstólpa vegna einhvers sem þarf að styrkja.

Klukkan 14.00 var hátíðarmessa, upphaf hennar tafðist um 10 mínútur á meðan beðið var pílagríma, sumir þeirra höfðu gengið 120 km úr Borgarfirði undir forystu sr. Elínborgar Sturludóttur. Þeir gengu berfættir inn kirkjugólfið. Jóhann Stefánsson og Jóhann Már Nardeau léku á tompett í tilefni af komu þeirra. Séra Karl Sigurbjörnsson, fyrrv. biskup, flutti frábæra prédikun og leiddi kirkjugesti aftur til ársins 1963 þegar hann 16 ára átti sem verkamaður þátt í lokafrágangi fyrir vígslu dómkirkjunnar fyrir 50 árum.

Klukkan 16.15 hófst Skálholtshátíð, Skálholtskvartettinn lék, Benedikt Kristjánsson söng og Jóhann Már Nardeau lék á trompett, Skálholtskórinn söng undir stjórn Jóns Bjarnasonar sem einnig lék á orgel við athöfnina.

Herra Ólafur Ragnar Grímsson flutti ávarp og lýsti réttilega gildi endurreisnar Skálholts fyrir sjálfsvirðingu þjóðarinnar eftir að hún hlaut sjálfstæði. Pétur Kr. Hafstein, fyrrv. forseti kirkjuþings, flutti hátíðarræðu og ræddi stöðu þjóðkirkjunnar að íslenskum lögum og stjórnarskrá. Þá flutti Gunnar Eyjólfsson leikari hátíðarljóð sem Matthías Johannessen orti í tilefni af vígslu Skálholtsdómkirkju fyrir 50 árum. Matthías var í messunni og á hátíðinni.

Karl Sigurbjörnsson afhenti mynd af Sigurbirni biskupi, föður sínum. Jón Hákon Magnússon las gjafabréf frá konu sinni Áslaugu Harðardóttur Bjarnasonar, arkitekts Skálholtsdómkirkju, þar sem hún færði kirkjunni þrjá gripi frá föður sínum sem tengjast kirkjunni. Erfingjar Guðjóns Arngrímssonar, byggingarmeistara kirkjunnar, gáfu henni líkan af henni sem Guðjón átti en hann hvatti um jólin 1964 afkomendur og vini til að verða á 50 ára afmælishátíð kirkjunnar árið 2013 ef þeir gætu og var stór hópur þeirra í messunni og á hátíðinni.

Kristján Valur vígslubiskup spurði hverjir í kirkjunni hefðu sungið í kórnum fyrir 50 árum og risu fáeinir á fætur. Einn þeirra Bragi Þorsteinsson er nú forsöngvari í kórnum og kallaði Kristján Valur hann fram, heiðraði Braga fyrir hönd allra sem hefðu komið að söng í kór kirkjunnar og færði honum bók og rósir til þakklætis.

Frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup lauk athöfninni með ávarpi og bæn rétt fyrir klukkan 18.00.

Séra Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup hélt af sköruglegri hógværð utan um hátíðina frá upphafi til enda, var vel og myndarlega að öllu staðið. Dómkirkjan var þéttsetin við allar þessar athafnir.

Nýja alþingismenn þekki ég ekki í sjón og kann einhver þeirra að hafa verið meðal kirkju- eða hátíðargesta. Ég sá Árna Johnsen, fyrrverandi þingmann Suðurkjördæmis, en engan ráðherra, ég tel mig þekkja þá alla í sjón. Vissulega afhenti ríkið kirkjunni Skálholt til eignar og yfirráða árið 1963 en þar með urðu ekki slit í samskiptum ríkis og kirkju vegna Skálholtsstaðar. Slíti menn þau tengsl höggva þeir á rætur þjóðmenningar.

Ég var ekki á Skálholtshátíð 1963 en fylgdist með aðdraganda hennar og hátíðarhöldunum úr fjarlægð. Guðmundur Benediktsson, síðar ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, bar veg og vanda að öllu skipulagi og undirbúningi af hálfu dómsmálaráðuneytisins og var Kristín Claessen, ekkja hans, meðal gesta í Skálholti núna með dóttur þeirra séra Solveigu, vígslubiskupi að Hólum.

Hátíðin vakti bæði athygli og umræður. Meðal þess sem ýmsir eiga til minningar um hana er minnispeningur, einskonar heiðursorða fyrir aðild að viðburðinum. Orðan hefur ekki síst verið hugsuð sem þakklætisvottur við hina mörgu erlendu menn sem lögðu kirkjusmíðinni lið með höfðinglegum gjöfum. Þar var Norðmaðurinn Harald Hope í fremstu röð.

Meðal þeirra sem heilluðust af Skálholti og áformum um endurreisn staðarins var Bodil Begtrup, sendiherra Dana, við upphaf sjötta áratugarins. Hún átti síðar eftir að gegna embætti sendiherra í öðrum löndum en að eigin ósk er hún grafin við hlið Skálholtskirkju.

Eins og áður sagði flutti Gunnar Eyjólfsson ljóðið Í Skálholtskirkju eftir Matthías Johannessen. Gunnar flutti ljóðið í þeim búningi sem Matthías bjó því í nóvember 1982 og birtist í Lesbók Morgunblaðsins 27. ágúst 1983.

Í Lesbókinni stóð:

„Fyrir vígslu Skálholtskirkju fór höfundur kvæðisins í Skálholt með Herði Bjarnasyni, arkitekt. Upp úr því orti hann frumgerð Skálholtskvæðisins, sem flutt var í veizlu þáverandi kirkjumálaráðherra Bjarna Benediktssonar og Sigríðar Björnsdóttur, að ósk þeirra. Kvæðið var síðan birt í Lesbók.

Nú hefur höfundur breytt kvæðinu, sleppt sumu en ort annað upp, og var það svo breytt flutt í Skálholtskirkju að tilhlutan biskups, herra Péturs Sigurgeirssonar, á tuttugu ára afmælishátíð kirkjunnar. Þessi endanlega gerð kvæðisins er birt hér, eins og höfundur hefur gengið frá henni og hún var flutt í Skálholtskirkju 24. júlí sl. [1983]“

Ljóðið Í Skálholtskirkju birtist í upphaflegri gerð í Lesbók Morgunblaðsins hinn 21. júlí 1963. Það var síðan gefið út sérprentað í 40 eintökum. Á nýársdag 1983 gaf Matthías mér eitt þessara 40 eintaka og hafði hann þá fært inn í það með eigin hendi breytingarnar sem hann lauk við að gera í nóvember 1982. Á tilblað skrifaði Matthías:

„Nýársdag ´83

Þetta ljóð var fyrst lesið fyrir Bjarna, Sigríði og Hönnu [konu Matthíasar] í júlí ´63 á svölunum á ráðherrabústaðnum á Þingvöllum. Síðar flutt yfir gestum á Skálholtshátíðinni í hófi í Sjálfstæðishúsinu – að frumkvæði Bjarna sem þá var dóms- og kirkjumálaráðherra – svo breytt nýársgjöf til Rutar og Björns Bjarnasonar, með vinarkveðju, Matthías.“

Að ég ætti þessa dýrmætu vinargjöf rifjaðist upp fyrir mér á sérkennilegan hátt í tilefni af 50 ára afmæli Skálholtsdómkirkju. Séra Kristján Valur hafði beðið Gunnar vin minn Eyjólfsson að flytja ljóðið sunnudaginn 21. júlí 2013.

Síðdegis mánudaginn 8. júlí hringdi Gunnar í mig og sagðist hafa reynt að ná í Matthías en ekki tekist, hann þyrfti að fá endanlega útgáfu af ljóðinu sem hann ætti að flytja, hvort ég gæti aðstoðað sig við að ná í Matthías eða hvort ég gæti útvegað sér endanlega gerð ljóðsins. Beiðnin kom flatt upp á mig og sagði ég ekki vita hvað ég gæti gert, ekki væri alltaf auðvelt að ná í Matthías.

Þá var eins og rödd hvíslaði að mér og þar sem ég sat í gömlu skrifstofu föður míns rétti ég hendina aftur fyrir mig og dró út sérprentið góða, nýársgjöfina frá því fyrir 30 árum, en inn í litla heftið hafði ég lagt samanbrotna úrklippu úr Lesbókinni frá 27. ágúst 1983. Ég sagði Gunnari í símann að eftir 10 mínútur yrði ég hjá honum með ljóðið.

Gunnar (87 ára) flutti ljóðið glæsilega á Skálholtshátíðinni – hefur það nú verið flutt þrisvar sinnum til heiðurs dómkirkjunni fögru. Árið 1963 þegar Matthías orti ljóðið og las það á svölum ráðherrabústaðarins á Þingvöllum var hann 33 ára.