31.12.2013

Gjaldeyris­höftin víki án ESB-hlekkja

Leiðari á Evrópuvaktinni 31. desember 2013

Réttilega segir í forystugrein Morgunblaðsins þriðjudaginn 31. desember, gamlársdag, að aðeins einn forystumaður stjórnmálaflokks sem skrifar áramótahugleiðingu í blaðið, Guðmundur Steingrímsson frá Bjartri framtíð, minnist á viðræðurnar við ESB. Hann segir að flokkurinn vilji ljúka viðræðunum til að kosið verði um niðurstöðuna. Þetta er gömul lumma sem hafnað var á eftirminnilegan hátt í þingkosningunum 27. apríl 2013. Fastheldni í þessa skoðun er ekki til marks um að Björt framtíð búi yfir miklum skapandi krafti þegar kemur að mótun utanríkisstefnu þjóðarinnar.

Við áramót gera menn upp hið liðna og nýta mat sitt á því til að móta framtíðina. Hafi einhverri einni meginskoðun verið hafnað í þingkosningunum á árinu var það stefnan um aðild að ESB. Það ber vott um pólitíska þráhyggju að spóla áfram í sama fari og fyrir kosningarnar í umræðum um ESB-málið. Allir flokkar, nema kannski Björt framtíð, hafa lýst þeirri skoðun að viðræðunum við ESB verði ekki fram haldið án þess að þjóðin samþykki það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig stendur þetta mál núna.

Einn þeirra sem hefur barist fyrir ESB-aðild af staðfestu árum saman er Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins. Hann ræðir stöðuna gagnvart ESB í síðasta leiðara ársins og segir

aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið hafa lent í ógöngum vegna innbyrðis deilna í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og fyrir vikið hafi „áform um afnám gjaldeyrishafta“ einnig strandað, segir hann.

Ástæða er til að staldra við þessi orð. Er það svo að ekki sé unnt að afnema gjaldeyrishöftin nema með því að ganga í ESB? Svarið við þessari spurningu er: nei. Steingrímur J. Sigfússon leit á höftin sem nauðsynlega umgjörð um skattastefnu sína, þau væru einskonar átthagafjötrar sem hindruðu menn í að flýja skattastefnu hans. Össur Skarphéðinsson leit á höftin sem vogarstöng inn í ESB. Þegar hann var orðin rökþrota tók hann að hampa höftunum. Þau urðu síðasta gulrót hans í ESB-áróðrinum.

Ólafur Þ. Stephensen heldur enn dauðahaldi í gulrót Össurar. Hún verður ókræsilegri því lengur sem henni er veifað. Ritstjórinn segir að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafi með stöðvun ESB-viðræðnanna ýtt til „hliðar eina raunhæfa planinu sem hefur komið fram um upptöku nýs gjaldmiðils og afnám gjaldeyrishaftanna“. Ekkert hafi komið í staðinn.

Engu er líkara en ritstjóri Fréttablaðsins hafi hætt að fylgjast með framvindu mála við stjórnarskiptin. Hann átti sig ekki á að forystumenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætla ekki að nota gjaldeyrishöftin í annarlegum flokkspólitískum tilgangi eins og ESB-ríkisstjórnin gerði. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson hafa báðir látið orð falla um að gjaldeyrishöftin hverfi án þess að gengið verði í ESB. Þeir vilja ekki átthagafjötra heldur skynsamlega og sanngjarna skattastefnu.

Afnám gjaldeyrishaftanna hefur aldrei snúist um ESB-aðild heldur stjórn íslenskra efnahagsmála. Gjaldeyrishöftin verða að hverfa án þess að þjóðin verði fest í ESB-hlekki. Á rúmu hálfu ári hefur nýrri ríkisstjórn orðið meira ágengt við að skapa ný efnahagsleg skilyrði á Íslandi en ESB-ríkisstjórninni tókst á rúmum fjórum árum. Henni mun takast að losna við höftin án ESB-aðildar.