Laugardagur, 15. 12. 07.
Innsetning herra Péturs Bürchers í embætti Reykjavíkurbiskups í Dómkirkju Krists konungs, Landakoti, í dag var hátíðleg. Í prédikun sinni sagði hinn nýi biskup:
„Ég hef yfirgefið biskupsdæmið Lausanne, Genf og Fríborg í Sviss án þess að gleyma því, því að allt frá árinu 1952, þegar fjölskylda mín fluttist frá Oberwallis til Nyon skammt frá Genf, hefur það verið biskupsdæmi mitt. Þegar sjö ára gamall tók ég mig upp og nú er ég kominn til Reykjavíkur á Íslandi, til þessa lands elds og ísa; ísa sem eru andstæður þeirrar hjartahlýju og þess frábæra viðmóts sem ég hef hvarvetna mætt hér. Í dag er hjarta mitt fullt af gleði og friði. Ég svara kalli Benedikts páfa XVI. Vinir mínir báðir, svissnesku varðliðarnir, eru dásamlegt tákn um bönd fjölskyldu og kirkju. Með réttu segjum við: Biskupar koma og fara, en kirkjan varir og starf hinna skírðu heldur áfram, í einingu með hirðunum sem Guð sendir þeim."
Í pistli mínum í dag fer ég inn á slóðir, sem eru mér gamalkunnar, það er að ræða um öryggismál og reyna að skýra þau fyrir álitsgjöfum, sem forðast að ræða efni málsins, en leitast við að ala á pólitískri tortryggni eða tala einfaldlega af hrópandi þekkingarleysi.
Í þessari skýrslu minni kemur ekkert fram, sem ekki hefur verið rætt opinberlega áður. Af viðbrögðum álitsgjafanna mætti halda, að þeir komi af fjöllum eins og alvöru jólasveinar á þessum tíma árs.