Dagbók: júlí 1999
Laugardagur 31.7.1999
Við fórum síðdegis í Skálholt og hlustuðum á Jaap Schröder leika einleik á barokkfiðluna sína. Kirkjan var þéttsetin að vanda, en sumartónleikarnir í Skálholti hafa unnið sér fastan sess og traustan og stóran hóp áheyrenda..
Miðvikudagur 28.7.1999
Síðdegis skruppum við Rut í Reykholt og hlýddum þar um kvöldið á fróðlegan fyrirlestur Guðrúnar Sveinbjarnardóttur fornleifafræðings um rannsóknir í Reykholti. Eru þetta umfangsmestu fornleifarannsóknir, sem þar hafa farið fram. Aðstæður eru nú betri en áður eftir að íþróttahús og smíðahús við skólann hafa verið rifin. Rannsóknirnar hafa þegar leitt í ljós hluti, sem fornleifafræðingar hafa ekki séð annars staðar. Verður spennandi að fylgjast með framhaldinu en ekki er vafi á því að áhugi annarra þjóða manna á þessum rannsóknum á eftir að aukast og þær verða mikið aðdráttarafl í þeirri viðleitni að stofna til alþjóðlegs miðaldafræðaseturs í Reykholti. Snorrastofa hefur farið vel á stað og ímynd staðarins hefur breyst á miklu skemmri tíma en hefði mátt vænta. Fyrirlestrar þar draga að sér fjölda fólks og voru til dæmis hátt í 100 manns að hlýða á Guðrúnu þessa kvöldstund.
Föstudagur 17.7.1999
Fór um hádegisbilið til Þingvalla, þar sem ég átti fund með ungum hægri mönnum menningarmál svo sem að ofan er getið. Síðan hittumst við Gunnar Eyjólfsson, leikari og fyrrverandi skátahöfðingi, og fórum saman á alþjóðlega skátamótið við Úlfljótsvatn. Var gaman að ganga þar um og sjá, hvernig skátarnir höfðu búið um sig og nutu lífsins, þrátt fyrir mýbitið í veðurblíðunni. Ókum við um Hveragerði til baka og litum inn á nýopnaða sýningu 61 listmálara í listaskálanum, sem Einar Hákonarson reisti af miklum stórhug.
Fimmtudagur 15.7.1999
Við ráðuneytisfólk fórum fyrir hádegi í heimsókn í Vesturvör í Kópavogi, þar sem unnið er að því að koma ljósmyndasafni og munum Þjóðminjasafns Íslands fyrir í nýju geymsluhúsnæði. Má fullyrða, að aldrei hafi verið búið betur að þessum dýrgripum en gert er á þessum stað. Dregur nú óðfluga að því að hús safnsins við Suðurgötu tæmist og unnt verði að ráðast í löngu tímabærar framkvæmdir þar. Skrapp síðdegis í Bláa lónið, þar sem nýtt húsnæði var opnað við nýjan baðstað í lóninu. Hefur verið staðið að öllum framkvæmdum af miklum stórhug og skapaður ævintýraheimur í hrauninu.
Laugardagur 10.7.1999
Við Rut fórum um hádegisbilið í Skálholt og hlýddum þar á sumartónleikana. Hófst dagskráin með erindi um verk Jóns Leifs, sem Árni Heimir Ingólfsson flutti. Sagði hann frá rannsóknum sínum meðal annars varðandi dauða Lívar, dóttur Jóns, en eitt helsta verkið á fyrri tónleikunum var magnað Erfiljóð Jóns um Lív, tveir þættir þess af þremur voru frumfluttir af Hljómeyki. Eftirminnileg messa eftir Tryggva Baldvinsson var frumflutt á seinni tónleikunum.
Fimmtudagur 8.7.1999
Ný-endurkjörin Þingvallanefnd kom saman til síns fyrsta fundar en við sitjum þar áfram saman Guðni Ágústsson, Össur Skarphéðinsson og ég. Var einhugur um, að ég gegndi áfram formennsku í nefndinni.
Mánudagur 5.7.1999
Hitti síðdegis tvo þýska þingmenn, sem voru hér á landi. Þar áréttaði ég þá skoðun mína, að sú skipan á samstarfi, sem tekist hefði um Goethe Zentrum í Reykjavík, væri viðunandi og ástæðulaust væri að amast við ákvörðunum þýskra stjórnvalda í því efni.
Sunnudagur 4.7.1999
Fórum að Hvanneyri, þar sem 110 ára afmælis Bændaskólans var minnst með því að stofna landbúnaðarháskóla formlega en lög um hann gengu í gildi 1. júlí 1999. Skólinn heyrir undir landbúnaðarráðuneytið eins og skólinn á Hólum og garðyrkjuskólinn í Hveragerði. Nýju háskólalöginn, sem falla undir menntamálaráðuneytið, sköpuðu hins vegar þann ramma, sem er nauðsynlegur til að unnt sé að fara þá leið sem valin var við skipulag landbúnaðarháskólans. Þróunin annars staðar er á þann veg, að ríki hverfa frá því að fella yfirstjórn skóla undir önnur ráðuneyti en menntamálaráðuneytið. Athöfnin á Hvanneyri fór fram utan dyra og stóð frá 13.30 til rúmlega 17.00. Leiðin heim var greið þar til kom að Mógilsá en þaðan var samfelld röð og hæg umferð þar til kom að ljósunum að mörkum Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar.
Fimmtudagur 1.7.1999
Flutti ávarp í svæðisútvarp Suðurlands, sem var að hefja útsendingar í samvinnu Útvarps Suðurlands og Ríkisútvarpsins.