Dagbók: janúar 2005
Sunnudagur, 30. 01. 05.
Laugardagur, 29. 01. 05.
Föstudagur, 28. 01. 05.
Fimmtudagur, 27. 01. 05.
Flaug frá Egilsstöðum klukkan 09.25 og lenti í Reykjavík 10.30.
Klukkan 13.00 hófst fundur forstöðumanna stofnana á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að hótel Nordica með ræðu minni og stóð hann til rúmlega 17.00.
Miðvikudagur 26. 01. 05
Klukkan 12. 15 kom Evrópunefndin saman til sín 8. fundar.
Svaraði á þingi fyrirspurn frá Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingarinnar, um öryggislögreglu. Að þessu sinni gat þingfundur hafist án þess að stjórnandstaðan veittist að Halldóri Ásgrímssyni vegna andstöðu hans við Saddam Hussein. Nokkrir samfylkingarmenn tóku til máls vegna fyrirspurnarinnar, þar á meðal Ágúst Ólafur Ágústsson, sem var ómálefnalegur að vanda og heyrðist mér hann uppnefna mig Stóra-Björn, sem sannar enn hve barnalegur hann er í öllum málatilbúnaði sínum, blessaður drengurinn.
Flaug klukkan 16.00 til Egilsstaða en þar tóku þeir Guðmundur Skarphéðinsson og Stefán Friðrik Stefánsson á móti mér og óku mér í blíðskaparveðri til Norðfjarðar. Var ævintýralegt að sjá hinar gífurlegu framkvæmdir, sem eru hafnar við Reyðarfjörð vegna álversins.
Klukkan 20. 00 hófst fundur á Hótel Capitano undir stjórn Magna Kristjánssonar, hóteleiganda og bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, var fundurinn haldinn undir kjörorðinu: Með hækkandi sól og höfðu þar auk mín framsögu Halldór Blöndal og Gunnar I. Birgisson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Voru líflegar umræður að framsögræðum loknum.
Guðmundur ók okkur Gunnari síðan á hótel Hérað á Egilsstöðum og komum við þangað um miðnætti.
Þriðjudagur, 25. 01. 05.
Flutti lítið mál um breytingar á fésektarákvæðum almennra hegningarlaga á þingi, en fundur hófst þar klukkan 13.30 og enn á skætingi stjórnarandstöðunnar í garð Halldórs Ásgrímssonar vegna afstöðu hans til og ríkisstjórnarinnar til Saddams Husseins fyrir tveimur árum.
Á þinginu var einnig önnur umræða um breytingu á lagaákvæðum um gjafsókn. Þar flutti Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ræðu fyrir hönd minnihlutans og var hún að öðrum þræði í þeim barnalega skætingstón, sem hann hefur tileinkað sér á þingi og gerir hann að einum ómálefnalegasta þingmanninum.
Mánudagur 24. 01. 05
Laugardagur 22. 01. 05
Mánudagur, 17. 01. 05
Klukkan 11.00 vorum við Ingimundur komnir í Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi en þar tóku þau á móti okkur Sveinfríður Sigurpálsdóttir, Valbjörn Steingrímsson framkvæmdastjóri og Ómar Ragnarsson yfirlæknir og kynntu okkur starfsemi stofnunarinnar.
Klukkan 12.00 þáðum við hádegisverðarboð Bjarna Stefánssonar sýslumanns með Jónu Fanneyju Friðriksdóttur bæjarstjóra og fleiri gestum.
Klukkan 13.30 hlýddum við á kynningu Kristjáns Þorbjörnssonar yfirlögregluþjóns á umferðarannsóknum á vegum lögreglunnar, en rannsóknirnar byggjast á upplýsingum, sem lögreglumenn afla við störf sín.
Klukkan 14.00 var athöfn á sýsluskrifstofunni, þar sem ný endurgerð lögreglustöð var formlega tekin í notkun og lyftuhús við stjórnsýslubygginguna. Samgönguráðherra og þingmenn voru við athöfnina ásamt heimamönnum en embættismenn, sem boðið hafði verið, komust ekki vegna veðurs en Holtavörðuheiði var lokuð þá um morguninn en var opnuð að nýju um hádegisbil.
Klukkan 15.00 héldum við Ingimundur til Hvammstanga, þar sem við hittum sýslumann og yfirlögregluþjón að nýju og tókum húsnæði útibús embættis sýslumanns þar formlega í notkun. Síðan skoðuðum við bókasafnið og aðra starfsemi í því húsi, þar á meðal Forsvar, sem Karl Sigurgeirsson stjórnar.
Héldum var af stað til Reykjavíkur um klukkan 16.30 og fengum gott færi suður Holtavörðuheiði og var ég kominn heim rétt fyrir klukkan 20.00
Sunnudagur 16. 01. 05.
Hélt rétt fyrir klukkan 10.00 með Jón Geir Jónatanssyni, nýjum bílstjóra mínum frá áramótum, og Bjarna Benediktssyni alþingismanni norður á Sauðárkrók. Þangað komum við klukkan rúmlega 14.00 en klukkan 15.00 hófst fundur undir kjörorðinu Með hækkandi sól á Kaffi Króki undir stjórn Jóns Magnússonar og stóð hann til klukkan 17.00.
Þá ókum við að Hvammstanga og vorum komnir þangað rúmlega 18.30 en klukkan 19.30 hófst þar fundur Með hækkandi sól á Þinghús-bar undir stjórn Karls Sigurgeirssonar og stóð hann til tæplega 22.00.
Þeir Jón Geir og Bjarni héldu akandi suður til Reykjavíkur en ég fór með Ingimundi Sigfússyni að Þingeyrum, þar sem ég gisti í boði hans.
Fimmtudagur, 13. 01. 05.
Þriðjudagur, 11. 01. 05.
Mánudagur, 10. 01. 05.
Flaug norður á Akureyri klukkan 14.00.
Hitti Arnbjörgu Sveinsdóttur alþingismann og Guðmund Skarphéðinsson, skipuleggjanda fundaferðar okkar sjálfstæðismanna í Norðaustur kjördæminu, á flugvellinum og fórum við beint í Slippstöðina á Akureyri, þar sem við hittum Gunnar Ragnars stjórnarformann og Guðmund Túliníus framkvæmdastjóra. Fórum um fyrirtækið og kynnumst sérstaklega stórverkefni, sem Slippstöðin er að vinna vegna virkjunar við Kárahnjúka og aðrennslis að túrbínuhúsi Landsvirkjunar og að túrbínunum.
Ókum til Dalvíkur og héldum þar fund klukkan 17.30 undir fundarstjórn Sveinbjörns Steingrímssonar. Lauk fundinum rúmlega 19.00 og ókum við þá til Ólafsfjarðar, þar sem fundur hófst klukkan 20.00 undir fundarstjórn Gunnlaugs Magnússonar. Lauk honum rúmlega 22.00 og var klukkan orðin rúmlega 23.00, þegar við komum að KEA, þar sem ég gisti.
Sunnudagur, 09. 01. 05.
Laugardagur, 08. 01. 05.
Hélt klukkan 11.00 austur í Þorlákshöfn, þar sem við Kjartan Ólafsson alþingismaður vorum framsögumenn á fundi í Ráðhúskaffinu, sem hófst klukkan 12.00 og stóð til rúmlega 14.00 undir fundarstjórn Ólafs Áka Ragnarssonar. Síðan fékk ég tækifæri til að kynna mér framkvæmdir sveitarfélagsins og nybyggingu grunnskólans í fylgd forystumanna þess.
Fundurinn var haldinn sem hluti af fundaherferð þingflokks okkar sjálfstæðismanna undir kjörorðinu: Með hækkandi sól. Hófst herferðin klukkan 10.30 þennan sama morgun með fundi Davíðs Oddssonar í Valhöll, en hann gat ég ekki sótt vegna ferðarinnar til Þorlákshafnar.
Fórum klukkan 21.30 að álfabrennu við Goðaland í Fljótshlíð en hún hefur verið í meira en 100 ár á vegum Fljótshlíðinga. Var margmenni við brennuna í köldu, björtu og stilltu veðri.
Föstudagur, 07. 01. 05.
Fórum klukkan 16.00 í Salinn í Kópavogi, þar sem minningarsjóður Halldórs Hansen barnalæknis við Listaháskóla Íslands var formlega kynntur með tæplega 90 milljón króna höfuðstól.
Klukkan 20.00 fórum við í Borgarleikhúsið og sáum Híbýli vindanna eftir Böðvar Guðmundsson í leikgerð Bjarna Jónssonar.
Miðvikudagur, 05. 01. 05.
Þriðjudagur, 04. 01. 05.
Fyrsti fundur borgarstjórnar á nýju ári var haldinn frá klukkan 14.00 til 18.00.
Við sjálfstæðismenn fluttum þessa tillögu:
"Borgarstjórn Reykjavíkur fer fram á það við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar verði falið að gera úttekt á rekstri fjarskiptafyrirtækja Orkuveitu Reykjavíkur frá árinu 1998 þar sem jafnframt verði lagt mat á arðsemi þessara fjárfestinga."
R-listinn svaraði með þessari tillögu, sem hann vildi kalla breytingartillögu, en við töldum nýja tillögu og ég sagði ólögmæta:
"Borgarstjórn Reykjavíkuir felur borgarstjóra að láta gera á fjárfestingum fyrirtækja í opinberri eigu í fjarskiptafyrirtækjum frá árinu 1998 þar sem jafnframt verði leitast við að leggja mat á arðsemi þessara fjárfestinga."
Við sjálfstæðismenn kröfðumst þess af Stefáni Jóni Hafstein, sem sat í fyrsta sinn á forsetastóli í fjarveru Árna Þórs Sigurðssonar, að hann vísaði tillögu R-listans frá eða að minnsta kosti að greidd yrðu atkvæði um tillögu okkar. Hann hafnaði hvoru tveggja. Þá bókuðum við:
"Tillaga borgarfulltrúa R-listans er flutt til að draga athygli frá því hve illa hefur verið staðið að rekstri fjarskiptafyrirtækja á vegum Orkuveitu Reykjavíkur. Tillaga R-listans er óframkvæmanleg og felur borgarstjóra verkefni, sem hann hefur ekkert umboð til að sinna og er hún því í raun markleysa. Við mótmælum harðlega þeirri valdníðslu forseta að synja því að bera okkar lögmætu tillögu upp sérstaklega. Það er dapurt að horfa upp á það, að Stefán Jón Hafstein, forseti borgarstjórnar, skuli halda jafnilla á stjórn síns fyrsta fundar."