Dagbók: febrúar 2003

Föstudagur, 28. 02. 03 - 28.2.2003 0:00

Fór um kvöldmatarleytið  og var viðstaddur, þegar vöruhótel Einmskips  í Sundahöfn var opnað með formlegum hætti að viðstöddu miklu fjölmenni.

Fimmtudagur 27. 02. 03 - 27.2.2003 0:00

Flutti í hádeginu ræðu um rafræna kosningabaráttu á fundi Skýrslutæknifélags Íslands. Upphaflega var boðað, að Ingibjörg Sólrún yrði þar einnig ræðumaður en hún kom ekki heldur sendi Björgvin Sigurðsson varaþingmann í sinn stað.

 

Við Rut fórum um kvöldið á fyrrihluta sinfóníutónleika í Háskólabíói.

Laugardagur 22. 02. 03 - 22.2.2003 0:00

Var fyrir hádegi Í vikulokunum með Össuri Skarphéðinssyni undir stjórn Þorfinns Ómarssonar á rás 1.

Við Rut fórum uppúr hádeginu austur í Fljótshlíð og var það fyrsta ferð hennar þangað eftir að hún datt og braut sig. Fórum á þorrablót um kvöldið og skemmtum okkur vel.

Fimmtudagur, 20. 02. 03. - 20.2.2003 0:00

Á borgarstjórnarfundi síðdegis var rætt um skuldasvar borgarstjóra og er  meginefni ræðu minnar hér á síðunni. Á fundinum komst Þórólfur Árnason í mótsögn við sjálfan sig, þegar hann svaraði spurningum Kjartans Magnússonar um afskipti sín eða afskiptaleysi af fargjaldahækkun Strætó bs.

Sagt er frá þessu í Morgunblaðinu en í Fréttablaðinu er leitast við að gera hlut Þórólfs sem bestan á kostnað þeirra Kjartans og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Er augljóst af Fréttablaðinu, að þar hafa stjórnendur ákveðið að rétta hlut Þórólfs eins og frekast er kostur, þegar hann lendir í klandri á borgarstjórnarfundum vegna vanhugsaðra yfirlýsinga.  Er óvenjulegt að sjá þannig staðið að málum í íslensu dagblað og minnir aðeins á viðleitni gömlu flokksblaðanna til að gera hlut síns manns sem bestan, þegar um augljós axarsköft var að ræða.

Miðvikudagur, 19. 02. 03 - 19.2.2003 0:00

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hélt upp á 50 ára afmæli sitt með glæsibrag.

 

Fór um kvöldmatarleytið í Ísland í dag til að ræða þar við Þórólf Árnason borgarstjóra um skuldastöðu Reykjavíkurborgar. Í svarinu birtist ótvíræð viðurkenning á því, að  skuldir Reykvíkinga hafa vaxið um mörg hundruð prósent undir stjórn R-listans, sem hafði að meginstefnu árið 1994 að létta öllum skuldum af Reykjavíkurborg.

Þriðjudagur, 18. 02. 03 - 18.2.2003 0:00

Var í Íslandi í bítið með Össuri Skarphéðinssyni og ræddum við um niðurstöður skoðanakönnunar, sem sýndi meirhluta gegn ESB-aðild. Sérstaka athygli vakti, að Össur sagði það ráðast af afstöðu Sjálfstæðisflokksins, hvort Ísland gengi til viðræðna við ESB eða ekki. Hafði hann því enn breytt um skoðun á því, hvernig ætti að nálgast þetta viðfangsefni.

 

Fór síðdegis á fund Vísindanefndar Sjálfstæðisflokksins, þar sem lögð var lokahönd á tillögu til ályktunar á landsfundi flokksins.

Mánudagur, 17. 02. 03 - 17.2.2003 0:00

Var klukkan 17. 30 á fundi með Heimdellingum í Valhöll og ræddi um stjórnmálin heima og á alþjóðavettvangi. Var fundurinn vel sóttur og mikill áhugi hjá unga fólkinu á því að ræða málin.

Sunnudagur, 16. 02. 03 - 16.2.2003 0:00

Fór síðdegis í ráðhúsið og skoðaði sýningu á verkefnum grunnskóla í Reykjavík og fylgdist með afhendingu hvatningarverðlauna. Eins og ég hef áður kynnst er mikil gróska í skólastarfinu og er mikils virði, að opna aðgang að því, sem þar er að gerast með þessum hætti og veita þeim viðurkenningu, sem eru að vinna að góðum verkefnum. Til skamms tíma var það ekki talið af hinu góða að stofna til keppni með þessum hætti á milli skóla. Spurning er hvort aðeins eigi að veita viðurkenningu til skóla, hvort ekki eigi að verðlauna þá einstaklinga, sem hafa frumkvæði að nýjungum í skólastarfi.

Laugardagur,15. 02. 03 - 15.2.2003 0:00

Fór síðdegis á forystumannaráðstefnu SUS og hlustaði á fróðleg erindi um ýmis mál, sem eiga eftir að setja svip sinn á komandi kosningabaráttu.

Föstudagur, 14. 02. 03 - 14.2.2003 0:00

Fór klukkan 17.00 í Salinn í Kópavogi á aðalfund Bakkavarar. Er með ólíkindum, hve vel rekstur fyrirtækisins gengur.

Miðvikudagur, 12. 02. 03 - 12.2.2003 0:00

Fór klukkan 13.30 á viðskiptaþing og hlustaði meðal annars á ræðu Davíðs Oddssonar, þar sem hann boðaði lækkun skatta á einstaklinga. Var ræðu hans mjög vel tekið og greinilegt að menn vildu sýna honum stuðning með kröftugu og langvinnu lófataki.

Þriðjudagur, 11. 02. 03 - 11.2.2003 0:00

Var kallaður á þingflokksfund út af borgarráðsfundi í hádeginu, en forsætisráðherra greindi þingflokknum frá aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að efla atvinnu í landinu, einkum með stórframkvæmdum í vegargerð.

Mánudagur, 10. 02. 03 - 10.2.2003 0:00

Fór klukkan 11.00 í Kennaraháskóla Íslands, hitti Ólaf Proppé rektor og samstarfsmenn hans og fór síðan í kynnisferð um Hamar, nýtt hús skólans, sem hýsir bókasafn, menntasmiðju og fyrirlestrarsali.

Fimmtudagur, 06. 02. 03 - 6.2.2003 0:00

Fyrsti borgarstjórnarfundur með nýjum borgarstjóra var haldinn klukkan 14.00. Brást hann hinn versti við, þegar ég vakti athygli á því, að til undirbúnings nýju starfi sínu hefði hann rætt einslega við borgarfulltrúa R-listans en ekki haft samband við okkur sjálfstæðismenn. Sagði hann mig ekki ráða, hverjum hann byði heim til sín!

Miðvikudagur, 05. 02. 03. - 5.2.2003 0:00

Um kvöldið flutti ég ræðu á fundi hjá Kiwanis-klúbbnum Kötlu. Ræddi ég m.a. það, sem fram kom fyrr um daginn, þegar Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lagði fram sannanir um, að Saddam Hussein, einræðisherra í Írak, hefði skilyrði öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um bann við gjöreyðingarvopnum að engu.

Þriðjudagur, 04. 02. 03. - 4.2.2003 0:00

Í hádeginu var haldinn fyrsti borgarráðsfundurinn með nýjum borgarstjóra, Þórólfi Árnasyni.

Mánudagur, 03. 02. 03 - 2.2.2003 0:00

Um hádegisbilið hitti ég nemendur úr Menntaskólanum við Sund og Fjölbdrautaskólann í Breiðholti í alþingi og ræddi við þá um störf þingsins.

 

Um kvöldið ræddi ég um borgarmál í Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins í Valhöll, en hann er fjölsóttur að þessu sinni og nemendur mjög áhugasamir.

Laugardagur 01. 02. 03 - 1.2.2003 0:00

Borgarstjórnarflokkurinn fundaði  í Hótel Geysi fram til klukkan 15.00 og héldum síðan heim að nýju. Í hádegishléi hafði ég tök á að skoða Geysisstofu í fylgd Más Sigurðssonar, sem hefur byggt upp ferðaþjónustu þarna af miklum stórhug og er líklega hvergi betri aðstaða til að taka á móti stórum hópum gesta utan Reykjavíkur en einmitt þarna. Okkur hafði verið sagt, að þess mætti vænta, að Geysir gysi um klukkan 13.00 og fylgdi Már mér að honum um klukkan 12.45 og rétt fyrir 13.00 kom smágusa eða gos upp úr hvernum. Lætur hann frá sér heyra fjórum sinnum á sólarhring.

Þegar við vorum að leggja af stað heim, barst okkur fréttin um að geimskutlan Kólumbía hefði faris í háloftunum yfir Texas, þegar hún var í aðflugi til jarðar eftir 15 daga ferð í geimnum með sjö manna áhöfn, þar af einn Ísraela.