Dagbók: maí 2009

Sunnudagur, 31. 05. 09. - 31.5.2009

Fór í tæplega þriggja tíma göngu um miðborg London og fræddist um atburði þar í síðari heimsstyrjöldinni. Við lögðum af stað við Embankment-brautarstöðina og kvöddum leiðsögukonuna við Cabinet War Rooms - vegalengdin er ekki löng en farið var um Charing Cross, Trafalgar Square, Picadilly Circus, Jermyn Street og St. James Park. Margt fróðlegt bar fyrir augu og var sagt.

Dalai Lama kemur til Íslands í dag og ég les í vefmiðlum, að hvorki Jóhanna Sigurðardóttir né aðrir ráðherrar ætli að hitta hann. Hvað veldur? Ótti við kínverska sendiráðið?

Um árið hitti ég sem menntamálaráðherra sendimenn frá Tævan. Þetta olli svo miklu uppnámi hjá þáverandi sendiherra Kína, að hann stóð og flutti reiðilestur, ef hann ekki beinlínis öskraði af reiði, í anddyri menntamálaráðuneytisins. Ég leit sendiherrann aldrei sömu augum eftir þetta. Mér finnst, að kínverskir stjórnarerindrekar eigi frekar að hafa áhyggjur af framgöngu sinni, þegar ríkisstjórnir ákveða að taka á móti gestum á eigin forsendum, en ráðherrar, sem sýna sjálfsagða gestrisni.

Laugardagur, 30. 05. 09. - 30.5.2009

Í gær skoraði ég á Ólaf Arnarson að færa sönnur fyrir fullyrðingu sinni um orð, sem hann sagði mig hafa látið falla um Baug. Ólafur segir á vefsíðu sinni í dag:

„Síst vil ég bera á menn rangar sakir og því er mér ljúft að leiðrétta þau orð mín, að Davíð Oddsson og Björn Bjarnason hafi spáð Baugsmönnum „þungum dómum vegna mikilla afbrota.“ Þeir notuðu ekki þessi orð.“

Af þessu tilefni vil ég enn minna á, að Baugsmenn fóru með kæru vegna orða minna sem dómsmálaráðherra um Baug til mannréttindadómstólsins í Strassborg, eftir að íslenskir dómstólar höfnuðu málflutningi þeirra. Strassborgar-dómstóllinn vildi ekkert hafa með málið að gera.

Horfðum á Britain's got Talent í ITV 1sjónvarpsstöðinni, þar sem karla danshópurinn Diversity hlaut fyrstu verðlaun en söngkonan Susan Boyle, sem hlotið hefur heimsfrægð vegna þátttöku sinnar, varð í öðru sæti. Bretar völdu í símakosningu á milli 10 keppenda í úrslitakeppninni.

 

Föstudagur, 29. 05. 09. - 29.5.2009

Ólafur Arnarson sendi nýlega frá sér bókina Sofandi að feigðarósi, þar sem hann ritar um bankahrunið frá sjónarhorni þeirra, sem telja Davíð Oddsson bera höfuðábyrgð á því. Í pistli á pressan.is 29. maí gagnrýnir Ólafur Gylfa Magnússon, viðskiptaráðherra, fyrir ummæli ráðherrans um íslenska bankastjóra í samtali við The Daily Telegraph. Í pistli sínum segir Ólafur:

„Ekkert hefur komið fram, sem bendir til þess að stjórnendur íslensku bankanna hafi gerst sekir um viðlíka sakir og stjórnendur Enron voru dæmdir fyrir.

Það er ábyrgðarhluti hjá viðskiptaráðherra að bera slíkar sakir á stjórnendur íslensku bankanna. Ráðherrar hafa áður lýst skoðunum sínum á mönnum og málefnum með þessum hætti og spáð fyrir um örlög þeirra fyrir dómstólum.

Þekktustu dæmin af slíku í seinni tíð eru Davíð Oddsson og Björn Bjarnason. Þeir fóru báðir mikinn gegn Baugi og forsvarsmönnum þess félags. Spáðu þeir þungum dómum vegna mikilla afbrota. Ekki reyndust þeir vera miklir spámenn.

Vill Gylfi Magnússon, ráðherrann sem skipaður er á faglegum forsendum í ríkisstjórn Íslands, skipa sér í sveit með Davíð Oddssyni og Birni Bjarnasyni í þessum efnum?“

Ég hef ekki lesið viðtalið við Gylfa Magnússon en sé túlkun Ólafs á því í sama dúr og orð hans um mig í sambandi við Baugsmálið gef ég ekki mikið fyrir útlistanir Ólafs. Hvar spáði ég „þungum dómum vegna mikilla afbrota“ í Baugsmálinu? Ég skora á Ólaf að upplýsa mig og aðra um, hvar þennan spádóm minn er að finna.

Ég skrifaði umsögn um bók Ólafs á vefsíðuna amx.is og í sumarhefti tímaritsins Þjóðmála mun birtast ítarlegri umsögn eftir mig um hana. Höfuðgalli á bók Ólafs er, að hann getur hvergi ýtt Davíð Oddssyni úr huga sér. Hið sama gerist, þegar hann ræðir um Gylfa Magnússon - en nú bætir hann mér í óvinahópinn í anda Baugsmanna.

Fimmtudagur, 28. 05. 09. - 28.5.2009

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fluttu sameiginlega tillögu um Evrópumál á alþingi í dag. Ég skrifaði um hana pistil á nýja vefsíðu efrettir.is og má lesa hann hér.

Aðalfyrirsögn á forsíðu The Daily Mail í dag er French D-day surrender. Með þessari uppgjöf Frakka vegna D-dagsins, það er innrásar bandamanna í Normandí fyrir 65 árum, er vísað til þess, að frönsk stjórnvöld hafi gefist upp og sagt, að Elísabet Bretadrottning sé velkomin til minningarathafnar vegna D-dagsins í Normandí í næstu viku. Telur blaðið, að Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, hafi séð sitt óvænna og tekið u-beygju í afstöðu til drottningarinnar vegna þrýstings frá The Daily Mail auk þess sem blaðið þakkar sér, að Gordon Brown hafi ákveðið, að Bretar skyldu almennt sýna sig í Normandí á þessum degi, en Frökkum hafi verið mest í mun, að þeir gætu staðið þar hlið við hlið Sarkozy og Barack Obama, Bandaríkjaforseti,

Stephen Glover, dálkahöfundur The Daily Mail, vandar Sarkozy ekki kveðjurnar vegna þeirrar óvirðingar, sem Glover telur hann hafa sýnt drottningunni. Kallar hann Sarkozy smámenni með mikilmennskubrjálæði og fer auk þess háðuglegum orðum um frönsku forsetafrúna. Þá gefur blaðið til kynna að fjölskyldur forsetahjónanna í Ungverjalandi og Íalíu hafi verið hallar undir nasista á stríðsárunu.

Þjóðrembutónninn í skrifum blaðsins er eð nokkrum ólíkindum, ekki aðeins um þetta mál heldur fleiri.  Þannig segir blaðið fagnaðarefni, að Þjóðverjar segist ætla að vera heima hjá sér í sumarfríinu. Þá þurfi Bretar ekki að takast á við frekju þeirra á sólarströndum.  Bresk fjölskylda hafi fengið 4000 pund í skaðabætur, eftir að hafa stefnt ferðaskrifstofu fyrir dómara, þar sem aðeins hafi verið barnadagskrá á þýsku á grískri eyju, þar sem fjölskyldan var í fríi.

 

Miðvikudagur, 27. 05. 09. - 27.5.2009

David Cameron, formaður breska Íhaldsflokksins, boðar breytingar í starfi stjórnmálaflokka og stjórnmálum vegna umrótsins vegna uppljóstrana The Daily Telegraph um misnotkun þingmanna á starfskostnaðargreiðslum.

Hann segir að færa eigi vald til fólksins með tíðari þjóðaratkvæðagreiðslum. Afnema eigi þingrofsvald forsætisráðherrans og taka upp sama kerfi og í Noregi, þar sem þing verður að sitja allt kjörtímabilið. Hann vill halda í einmenningskjördæmi en huga að prófkjörum við val á frambjóðendum, hann hafnar hugmyndum um hlutfallskosningar. Þá vill hann fækka þingmönnum en þeir eru nú 646 í neðri málstofu breska þingsins og 737 í lávarðadeildinni.

Sir Richard Branson, stofnandi Virgin Atlantic flugfélagsins, vill einnig fækka þingmönnum. Hann segir þennan mikla fjölda þeirra hafa átt rétt á sér, þegar menn þurftu að ferðast um landið ríðandi eða í hestvögnum. Nú séu aðrir tímar og auðveldara að eiga samskipti við kjósendur. Með fækkun þingmanna mætti einnig hækka laun þeirra.

Cameron vill ekki aðeins auka áhrif Breta á breska þingið heldur einnig ESB-þingið, en kosið verður til þess í Bretlandi 4. júní og telja flestir að þátttaka í þeim kosningum, sem eru hlutfallskosningar, verði mjög dræm. Cameron sagði í ræðu 26. maí að hann vildi færa valdið:

„Frá ríkinu til borgaranna, frá ríkisstjórninni til þingsins, frá stjórnarráðinu til sveitarfélaganna. Frá Brussel til Bretlands, frá dómurum til fólksins, frá skrifræði til lýðræðis. Með valddreifingu, gegnsæi og ábyrgð verðum við að taka valdið af stjórnmála-elítunni og afhenda það hinum almenna borgara.“

 

 

Þriðjudagur, 26. 05. 09. - 26.5.2009

Það var svalara í London en ég vænti. Þegar flugvélin lenti og við gengum inn í Heathrow-flugstöðina var þar enginn farþegi á ferli. Flugfarþegum hefur fækkað mikið vegna bankahrunsins og flugfélög glíma við mikinn fjárhagsvanda.

British Airways hefur aldrei tapað jafnmiklu fé í sögu sinni. 401 m. punda á einu ári. Virgin Atlantic í meirihlutaeigu sir Richards Bransons hefur hins vegar tvöfaldað hagnað sinn í 68,4 m. punda fyrir skatta á einu ári til loka febrúar. Segja stjórnendur félagsins, að árið 2006 hafi þeir gripið til sparnaðaraðgerða, þar sem þeir töldu efnahagslægð í vændum.

Mánudagur, 25. 05. 09. - 25.5.2009

Fjölmenni var í Valhöll í dag, þar sem boðið var til kaffisamsætis til að minnast 80 ára afmælis Sjálfstæðisflokksins.

Á alþingi gaf Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skýrslu um efnahagsmál að ósk sjálfstæðismanna. Ljóst er af frásögnum fjölmiðla, að ríkisstjórnin er enn í sömu sporum og 1. febrúar, enn er talað á þann veg af hálfu ráðherra, að nauðsynlegt sé að gera eitthvað, án þess að fyrir liggi, hvað það er. Steingrímur J. Sigfússon talaði um „úrslitaslag“ þjóðarinnar og hann sagði einnig: „best að horfast í augu við það“ og mátti skilja þau orð hans á þann veg, að nú ætlaði hann  einmitt að fara að gera það, en halli á ríkissjóði hefði hækkað um 20 milljarði króna á þessu ári miðað við fyrri áætlun.

Gunnlaugur Júlíusson, langhlaupari og hagfræðingur, hafði forystu meðal þeirra, sem luku 48 klukkutíma hlaupi á Borgundarhólmi í gær. Það eitt er mikið afrek að taka sér þetta fyrir hendur (eða fætur) og óska ég Gunnlaugi innilega til hamingju með glæsilegan árangur

Sunnudagur, 24. 05. 09. - 24.5.2009

Qi gong dögunum lauk með hádegisverði eftir messu í Skálholtsdómkirkju, þar sem séra Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup, þjónaði söfnuðinum.

Eftir heimkomu skrifaði ég pistil á síðuna, en hvíldin í Skálholti fólst ekki síst í því að hlusta hvorki á fréttir né lesa blöðin.

Laugardagur, 23. 05. 09. - 23.5.2009

Qi gong dagar Aflsins í Skálholti héldu áfram í dag. Auk þess að stunda æfingar fórum við um staðinn undir fróðlegri leiðsögn Kristins Ólasonar, rektors Skálholtsskóla.

Aðbúnaður hér í Skálholti til að efna til daga eins og þessara er einstakur. Séra Axel Árnason, prestur á Stóra Núpi, var með okkur síðdegis og lýsti sinni sýn á qi gong.

Föstudagur, 22. 05. 09. - 22.5.2009

Nokkrir félagar í Aflinum, félagi qi gong iðkenda, héldu í Skálholt í dag en klukkan 16.00 hófust kyrrðar- og æfingadagar félagsins þar. Hófst dagskráin á því, að ég flutti kynningarerindi um sögu qi gong.

Qi gong dagarnir eru annars kynntir á þennan hátt á vefsíðu Skálholts, skalholt.is:

Miðvikudagur 20. maí 2009  
Sérvalin mynd

Um næstu helgi eru Qi gong dagar með kyrrðarívafi í Skálholti. Gunnar Eyjólfsson leikari leiðir þessa kyrrðardaga ásamt fólki sem honum er til aðstoðar. Dagskráin hefst síðdegis á föstudag og lýkur eftir hádegi á sunnudag. Uppbókað er á þessa daga.

Félagið Aflinn gaf út kynningarmyndband um qi gong árið 2002. Þar segir:

1. Qi gong er aðferð mannsins til öflunar, varðveislu og dreifingar orku um líkama sinn.
2. Qi er lífskraftur, hreyfiafl alheimsins. Maðurinn er kjarni, orka og vitund Vitundin stjórnar orkunni og orkan glæðir kjarnann.
3. Á íslensku er qi gong best lýst með orðinu ræktun. Iðkun qi gong á uppruna sinn austur í Kína og hefur þróast þar í aldanna rás.
4. Qi gong er þríþætt: hugleiðslu qi gong, bardaga- eða baráttu qi gong og heilsu qi gong. Undirstaðan er agaður líkamsburður – öguð öndun og öguð hugsun eða einbeitni.
5. Qi er afl. Qi gong er viðleitni einstaklinga til eigin orkuvæðingar. Iðkandinn gengur til móts við lífsorkuna, gengur henni skilyrðislaust á hönd og öðlast þegnrétt í ríki hennar.

 

Fimmtudagur, 21. 05. 09. - 21.5.2009

Kammersveit Reykjavíkur hélt 35 ára afmælistónleika í Langholtskirkju í kvöld undir merkjum listahátíðar í Reykjavík. Tónleikarnir báru heitið: Konur úr Austurvegi og vísaði það til þess, að verkin voru eftir konur frá Rússlandi, Kasakstan, Malasíu og Aserbaídsjan. Vladmir Stoupel stjórnaði.

Rut, kona mín, hefur leitt starf Kammersveitar Reykjavíkur í þessi 35 ár, eða frá því á listahátíð í Reykjavík árið 1974, þegar nokkrir hljóðfæraleikarar ákváðu að taka höndum saman og skapa sér þennan vettvang til að flytja list sína.

Í morgun var ég í girðingarvinnu í blíðunni í Fljótshlíðinni. Verður fróðlegt að sjá, hvort mér hefur tekist að gera það fjárhelt, sem ég var að bæta.

Miðvikudagur, 20. 05. 09. - 20.5.2009

Í kvöldfréttum RÚV var sagt frá gagnrýni framsóknarmanna á ríkisstjórnina fyrir að leggja ekki mál, sem varða hag heimila og fyrirtækja fram á þingi. Þegar við sjálfstæðismenn fluttum slíka gagnrýni á þingi fyrir kosningar og kröfðumst þess, að stjórnarskrárbreytingar vikju af dagskrá þingsins fyrir brýnni málum, áttu framsóknarmenn ekki nægilega sterk orð til að lýsa hneykslan sinni á málflutningi okkar. Batnandi mönnum er best að lifa.

Hið augljósa er, að ríkisstjórnin hefur ekki burði til að leggja fram tillögur um þau efni, sem framsóknarmenn vilja ræða á þingi núna. Stefnuumræðan 18. maí sýndi, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er enn að skoða og búa sig undir að gera áætlun um eitthvað, sem hugsanlega á að gera. Hið eina ráð, sem Jóhanna hefur, er að fara beint í Evrópusambandið en um það er ekki samstaða meðal stjórnarliða.

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir atvinnuleysi verða 2% meira en gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, þess vegna sé milljarða gat í henni. Óskar Bergsson, formaður borgarráðs, mótmælir því, að áætlun borgarinnar sé óraunhæf en segist undrandi á því, að Dagur B., nýkominn frá því að mynda ríkisstjórn, skuli vera svona svartsýnn. Hvort ekki sé ætlun stjórnarflokkanna að vinna bug á atvinnuleysinu?

 

Þriðjudagur, 19. 05. 09. - 19.5.2009

Í morgun fór ég í Álftamýrarskóla og hitti 10. bekkinga og kennara þeirra og sagði þeim frá grunnþáttum qi gong auk þess að taka nokkrar æfingar með þeim í góða veðrinu.

Klukkan 17.00 var efnt til aðalfundar Samtaka um vestræna samvinnu (SVS) í safnaðarheimili Seltjarnarneskirkju. Jón Hákon Magnússon, forstjóri, lét af formennsku SVS eftir margra ára farsælt starf og var ég kjörinn í hans stað. Ákveðið var að bæta orðunum „og alþjóðamál“ við heiti félagsins til árétta, að á vettvangi skyldi ræða alla þætti alþjóðamála en ekki aðeins þá, sem lúta sérstaklega að þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu (NATO).

 

Mánudagur, 18. 05. 09. - 18.5.2009

Þegar ég hlustaði á ræður þingmanna um stefnuræðu forsætisráðherra (stefnuræðan geymdi ekkert nýtt), kom mér á óvart, að heyra tóninn í ræðum fulltrúa Framsóknarflokksins, sem nýir eru á þingi, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Vigdísar Hauksdóttur og Guðmundar Steingrímssonar, í garð ríkisstjórnarinnar.  Var hann allur annar en heyra mátti í þingmönnum framsóknar fyrir kosningar, þegar þeir báru blak af ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna. Nú er stjórn þessara sömu flokka ekki til neinna stórverka og á leið „norður og niður“.

Hitt var ekki síður merkilegt að hlusta á Samfylkinguna tala um nauðsyn þess, að ekki mætti deila á þingi heldur ætti allt að gerast þar í sátt og samlyndi. Þetta er annar tónn en fyrir kosningar, þegar Jóhönnu Sigurðardóttur var mest um að valta yfir stjórnarandstöðuna. Þá var ekki einu sinni unnt að semja um dagskrá þingsins hvað þá annað.

Ég skil þetta sáttatal Samfylkingarinnar á þann veg, að hún voni, að með því takist henni að lokka sem flesta þingmenn til að greiða atkvæði með tillögu Össurar Skarphéðinssonar um aðildarviðræður við Evrópusambandið.  Er það aðeins enn einn leikurinn í tilraun Samfylkingarinnar til að blekkja þjóðina inn í sambandið. Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, leyfði sér að gefa til kynna í ræðu sinni, að skipta mætti fljótlega um gjaldmiðil með því að ganga í ESB. Vilji menn skipta um gjaldmiðil á skömmum tíma, ber að gera það einhliða.

 

Sunnudagur, 17. 05. 09. - 17.5.2009

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna til að átta mig á því, sem fyrir ríkisstjórninni vakir í Evrópumálum. Þar færi ég rök að því, að bæði vinstri-grænir og Samfylking hafi leynt kjósendur áformum sínum fyrir kosningar. Þá sé hraða málsins að rekja til krafna frá Brussel, ef Svíar eigi að koma að því að hafa forystu um að koma aðildarviðræðum við Ísland í farveg.

Ég skil ekki, hvernig Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ætlar að halda á þessu máli, ef hann lætur eins og einhver þjóð hafi óskað eftir viðræðum um aðild að Evrópusambandinu, án þess að ríkisstjórn landsins hafi ákveðið að sækja um aðild.

Þegar sagt er, að Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, hafi sótt um aðild í minnihlutastjórn, án þess að allur flokkur hennar styddi umsóknina, er í raun sagt, að ríkisstjórn Noregs hafi staðið á bakvið umsóknina. Látið er í veðri vaka, að staðan sé hin sama hér en þó bætt við, að ríkisstjórnin hafi ekki ákveðið að sækja um aðild!

Hin illa ígrundaða umsókn Noregs átti ríkan þátt í því, að þjóðin felldi aðildarsamning í atkvæðagreiðslu. Finnst Samfylkingunni þetta til eftirbreytni? Kosið verður til norska stórþingsins í september. Enginn væntir breytinga á stefnu Noregs gagnvart ESB.

 

Laugardagur, 16. 05. 09. - 16.5.2009

Glæsilegt hjá Jóhönnu Guðrúnu að ná öðru sætinu í Evróvisjón-keppninni - til hamingju! Norðmenn sigruðu með yfirburðum. Tvær þjóðir í norðvesturhluta Evrópu, utan Evrópusambandsins, í fyrstu efstu sætunum. Azerbajdsan í suðausturhluta álfunnar, einnig utan ESB, í þriðja sæti.

Grassprettan er svo mikil í garðblettinum mínum hér í Fljótshlíðinni, að ég ákvað að slá í dag, enda hafði ég endurnýjað rafgeymi sláttutraktorsins. Veðurblíðan er einstök.

Á leiðinni austur í sveitir hlustaði ég með slitrum á þátt í útvarpinu um málþing í Stykkishólmi um menningarsamninga ríkis og sveitarfélaga. Fyrsti samningurinn var gerður í tíð minni sem menntamálaráðherra milli ráðuneytisins og Austurlands. Hann skilaði svo góðum árangri, að aðrir landshlutar hafa fetað í sömu fótspor. Var ánægjulegt að heyra, hve allir í þættinum voru jákvæðir í garð þessarar tilhögunar á samstarfi ríkis og sveitarfélaga, auk þess sem skilningur á gildi menningarstarfsemi fyrir mannlíf um land allt hefur aukist. 

Hinn 15. júlí 2001 sagði ég hér á síðunni:

„Í störfum mínum sem menntamálaráðherra hef ég tekið þátt í mörgum skemmtilegum verkefnum með Austfirðingum og kynnst því, að þeir eru tilbúnir til að fara inn á nýjar brautir sé það nauðsynlegt til að ná betri árangri en ella eins og nýgerður menningarsamningur 16 sveitarfélaga við menntamálaráðuneytið sýnir.“

Hér í Fljótshlíðinni eru tækifæri enn ónotuð á þessu sviði. Njáluferðir og safn tengt Njálu á Hvolsvelli er mikilvægur grunnur. Hér má einnig leggja rækt við arfleifð Fjölnismanna, en séra Tómas Sæmundsson gaf Fjölni út frá Breiðabólstað. Þá eru hér einstæðar jarðfræðiminjar í byggð og nágrenni hennar.

Þá heyri ég einnig, að auglýstur er UT-dagur, en ég á góðar minningar um upphaf hans, þegar honum var hrundið af stað í Menntaskólanum í Kópavogi í febrúar 1999 eða fyrir rétt rúmum tíu árum en hér má lesa ræðu mína á fyrsta UT-deginum. 

Föstudagur, 15. 05. 09. - 15.5.2009

Veðurblíðan var einstök í Fljótshlíðinni í morgun, logn, sól og hiti. Hefur hlýnað og lægt og má næstum heyra grasið gróa.  Nágrannar mínir líta eftir ánum, en þær hafa enn ekki borið. Uppi til fjalla eru tvær kindur af bústofni mínum. Tókst ekki að ná þeim til byggða í vetur, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og eltingarleik.

Á leiðinni til borgarinnar mátti greina umferð, sem benti til þess, að ferðamönnum væri að fjölga.

Ég notaði síðdegið til að búa í haginn fyrir sumarstörfin og útvegaði mér tæki, sem nýtast til sveitastarfa.

Í kvöld sá ég síðustu sýningu Þjóðleikhússins á Hart í bak eftir Jökul Jakobsson, þar sem Gunnar Eyjólfsson leikur skipstjórann. Uppselt hefur verið á allar sýningar og hafa þær orðið mun fleiri en ætlað var í upphafi. Sýningunni var ákaflega vel tekið í kvöld og hylltu leikhúsgestir leikara með því að rísa á fætur og klappa þeim lof í lófa. Hrifningin var ekki síst mikil, þegar Gunnari var fagnað af áhorfendum.

 

Fimmtudagur, 14.05.09. - 14.5.2009

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, svipti hulu af tillögu sinni að ályktun alþingis um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Tillagan og rökstuðningur með henni er á þann veg, að ástæða er til að efast um, að þar hafi þeir komið að, sem eiga að gæta vandaðrar meðferðar mála á alþingi.

Að þessu leyti er tillagan í ætt við vaðal Samfylkingarinnar um Evrópusambandið. Tillagan er að hinu leytinu til marks um, að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna, fórnar öllum málefnum fyrir það eitt að sitja í ríkisstjórn. Hann sagðist „að sjálfsögðu“ ætla að greiða tillögunni atkvæði.

Hið furðulega er, að svo virðist, sem ríkisstjórnin ætli að fela sérfræðingum án pólitísks umboðs að ræða við Evrópusambandið, þeir skili niðurstöðu, og hún verði lögð fyrir þjóðina, án þess að ríkisstjórnin taki afstöðu til hennar. Hver mun setja stafi sína á niðurstöðuna gagnvart Evrópusambandinu? Á sá, sem það gerir, ekki að hafa tryggt sér umboð meirihluta alþingis til stuðnings við niðurstöðuna? Á kannski enginn að flytja tillögu um niðurstöðuna á þingi?

Vinnubrögðin samkvæmt greinargerð með stuttaralegri tillögu Össurar eru í hróplegri andstöðu við hina miklu hagsmuni, sem eru í húfi fyrir Íslendinga. Þessi óvönduðu vinnubrögð eru í raun öflugasti stuðningur við þá tilhögun, sem samþykkt var á landsfundi sjálfstæðismanna: Að stjórnmálaflokkarnir komi sér saman um skilyrði fyrir aðild, þau verði sett í umsóknarskjal og það skjal síðan borið undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Þar með yrðu ríkisstjórn og viðmælendum við ESB fyrir Íslands hönd veitt nauðsynlegt umboð til að hagsmuna þjóðarinnar sé gætt með samþykki hennar.

 

Miðvikudagur, 13. 05. 09. - 13.5.2009

Með ólíkindum er að heyra því lýst yfir af fræðimanni, sem vill væntanlega láta taka sig alvarlega, að fyrir Íslendinga sé tímabært  að „að haga sér eins og fullorðið fólk“ og ganga í Evrópusambandið. Yfirlætið í þessum orðum leynir sér ekki, enda kvartaði Steingrímur J. Sigfússon undan því í sjónvarpsumræðum sunnudaginn 26. apríl, að elíta háskólakennara og fjölmiðlamanna talaði niður til þeirra, sem hefðu efasemdir um ESB-aðild.

Ummælin féllu í Speglinum á RÚV en þar hafa stjórnendur tekið sér fyrir hendur að halda ESB-aðildinni að hlustendum í sama tóni og fram kom í hinum tilvitnuðu orðum. Þessi viðmælandi átti það erindi meðal annars í þáttinn, að gera lítið úr því, að 30 ár tæki Íslendinga að greiða niður skuldir ríkisins á þann veg, að félli að Maastricht-skilyrðum. Mátti helst skilja viðmælanda Spegilsins,  að skilyrðið gilti ekki í reynd auk þess sem þessu mætti haga á ýmsan hátt í þjóðhagsspá,  Hún mótaðist af viðhorfum þeirra, sem gerðu hana.

Hitt er síðan sérstakt íhugunarefni, að Steingrímur J. hefur gleypt sjónarmið ESB-elítunnar til að geta setið áfram í ríkisstjórn og veitt Össuri Skarphéðinssyni opið umboð til að semja við Evrópusambandið.

Þriðjudagur 12. 05. 09. - 12.5.2009

Í dag birti fjármálaráðuneytið skýrslu um þjóðarbúskapinn, sem sýnir, að skuldir ríkissjóðs eru svo miklar, að ekki sé þess að vænta, að Ísland geti tekið upp evru í samræmi við skilyrði Evrópusambandsins fyrr en árið 2039.

Ég hef hvað eftir annað vakið máls á því, að ekki eigi að útiloka einhliða upptöku evru eða annars gjaldmiðils. Byggist þessi skoðun á mati á stofnsáttmála Evrópusambandsins og EES-samningnum. Hagfræðingar hafa lagst á sömu sveif en einnig á móti. Eindregnir ESB-aðildarsinnar mega ekki heyra á þetta minnst og kalla á Percy Westerlund, sendiherra, og aðra stórsnillinga ESB sér til bjargar.

Nýlega birtist grein þriggja MBA nemenda í Háskólanum í Reykjavík, sem sögðust skrifa fyrir hönd 55 MBA nema við skólann. Útiloka þeir ekki einhliða upptöku evru. Einn þessara nemenda, Jan Triebel, læknir, ritar nýja grein um málið í Morgunblaðið í dag og lýkur henni með þessum orðum:

„Ekki er til nein töfralausn, hið gamla virði íslenskrar krónu verður ekki endurheimt í bráð. Aðild að ESB væri alls ekki útilokuð með því að taka upp evru nú þegar. Það er kreppa út um allan heim og verið að auka peningamagn innan evrusvæðisins, sem mun leiða til verðbólgu á næstu árum. Einnig eru ýmis vandamál innan ESB, sem ógna stöðugleika kerfisins. Fullkomið öryggi er ekki hægt að fá. Nauðsynlegt er að skoða möguleikana vel með það í huga að tíminn er naumur, en samt þarf að taka ákvarðanir með langtímamarkmiðum. Til þess þarf kjark og ábyrgðartilfinningu. Það ber að forðast að draga kraft úr fólkinu með því að bjóða fram skattahækkun og launalækkun. Ég skora á nýkjörna ríkisstjórn Íslands að taka stefnu að trúverðugri leið að upptöku evru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og í sátt við ESB. Ísland hefur ekki efni á því að pólitísk sértrú eða flokks- og valdahagsmunir ráði ferðinni. Ísland hefur alla möguleika til þess að snúa dæminu við og byggja aftur upp blómstrandi efnahags- og velferðakerfi með hvetjandi en ekki letjandi aðgerðum fyrir almenning. Höldum okkur við efnislega umræðu og tökum ákvörðun með hag íslenskrar þjóðar að leiðarljósi.“

 

Ég fagna þessari grein og tel hana til marks um, að gefi menn sér tíma til að fara yfir stöðu íslenskra efnahagsmála, sjái þeir, að þetta sé leið, sem skoða á til þrautar, áður en stofnað er til frekari ófriðar vegna deilna um aðild að ESB.




Mánudagur, 11. 05. 09. - 11.5.2009

Fréttir af því, að ríkisstjórnin ætli að hittast á Akureyri á morgun og halda síðan blaðamannafund og ráðherrar hafi í dag hitt forstöðumenn ríkisstofnana, eru ótrúlega innan tómar og lítils virði. Þær eru hins vegar í samræmi við efnisrýrt viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í Kastljósi kvöldsins.

Þegar ég heyri Jóhönnu Sigurðardóttur tala um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar, dettur mér í hug, að hún átti sig ekki á efni málsins. Umræður um, að finna eigi sérleiðir til að innkalla kröfur vegna greiðsluaðlögunar, benda til sambærilegrar vanþekkingar hjá fleirum. Spurning er, hvernig dómskerfið bregst við auknu álagi vegna greiðsluaðlögunar eða bankahrunsins almennt. Ég vék að því síðasta haust, að vafalaust þyrfti að auka umfang dómskerfisins vegna bankahrunsins.

Einfalda leiðin til að taka á málum skuldara er, að ríkisstjórn eða alþingi setji ríkisbönkum og Íbúðarlánasjóði reglur um innheimtu og afskriftir. Ofurtrú Jóhönnu Sigurðardóttur á greiðsluaðlögun hefur beint úrræðum í þágu skuldara inn á of flóknar brautir.

Lýðræði og ábyrgð er sagt leiðarljós ríkisstjórnarinnar við úrlausn vanda vegna bankahrunsins. Að fela embættimanni í stöðu viðskiptaráðherra stjórn efnahagsmála er í hróplegri andstöðu við lýðræði og ábyrgð. Ráðherra, sem ekki er þingmaður, verður ekki kallaður til ábyrgðar af kjósendum. Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér embætti viðskiptaráðherra, af því að hann taldi sig ekki ná endurkjöri á þing, sæti hann í embættinu - aðferðin tókst hjá honum og hann er meira að segja orðinn þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

Sunnudagur, 10. 05. 09. - 10.5.2009

Nýrri ríkisstjórn fylgja góðar óskir við erfiðar aðstæður.

Ákveðið hefur verið að flytja efnahagsmál frá Jóhönnu Sigurðardóttur til Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra. Fiskveiðistjórnarkerfið verður sett í uppnám með ríkisvæðingu. Utanríkisráðherra leggur fram tillögu um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Lækka á laun útvarpsstjóra og forstjóra Íbúðarlánasjóðs.

Tveir utanþingsmenn sitja áfram í ríkisstjórn til að auðvelda fækkun í stjórninni nái áform um sameiningu ráðuneyta.

Engin skýr svör eru í sáttmála stjórnarinnar um fjármál ríkisins eða endurreisn bankakerfsins. Evrópustefnan nær ekki fram nema með liðsinni stjórnarandstöðunnar.

Ríkisstjórnin stendur því miður á veikum málefnalegum grunni. Óvíst er um burði hennar til að taka á brýnum vanda þjóðarinnar.

Laugardagur, 09. 05. 09. - 9.5.2009

Var klukkan 16.00 í Kópavogi, þegar Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri, og Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, opnuðu Tónlistarsafn Íslands.

Mbl.is birti dagbókarfærslu mína í gær. Á mbl.is geta lesendur látið ljós sitt skína um það, sem þar birtist. Hér vitna ég í þrjá:

 Sigurgeir Bergsson:

„Það er ekkert að marka hvað þessi maður segir opinberlega. Hann er meðlimur í Bilderberg og þeirra hagur er ekki okkar hagur!“

Þór Jóhannesson, 34 ára bókmenntafræðingur:

„Gaman að heyra gamla fúla þverhausinn tala um falleinkunnir þar sem líklega eru fáir ráðamenn í þessu landi sem hafa fengið eins hörmulega falleinkunn í gegnum söguna og Björn Bjarnason. Honum tókst ekki bara að innleiða fasisma í dómsmálaráðuneytið og koma hér upp einhverri mannúðarverstu innflytjendastefnu sem hugsast getur - heldur tókst honum sem menntamálaráðherra að slíta úr sambandi hverfaskólaregluna og gera nemendum sem ekki fæddust með silfurskeið í rassgatinu erfitt fyrir að komast í framhaldsskóla í hverfinu sínu.

En það sem þessum beiska ættarlauk auðvaldsættarinnar tókst aldrei var að verða æðsti maður Sjálfstæðisflokksins og brást þar með vonum ættfeðra sinna og fær hann því ekki bara falleinkunn sem pólitíkus frá fólkinu í landinu heldur einnig frá auðvaldsættinni sem hann brást.

---

Og yfir í annað en tengt mál, hvenær ætar mbl.is að hætta að éta allan skítinn upp eftir Birni Bjarnasyni sem hann skilur eftir sig á bloggsíðu sinn. Maðurinn er marklaus fýlupúki sem ekkert mark er á takandi. Óþolandi hvað þessi miðill er sjúklega ástfanginn af þessum auðvaldssinna og íhaldsdurgi.“

 Ágúst Már Garðarsson, var í framboði fyrir Borgarahreyfinguna:

„Alveg hörmulegt að einn helsti miðill landsins  [mbl.is] lepji enn bullið úr þessum ruglaða manni sem ekki vill láta af völdum og alltaf hefur rétt fyrir sér, hvað tala Hannes og hann um þessa daga á Holtinu, veruleikafirrtu mennirnir sem leiddu þjóðina í glötun.

Björn hlífðu þjóðinni við ruglinu í þér, um daginn voru þau svo lengi að setja saman ríkisstjórn og þá var enn vika í að þau næðu að eyða jafnlöngum tíma og það tók þig að setja saman allar þær ríkisstjórnir sem þú hefur setið í meðan þú komst þessu landi á hausinn og studdir stríð í fjarlægum löndum ásamt því að taka virkann þátt í að semja hryðjuverkalög sem nú bitna á þinni eigin þjóð.  

Þú ert á mörkum þess að vera föðurlandssvikari og ættir að líta þér nær.“

Mér finnst merkilegt að sjá, hvað það fer í taugarnar á þessum gagnrýnu lesendum, að þar skuli birt efni, sem vekur þessar sterku og málefnalegu kenndir hjá þeim.

Föstudagur, 08. 05. 09. - 8.5.2009

Nálæga hálft ár er liðið, án þess að sýnilegt sé, að stjórnvöld hafi náð nokkrum tökum á fjármálastjórn ríkisins. Vandinn hverfur hins vegar ekki með því að gera ekki neitt, hann þarf að leysa og með þeim mun harkalegri hætti síðari hluta ársins. Það verður ekki gert með niðurskurði í venjulegum skilningi þess orðs heldur kerfisbreytingu á einhverjum sviðum. Trúir því einhver að Samfylking og vinstri-grænir búi yfir þreki til að takast á við þetta erfiða viðfangsefni á viðunandi hátt?

Á meðan alþingi sat, var átökum við fjárlagahallann ýtt til hliðar með því að tala um breytingu á stjórnarskránni. Eftir kosningar er þeim ýtt til hliðar með því að tala um aðild að Evrópusambandinu. Hvorugt kemur til móts við skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða nýskipaðrar peningastefnunefndar í Seðlabanka Íslands, sem gefur nú út stefnuskjal við vaxtaákvarðanir sínar og setur stjórnvöldum fyrir við efnahagsstjórnina.

Sagt er, að með nýjum stjórnarsáttmála verði lagður grunnur að efnahagsráðuneyti. Verður það undir forsætisráðherra? Ef ekki, er um vantraust á Jóhönnu Sigurðardóttur að ræða og hæfni hennar til að sinna þessu meginhlutverki forsætisráðherra.

Fimmtudagur, 07. 05. 09. - 7.5.2009

 

Í dag klukkan 16.00 var önnur úthlutun á rannsóknarstyrkjum Bjarna Benediktssonar, það er úr rannsóknarstyrktarsjóði, sem var stofnaður á síðasta ári, 30. apríl, á 100 ára afmæli föður míns til að styrkja rannsóknir á sviði lögfræði og sagnfræði.

Páll Hreinsson, hæstaréttardómari, er formaður úthlutunarnefndar á sviði lögfræði og í ár hlutu styrki: Helgi Áss Grétarsson 1 m. kr. til að rannsaka stjórn fiskveiða og stjórnskipun Íslands, Gunnar Þ. Pétursson 500 þús. kr. til að rannsaka undanþágur frá grundvallarfrelsum – aðferðafræðileg áskorun og Ólafur I. Hannesson 500 þús. til að rannsaka samstarf Hæstaréttar, EFTA-dómstólsins og Evrópudómstólsins.

Anna Agnarsdóttir, prófessor, er formaður úthlutunarnefndar á sviði sagnfræði og í ár hlutu styrki: Hannes Hólmsteinn Gissurarson 1 m. kr. til að rannsaka íslenska kommúnista 1918 til 1998. Sigurður Gylfi Magnússon  500 þús. kr. til að rannsaka vald bernsku, sagn- og hagfræðileg greining. Gunnar Þór Bjarnason 500 þús. kr. til að rannsaka heimastjórn, fullveldi og umheiminn.

Margrét Vala Kristjánsdóttir og Ragnhildur Helgadóttir sem hlutu styrk í fyrra fluttu erindi um rannsóknarefni sitt:  Inntak og beiting 15. gr. stjórnarskrárinnar.

Skafti Ingimarsson sagnfræðingur greindi frá rannsókn sinni fyrir styrk frá því í fyrra á kommúnistahreyfingunni á Íslandi.  

Athöfnin var í Borgarskjalasafni og undir lok hennar kynnti Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður, skjalasafn Bjarna Benediktssonar, sem þar er varðveitt og hefur nú verið skráð að verulegu leyti. Er ætlunin að opna það fyrir fræðimönnum á næstu vikum. Fengu gestir að kynna sér hluta safnsins og frágang þess.

Sjóðurinn er í vörslu Rannís og starfsmenn þar sjá um umsýslu hans gagnvart umsækjendum og við úthlutun styrkja.

Miðvikudagur, 06. 05. 09. - 6.5.2009

Pendúll skoðana hefur nú enn á ný sveiflast í þá átt, að fara eigi til viðræðna við Evrópusambandið um aðild. Hins vegar eru hópar þeirra, sem taka afstöðu með og á móti aðild jafnstórir. Þetta kemur fram í könnun á vegum RÚV, sem sagt var frá í dag 61% af þeim, sem svara, vilja aðildarviðræður, 40% taka ekki afstöðu í könnuninni, sem unnin er af Capacent.

Aðildarsinnar fagna og telja stefnuna markaða. Jóhanna Sigurðardóttir segir, að tillaga um aðildarviðræður verði lögð fyrir alþingi. Steingrímur J. Sigfússon segir, að ekki sé samið um nýja stjórn, fyrr en samið hafi verið um allt. Hann telur, að samningar takist. Þýðir það, að vinstri-grænir hafi samþykkt aðildarviðræður?

Okkur er sagt frá því, að Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, hafi sent 28 orða umsóknarbréf til Evrópusambandsins snemma á tíunda áratugnum fyrir hönd minnihlutastjórnar Verkamannaflokksins að höfðu samráði við utanríkismálanefnd stórþingsins. Látið er í veðri vaka, að eitthvað svipað kunni að gerast hér, enda hafi ríkisstjórn norska Verkamannaflokksins ekki verið einhuga um umsóknina!

Norðmenn felldu samninginn, sem hafði þennan aðdraganda, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir hafa tvisvar fellt samning um aðild að ESB. Núverandi ríkisstjórn Noregs hefur aðild ekki á dagskrá sinni.

Eftir flumbruganginn í stjórnarháttum og stjórnsýslu undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur eftir 1. febrúar 2009 er allra veðra von í Evrópumálum og líklega vílar Samfylkingin ekki fyrir sér að fara á svig við starfshætti, sem hingað til hefur verið talið, að ættu ráða við meðferð utanríkismála af þessari stærðargráðu. Raunar hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagt frá því í Morgunblaðinu 24. apríl, að hún hafi á bakvið ríkisstjórn og utanríkismálanefnd látið vinna að aðild Íslands að ESB í utanríkisráðuneytinu.

Þriðjudagur, 05. 05. 09. - 5.5.2009

Morgunfundur okkar í Noors Slott við Sigtuna í Svíþjóð hófst á því að rætt var um þróun öryggis- og varnarmála á Norðurlöndunum og þar á meðal sjónarmiðin, sem fram koma í Stoltenberg-skýrslunni frá 9. febrúar 2009.

Icelandair-vélin lagði af stað frá Arlanda á réttum tíma eða jafnvel rétt fyrir hann og við vorum þrjá tíma á leiðinni yfir hafið og heim - var lent rétt rúmlega 15.00.

Hafi Ísland þótt illa sett við upphaf fjármálakrísunnar og gert hafi verið mikið úr því, hve undarlega íslenskir bankar höfðu hagað sér, er litið til þess frá öðrum sjónarhóli núna en í upphafi októbers 2008. Vandinn er ekki minni í nágrannalöndunum og bankar þar eiga í meira basli en menn hafa áður kynnst og hið evrópska kerfi er að taka breytingum, þegar ríki verða innhverfari við lausn eigin vanda.

Sé rétt, sem sagt er í fréttum, að stjórnarflokkarnir hafi komið sér saman um að leggja fyrir alþingi tillögu til ályktunar um aðild að Evrópusambandinu, án þess að ríkisstjórnin taki efnislega afstöðu til málsins, er um einstæða uppgjöf í sjálfstæðismáli þjóðarinnar að ræða. Uppgjöf, sem sýnir, að ríkisstjórnin hefur ekki burði til að gæta hagsmuna þjóðarinnar út á við. Uppgjöf, sem fellur að málstað þeirra, sem segja, að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið, af því að þeir hafi ekki burði til að stjórna sínum eigin málum.

Mánudagur, 04. 05. 09. - 4.5.2009

Flaug klukkan 07.50 til Arlanda við Stokkhólm og ók þaðan í áttina að Sigtuna en í gömlum endurgerðum herragarði Noors Slott, var ráðstefna um norræn öryggismál, þar sem ég flutti erindi um Norðurskautið og pólitíska strauma umhverfis það.

Augljóst er að mikil gerjun er í öryggismálum ekki síður en á öðrum sviðum eftir bankahrunið, auk þess sem breytingar í næsta nágrenni Norðurlanda kalla á umræður um nýjar áherslur og viðbrögð.

Þegar rætt er við norræna nágranna okkar og aðra, veldur mér undrun, hvaða viðhorf þeir hafa um þróun mála á Íslandi í átt að Evrópusambandinu. Með vísan til greinar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Morgunblaðinu 24. apríl um undirbúning aðildarumsóknar í utanríkisráðherratíð hennar og ummæla sérfróðra manna utan lands um, að Ísland hafi verið að þreifa fyrir sér með umsóknartexta gagnvart aðildarlöndum ESB, mætti ætla, að utanríkisráðuneytið hafi unnið að málinu á bakvið tjöldin, án þess að ríkisstjórn, svo að ekki sé minnst á utanríkismálanefnd alþingis, hafi verið upplýst um málið.

Spyrja má, hvort vinstri-grænir viti í raun nákvæmlega, hvernig þetta mál er statt. ESB-blöðin nálgast málið á sinn sérkennilega hátt og leggja ekki neitt út á annan veg en þann, sem þjónar málstað aðildar. Á ruv.is má í dag lesa enn eina furðufréttina um það, sem Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, hefur um málið að segja. Hvers vegna er hann að blanda sér í íslensk innanríkismál á þann veg, að hvetja til umsóknar þvert á íslenska stjórnskipun og stjórnarhætti? Af hverju einbeitir hann sér ekki að því að koma Króatíu í ESB? Til þess hefur hann umboð en ekki gagnvart Íslandi.

Sunnudagur, 03. 05. 09. - 3.5.2009

Ég skrifaði í dag pistil á síðuna mína um nýja varðskipið Þór og hve ómaklega mér finnst DV og Egill Helgason fjalla um þau mál, sem ég nefni til sögunnar.

Þegar ég horfði á fréttaauka sjónvarpsins í kvöld, þar sem tekið var til við að ræða um spönsku veikina og hörmungar af hennar völdum í sömu andrá og rætt var um flensuna, sem er að breiðast um heiminn frá Mexíkó, velti ég fyrir mér, hvort þessi skírskotun til spænsku veikinnar fyrir 91 ári eigi í raun nokkurn rétt á sér, hvort ekki sé verið að hræða fólk um of með henni miðað við allar framfarir, sem orðið hafa í læknisfræði á þeim tíma, sem liðinn er frá 1918.

Umræður um hættu af fuglaflensunni leiddu til margvíslegra aðgerða hér á landi og annars staðar, sem nýtast vel, þegar hugað er að viðbúnaði vegna þess faraldurs, sem kann að breiðast af þunga um heiminn núna. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknir hafa samið viðbragðsáætlanir og lagt hefur verið fram fé til að auðvelda framkvæmd þeirra.

 

Laugardagur, 02. 05. 09. - 2.5.2009

Í húskarlahorni Fréttablaðsins í dag víkur stigur@frettabladid.is að þeim orðum mínum hér í gær, að hægferð sé á myndun ríkisstjórnarinnar. Nefnir hann það mér til ámælis vegna þessara orða, að áður hafi tekið langan tíma að mynda ríkisstjórnir, meira að segja þrjár, þar sem ég hef setið.

Fyrir kosningarnar 25. apríl voru málsvarar vinstri-grænna og Samfylkingar með það á vörunum, að fengju flokkar þeirra meirihluta myndu þeir að sjálfsögðu sitja áfram í ríkisstjórn og snúa sér tafarlaust að því að leysa vanda heimila og fyrirtækja. Síðan hafa fleiri en ég beðið þess í ofvæni, að staðið yrði við þessi fyrirheit. Hvað gerist þá? Þingmönnum flokkanna er skipað að fara í þagnarbindinni og hópar skipaðir til að ræða um aðild að ESB og breytingar á stjórnarráðinu!!

Að bera stöðu þjóðarbúsins saman við það, sem var 1995, 1999 eða 2003 er út í hött, þótt stigur@frettabladid telji það hægferð stjórnarflokkanna nú til framdráttar. Einnig ber það í besta falli vankunnáttu á stjórnmálasögunni vitni að halda, að á þessum árum hafi verið haldið á málum við stjórnarmyndun eins og nú er gert. Dagafjöldi segir ekkert um efni þessa máls, þótt svo sé látið í Fréttablaðinu.

Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur er gerður út af örkinni í dag með þau boð, að stjórnarsáttmáli sé í smíðum og verkið gangi bara vel.

 

 

Föstudagur, 01. 05. 09. - 1.5.2009

 

Hægferðin við myndun ríkisstjórnar er ekki til marks um vönduð vinnubrögð heldur vandræðaganginn í samskiptum stjórnarflokkanna. Æ fleiri vekja máls á því, að þessi aðferð við stjórnarmyndun endurspegli firringu forystumanna stjórnarflokkanna tveggja.

Hjá okkur, sem stóðum í ræðustól alþingis, og kröfðumst þess, að stjórnarskrármáli yrði ýtt til hliðar á dagskrá þingsins og tekið til við að ræða um hag heimila og fyrirtækja, vekur það ekki hina minnstu undrun, að formenn stjórnarflokkanna skuli vilja ræða annað en hin raunverulegu og brýnu úrlausnarefni.

Í dag er því fagnað, að fimm ár eru liðin síðan aðildarríkjum Evrópusambandsins fjölgaði um 10. Þótt mat manna sé almennt á þann veg, að stækkunin hafi gengið vel, er jafnframt tekið fram, að ólíklegt sé, að almennur áhugi sé á fjölgun aðildarríkja næstu ár. Fréttir í þessum dúr komast ekki að hjá ESB-blöðum eða ESB-álitsgjöfum fjölmiðlanna. ESB-elítan vill ekki birta aðrar fréttir um ESB en menn bíði þar óþreyjufullir eftir að taka á móti umsókn frá Íslandi.