16.5.2009

Laugardagur, 16. 05. 09.

Glæsilegt hjá Jóhönnu Guðrúnu að ná öðru sætinu í Evróvisjón-keppninni - til hamingju! Norðmenn sigruðu með yfirburðum. Tvær þjóðir í norðvesturhluta Evrópu, utan Evrópusambandsins, í fyrstu efstu sætunum. Azerbajdsan í suðausturhluta álfunnar, einnig utan ESB, í þriðja sæti.

Grassprettan er svo mikil í garðblettinum mínum hér í Fljótshlíðinni, að ég ákvað að slá í dag, enda hafði ég endurnýjað rafgeymi sláttutraktorsins. Veðurblíðan er einstök.

Á leiðinni austur í sveitir hlustaði ég með slitrum á þátt í útvarpinu um málþing í Stykkishólmi um menningarsamninga ríkis og sveitarfélaga. Fyrsti samningurinn var gerður í tíð minni sem menntamálaráðherra milli ráðuneytisins og Austurlands. Hann skilaði svo góðum árangri, að aðrir landshlutar hafa fetað í sömu fótspor. Var ánægjulegt að heyra, hve allir í þættinum voru jákvæðir í garð þessarar tilhögunar á samstarfi ríkis og sveitarfélaga, auk þess sem skilningur á gildi menningarstarfsemi fyrir mannlíf um land allt hefur aukist. 

Hinn 15. júlí 2001 sagði ég hér á síðunni:

„Í störfum mínum sem menntamálaráðherra hef ég tekið þátt í mörgum skemmtilegum verkefnum með Austfirðingum og kynnst því, að þeir eru tilbúnir til að fara inn á nýjar brautir sé það nauðsynlegt til að ná betri árangri en ella eins og nýgerður menningarsamningur 16 sveitarfélaga við menntamálaráðuneytið sýnir.“

Hér í Fljótshlíðinni eru tækifæri enn ónotuð á þessu sviði. Njáluferðir og safn tengt Njálu á Hvolsvelli er mikilvægur grunnur. Hér má einnig leggja rækt við arfleifð Fjölnismanna, en séra Tómas Sæmundsson gaf Fjölni út frá Breiðabólstað. Þá eru hér einstæðar jarðfræðiminjar í byggð og nágrenni hennar.

Þá heyri ég einnig, að auglýstur er UT-dagur, en ég á góðar minningar um upphaf hans, þegar honum var hrundið af stað í Menntaskólanum í Kópavogi í febrúar 1999 eða fyrir rétt rúmum tíu árum en hér má lesa ræðu mína á fyrsta UT-deginum.