Dagbók: apríl 2003

Miðvikudagur 30. 04. 03. - 30.4.2003 0:00

Fór klukkan 08.15 á kosningafund í Reykjavíkurakademíunni og ræddi um vísindi og starf vísindamanna. Klukkan 14.00 var fundur í borgarstjórn og fyrri umræða um ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2002.

Mánudagur, 28. 04. 03. - 28.4.2003 0:00

Fór klukkan 11.00 á kynningarfund á vinnustað á vegum Styrktarfélags vangefinna að Borgarholti 6.

 

Var um kvöldið í útvarpsþætti á rás 2 með fulltrúum framboðslistanna í Reykjavík norður, var hann frá 20.10 til 22.00. 

Sunnudagur, 27. 04. 03. - 27.4.2003 0:00

Fór í útvarpsþátt klukkan 13.00 á rás 1 og ræddi um friðargæslu og hugmyndir um íslenskan her undir stjórn Jóns Ólafssonar heimspekings og Ævars Kjartanssonar útvarpsmanns. Auk mín var Össur Skarphéðinsson í þættinum.

 

Klukkan 14.50 tók ég þátt í sjónvarpsumræðum fulltrúa framboðslistanna í Reykjavík norður.

Föstudagur, 25. 04. 03. - 25.4.2003 0:00

Var síðdegis á bókaþingi í Iðnó og tók þátt í pallborðsumræðum með fulltrúum annarra stjórnmálaflokka.

Fimmtudagur, 24. 04. 03, sumardagurinn fyrsti. - 24.4.2003 0:00

Fór í skátamessu í Hallgrímskirkju klukkan 11.00. Síðdegis tók ég þátt í grillhátíð á hverfaskrisftofunni við Lönguhlíð og kom fjöldi manns þangað til að njóta veitinganna.

Miðvikudagur, 23. 04. 03. - 23.4.2003 0:00

Fór síðdegis í hið nýja hús Orkuveitu Reykjavíkur, þegar það var formlega opnað við há´tíðlega athöfn. Síðan fór ég í hverfisskrifstofu sjálfstæðismanna í Glæsibæ, þar sem hóf var fyrir umdæmafulltrúa. Loks fór ég á Hressó um kvöldið, þar sem SUS og Heimdallur voru með hóf fyrir ungt fólk.

Þriðjudagur, 22. 04. 03. - 22.4.2003 0:00

Komum aftur til Reykjavíkur eftir gott frí að Kvoslæk í óvenjulega góðu veðri.

Sunnudagur, 20. 04. 03, páskadagur. - 20.4.2003 0:00

Fórum í messu í Odda klukkan 11.00 hjá sr. Sigurði Jónssyni.

Miðvikudagur, 16. 04. 03. - 16.4.2003 0:00

Héldum síðdegis austur að Kvoslæk til að vera þar yfir páskana.

Þriðjudagur, 15. 04. 03. - 15.4.2003 0:00

Fór klukkan 18.00 og var við opnun hverfisskrifstofu Nes- og Melahverfis við Hjarðarhaga.

Fór klukkan 20.00 og var við opnun hverfisskrifstofu Grafarvogs í húsnæði sjálfstæðisfélagsins þar við Hverafold.

Mánudagur, 14. 04. 03. - 14.4.2003 0:00

Fór klukkan 16.00 í viðtal í þætti Hallgríms Thorsteinssonar á útvarpi Sögu. Ræddum um átökin í Írak.

Laugardagur, 12. 04. 03. - 12.4.2003 0:00

Alþjóðlegi qi gong dagurinn. Við héldum hann hátíðlegan með því að hittast til æfinga klukkan 10.00 í sólríku góðviðri að Kjarvalsstöðum ásamt með iðkendum taj chi. Vorum þar við æfingar í tvo tíma úti og inni.

Fór klukkan 13.00 í Öskjuhlíðina, þar sem var páskaeggjaleit á vegum hverfafélaganna í Hlíða- og Holtahverfi og Nes- og Melahverfi.

Var klukkan 15.00 við opnun kosningaskrifstofu Heimdallar, Vesturbæjar-, Miðbæjar- og Norðurmýrarhverfis í gamla húsi Hressó við Austurstræti.

Sótti aðalfund Árvakurs hf. klukkan 17.00.

Föstudagur, 11. 04. 03. - 11.4.2003 0:00

Tók þátt í kynningardagskrá fyrir laganema á vegum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll síðdegis. Ræddi stuttlega um sögu og stefnu flokksins.

Fimmtudagur, 10. 04. 03 - 10.4.2003 0:00

Sótti fyrir hádegi fulltrúaráðsfund Sambands ísl. sveitarfélaga að Hótel Sögu. Fór um klukkan 20.00 í kosningaskrifstofu sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi, þegar hún var opnuð við Lönguhlíð.

Miðvikudagur, 09. 04. 03 - 9.4.2003 0:00

Fór í útvarpsumræður á dægurmálaútvarpinu hjá Lísu Páls með Þórunni Sigurðardóttur stjórnanda Listahátíðar og Hávari Sigurjónssyni blaðamanni um menningarhús. Varð undrandi á því, hve umræðan átti að verða á gömlum nótum, því að hún hófst eins og ekkert hefði verið rætt um málið í þau fjögur ár, sem það hefur verið á dagskrá.

 

Klukkan 16.20 var ég í Þjóðmenningarhúsinu þegar Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, afhenti Davíð Oddssyni stjórnarskrána frá 1874.

Föstudagur, 04. 04. 03. - 4.4.2003 0:00

Fór síðdegis á svonefndan samráðsfund Landsvirkjunar, þar sem gerð er grein fyrir starfi fyrirtækisins á næstliðnu ári og rætt um framtíðarverkefni. Fundurinn var haldinn á Grand hotel frá 14.00 til 17.00.

Fimmtudagur, 03. 04. 03. - 3.4.2003 0:00

Fundur í borgarstjórn Reykjavíkur frá klukkan 14.00 til 21,30. Er með ólíkikindum hvað þessir fundir dragast á langinn en umræðurnar eru ekki alltaf markvissar, því að form fundanna veldur því, að menn hlaupa gjjarnan úr einu í annað. Mér þótti merkilegast á þessum fundi, að í ljós kom, að ekki hefði verið staðið við lagaskyldur um gerð stefnu og framkvæmdaáætlunar fyrir kjörtímabilið í barnaverndarmálum, en allt er komið í óefni í þeim málum við núverandi skipulag. Á hinn bóginn hef ég ekki orðið var við að neinn fjölmiðlill veki athygli á þessu sleifarlagi af hálfu R-listans í þessum mikilvæga málaflokki.