Dagbók: desember 2008
Miðvikudagur, 31.12. 08.
Hjá mér er ekki fastur liður á gamlársdag að horfa á Kryddsíldina umræðuþátt Stöðvar 2 með forystumönnum stjórnmálaflokkanna. Heiti þáttarins þykir mér best, með því er haldið í þýðingarvillu í Morgunblaðinu á sínum tíma. Þar var heiti á umræðuþætti í danska útvarpinu, sjónvarpi eða hljóðvarpi, Krydsild, íslenskað sem kryddsíld, þegar þær Margrét Danadrottning og Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, voru þar saman - ef ég man rétt.
Með danska orðinu krydsild er því lýst, þegar skotið er úr tveimur gagnstæðum áttum, og segja má, að það hafi gerst á hótel Borg í dag, þegar Kryddsíldin var í loftinu, því að þá var bæði „skothríð“ innan dyra undir stjórn Sigmundar Ernis Rúnarssonar og utan undir stjórn einhverra annarra, sem segjast að vísu hafa verið stjórnlausir, en tókst að stöðva útsendinguna og eyðileggja auk þess tæki Stöðvar 2 og valda milljónaskemmdum að sögn Sigmundar Ernis.
Lögregla varð að beita piparúða til að rýma hótel Borg. Þá var sjúkralið kallað á vettvang til að hlú að þeim, sem urðu fyrir úðanum eða meiddust vegna mótmælanna.
Allt hefur þetta síðan dregið skrýtinn dilk á eftir sér eins og sjá má hér og á síðu Egils Helgasonar, sem á sínum tíma stjórnaði Kryddsíldinni, en finnst ekki mikið til hennar koma.
Má segja, að árið endi með dálitlum fjölmiðlastæl, þótt vissulega hefði hann mátt vera friðsamlegri og vingjarnlegri. Hvað er áunnið með því að trufla útsendingu umræðuþáttar? Er ekki ávallt verið að hvetja til þess, að rætt sé saman og leitast við að skýra málin?
Lögregla lýsir atburðum þannig:
Lesa meiraÞriðjudagur, 30. 12. 08.
Í dag kom í ljós, að enginn hafði sótt um embætti hins sérstaka saksóknara, svo að ég ákvað að framlengja umsóknarfrest til 12. janúar.
Að tillögu hæstaréttar skipaði ég Viðar Má Matthíasson varadómara í hæstarétti í stað Páls Hreinssonar, sem er formaður í rannsóknarnefnd á bankahruninu.
Umboðsmaður alþingis birti í dag álit sitt vegna kvörtunar í tilefni af skipun Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara, sá hann „tiltekna annmarka“ á skipuninni.
Umboðsmaður gerði þá athugasemd við ákvörðun mína um vanhæfi mitt, að ég hefði tekið hana of seint í ferlinu. Ég tók hana, þegar málið var komið af umsagnarstigi og var lagt fyrir ráðherra til ákvörðunar. Ég hef almennt þann hátt á að koma ekki að ákvörðunum um skipanir í embætti, fyrr en á þessu stigi, og brá út ekki af þeirri reglu í þetta skipti.
Mánudagur, 29. 12. 08.
Fór síðdegis í Reykjanesbæ og sat þar fund með lögreglumönnum á Suðurnesjum, þar sem kynnt var nýtt skipurit lögregluliðsins og staðfest sú breyting, sem ákveðin hefur verið að tillögu þeirra Ólafs K. Ólafsson, sýslumanns Snæfellinga, Jóns Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, og Halldórs Halldórssonar, fjármálastjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en þeir tóku þrír að sér hinn 1. október sl. að leiða liðið inn í nýtt skipulag.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sem tekur við lögreglustjóraembættinu hinn 1. janúar af Ólafi K. Ólafssyni, kynnti nýja skipuritið og svaraði spurningum lögreglumanna.
Að loknum lögreglumannafundinum hittum við fulltrúa sveitarstjórna á Suðurnesjum og var nýja skipulagið kynnt fyrir þeim og spurningum þeirra svarað.
Alþingi samþykkti breytingu á tollalögum, sem skyldi yfirstjórn tollamála frá lögreglustjóranum og setti undir tollstjóra, en nú er landið allt eitt tollumdæmi.
Með þessum ágætu og málefnalegu fundum í Reykjanesbæ lauk endurskipulagningu á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem ég kynnti í mars sl., þegar fyrir lá, að enn einu sinni stefndi í mikinn fjárhagsvanda hjá embættinu á þessu ári.
Miðað við allan hávaðann, sem var frá mars fram til loka september vegna tillagna minna um breytingar á embættinu, er fagnaðarefni, að lokaskrefið er stigið í góðri sátt og án þess, að menn séu í uppnámi.
Sunnudagur, 28. 12. 08.
Í Hönnunarsafninu við Garðatorg í Garðabæ er forvitnileg sýning á íslenskum jólaskeiðum.
Áhugamenn um lestur á netinu hafa tekið eftir því, að Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur skrifað greinar á vefsíðuna www.amx.is og www.evropunefnd.is , en það er umræðuvettvangur sjálfstæðismanna um Evrópumál í aðdraganda landsfundarins 29. janúar.
Viðbrögðin við greinum Styrmis hafa verið mikil en ómálefnalegust á vefsíðu Egils Helgasonar, þar sem nafnleysingjar vaða uppi og ausa úr skálum reiði eða fávisku. Er með nokkrum ólíkindum, að Egill skuli sætta sig við, að þessi ósköp birtist á síðu undir nafni hans.
Mbl.is tilkynnti, að frá og með næstu áramótum yrðu menn að birta þar blogg-athugasemdir undir nafni.
Það hlýtur aðeins að vera spurning um tíma, hvenær verður látið reyna á ábyrgð þeirra, sem eru farvegir fyrir árásir nafnleysingja á nafngreinda menn á netinu.
Í dag ritaði ég pistil um efnahagsbrot hér á síðuna.
Laugardagur, 27. 12. 08.
Páll Magnússon, formannsframbjóðandi í Framsóknarflokknum, heldur áfram að ráðast á Samfylkinguna og saka hana um skort á stefnufestu í Evrópumálum. Hann gerir grín að Kristrúnu Heimisdóttur, aðstoðarmanni utanríkisráðherra, og Ágústi Ólafi Ágústssyni, varformanni Samfylkingarinnar, fyrir að koma fram á völlinn og segja, að víst hafi Samfylkingin mótað sér stefnu í Evrópumálum, þótt Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segi annað, en hann situr í þeirri nefnd flokksins, sem á að móta þessa stefnu.
22. febrúar 2003 sagði ég frá því hér á síðunni, að í aðdraganda þingkosninga þá um vorið hefði ég rætt við Össur Skarphéðinsson um niðurstöður í skoðanakönnun á vegum Stöðvar 2, sem sýndi, að meirihluti væri andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB). Það hefði komið mér á óvart, hve Össur gerði í raun lítið úr Evrópustefnu Samfylkingarinnar. Var hann þeirrar skoðunar, að ekkert þýddi að ræða ESB-aðild nema Sjálfstæðisflokkurinn hefði þar forystu. Þetta hefði verið annar tónn en áður hjá Össuri og taldi ég líklegast, að einhverjir ímyndarsérfræðingar hefðu sagt Össuri og Samfylkingunni, að til einskis væri að setja ESB-aðild á oddinn í kosningabaráttunni. Ekki væri aðeins, að Össur talaði á annan veg um ESB og Ísland en hann hefði gert. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, hefði einnig blásið málið út af borðinu í setningarræðu sinni á flokksþingi framsóknarmanna föstudaginn 21. febrúar, 2003.
Nú fimm árum síðar virðast forystumenn í Samfylkingu og Framsóknarflokki enn vera komnir í hár saman vegna Evrópumála og enn bíða þeir eftir því, hvað Sjálfstæðisflokkurinn segir. Páll Magnússon segir. að hafi Framsóknarflokkurinn verið „hækja“ Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn sé Samfylkingin „skækja“ Sjálfstæðsflokksins í núverandi ríkisstjórn.
Þetta orðbragð Páls er líklega til marks um nýja tíma í stjórnmálum. Ég tel það ekki til neinna bóta og ekki auðvelda neinum að gera upp hug sinn.
Föstudagur, 26. 12. 08.
Á andriki.is stendur hinn 25. desember: Ef Ísland á ekki heima með evrópuþjóðum innan Evrópusambandsins að þínu mati hvar á Ísland þá heima í alþjóðasamfélaginu ef litið er til efnahagslegra, menningarlegra, pólitískra og stjórnskipulegra þátta ? |
- Spurt á fundi einnar af Evrópunefndum Sjálfstæðisflokksins 22. desember 2008. |
Spurningunni hér að ofan var beint til Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem var einn af gestum fundarins í Valhöll. Vefþjóðviljinn hefur svör Björns ekki á takteinum enda er það spurningin sjálf sem er klassík og mikilvægt sýnishorn um hugarheim forræðishyggjunnar. Hún skýrir svo vel þá nauðhyggju og trú á miðstýringu sem einkennir marga ESB-sinna.“
Ég svaraði á þann veg, að ég teldi Ísland ekki einangrað eins og málum væi nú komið. Við erum þátttakendur í alþjóðasamfélaginu á grundvelli fjölmargra alþjóðasamninga og þar á meðal við Evrópusambandið um viðskiptafrelsi og landamærafrelsi.
Styrmir Gunnarsson ritar grein á vefsíðuna www.evropunefnd.is og ræðir það hugsanleg friðkaup sjálfstæðismanna við Samfylkinguna um Evrópumálin. Styrmir segir:
„Í þeim fróðlegu umræðum, sem nú fara fram á vettvangi Sjálfstæðisflokksins um málefni Íslands og Evrópusambandsins hefur það sjónarmið komið fram, að þar sé á ferðinni friðþæging (appeasement) gagnvart Samfylkingunni til þess að koma í veg fyrir stjórnarslit. Með þeirri orðanotkun er raunverulega spurt, hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé á leið til Munchen en nú í haust voru liðin 70 ár frá því að Neville Chamberlain sneri sigri hrósandi heim til Bretlands frá Munchen með pappírsblað, sem þeir höfðu sett nafn sitt á, hann og Adolf Hitler og Chamberlain taldi að mundi tryggja frið í heiminum um okkar daga.“
Egill Helgason tók kipp, þegar hann las þetta eftir Styrmi og segir:
„Björn Bjarnason hefur skrifað, oftar en einu sinni að mig minnir, að umræðu um málefni ljúki sjálfkrafa þegar annar aðilinn fer að líkja hinum við Hitler eða nasista.
Skyldi þetta líka eiga við Styrmi Gunnarsson þegar hann líkir hugsanlegum aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið við samningana í München 1938?“
Fimmtudagur, 25. 12. 08.
Á sínum tíma kannaði ég að hvatningu föður míns, hvort ekki væri rétt, að Jón Vigfússon, Bauka-Jón, væri sá í hópi forfeðra okkar, sem síðast hefði orðið biskup. Það reyndist svo. Í nýrri bók Jóns Þ. Þór. sagnfræðings, Bauka-Jón - saga frá sautjándu öld er haft eftir Oddi F. Helgasyni, ættfræðingi, að skráðir afkomendur Jóns og Guðríðar Þórðardóttur, konu hans, lífs og liðnir, séu liðlega 130.000 og þar af segir Jón Þ. Þór, að um 30.000 séu nú á lífi.
Jón Þ. Þór hefur ekki miklar heimildir um Jón að styðjast við en honum tekst að gera efni sínu góð skil með vísan til þess litla, sem til er um Bauka-Jón, og flétta það inn í aldarfarslýsingu og lýsingu á þeim breytingum, sem urðu á stjórn Danaveldis, þegar einveldi konungs og arfríkið kom til sögunnar árið 1661. Aðallinn missti vald sitt til að setja konungsefni skilyrði og nýr valdahópur embættismanna kom til sögunnar. Bauka-Jón hlaut upphefð sína og embætti frá þeim hópi, sem vildi einnig storka fulltrúum gamla kerfisins á Íslandi. Skýrt dæmi um það er, að konungur gerði Jón Vigfússon að biskupi á Hólum - en Jón var ekki prestlærður. Var þetta svar konungs og embættismanna hans við því, að Jón lét af sýslumannsembætti á Mýrum og í Borgarfirði vegna ásakana um að hafa stundað launverslun með tóbak auk þess að hafa móðgað embættismann konungs á þingi á Þingvöllum.
Af bókinni má ráða, að Bauka-Jón hafi verið virkur þátttakandi í einskonar uppreisn að ofan gegn ríkjandi kerfi, þar sem menn handgengir konungi gripu tækifæri á miklu breytingaskeiði til að umbylta stjórnarháttum, sem staðið höfðu um aldir. Byltingin tókst hins vegar ekki nema að hluta og bæði í Danmörku og á Íslandi át hún að nokkru leyti börnin sín. Jón Vigfússon andaðist á Hólum árið 1690 rétt í þann mund, sem hann var dæmdur frá biskupsembætti og eignum sínum á alþingi. Hæstiréttur hnekkti þeim dómi, þar sem ekki væri unnt að veitast að eignum hans látnum eða láta verk hans bitna á ekkju hans og börnum.
Sumir töldu Bauka-Jón göldróttan. Er það tímanna tákn, að orð Jóns Þ. Þór um galdra á sautjándu öld eigi erindi inn í þjóðmálaumræðu líðandi stundar, þegar Eva Hauksdóttir, eigandi Nornabúðarinnar, efnir til svartagaldurs á túninu fyrir framan stjórnarráðshúsið. Jón Þ. Þór segir: „Hvítagaldur var bannaður með lögum og lágu þungar refsingar við því að fara með hann, þótt ekki væru menn líflátnir fyrir þær sakir. Enn verra þótti þó að stunda svartagaldur, en hann var notaður í því skyni að valda öðrum tjóni. Ásakanir um að fólk stundaði svartagaldur tóku að skjóta upp kollinum þegar nokkuð var liðið á sautjándu öldina og frá 1654 til 1685 voru alls tuttugu Íslendingar brenndir á báli fyrir galdur og einn hafði verið brenndur áður, árið 1625.“
Miðvikudagur, 24. 12. 08.
Gleðileg jól!
Á vefsíðunni Bloomberg.com birtist í gær, Þorláksmessu, frásögn af ástandinu á Íslandi undir fyrirsögninni: Iceland 'Like Chernobyl' as Meltdown Shows Anger Can Boil Over. Vísanin til Tjsernóbíl-kjarnorkuslyssins 26. apríl, 1986 er höfð eftir Þórhalli Vilhjálmssyni, markaðsstjóra, sem sagði við fréttamanninn Ben Holland, sem búsettur er í Istanbúl: „Ísland er núna eins og Tsjernóbíl eftir sprenginguna. Allt virðist eðlilegt en það er geislavirkni.“
Á mbl.is var þetta sagt í tilefni af þessari frétt á Bloomberg.com:
„Versta kjarnorkuslys sögunnar varð í kjarnorkuverinu í Chernobyl þegar sprenging varð þar árið 1986. Að minnsta kosti átta þúsund manns létust í sprengingunni og eftirköstum hennar. “
Hvaðan mbl.is hefur töluna 8000 um mannfallið eftir kjarnorkuslysið, kemur ekki fram. Í skýrslu nefndar á vegum Sameinuðu þjóðannar, UNSCEAR-skýslunni frá 2001 segir, að rekja megi dauða 30 manns til kjarnorkuslyssins. Hafa frásagnir af hörmungum vegna þess verið taldar meðal mestu blekkinga 20. aldarinnar.
Frásögnin á Bloomberg.com sver sig í ætt við þá blaðamennsku, sem tengir Ísland heimi álfa, trölla og galdra, enda er galdranornin Eva Hauksdóttir meðal viðmælenda Bens Hollands. Þar kemur einnig við sögu hinn sígldi herstöðvaandstæðingur, Stefán Pálsson. Hann undrast, að „ordinary people“ - ósköp venjulegt fólk - skuli ekki fjargviðrast yfir aðgerðasinnum í hópi mótmælenda, og Stefán telur réttmætt að ráðast á lögreglustöðina.
Gunnlaugur Guðmundsson, stjörnuspámaður, séra Birgir Ásgeirsson, prestur í Hallgrímskirkju. og Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor eru nefndir í veffréttinni.
Frásögnin er ekki beint til þess fallin að koma neinum í jólaskap. Hún er enn eitt dæmi um það, sem sagt er um land og þjóð vegna bankahrunsins. Sé hins vegar ekki meira að marka inntakið en allt, sem sagt var og átti ekki við rök að styðjast eftir Tsjernóbíl-slysið, er stærsta spurningin, hvort nokkru sinni tekst að koma hinu sanna og rétta á framfæri um Ísland og Íslendinga - eða hvort bankahrunið hvíli eins og illt ský yfir landi og þjóð, eftir að birtir að nýju.
Látum ekki skugga þessara atburða spilla þeim boðskap birtu og trúar, sem jólin flytja okkur!
Þriðjudagur, 23. 12. 08.
Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 09.30 í fundarsal forsætisnefndar alþingis í þinghúsinu. Af þeim þremur fundarsölum, sem ríkisstjórnin hefur notað, á meðan ég hef setið í henni, er þessi sá þægilegasti. Einnig skiptir miklu, að rými er fyrir framan hann, þannig að menn ganga ekki beint í flasið á fréttamönnum, sem bíða með myndatökumönnum og sitja fyrir ráðherrum að fundi loknum.
Í fjárlögum ársins 2008 er veitt 17 milljónum króna til að koma upp öryggiskerfi í kringum Bessastaði með þessari skýringu í greinargerð:
„Gerð er tillaga um 17 m.kr. framlag vegna kostnaðar við öryggismál á Bessastöðum. Um er að ræða útgjöld við uppsetningu á öryggishliði og öryggismyndavélum, auk búnaðar og nauðsynlegra lagna sem tengjast verkinu.“
Uppsetningin á þessum öryggisbúnaði markar þáttaskil í gæslu við forsetasetrið og endurspeglar breytt viðhorf í þessu efni hjá Ólafi Ragnari Grímssyni.
Á fréttavefnum www.amx.is má í dag lesa forvitnilegar tilvitnanir í þá Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar, um hálfkaraða Evrópustefnu Samfylkingarinnar og yfirboð Páls Magnússonar, formannsframbjóðanda í Framsóknarflokknum, gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í ESB-aðildarmálum.
Mánudagur, 22. 12. 08.
Alþingi kom saman til fundar klukkan 09.30 og lauk fundum þess um klukkan 20.00 með samþykkt fjárlaga fyrir árið 2009 og fjáraukalaga 2008. Hraðinn við afgreiðslu fjárlaga hefur verið mikill og þungi hvílt á fjárlaganefnd og embættismönnum þings og ráðuneyta, sem að málinu koma. Næsta skref er að átta sig nákvæmlega á því, hvað í þessu öllu felst og hvernig unnt er að hrinda því í framkvæmd. Vafalaust munu ýmsar stofnanir kveinka sér undan tölunum, sem við blasa.
Klukkan 12.00 var ég í Valhöll og flutti þar stutta ræðu og svaraði spurningum um Evrópumál - en fundurinn var haldinn á vegum undirhóps Evrópunefndar Sjálfstæðisflokkksins og stjórnar Friðrik Sophusson, fyrrverandi varaformaður flokksins, honum. Hlutverk mitt var að ræða, stöðu okkar utan og innan Evrópusambandsins.
Samþætting og hagræðing er meðal þess, sem óhjákvæmilegt er að hafa að leiðarljósi í ríkisrekstri og annars staðar. Hinn 16. desember vakti ég máls í ríkisstjórn á aðgerðum í þessa átt að því er varðar starfsemi á mínu verksviði í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Vegna villandi forsíðufréttar um þau mál í Fréttablaðinu í dag, þar sem látið er í veðri vaka, að eitthvert frumkvæði sé á vegum utanríkisráðuneytis vegna varnarmálastofnunar, sem eigi í deilum við Neyðarlínuna vegna útreikninga hennar á sparnaði með brotthvarfi varnarsmálastofnunar, sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið frá sér fréttatilkynningu. Þar segir meðal annars:
„Ríkisstjórnin féllst hinn 16. desember sl. á tillögu Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, um að stefnt yrði að samþættingu verkefna og hagræðingu á starfssviði öryggis- og siglingamála. Var dóms- og kirkjumálaráðuneytinu falið að hafa forgöngu um viðræður dóms- og kirkjumálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og utanríkisráðuneytis í því augnamiði að sameina krafta ríkisstofnana, sem tengjast siglingum, sjósókn, öryggi, löggæslu, eftirliti, sjúkra- og neyðarflugi sem og sjómælingum og rannsóknum í hafinu. Markmiðið er að auka hagræði og skilvirkni í rekstri þeirra stofnana sem hér um ræðir, en það eru einkum Landhelgisgæslan, Varnarmálastofnun, Siglingastofnun, Fiskistofa, Hafrannsóknarstofnun, Vaktstöð siglinga auk þeirra, sem sinna sjúkraflugi.
Með bréfi fjármálaráðuneytisins dags. 14. nóvember sl. er ráðuneytum falið að leita allra leiða til að draga úr ríkisútgjöldum með hliðsjón af forgangsröðun brýnustu verkefna og kjarnastarfsemi og huga að hagræðingu og skipulagsbreytingum eins og sameiningu stofnana.“
Sunnudagur, 21. 12. 08.
Daginn tekur nú að lengja að nýju. Veðrið var milt til gönguferðar í dag. Snjórinn hafði ekki verið troðinn á göngustíg í Öskjuhlíðinni, en hann var ekki of þungur undir fæti. Framkvæmdum er haldið áfram við hús Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni og sýnist unnið við að glerja neðstu hæðina, þótt ekki sé lokið við hina efstu.
Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópusérfræðingur á Bifröst, segir í grein í Fréttablaðinu í gær, að Íslendingar hafi ekki kosið að nýta fullveldisrétt sinn í stofnunum Evrópusambandsins. Fyrir þá, sem fylgjast með því, hvernig Ísland notar rétt sinn á grundvelli samningsins um evrópska efnahagssvæðið eða Schengen-samstarfsins, er þessi fullyrðing úr lausu lofti gripin.
Þá má vekja athygli á því, að tillögur Evrópunefndar, sem lauk störfum í mars 2007, miða að því, að Íslendingar nýti fullveldisrétt sinn enn meira en gert hefur verið til að gæta hagsmuna sinna í Brussel. Aðild að Evrópusambandinu er alls ekki skilyrði þess að nýta fullveldisréttinn í Brussel - samningurinn um evrópska efnahagssvæðið (EES) gefur Íslendingum gott tækifæri til þess.
Málflutningur aðildarsinna er ekki trúverðugur, þegar hann byggist að verulegu leyti á því, að gera lítið úr stöðu Íslendingar gagnvart Evrópusambandinu á grundvelli EES-samningsins.
Ég vek athygli lesenda síðu minnar, að nýtt hefti af tímaritinu Þjóðmálum kom út fyrir skömmu og er þar margt forvitnilegt að finna.
Klukkan 20.30 var ég Grafarvogskirkju og hlýddi á jólatónleika Lögreglukórs Reykjavíkur. Kirkjan var þéttsetin og var kórnum, einsöngvurum, Önnu Margréti Óskarsdóttur og Eiríki Hreini Helgasyni, hljóðfæraleikurum og Guðlaugi Viktorssyni, stjórnandi, vel fagnað.
Laugardagur, 20. 12. 08.
Alþingi kom saman til fundar klukkan 09.30 í morgun og lauk fundum um 17.30. Nokkur mál urðu að lögum en fjárlög ársins 2009 og fjáraukalög ársins 2008 eru enn óafgreidd.
Fyrir nokkru gerði ég hér á siðunni athugasemdir við Morgunblaðs-grein Reynis Eyvindarsonar, þar sem hann hvatti lesendur til að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn. Reynir svarar þessum athugasemdum í Morgunblaði, sem dreift er í dag en hefur útgáfudag á morgun.
Reynir telur, að óheimilt sé að skipa Þorstein Davíðsson og Ólaf Börk Þorvaldsson dómara, af því að þeir tengist Davíð Oddssyni. Ofstæki af þessum toga er ómálefnalegt og dæmir sig sjálft.
Reynir bendir á, að þeir, sem hafi gerst sekir eftir dómi um „verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti“ þurfi uppreist æru til að geta boðið sig fram til þings. Því fer sem betur fer fjarri, að allir dómar séu um brot af þessu tagi, þess vegna þurfa ekki allir dæmdir menn uppreist æru til að geta boðið sig fram til þings. Séu lagaskilyrði fyrir hendi, er auk þess skylt að veita uppreist æru sé þess óskað.
Ég ætla ekki að deila við Reyni um sérgrein hans, verkfræði. Ef til vill þarf lögfræðikunnáttu til að átta sig á því, sem ég sagði um uppreist æru og þingmennsku.
Reynir getur alls ekki kennt Sjálfstæðisflokknum einum um kvótakerfið og hvatt fólk til að yfirgefa flokkinn og ganga í aðra flokka þess vegna. Hann staðfestir í svari sínu til mín, að allir flokkar eða forverar þeirra nema Frjálslyndi flokkurinn hafa komið að útfærslu kvótakerfisins á einn eða annan veg.
Reynir viðurkennir, að Ísland sé ekki gjaldþrota en lýkur grein sinni á þeim orðum, að Ísland sé meira en gjaldþrota!
Ég geri ekki lítið úr rökræðum af þessu tagi, þótt þær skili í raun engu, enda er Reynir fyrst og síðast að „pönkast“ á Sjálfstæðisflokknum, svo að vitnað sé í Reyni Traustason, ritstjóra DV. Tilgangurinn er að gera hlut Sjálfstæðisflokksins sem verstan, hvað sem tautar og raular.
Ragnarök fjórða og síðasta óperan í Niflungahring Richards Wagners var sýnd í stv2 í kvöld í uppfærslu Konunglegu sænsku óperunnar.
Föstudagur, 19. 12. 08.
Ríkisstjórnin kom saman til fundar í alþingishúsinu í morgun í sal, þar sem áður var skrifstofa forseta Íslands og síðar mötuneyti alþingis, áður en skálinn var reistur við hlið þinghússins. Aðstaða er góð til að funda þarna og var það til dæmis gert 15. mars 2006, þegar boð bárust frá Bandaríkjastjórn um brottför varnarliðsins. Það eru þægindi af þessari aðstöðu í þinghúsinu, þegar annir eru miklar á þingi og menn þurfa helst að vera á tveimur stöðum í einu.
Þingmenn eru nú á lokaspretti fyrir jólaleyfi og í dag var tilkynnt, að menntamálanefnd hefði beint því til starfhóps menntamálaráðherra að útfæra reglur um auglýsingar RÚV og um leið varðandi eignarhald á fjölmiðlum. Þau mál verði að haldast í hendur. Nefndin fær frest fram til 15. febrúar. Með þessu er ákveðið að hætta við að svo stöddu að takmarka auglýsingar í RÚV en flytja hins vegar sérstakt frumvarp um nefskatt vegna RÚV.
Fjölmörg rök eru fyrir þessari ákvörðun nefndarinnar en vísan hennar til að settar verði reglur um eignarhald byggjast á því, að Baugur á 365 eða hvað sem fjölmiðlafyrirtækið um Baugsmiðlana heitir nú. Keppinautar Baugs á smásölumarkaði færa fyrir því skýr rök, að með öllu sé óviðunandi fyrir þá, að verða neyddir til að leggja fyrir fyrirtækið áætlanir sínar um auglýsingar, af því að ekki sé í nein önnur hús að venda, þegar hugað sé að auglýsingum í sjónvarpi.
Samkeppniseftirlitið sektaði í dag Baugsfyrirtækið Haga um 315 milljónir króna fyrir að misbeita ráðandi stöðu á markaði. Sagt er í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að brotið sé alvarlegt. Brotið snýr að verðstríði milli lágvöruverslana. Bónus er talinn hafa gengið allt of langt í að verja stöðu sína í samkeppni við Krónuna í verðstríði sem hófst í febrúar 2005.
Hluti af samkeppni er að koma keppinaut á óvart með auglýsingu. Eigi keppinauturinn hins vegar auglýsingamiðilinn veit hann, hvað er auglýst, áður en það birtist almenningi og getur svarað keppinauti sínum samtímis, til dæmis með því að lækka verð meira í auglýsingu í sama tölublaði dagblaðs, eða jafnvel fyrir útgáfu blaðsins. Sjónarmið af þessu tagi hafa verið kynnt þingmönnum og til að bregðast við því, að ekki sé unnt að nýta aðstöðu af þessu tagi er óhjákvæmilegt að huga að eignarhaldi - stærsti smásöluaðili landsins hafi til dæmis ekki undirtök í fjölmiðlum.
Blaðamennirnir Jón Bjarki Magnússon og Símon Birgisson hafa í þessari viku lýst því, hvernig ritstjórnarvaldi á Baugsmiðlum og fyrrverandi Baugsmiðlum hefur verið beitt til að þóknast eigendum Baugs. Hvað með auglýsingavaldið? Skyldi því hafa verið beitt?
Bjarni Brynjólfsson, fyrrverandi ritstjóri Séð og heyrt, skrifar í dag grein, sem birtist á vefsíðu Egils Helgasonar. Þar er enn fjallað um fjölmiðlaásókn Baugs.
Lesa meiraFimmtudagur, 18. 12. 08.
Klukkan 13.30 var ég í Bændahöllinni og ræddi þar við fulltrúa bænda um efni skýrslu Evrópunefndar og lýsti skoðunum mínum á tengslum Íslands og Evrópusambandsins.
Þingstörfum er fram haldið og í dag urðu mörg frumvörp að lögum, þar á meðal um að fresta því að stofna embætti héraðssaksóknara um eitt ár.
Settur ríkislögreglustjóri gaf í dag út ákæru á hendur fólki tengdum Baugi vegna skattskila. Helgi Magnús Gunnarsson. saksóknari efnhagsbrota, kom að gerð ákærunnar, en helsta frétt á forsíðu Fréttablaðsins er um, að ekki sé nóg að gert í fjárveitingum til efnahagsbrotadeildar.
Við vinnslu þessarar fréttar hafði blaðamaðurinn samband við mig og svaraði ég á þann hátt, sem birtist í blaðinu. Fréttin um svar mitt er svona:
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra undrast áhuga Fréttablaðsins á fækkun starfsmanna efnahagsbrotadeildar. Það kemur fram í tölvupósti þar sem hann svarar hluta af spurningum blaðsins vegna málsins.
„Fréttablaðið hefur sem Baugsmiðill tekið því almennt illa undanfarin misseri að unnið sé að rannsókn efnahagsbrota og hefur blaðið og eigendur þess gagnrýnt mig, þegar aflað hefur verið fjár til að styrkja rannsóknir og saksókn vegna efnahagsbrota og talið að þeim fjármunum væri betur varið til annarra hluta,“ skrifar Björn.
„Hvað veldur sinnaskiptum blaðsins? Mér finnst það fréttapunkturinn í þessu máli frekar en krafa fjárveitingavaldsins um aðhald í ríkisrekstri í viðleitni stjórnvalda til að draga úr skaða bankahrunsins á þjóðarbúið.““
Við athugun á þróun starfsmannamála hjá efnahagsbrotadeild sýnist Fréttablaðið líta fram hjá því, að sérstakur saksóknari var skipaður í Baugsmálinu og réð hann til sín samstarfsmenn, sem unnu að rannsókn og ákæru vegna efnahagsbrota. Nú hefur alþingi samþykkt lög um sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins.
Hinn 8. desember 2006 fékk Arnþrúður Karlsdóttir til viðtals við sig á útvarpi Sögu Jóhannes Jónsson, kenndan við Bónus, í tilefni af því, að hann hafði þá nokkrum dögum áður gefið 21 milljón króna til Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstofnunar kirkjunnar. Jóhannes gaf þessa skýringu á fjárhæðinni: Mér fannst vel til fundið að hafa upphæðina þessa, það er að segja 21 milljón. Það var það sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fór fram á í aukafjárveitingu til þess að greiða sínum manni laun, það er að segja Sigurði Tómasi.
Sigurður Tómas Magnússon var hinn sérstaki saksóknari í Baugsmálinu og þannig var talað til mín vegna kostnaðar við störf embættis hans af forráðamönnum Baugs á þessum tíma. Nú býsnast flaggskip Baugsmiðlanna hins vegar yfir því, að ég hafi ekki gert nóg til að útvega fé til að berjast gegn efnahagsbrotum!
Miðvikudagur, 17. 12. 08.
Klukkan 14.15 var ég í Skógarhlíð og tók þátt í því með Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra að afhenda töskur með upplýsingum um, hvernig staðið skuli að því að greina slasaða á björgunarvettvangi.
Reynir Traustason, ritstjóri DV, situr sem fastast í stólnum sínum, þótt hann hafi gerst sekur um ósannsögli um samstatarfsmann sinn. Reynir rökstyður setu sína meðal annars með þessum orðum í leiðara DV í dag:
„Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri DV, bloggaði eftirfarandi um málið [mál Reynis, þegar hann stöðvaði birtingu fréttar um Sigurjón Þ. Árnason]: „Vont er, ef Sigurjónsmálið leiðir til afsagnar Reynis Traustasonar sem ritstjóra. Ég vona bara, að fundur starfsmanna á ritstjórn DV leiði ekki til slíks. Hann er hæfasti blaðamaður og ritstjóri landsins um þessar mundir. Jafnvel þótt honum hafi orðið á í messunni í Sigurjónsmálinu. Sannkallaða kraftaverkamenn þarf til að stýra áskriftardagblöðum nú á tímum og Reynir er einn fárra slíkra.“
Þetta eru hlý orð frá Jónasi sem leggur til að beðist verði afsökunar á mistökum. Þeirri áskorun hans er tekið. Almenningur og blaðamenn DV eru beðnir afsökunar á því að fréttin birtist ekki, jafnvel þótt það hefði kostað blaðið lífsneistann. Jafnframt er ljóst að aldrei aftur mun óttinn við afkomuna stýra því hvenær fréttir birtast. Fréttin um Sigurjón er sú lexía sem dugir.“
Sama dag og Reynir leitaði þannig halds og trausts hjá Jónasi bloggaði Símon Birgisson um reynslu sína sem blaðamaður á DV sumarið 2005, þegar blaðið laut ritstjórn Jónasar Kristjánssonar og Mikaels Torfasonar, sem skjaldaði Reyni í Kastljósi 16. desember. Símon segir frá því, að þeir Jónas og Mikael hafi neitað að birta tvær fréttir sem Símon skrifaði um ákæru í Baugsmálinu og samvinnu milli The Guardian í London og Baugsmiðilsins Fréttablaðsins um birtingu ákærunnar og viðtala við þá Jón Ásgeir og Jóhannes, föður hans. Lyktaði málinu þannig að Símon tilkynnti ritstjórunum uppsögn sína.
Eigendahollusta þeirra Jónasar og Mikaels var ekki minni er Reynis – skjallbandalagið á sér augljósa skýringu.
Nú er unnt að horfa á Hrafnaþing, viðtal Ingva Hrafns Jónssonar við mig hinn 15. desember á netinu
Þriðjudagur, 16. 12. 08.
Þegar komið var til ríkisstjórnarfundar í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu kl. 09.20 í morgun, mælti lögreglan með því, að við færum inn í garð bústaðarins frá Suðurgötu og þaðan inn um eldhúsinnganginn.
Tæplega hundrað manna hópur mótmælenda hafði brugðist við hvatningu um að koma að bústaðnum til að hindra að ríkisstjórn gæti fundað þar. Meðal þeirra, sem hvöttu til mótmælanna var Eva Hauksdóttir í Nornabúðinni við Vesturgötu, en hún varð fréttaefni, þegar hún kom með gjallarhorn að lögreglustöðinni á dögunum til að hvetja fólk til að bjarga Hauki, syni sínum, úr prísundinni. Nokkrum dögum síðar eða 1. desember var hún með svartagaldur við stjórnarráðshúsið og hitti síðan seðlabankastjórnina í húsakynnum hennar.
Aðgerðasinnar voru horfnir af vettvangi, þegar ríkisstjórnarfundinum lauk. Lögregla hélt vel á málum og enginn var handtekinn.
Evrópumál eru mjög til umræðu á vefsíðunni Andríki er birt ótrúleg frásögn af fundi, sem Vaclav Klaus, forseti Tékklands, átti með þingmönnum af þingi Evrópusambandsins.
Þessi frásögn af forsetahöllinni í Prag bliknar þó í samanburði við frásagnir af símtali Reynis Traustasonar og Jóns Bjarka Magnússonar, sem ég sagði frá hér á síðunni í gær. Undir kvöld gaf Reynir út yfirlýsingu, þar sem segir meðal annars: „Í því tveggja manna trúnaðarsamtali sem átti sér stað fékk starfsmaðurinn hins vegar óvenjulega innsýn inn í baráttu sem frjáls fjölmiðill þarf að heyja.“ Reynir harmar, að RÚV hafi birt upptöku af símtalinu „óklippta“(!). Yfirlýsingunni lýkur á þessum orðum:
„Að lokum er komið þökkum til þeirra fjölmörgu sem undanfarinn sólarhring hafa séð ástæðu til að gerast áskrifendur blaðsins og munu fá að njóta þeirrar upplýsandi umfjöllunar sem DV hefur leitt að undanförnu.“
Þá vitum við það!
Í Íslandi í dag á Stöð 2 ræddu þau Agnes Bragadóttir blaðamaður og Sigurður G. Guðjónsson hrl. um Reyni Traustason og sögðu bæði, að hann ætti að hætta sem ritstjóri. Agnes vildi einnig, að hann yrði rekinn úr Blaðamannafélagi Íslands.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, varaformaður Blaðamannafélags Íslands, var í Kastljósi með Mikael Torfasyni, fyrrverandi ritstjóra DV, þau töluðu mildilegar um Reyni en Agnes og Sigurður G. og ráði Þóra verður Reynir ekki rekinn úr blaðamannafélaginu, því að hún treysti sér ekki til að taka afstöðu! - Þóra Kristín virtist raunar telja við hæfi að leggja að jöfnu að ræða við Reyni Traustason og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, í báðum tilvikum væri gott að hafa leynda hljóðnema. Spyrja má: Sætta íslenskir fjölmiðlamenn sig við, að þannig sé talað af umboðsmanni þeirra um þetta mál? Hafi Reynir Traustason veikt trúðverðugleika fjölmiðla, hvað segja fjölmiðlamenn um málsvörn Þóru Kristínar?
Mánudagur, 15. 12. 08.
Síðdegis hitti ég Ingva Hrafn Jónsson á sjónvarpsstöð hans og ræddi hann við mig í tæpar 40 mínútur í þætti sínum Hrafnaþingi. Hann spurði um stjórnarsamstarfið, Davíð, Evrópusambandið og hve lengi ég yrði ráðherra – sem sagt öll heitustu málin!
Þátturinn var sendur út á sjónvarpsstöðinni Inn kl. 20.00 í kvöld og verður þar síðan á 2ja tíma fresti þennan sólarhring og þá má einnig nálgast hann á vefsíðunni www.inntv.is – sjón er sögu ríkari.
Jón Bjarki Magnússon, fyrrverandi blaðamaður á DV, greinir frá því á vefritinu NEI í dag að Reynir Traustason, ritstjóri DV, hafi stöðvað birtingu greinar sem hann skrifaði um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans í byrjun nóvember. Fréttin hafi snúist um, að Sigurjón væri að koma á fót ráðgjafarfyrirtæki í húsnæði Landsbankans og að hann vonaðist eftir verkefnum frá Landsbankanum. Yfirlýsing Jóns Bjarka hefst á þessum orðum:
„Ég finn mig knúinn, samvisku minnar vegna, að segja frá því að frétt sem ég skrifaði fyrir DV þann 6. nóvember síðastliðinn um Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóra Landsbankans var stöðvuð. Þetta geri ég vegna þess að það er skylda mín gagnvart lesendum og fólkinu í landinu að upplýsa um slík mál. Ég hef reynt að sannfæra sjálfan mig í meira en mánuð um hið gagnstæða. Að best væri að gleyma þessu og þegja. Ég hef hinsvegar ekki gleymt þessu atviki, og ég get ekki þagað yfir því lengur. Ég tel það ekki vera ásættanlegt að einhverjir ónefndir aðilar úti í bæ geti stöðvað eðlilegan fréttaflutning. Ég get ekki gerst sekur um að vera þátttakandi í leynimakki og blekkingu í krafti auðvalds á þessum síðustu og verstu tímum.“
Sunnudagur, 14. 12. 08.
Flaug norður til Akureyrar í blíðskaparveðri kl. 09.30 og tók þar klukkan 11.00 þátt í athöfn, þegar minnisvarði var afhjúpaður á horni Byggðavegar og Þingvallastrætis til að halda í heiðri um ókomin ár upphaf þess, að ráðist var í aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði, eins og síðan var rakið á málþingi á vegum lagadeildar Háskólans á Akureyri rétt við minnisvarðann. Þar flutti ég ávarp.
Flaug til baka klukkan 13.40.
Klukkan 17.00 var ég á jólatónleikum Kammersveitar Reykjavíkur í Áskirkju, þar sem flutt voru verk eftir Jan Dismas Zelenka (1679-1745) frá Tékklandi.
Fjölmiðlar hafa spurt í dag: Ertu á leið úr ríkisstjórn? Þá hafa þeir einnig spurt: Er stjórnin að springa vegna yfirlýsinga Ingibjargar Sólrúnar frá því í gær um Evrópumál? Ég tek undir með Geir H. Haarde, forsætisráðherra: Það er ekki unnt að útiloka neitt!
Björn Ingi Hrafnsson er einn af útsendurum Baugs undir merkjum Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Hann beitti sér á sínum tíma í þágu Baugs, þegar FL-Group vildi bjarga sér með því að ná í fé Orkuveitu Reykjavíkur. Þá barðist hann gegn Guðna Ágústssyni innan Framsóknarflokksins. Nú vinnur hann að því að fá landsfund Sjálfstæðisflokksins til að samþykkja aðild að Evrópusambandinu. Loks virðist hann hafa skoðun á því, hver eigi að verða næsti varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Líklegt er, að gæðastimpill frá Birni Inga megi sín lítils innan Sjálfstæðisflokksins, þótt hann hafi hrakið Guðna Ágústsson úr formennsku í Framsóknarflokknum.
Laugardagur, 13. 12. 08.
Á ruv.is segir í dag:
„Geir Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar setji landsfundi Sjálfstæðisflokksins ekki afarkosti. Ingibjörg segir stjórnarsamstarfinu sjálfhætt ef Sjálfstæðismenn loka á Evrópusambandsaðild á aukalandsfundi flokksins í janúar.
Geir Haarde segir að ummæli Ingibjargar hafi ekki áhrif á ákvarðanatöku á landsfundinum. Ingibjörg sagði í hádegisfréttum útvarpsins að ríkisstjórnin yrði að svara kalli almennings um mannabreytingar í Seðlabanka, Fjármálaeftirlitinu og í sjálfri ríkisstjórninni. Geir segir ekki hægt að útiloka neitt í þeim efnum.“
Ég drep á ummæli Ingibjargar Sólrúnar, sem eru tilefni þessarar fréttar, í pistli mínum í dag.
Af bloggsíðum samfylkingarfólks má ráða, að það gleðjist yfir, að Ingibjörg Sólrún hafi dregið athygli frá niðurskurði á fjárlögum með þessum afskiptum af innri málum Sjálfstæðisflokksins - kalli þetta smjörklípu formannsins.
Föstudagur, 12. 12. 08.
Lögregluskóla ríkisins var slitið í Bústaðakirkju klukkan 14.00 og flutti ég þar ávarp.
Klukkan 16.00 boðaði Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins til kynningarfundar í Valhöll og þá var vefsíðan www.evropunefnd.is einnig formlega opnuð en hún er upplýsinga- og samskiptasíða nefndarinnar. Ráða mátti af spurningum allra, sem spurðu Kristján Þór Júlíusson, formann nefndarinnar og alþingismann, á fundinum nálguðust viðfangsefnið úr þeirri átt, að þeir voru í augljósum vafa um gildi aðildar að Evrópusambandinu /ESB) fyrir Ísland.
Samtök atvinnulífsins hafa gert könnun meðal félagsmanna sinna og spurt um áhuga á aðild að ESB. Mér er sagt, að 43% hafi verið hlynntir, 40% andvígir og 17% óvissir. Hvers vegna skyldi niðurstaðan ekki birt?
Höfundur Staksteina býsnast yfir því í dag, að ég hafi skammað Valgerði Sverrisdóttur hér á síðunni í júlí 2007 fyrir að vilja taka upp evru einhliða en síðan hafi ég skipt um skoðun og aðhyllst einhliða gjaldmiðlaskipti.
Í lok Staksteina er spurt um sinnaskipti mín með nokkrum þjósti:
„Hvenær hætti upptaka evru án aðildar að Evrópusambandinu að vera glapræði? Eða sérfræðingarnir sem höfðu uppi varnaðarorð að vera marktækir?“23. ágúst 2007 efndi Rannsóknamiðstöð um samfélags og efnahagsmál (RSE) til ráðstefnu um stöðu gjaldmiðla. Þar komu til sögunnar sérfróðir menn, sem hvöttu til þess, að Íslendingar skiptu einhliða um gjaldmiðil. Að ráðstefnunni lokinni ritaði ég grein í tímaritið Þjóðmál undir fyrirsögninni: Evran er ekki lengur ESB-gulrót.
Að óreyndu hefði ég ætlað, að jafnmikill áhugamaður um þessi mál og höfundur Staksteina, þyrfti ekki að stunda spurningaleik um afstöðu mína til evru og gjaldmiðilsskipta. Hitt er svo sérstakt íhugunarefni, að fundið skuli að því, að menn leiti fyrir sér í Evrópumálum og móti sér skoðanir á grundvelli eigin athuguna. Til hvers er alltaf verið að hvetja til þess, að menn kynni sér kosta og galla?
Fimmtudagur, 11. 12. 08.
Göran Persson, fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra Svíþjóðar, var hér í heimsókn á miðvikudag og af því tilefni ræddi Kristján Jónsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, við hann um bankakreppuna, afleiðingu hennar og ráðgjöf hagfræðinga. Hér er vitnað í svar Perssons:
„Það er engin fræðigrein sem er jafn ofmetin og hagfræði, þetta snýst í reynd mikið um heilbrigða skynsemi. Ef menn bara gæta þess að sjá til að tekjurnar séu hærri en útgjöldin standa þeir sig ágætlega. En það er hefð fyrir því í Svíþjóð að fjármálaráðherrann sé fremur stjórnmálamaður en hagfræðingur. Það er ekki til neitt sem er jafn pólitískt og fjármálaráðuneytið. Það erfiða er ekki að skilja hvað beri að gera, það erfiða er að gera það, að koma á framfæri boðum um pólitískt ferli en ekki að gefa skipun um vísindalega umræðu á sviði hagfræði. Það er auðvelt að sjá hvað þurfi að lækka mikið útgjöldin til ákveðinna málaflokka en að fá pólitískan stuðning við ákvörðunina er allt annað mál. Það er kallað stjórnmál. Bestu fjármálaráðherrarnir sem við höfum haft í Svíþjóð hafa verið stjórnmálamenn. Þegar lögð hefur verið áhersla á að fá í embættið fólk með hagfræðilegan bakgrunn hefur það endað í ringulreið.“
Kristján segir: Formaður stjórnar íslenska seðlabankans er ekki hagfræðimenntaður og það veldur deilum... og Persson svarar:
„Seðlabanki þar sem ekki er til staðar í stjórninni einhver með þekkingu á alþjóðlegum stjórnmálum er illa staddur, það er mjög mikilvæg færni. Og sá sem nú stýrir bankanum er mjög hæfur á því sviði.“
Hvað skyldu hagfræðingarnir segja við þessu? Þess skal getið, að Persson er jafnaðarmaður og flokksbróðir samfylkingarfólksins.
Uffe Elllemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, svaraði spurningum í Kastljósi kvöldsins og hvatti til þess, að menn létu ekki efnahagsrök ein leiða Ísland í Evrópusambandið, aðild snerist um pólitísk gildi og þar með meira en efnahagsmál.
Þegar sagt er, að Svíar og Finnar hafi gengið í Evrópusambandið eftir efnahagskreppu er þeirri stórpólitísku staðreynd sleppt, að þeir voru miklu frekar að flýta sér að yfirgefa hlutleysisstefnuna eftir hrun Sovétríkjanna. Kremlverjar voru á tímum kommúnismans andvígir því, að hlutlaus ríki, Austurríki, Finnland og Svíþjóð væru að gera sér dælt við Evrópusambandið, hvað þá að íhuga inngöngu þangað.
Miðvikudagur, 10.12. 08.
Alþingi samþykkti í dag samhljóða frumvarp mitt um sérstakan saksóknara til að rannsaka og hugsanlega ákæra í tilefni af saknæmum brotum vegna bankahrunsins. Næsta skref er að auglýsa embættið en frestur fyrir umsækjendur er tvær vikur, lögum samkvæmt. Í lögunum er mælt fyrir um hæfiskröfur umsækjenda en þess jafnframt getið, að 70 ára aldursregla gildi ekki og dómurum verði veitt leyfi frá starfi, verði þeir skipaðir.
Nú eru um tveir mánuðir liðnir frá því að ég kynnti í þingræðu áform mín um sérstakan saksóknara. Ég held, að á þessum tíma hafi öllum orðið æ betur ljóst, hve mikilvægt er að haga skipan mála á þennan veg. Í ræðunni varaði ég við nornaveiðum vegna bankahrunsins og endurtek þau varnaðarorð.
Því miður hefur margt gerst, sem vekur tortryggni og jafnvel ótta um, að ekki sé gætt fyllstu varúðar við meðferð gagna eða eigna eftir hrunið. Að mínu áliti er gagnsæi ekki nægilega mikið í störfum fjármálaeftirlitsins, meira að segja ekki gagnvart viðskiptaráðherra eins og birst hefur í umræðum um athugun KPMG á Glitni banka - umræðum, sem leiddu loks til þess, að KPMG dró sig í hlé. Í því sambandi hefðu viðbrögð við kortlagningu á vegum ríkissaksóknara á fyrstu stigum málsins, átt að hvetja til varúðar. Þar taldi ég ómaklega vegið að grandvörum embættismönnum, en allt kom fyrir ekki.
Hér er skemmtileg frétt úr breska þinginu.
Ég óska Jóhönnu Kristjónsdóttur innilega til hamingju með heiðurinn.
Þriðjudagur, 09. 12. 08.
Lögreglumenn brugðust við af snerpu í morgun, þegar spurðist rúmlega 09.00, að hópur mótmælenda hefði tekið sér stöðu við ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu í þann mund, sem ráðherrar komu til fundar þar fyrir 09.30. Skömmu fyrir þennan tíma renndi ég í hlað og héldu lögreglumenn mótmælendum í skefjum, svo að unnt væri að ganga upp tröppurnar.
Þegar fundi lauk kl. 11.00 var einn mótmælandi enn á staðnum. Á vefsíðunni www.amx.is segir af þessu tilefni undir fyrirsögninni: Vinstri/grænn litur á mótmælunum:
„Við upphaf mótmælanna við Ráðherrabústaðinn í dag vakti athygli að Drífa Snædal, framkvæmdastjóri vinstri grænna var mætt á stéttina fyrir fram húsið, þó ekki tæki hún með neinum hætti þátt í þeim.
Björg Eva Erlendsdóttir, sem ritstýrir smugan.is, var einnig á staðnum til að fylgjast með og flytja ítarlegar fréttir af mótmælunum. Vinstri grænir eru „kjölfestufjárfestir“ í smugan.is.
Við tjörnina hvísla fuglarnir að sá hópur fólks sem gengið hefur lengst í mótmælum sínum að undanförnu, sæki styrk sinn til vinstri grænna. Forystumenn flokksins séu yfirleitt ekki langt undan þegar látið er til skarar skríða. Þannig var Álfheiður Ingadóttir, þingmaður flokksins, við mótmælin hjá lögreglustöðinni.“
Allsherjarnefnd alþingi skilaði í dag sameiginlegu áliti um frumvarp mitt um sérstakan saksóknara.
Mánudagur, 08. 12. 08.
Ég var nýfarinn úr þinghúsinu, þegar hróp voru gerð af pöllunum, á meðan Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, var í ræðustól. Lögregla var kölluð á vettvang og voru sjö handteknir. Þingvörður var fluttur á slysavarðstofu vegna meiðsla og tveir lögreglumenn, kona og karl, voru bitin og sparkað í hinn þriðja.
Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir:
„Hugmyndir um að taka upp evruna einhliða hér á landi, án þess að ganga í Evrópusambandið, hafa skotið upp kollinum með reglulegu millibili undanfarin ár. Reglulega hafa verið gerðar úttektir á málinu og þreifað á því við Evrópusambandið. Niðurstaðan er alltaf sú sama. Einhliða upptaka evru er ekki raunhæfur kostur.
Margir töldu að málið hefði verið afgreitt í skýrslu Evrópustefnunefndar, sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra veitti forystu.“
Ég er einn þeirra, sem taldi málið ekki afgreitt með skýrslu Evrópunefndarinnar, sem ég veitti forystu. Mér þótti nefndin ekki fá fullnægjandi svör um málið. Hélt ég því áfram að skoða það, eftir að nefndarstarfinu lauk, eins og þeir vita, sem fylgst hafa með skrifum mínum um það. Umræður síðustu vikna sýna einnig, að full ástæða er til að velta þessum kosti vel fyrir sér í núverandi vanda.
Alonso Perez, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Ekvador, hélt í dag fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands um einhliða upptöku dollars þar í landi árið 2000. Af orðum hans í Kastljósi má ráða, að slík skipti ættu ekki að verða okkur ofviða.
Hér skiptast fjölmiðlar á að kalla á innlenda hagfræðinga til að segja af eða á um einhliða gjaldmiðlaskipti. Þeir komast ekki að einróma niðurstöðu frekar en svo oft áður.
Reynir Eyvindarson, verkfræðingur, ritar grein í Morgunblaðið í dag og hvetur sjálfstæðismenn til að yfirgefa flokk sinn. Meginrök hans eru þessi:
„Það er bara einn flokkur sem hefur ráðið vini sína og niðja í dómarastöður í trássi við mat til þess hæfra manna, einn flokkur sem hefur hjálpað dæmdum glæpamanni til að komast á þing fyrir flokkinn með því að gefa honum uppreisn æru. Einn flokkur hefur gefið fiskimiðin tryggum flokksmönnum sínum (jæja, Framsókn tók reyndar þátt í því), og einn flokkur var við stjórnvölinn allan tímann þegar Ísland sigldi í gjaldþrot.“
Fyrsta fullyrðingin um skipan „vina og niðja“ í dómarastöður er röng. Önnur fullyrðingin um að uppreist æru sé forsenda þess, að dæmdir menn geti boðið sig fram til þings er einnig röng. Þriðja fullyrðingin stenst ekki heldur, þegar til þess er litið, að Sjálfstæðisflokkurinn sat ekki í ríkisstjórn árið 1990, þegar kvótakerfið var endanlega fest í lög. Lokafullyrðingin lýsir ástandi, sem ekki varð, því að Ísland sigldi ekki í gjaldþrot.
Sunnudagur, 07. 12. 08.
Herra Karl Sigurbjörnsson biskup vígði Guðríðarkirkju í Grafarholti klukkan 14.00 í dag, sóknarpresturinn dr. Sigríður Guðmarsdóttir þjónaði fyrir altari. Mikið fjölmenni var við hátíðlega athöfnina og síðan í kirkjukaffi í Gullhömrum, þar sem Niels Árni Lund, formaður sóknarnefndar, gerði grein fyrir byggingu kirkjunnar, sem aðeins tók 17 mánuði. Með því að kenna kirkjuna við Guðríði Þorbjarnardóttur er kirkja í fyrsta sinn kvenkennd hjá þjóðkirkjunni. Kaþólska kirkjan hefur kennt kirkjur hér við Maríu guðsmóður.
Ég fagna niðurstöðu vinstri/grænna í dag um, að efnt skuli til tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu til að ákvarða stefnu þjóðarinnar gagnvart Evrópusambandinu. Þessa leið nefndi ég í samtali við Sigmund Erni í Mannamáli fyrr á árinu.
Össur Skarphéðinsson oftúlkaði Evrópustefnu vinstri/grænna sér í hag í Mannamáli Sigmundar Ernis í kvöld. Samtalið við Össur kom til sögunnar eftir opinberar kvartanir um, að enginn í Samfylkingunni vildi ræða við Sigmund Erni. Viðtalið var kynnt á þann veg, að Sigmundur Ernir hefði fengið fjölmargar spurningar frá hlustendum til að leggja fyrir Össur. Í þættinum komst Sigmundur Ernir hins vegar varla að, því að Össur talaði svo að segja samfleytt og gjarnan um sjálfan sig í þriðju persónu.
Laugardagur, 06. 12. 08.
Ég las bók Óla Björns Kárasonar í gær og í dag um hrun FL-Group og fékk þar gleggri sýn en áður á íslensku fjármálakrísuna. Í pistli um bókina hvet ég til þess, að leitast sé við að líta á stöðu okkar frá þessum sjónarhóli.
Bloggarar hreykja sér af því, að þeir skipti meiru fyrir umræðuna á líðandi stundu en fjölmiðlamenn. Í því felst mikil gagnrýni á fjölmiðlana og ætti að vera áhyggjuefni fyrir þá, sem þar starfa. Eigendavaldið hefur grafið undan fjölmiðlunum og umræða um annað en skiptir í raun máli, dregur úr skírskotun þeirra til almennings.
Markaðs- og miðlararannsóknir (MMR) hafa kannað hve mikið traust fók ber til fjölmiðla. Fréttastofa Sjónvarps er á toppnum með tæp 77% traust. Mbl.is er með tæp 64% og fréttastofa Stöðvar 2 með 49%. Fréttablaðið er með 45,2% og Vísir.is 32.5%.Viðskiptablaðið mældist með 29,8%, Eyjan.is 13,6% og DV 4,7%.
Enga undrun vekur, að DV sé á þessum lista, þótt hitt sé athyglisvert, hve langlægst þetta blað Hreins Loftssonar er á listanum, en Hreinn hefur boðað, að hann hafi hug á að komast inn í Árvakur hf. til að setja mark sitt á Morgunblaðið.
Föstudagur, 05. 12. 08.
Ég talaði við þá félaga Þorgeir og Kristófer í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Þeir spurðu mig um einhliða upptöku annarrar myntar.
Skoðun mín er skýr, ég er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu en hlynntur því að skipta um gjaldmiðil, sé það talið skynsamlegt af hagfræðingum.
Ástæðulaust er að óttast hótanir Percys Westerlunds, sendiherra ESB á Íslandi, eða annarra talsmanna ESB, sem hafa í hótunum um refsingu, tækju Íslendingar upp evru einhliða. Meiri þungavigtarmenn um málefni ESB en Westerlund eins og Michael Emerson hafa rökstutt, hve fráleitt er, að ESB gæti beitt okkur einhverjum þvingunum vegna einhliða ákvarðana okkar um gjaldmiðil - þeir hafa einfaldlega ekkert um það að segja.
Hér heima fyrir mega talsmenn aðildar að Evrópusambandinu ekki heyra minnst á einhliða upptöku nýs gjaldmiðils, af því að þeir vita sem er, að með þvi missa þeir þá ástæðu fyrir aðild, að krónan sé ónýt. Þeir vilja löngu óvissuleiðina frekar en hina greiðfæru.
Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, ritaði grein í Morgunblaðiði í dag til varnar krónunni, ef rétt er skilið, en heldur var hún máttlaus og ósannfærandi. Þegar evran var tekin upp einhliða í Svartfjallalandi, voru þeir, sem höfðu vald á myntsláttunni, einnig óhressir. Hitt er, að hér eru rafræn viðskipti svo mikil, að seðlaprentun skiptir afkomu þjóðarbúsins í raun mjög litlu.
Fimmtudagur, 04. 12. 08.
Michael Emerson hefur gegnt mörgum trúnaðarstöðum á vettvangi Evrópusambandsins og þekkir innviði þess betur en nokkur hér á landi. Hann ritar í dag grein í Fréttablaðið til stuðnings einhliða upptöku evru. Sjónarmið hans eru allt önnur en Percy Westerlunds, sendiherra ESB gagnvart Íslandi, sem búsettur er í Ósló og lætur ekkert tækifæri ónotað til að hræða Íslendinga frá því að fara að þeim ráðum, sem Emerson gefur í grein sinni.
Emerson segir ekkert í lögum Evrópusambandsins eða alþjóðalögum sem bannar neinum að afla sér evra og nota í sparnað, viðskipti, bókhald og millifærslur. Evran er fyllilega innleysanlegur gjaldmiðill og engar svæðisbundnar takmarkanir við notkun hennar. Hann nefnir síðan hið sama til sögunnar og ég gerði hér á síðunni 12. júlí sl.
Hann segir: „Fjármálakreppuna, sem ríður nú yfir heiminn og hefur komið sérstaklega illa niður á Íslendingum, má sannarlega kalla sérstakar aðstæður; hún á rætur að rekja til hinna fjárhagslegu höfuðborga heims, sem hafa valdið Íslandi miklum búsifjum.“
Emerson segir ekkert kveðið á um um peningastefnu í EES-samningnum og því engin lagaleg stoð fyrir efnahagslegum refsiaðgerðum í garð Íslands. Slíkri kröfu yrði því hiklaust vísað frá af dómstólum ESB og EFTA. Það sé líka illmögulegt að rifta EES-samningnum við Ísland, því það krefðist einróma samkomulags aðildarríkjanna 27, sem sé ólíklegt að myndi nást.
Emerson segir, að tíminn muni lækna þau pólitísku sár, sem kunni að myndast í samskiptum Íslands og ESB með einhliða ákvörðun Íslendinga um evru og segir réttilega, að fyrir Íslendinga sé spurningin um gjaldmiðilinn brýn og aðkallandi, spurningin um inngöngu í ESB sé það ekki.
Þegar þetta er lesið, hljóta ýmsir að líta í eigin barm, sem hafa látist vita, að okkur yrði voðinn vís, ef við tækjum ákvörðun um evruna á eigin forsendum en ekki Evrópusambandsins.
Miðvikudagur, 03. 12. 08.
Í þessum skrifuðu orðum er Sölvi Tryggvason í Íslandi í dag að sauma að Agnesi Bragadóttur, blaðamanni á Morgunblaðinu, vegna þess að hann telur hana hafa skrifað ógætilega um Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason. Sigurður G. Guðjónsson, hrl., er í þættinum en þau Agnes eru vikulegir gestir hjá Sölva, sem spurði Agnesi, hvernig henni litist á að Hreinn Loftsson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs, eignaðist Morgunblaðið. Sigurður G. telur fréttastofu RÚV vera komna í pólitískt stríð við stjórnendur RÚV.
Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, sker sig úr þeirri samstöðu, sem mótast hefur milli forystumanna stjórnmálaflokkanna undir forystu forseta alþingis vegna rannsóknarnefndar í tilefni af bankahruninu. Hann ber fyrir sig sjónarmið um hugsanlegt vanhæfi dómara og gefur þar með til kynna, að ekki hafi verið hugað að því til hlítar við gerð frumvarpsins, en eins og ég hef þegar sagt, var frumvarpið lengur í smíðum en ella vegna afstöðu vinstri/grænna, sem stóðu að lokum að flutningi þess.
Atli hreyfir ekki aðeins vanhæfissjónarmiðum vegna þessa frumvarps, því að hann gaf til kynna í umræðum um sérstakan saksóknara, að ég væri vanhæfur til að skipa þennan saksóknara vegna ummæla, sem ég hefði viðhaft í Baugsmálinu! Hæstiréttur hafnaði hins vegar þessari vanhæfiskröfu við meðferð Baugsmálsins og mannréttindadómstóllin í Strassborg hafði kæru vegna þessa að engu og vísaði henni frá.
Þriðjudagur, 02. 12. 08.
Klukkan 17.00 var ég Iðnó á fundi hverfafélaga sjálfstæðismanna í Vestur- og miðbæ og Austurbæ-Norðurmýri um efnið: Ísland og öll hin löndin. Vorum við Bjarni Benediktsson, alþingismaður, frummælendur og var lagt fyrir okkur að svara þessum spurningum:
· Er Ísland að einangrast?
· Hvaða kostir standa opnir í gjaldeyrismálum?
· Hvernig er vænlegast að vega kosti og galla ESB aðildar?
Sagt er frá fundinum á mbl.is og nær sú frásögn nokkru af því, sem kom fram.
Kári Sölmundarson setti fundinn fyrir hönd fundarboðenda, hann bloggar einnig um hann og segir:
„Sem annar af skipuleggjendum þessa fundar var ég mjög ánægður með hann og tel fundi sem þennan sanni fyrir mér tilganginn með því að taka þátt í pólitísku starfi á milli kosninga eða vera “dindill” í Sjálfstæðisflokknum eins og Egill Helgason kallaði mig á heimasíðu sinni. Þarna voru málefnin rædd á opinn og jákvæðan máta og án upphrópanna sem fylgt hafa hinum svokölluðu “mótmælafundum”. Þarna kom í fyrsta sinn fram vilji Bjarna til að skoða aðild að Sambandinu þótt hann viðurkenndi að það eina sem við hugsanlega höfum þangað að sækja sé gjaldmiðill sem að mörgu leiti á undir högg að sækja.
Það sem ekki kemur fram í frétt mbl.is, er að allir fundarmenn sem tóku til máls voru eindregið á móti því að sækja um aðild að Sambandinu og sáu alla kosti betri í gjaldmiðilsmálum en að ganga í ESB til að taka upp Euro.
Eftir þennan fund og fleiri sem ég hef sótt er ég mjög efins um að á næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins verði stefnan sett á Evrópu.“
Ég tek undir með Kára um einarða andstöðu þeirra, sem spurðu okkur Bjarna, gegn ESB. Þar er greinilega um djúpa sannfæringu hjá mörgum að ræða og verður henni ekki haggað með mati á kostum og göllum ESB-aðildar.
Í tilefni af fullveldisdeginum ritaði ég grein á nýjan vefmiðil amx.is, sem hóf göngu sína í dag. Leiði ég líkur að því, að 90 ára sé fullveldið orðið of gamalt fyrir ESB-sinna.
Mánudagur, 01. 12. 08.
Ég ók framhjá stjórnarráðshúsinu í þann mund, sem Eva Hauksdóttir efndi til vargastefnu eða svartagaldurs gegn ríkisstjórn og embættismönnum á blettinum framan við húsið. Fámennur hópur veifaði svörtum flöggum og einu rauðu og svörtu. Norðanvindurinn lék um fánana og var það eina lífsmarkið með þessu furðuverki. Ég skil ekki hvernig Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sjónvarpsfréttamaður mbl.is, gat komist að þeirri niðurstöðu, að uppátækið hefði vakið „talsverða athygli“ eins og hún orðaði það.
Trúverðugleiki fjölmiðlamanna bíður hnekki, þegar þeir leitast við að mikla fjölda þátttakenda í mótmælum, enda hljóta þau að snúast um annað en talningu á þeim, sem koma til þeirra - eða hvað? Gangan niður Laugaveg var ákaflega fámenn í dag og aðeins nokkur hundruð manns sinntu kalli um þjóðfund á Arnarhóli. Að honum loknum hélt hópur fólks að seðlabankahúsinu og inn í anddyri þess í óþökk húsráðenda og lögreglu. Mótmælendur hurfu af vettvangi án vandræða.
Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti, kynnti Hillary Clinton sem utanríkisráðherra sinn í dag. Ekki ber það mikinn vott um breytinguna, sem hann boðaði í kosningabaráttunni. Valið er talið til marks um, að Obama hafi óttast áhrif Hillary í öldungadeildinni. Hitt er dregið í efa, að heilindi verði milli þeirra í ríkisstjórn, sem dragi úr líkum á samhæfðri framkvæmd utanríkisstefnunnar.