6.12.2008 20:36

Laugardagur, 06. 12. 08.

Ég las bók Óla Björns Kárasonar í gær og í dag um hrun FL-Group og fékk þar gleggri sýn en áður á íslensku fjármálakrísuna. Í pistli um bókina hvet ég til þess, að leitast sé við að líta á stöðu okkar frá þessum sjónarhóli.

Bloggarar hreykja sér af því, að þeir skipti meiru fyrir umræðuna á líðandi stundu en fjölmiðlamenn. Í því felst mikil gagnrýni á fjölmiðlana og ætti að vera áhyggjuefni fyrir þá, sem þar starfa. Eigendavaldið hefur grafið undan fjölmiðlunum og umræða um annað en skiptir í raun máli, dregur úr skírskotun þeirra til almennings.

Markaðs- og miðlararannsóknir (MMR) hafa kannað hve mikið traust fók ber til fjölmiðla. Fréttastofa Sjónvarps er á toppnum með tæp 77% traust. Mbl.is er með tæp 64% og fréttastofa Stöðvar 2 með 49%. Fréttablaðið er með 45,2% og Vísir.is 32.5%.Viðskiptablaðið mældist með 29,8%, Eyjan.is 13,6% og DV 4,7%.

Enga undrun vekur, að DV sé á þessum lista, þótt hitt sé athyglisvert, hve langlægst þetta blað Hreins Loftssonar er á listanum, en Hreinn hefur boðað, að hann hafi hug á að komast inn í Árvakur hf. til að setja mark sitt á Morgunblaðið.