Dagbók: júlí 2015

Föstudagur 31. 07. 15 - 31.7.2015 21:40

Í dag var haldið vel heppnað stórafmæli í Nice og Beaulieu-sur-mer. Fegurðin við Miðjarðarhaf var einstök í kvöldkyrrðinni: Þegar sólin settist birtist fullt tungl og varpaði birtu sinni að sléttan hafflötin.

Fimmtudagur 30. 07. 15 - 30.7.2015 17:00

Í gær var sagt frá því hér að ferðafélagi hefði kynnst landamæravörslu þegar hann fór með lest frá Ítalíu til Frakklands í suð-austur horni landsins. Þar gera menn ráðstafanir til að stöðva straum farandfólks frá Ítalíu og löndum handan Miðjarðarhafs.

Ástandið á þessum landamærum Frakklands er þó ekki eins dramatískt og í norð-vestur horni landsins þar sem umsátursástand ríkir í hafnar- og Ermarsundsganga-borginni Calais. Um árabil hefur farandfólk safnast þar saman í von um að finna sér far um göngin eða með ferju til Englands handan við Ermarsundið.

Þar var sérstakri móttökustöð fyrir þá sem vildu halda til Englands lokað fyrir 13 árum, árið 2003. Lokunin varð síður en svo til þess að stöðva straum farandfólks til Calais. Það virðist til þess búið að fórna lífinu fyrir það eitt að komast yfir sundið.

Aðfaranótt miðvikudags 29. júlí urðu enn einu sinni dramatískir atburðir í Calais. Þá var rúmlega 2.300 sinnum reynt að brjótast inn í stöð Eurotunnel, það er stöð fyrirtækisins sem á lestirnar sem fara undir Ermarsund, nóttina á undan voru tilraunirnar rúmlega 2.100. Um tveggja mánaða skeið hefur þessi tala hverja nótt verið á bilinu 1.500 til 2.000.

Frönsk yfirvöld saka Eurotunnel-fyrirtækið um að hafa minnkað öryggisgæslu á sínum vegum og þannig kallað á meiri ásókn fólks en áður. Af hálfu fyrirtækisins er þessu mótmælt og sagt að frá áramótum hafi það stöðvað að minnsta kosti 37.000 manns sem reyndu að lauma sér undir sundið í göngunum.

Í leiðara Le Monde í dag segir að ekki sé unnt að leysa þennan vanda með því einu að fjölga öryggisvörðum og lögreglumönnum. Bretland hafi aðdráttarafl fyrir þá sem vilji stunda svarta vinnu því að þar sé ekki krafist neins nafnskírteinis, það er skilríkja til að sanna hver maður er. Þá sé Bretland utan Schengen sem auki aðdráttaraflið. Spurt er hvort breyta þurfi Schengen-samkomulaginu. Hinir dramatísku atburðir sem gerist við Miðjarðarhaf og Calais sýni hvað sem öðru líði að brýnt sé að endurskoða evrópsk útlendingalög.

Miðvikudagur 29. 07. 15 - 29.7.2015 17:00

Eins og ég sagði frá í gær flugum við frá Genf til Nice í gær. Flugvöllurinn í Genf er með sérstakri franskri deild og gengur maður þar inn í Frakkland án nokkurrar skoðunar á vegabréfum enda er Sviss í Schengen-samstarfinu eins og Frakkland.

Ferðafélagi sem kom í dag með lest frá Ítalíu, hann flaug til Mílanó, sagði að landamæravarsla hefði verið í lestinni. Franskur vörður hefði gengið um og beðið fólk um skilríki. Hann horfði á íslenska vegabréfið án þess að skoða það. Ferðalangur frá Ástralíu sýndi sitt vegabréf sem var grandskoðað og hann beðinn um að sýna hvar hann hefði stimpil í því sem sýndi heimild hans til að ferðast til Frakklands, eftir nokkra leit fannst stimpillinn og vörðurinn hélt áfram för sinni.

Þetta sýnir að ríki í Schengen grípa til athugunar á vegabréfum eða skilríkjum ef þau kjósa. Frönsk stjórnvöld kanna ferðir fólks milli Ítalíu og Frakklands til að sporna við ferðum ólöglegs farandfólks sem leitar norður á bóginn eftir að hafa komist, oft við illan leik, yfir Miðjarðarhaf til Ítalíu.

Á baðströndum Ítalíu og Spánar er mikið um blökkumenn sem greinilega stunda ólöglega starfsemi. Þeir hreinsa á brott varning sinn af götumörkuðum þegar þeir sjá lögreglu eða fela sig innan um sólhlífar með dúka eða kókoshnetur sem þeir selja.

Engir farandsalar sjást hér á ströndinni. Yfirbragð hennar er einstaklega friðsælt og strandlífið er laust við allan átroðning ágengra prangara.

Þróun stjórnmála í Frakklandi ræðst mjög af því að yfirvöldum takist að halda þessu yfirbragði sem víðast í landinu og nú hefur François Hollande forseti sagt að það ráðist af fjölda atvinnulausra hvort hann bjóði sig fram til forseta að nýju árið 2017, honum gengur einstaklega illa að minnka það.

Þriðjudagur 28. 07. 15 - 28.7.2015 18:00

Flugum í dag með Icelandair til Genfar og þaðan með EasyJet til Nice við Miðjarðarhafsströnd Frakklands þar sem hitinn var um 27° þegar við gengum frá flugvellinum til að taka lestina í litla strandþorpið Beaulieu –sur-Mer þar sem blátt Miðjarðarhafið blasir við fyrir framan snarbrattar hlíðar. Hundruð báta eru í höfninni fyrir framan hótelið og snekkjur þar fyrir utan. Engin er þó eins stór og snekkja Allens sem var á ytri höfninni í Reykjavík gær.

Báðar flugvélar voru þéttsetnar en fjöldi farþega í flugstöðinni í Genf var hreint smáræði miðað við örtröðina í Keflavík. Við vorum með fyrra fallinu í flugstöð Leifs Eiríkssonar og losnuðum við lengri röð en 20 mínútur í öryggisskoðuninni.

Vélin tók sig á loft frá Keflavík 07.50 eða þar um bil og við lentum um 14.50 á ísl. tíma í Nice.

Mánudagur 27. 07. 15 - 27.7.2015 19:00

Guðmundur Andri Thorsson er fastur dálkahöfundur í Fréttablaðinu. Í dag, 27. júlí, fjallar hann um kaup Vefpressunnar á fjölmiðlafyrirtækinu Fótspor og segir meðal annars:

„Við verðum hér vitni að óvenju óskammfeilinni viðleitni að því að sölsa undir sig alla óþæga fjölmiðla í landinu til þess að stýra þjóðfélagsumræðunni; hafa áhrif á skoðanamyndun almennings.

Það er lífsafstaða í sjálfu sér að starfa við að segja og skrifa fréttir. Fjölmiðlafólk á helst ekki að hafa fullmótaðar skoðanir á nokkrum hlut og alls ekki einstrengingslegar. Það þarf hins vegar að vera tortryggið og forvitið um sannleikann og vilja bera honum vitni. Í flokkapólitík verður það að vera pólitísk viðrini. Það mætti gjarnan hafa svona þrjúhundruð og áttatíu ólíkar lífsskoðanir þar sem eitt rekur sig á annars horn, því að sannleikurinn er alltaf fullur af mótsögnum. Það má líka hafa réttlætiskennd til að bera og samlíðan með mönnunum því að of marga eineltisúlfa höfum við séð sveipa sig sannleikshempu blaðamennskunnar; það þarf að vera knúið áfram af hugsjón og þjónustulund við lesendur og hlustendur – en það má aldrei ganga í þjónustu fjármagnsafla, stórbokka, flokkapólitíkusa, valdsmanna, eða trúfélaga. Fjölmiðlafólk á ekki að aðhyllast neitt sem tekur endingunni -ismi.

Jón Ólafsson var eitt sinn ritstjóri blaðs sem hét Reykjavík. Hann skrifaði árið 1870 í blaðið sitt Baldur – og var átján ára gamall – að það væri ekki „skylda blaðamanns að fylgja áliti almennings“ heldur ætti blaðamaðurinn að vera „ráðgjafi lýðsins“. Þetta er ágæt skilgreining: að fjölmiðlarnir líti á starf sitt sem óvilhalla ráðgjöf og upplýsingagjöf sem hjálpi lesendum við að mynda sér eigin skoðanir. Það er göfug iðja.

Nú er svo komið að Sigmundi Davíð má ekki vera illa við fjölmiðil án þess að Björn Ingi hlaupi til og kaupi hann – væntanlega með fjármögnun MP-banka. Almannaheill er í húfi að strax linni loftárásum þeirra félaga á íslenska fjölmiðla.“

Þetta segir fastur dálkahöfundur blaðs sem frá 2002 hefur verið gefið út og dreift ókeypis inn á heimili í landinu til að fegra málstað Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fjársýslumanns og draga taum Samfylkingarinnar. Á dögunum var dálki Guðmundar Andra úthýst svo að Jón Ásgeir gæti gætt eigin hagsmuna undir nafni. Dálkahöfundurinn telur eiganda-anda Fréttablaðsins ríkja á öðrum fjölmiðlum.

 

Sunnudagur 26. 07. 15 - 26.7.2015 22:40

Ingimar Karl Helgason breytti Reykjavík vikublaði í málgagn róttækra vinstrisinna. Auglýsendur vildu standa undir kostnaði við prentun og dreifingu þessa efnis. Nú sýnist mælirinn þó fullur. Ingimar Karl skrifar kveðju til lesenda sinna á vefsíðu blaðsins í dag. Honum kom mjög á óvart í gær að heyra fréttir um að útgáfa blaðsins hefði verið seld til Vefpressunnar sem lýtur stjórn Björns Inga Hrafnssonar.

Ingimar Karl vitnar í fráfarandi útgefanda sem hafi „nýlega talað um að fjölga síðum í Reykjavík vikublaði með haustinu og hef ég heldur verið að hugsa á þeim nótum en öðrum,“ segir Ingimar Karl. Hann telur sig hafa náð góðum árangri við ritstjórnina og bætir við:

„Svo til allir aðrir fjölmiðlar hafa tekið upp fréttir úr næstum hverju einasta tölublaði Reykjavíkur vikublaðs allra síðustu misserin. Viðbrögð lesenda við efnistökum okkar og umfjöllun í Reykjavík vikublaði hafa jafnframt verið mjög mikil. […]

Viðbrögð úr sumum afkimum ráðandi afla hafa líka styrkt okkur í þeirri trú að við höfum verið að gera eitthvað sem skiptir máli.“

Ritstjórinn hrósar sérstaklega  Atla Þór Fanndal sem hafi „með elju sinni átt einna stærstan þátt í að lyfta Reykjavík vikublaði upp í úrvalsdeildina í blaðamennsku“.  Fjölmiðill sem setji hagsmuni almennings í fyrsta sæti muni vilja fá hann til starfa.

Af bréfinu má ráða að Ingimar Karl býr sig undir að hætta sem ritstjóri. Hann telur sig líklega ekki eiga samleið með Birni Inga eða að rými sé fyrir sig innan hins sístækkandi fjölmiðlaveldis Vefpressunnar.

Hér hefur oftar en einu sinni verið lýst undrun yfir efnistökum á Reykjavík vikublaði undir ritstjórn Ingimars Karls. Sjálfsagt er að Ingimar Karl og Atli Þór hafi vettvang fyrir skrif sín en að hann sé í blaði sem dreift er á kostnað auglýsenda í hús í Reykjavík gat aldrei gengið til lengdar. Það sagði sig sjálft. Verður forvitnilegt að sjá hvar þeir félagar stinga niður penna næst. 

Laugardagur 25. 07. 15 - 25.7.2015 18:15

Fyrir tveimur vikum ritaði í grein í Morgunblaðið sem lesa má hér. Þar færi ég rök fyrir tengslunum á milli öryggis Íslands og Eystraltsríkjanna. Í dag birtist grein á vefsíðunni politico.eu eftir Andrew A. Michta, prófessor við U.S. Naval War College og félaga í Center for Strategic and International Studies (CSIS) í Washington. Hún hefst á þessum orðum:

„Þótt það virðist enn stangast á við það sem mörgum þyki líklegt hefur hættan á stríði í Evrópu aldrei verið jafnmikil síðan kalda stríðinu lauk. Þá hafa leiðtogar stærstu ríkja Evrópu heldur aldrei verið í eins mikilli afneitun gagnvart pólitískum markmiðum Vladimirs Pútíns – að endurreisa áhrifasvæði Rússa – eða gagnvart því hve hratt stríð í Úkraínu getur tekið á sig mynd stærri átaka á norðaustur væng álfunnar.“

Grein bandaríska prófessorsins lýkur á þessum orðum:

„Að lokum verða vangaveltur um lokamarkið Pútíns aðeins fræðilegar og hið sama á við deilur um hvort hann sé sáttur við núverandi landvinninga í Úkraínu eða vilji meira. Við vitum hins vegar að valda-ójafnvægið á svæðinu sem teygir sig frá Norðurlöndum um Eystrasaltsríkin inn í Mið-Evrópu skapar raunverulega hættu á stríði, án varanlegra herstöðva Bandaríkjamanna og annarra bandalagsþjóða við landamæri NATO verður ekki skapaður nægur fælingarmáttur gegn hugsanlegri aðgerð Rússa, hvort sem hún verður blönduð eða venjuleg [þ.e. áróður, yfirgangur og íhlutun eða hefðbundin beiting hervalds].

Þeim meðal pólitískra forystumanna Evrópu og í hópi greinenda sem hafna enn svo róttækri sviðsmynd má benda á hve fáir töldu fyrir ári líklegt að ráðist yrði inn á Krímskaga, hann innlimaður og Úkraína síðan gerð að vígvelli í stríði. Þegar hugað er að Rússlandi Pútíns nú á tímum er rétt að vænta hins óvænta – eða öllu heldur meira af því sama.“

Þessa greiningu hins bandaríska prófessors, hana má lesa hér, ber að setja í samhengi við það sem fram hefur komið í varnarmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings undanfarna daga þar sem ný-tilnefndir yfirmenn herafla landsins hafa setið fyrir svörum. Þeir hafa allir sagt að eina ríkið sem geti ógnað Bandaríkjunum sé Rússland. Þeir vilja auka bandarískan herafla í Evrópu. Kúvending hefur orðið. Ísland er áfram lykill að öryggi á N-Atlantshafi. Áhrifa alls þessa gætir hér eins og annars staðar innan NATO.

 

 

 

Föstudagur 24. 07. 15 - 24.7.2015 17:45

Japanski fjölmiðlarisinn Nikkei (stofnaður 1876) keypti The Financial Times (stofnað 1888) af breska fyrirtækinu Pearson fimmtudaginn 23. júlí. Pearson sem sérhæfir sig í útgáfu kennsluefnis eignaðist FT árið 1957 seldi FT Group fyrir 1,2 milljarð evra og verður gengið frá sölunni fyrir árslok. FT Group á 50% í vikuritinu The Economist, sá hlutur fylgdi ekki með í sölunni til Japana.

Um 500 blaðamenn í 50 skrifstofum um heim allan starfa við FT. Blaðið er prentað í rúmlega 20 borgum heims og talið er að það nái hvern dag til um tveggja milljóna manna. Langflestir þeirra eru utan Bretlands, aðeins 69.000 eintök af FT seljast daglega þar og af þeim 36.000 í lausasölu. Þegar litið er á heildarupplag prent- og netútgáfu FT er það samtals 722.000 eintök um heim allan.

John Fallon, forstjóri Pearsons, færði þau meginrök fyrir sölunni að í „nýju umhverfi“ væri besta leiðin til að tryggja FT sem besta fjárhagslega og fréttalega framtíð að starfsemin tengdist hnattrænu upplýsingatækni-fyrirtæki.

Nikkei er vissulega slíkt fyrirtæki. Það er heimsþekkt fyrir kauphallarvísitölu með sama nafni. Árleg velta blaðsins Nikkei er 1,4 milljarðar (hjá FT er ársvelta 472 milljón evrur). Undir merkjum Nikkei er umfangsmesta fjölmiðlun á Japanseyjum með um 3.000 starfsmönnum. Morgunútgáfu blaðsins Nihoun Keizai Shibun er dreift í 2,8 milljónum eintaka en síðdegisútgáfunni í 1,4 milljónum, samtals 4,2 milljón prentuð eintök á dag, aðeins 430.000 eru netáskrifendur. FT varð árið 2001 meðal fyrstu blaða til að krefjast greiðslu af notendum á netinu.

Nikkeier hægra megin við miðju en ritstjórnarstefna FT er miðlæg. Bæði blöðin fylgjast náið með því sem gerist í heimi efnahagsmála og viðskipta. Þá nýtur menningarhluti FT viðurkenningar. Í frétt Le Monde um söluna á FT er sérstaklega tekið fram að blaðið hafi ekki séð fyrir fjármálahrunið árið 2008 en það hafi hins vegar ekki farið leynt með gleði sína yfir óförum evrunnar.

Forvitnilegt verður að fylgjast með tilraunum hins nýja japanska eiganda til að stækka hinn fámenna, sérhæfða lesendahóp FT.

Fimmtudagur 23. 07. 15 - 23.7.2015 17:30

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gefur til kynna í grein í Fréttablaðinu í dag að meira öryggi felist í að vera með evru en íslenska krónu og vísar þar til þess sem gerst hefur í Grikklandi.

Þegar Íslendingar lentu í bankahremmingunum fyrir tæpum sjö árum sættu þeir aldrei sömu örlögum og Grikkir vegna skuldavandans nú – grískir bankar voru lokaðir í þrjár vikur! Slíkt gerist aðeins í ríkjum þar sem ekki er unnt að treysta fjármálakerfinu. Aldrei kom til þess að ekki mætti nálgast þær krónur sem Íslendingar vildu eða nota greiðslukort í almennum alþjóðlegum viðskiptum hér á landi. Seðlabanki Íslands sá um að tryggja þetta öryggi. Sjálfur grunnurinn brást í Grikklandi sem gerðist ekki hér.

Á sínum tíma hafði Árni Páll illilega rangt fyrir sér þegar hann spáði hve skamman tíma tæki fyrir ríkisstjórnina sem hann studdi að semja um aðild að ESB. Á hverju hann reisti spá sína er ekki vitað – hann sýnist nú róa á sömu mið við heimildaöflun vegna greinaflokks um ESB sem hann boðar. Að halda að slík skrif verði Samfylkingunni til bjargar sannar aðeins kreppu flokksins og formanns hans.

Talsmenn ESB hér á landi láta gjarnan eins og aðild að sambandinu verði til að losa landbúnað úr opinberum viðjum og ýta undir lágt verð á landbúnaðarafurðum. Hlálegt er að lesa hugleiðingar um þetta á sama tíma og Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, hvetur franska bændur til að lama ekki franskt þjóðlíf með kröfum sínum um hækkun á verði nautakjöts og mjólkur.

Franskir bændur efndu til mótmæla fjórða daginn í röð í dag, fimmtudag, og settu upp vegatálma við Lyon, aðra stærstu borg Frakklands. Með framhaldi mótmælanna hafa bændur í raun hafnað loforði François Hollandes Frakklandsforseta um 600 milljóna evru aukafjárveitingu til að létta undir með þeim. Bændur leggja sig fram um að skapa vandræði á vinsælum ferðamannastöðum eins og við hið fræga Mont-Saint-Michel við Atlantshafsströnd Frakklands.

Hollande kvartaði undan notkun á erlendu hráefni í frönskum veitingahúsum og sagðist ætla að reyna að selja franska mjólk í ferð til Kína í nóvember. Hvað ætli ESB-aðildarsinnar segðu um svona tal íslenskra ráðamanna? Að þeir væru afturhaldssamir þröngsýnismenn? Allt yrði á annan veg með ESB-aðild?

 

Miðvikudagur 22. 07. 15 - 22.7.2015 22:00

Tony Blair, fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Bretlands, flutti í dag ræðu hjá hugveitunni Progress sem hallast að sjónarmiðum flokksins. Blair sagði að næði Jeremy Corbyn kjöri sem formaður flokksins eftir 51 dag jafngilti það afturhvarfi flokksins til níunda áratugarins og hann yrði 20 ár utan ríkisstjórnar. Fjórir takast nú á um formennsku í flokknum og hefur Corbyn 17 stiga forskot gagnvart þeim næsta.

Í ræðu sinni sagði Blair að græða ætti nýtt hjarta í þá sem segðust styðja Corbyn „af öllu hjarta“. Það væri ósk íhaldsmanna að Corbyn sigraði í formannskjörinu. Formannsframbjóðandinn svaraði Blair fullum hálsi í fjölmiðlum og sagði hann glíma við „mikinn vanda“ vegna rannsóknar Chilcot-nefndarinnar á Íraksstríðinu. Ummæli Blairs væru „heimskuleg“.

Blair er ekki aðeins illa þokkaður meðal vinstrisinna innan Verkamannaflokksins heldur meðal vinstrisinna í öllum Evrópulöndum sem telja hann hafa svikið hugsjónir sannra sósíalista til að komast í ríkisstjórn. Árásir á hann í þessa veru hafa heyrst úr röðum vinstrisinna hér. Þær hafa hljómað undarlega frá ráðamönnum VG sem fórnuðu hiklaust kosningaloforðum fyrir ráðherrastóla – Blair endurnýjaði þó Verkamannaflokkinn með nýrri stefnu.

Stefán Ólafsson, prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, hefur lagt þeim hugsjónalegt lið hér á landi sem vilja draga vinstrisinna lengra til vinstri. Stefán skrifar til dæmis um heilbrigðismál á Pressuna í dag í svipuðum dúr og Ed Miliband, fyrrv. leiðtogi Verkamannaflokksins, talaði fyrir þingkosningarnar í Bretlandi sl. vor. Hann tapaði illa og sagði af sér. Blair gagnrýnir hann nú harðlega þótt hann hafi dregist á að lýsa yfir stuðningi við Miliband í kosningabaráttunni.

Munurinn á Verkamannaflokknum og Samfylkingunni er sá að í Bretlandi berjast flokksmenn fyrir opnum tjöldum um menn og málefni. Hér á landi gerist allt í skúmaskotum og með leynibrögðum eins og þegar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gekk á síðustu stundu á hólm við Árna Pál Árnason, sitjandi formann flokksins. Hann sigraði með sínu eigin atkvæði og síðan hefur fylgi flokksins hrunið.

Samfylkingin er ekki aðeins forystulaus heldur einnig stefnulaus eftir að ESB-umsóknin rann út í sandinn. Skjól flokksins er hve mildilega er um hann fjallað opinberlega. Í Bretlandi veita fjölmiðlamenn brotnum flokkum ekki slíka vernd. Þá sýnir framganga Blairs að á úrslitastundu sitja gamlir foringjar ekki auðum höndum.

 

Þriðjudagur 21. 07. 15 - 21.7.2015 21:30

François Hollande Frakklandsforseti minntist 90 ára afmælis ESB-frömuðarins Jacques Delors sunnudaginn 19. júlí með grein í Journal du Dimanche þar sem hann ítrekaði tillögu sem hann nefndi í hefðbundnu fjölmiðlaviðtali þjóðhátíðardaginn 14. júlí um að setja yrði evru-svæðinu sameiginleg fjárlög, velja því eigin ríkisstjórn og kjósa sérstakt evru-þing.

Í greininni hvatti forsetinn til að mynduð yrði forystusveit ríkja á evru-svæðinu. Hann nefndi engin til sögunnar en síðar gerði Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, það og nefndi Frakkland, Þýskaland, Ítalíu og einnig önnur stofnríki ESB: Belgíu, Holland og Lúxemborg.

Hollande lauk grein sinni með þessum orðum: „Frakkar eru tilbúnir, minnugir fordæmis Jacques Derols: Frakkland verður ætið stærra með frumkvæði í þágu Evrópu.“

Þessi ummæli Frakklandsforseta falla vel að myndinni sem leitast er við að draga upp af honum um þessar mundir: hann hafi bjargað evru-samstarfinu með því að halda Grikkjum innan þess þrátt fyrir efasemdir annarra einkum Þjóðverja. Orð hans hafi vegið þungt gagnvart Angelu Merkel.

Nú leggja ýmsir málsmetandi menn í Frakklandi áherslu á að Hollande sé einum treystandi til að móta stjórnkerfi sem bjargi evrunni og samstarfi evru-ríkjanna.

Þegar að er gáð einkennast hugmyndir Hollandes ekki af frumleika. Þær eru gamalkunnar í umræðum um að annað hvort dýpki evru-ríkin samstarf sitt eða það splundrist. Vandinn er nú hinn sami og áður að engin þjóðanna vill að fullveldi sitt sé skert enn frekar – líklega síst af öllu Frakkar, megi dæma af sögunni, andstöðu við Maastricht-sáttmálann á sínum tíma og síðar stjórnarskrá Evrópu vorið 2005.

Hollande reynir að styrkja stöðu sína í Frakklandi með ákalli um meira yfirþjóðlegt vald á evru-svæðinu. Hann stendur ákaflega illa í skoðanakönnunum. Hvert hálmstrá er gripið. Þetta dugar Hollande þó ekki til endurreisnar.

 

 

Mánudagur 20. 07. 15 - 20.7.2015 23:40

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, var ráðherra í ríkisstjórninni sem vann að aðild Íslands að ESB án þess að hann vildi það. Hann minnir þannig dálítið á þann hluta grískra vinstrisinna innan stjórnarflokksins Syriza sem semur um afarkosti við ESB án þess að vilja það en  flokkurinn og formaður hans, Alexis Tsipras, knýr samt á um aðild að evru-samstarfinu þrátt fyrir hörmungar sem því fylgja.

Ögmundur segir á vefsíðu sinni í dag:

„Síðastliðinn föstudag fékk ég bréf frá annarri grískri vinkonu minni sem er þingmaður stjórnarflokksins, Syriza. Hún sagði að reiði væri ríkjandi, ekki síst innan Syriza. Mörgum þar fyndist ríkisstjórnin og þar með flokkurinn, hafa gengið alltof langt í undanlátssemi  við evrópska auðvaldið og erindreka þess. Margir væru reiðir og leiðir. Kannski væri depurð rétta orðið.

Ég svaraði því til að dagur kæmi eftir þennan dag. Grikkir hefðu með framgöngu sinni boðið fjármagninu byrginn. Það hefðu þeir gert hver svo sem nú yrði framvindan. […]

Auðvitað er nú  hætt við sundrungu innan Syriza. Það má hins vegar aldrei verða takmark í sjálfu sér að halda þeim flokki saman sem stofnun heldur að fylkja liði um þær hugsjónir sem hann er myndaður um. Öllu gildir nú samstaða um þessar hugsjónir. Ef forysta Syriza ber gæfu til að skilja mikilvægi þessa  mun sá flokkur styrkjast og dafna. Opin lýðræðisleg umræða innan Syriza um grundvallarstefnumarkmið flokksins og skyldra félagslegra afla mun halda hinum róttæku fánum blaktandi sem aldrei fyrr og kveikja í brjóstum okkar viljann til að brjótast út er þeirri herkví sem kapítalisminn hefur leitt okkur í allar götur frá því að æðstu prestar nýfrjálshyggjunnar hófu trúboð sitt í byrjun níunda áratugar síðustu aldar.“

Trúir Ögmundur þessu eða veit hann ekki betur? Ríkisstjórn Grikklands stendur höllum fæti og Syriza er á barmi þess að klofna. „Hinni evrópsku leið“ sem Ögmundur aðhyllist hefur verið hafnað á evru-svæðinu. Podemos, spænski systurflokkur Syriza, tapar fylgi í skoðanakönnunum. Róttækir vinstrisinnar, skoðanabræður Ögmundar, eru ráðalausir eftir að eina stjórnin sem þeir styðja innan ESB hefur ákveðið að ganga erinda auðvaldsins.

 

Sunnudagur 19. 07. 15 - 19.7.2015 18:00

Zhang Weidong er sendiherra Kína á Íslandi. Á vefsíðu Viðskiptablaðsins er í dag kynnt viðtal við hann sem áskrifendur blaðsins geta nálgast en í kynningunni má lesa þessi ummæli sendiherrans:

„Í Kína er til málsháttur sem er á þennan veg: „Við skiljum ekki hugmyndir herramannsins með þankagangi bjánans.“ Ég held að við þurfum að reyna að skilja hvort annað á jafningjagrunni. Við verðum að segja skilið við hugtök og þankagang Kalda stríðsins, þar sem við erum sífellt að tortryggja gjörðir hvert annars. Við þurfum ekki að reisa girðingar um okkur eða líta á hvort annað sem óvini, en þannig var Kalda stríðið. Því lauk fyrir fjölda ára, en þessi hugsanaháttur er ennþá til staðar hjá sumum. Kínverjar hafa sagt skilið við hann, og Kalda stríðs-hugmyndafræðina."

Skilja má þessi orð sendiherrans að þeir séu í hlutverki bjánans sem tortryggja kínversk stjórnvöld. Í gær var sagt frá því að Barack Obama Bandaríkjaforseti hefði um helgina rofið þá hefð að forsetar Bandaríkjanna gistu jafnan á Waldorf Astoria-hótelinu við Park Avenue í New York. Forsetinn hefði valið annað hótel vegna þess að Kínverjar ættu nú Waldorf Astoria og hann treysti þeim ekki fyrir öryggi sínu. Er Obama bjáni að mati sendiherrans?

Það er næsta hallærislegt að kenna varúð í samskiptum manna og þjóða við kalda stríðið um það bil aldarfjórðungi eftir að því lauk. Önnur viðhorf ríkja nú en þá eins og til dæmis má sjá af því að Japanir hafa ákveðið að hverfa frá stefnu sem þeir hafa fylgt í um 70 ár og bannaði her landsins að búa sig undir annað en sjálfsvörn. Neðri deild japanska þingsins hefur samþykkt lög sem heimila hernum að taka þátt í aðgerðum utan lögsögu Japans sé öryggi þjóðarinnar talið í hættu. Þetta er ekki síst rakið til ótta Japana við ögrandi stefnu kínverskra stjórnvalda.

Fráleitt er að kenna viðbrögð við því sem gerist í samtímanum við kalda stríðið. Ákefð við það minnir aðeins á þá kenningu að herforingjar búi sig jafnan undir að heyja að nýju stríð sem þegar er að baki í stað þess að horfa fram á veginn og tileinka sér nýja hugsun og aðferðir með hliðsjón af breyttum aðstæðu

Laugardagur 18.07. 15 - 18.7.2015 22:15

Frá því hefur verið sagt að fyrir aldarfjórðungi hafi Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, látið þau boð út ganga á ritstjórninni að ekki skyldi sótt hart að þeim sem ættu um sárt að binda vegna hruns Sovétríkjanna. Með öðrum orðum ekki ætti að sparka í liggjandi mann. Að sjálfsögðu réð ritstjórinn. Þegar ég vék að því á alþingi vorið 1995 að gera ætti upp við kommúnismann hér á landi varð dálítið uppnám í þingsalnum eins og sjá má kynni menn sér þingtíðindi.

Af því sem ESB-aðildarsinnar á Íslandi segja nú má ráða að þeim líði svipað og kommúnistum og fylgismönnum Sovétríkjanna árin 1989 til 1991. Sr. Baldur Kristjánsson segir á Pressunni í dag (18. júlí) að krísan í Grikklandi sýni hæfni ríkja í Evrópu til að leysa deilur við samningaborðið og hann harmar að Íslendingar hafi „stjórnmálamenn, embættismenn og almenningur“ hafi ekki komið að lausn krísunnar. Baldur segir:

„Sorglegast þykir mér þegar sömu aðilar og þeir sem reyna að berja á ESB fyrir það að láta ekki meira fé renna til Grikkja prïsa sínum sæla fyrir það að Ísland skuli ekki vera í ESB því að þá þyrftum við að borga. Stórmannleg afstaða einstaklinga þjóðar sem sjálf er óhrædd við að þyggja þegar færi gefst og þörf er á.“

Baldur skýrir lesendum sínum ekki frá hverjir hér á landi vilji að ESB láti Grikkjum meira fé í té. Hann lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Ég sé ekki betur en að Ísland verði utan við EB næstu áratugi. Vonandi tekst því þó að starfa náið með vinaþjóðum í Evrópu en fari ekki á beit milli stórvelda heimsins. Slíkt flakk gæti orðið okkur skeinuhætt um leið og reynslubolti eins og forseti vor heyrir sögunni til.“

Þetta eru skrýtin lokaorð. Ísland er aðili að EES og Schengen-samstarfinu, tveimur öflugum stoðum sem eru sameiginlegar með ESB-ríkjunum og auk þess er landið eitt af 28 aðildarríkjum NATO auk aðildar að Evrópuráðinu, Öryggissamvinnustofnun Evrópu og öðrum samtökum. Íslendingar þurfa ekki að fara á „beit milli stórvelda heimsins“, þeir hafa skipað sér í fylkingu. Ber að skilja lokaorð sr. Baldurs Kristjánssonar á þann veg að hann vilji að Ólafur Ragnar Grímsson gefi kost á sér til endurkjörs árið 2016?

Föstudagur 17. 07. 15 - 17.7.2015 19:30

Fréttir hafa birst í ríkisútvarpinu um að hópur hjúkrunarfræðinga hafi í huga að koma á fót hjúkrunarmiðlun sem selji ríkinu þjónustu sína samkvæmt gjaldskrá. „Starfsemin gæti gert hjúkrunarfræðingum kleift að starfa hér á landi á „boðlegum kjörum“. Hjúkrunarfræðingur sem stendur að hugmyndinni telur að hún feli ekki í sér skref í átt að einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum,“ segir á ruv.is í dag.

Tekið skal undir með Sóleyju Ósk Geirsdóttur sem kemur fram fyrir hönd þeirra sem að þessu verkefni vinna að ekki er um einkavæðingu að ræða heldur snýst málið um að stofna einkafyrirtæki sem selji ríkinu þjónustu sína. Er slík einkaþjónusta þegar fyrir hendi fyrir heilbrigðiskerfið en hún virðist þyrnir í augum ýmissa innan þess ef marka má nýlegar fréttir um óánægju innan Landspítalans með samninga sjúkratrygginga við einkaaðila um rekstur sjúkrahótels.

Á næstunni verður Klínikin ehf. opnuð en fyrir skömmu ræddi ég við Sigríði Snæbjörnsdóttur, hjúkrunarfræðing og framkvæmdastjóra hennar, í þætti mínum á ÍNN eins og sjá má hér. 

Sigríður hefur langa reynslu af störfum innan hins opinbera heilbrigðiskerfis og eru viðhorf hennar til einkarekstrar á þessu sviði athyglisverð. Í sjálfu sér er ekki undarlegt að hjúkrunarfræðingar líti til þess rekstrarforms. Samfelldar fréttir af vandræðum við rekstur Landspítalans benda til þess að starfsrammi sjúkrahússins stangist á við þær hugmyndir sem starfsmenn hans hafa um kjör sín og starfsaðstæður.

Sjaldan skilar góðum árangri að lappa upp á eitthvert kerfi sem er úr sér gengið og leiðir aðeins til deilna og óánægju.

 „Þeir vilja ekki semja við okkur og meta okkur ekki eins og við gerum sjálf. Þannig að við þurfum bara að taka málin í okkar hendur,“ sagði Sóley Ósk Geirsdóttir við fréttamann ríkisútvarpsins.

 

Fimmtudagur 16. 07. 15 - 16.7.2015 17:30

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sendi flokksmönnum neyðarkall í tölvubréfi í dag og segir meðal annars:

„Við getum ekki sætt okkur við 9,5% fylgi og verðum að bindast samtökum um að snúa þeirri stöðu við. Við lok landsfundarins í lok mars benti ég á að við þyrftum öll að vinna úr þeirri erfiðu stöðu – ég gæti það ekki einn. Það er enn sannfæring mín. Mestu skiptir að við stöndum saman um hugmyndina um samfylkingu. […]


Ef Samfylkingunni bregst ætlunarverkið veitir nafnið líka svar um hvað gerist: Ef við hættum að vera samfylking verðum við bara sundurfylking. Og það hlýtur að vera martröð okkar allra.


Ég vil þess vegna brýna okkur öll til að hugsa nú okkar ráð og velta því fyrir okkur hvert og eitt hvað við getum gert til að styrkja Samfylkinguna til að vera þá fjöldahreyfingu sem við höfum öll metnað til að hún verði á ný.“

Orðalagið á neyðarkallinu ber með sér að ástandið versni jafnt og þétt innan Samfylkingarinnar. Flokksformaður sem sendir frá sér slíka orðsendingu er kominn út í horn í eigin flokki. Hann er hættur að leiða flokkinn og kýs að gera vanda hans að vanda allra flokksmanna – þar er þó hver höndin nú þegar gegn annarri.

Furðuverk í nafni flokksins eru ekki til þess fallin að auka fylgi hans. Eitt slíkt var kynnt í dag þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri óskaði eftir því að innanríkisráðherra stofnaði með sér undirbúningsfélag vegna nýs flugvallar í Hvassahrauni. Þetta til marks um pólitíska firringu sem setur æ meiri svip á Samfylkinguna og framgöngu trúnaðarmanna hennar.

Vilji Árni Páll Árnason flokksformaður leggja grunn að nýju trausti í sinn garð ætti hann að biðjast afsökunar á yfirlýsingum sem hann hefur látið falla undanfarin sex ár um aðild Íslands að ESB og upptöku evrunnar. Hann ætti ekki aðeins að biðjast afsökunar fyrir sína hönd heldur einnig fyrir hönd Samfylkingarinnar. Hún hefur að nokkru leyti verið eins-máls-flokkur í þágu evru- og ESB-aðildar.  Fyrir liggur að þessi stefna hefur gengið sér til húðar ásamt Samfylkingunni – flokkurinn getur reynt að bjarga sér úr klemmunni með opinberri afsökunarbeiðni.

Miðvikudagur 15. 07. 15 - 15.7.2015 18:40

Ekki kemur á óvart að lögin sem sett voru til að stöðva verkfall félagsmanna BHM og hjúkrunarfræðinga standist stjórnarskrána eins og staðfest var í héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Að BHM undir formennsku Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra og þingmanns Samfylkingarinnar, hafi höfðað málið og ætli að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til hæstaréttar er aðeins til marks um pólitískt eðli kjarabaráttu BHM. Ætlunin er að nota BHM til að koma höggi á ríkisstjórnina í stað þess að gera kjarasamning fyrir félagsmenn. Nú mun gerðardómur ákveða laun félagsmanna í BHM og hjúkrunarfræðinga sem kolfelldu nýgerðan kjarasamning. Raunar mátti efast um að hugur fylgdi máli þegar forráðamenn hjúkrunarfræðinga kynntu samninginn sem þeir gerðu.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, sat fyrir svörum í gríska sjónvarpinu í gærkvöldi og lýsti fjálglega hvers vegna hann hefði neyðst til að gera samning í Brussel um skuldamál og ströng skilyrði um álögur á þjóðina án þess að vilja það! Hann stendur nú í ströngu í gríska þinginu til að fá skilyrðin samþykkt með atkvæðum stjórnarandstöðunnar. Vinsældir hans eru enn miklar meðal Grikkja, hins vegar er óvíst um líf stjórnar hans.

Löngum hefur verið rætt um hvernig haga skuli rétti þeirra sem fljúga á vegum ríkisins til vildarpunkta. Hafa verið gerðar atlögur í því skyni að afnema þennan rétt en ekki tekist. Nú er enn unnið að málinu. Einstaklingsbundinn réttur leiðir meðal annars til þess að þeir sem hans njóta vilja helst fljúga með vélum Icelandair og afla sér punkta eða njóta uppfærsluréttar á betra farrými séu þeir með kort sem veitir þeim þann rétt.

Nýlega var sagt frá atviki sem varð þegar þingmenn flugu til Íslands frá Washington. Atvikið varð um borð í flugvél frá Wow air. Í fréttum kom fram að Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata og þingmaður, hefði verið í hópnum en flogið með Icelandair. Líkleg skýring á því er flugkort hennar og vildarpunktasöfnun, hún vilji aðeins ferðast með Icelandair, til dæmis í von um að verða færð upp í Saga class þótt alþingi greiði miða á almennu farrými.

Verði reglunum um vildarpunkta breytt lætur Birgitta Jónsdóttir sér vafalaust í léttu rúmi liggja hvort alþingi kaupir fyrir hana miða með Icelandair eða Wow air.

Þriðjudagur 14. 07. 15 - 14.7.2015 19:30

Hvert sem litið er innan Evrópusambandsins lýsa menn undrun yfir aðförinni að Grikkjum til að halda lífi í evru-samstarfinu. Ráðamenn innan sambandsins reyna þó að berja í brestina með yfirlýsingum um nauðsyn meira samstarfs.

Í leiðara Le Monde segir í dag:

„Þegar á heildina er litið blasir við mynd af evru-samstarfi í algjörri upplausn án burða til að leysa skuldavanda ríkis þótt hagkerfi þess sé innan við 2% af ríkidæmi klúbbsins. Af því að hvorki gilda sameiginleg fjárlög né fyrir hendi er vel smurð leið til að leysa úr ágreiningi tekst ekki að veita ákveðnum klúbbfélögum fyrirgreiðslu án biturleika, uppnáms og ágreinings. Það er tímabært að hin evrópski andi falli að skynsemissjónarmiðum – það er löngu tímabært.“

François Hollande Frakklandsforseti ávarpaði þjóð sina í tilefni þjóðhátíðardags hennar og lýsti niðurstöðunni í Brussel að morgni mánudags 13. júlí sem „sigri“. Þá sagðist hann vilja sjá sérstakt þing fyrir 19 aðildarríki evru-samstarfsins til að tryggja lýðræðislegri aðferð við töku ákvarðana og hann vildi einnig að til sögunnar kæmi „efnahagsstjórn“ til að fara með evru-málefni. Hann mundi vinna að útfærslu þessara tillagna í samvinnu við ríkisstjórn Þýskalands. Það yrði að hætta að boða stöðugt til krísu-leiðtogafunda. „Við þurfum traustan grundvöll undir evru-svæðið,“ sagði Frakklandsforseti.

Hið undarlega við þessa ræðu er að yfirlýsingarnar eru í raun innantómar. Frakkar munu ekki samþykkja neinar tillögur í þessa veru. Þeir höfnuðu tillögunum um stjórnarskrá Evrópu í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2005 og þá var tekið til við smíði Lissabon-sáttmálans. Frakkar vilja ekki falla frá fjárhagslegu fullveldi sínu eins og Grikkir hafa neyðst til að gera.

Ræða Hollandes er hins vegar dæmigerð fyrir viðbrögð ráðamanna innan ESB þegar þeir vilja breiða yfir vandræðin innan ESB segja þeir einfaldlega: Það þarf bara að grafa dýpri holu.

Martin Schulz, forseti ESB-þingsins, tók undir með Hollande og sagði að koma yrði á fót „ríkisstjórn Evrópu“. Ekki væri lengur unnt að treysta leiðtogum einstakra landa fyrir lausn mikilvægra Evrópumála. Hann nefndi í því sambandi alþjóðaviðskipti, loftslagsmál, innflytjendamál, skatta-undanskot og myntsamstarf.

Ástæða er til að taka undir með leiðarahöfundi Le Monde: Það er löngu tímabært fyrir valdamenn innan ESB að láta skynsemina ráða. Þeir hafa hins vegar veðjað svo mjög á evruna að þeir geta það ekki.

 

 

Mánudagur 13. 07. 15 - 13.7.2015 15:00

Hér eru tvenn viðhorf evrópskra blaða í dag til evru-niðurstöðunnar vegna Grikkja.

Forsíðufrétt Le Monde:

„Klukkan er 9, bjartur morgun í Brussel. Evrópa fer á fætur, Grikkir eru enn á evru-svæðinu en allir eru dálítið timbraðir. Loks hafði tekist að finna leið til að bjarga fjárhag Grikkja, hún fannst eftir sautján tíma maraþonfund. Maraþonið hófst um hádegi á laugardardaginn [11. júlí]  þegar evru-hópurinn kom saman (fjármálaráðherrar evru-ríkjanna) og fundaði til hádegis á sunnudegi, skömmu síðar sama dag hittust leiðtogar evru-ríkjanna nítján. Samkomulag? Í raun einhver niðurstaða sem líkist helst algjörri uppgjöf Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.

Í skiptum fyrir skilyrt loforð – gríska þingið verður að samþykkja þrjú eða fjögur mikilvæg umbóta lagafrumvörp í síðasta lagi miðvikudaginn 15. júlí – um þriðja neyðarlánið til þjóðarinnar (82 til 86 milljarða evra) hefur uppgefinn, niðurlægður leiðtogi róttækra vinstri manna orðið að samþykkja lista með kröfum um umbætur sem sumar eru svo harkalegar að jafnvel evrópskum embættismönnum er nóg boðið – Grikkir eru settir eins og í öryggisgæslu. „Þetta er hryllings listi,“ segir í vikuritinu Der Spiegel. Þessu hefur öllu verið þröngvað upp á forsætisráðherra sem náði kjöri í krafti stefnuskrár gegn aðhaldi, gegn „þríeykinu“ – framkvæmdastjórn ESB í Brussel, Seðlabanka evrunnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum – gegn „Brussel-fyrirskipunum“.“

Á vefsíðu  þýska blaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung skrifar Patrick Bernau viðskiptaritstjóri síðunnar um niðurstöðuna í Brussel. Fjármálaráðherrar evru-landanna hafi hist á sjö fundum, þrír evru-leiðtogafundir hafi verið haldnir þar af einn í rúma 16 tíma. Þeir sem hafi sætt sig við ástandið fram að þessu geti tekið því rólega. Allir aðrir fyllist gremju. Það breytist sem sagt ekkert. Gríska þingið hafi til þess ekki tekið á smámálum þrátt fyrir kröfur evru-ríkja og skilyrði þríeykisins. Að það takist á við erfið mál núna sé ólíklegt.

Írar, Spánverjar, Portúgalir, Eistlendingar og Íslendingar hafi sýnt að með átaki megi snúa vörn í sókn – ekkert slíkt hafi gerst í Grikklandi og muni ekki gerast. Ekki sé um gríska uppgjöf að ræða nú frekar en fyrri daginn. Grikkir hafi samþykkt skilyrði til að fá 80 milljarða evra að láni og þar með komist gríska ríkið hjá erfiðustu sparnaðaaðgerðunum. Allt sé eins og áður, á næstu þremur árum versni staða Grikkja áfram og ágreiningur aukist innan ESB.

 

Sunnudagur 12. 07. 15 - 12.7.2015 22:10

Það er í raun furðulegt að velta á þessum tímum fyrir sér formsatriðum vegna afturköllunar ESB-umsóknar Íslands eða hvort aðferðin við afturköllun ráði einhverjum úrslitum um áhuga á umsókn í framtíðinni. Ástæðan fyrir að þetta er furðulegt núna eru heljartökin sem leiðtogar evru-ríkjanna hafa beitt gegn Grikkjum síðasta sólarhring. Hér hafa verið sett fordæmi sem hljóta að ráða mati allra sem huga að ESB-aðild. Fordæmi sem gera að engu öll helstu rök þeirra sem til þessa hafa mælt með aðild að ESB og upptöku evru. Efnisþættir málsins ráða að sjálfsögðu úrslitum en ekki hvort einhverjum formreglum sé talið áfátt – auk þess hafa allir stjórnmálaflokkar sagt að ekki verði rætt frekar um aðild við ESB án þess að þjóðin samþykki í atkvæðagreiðslu.

Hinn 5. júlí höfnuðu Grikkir í þjóðaratkvæðagreiðslu þeim kostum sem þeim voru settir vegna frekari fyrirgreiðslu af hálfu ESB, Seðlabanka evrunnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nú þegar hefur gríska þingið samþykkt að verða við þessum kostum og nú um helgina hefur Grikkjum verið sett enn strangari skilyrði.

Á vefsíðu The Guardian segir að evru-leiðtogar hafi í dag kynnt Grikkjum aðgerðir í ríkisfjármálum og kröfur um framkvæmd þeirra sem jafngildi því að gríska ríkið sé svipt fjárforræði „fiscal sovereignty“ eins og segir á ensku – þetta sé verðið sem Grikkir verði að greiða til að komast hjá fjármálalegu hruni og brottrekstri af evru-svæðinu. Angela Merkel Þýskalandskanslari og François Hollande Frakklandsforseti hafi sameiginlega sett Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, þessa úrslitakosti.

Í blaðinu segir ESB-embættismaður það hafi minnt á „exercise in extensive mental waterboarding“ – það er langvinnar andlegar pyntingar – þegar leiðtogarnir tveir vildu fullvissa sig um að Tsipras mundi standa við sinn hlut yrði veitt 86 milljarða evru fyrirgreiðsla sem dygði Grikkjum í allt að fimm ár.

Tímafresturinn sem Tsipras var settur er að mánudaginn 13. júlí samþykki gríska þingið heildarkröfur evru-leiðtoganna og síðan nokkur lagafrumvörp í síðasta lagi miðvikudaginn 15. júlí, þar á meðal um eftirlaun, virðisaukaskatt.

Leiðtogafundinum lauk án niðurstöðu. Grikkir eiga næsta leik. [ps. Hér fór ég með rangt mál - það var gert hlé á fundinum honum lauk 07.00 mánudag 13. júlí með niðurstöðu.]

Að nokkrum íslenskum stjórnmálamanni detti í hug að mæla með ESB- og evru-aðild eftir þau ósköp sem nú gerast í Brussel hlýtur að teljast með ólíkindum – jafnvel þótt formsatriði við afturköllun umsóknarinnar frá 2009 veki deilur.

 

 

Laugardagur 11. 07. 15 - 11.7.2015 21:30

Enn einu sinni er beðið niðurstöðu evru-ráðherrahópsins sem kom saman til fundar í Brussel í dag til að ræða sama mál og undanfarin tæp sex ár: hvað gera skuli við Grikki vegna skuldavanda þeirra. Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði fyrir fundinn að hann yrði einstaklega erfiður. Jeroen Dijsselbloem, formaður hópsins, sagði að vandinn snerist ekki síst um trúnaðartraust í garð Grikkja.

Síðdegis birti Frankfurter Allgemeine Zeitung að Schäuble og ráðuneyti hans teldi um tvo kosti væri að ræða: (1) Grikkir hertu aðhaldið enn frekar, (2) Grikkir tækju sér „5 ára frí“ frá evru-aðild til að koma skikki á ríkisfjármál og efnahagsmál sín.

Spurningin um traust vaknar vegna þess að fyrir viku treystu grískir kjósendur Alexis Tsipras forsætisráðherra þegar hann hvatti þá til að hafna afarkostum lánardrottna. Um 61% fór að óskum hans. Í gær lagði hinn sami Tsipras hins vegar til á gríska þinginu og fékk samþykkt að ganga til móts við kröfur lánardrottnanna og jafnvel lengra en þeir vildu í síðustu viku.

Fullskipað leiðtogaráð ESB-ríkjanna hefur verið boðað til fundar í Brussel á morgun. Fundurinn verður ef til vill afboðaður nái fjármálaráðherrarnir ekki sameiginlegri niðurstöðu.

Verði samkomulag á þessum fundum á enn eftir að útfæra það og samþykkja í þeim ESB-ríkjum þar sem skylt er að bera það undir þjóðþingin, þar á meðal í Finnlandi, Eistlandi og Þýskalandi.

Heimildarmenn finnska ríkisútvarpsins YLE sögðu í kvöld að finnsk stjórnvöld styddu ekki tilboð Grikkja eins og það var lagt fyrir ráðherrahópinn en endanleg afstaða mótaðist á fundi hópsins. Alexander Stubb fjármálaráðherra hefði samráð við nefnd finnska þingsins sem veitti ráðherrum umboð á fundum ESB.

Þegar þetta er skrifað um klukkan 21.00 (23.00 í Brussel) segir Le Monde að unnið sé að frágangi tilkynningar frá evru-ráðherrahópnum og líklegt sé að Grikkjum verði sett frekari skilyrði. Þá segir The Guardian að Ítölum sé meira en nóg boðið og Matteo Renzi forsætisráðherra muni á morgun krefjast þess af Angelu Merkel Þýskalandskanslara að hún geri út um málið með Alexis Tsipras – mælirinn sé fullur!

ps. Fundi evru-ráðherrahópsins lauk án samkomulags um yfirlýsingu - nýr fundur boðaður að morgni sunndags kl. 11.00 á Brussel-tíma.

Föstudagur 10. 07. 15 - 10.7.2015 21:20

Í dag var 200 afmælis Hins íslenska biblíufélags minnst á hátíðlegan hátt með messu í Dómkirkjunni og síðan var athöfn í Reykjavíkurkirkjugarði og skjöldur afhjúpaður á húsinu við Aðalstræti 10 eins og sjá má hér. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hitti Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB, í Brussel í morgun. Eftir fundinn birti ruv.is þessa frétt:

 „Það var mikil jákvæðni ríkjandi í garð Íslands. Ég held að menn séu fyrst og fremst fegnir að það sé komin niðurstaða í það hvernig sambandi Íslands og ESB verði háttað og menn geti þá byggt á því.“ 

Hann [Sigmundur Davíð] segir að Ísland sé reiðubúið að ráðleggja Evrópusambandinu varðandi fiskveiðistjórnun. Mikill áhugi á þeim málum hafi komið fram í heimsókninni. Jafnframt styðji Ísland það að ESB hafi áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu.

Báðum fundum Sigmundar Davíðs með leiðtogum Evrópusambandsins [hann hitti Jean-Claude Juncker í gær] er nú lokið. Sigmundur segist mjög ánægður með framvindu beggja funda. Þeir hafi þó vissulega litast af ástandinu í Grikklandi.

„Auðvitað setur ástandið í Grikklandi núna svolítið strik í reikinginn og við veltum vöngum yfir því,“ segir Sigmundur. „Auðvitað veit enginn hvernig það fer á endanum en við ræddum hvaða leiðir á endanum væru færar og líklegastar og hvaða áhrif það kynni að hafa á önnur Evrópulönd.“ […]

Aðspurður hvort þetta [fjárfesting Kínverja á Íslandi] sé liður í því að dreifa áhættunni, segir Sigmundur: „Við auðvitað tökum vel í allt slíkt en viljum auðvitað eiga slík uppbyggileg samskipti við fleiri lönd. Ekki bara Kína heldur lönd um allan heim og erum vel í stakk búinn til þess, enda eru fá lönd með fríverslunarsamninga við jafnmörg ríki eins og Íslendingar.“

 

Athygli vekur að í fréttinni er ekki minnst einu orði á stöðu Íslands gagnvart ESB.

Í frétt forsætisráðuneytisins um fundina segir ráðherrann:  

„Ríki Evrópusambandsins eru okkar mikilvægustu viðskiptaaðilar og nánar vinaþjóðir. Að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki breytir engu þar um. Ég átti mjög góða fundi með forvígismönnum Evrópusambandsins sem hafa góðan skilning á afstöðu íslenskra stjórnvalda og virða að fullu þær ákvarðanir sem þar hafa verið teknar.“

Öllum á fundum forsætisráðherra í Brussel var auðvitað ljóst að Ísland er ekki hópi umsóknarríkja.

 

 

Fimnmtudagur 09. 07. 15 - 9.7.2015 23:40

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er um þessar mundir í Brussel og hitti í dag Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og staðfesti afturköllun umsóknar Íslands um ESB-aðild. Hann sagði við sjónvarpið eftir fundinn að sambandið við ESB væri „afslappaðra“ en það hefði áður verið. Orðalagið verður ekki skilið á annan veg en að samskiptin séu góð á grunni EES-samningsins og Schengen-samstarfsins.

Sigmundur Davíð sagði einnig við sjónvarpið að Grikkir færu úr evru-samstarfinu. Þetta sagði ráðherrann áður en sagt var frá tillögunum sem Grikkir áttu að skila í dag svo að fullskipað leiðtogaráð ESB gæti tekið afstöðu til þeirra á fundi sunnudaginn 12. júlí.

Í nýju tillögum gríska forsætisráðherrans segir að virðisaukaskattur á veitingastöðum verði hækkaður í 23% og í 13% á hótelgistingu. Þá er boðað að frá með lokum ársins 2016 hverfi ívilnanir á virðisaukaskatti á grísku eyjunum.

Gert er ráð fyrir hækkun skatta á almenn fyrirtæki og skipafélög. Þá verður skattar á lúxusvarning og auglýsingar í sjónvarpi tafarlaust hækkaðir.

Einkavæðingaráformum verður fram haldið en þau voru fryst þegar Alexis Tsipras komst til valda.

Á vefsíðu The Daily Telegraph segir í kvöld að Þjóðverjar láti nú loks undan þrýstingi ríkisstjórna margra landa og lykilstofnana um afskriftir skulda Grikkja. Þessi breyting á afstöðu þýsku ríkisstjórnarinnar kunni að rjúfa fimm mánaða þrátefli og koma í veg fyrir að evru-samstarfið springi á sunnudag.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði á Twitter í morgun að bærust raunhæfar tillögur frá Grikklandi yrði að svara þeim með raunhæfum tillögum frá lánardrottnum vegna skuldahlutfallsins [nú um 180% af VLF] til að skapa aðstæður til hagsbóta fyrir alla.

Sigmundur Davíð hittir Donald Tusk á morgun. Spurning er hvort forsætisráðherra verður sömu skoðunar um skammvinna evru-aðild Grikkja eftir þann fund.

Miðvikudagur 08. 07. 15 - 8.7.2015 23:55

Í dag birtist versta skoðanakönnun fyrir Samfylkinguna síðan flokkurinn var stofnaður árið 2000. Af því tilefni skrifar Björgvin G. Sigurðsson, fyrrv. framkvæmdastjóri og ráðherra flokksins, á Pressuna:

„Eru þetta síðustu dagar Samfylkingarinnar? Getur formaðurinn Árni Páll Árnason náð flokknum á flug? Svarið við báðum spurningunum er að mínu mati afgerandi: Flokkurinn tekur flugið á ný, enda frjálslynd jafnaðarstefna klassísk pólitík sem hefur aldrei átt meira erindi en nú og jú Árni getur það. Til þess þarf hann auðvitað stuðning innan flokks og utan, og finna að hann hefur þann stuðning.“

Á landsfundi Samfylkingarinnar á liðnum vetri var Árni Páll endurkjörinn formaður með aðeins eins atkvæðis mun. Hann fann ekki þann stuðning innan flokksins sem Björgvin G. telur flokknum til bjargar. Árni Páll hefur komið fram í fjölmiðlum undanfarið og viðurkennt hve flokkurinn stendur illa og var þó ekki fylgið þá orðið undir 10% eins og það mælist nú.

Árni Páll hefur ekki burði til að lyfta flokknum á flug. Fylgið hefur fallið í réttu hlutfalli við framgöngu þingmanna hans undanfarið en af gögnum alþingis má ráða að Össur Skarphéðinsson er athugasemdakóngur síðasta þings. Ekki hefur það bætt stöðu flokksins að hann hafi látið ljós sitt skína svona oft í ræðustólnum á þingi.

Að Björgvin G. skuli varpa fram spurningu um hvort þetta séu síðustu dagar Samfylkingarinnar segir í raun allt sem segja þarf um stöðu flokksins. Hann er að renna sitt skeið í núverandi mynd.

 

 

Þriðjudagur 07. 07. 15 - 7.7.2015 19:00


Le Monde sagði um klukkan 18.00 ísl. tíma að á fundi með François Hollande Frakklandsforseta, Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hefði Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, ásamt Euclide Tsakalotos, fjármálaráðherra Grikklands, lagt fram nýjar skriflegar tillögur. Segist blaðið hafa heimildir fyrir að ríkisstjórn Grikklands skuldbindi sig til að grípa til kerfisbreytinga gegn því að veitt verði frekari fjárhagsaðstoð auk uppstokkunar á skuldum. Í tillögunni kunni að felast aðlögun Grikkja að kröfum framkvæmdastjórnar ESB frá 30. júní en þá höfnuðu Grikkir kröfunum.

Le Monde segir að framlagning tillagnanna á þessum fundi leiðtoganna hafi vakið undrun. Tillögurnar hefðu átt heima á fundi fjármálaráðherranna í evru-hópnum fyrr í dag en þangað hafi Grikkir hins vegar komið tómhentir.

Um svipað leyti og Le Monde birti þessa frétt á vefsíðu sinni var sagt frá símtali Baracks Obama Bandaríkjaforseta við Angelu Merkel. Obama ræddi við Tsipras áður en hann fór inn á evru-leiðtogafundinn. Segja fjölmiðlamenn að Obama vilji að Grikkir haldi áfram evru-samstarfinu. Breska blaðið Telegraph segir á vefsíðu sinni að Obama hafi látið í sér heyra vegna ávænings um að innan evru-hópsins heyrðust  raddir um að Grikkjum væri betur borgið án evru.

Í raun eru Grikkjum allar bjargir bannaðar verði þeim ekki veitt eitthvert fjárhagslegt svigrúm af Seðlabanka evrunnar (SE). Hann hefur þó í raun ekki heimild til að láta þeim í té meira fé vegna þess að ekki liggur fyrir nein stefna grísku ríkisstjórnarinnar um efnahagsmál. Geri leiðtogaráð ESB Tsipras fært að móta slíka stefnu kann að losna um fé Grikkjum til handa innan SE. Hinn pólitíski vilji þarf að liggja fyrir svo að SE hreyfi sig frekar gagnvart Grikkjum.

Bankar hafa nú verið lokaðir í 10 daga í Grikklandi. Tuttugu evru seðlar eru uppurnir í hraðbönkum en þar er enn unnt að nálgast 50 evru seðla, einn slíkan mega Grikkir taka út á dag í stað 60 evra á meðan 20 evru seðlar voru í vélunum. Þannig virkar Seðlabanki evrunnar sem lánveitandi til þrautavara – hann skrúfar fyrir seðlastreymi. Nú heyrast raddir um lokun banka fram á mánudag 13. júlí og annar evru-leiðtogafundur verði sunnudag 12. júlí. Sagan endalausa heldur áfram.

 

Mánudagur 06. 07. 15 - 6.7.2015 20:40

Samtal mitt á ÍNN við Arngrím Jóhannsson flugstjóra er komið á netið og má sjá það hér: 

Valéry Giscard d'Estaing, fyrrverandi forseti Frakklands, sem beitti sér fyrir inngöngu Grikklands í ESB árið 1981 segir að nú eigi að „gefa Grikkjum frí“ frá evrunni eins og hann orðar það í samtali við vikuritið l‘Express í dag. Hann segir að þeir sem fara með stjórn Grikklands og hafa gert síðan í þingkosningunum í ársbyrjun hafi unnið gegn markmiðum Maastricht-sáttmálans um efnahags- og myntsamstarfið. Það snúist ekki aðeins um sameiginlega mynt heldur einnig efnahagsstefnu sem grískir ráðamenn hafi haft að engu eftir að þeir komust til valda að kosningum loknum.

Hann sakar frönsk stjórnvöld um að sýna Syriza, stjórnarflokki Grikklands, of mikinn velvilja. Flokkurinn hafi vissulega fengið lögmætan stuðning kjósenda en hann hafi fylgt annarri efnahagsstefnu en önnur evru-ríki. Strax hefði átt að bregðast við því á þann veg að Grikkir hyrfu stig af stigi úr evru-samstarfinu. Franska stjórnin hafi verið of eftirgefanleg gagnvart Grikkjum en nú hvíldu 700 evrur á hverjum Frakka vegna lána til Grikkja. Þjóðverjar hafi hins vegar fylgt skynsamri stefnu. Það hafi til dæmis verið dapurlegt að Frakkar beittu sér gegn því fyrir tveimur árum að Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, yrði formaður evru-ráðherrahópsins. Hann hafi verið hinn langhæfasti en samt hafi Frakkar beitt sér gegn honum. Það hafi verið alvarleg pólitísk mistök.

Yanis Varoufakis sagði af sér embætti fjármálaráðherra með þeim orðum að hann ætlaði ekki að íþyngja viðmælendum Grikkja með návist sinni. Í stað hans er Euclid Tsakalotos orðinn fjármálaráðherra, fyrrverandi staðgengill Varoufakis í skuldaviðræðunum. Hann er þjóðhagfræðingur og fylgir „að sjálfsögðu“ stefnu Keynes um aukinn ríkisútgjöld segir Michael Martens, fréttaritari Frankfurter Allgemeine Zeitung í Grikklandi.

Hann segir æviágrip Tsakalotos svipað og margra annarra ráðamanna innan róttæku vinstri hreyfingarinnar Syriza: Þeir ólust upp hjá vel stæðum foreldrum, gengu í bestu háskóla heims og hafa aldrei sjálfir kynnst fjárhagserfiðleikum. Til þessa hafa þeir aðeins litið á stjórnmál með augum fræðimannsins. Tsakalotos fæddist í Rotterdam 1960, hann lagði stund á hagfræði, stjórnmál og heimspeki í Oxford þar sem hann varð doktor árið 1989. Síðan kenndi hann í háskólunum í Kent og Aþenu, skrifaði nokkrar bækur og margar greinar í fræðirit, fjöldi vísana í heimildir séu fleiri en fjöldi lesenda skrifanna.

 

Sunnudagur 05. 07. 15 - 5.7.2015 20:15

Brusselmönnum varð ekki um sel fyrir rúmri viku þegar Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, ákvað að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um skilyrði þríeykisins vegna skuldavanda Grikkja. Þríeykið, ESB, Seðlabanki evrunnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn,  krafðist þess að skuldum óreiðubanka yrði breytt í opinberar skuldir og velt yfir á herðar grískra skattgreiðenda. Talsmenn þríeykisins hafa krafist hærri skatta og lægri ríkisútgjalda.

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í dag verða ekki til að minnka áhyggjur í Brussel.  Kosningaþátttakan var tæplega 60%, um 61% sögðu nei við afarkostunum og um 39% já. Spádómar um að mjótt yrði á munum reyndust rangir – sigur nei-manna er stærri en nokkurn grunaði. Enn einu sinni hafa skoðanakannanir reynst rangar. Nú er sagt að hærra hlutfall ungs fólks hafi kosið í Grikklandi en áður og það hafni afarkostunum, lífeyrisþegar hafi sagt já.

Tsipras tók áhættu með þjóðaratkvæðagreiðslu og sigraði. Grikkland er enn vagga lýðræðisins. Grikkir höfnuðu hinu yfirþjóðlega valdi og afarkostum þess.

Enginn veit hvað við tekur. Sambærilegt ástand hefur aldrei skapast innan ESB. Tsipras lofaði að 48 stundum eftir úrslitin yrðu bankar opnaðir að nýju eftir vikulanga lokun. Hvernig verður það gert? Með samhliða mynt (scrip)? Nú geta Grikkir ekki tekið nema 50 evrur á dag úr hraðbönkum vegna þess að 20 evru seðlar eru á þrotum. Þannig reynist Seðlabanki evrunnar sem þrautavarabanki. ESB vildi kannski ýta undir hræðslu Grikkja með því að svipta þá 20 evru-seðlum á lokametrunum fyrir kjördag?

Fréttir berast um að Alexis Tsipras hafi rætt við François Hollande Frakklandsforseta eftir að úrslitin urðu ljós. Frakkar segja Hollande brúarsmið milli Tsipras og Angelu Merkel Þýskalandskanslara sem ætlar til Parísar á morgun.

Merkel á meira undir eigin þingflokki en grískum kjósendum. Innan þingflokksins hefur vegur Wolfgangs Schäubles fjármálaráðherra vaxið vegna óþols hans gagnvart stjórnarherrunum í Aþenu. Hann var sýndur sem óvinur nr. 1 í kosningabaráttunni.

Næstu dagar munu leiða í ljós hvort úrslitin í Grikklandi lækka rostann í Brusselmönnum og verða til að breyta afstöðu þeirra til Grikkja. Lögum samkvæmt taka fjármálaráðherrar evru-ríkjanna hina formlegu ákvörðun sem kann að auka svigrúm grísku stjórnarinnar. 

Laugardagur 04. 07. 15 - 4.7.2015 19:30

Der deutsche Finanzminister Wolfgang Schäuble ist das Feindbild Nummer 1 in Griechenland. Doch die Deutschen hasst niemand.

„Þýski fjármálaráðherra Wolfgang Schäuble er óvinur nr. 1 í Grikklandi. Enginn hatar þó Þjóðverja,“ segir í upphafi aðalfréttar á vefsíðu Frankfurter Allgemeine Zeitung síðdegis í dag, daginn fyrir afdrifaríka þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi.

L'avenir de l'Europe se joue à Athènes

L'issue du référendum grec de dimanche 5  juillet est totalement incertaine, selon les ultimes sondages. Les deux camps se sont mobilisés jusqu'au bout.

Franska blaðið Le Monde  gaf úr sérstakt blað í dag með ofangreinda fyrirsögn yfir þvera forsíðu: Framtíð Evrópu í húfi í Aþenu. Í upphafi forsíðufréttarinnar segir: „Úrslit grísku þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru algjörlega óljós ef marka má síðustu kannanir. Báðir aðilar berjast til þrautar.“  

Segi meirihluti Grikkja já er líklegt að hið sama gerist í Grikklandi og þegar George Papandreou hrökklaðist frá völdum að til verði kallaðir menn sem eru á sömu bylgjulengd og Brusselmenn, fyrrverandi embættismenn ESB, og þeim verði falið að festa Grikki í þeirri umgjörð (fjötrum?) sem ráðamönnum ESB þóknast.

Segi meirihluti Grikkja nei hefst lagaþræta um réttarstöðu þeirra og túlkun á ákvæðum sáttmála ESB um að ESB-ríki með evru sé evru-ríki til frambúðar og ekki sé unnt að breyta því. Fer Grikkland tímabundið úr ESB? Eða varanlega?

Could Greece become the European Venezuela? Getur Grikkland orðið evrópskt Venezúela? spyr breska blaðið The Daily Telegraph í fyrirsögn laugardaginn 4. júlí. Í frásögninni sem fylgir kemur fram að tengsl milli stjórnvalda í Aþenu og Caracas, höfuðborg Venezúela, hafi orðið náin eftir að róttæka vinstra bandalagið Syriza komst til valda í Grikklandi. Ráðamenn landanna sameinist í ástríðu í þágu sósíalisma og fyrirlitningu í garð „ný-frjálshyggjumanna“. Þegar Hugo Chavez, leiðtogi sósíalista, var borinn til grafar í Caracas var Alexis Tsipras þar og eftir að hann varð forsætisráðherra hefur hans verið beðið sem opinbers gests enda fögnuðu Chavistar sigri hans með þeim orðum að „ferskir pólitískir vindar“ blésu í Evrópu.

Hver sem úrslitin verða í Grikklandi stendur ESB á tímamótum. Einni aðildarþjóð er misboðið vegna miðstýringar sem sviptir hana úrræðum til að leysa eigin vanda á eigin forsendum. Leið hinna ráðandi afla innan ESB felst ekki í að losa um tökin heldur herða þau.

 

Föstudagur 03. 07. 15 - 3.7.2015 21:40

Alþingi lauk störfum fyrir sumarleyfi í dag, við þinglok sagði Einar K. Guðfinnsson þingforseti: „Samþykkt hinna svokölluðu haftafrumvarpa fyrr í dag verð[ur] að teljast í senn mikilvægasta og merkasta löggjöf þessa þings og þótt lengra sé leitað. Í þeim skilningi er 3. júlí 2015 augljóslega sögulegur dagur“.  Lagasetningin væri einhver mikilvægasta varðan á leið þjóðarinnar til framtíðar út úr hinum miklu efnahagsáföllum. Nú gæti þing og þjóð horft til nýrra verkefna á komandi árum.

Þingforseti harmaði gang mála á þinginu. Hann gæti ekki leynt vonbrigðum sínum, persónulegum vonbrigðum, vegna þess að starfsáætlun þingsins hefði ekki staðist. Þá sagði hann:

„Það var rauður þráður í máli flestra ræðumanna í eldhúsdagsumræðunum í fyrrakvöld, jafnt stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, að endurskoða þyrfti vinnubrögðin hér á Alþingi. Þetta var einkar eftirtektarvert. Nú vil ég taka þingmenn á orðinu. Það er mikilvægt að bregðast við og vinna rösklega og markvisst að því að gera breytingar, sem ég veit að þingmenn í hjarta sínu óska eftir. Verði allir alþingismenn og ráðherrar tilbúnir að leggja sitt af mörkum til þeirrar endurskoðunar hef ég trú á því að góðir hlutir gerist. En þá dugar ekki að skyggnast bara eftir flísinni frægu í auga náungans. Við þurfum öll, undanbragðalaust, að líta okkur nær.“

Einar K. Guðfinnsson taldi sjálfstætt og óumflýjanlegt verkefni að breyta þeirri stjórnmálamenningu sem hvíldi eins og farg á þinginu. Það stæði engum nær en þingmönnum sjálfum. Varpaði hann fram þeirri hugmynd að forustumenn flokka eða fulltrúar þeirra færu yfir þennan þátt sérstaklega í því skyni að sammælast um leiðir til að vinna bót á honum.

Ekki er unnt að óska alþingi annars en vilji forseta þess rætist. Lengra verður tæplega gengið á braut upplausnar í þingstörfum en gerðist á þinginu sem nú er lokið. Mörg þúsund ræður voru fluttar undir dagskrárliðum um annað en efnislega úrlausn mála. Það er rétt hjá þingforseta að ræður á eldhúsdeginum báru vott yfirbótar. Hvort hún er meira en orðin tóm kemur í ljós. Í því efni er við enga aðra að sakast en þá sem sitja á alþingi án tillits til stjórnmálaflokks.

 

Fimmtudagur 02. 07. 15 - 2.7.2015 19:00

Í Morgunblaðinu í morgun birtist frásögn af ferð blaðamanns á vinsæla ferðamannastaði á Gullna hringnum svonefnda, Þingvelli, Geysi og Gullfoss. Alls staðar var mikill mannfjöldi og ber frásögnin með sér að ýmsir ferðamannanna telja hvorki Ísland né Íslendinga búna undir að taka á móti hinum mikla fjölda fólks sem var á þessum stöðum.

Blaðamaðurinn Benedikt Bóas hitti Svisslendinginn Besel við Gullfoss. Frásögnin er eftirfarandi:

„Hann horfði gáttaður niður í fossinn og skildi ekki hvers vegna væru ekki meiri öryggiskröfur.

„Ísland er magnaður staður. Við vorum að koma frá Alaska og stoppum hér í nokkra daga áður en við förum heim til Sviss. Heima og í Alaska er öðruvísi farið með ferðamenn. Þar eru tollar víða, náttúran er gjaldskyld en hér er allt frítt og ekki mikið um öryggi.

Þegar ég gekk niður stíginn trúði ég ekki að það væri ekkert öryggisband, bara einn lítill spotti. Það fannst mér sérstakt. Ég er ekki búinn að vera hérna lengi en sé það strax að þið eruð ekki tilbúin að taka á móti svona mörgum ferðamönnum. Í Sviss eða öðrum ferðamannalöndum eru öryggisreglur mjög strangar en hér er engar. Kannski mun Ísland tapa sérstöðu sinni ef það verður bara hægt að skoða fossinn bak við glervegg eða eitthvað álíka. Hér er allt hrátt og ég kann ágætlega við það. Ég er hins vegar ekki viss um að þetta yrði leyft í Sviss.“

Svisslendingar eiga Rheinfall – Rínarfoss – við bæinn Neuhausen. Þeir kynna fossinn sem hinn stærsta í Evrópu – hvort þeir eiga við meginlandið eða álfuna er ekki ljóst. Öryggisráðstafanir við Rheinfall eru gífurlega miklar og mannvirkin gestum til varnar vekja jafnmikla athygli og fossinn sjálfur, að minnsta kosti í augum Íslendings. Gjaldtaka er við fossinn og ofurvakt.

Eitthvað má vera á milli þess sem Svisslendingar hafa gert og þess gjaldlausa frjálsræðis sem ríkir við íslenska fossa.

Óheppilegt var að tíma og kröftum skyldi varið í náttúrupassann sem var álíka dauðadæmdur frá upphafi og nýr flugvöllur í Hvassahrauni. Nú stefnir þó allt í að tíma og kröftum verði varið til að ræða hugmyndina um slíkan flugvöll enn á ný. 

Miðvikudagur 01. 07. 15 - 1.7.2015 18:30

Í dag ræddi ég við Arngrím Jóhannsson flugstjóra í þætti mínum á ÍNN og má sjá hann klukkan 20.00 og síðan hvenær sem er eftir það á tímaflakki Símans. Við ræddum um norðurslóðir og áhuga Arngríms á sögu pólferða og rannsókna, hann undirbýr nú að Norðurslóðasetur verði opnað fyrir almenning á Tanganum á Akureyri. Þetta er síðasti þáttur minn fyrir sumarleyfi, fram yfir verslunarmannahelgina.

Hver sem niðurstaðan verður í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Grikklandi sunnudaginn 5. júlí er ljóst að staða Grikkja innan ESB verður aldrei hin sama og áður. Þá hefur einnig verið stigið lýðræðislegt skref innan sambandsins sem mun setja svip á ákvarðanir þegar fram líða stundir. Í sáttmálanum að baki evrunni er einfaldlega gert ráð fyrir að aðild að hinni sameiginlegu mynt sé endanleg, ekki verði til baka snúið.

Augljóst er að þeir sem ætla að segja já í Grikklandi árétta vilja sinn til að halda í evruna. Hvað þýðir að segja nei? Andstæðingar Alexis Tsipras forsætisráðherra segja að nei þýði nei við evru og nei við ESB. Hvernig er unnt að hafna evru-aðild sé það bannað í myntsáttmálanum? Við því er ekkert skýrt svar. Bent er á að Grikkir geti farið úr ESB – Lissabon-sáttmálinn heimilar úrsögn úr ESB – þeir geti síðan gengið í ESB aftur og sætt skilmálum sem gilda um upptöku evru eftir langan umþóttunartíma.

Á sínum tíma samþykkti alþingi úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu af því að talið var að það auðveldaði ákvörðun um að hefja hvalveiðar. Þetta reyndist herfilegur misskilningur. Þá ákvað alþingi að ganga aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið með fyrirvara um að hvalveiðar yrðu hafnar. Vegna þessa er ekki unnt að saka Íslendinga um brot alþjóðalögum þótt nú séu stundaðar hvalveiðar.

Fréttablaðið er nú augljóst málgagn Samfylkingarinnar, stefna blaðsins sveiflast eftir duttlungum og hagsmunum eigandans og ráðgjafa hans, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar (Baugsmanns). Nú hallar blaðið sér gegn Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. Þar hófst í dag áróðursherferð fyrir auka-landsfundi í haust til að ýta Árna Páli til hliðar.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, að hafin sé umræða innan stjórnarinnar um næsta landsfund. Þá segir blaðið að fylgjendur Árna Páls telji flokkslög banna annan landsfund strax. Mikil ólga sé innan flokksins.