14.7.2015 19:30

Þriðjudagur 14. 07. 15

Hvert sem litið er innan Evrópusambandsins lýsa menn undrun yfir aðförinni að Grikkjum til að halda lífi í evru-samstarfinu. Ráðamenn innan sambandsins reyna þó að berja í brestina með yfirlýsingum um nauðsyn meira samstarfs.

Í leiðara Le Monde segir í dag:

„Þegar á heildina er litið blasir við mynd af evru-samstarfi í algjörri upplausn án burða til að leysa skuldavanda ríkis þótt hagkerfi þess sé innan við 2% af ríkidæmi klúbbsins. Af því að hvorki gilda sameiginleg fjárlög né fyrir hendi er vel smurð leið til að leysa úr ágreiningi tekst ekki að veita ákveðnum klúbbfélögum fyrirgreiðslu án biturleika, uppnáms og ágreinings. Það er tímabært að hin evrópski andi falli að skynsemissjónarmiðum – það er löngu tímabært.“

François Hollande Frakklandsforseti ávarpaði þjóð sina í tilefni þjóðhátíðardags hennar og lýsti niðurstöðunni í Brussel að morgni mánudags 13. júlí sem „sigri“. Þá sagðist hann vilja sjá sérstakt þing fyrir 19 aðildarríki evru-samstarfsins til að tryggja lýðræðislegri aðferð við töku ákvarðana og hann vildi einnig að til sögunnar kæmi „efnahagsstjórn“ til að fara með evru-málefni. Hann mundi vinna að útfærslu þessara tillagna í samvinnu við ríkisstjórn Þýskalands. Það yrði að hætta að boða stöðugt til krísu-leiðtogafunda. „Við þurfum traustan grundvöll undir evru-svæðið,“ sagði Frakklandsforseti.

Hið undarlega við þessa ræðu er að yfirlýsingarnar eru í raun innantómar. Frakkar munu ekki samþykkja neinar tillögur í þessa veru. Þeir höfnuðu tillögunum um stjórnarskrá Evrópu í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2005 og þá var tekið til við smíði Lissabon-sáttmálans. Frakkar vilja ekki falla frá fjárhagslegu fullveldi sínu eins og Grikkir hafa neyðst til að gera.

Ræða Hollandes er hins vegar dæmigerð fyrir viðbrögð ráðamanna innan ESB þegar þeir vilja breiða yfir vandræðin innan ESB segja þeir einfaldlega: Það þarf bara að grafa dýpri holu.

Martin Schulz, forseti ESB-þingsins, tók undir með Hollande og sagði að koma yrði á fót „ríkisstjórn Evrópu“. Ekki væri lengur unnt að treysta leiðtogum einstakra landa fyrir lausn mikilvægra Evrópumála. Hann nefndi í því sambandi alþjóðaviðskipti, loftslagsmál, innflytjendamál, skatta-undanskot og myntsamstarf.

Ástæða er til að taka undir með leiðarahöfundi Le Monde: Það er löngu tímabært fyrir valdamenn innan ESB að láta skynsemina ráða. Þeir hafa hins vegar veðjað svo mjög á evruna að þeir geta það ekki.