Dagbók: 2004

Föstudagur, 31. 12. 04. - 31.12.2004 9:52

Klukkan 10.30 var efnt til ríkisráðsfundar á Bessastöðum.

Sunnudagur, 19. 12. 04. - 19.12.2004 21:26

Var í hádeginu á Skjá 1 með Illuga Gunnarssyni, Katrínu Jakobsdóttur og Þórunni Sveinbjarnardóttur og ræddi um dvalarleyfi fyrir Bobby Fischer og útlendingamál.

Sótti klukkan 17.00 jólatónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Áskirkju.

Föstudagur, 17. 12. 04. - 17.12.2004 21:28

Tók klukkan 14.00 þátt í slitum Lögregluskóla ríkisins í Bústaðakirkju, Lesa meira

Fimmtudagur, 16. 12. 04. - 16.12.2004 21:24

Sat fund í borgarstjórn frá klukkan 14.00 til 22.00 um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar árið 2005.

Þriðjudagur, 14. 12. 04. - 14.12.2004 21:22

Flutti í hádeginu erindi á málþingi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um áfallastjórnun.

Sunnudagur 12. 12. 04 - 12.12.2004 21:19

Var í Silfri Egils í hádeginu og ræddi við Össur Skarphéðinsson.

Laugardagur 11. 12. 04 - 11.12.2004 21:21

Fórum klukkan 17.00 í Hallgrímskirkju og hlýddum á hluta Jóhannesarpassíunnar undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Föstudagur, 10. 12. 04. - 10.12.2004 12:18

Tókum þátt í fjölmennri útgáfuteiti á heimili Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í tilefni af útgáfu bókar hans Kiljan, öðru bindi í ævisögu hans um Halldór Kiljan Laxness.

Fimmtudagur, 09. 12. 04. - 9.12.2004 12:16

Fórum klukkan 19.30 á hátíðartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands Í Háskólabíói, þar sem Osmo Vanska stjórnaðir verkum eftir Jón Leifs og finnsk tónskáld

Sunnudagur, 05. 12. 04. - 5.12.2004 22:15

Flaug heim frá Róm með Alitalia klukkan 09. 25 um Amsterdam og þaðan með Icelandair og var lent klukkan 15.30 á Keflavíkurflugvelli.

Föstudagur, 03. 12. 04. - 3.12.2004 22:13

Lokafundardagur ATA-þingsins og sat ég það fram undir hádegi, þegar ég fór til höfuðstöðva Karmelreglunnar í Róm og hitti Friar Karol við basilíku heilags Pancrazio. Eftir að hafa snætt hádegisverð með honum og kynnt okkur aðstæður þarna ókum við til Montevirgio og heimsóttum Karmel-munkaklaustur þar.

Fimmtudagur, 02. 12. 04. - 2.12.2004 22:10

Áður en ég fór á ATA-þingið hitti ég varautanríkisráðherra Páfagarðs og yfirmann samkirkjulegs ráðs Páfagarðs á fundum.

Miðvikudagur, 01. 12. 04. - 1.12.2004 22:08

Sat setningarfund 50. þings Atlantic Treaty Association, sem haldið var í Róm. Þar töluðu meðal annarra forsetar Albaníu, Króatíu og Makedóníu auk framkvæmdastjóra NATO, utanríkisráðherra Búlgaríu og Ítalíu.

Þriðjudagur, 30. 11. 04. - 30.11.2004 22:02

Flaug klukkan 07.50 til Amsterdam með Icelandair og þaðan með Alitalia til Rómar, þar sem lent var klukkan 15.00.

Föstudagur, 26. 11. 04. - 26.11.2004 13:57

Flutti framsöguræður fyrir tveimur frumvörpum á alþingi fyrir hádegi, eftir að atkvæðagreiðslu lauk um breytingar að lokinni 2. umræðu fjárlaga. Mælti fyrir einföldun við innheimtu sekta o.fl. og fyrir endurfluttu frv. um fullnustu refsinga.

Tók klukkan 13.30 þátt í setningu aðalfundar Dómarafélags Íslands og flutti ávarp.

Miðvikudagur, 24. 11. 04. - 24.11.2004 22:35

Svaraði fyrirspurn um fangelsismál á alþingi síðdegis.

Fór um kvöldið á tónleika Lögreglukórs Reykjavíkur undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar í Ými og skemmti mér vel, en auk kórfélaga sungu þeir Eiríkur Hreinn Helgason og Einar Clausen einsöng og tvíburabræðurinir Juri og Vadim Fedorov léku á harmóníkur en Sigurður Marteinsson á píanó.

Þriðjudagur, 23. 11. 04. - 23.11.2004 22:34

Fór rétt fyrir 08.00 inn í Sundahöfn og hitti þar Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjón sem fór með mig á brunasvæðið hjá Hringrás, þar sem slökkvilið hafði barist við gífurlegan eld í 2000 tonnum af hjólbörðum frá ´því klukkan fyrir 22.00 kvöldið áður en lögregla, björgunarsveitir, Rauði krossinn og Strætó höfðu flutt mörg hundruð manns um nóttina úr reykjarmekki, sem lagði frá eldinum yfir Kleppsveginn. Ég hitti Jón Viðar varaslökkviliðsstjóra og hans menn. Sannfærðist ég um, að mjög vel væri að verki staðið og allt boðunar- og viðbragðskerfi hefði virkað vel.

Í hádeginu hélt ritstjórn stjórnarráðssögunnar síðasta fund sinn en lokabindi verksins kom út 12. nóvember.

Laugardagur, 20. 11. 04 - 20.11.2004 22:24

Fór rétt fyrir 16.00 í Valhöll en þar voru um 100 manns, sem höfðu verið í kynnisferð um borgina á vegum borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna og létu þátttakendur ákaflega vel af ferðinni.

Miðvikudagur, 17. 11. 04. - 17.11.2004 21:20

Hélt heim með Icelandair frá Kaupmannahöfn klukkan 13.45, lenti í Keflavík rúmlega 16.00. Svaraði þremur fyrirspurnum á alþingi klukkan 18.30 og fór klukkan 20.00 á tónleika til heiðurs Hauki Tómassyni tónskáldi í tilefni af tónlistarverðlaunum Norðurlanda, en þeir voru í Þjóðmenningarhúsinu.

Þriðjudagur 16. 11. 04. - 16.11.2004 22:40

Var fram yfir hádegi á fundum í höfuðstöðvum Interpol. Flugum um kvöldmatarleytið til Kaupmannahafnar á vegum SAS í flugvél frá Cimber-flugfélaginu. Hún gat ekki lent í fyrstu atrennu á Kastrup vegna þess að vél var fyrir á brautinni, þegar hún hafði lent snarhemlaði flugstjórinn þegar hann ók að flugstöðinni, því að vél ók beint fyrir okkur.

Mánudagur 15. 11. 09. - 15.11.2004 22:36

Flaug frá Prag til Lyon þar sem ég hitti Harald Johannessen ríkislögreglustjóra og Þorstein Davíðsson, aðstoðarmann minn, en saman héldum við á fundi með forstjóra Interpol og samstarfsmönnum hans.

Sunnudagur 14. 11. 04. - 14.11.2004 22:34

Hélt upp á sextugsafmæli mitt með fjölskyldu minni í Prag.

Fimmtudagur 11. 11. 04. - 11.11.2004 22:31

Flaug klukkan 15.00 á vegum Heimsferða með tékknesku leiguflugfélagi til Prag og lenti þar eftir þrjá tíma, en flugstjórinn sagði okkur að við færum með 1200 kílómetra hraða yfir hafið, svo mikill var meðvindurinn.

Þriðjudagur, 09. 11. 04. - 9.11.2004 20:39

Fór að loknum ríkisstjórnarfundi í heimsókn í Héraðsdóm Reykjavíkur og skoðaði húsakynni hans og hitti starfsfólk undir leiðsögn Helga I. Jónssonar dómsstjóra.
 
Hitti eftir hádegi herra Jón Aðalstein Baldvinsson Hólabiskup og Þorstein Gunnarsson, arkitekt og leikara, þegar þeir afhentur mér bók um Auðunnarstofu og endurreisn hennar á Hólum.

Mánudagur, 08. 11. 04. - 8.11.2004 20:35

Hitti fyrir hádegi sendinefnd háttsettra embættismanna í kínverska dómsmálaráðuneytinu, sem hingað kom til að kynna sér framkvæmd dómsmála og störf lögfræðinga.
Tók þátt í fundi borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna í hádeginu.
 
Klukkan 14.45 hitti ég Guðmund Sesar Magnússon í alþingishúsinu ásamt Sirrý á Skjá 1 en hann afhenti mér bókina um sig, sem Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir skráði, en hún heitir Sigur í hörðum heimi.
 
Flutti síðdegis frumvarp á þingi um breytingu á kirkjugarðslögum.

Sunnudagur, 07. 11. 04. - 7.11.2004 18:20

Var í hádeginu í spjallþætti á Skjá 1 með Ólafi Teiti Guðnasyni, Guðmundi Steingrímssyni og Karli Th. Birgissyni, rætt um olíusamráð og borgarstjóra auk bandarísku kosninganna.

Laugardagur, 06. 11. 04. - 6.11.2004 18:14

Var klukkan 11.15 kominn til Keflavíkur til að fylgjast með almannavarnaæfingu með þátttöku tæplega 700 manns á Keflavíkurflugvelli, þar sem æfð voru viðbrögð við því, að þota með tæplega 200 manns innan borðs hlekktist á í lendingu.

Klukkan 20.00 var ég í Breiðholtskirkju og tók þátt í 100 ára afmælishátíð Kristniboðsfélags kvenna.

Föstudagur, 04. 11. 04. - 4.11.2004 18:08

Klukkan 15.30 efndi ég til fundar með starfsmönnum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og fór yfir nýtt skipurit í ráðuneytinu og breytingar á yfirstjórn þess.

Miðvikudagur, 03. 11. 04 - 3.11.2004 21:47

Svaraði tveimur fyrirspurnum á þingi a) um heimilisofbeldi b) um fjárveitingar til mannréttindaskrifstofu.

Var klukkan 17.10 í dægurmálaútvarpi Rásar 2 og ræddi um sigur Bush í forsetakosningunum, olíusamráðið, Þórólf borgarstjóra og R-listann.

Var klukkan 19.30 í Kastljósinu og ræddi með Margréti um sigur Bush í forsetakosningunum, olíusamráðið, Þórólf borgarstjóra og R-listann.

Þriðjudagur, 02. 11. 04. - 2.11.2004 21:40

Fór klukkan 11.30 í björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð til að fá fréttir af eldgosi í Grímsvötnum. Sat fund með vísindamönnum, sem voru að koma úr fyrsta könnunarfluginu yfir gossvæðið.

Tók þátt í þingfundi klukkan 13.30 og fór þaðan á borgarstjórnarfund klukkan 14.00. Hann hófst á umræðum utan dagskrár um stöðu Þórólfs Árnasonar borgarstjóra í tilefni af skýrslu Samkeppnisstofnunar um samráð olíufélaganna en þar er minnst 127 sinnum á Þórólf sem markaðsstjóra ESSO. Alfreð Þorsteinsson, formaður borgarráðs, tók upp hanskann fyrir Þórólf og taldi, að um sambærilegt mál væri að ræða og Geirfinnsmálið og Hafskipsmálið, eða einskonar galdraofsóknir.

Mánudagur, 01. 11. 04. - 1.11.2004 21:36

Sat fyrir hádegi ásamt dómsmálaráðherrum Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fund með nefndarmönnum á Norðurlandaráðsþingi til að ræða aðgerðir gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi.

Hélt klukkan 13.20 frá Stokkhólmi með Icelandair til Keflavíkur og lenti þar klukkan 15.30.

Sunnudagur, 31. 10. 04. - 31.10.2004 21:34

Flaug klukkan 07.45 til Stokkhólms til að taka þátt í fundi í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

Laugardagur, 30. 10. 04. - 30.10.2004 21:41

Tók klukkan 10.30 þátt í fundi í félagsheimilinu Goðalandi í Fljótshlíð um hættu af gosi í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli og viðbrögð almannavarna vegna þess.

Flutti ávarp á samskonar fundi í félagsheimilinu Gunnarshólma í Landeyjum klukkan 14.30, en hélt að loknu ávarpinu til Reykjavíkur.

Las við heimkomuna sérkennilega grein í Lesbók Morgunblaðsins með einskonar samsæriskenningu um okkur, sem höfum dregið taum Hannesar Hólmsteins í deilunni um hina ágætu bók hans Halldór.

Föstudagur, 29. 10. 04 - 29.10.2004 21:32

Tók síðdegis þátt í því, þegar ný stjórn Persónuverndar tók formlega til starfa og fráfarandi stjórnarmenn voru kvaddir.

Hélt síðan austur í Fljótshlíð.

Miðvikudagur, 27. 10. 04. - 27.10.2004 20:19

Hélt með Luxair-vél frá Lúxemborg klukkan 11.20 um París og þaðan klukkan 14.15 með Icelandair til Keflavíkur, þar sem lent var á áætlun klukkan 15.45. Var kominn í Reykjavíkurakademíuna klukkan 17.00, þar sem ég tók á móti viðurkenningu sem heiðursfélagi ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Þriðjudagur, 26. 10. 04. - 26.10.2004 20:03

Ók til Lúxemborgar frá Brussel með Kristrúnu Kristinsdóttur og Hauki Guðmundssyni starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel. Tók þátt í hátíðlegri athöfn síðdegis, þar sem skrifað var undir samninga vegna aðildar Sviss að Schengen-samstarfinu og sat síðan ráðherrafund Schengen-ríkjanna.

Mánudagur, 25. 10. 04. - 25.10.2004 20:00

Fór á fundi í Brussel: hjá ESA, eftirlitsstofnuninni með framkvæmd EES-samningsins og hitti Hannes Hafstein; ræddi við John Palmer hjá European Policy Centre, hitti þann embættismann ESB, sem fjallar um framkvæmd EES-samningsins, og ræddi við David Johns helsta samningamann ESB um stækkun Evrópusambandsins. Niðurstaða mín er sú, að EES-samningurinn er í fullu gildi og hefur alls ekki veikst.

Sunnudagur 24. 10. 04. - 24.10.2004 15:16

Ók Rut út á Findel-flugvöll í Lúxemborg, en flugstöðin hefur stækkað síðan Loftleiðir/Flugleiðir notuðu völlinn.  Ég hélt síðan á brautarstöðina, þar sem ég skilaði bílaleigubílnum og tók lest í rúm tvo og hálfan tíma til Brussel.

Laugardagur 23. 10. 04 - 23.10.2004 15:13

Fórum til Trier í Þýskalandi og skoðuðum síðan minjar í hjarta borgarinnar Lúxemborg, sem eru á heimsminjaskrá UNESCO, og sýna gamla virkisveggi og rústir tengdar þeim.

Föstudagur 22. 10. 04. - 22.10.2004 15:12

Fórum til klaustursins í Clervaux í Ardennafjöllunum og skoðuðum einnig í bænum sjálfum ljósmyndasýninguna Family of Man, sem er einstök. Auk þess er þar stríðsminjasafn frá dvöl Bandaríkjamanna í bænum, áður en hann var frelsaður undan oki nasista.