Dagbók: október 2004

Sunnudagur, 31. 10. 04. - 31.10.2004 21:34

Flaug klukkan 07.45 til Stokkhólms til að taka þátt í fundi í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

Laugardagur, 30. 10. 04. - 30.10.2004 21:41

Tók klukkan 10.30 þátt í fundi í félagsheimilinu Goðalandi í Fljótshlíð um hættu af gosi í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli og viðbrögð almannavarna vegna þess.

Flutti ávarp á samskonar fundi í félagsheimilinu Gunnarshólma í Landeyjum klukkan 14.30, en hélt að loknu ávarpinu til Reykjavíkur.

Las við heimkomuna sérkennilega grein í Lesbók Morgunblaðsins með einskonar samsæriskenningu um okkur, sem höfum dregið taum Hannesar Hólmsteins í deilunni um hina ágætu bók hans Halldór.

Föstudagur, 29. 10. 04 - 29.10.2004 21:32

Tók síðdegis þátt í því, þegar ný stjórn Persónuverndar tók formlega til starfa og fráfarandi stjórnarmenn voru kvaddir.

Hélt síðan austur í Fljótshlíð.

Miðvikudagur, 27. 10. 04. - 27.10.2004 20:19

Hélt með Luxair-vél frá Lúxemborg klukkan 11.20 um París og þaðan klukkan 14.15 með Icelandair til Keflavíkur, þar sem lent var á áætlun klukkan 15.45. Var kominn í Reykjavíkurakademíuna klukkan 17.00, þar sem ég tók á móti viðurkenningu sem heiðursfélagi ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Þriðjudagur, 26. 10. 04. - 26.10.2004 20:03

Ók til Lúxemborgar frá Brussel með Kristrúnu Kristinsdóttur og Hauki Guðmundssyni starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel. Tók þátt í hátíðlegri athöfn síðdegis, þar sem skrifað var undir samninga vegna aðildar Sviss að Schengen-samstarfinu og sat síðan ráðherrafund Schengen-ríkjanna.

Mánudagur, 25. 10. 04. - 25.10.2004 20:00

Fór á fundi í Brussel: hjá ESA, eftirlitsstofnuninni með framkvæmd EES-samningsins og hitti Hannes Hafstein; ræddi við John Palmer hjá European Policy Centre, hitti þann embættismann ESB, sem fjallar um framkvæmd EES-samningsins, og ræddi við David Johns helsta samningamann ESB um stækkun Evrópusambandsins. Niðurstaða mín er sú, að EES-samningurinn er í fullu gildi og hefur alls ekki veikst.

Sunnudagur 24. 10. 04. - 24.10.2004 15:16

Ók Rut út á Findel-flugvöll í Lúxemborg, en flugstöðin hefur stækkað síðan Loftleiðir/Flugleiðir notuðu völlinn.  Ég hélt síðan á brautarstöðina, þar sem ég skilaði bílaleigubílnum og tók lest í rúm tvo og hálfan tíma til Brussel.

Laugardagur 23. 10. 04 - 23.10.2004 15:13

Fórum til Trier í Þýskalandi og skoðuðum síðan minjar í hjarta borgarinnar Lúxemborg, sem eru á heimsminjaskrá UNESCO, og sýna gamla virkisveggi og rústir tengdar þeim.

Föstudagur 22. 10. 04. - 22.10.2004 15:12

Fórum til klaustursins í Clervaux í Ardennafjöllunum og skoðuðum einnig í bænum sjálfum ljósmyndasýninguna Family of Man, sem er einstök. Auk þess er þar stríðsminjasafn frá dvöl Bandaríkjamanna í bænum, áður en hann var frelsaður undan oki nasista.

Fimmtudagur, 21. 10. 04. - 21.10.2004 15:11

Sat málþing um EFTA-dómstólinn 10 ára frá 09.15 til 17.15.

Miðvikudagur 20. 10. 04 - 20.10.2004 15:07

Við Rut fórum klukkan 07.45 um Kaupmannahöfn til Lúxemborgar til að taka þátt í 10 ára afmæli EFTA-dómstólsins.

Þriðjudagur 19. 10. 04. - 19.10.2004 15:04

Sat borgarstjórnfund til klukkan 19.00, þar sem rætt var um stjórnkerfisbreytingar Reykjavíkurborgar.

Fór klukkan 20.00 í Perluna og kynnti qi gong fyrir kraftgöguhópnum, sem þjálfar sig í Öskjuhlíðinni.

Mánudagur, 18. 10. 04. - 18.10.2004 15:03

Klukkan 15.20 voru umræður utan dagskrár á alþingi um rússneskar flotaæfingar fyrir norð-austurlandi og var ég þar til svara fyrir ríkisstjórnina.

Að loknum umræðunum mælti ég fyrir tveimur frumvörpum: um gjafsókn og rafræna útgáfu á Stjórnartíðindum og Lögbirtingarblaði.

Sunnudagur, 17. 10. 04. - 17.10.2004 16:51

Klukkan 11.oo var messa í Dómkirkjunni við upphaf kirkjuþings, sem sett var í Grensáskirkju klukkan 14.00 og var ég meðal ræðumanna við þá athöfn.

Laugardagur, 16. 10. 04. - 16.10.2004 22:13

Fór akandi frá Akureyri um hádegisbil og hélt að Reynistað í Skagafirði, þar sem Sigurður Jónsson bóndi var jarðsunginn klukkan 14.00 að viðstöddu miklu fjölmenni, en séra Gísli Gunnarsson jarðsöng. Fór stutta stund í erfidrykkju í Melsgili en ók síðan suður til Reykjavíkur og var kominn heim um 19.30.

Föstudagur, 15. 10. 04. - 15.10.2004 22:11

Hélt klukkan 11.00 til Akureyrar og tók þar klukkan 13.30 þátt í að opna endurgerða lögreglustöð og varastjórnstöð fyrir björgun og neyðarhjálp.

Föstudagur, 08. 10. 04. - 8.10.2004 10:08

Að loknum ríkisstjórnarfundi fór ég til Vestmannaeyja, þar sem ég flutti erindi á fundi Sýslumannafélags Íslands og sat fyrir svörum auk þess að bjóða félagsmönnum og gestum þeirra til hádegisverðar, síðan hlýddi ég á erindi um öryggismál og var að nýju kominn til Reykjavíkur rúmlega 17.30.

Miðvikudagur, 06. 10. 04. - 6.10.2004 21:50

Hélt klukkan 08.30 af stað með flugvél Flugmálastjórnar til Bíldudals, þar sem Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á Patreksfirði, tók á móti mér, Þorsteini Geirssyni ráðuneytisstjóra, Þorsteini Davíðssyni aðstoðarmanni og Ásdísi Ingibjargardóttur skrifstofustjóra. Frá Bíldudal ókum við á Patreksfjörð, þar sem við heimsóttum lögreglu og starfsmenn sýslumannsembættisins og kynntum okkur starfsaðstæður þeirra auk þess sem við sýslumaður skrifuðum undir árangursstjórnunarsamning.

Flugum frá Bíldudal til Ísafjarðar, þar sem Sigríður Guðjónsdóttir sýslumaður tók á móti okkur. Fórum með henni á lögreglustöðina, ræddum við lögreglumenn og eftir hádegisverð í sýsluskrifstofuna, þar sem við áttum stund með starfsfólki. Síðan hittum við Erling Sigtryggsson héraðsdómara og kynntum okkur starfsaðstöðu Héraðsdóms Vestfjarða.

Ókum síðan til Bolgunarvíkur, þar sem Jónas Guðmundsson lögreglustjóri tók á móti okkur og við skrifuðum undir árangursstjórnunarsamning auk þess að hitta starfsfólk.

Flugum síðan áfram til Hólmavíkur, þar sem Áslaug Þórarinsdóttir sýslumaður og tveir lögreglumenn embættisins tóku á móti okkur, skoðuðum lögreglustöðina og síðan sýsluskrifstofuna, þar sem við Áslaug rituðum undir árangursstjórnunarsamning, áður en við þágum veitingar með starfsfólki embættisins og lögreglumönnum á heimili sýslumanns.

Héldum af stað frá Hólmavík um klukkan 16.40 og lentum um 30 mínútum síðar í Reykjavík. Ferðaveður var með eindæmum gott, heiðbjart og stilla, þegar við flugum inn yfir Esjuna sáum við austur að Heklu og Eyjafjallajökli.

Þriðjudagur, 05. 10. 04. - 5.10.2004 21:35

Ríkisstjórn kom saman til fundar klukkan 09.30 og sat Davíð Oddsson þar í fyrsta sinn sem utanríkisráðherra.

Í hádeginu hitti ég forystumenn Landhelgisgæslunnar og félaga í sprengjuleitarhópi hennar við Þjóðmenningarhúsið, þar sem þeir sýndu mér sprengjuleitarbíl, annan tveggja, sem gæslan hefur fengið að gjöf frá danska hernum. Síðan efndi ég til hádegisverðar með dönskum sérfræðingum, sem fylgdu gjöfinni til að þjálfa íslenska starfsbræður sína.

Fylgdist með umræðum um fjárlagafrumvarpið á alþingi, en enginn í stjórnarandstöðunni gerði fjárveitingar á verksviði dómsmálaráðuneytis að sérstöku umtalsefni.

Sótti hluta borgarstjórnarfundar, þar sem R-listinn kúventi varðandi Hallsveg og ákvað að hann skyldi verða tvíbreiður en ekki með fjórar akgreinar. Málið var á dagskrá borgarstjórnar að frumkvæði okkar sjálfstæðismanna og dugði það eitt til þess, að R-listinn féll frá áformum um fjórar akreinar.

Mánudagur, 04. 10. 04. - 4.10.2004 21:29

Klukkan 19.50 flutti Halldór Ásgrímsson fyrstu stefnuræðu sína sem forsætisráðherra en meðal ræðumanna í umræðunum á alþingi var Davíð Oddsson og var það mál manna, að honum hefði tekist best upp af ræðumönnum kvöldsins. Össur Skarphéðinsson kallaði Davíð senuþjóf. Var ánægjulegt fyrir okkur vini og stuðningsmenn Davíðs að sjá hann að nýju eftir tveggja vikna dvöl erlendis.

Föstudagur, 01. 10. 04. - 1.10.2004 0:00

Ríkisstjórn kom saman til fundar klukkan 09.30.

Klukkan 11.15 efndi ég til reglulegs fundar með skrifstofustjórum dómsmálaráðuneytisins, ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanni mínum.

Klukkan 13.30 var alþingi sett, 131. þing. Séra Pálmi Matthíasson prédikaði og brýndi fyrir kirkjugestum, að Jesú hefði risið upp gegn lögmálinu - sem skírskotar til pólitískrar rétthugsunar nú á tímum.

Forseti Íslands flutti í ræðu sinni einskonar heimsslitaboðskap vegna loftlagsbreytinga og áhrifa á hafstrauma og taldi, að alþingi hefði heimssögulegu hlutverki að gegna til að berjast gegn þeirri vá - ræða hans minnti mig á heimsslitaspár hans fyrr á árum vegna óttans við kjarnorkustríð og þegar hann taldi nauðsynlegt að snúast gegn Bandaríkjastjórn til að berjast gegn þeirri vá.

Halldór Blöndal, forseti alþingis, flutti sköruglega ræðu til varnar alþingi vegna þess, að forseti í Íslands beitti í fyrsta synjunarvaldinu samkvæmt 26. gr. stjskr. með yfirlýsingu 2. júní 2004. Halldór sagði réttilega að synjunarvaldið væri leifar þess tíma, þegar konungar voru taldir hafa vald sitt og umboð frá Guði. Við ræðu Halldór ókyrrðust samfylkingarmenn og varð Helgi Hjörvar fyrstur þeirra til að ganga á dyr og fyldgu þeir Björgvin G. Sigurðsson og Einar Már Sigurðarson á hæla honum, en Mörður Árnason lamdi í borð sitt, áður en hann gekk út. Þeir Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, og Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, hurfu einnig úr þingsalnum og Magnús Þór Hafsteinsson, formaður þingflokks frjálslyndra.

Mér þótti réttmætt hjá Halldóri að taka upp hanskann fyrir alþingi og minna á gildi þess og sögu. Alþingi á að sjálfsögðu dýpri rætur með þjóðinni en embætti forseta Íslands og fráleitt að ætla, að forsetaembættið geti sýnt alþingi í tvo heimana eða eigi að gera það. Sorglega lítil reisn er yfir þeim þingmönnum, sem sjá ástæðu til að yfirgefa þingsalinn, þegar forseti alþingis áréttar stöðu þings og heldur henni fram með sterkum rökum.

Um kvöldið var rætt um þetta mál stuttlega í Kastljósi þar sem Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri og fyrrverandi alþingismaður, varði rétt Halldórs Blöndals til að segja skoðun sína en sagðist aðspurður af Kristjáni Kristjánssyni þáttarstjórnanda ekki mundu hafa talað svona sjálfur. Þá sagði Kristján: „enda kurteis og prúður“ - mér datt í hug, að þarna talaði maður, sem teldi sig fulltrúa lömálsins - hinnar pólitísku rétthugsunar. Er Halldór Blöndal ókurteis og dónalegur, af því að hann segir skoðun sína? Hvar er réttari vettvangur fyrir forseta alþingis að verja þingið og virðingu þess en forsetastóll þingsins? Hvaða tilefni er betra til þess en setning alþingis?

Mér þótti skrýtnast að sjá samfylkingarfólkið - talsmenn umræðu- eða samræðustjórnmálanna - yfirgefa þingsalinn, þegar Halldór flutti skoðun sína. Hvernig á að stunda samræðustjórnmál, ef menn hverfa á braut, þegar þeir heyra eitthvað, sem þeim líkar ekki?

Þriðjudagur, 28. 09. 04. - 1.10.2004 0:00

Fór um kvöldið til að kynna mér störf sérsveitar lögreglunnar.