6.10.2004 21:50

Miðvikudagur, 06. 10. 04.

Hélt klukkan 08.30 af stað með flugvél Flugmálastjórnar til Bíldudals, þar sem Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á Patreksfirði, tók á móti mér, Þorsteini Geirssyni ráðuneytisstjóra, Þorsteini Davíðssyni aðstoðarmanni og Ásdísi Ingibjargardóttur skrifstofustjóra. Frá Bíldudal ókum við á Patreksfjörð, þar sem við heimsóttum lögreglu og starfsmenn sýslumannsembættisins og kynntum okkur starfsaðstæður þeirra auk þess sem við sýslumaður skrifuðum undir árangursstjórnunarsamning.

Flugum frá Bíldudal til Ísafjarðar, þar sem Sigríður Guðjónsdóttir sýslumaður tók á móti okkur. Fórum með henni á lögreglustöðina, ræddum við lögreglumenn og eftir hádegisverð í sýsluskrifstofuna, þar sem við áttum stund með starfsfólki. Síðan hittum við Erling Sigtryggsson héraðsdómara og kynntum okkur starfsaðstöðu Héraðsdóms Vestfjarða.

Ókum síðan til Bolgunarvíkur, þar sem Jónas Guðmundsson lögreglustjóri tók á móti okkur og við skrifuðum undir árangursstjórnunarsamning auk þess að hitta starfsfólk.

Flugum síðan áfram til Hólmavíkur, þar sem Áslaug Þórarinsdóttir sýslumaður og tveir lögreglumenn embættisins tóku á móti okkur, skoðuðum lögreglustöðina og síðan sýsluskrifstofuna, þar sem við Áslaug rituðum undir árangursstjórnunarsamning, áður en við þágum veitingar með starfsfólki embættisins og lögreglumönnum á heimili sýslumanns.

Héldum af stað frá Hólmavík um klukkan 16.40 og lentum um 30 mínútum síðar í Reykjavík. Ferðaveður var með eindæmum gott, heiðbjart og stilla, þegar við flugum inn yfir Esjuna sáum við austur að Heklu og Eyjafjallajökli.