Dagbók: ágúst 2011

Miðvikudagur 31. 08. 11. - 31.8.2011

Í gær vakti ég athygli á því á Evrópuvaktinni að Jóhanna Sigurðardóttir hefði sagt við fréttamann RÚV að í Líbíu-málinu hefði Össur Skarphéðinsson farið að ályktun alþingis. Fréttamaðurinn hváði hvorki né spurði Jóhönnu nánar út í þessa ályktun. Alþingi ályktaði alls ekki um málið. Morgunblaðið vekur athygli á þessari vitleysu hjá forsætisráðherra í leiðara í morgun. Styrmir Gunnarsson ræðir málið einnig á Evrópuvaktinni í dag. Að öðru leyti sé ég ekki á þetta minnst. Hvarvetna annars staðar hefðu fjölmiðlar og stjórnmálamenn varpað ljósi á vanþekkingu forsætisráðherra á afgreiðslu mikilvægs máls sem auk þess er deiluefni innan ríkisstjórnar hennar.

Ég las í blaði í morgun samtal við nemanda í Kvikmyndaskóla Íslands sem sagði að Jóhanna Sigurðardóttir hefði ekkert sagt um málefni skólans. Þetta er ekki rétt hún sagði í hádegisfréttum föstudaginn 19. ágúst að komið yrði á móts við skólann en aðstoðarmaður hennar dró ummæli hennar til baka með orðsendingu sem lesin var í sama fréttatíma. Málið vakti hvorki umræður meðal stjórnmálamanna né fjölmiðlamanna.

Hver er ástæðan fyrir því að fjölmiðlar og stjórnmálamenn nota annan kvarða á það sem Jóhanna segir en almennt um stjórnmálamenn? Ganga menn að því sem vísu að ekkert sé að marka sem hún segir? Sé svo komið verður enn óskiljanlegra en áður að þingflokkur Samfylkingarinnar skuli styðja Jóhönnu sem forsætisráðherra. Í næstu viku rennur framboðsfrestur til formennsku í Samfylkingunni út. Skyldi einhver bjóða sig fram gegn Jóhönnu? Sættir Samfylkingin sig við að starfa undir marklausum formanni?

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra undraðist í Kastljósi kvöldsins að einhverjum dytti í hug að hann talaði sig vanhæfan með yfirlýsingum sínum um kaupin á Grímsstöðum á Fjöllum. Lögum samkvæmt ber Ögmundi að taka ákvörðun. Hann kýs hins vegar um að nauðsynlegt sé að breyta lögunum? Lögum samkvæmt ber Ögmundi að virða hæfisreglur. Hann talar sig hvorki frá þeim né skyldu sinni til að taka afstöðu til sölunnar á Grímsstöðum.

Þriðjudagur 30. 08. 11 - 30.8.2011

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skrifar grein í Fréttablaðið í dag í stólnum: Landið rís! Hann leitast við að efla eigið sjálfstraust og stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, að minnsta kosti í Samfylkingunni. Greinin minnti mig á minnisblað sem Össur flaggaði oft sem iðnaðarráðherra eftir að bankarnir hrundu þar sem hann lýsti öllum þeim stórverkefnum sem biðu þess eins að verða hrundið í framkvæmd og myndu forða þjóðinni frá atvinnuleysi og efla hagvöxt. Fátt að því hefur ræst á þremur síðustu árum.

Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi segir nokkrum sinni frá Össuri og hvernig hann vill gjarnan geta skipað sér í öll lið ef svo ber undir. Í greininni í Fréttablaðinu víkur Össur að stjórn fiskveiða. Orð hans verða til þess að Jón Kristjánsson fiskifræðingur vekur máls á því í bloggi sínu að Össur hafi skipt um skoðun í málinu eins og lesa má hér.

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor birtist í Kastljósi í kvöld til að gagnrýna bændur fyrir að starfa samkvæmt búvörusamningi sem samþykktur var einróma á þingi eftir kosningar 2009. Að RÚV gefi Þórólfi svo mikið rými í fréttum og fréttatengdum þáttum er með ólíkindum.

Í þingskjölum má sjá svör við spurningum um framkomu álitsgjafa í RÚV árin 2009 og 2010 meðal annars i Speglinum. Þar hefur enginn álitsgjafi oftar látið ljós sitt skína en Þórólfur Matthíasson, 15 sinnum árið 2009 og 10 sinnum árið 2010, samtals 25 sinnum. Enginn álitsgjafi kemst með tærnar þar sem Þórólfur hefur hælana. Spegillinn er í sumarleyfi og þá fær Þórólfur inni í Kastljósinu fyrir áróður sinn gegn sauðkindinni.

Fréttamenn RÚV vitna gjarnan í blaðagreinar Þórólfs. Undrun vekur að þeir skuli ekki vitna í grein Helga Magnússonar, formanns Samtaka iðnaðarins, í Morgunblaðinu í dag þar sem hann lýsir stöðu efnahags- og atvinnumála á mun trúverðugri hátt en Þórólfur hefur nokkru sinni gert. Fyrirsögnin segir allt sem segja þarf: Aðgerðin heppnaðist - en sjúklingurinn lést.

Mánudagur 29. 08. 11 - 29.8.2011

Stjórnmálastarfið er að hefjast að nýju eftir sumarleyfi. Ég velti því fyrir mér Evrópuvaktinni hvort einhver ætlaði að bjóða sig fram gegn Jóhönnu Sigurðardóttur á landsfundi Samfylkingarinnar í október. Framboði þarf að skila í næstu viku. Líklegt er að Jóhanna sitji á friðarstóli þótt vinsældir hennar minnki jafnt og þétt eins og ríkisstjórnarinnar.

Hér á síðunni skrifaði ég í dag pistil um ágreining innan Samfylkingarinnar um hvernig halda eigi á tillögum stjórnlagaráðs. Þar deila þau Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar alþingis, og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti alþingis. Það er líklega til marks um almennt áhugaleysi á störfum og tillögum stjórnlagaráðs að ég verð ekki var við að neinn annar bendi á þennan ágreining forystumanna Samfylkingarinnar á þingi. Traustið á alþingi er aðeins um 12% og kannski er öllum sama um hvað þar gerist. Þingið þarf þó að taka á tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlagaráðsliðar hafa haft í heitingum við alþingi taki það tillögum þeirra ekki af nægri virðingu að þeirra mati.

Ég hef vakið máls á hinni stórundarlegu ályktun flokksráðs VG um rannsókn á aðild að Íslands að ákvörðunum NATO um hernað í Líbíu. Össur Skarphéðinsson lítur greinilega þannig á að ályktunin sé ögrun við sig og er það rétt mat hjá honum. Hann sagði í RÚV í kvöld að hann hefði farið nákvæmlega eftir landslögum jafnt sem alþjóðalögum og bætti við:

„Ég er ekkert hræddur við svona rannsóknarnefnd og ef að félagar mínir í VG hafa sérstakan áhuga á að leggja fram rannsóknarnefnd til að skoða mínar gerðir, þá segi ég bara: Verði þeim að góðu. Það hafa aðrir en ég ástæðu til að óttast það."

Því miður spurði fréttamaðurinn ekki hvað fælist í hótuninni í síðustu setningunni. Hverju víkur Össur að í gjörðum VG með þessum orðum? Er hann að skapa sér stöðu út af einhverju öðru máli? Kannski að rífast undir rós við Jón Bjarnason út af ESB?

Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir loga af ágreiningi. Ráðherrar líta ekki á það sem hlutverk sitt að slökkva elda heldur magna þá. Þar fer Jóhanna Sigurðardóttir gjarnan fremst í flokki og eftir höfðinu dansa limirnir.

Sunnudagur 29. 08. 11 - 28.8.2011

Miðvikudaginn 24. ágúst ræddi ég við Orra Hauksson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í þætti mínum á ÍNN og má horfa á samtalið hér.

Í Landanum í RÚV í kvöld var Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, spurður að því hvers vegna hann teldi fólk á mannamótum, hvaða tilgangi það þjónaði. Geir Jón sagði réttilega að það þjónaði engum tilgangi hann gerði það bara vegna þess að fjölmiðlamenn spyrðu stöðugt um slíkar tölur.

Satt að segja er stórundarlegt hve mikla áherslu fréttastofa RÚV leggur á að upplýsa hlustendur sína um hve margir sóttu hina eða þessa skemmtunina eða bæjarhátíðina. Hvaða tilgangi þjónar þessi tölfræði fyrir þá sem sitja við viðtækin? Fjöldinn skiptir ef til vill máli fyrir þá sem hafa fjárhaglegan hag af því að selja aðgangseyri og heilbrigðis- eða skattayfirvöld auk þess sem lögreglu og björgunarsveitum kemur vel að fá slíkar upplýsingar - en hverjum öðrum? Er tölfræðin liður í því að ýta undir meting eða samkeppni?

Við því hefði mátt búast að ný kynslóð fréttamanna á RÚV hætti að flytja staðlaðar helgarfréttir um þá sem settir eru í fangaklefa, teknir ölvaðir eða  trufla nágranna með hávaða í heimahúsum. Hefðin er hins vegar rík og að þessu leyti breytist ekkert ár frá ári.

Laugardagur 27. 08. 11 - 27.8.2011

Hilmar Oddsson sagði upp starfi sínu sem skólastjóri Kvikmyndaskóla Íslands vegna óvissu um framtíð hans. Svandís Svavarsdóttir, starfandi menntamálaráðherra, sem hefur sakað stjórnendur skólans um frekju og óbilgirni vegna baráttu þeirra fyrir framtíð hans, sparkaði bæði í skólann og Hilmar eftir að fréttir bárust um afsögn hans. Ráðherrann taldi hana sanna alla fordóma sína um vonlausa framtíð skólans.

Þessi ruddalega framkoma ráðherrans staðfestir ekki annað en óvild Svandísar í garð skólans og sýnir að tregða stjórnvalda til að taka á málefnum hans byggist á sömu pólitísku hugmyndafræði og skattahækkanirnar vorið 2009. Aðferðirnar við að hrinda stefnuninni eru sambærilegar.

Vorið 2009 lét Steingrímur J. eins og umbylting skattkerfisins væri óhjákvæmileg vegna bankahrunsins af því að hann hafði ekki þrek til að kynna hækkanirnar sem stefnu vinstri-grænna. Sömu sögu er að segja um Svandísi. Hún dirfist ekki að lýsa andstöðu sinni og flokks síns við einkarekna skóla heldur bregður upp þeirri mynd af þeim að þeir séu óalandi og óferjandi.


Föstudagur 26. 08. 11 - 26.8.2011

Í þingskjölum má sjá svör við spurningum um framkomu álitsgjafa í RÚV árin 2009 og 2010 meðal annars i Speglinum. Þar hefur enginn álitsgjafi oftar látið ljós sitt skína en Þórólfur Matthíasson, 15 sinnum árið 2009 og 10 sinnum árið 2010, samtals 25 sinnum. Enginn álitsgjafi kemst með tærnar þar sem Þórólfur hefur hælana.

Þessar tíðu viðræður við Þórólf sýna að stjórnendur Spegilsins eru á sömu bylgjulengd og hann eða öfugt þegar kemur að viðfangsefnum og skoðunum á þeim. Eins og ég hef bent á hér á síðunni tók Þórólfur afstöðu með ríkisstjórninni í Icesave-málinu. Hann lagðist einnig á sveif með stjórninni í kvótamálinu. Loks hefur hann tekið sér fyrir hendur að ráðast á sauðkindina og bændur til að styðja stefnu Samfylkingarinnar í ESB-aðildarmálinu.

Hið sama má segja um öll þessi mál ekkert gengur eftir af því sem Þórólfur segir um þau. Það er því ekki kallað á hann í Spegilinn af því að hann hafi eitthvað bitastætt til að málanna að leggja  heldur af því að sérvitringslegar skoðanir hans falla að þeim sjónarmiðum sem stjórnendur Spegilsins vona að ráði ferðinni.

Fimmtudagur 25. 08. 11. - 25.8.2011

Við höfum breytt útliti á Evrópuvaktinni, evropuvaktin.is, og bætt við nýjum sérgreindum efnisflokki: Viðskiptavakt við hlið stjórnmálavaktar og dálki sem við köllum Í pottinum. Þannig má segja að um sex efnisflokka sé að ræða. Fyrir utan þrjá sem nefndir hafa verið eru þrír aðir: Í fyrsta lagi fréttir einkum erlendis frá en þó innlendar þegar fjallað er um Ísland og Evrópusambandið,  Í öðru lagi leiðarar sem við Styrmir Gunnarsson ritum til skiptis, þrjá hvor á viku og í þriðja lagi pistlar, aðsendir eða samdir af okkur. Með upptöku viðskiptavaktarinnar ákváðum við jafnframt að einkenna öll önnur skrif en fréttaskrif þannig að lesendur átti sig á höfundi.

Síðunni höfum við haldið úti síðan í apríl 2010 og hefur aldrei liðið dagur án þess að nýtt efni birtist og yfirleitt margar fréttir dag hvern.

Ég skrifaði í dag hugleiðingu á Evrópuvaktina um dálæti fréttastofu RÚV við Þórólfi Matthíassyni hagfræðiðprófessor en ráðist hann á sauðkindina eða eigendur hennar í aðsendri grein í Fréttablaðinu er efni greinarinnar jafnan reifað í fréttatíma RÚV. Þá gat Þórólfur sér þess til að fulltrúar sauðfjárbænda hefðu gengið á fund háskólarektors til að bola sér úr embætti sínu. Í tilefni af síðustu endursögn fréttastofunnar á Fréttablaðsgrein Þórólfs sendu Bændasamtök Íslands frá sér tilkynningu í dag þar sem sagði meðal annars:


„Rétt er að taka fram að Bændasamtök Íslands hafa ekki fundað með háskólarektor um þetta mál. Það hafa Landssamtök sauðfjárbænda aftur á móti gert og samkvæmt upplýsingum þeirra var aldrei krafist áminningar eða uppsagnar Þórólfs Matthíassonar eins og skilja mátti af orðum hans. Það er annað hvort hugarburður Þórólfs eða þá að hann hefur fengið rangar upplýsingar frá yfirmönnum sínum.

Vakin er athygli á að deildarforseta hagfræðideildar hefur margoft verið svarað af bændum bæði í greinum og viðtölum við fjölmiðla. Málflutningur hans hefur verið fullur af rangfærslum, grófum mistúlkunum og leiðréttingar hafa ekki verið teknar til greina af hans hálfu.“


Í mínum huga er enginn vafi á því að Þórólfur telur að það þjóni málstað ESB-aðildarsinna að hann ráðist á sauðkindina og eigendur hennar fyrir að haga búskap sínum innan ramma gildandi laga og reglna á Íslandi. Þórólfur vill kollvarpa sauðfjárrækt í landinu og leikreglum um hana með aðild að ESB.

Miðvikudagur 24. 08. 11. - 24.8.2011

Í dag ræddi ég við Orra Hauksson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í þætti mínum á ÍNN. Lýsing hans á stöðu atvinnumála og íslenskra iðnfyrirtækja undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er ekki glæsileg. Byggingariðnaður hefur hrunið. Í sjávarútvegi halda menn að sér höndum af ótta við vanhugsaðar breytingar á kvótakerfinu. Þar með minnka viðskipti við hátæknifyrirtæki sem þróa vörur sínar hér og láta síðan að sér kveða á alþjóðamörkuðum. Boðaðar skattahækkanir á stóriðjufyrirtæki eru í andstöðu við samkomulag frá 2009 og hræða erlenda fjárfesta. Gjaldeyrishöftin spilla almennt öllum viðskiptum í landinu. Innan Samtaka iðnaðarins eru menn ekki einhuga um afstöðuna til ESB. Þátturinn er sýndur klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Sjón er sögu ríkari.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands starfar á almennum markaði og verður að ávinna sér traust viðskiptavina eins og aðrir sem keppa þar. Miðað við óvild Þórólfs Matthíassonar, hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands, í garð íslensks landbúnaðar þarf engan að undra að Landssamtaka sauðfjárbænda hafi ákveðið að stofna ekki til viðskipta sem tengist starfsvettvangi Þórólfs.

Hvernig er unnt að treysta fræðimanni eins og Þórólfi sem slær um sig með fullyrðingum um að yfirlýsingar forystumanna bænda um gildi landbúnaðar fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar séu marklausar þar sem dráttarvélar og önnur tæki verði gagnslaus vegna olíuskorts á hættustundu; undanskilið er að þess vegna séu Íslendingar betur settir í ESB. Spyrja má: Hvað með skipin og flugvélarnar sem flytja eiga varning til landsins verða þau ekki máttvana vegna skorts á eldsneyti?

Ég hef áður lýst vanþóknun á því hvernig fréttastofa RÚV hleypur upp til handa og fóta og vitnar með velþóknun í árásargreinar Þórólfs á sauðkindina í Fréttablaðinu. Fær hann í því efni mun meiri athygli en aðrir sem rita um hugðarefni sín í blöðin. Þegar RÚV sagði frá ákvörðun sauðfjárbænda var komist þannig að orði að þeir hefðu „afþakkað þjónustu hagfræðistofnunar“ eins og þeim hafi staðið hún endurgjaldslaus til boða. Málum er ekki þannig háttað, bændur kaupa þjónustuna og hljóta að leita til þess sem þeir treysta.

Þriðjudagur 23. 08. 11. - 23.8.2011

Spunafréttir um brottför Guðmundar Steingrímssonar úr Framsóknarflokknum snerust um að Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, hefði setið fundi með Guðmundi í aðdragandanum og lagt á ráðin. Þessar fréttir urðu til þess að Össur Skarphéðinsson lét í sér heyra um málið í fjölmiðlum í dag og sagðist hann saklaus af öllu í málinu og talaði um sjálfan sig í þriðju persónu eins og einhvern sem engu skipti þegar stórpólitík væri á döfinni.

Þeir sem þekkja Össur vita að þetta eru látalæti í honum. Alltaf þegar hann gerir lítið úr áhrifum sínum er fiskur undir steini. Að sjálfsögðu hefði hann aldrei viðurkennt að hann ætti hlut að vistaskiptum Guðmundar. Að koma í sjónvarpsfréttir og setja á svið lítinn leikþátt um eigið áhrifaleysi segir allt sem segja þarf um að Össur hefur verið með puttana í þessu máli, líklega í von um að geta dregið Guðmund inn í Samfylkinguna.

Einkennilegt er að enginn álitsgjafi eða stjórnmálarýnir taki eftir því að aukin harka hefur hlaupið í andstöðu ríkisstjórnarinnar við Kvikmyndaskóla Íslands síðustu sólarhringa og í kvöld réðst Svandís Svavarsdóttir, starfandi menntamálaráðherra, á stjórnendur skólans og sakaði þá um frekju. Harkan stafar af því að ráðherrann og ríkisstjórnin er öruggari gagnvart Þráni Bertelssyni og hótunum hans eftir að Guðmundur boðaði afsögn sína úr Framsóknarflokknum og hét ríkisstjórninni hlutleysi, það er að verja hana vantrausti.  Þráinn hefur líf ríkisstjórnarinnar ekki lengur í hendi sér, hann hefur fallið í verði og kvikmyndaskólinn geldur þess af því að ráðherrar vilja sýna Þráni og öðrum ólátabelgjum sem ætluðu að spila á eins atkvæðis meirihluta ríkisstjórnarinnar að þeir hafi ekki sitt fram - þökk sé Guðmundi Steingrímssyni.

Ríkisstjórnin leysti innbyrðis deilur um nýtt fangelsi með því að falla frá ákvörðun um tafarlaust alútboð og efna þess í stað til óþarfrar hönnunarsamkeppni. Að fjölmiðlamenn átti sig ekki á að leikið er á þá með þessu sýnir best grunnhyggni þeirra gagnvart ráðherrunum.  Hér má lesa um efni ákvörðunar ríkisstjórnarinnar.

Mánudagur 22. 08. 11. - 22.8.2011

Ídag, 22. ágúst, berast fréttir um að Muammar Gaddafi sé að tapa yfirráðum í Líbíu og barist sé hús frá húsi í Trípóli. Þá var sagt frá því að Cyrus Vance, saksóknari í New York, hefði ákveðið að falla frá ákæru á hendur Dominique Strauss-Kahn sem sagðí af sér forstjórastöðu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vegna kæru um nauðgun eða tilraun til nauðgunar í hótelherbergi í New York. Herbergisþernan, kærandinn, þykir ekki sannsögul og saksóknarinn treystir sér ekki til að fara með mál hennar fyrir kviðdóm.

Hér á landi vék þetta allt undir kvöld fyrir frétt um að enn einn þingmaðurinn ætlaði að yfirgefa flokkinn sem hann naut á bakvið sig þegar hann bauð sig fram 2009. Veðrið sem gert er út af því að Guðmundur Steingrímsson yfirgefur Framsóknarflokkinn bendir til þess að fjölmiðlamenn telji um stórtíðindi að ræða. Pistill minn snýst um afsögnina og ástæður hennar. Hér má lesa pistilinn.

Sunnudagur 21. 08. 11. - 21.8.2011

Síðan á fimmtudag höfum við dvalist á Barðaströndinni hjá góðum vinum í stórkostlegu veðri og náttúrufegurð.

Ókum um Skógarströndina og heimsóttum Bjarnarhöfn í Helgafellssveit á heimleiðinni. Hildibrandur Bjarnason sýndi okkur kirkjuna með undrum hennar auk þess sem við skoðuðum safnið.

Þá litum við einnig til vina á sunnanverðu Snæfellsnesi áður en við ókum aftur til borgarinnar.


Miðvikudagur 17. 08. 11. - 17.8.2011

Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af grein Péturs J. Eiríkssonar í Morgunblaðinu um rök hans fyrir aðild að ESB. Pistilinn má lesa hér.

Eitt af því sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir gerði og talið var til marks um nýja tíma við stjórn peningamála var að setja á laggirnar peningastefnunefnd í Seðlabanka Íslands. Hún átti að tryggja skynsamlegar ákvarðanir um stýrivexti. Í dag tilkynnti bankinn hækkun stýrivaxta. Reiðin og hneykslunin vegna ákvörðunarinnar er þess eðlis að engu er líkara en farið hafi verið úr öskunni í eldinn.  Þegar Már Guðmundsson seðlabankastjóri var spurður í fréttum Stöðvar 2 hvort hann hefði áhyggjur af því hvernig ákvörðun bankans var tekið svaraði hann glottandi: „Mér er borgað fyrir að hafa áhyggjur.“ Spurning er hvort hann telji sér borgað nóg - hann taldi svo ekki vera um árið.

Líklega hefðu fáir trúað því sem hafa fylgst með tali Jóhönnu Sigurðardóttur um húsnæðismál og opinber afskipti af þeim áratugum saman þar sem hún hefur löngum talið sig hafa ráð við öllum vanda að einmitt húsnæðismálin yrðu að óleysanlegri þraut eftir að hún varð forsætisráðherra.  Þetta er að sjálfsögðu í ætt við að ríkið sætir kæru fyrir dómstólum þar sem krafist er skaðabóta vegna þess hvernig Jóhanna stóð að embættaveitingu og braut jafnréttislög að mati kærunefndar. Undir stjórn Jóhönnu tókst ekki heldur að ná samningum við konuna sem taldi brotið á sér. Jóhanna flutti efnahagsmálin úr forsætisráðuneytinu þegar hún settist inn í það og tók jafnréttismálin í staðinn.

Þingmenn Samfylkingarinnar hljóta að sjá eins og aðrir að ESB-aðildarmálið er í blindgötu og ekki verður lengra haldið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þeir ættu því þess vegna að geta tekið ákvörðun um að leysa þjóðina undan hinni vonlausu og fylgislausu ríkisstjórn og ýta Jóhönnu til hliðar. Það er fyrir löngu kominn tími til þess.

Þriðjudagur 16. 08. 11. - 16.8.2011

Furðulegt er að hlusta á Ingva Hrafn Jónsson hrópa hér á ÍNN: Ég vil sjá „dílinn“! og vísa þar til þess hinn 16. ágúst 2011 að hann vilji sjá einhvern „díl“ Íslands og Evrópusambandsins. Menn ættu frekar að hrópa þennan dag: Ég vil sjá Evrópusambandið! Ég vil sjá hvernig það verður!

Þennan sama dag, þriðjudaginn 16. ágúst, komu Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, saman í París og ákváðu að breyta evru-samstarfinu. Þau ákváðu að komið skyldi á fót evru-ríkisstjórn til að fara með stjórn efnahags- og ríkisfjármála í 17 evru-ríkjum.

Allir sem fylgst hafa með framvindu mála á evru-svæðinu síðan í bankahruni og þó sérstaklega síðan snemma árs 2010 vita að aðeins eru tveir kostir fyrir evru-ríkin: þau afsala sér stjórn eigin efnahagsmála eða brjóta upp samstarf sitt.  Þau Merkel og Sarkozy velja fyrri leiðina.

Nágrannaþjóðir okkar Íslendinga innan Evrópusambandsins: Bretar, Danir og Svíar hafa ákveðið að standa utan evru-svæðisins. Þjóðirnar þrjár stíga aldrei skrefið inn á það verði því breytt eins og Merkel og Sarkozy vilja. Bilið milli ESB-ríkja utan evru-svæðisins og innan þess mun breikka.

„Díll“ Íslands við Evrópusambandið verður reistur á því að Íslendingar gangi inn í hið nýja evru-land . „Díllinn“ mun banna Íslendingum að eiga samleið með Bretum, Dönum og Svíum og knýja þá til að verða hluti hins nýja miðkjarna ESB með efnahagsstjórn þar sem ríki í austurhluta og suðurhluta Evrópu vega þyngst.

Sama kvöld og Ingvi Hrafn réð sér ekki af hneykslun yfir að einhverjum dytti í hug að hann fengi ekki að sjá „dílinn“ ræddi Charlie Rose við Warren Buffett, fjárfesti og milljarðamæring, á Bloomberg­-stöðinni.  Charlie spurði hann um evruna. Buffett vildi ekki segja neitt annað en að það væri mjög erfitt fyrir ríki að gefa frá sér réttinn til að prenta sína eigin mynt. Þar með svipti það sig réttinum til að leysa vanda sinn á eigin spýtur. Hann vonaði að Bandaríkjamönnum dytti aldrei í hug að gera slíka vitleysu, einmitt vegna þess að þeir myndu ekki gera það hefði verið alrangt að lækka lánshæfismat Bandaríkjanna.

Er ekki tímabært að gera hlé á viðræðunum við ESB og hugsa málið upp á nýtt?

 

Mánudagur 15. 08. 11. - 15.8.2011

Evrópusambandið mun verja 9 milljónum króna á mánuði næstu tvö árin til að búa í haginn fyrir sjónarmið aðildarsinna komi til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að sambandinu hér á landi. Þetta er há fjárhæð og þegar hefur verið beitt blekkingum til að segja hana til annars en að tryggja að Íslendingar segi já við ESB-aðildarsamningi komi hann einhvern tíma til sögunnar.

Alþingi samþykkti sl. vor að verja alls 27 milljónum króna til miðlunar á upplýsingum um Evrópusambandið frá íslenskum sjónarhóli. Þessari fjárhæð hefur ekki verið úthlutað en henni á að skipta milli þeirra sem vilja aðild og hinna sem eru á móti henni auk þess sem ætlunin er að styrkja þá sem hafa ekki tekið afstöðu. Fjárhæðin jafngildir þriggja mánaða greiðslu úr sjóðum ESB til að halda fram einhliða sjónarmiðum ESB um ágæti þess og hve mikill akkur er fyrir Íslendinga að slást í hópinn með aðíldarþjóðunum.

Sunnudagur 14. 08. 11. - 14.8.2011

Bjarni Benediktsson gaf í dag mikilvæga yfirlýsingu um að hætta ætti við aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið og Ísland ætti ekkert erindi inn í sambandið. Þetta er rökrétt afstaða bæði í ljósi þess sem er að gerast innan ESB þar sem allt er á tjá og tundri og einnig með vísan til afstöðu meirihluta sjálfstæðismanna og íslensku þjóðarinnar.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi viðskiptaráðherra, brást við yfirlýsingunni á einfeldningslegan hátt en þó ekki eins barnalegan og Evrópusamtökin. Björgvin G. segir það „skrum“ að mikill vandi steðju að evrunni.

Laugardagur 13. 08. 11. - 13.8.2011

Þess var minnst í gær, 12. ágúst, að 30 ár voru liðin frá því að einkatölvan, IBM PC, 5150,  kom til sögunnar. Í tilefni af því sagði dr. Mark Dean sem vann að hönnun tölvunnar hjá IBM á bloggsíðu sinni að tölvur væru „á sömu leið og ritvélin og vínil-plötur“.

Í dag sótti ég tónleika í Selinu að Stokkalæk í Rangárþingi ytra þar sem Hulda Jónsdóttir lék á fiðlu og Jane Ade Sutarjo á píanó.

Þegar ég las fréttina um 30 ára afmæli einkatölvunnar minntist ég þess að hafa heyrt Jóhann Gunnarsson, sem starfaði hjá IBM á Íslandi frá 1959 til 1982, segja frá því að hann hefði komið með fyrstu IBM einkatölvuna til landsins fyrir Ottó Michelsen, forstjóra IBM. Velti ég því fyrir mér hvenær þetta hefði verið og hvar ég gæti komist að raun um það.

Viti menn, Jóhann hlýddi á tónleikana í Selinu og að þeim loknum heilsaði ég honum og konu hans enda hafði ég hitt hann oftar en einu sinni á fundum í stjórnarráðinu, hann starfaði sem sérfræðingur í upplýsingatækni í fjármálaráðuneytinu frá 1987 þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Hann hefur átt ríkan þátt í þróun tölvu- og upplýsingatækni hér á landi, hann var meðal annars í hópi stofnenda Suris sem rak internetsamban Íslendinga við útlönd fyrstu árin eftir að það kom til sögunnar. Jóhann er heiðursfélagi Skýrslutæknifélags Íslands.

Ég minntist á 30 ára afmæli IBM einkatölvunnar við Jóhann og spurði hann hvenær hann hefði komið með hana til landsins. Hann sagði það hafa verið í janúar eða febrúar árið 1982, það er innan við hálfu ári eftir að hún kom til sögunnar.

Í dag ritaði ég leiðara á Evrópuvaktina í tilefni af  því að 50 áru liðin frá því að Austur-Þjóðverjar hófu að reisa Berlínarmúrinn. Leiðarann má lesa hér.

 

Föstudagur 12. 08. 11. - 12.8.2011

Þrjár þingnefndir komu saman fimmtudaginn 11. ágúst til að ræða útgöngu íslensku sendinefndarinnar á síðasta fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Stjórnarsinnar í nefndunum gagnrýndu útgönguna en tilgangur hennar var að mótmæla ofríki af hálfu hvalfriðunarsinna. Árni Þór Sigurðsson segir í bloggi á vefsíðu VG, Smugunni, í dag:

„Er engu líkara en að það valdi fulltrúum stjórnarandstöðunnar miklum kvölum að haldið sé uppi málefnalegri gagnrýni á hvalveiðarnar hér við land og ekki síst það hagsmunamat sem bersýnilega birtist í þeirri afstöðu að hvalveiðarnar þurfi ekki að ræða, vegna þess að Alþingi hafi samþykkt þær á síðustu öld!  Þetta er sama þöggunarviðhorf og einkenndi útrásardýrkunina, sams konar hagsmunagæsla og fólst í því að reka trippin í þágu fárra stórra markaðsráðandi fyrirtækja í stað þess að huga að almannahag.“

Fyrir þá sem fylgdust með því kappi sem árum saman var lagt á að alþingi samþykkti ályktun um upphaf hvalveiða að nýju og þá staðreynd að á tíunda áratugnum samþykkti alþingi bæði úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og síðan aðild að nýju með fyrirvara er með ólíkindum að lesa þessi skrif Árna Þórs Sigurðssonar. Að kenna ályktun alþingis á sínum tíma við „þöggunarviðhorf“ og „útrásardýrkun“ er til marks um rökþrot í málefnalegum umræðum.

Mér virðist að samfylkingarfólkið í þingnefndunum og andstæðingar Jóns Bjarnasonar innan VG hafi tekið höndum saman í hvalamálinu til að búa í haginn fyrir aðildina að Evrópusambandinu. Hvalveiðar eru fleinn í holdi þings Evrópusambandsins og án þess að þeim sé hætt verður aldrei neinn samningur um ESB-aðild við Ísland samþykktur af ESB-þingmönnum.

Orð Árna Þórs verða ekki skilin á annan hátt en þann að kröfur þeirra útlendinga sem vilja ráða því hvort Íslendingar veiða hval eða ekki sé í samræmi við almannahag Íslendinga. Hvernig í ósköpunum kemst þingmaðurinn að þessari niðurstöðu? Ferðamannastraumur hefur til dæmis aldrei verið meiri til landsins en eftir að að nýju var gefin heimild til hvalveiða.

Undansláttarstefna á borð við þá sem Árni Þór boðar verður aðeins til að gleðja þá sem vilja beita Íslendinga þvingunum. Ef Árni Þór og félagar réðu í Færeyjum ætti  Watson í Sea Shepard ekki í vandræðum með að fá stað undir fund til að ráðast á Færeyinga - hann líkir þeim við fjöldamorðingjann Breivik vegna grindhvaladrápsins. Watson varð að hætta við fund í Færeyjum af því að enginn vildi hýsa hann.


Fimmtudagur 11. 08. 11. - 11.8.2011

Árný J. Guðmundsdóttir lögfræðingur áréttar enn í Morgunblaðinu í dag að fjármálaeftirlitið hafi skort lagaheimild til að grípa inn í rekstur Sparisjóðsins í Keflavík (í apríl 2010) og síðar Spkef sparisjóðs (mars 2011), Rök hennar eru sterk og þeim hefur ekki verið svarað á sannfærandi hátt af stjórnvöldum sem eru orðin þrísaga í málinu.

Árný nefnir að í neyðarlögunum frá október 2008 séu dregin skil á milli viðskiptabanka og sparisjóða. Ákvæði laganna eru ótvíræð um þetta efni. Þá mæla lögin fyrir um aðstoð ríkisins við sparisjóði af því að ætlunin var að annað gilti um komu ríkisins að þeim en viðskiptabönkunum.

Fróðlegt væri að sjá rökstuðning þeirra lögfræðinga sem hafa komist að annarri niðurstöðu  en Árný og telja fært að lögjafna frá neyðarlögunum og finna út að vilji löggjafans hafi í raun staðið til þess að sama gilti um sparisjóði og viðskiptabanka þegar löggjafinn dregur einmitt skýr skil þar á milli.

Það er fagnaðarefni að lögfræðingur stofnar til opinberra umræðna um störf fjármálaeftirlitsins og hvernig staðið er að málum af hálfu fjármálaráðuneytisins undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar. Hann hefði átt að sjá til þess að ekki vöknuðu efasemdir um þessar sviptingar á fjármálamörkuðum. Ábyrgð á lögmæti í þessu máli hvílir að lokum á fjármálaráðherra.

Öll málsmeðferð í tengslum við Sparisjóð Keflavíkur eða Spkef er þess eðlis að þriðji aðili verður að láta í ljós álit um lögmæti þess sem gert hefur verið. Árný J. Guðmundsdóttir hefur þar lagt góðan skerf af mörkum en hún hefur ekki heimildir til að kalla eftir gögnum frá stjórnvöldum. Umboðsmaður alþingis ætti að strax að krefjast skýring og leggja mat á gjörðir stjórnvalda sem eru orðin þrísaga í málinu.

Miðvikudagur 10. 08. 11. - 10.8.2011

Í dag hóf ég aftur töku viðtala á ÍNN eftir sumarleyfi og ræddi að þessu sinni við Björn Jón Bragason, formann Frjálshyggjufélagsins. Tilefnið var grein sem hann skrifaði í sumarhefti Þjóðmála  um leyndarhyggju stjórnvalda. Björn Jón telur að hún hafi aukist eftir bankahrun þótt rannsóknarnefnd alþingis hafi krafist fleiri minnisblaða og fleiri fundargerða. Nefndi hann til marks um það hve lítið væri til af skjölum sem tengdist Straumi Burðarási og falli bankans. Þá benti hann einnig á að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði flutt frumvarp að nýjum upplýsingalögum þar sem réttur almennings til upplýsinga væri þrengdur.

Við ræddum einnig um frjálshyggjunnar og ásakanir í hennar garð vegna bankahrunsins. Björn Jón telur alrangt að skella skuldinni af hruninu á frjálshryggjuna. Hrunið megi ekki rekja til of lítilla ríkisafskipta heldur of mikilla þar sem skattfé almennings sé notað til að standa undir tapi banka og fjármálastofnana í eigu einkaaðila.

Um þessar mundir eru tvö ár liðin frá því að ég hóf gerð viðtalsþáttanna á ÍNN. Unnt er að skoða þá alla hér á inntv.is.

Þriðjudagur 09. 08. 11. - 9.8.2011

Mér var hugsað til þess í dag þegar ég las á Eyjunni, sem er bloggvettvangur Egils Helgasonar, frásögnina um illdeilur innan Borgarahreyfingarinnar eftir að talsmanni hennar hefur verið vikið til hliðar með kæru til efnahagsbrotadeildar fyrir meðferð á fé, að Egill skýrði opinberlega frá því eftir þingkosningarnar vorið 2009 að hann hefði kosið Borgarahreyfinguna.

Egill taldi eins og fleiri að með Borgarahreyfingunni kæmi til sögunnar nýtt stjórnmálaafl sem mundi skáka gömlu flokkunum. Nú hefur þessi flokkur splundrast bæði á þingi og utan þings.

Þráinn Bertelsson var einn þeirra sem náði kjöri á þing undir merkjum Borgarahreyfingarinnar. Hann situr nú í þingflokki vinstri-grænna og styður ríkisstjórn sem hefur aðeins eins atkvæðis meirihluta á þingi. 

Þingmenn ríkisstjórnarinnar hittust í gærkvöldi til að ræða fjárlög ársins 2012 sem erfitt verður að berja saman. Þráinn nýtir sér aðstöðu sína með yfirlýsingum í dag um að hann muni ekki styðja fjárlagafrumvarpið nema með því sé tryggt að nægilegt fé renni til Kvikmyndaskóla Íslands svo að hann geti starfað áfram.

Þráinn er kvikmyndagerðarmaður og leikstjóri. Er aðferð hans til að knýja fram fjárveitingu til kvikmyndaskólans í anda hinna nýju tíma sem Borgarahreyfingin boðaði í íslenskum stjórnmálum? Hvað segir Egill Helgason um það? Eða Lilja Skaftadóttir, útgefandi DV, sem bauð sig fram fyrir Borgarahreyfinguna? Hún segist beita sér fyrir nýjum og betri siðum í íslenskum stjórnmálum.

Mánudagur 08. 08. 11. - 8.8.2011

Fréttir berast af því að um mörg hverfi London fari ungt fólk rænandi og ruplandi auk þess sem kveikt sé í húsum og ökutækjum. Lögreglan hefur ekki stjórn á málum. Forsætisráðherrann og borgarstjórinn binda enda á sumarleyfi sín til að taka um stjórnartaumana.

Þótt Seðlabanka Evrópu hafi tekist að bæta lánskjör á ríkisskuldabréfum Ítalíu og Spánar með því að hefja kaup á þeim til að bjarga evrunni, dugðu afskipti hans ekki til að stilla til friðar á fjármálamörkuðum þar sem hlutabréf féllu í verði. Dow Jones vísitalan í New York féll einnig í dag. Barack Obama forseti ávarpaði þjóðina. Hann gagnrýndi Standard & Poor's fyrir að lækka lánshæfismatið á Bandaríkjunum. Engin rök væru fyrir lækkuninni.

Ég skrifaði pistil í dag um evruna og ESB-aðildarviðræðurnar.

Sunnudagur 07. 08. 11. - 7.8.2011

Fyrir þá sem fylgjast með því sem gerist á evru-svæðinu og þeim titringi sem þar ríkir og ótta við að allt fari á hinn versta veg er ótrúlegt að verða  vitni að ummælum Árna Páls Árnasonar. efnahags- og viðskiptaráðherra, í Le Monde um að evran eigi engan hlut að efnahagsvanda evru-ríkjanna. Sömu sögu er að segja um ummæli Aðalsteins Leifssonar, lektors við Háskólann í Reykjavík, í RÚV 6. ágúst þar sem hann lét eins og evru-vandann mætti að sjálfsögðu leysa enda hefði Evrópusambandið eða stofnanir þess alla burði til þess. Síðan ætti bara að dýpka samstarfið og þá mundi evran öðlast nýtt líf.

Fréttastofa RÚV lét þess ekki getið að Árni Páll skipaði Aðalstein Leifsson nýlega formann stjórnar fjármálaeftirlitsins. Það hefði kannski skýrt fyrir einhverjum hvers vegna í ósköpunum rætt var við Aðalstein um evruna þegar undrunin yfir evru-ummælum Árna Páls voru sem mest. Þá hafa spunaliðar Samfylkingarinnar séð að kalla yrði til  einhvern fræðimann sem mundi örugglega hafa sömu skoðun á ágæti evrunnar og Árni Páll og að sjálfsögðu var fréttastofa RÚV til í spunaleikinn.

Fréttir af stöðu peninga- og fjármála á heimsvísu eru verri núna en í ágúst 2008 nokkrum vikum fyrir bankahrunið. Núverandi stjórnarherrar hafa látið eins og árvekni þeirra og mat á atburðum líðandi stundar sé betra en þeirra sem héldu um stjórnvölinn á sama tíma fyrir þremur árum enda hafa þeir ákært Geir H. Haarde og stefnt honum fyrir landsdóm vegna aðgæsluleysis.

Að formaður stjórnar fjármálaeftirlitsins sé ekki meira á áttinni þegar kemur að evrunni lofar ekki góðu um árvekni og aðgæslu af hans hálfu.

Laugardagur 06. 08. 11. - 6.8.2011

Mikil spenna er nú í stjórnmála- og viðskiptaheiminum um víða veröld því að ljóst er að óvissa ríkir um viðbrögð á fjármálamörkuðum á mánudaginn við ákvörðun Standard & Poor's að lækka lánshæfismat Bandaríkjanna í fyrsta sinn í sögunni. Á Evrópuvaktinni er ágæt úttekt á málinu eins og sjá má hér.

Ágreiningur Árna Páls Árnasonar efnahagsmálaráðherra og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra sem birtist í ummælum þeirra í tengslum við gerð fjárlaga ársins 2012 vekur spurningu um hæfni ríkisstjórnarinnar til að taka á fjármálum ríkisins.

Efnahagsstjórn og mótun efnahagsstefnu hefur jafnan verið helsta verkefni forsætisráðherra Íslands. Svo er ekki lengur því að Jóhanna Sigurðardóttur treysti sér ekki til að fara með yfirstjórn efnahagsmála heldur flutti hana í viðskiptaráðuneytið og tók sjálf með sér jafnréttismálin úr félagsmálaráðuneytinu.

Hver skyldi afstaða forsætisráðherra vera í efnahagsmálum? Hallast Jóhanna á sveif með Árna Páli eða Steingrími J.? Eða skilar hún bara auðu?

Óróinn í samfylkingarmönnum vegna fjárlaganna minnir á tímann eftir bankahrun þegar þeir Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson tóku til við að ræða um myndun ríksstjórnar á bakvið Sjálfstæðisflokkinn.

Kristján J. Möller stillir sér upp á móti Ögmundi vegna vegagerðar. Árni Páll stillir sér upp á móti Steingrími J. vegna kjarasamninga. Össur lítillækkar Jón Bjarnason með því að hrifsa stefnumótun í hans málaflokkum í sínar hendur í viðræðunum við ESB.

Hvern skyldi Össur ræða við núna um myndun nýrrar stjórnar? Hverjir í ósköpunum vilja leggja honum lið í ESB-málum? Þegar Ögmundur gekkst inn á slíka liðveislu haustið 2008 komst stjórnarmyndunin á beinu brautina.



Föstudagur 05. 08. 11. - 5.8.2011

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á i vök að verjast vegna evru-vandans. José Manuel Barroso, forseti hennar, ritaði bréf til leiðtoga ESB-landanna miðvikudaginn 3. ágúst til að minna þá á að evrunni væri ógnað. Hinn 4. ágúst sagðist Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, ekki skilja hvað hefði komið yfir Barroso að láta sér til hugar koma að skrifa bréf sem veikti trúverðugleika aðgerða til bjargar evru-svæðinu. Bréfið hefði hins vegar þegar haft áhrif á fjármálamörkuðum. Verðfall varð í kauphöllum þennan dag. Það eigi eftir að koma í ljós hvernig þetta fari allt saman. Það sé hins vegar utan verksviðs utanríkisráðherra að fjalla um það.

Olli Rehn, efnahagsmálastjóri ESB, batt enda á sumarleyfi sitt í Finnlandi í dag, hélt til Brussel á blaðamannafund þar sem hann varaði við því að menn töluðu óvarlega um evruna. Framkvæmdastjórnin ynni dag og nótt að því að skjóta traustari fótum undir evruna; henni mætti bjarga þrátt fyrir allt.

Þegar uppnámið magnast á evru-svæðinu og fjármálaóvissa eykst birtir franska blaðið Le Monde viðtal við Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra Íslands. Hann segir evruna munu veita Íslendingum „óendanlega mikinn stöðugleika“. Árni Páll veitir hinum örvingluðu framkvæmdastjórnarmönnum í Brussel styrk með þessum orðum sínum. Þau eru vissulega í þeirra anda en stangast á við allt sem gerist á fjármálamörkuðum eða í höfuðborgum ríkjanna þar sem stjórnmálamenn og fjármálamenn vita ekki sitt rjúkandi ráð vegna skorts á stöðugleika.

Ummæli Árna Páls um evru í stað krónu eru enn til marks um þá ESB-blindu sem einkennir ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. Það er skiljanlegt að Barroso og Rehn reyni að tala kjark í menn vegna evrunnar. Þeim ferst það að vísu ekki allt vel úr hendi og leita nú sökudólga annars staðar en hjá sjálfum sér. Árni Páll er hins vegar eins og álfur út úr hól þegar lofar evruna og telur hana Íslendingum helst til bjargar.

Fimmtudagur 04. 08. 11. - 4.8.2011

Í tveimur dagbókarfærslum hér á síðunni hef ég birt kafla úr grein eftir háskólakennarana Robert Wade og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur í ágúst-hefti enskrar útgáfu á Le Monde diðlomatique. Þessir kaflar sýna að þau Wade og Sigurbjörg búa ekki yfir neinni þekkingu til að skrifa um íslensk stjórnmál á loka áratugum 20. aldarinnar. Þau spinna pólitískan þráð sem fellur að vinstrisinnuðum skoðunum þeirra sjálfra auk þess sem þau eru haldin trú á samsæriskenningar sem samræmist ekki vinnubrögðum vandaðra fræðimanna.

Í gær sagði ég frá kenningum þeirra um uppruna og markmið Eimreiðarhópsins. Í framhaldi af þeirri efnisgrein sem ég birti í íslenskri þýðingu minni segja þau að sem borgarstjóri hafi Davíð Oddsson selt Bæjarútgerð Reykjavíkur og segja að það hafi verið gert „til hagsbóta fyrir félaga í Eimreiðarhópnum“. Þá láta þau þess getið að Davíð hafi setið í 14 (svo) ár sem forsætisráðherra og síðan sest í stól seðlabankastjóra. Þá segja þau: „Hann hafði litla reynslu af eða áhuga á heiminum utan Íslands. Geir Haarde, skjólstæðingur hans innan Eimreiðarhópsins, fjármálráðherra 1998 til 2005, varð forsætisráðherra skömmu síðar. Þessir tveir menn höfðu mestu beina stjórn á hinni miklu tilraun Íslands til að koma á alþjóðlegri fjármálamiðstöð í  Norður-Atlantshafi, mitt á milli Evrópu og Ameríku.“

Þegar þessi lýsing háskólakennaranna er lesin vekur undrun að háskólakennararnir láta hjá líða að nefna framsóknarmenn til sögunnar eða hlut Halldórs Ásgrímssonar sem forsætisráðherra og eftirmanns Davíðs. Halldór setti á laggirnar nefnd til að móta tillögur um Íslands sem alþjóðlega fjármálamiðstöð og skipaði Sigurð Einarsson, stjórnarformann Kaupþings, formann í henni.

Eftir að hafa farið orðum um einkavæðingu bankanna segja greinarhöfundur frá hinni nýju kynslóð fésýslumanna og segja að því ríkari sem þeir urðu þeim mun meiri pólitískan stuðning hafi þeir fengið. Þau minnast ekki einu orði á deilur Davíðs og annarra manna í forystusveit Sjálfstæðisflokksins við Baugsmenn og láta að engu getið stuðningi Samfylkingarinnar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar við Baugsmenn.

Ég ætla ekki að rekja þessi skrif frekar en tel að með dæmunum sem ég hef tekið hafi ég fært rök fyrir þeirri skoðun að þau Wade og Sigurbjörg standist í grein sinni ekki þær kröfur sem eðlilegt sé að gera til háskólakennara sem taka sér fyrir hendur að rita grein um efni á sínu sviði – þau falla í samsærispottin og verða ómarktæk. Að grein þeirra skuli birt í enskri útgáfu á Le Monde diplomatique er blaðinu til skammar, svo að vægt sé til orða tekið.

Miðvikudagur 03. 08. 11. - 3.8.2011

Í gær birti ég hér á þessum stað tvær efnisgreinar eftir Robert Wade og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur háskólakennara úr grein sem birtist í Le Monde diplomatique þar sem þau líktu stjórnarháttum hér á áttunda og níunda áratugnum við það sem gerðist í Sovétríkjunum. Samkvæmt lýsingu þeirra var Sjálfstæðisflokkurinn eins og Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna og Kolkabbinn eins konar nómenklátúra innan flokksins. Siðan halda háskólakennararnir áfram og segja:

„Þessari hefðbundnu valdaskipan [Sjálfstæðisflokksins og Kolkrabbans] var ógnað innan frá af ný-frjálshyggju hópi, Eimreiðarhópnum, (the Locomotive group) sem hafði verið mynduð snemma á áttunda áratugnum eftir að nemendur í lögfræði og viðskiptafræði við Háskóla Íslands tóku að sér útgáfu á tímaritinu Eimreiðinni og kynntu frjálshyggju. Markmið þeirra var ekki aðeins að breyta þjóðfélaginu heldur einnig að skapa sjálfum sér störf og frama í stað þess að fá mola af borðum Kolkrabbans. Eftir lyktir kalda stríðsins styrktist staða þeirra efnislega og hugmyndafræðilega, þar sem kommúnistar og jafnaðarmenn höfðu glatað stuðningi almennings. Davíð Oddsson, verðandi forsætisráðherra, stóð framarlega í hópnum.“

Ég fylgdist með því á sínum tíma þegar menn tóku höndum saman um að blása nýju lífi í Eimreiðina en varð ekki félagi í hópnum. Að líta á hann þeim augum sem gert er í ofangreindum orðum er örugglega ekki byggt á viðtölum við neina sem komu að útgáfu Eimreiðarinnar. Þetta er einfaldlega síðari tíma útlegging andstæðinga þeirra sem í hópnum voru. Hún byggist á óvild, pólitískum ágreiningi eða jafnvel einfaldlega öfund yfir því hve miklu margir í hópnum hafa áorkað.

Þriðjudagur 02. 08. 11. - 2.8.2011

Ég sé á netinu að vakið hefur athygli að ég taldi Le Monde diplomatique lítt til hróss að hafa birt grein eftir Robert Wade og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur háskólakennara um Ísland. Ég sagði hér á síðunni sl. sunnudag að greinin gæfi brenglaða og að mörgu leyti alranga mynd af því sem gerst hefði hér á landi undanfarin ár og áratugi. Hún væri reist á samsæriskenningum um íslensk stjórnmál. Þau stykkju út í pólitísku laugina án þess að kunna sundtökin. Buslugangurinn væri í samræmi við það.

Af mörgu er að þessari skoðun til stuðnings. Ég birti tvær efnisgreinar hér fyrir neðan í þýðingu minni:

„Það er bein lína frá hálfgerðu lénsskipulagi 19. aldar til nútímalegs kapítalisma á Íslandi á síðari hluta 20. aldar þegar blokk 14 fjölskyldna, almennt þekkt undir heitinu Kolkrabbinn stjórnaði stjórnmála- og fjármálalífi þjóðarinnar. Kolkrabbinn stjórnaði innflutningi, samgöngum, bönkum, tryggingum, útgerð, fiskvinnslu og birgðum fyrir NATO stöðina auk þess að leggja til helstu stjórnmálamennina. Fjölskyldurnar lifðu eins og goðar.

Kolkrabbinn stjórnaði Sjálfstæðisflokknum sem hafði undirtökin í fjölmiðlun og skipaði menn í allar helstu stöður í stjórnkerfinu, lögreglunni og dómstólunum.  Ríkisreknir bankar voru í raun reknir af helstu flokkunum, Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum [þ.e. Framsóknarflokknum]. Venjulegt fólk varð að hafa samband við flokksstarfsmenn til að fá lán til að kaupa bíl eða til að fá gjaldeyri til að ferðast til útlanda. Valdakerfi þreifst eins og vefur eineltis, undirlægjuháttar og vantrausts, gagnsýrt af karlrembu, líkt og gerðist í Sovétríkjunum.“

Teljist þetta ekki til samsærislýsinga í stað fræðimennsku veit ég ekki hvar á að draga mörkin. Óvild og/eða vanþekking birtist í hverri setningu.

Af fleiru er að taka og kann ég að víkja að því síðar.

Mánudagur 01. 08. 11. - 1.8.2011

Í dag eru sex ár liðin frá því að Andríki opnaði bóksölu sína á netinu. Í tilefni af afmælinu segir á vefsíðu andríkis, Vef-Þjóðviljanum:

„Á afmæli sínu hefur Bóksalan oft gert viðskiptavinum sínum sérstök tilboð í hátíðarskyni. Að þessu sinni býður Bóksalan þá fyrri þessara tveggja sláandi bóka á verulegum afmælisafslætti. Næstu tvær vikur fæst Rosabaugur yfir Íslandi í Bóksölu Andríkis á 2499 krónur og er heimsending innanlands innifalin í verðinu eins og alltaf í Bóksölunni. Við erlendar pantanir bætist 900 króna sendingargjald. Er þetta verulegur afsláttur frá hefðbundnu verði, en í efnislegum bókaverslunum kostar bókin um 4000 krónur og menn verða sjálfir að bera hana á bakinu heim.“


Ég þakka hinum ágætu Andríkismönnum fyrir að sýna bók minni þennan áhuga. Hér er krækja á bóksölu þeirra fyrir þá sem vilja nýta sér kostakjörin á bókinni.

Reglulega berast mér vinsamleg bréf frá lesendum bókarinnar og þakka ég þau. Nokkrar vikur eru liðnar frá því að 2. prentun hennar kom á markað en í henni færði ég í rétt horf fyrir hvað Jón Ásgeir var dæmdur 5. júní 2008 í hæstarétti það er meiriháttar bókhaldsbrot en ekki fjárdrátt eins og ég hafði misritað. Vegna þessarar misritunar hefur verið alið á því af pennum í þágu Baugsmanna eins og Reyni Traustasyni á DV sem enn skrifar um „náhirðina“ í 2007-stíl og Ólafi Arnarsyni á Pressunni að bókin sé full af villum. Þetta er ekki annað en lágkúruleg leið í anda þeirra aðferða sem lýst er rækilega í bókinni.