31.8.2011

Miðvikudagur 31. 08. 11.

Í gær vakti ég athygli á því á Evrópuvaktinni að Jóhanna Sigurðardóttir hefði sagt við fréttamann RÚV að í Líbíu-málinu hefði Össur Skarphéðinsson farið að ályktun alþingis. Fréttamaðurinn hváði hvorki né spurði Jóhönnu nánar út í þessa ályktun. Alþingi ályktaði alls ekki um málið. Morgunblaðið vekur athygli á þessari vitleysu hjá forsætisráðherra í leiðara í morgun. Styrmir Gunnarsson ræðir málið einnig á Evrópuvaktinni í dag. Að öðru leyti sé ég ekki á þetta minnst. Hvarvetna annars staðar hefðu fjölmiðlar og stjórnmálamenn varpað ljósi á vanþekkingu forsætisráðherra á afgreiðslu mikilvægs máls sem auk þess er deiluefni innan ríkisstjórnar hennar.

Ég las í blaði í morgun samtal við nemanda í Kvikmyndaskóla Íslands sem sagði að Jóhanna Sigurðardóttir hefði ekkert sagt um málefni skólans. Þetta er ekki rétt hún sagði í hádegisfréttum föstudaginn 19. ágúst að komið yrði á móts við skólann en aðstoðarmaður hennar dró ummæli hennar til baka með orðsendingu sem lesin var í sama fréttatíma. Málið vakti hvorki umræður meðal stjórnmálamanna né fjölmiðlamanna.

Hver er ástæðan fyrir því að fjölmiðlar og stjórnmálamenn nota annan kvarða á það sem Jóhanna segir en almennt um stjórnmálamenn? Ganga menn að því sem vísu að ekkert sé að marka sem hún segir? Sé svo komið verður enn óskiljanlegra en áður að þingflokkur Samfylkingarinnar skuli styðja Jóhönnu sem forsætisráðherra. Í næstu viku rennur framboðsfrestur til formennsku í Samfylkingunni út. Skyldi einhver bjóða sig fram gegn Jóhönnu? Sættir Samfylkingin sig við að starfa undir marklausum formanni?

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra undraðist í Kastljósi kvöldsins að einhverjum dytti í hug að hann talaði sig vanhæfan með yfirlýsingum sínum um kaupin á Grímsstöðum á Fjöllum. Lögum samkvæmt ber Ögmundi að taka ákvörðun. Hann kýs hins vegar um að nauðsynlegt sé að breyta lögunum? Lögum samkvæmt ber Ögmundi að virða hæfisreglur. Hann talar sig hvorki frá þeim né skyldu sinni til að taka afstöðu til sölunnar á Grímsstöðum.