Dagbók: mars 2013

Sunnudagur 31. 03. 13 - páskadagur - 31.3.2013 21:40

Gleðilega páska!

Bilbao er einstaklega hrein borg og alla helgina hafa ryksugubílar og menn frá hreinsunardeild borgarinnar verið á ferð og flugi þótt verslanir hafi verið lokaðar nema í gær. Mikill fjöldi fólks var á götum borgarinnar í dag enda veðrið einstaklega milt og gott. Hér búa um 350 þúsund manns og gestur hefur á tilfinninguna að honum takist á fáeinum dögum að átta sig á því helsta sem borgin hefur að bjóða.

Glöggur samferðarmaður sagði mér að á sex árum hefði borginni tekist að endurheimta þann kostnað sem hún hefði borið vegna Guggenheim-safnsins og rannsóknir sýndu að til borgarinnar kæmu 800.000 manns á ári vegna safnsins. Þar skiptir húsið og frægð þess mestu og stjórnendur hafa úr ógrynni tillagna um sýningar að velja.

Margar borgir hafa viljað feta í fótspor Bilbao með einstökum byggingum í þágu menningarstarfsemi. Sagan sýnir hins vegar að dæmið skilar ekki alls staðar jafngóðum ágóða og hér í Bilbao.

Ég er í hópi þeirra sem aldrei hefði lagt leið mína til Bilbao nema vegna safnhússins og þess sem það hefur að geyma.

Laugardagur 30. 03. 13 - 30.3.2013 17:50

Guggenheim-safnið í Bilbao brást ekki væntingum mínum þegar ég skoðaði það í fyrsta sinn í dag. Utan sem innan er safnhúsið einstakt. Þá er verkið The Matter of Time (1994 til 2005) eftir Richard Serra sem er hluti af safninu og gert fyrir stærsta sal þess hið magnaðasta sem ég hef séð. Unnt er að upplifa það á sérkennilegan hátt með að ganga í gegnum einstaka hluta þess.

Um þessar mundir er heitir hin tímabundna sýning safnsins L‘Art en Guerre, France 1938 – 1947. Frá Picasso til Dubuffet. Eins og nafnið segir snýst sýningin um listsköpun í Frakklandi á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar og er bæði fróðleg og átakanleg.

Föstudagur 29. 03. 13 - 29.3.2013 22:30

Í fyrsta sinn færi ég á síðuna með iPad. Tölvan tengist ekki netinu.
Fórum frá Bilbao með rútu til San Sebastian sem er niður við hafið í 
Baskalandi. Gátum setið úti í hádegismat en skömmu síðar tók að rigna.

Magnús heitinn Guðmundsson blómasali, vinur minn og sundfélagi, dvaldist um tíma í San Sebastian eftir síðari heimsstyrjöldina. Hann sagðist hafa kynnst heimsmanninum Þórði Albertssyni sem stundaði saltfisksölu á Spáni. Ók Magnús Þórði í opnum bíl um götur bæjarins og var þeim fagnað því að margir töldu sig í þakkarskuld við Þórð fyrir að hafa séð  þeim fyrir saltfiski.

Frásögn Magnúsar leitaði á huga minn þegar ég fór um götur San Sebastian.

Fimmtudagur 28. 03. 13 - 28.3.2013 20:00

Flugum 07.40 í morgun á vegum Vita ferðaskrifstofunnar til Bilbao í Baskalandi.

Alþingi lauk störfum aðfaranótt skírdags. Á ruv.is segir af þessu tilefni:

„Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra átti síðasta orðið á Alþingi þetta kjörtímabilið, sem voru hennar síðustu á Alþingi, enda lætur hún nú af störfum eftir nærri 35 ára þingsetu. „Og oft hefur umræðan í þingsölum verið óvægin, einkum hin síðustu ár. Kannski óvægnari og hatrammari en oft áður. Af þeim sökum hafa síðustu vikur mínar verið daprasta tímabilið á mínum þingferli.“

Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að Jóhanna sé reið þegar hún kveður alþingi, það væri ólíkt henni að vera ekki reið og hafa allt á hornum sér. Ástæðuna fyrir reiði hennar er að finna innan Samfylkingarinnar og meðal nýrra forystumanna hennar. Í kveðjuræðu á landsfundi Samfylkingarinnar 1. til 3. febrúar 2013 sagði Jóhanna meðal annars:

„Til að svo megi verða [að stjórnarskrármálið klárist á þinginu] þurfum við hinsvegar órofa samstöðu þeirra þingmanna sem hingað til hafa stutt málið – ekki bara innan stjórnarflokkanna, heldur einnig Hreyfingarinnar og Bjartrar framtíðar. Því verður ekki trúað að sú samstaða rofni á lokasprettinum, einmitt þegar úthaldið og pólitíska þrekið má ekki bresta.

Og hversvegna liggur okkur á að samþykkja þær nú á þessu þingi er spurt. Svarið er einfalt, því ef svo illa færi að Sjálfstæðismenn næðu hér völdum að loknum næstu kosningum þá er ekki á vísan að róa, að efnislega héldu tillögur stjórnlagaráðs í höndum þeirra,

enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn lýst því yfir að hann telji sig á engan hátt bundin af þeim þjóðarvilja sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni.“

Þessi áform Jóhönnu um afgreiðslu á nýrri stjórnarskrá runnu út í sandinn, ekki vegna andstöðu sjálfstæðismanna heldur vegna hins að eftirmaður hennar á formannsstóli í Samfylkingunni, Árni Páll Árnason, hafði hvorki „úthaldið“ né „pólitíska þrekið“ sem hún taldi ráða úrslitum um afgreiðslu málsins.Það er von að hún sé daprari en venjulega enda studdi hún ekki stjórnarskrártillögu Árna Páls.

 

Miðvikudagur 27. 03. 13 - 27.3.2013 17:55

Í kvöld ræði ég við Unni Brá Konráðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Unnur Brá er að ljúka fyrsta kjörtímabili sínu á þingi. Hún hefur vakið athygli fyrir skeleggan málflutning í mörgum málum, einkum Icesave-málinu og ESB-málinu.

Við ræðum um þinglokin. Þegar við hittumst um klukkan 14.00 í dag var enn óljóst hvort tækist að ljúka þingstörfum í dag. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra vildi ekki sætta sig við samkomulag sem Katrín Jakobsdóttir flokksformaður hafði gert kvöldið áður.

Verði „litla stjórnarskrárfrumvarpið“ samþykkt, það er tillaga Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar til að halda lífi í tillögum stjórnlagaráðs (án þess að það sé í raun gert) verða tvö ákvæði um breytingu á stjórnarskránni í gildi. Annars vegar það sem þau leggja til, það er að tveir þriðju þingmanna samþykki breytingu og síðan 40% atkvæðisbærra manna og hins vegar ákvæðið í núgildandi stjórnarskrá, það er um einfaldan meirihluta þingmanna, þingrof og síðan samþykki óbreyttra tillagna á nýju þingi.

Að stjórnarskrárbrölti Jóhönnu Sigurðardóttur í rúm fjögur ár skuli lykta á þennan hátt sýnir að í alltof mikið var ráðist án þess að samstaða væri tryggð meðal þeirra sem ber að taka ákvarðanir um breytingar á stjórnarskrá. Hið sama á við um hitt stórmál Jóhönnu-stjórnarinnar, ESB-aðildarumsóknina, að henni var staðið jafnilla enda viðskilnaðurinn í samræmi við það.

Viðtalið við Unni Brá verður á dagskrá klukkan 20.00 og 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Í dag skrifaði ég grein í Fréttablaðið og má lesa hana hér.

 

Þriðjudagur 26. 03. 13 - 26.3.2013 22:50

Forvitnilegt er að fylgjast með gagnrýni á Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands, fyrir formennsku hans í evru-ráðherrahópnum. Hann tók skýrt til orða í gær um að líta bæri á aðgerðir á Kýpur sem fordæmi, almenningur ætti ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Hann var knúinn til að draga í land þegar hann var sakaður um að hafa búið til template eða skapalón fyrir framtíðarlausn vegna banka á heljarþröm.

Dijsselbloem sagði í dag að hann vissi ekki einu sinni hvað orðið template þýddi og hann hefði ekki verið að kynna neitt slíkt með orðum sínum. Hann og talsmenn Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórnar ESB hafa í dag hamrað á að Kýpur hafi sérstöðu þangað verði ekki leitað að fordæmum vegna annarra ríkja.

Lúxemborgarar eru reiðir yfir að Dijsselbloem hafi nefnt land þeirra til sögunnar þegar hann benti á ríki á evru-svæðinu þar sem bankakerfið væri ofvaxið hagkerfi viðkomandi ríkis. Þegar bankar hrundu hér á landi hneyksluðust menn víða yfir að leyfð hefði verið þensla í bankakerfi á þann veg að það yrði nífalt eða tífalt stærra en hagkerfið. Sagt er að í Lúxemborg sé fjármálakerfið 20falt stærra en hagkerfið.

Greinilega er stefnt að þinglokum fyrir páska og virðist stefna í að „litla stjórnarskrárfrumvarpið“ verði afgreitt, það er líflina fyrir stjórnlagaráðstillögurnar. Í frumvarpinu er ákvæðum breytt til að unnt verði að breyta stjórnarskránni án þess að rjúfa þing. Við Skúli Magnússon, dósent og héraðsdómari, ræddum þetta frumvarp í þætti mínum á ÍNN. Þáttinn má sjá hér.

Það eru engin rök fyrir að breyta stjórnarskránni á þennan hátt. Allt kjörtímabilið höfum við heyrt stjórnlagaráðsmenn gera lítið úr þingmönnum. Nú bjóða þeir sig sem hæst hafa hallmælt alþingi sig fram til þings!

Mánudagur 25. 03. 13 - 25.3.2013 21:40

Nú er vorhefti Þjóðmála, 1. hefti 9.árgangs, komið út og má nálgast það í vefbókaverslun Andríkis, hér. 

Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur hefur verið ritstjóri Þjóðmála frá upphafi og haldið tímaritinu úti af miklum dugnaði. Hefur Þjóðmálum aldrei orðið misdægurt eða fallið úr tölublað.

Í evru-ráðherrahópnum hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að almenningur eigi ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Um það má lesa hér.

Viðbrögð manna á markaðnum einkenndust af ótta og verð lækkaði eins og lesa má hér.

Sunnudagur 24. 03. 13 - 24.3.2013 22:50

Forvitnilegt er að verða vitni að því hvernig fréttastofa ríkisútvarpsins gerir sem minnst úr vandræðaganginum á alþingi þegar forseti þingsins hefur tvisvar sinnum gripið til þess óvenjulega ráðs að boða ekki þingfundi af því að ekki er unnt að fjalla um mál vegna óstands á stjórnarheimilinu.

Menn ættu að ímynda sér hvernig látið væri á fréttastofunni ef ástæðan fyrir því að ekki þætti fært að halda fundi vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn væri til vandræða á þingi. Þá yrði ekki opnað fyrir fréttir án þess að glymdi í eyrum manna hvílíkt hneyksli væri á ferð og það meira að segja eftir að starfsáætlun þingsins mælti fyrir um þinglok.

Nú eru ekki-þingfréttir faldar inni í fréttatímanum og ekkert gert með þótt ekki aðeins sé kreppa á stjórnarheimilinu heldur einnig þingkreppa ef nota má það orð til að lýsa þeirri staðreynd að alþingi er óstarfhæft vegna sundurlyndis innan stjórnarflokkanna.

Í Morgunblaðinu var sagt frá ágreiningi milli Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur þingforseta og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, flokkssystranna, og talið að Ásta Ragnheiður væri að seilast til nýrra valda með  því að boða ekki þingfundi. Vissulega er það rétt. Ástæðan fyrir að hún kemst upp með það er að forsætisráðherrann er aðeins að nafninu til – Jóhanna hefur engin völd lengur af því að enginn fer að hennar ráðum. Jóhanna er hins vegar í gamalkunnu hlutverki: að spilla fyrir öðrum.

Eina úrræði Ásta Ragnheiðar er að boða ekki fundi. Staðreynd er að valda- og áhrifaleysi forsætisráðherra gerir þingið óstarfhæft.

Frá þessu er ekki greint á neinn hátt í fréttatímum ríkisútvarpsins. Þar skilja menn ekki vandræði í starfi alþingis nema unnt sé að rekja þau til þess sem er kallað málþóf.

Fráleitt er fyrir stjórnarandstöðuna að láta undan kröfum stjórnarflokkanna um afgreiðslu mála við þessar aðstæður. Þetta á til dæmis við um stjórnarskrármálið – afgreiðsla þess er alfarið í höndum stjórnarflokkanna og stjórnarandstaðan á að skerpa ábyrgð þeirra á málinu í stað þess að skapa stjórnarflokkunum undankomuleið. Eiga þeir það skilið? Fyrir landsdómsmálið? Icesave-málið? Eða öll önnur óstjórnarmál síðustu fjögurra ára?

 

Laugardagur 23. 03. 13 - 23.3.2013 23:07

Athygli vakti að föstudaginn 22. mars sagði aðeins Fréttablaðið frá að réttað hefði verið daginn áður í máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, vegna þess að hann bað starfsmann Landsbankans að útvega sér skjöl varðandi Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann og sendi þau á DV þar sem hann taldi Guðlaug Þór hafa komið upplýsingum gegn sér í Kastljós.

Þetta er stórfurðulegt mál sem snertir háttsettan embættismann, alþingismann og tvo fjölmiðla DV og ríkisútvarpið.

Ástæðulaust er að ætla að þögn um málið í öðrum fjölmiðlum en Fréttablaðinu stafi af áhugaleysi. Ástæðan er að öllum líkindum önnur. Fréttastjórar skoða vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur til að átta sig á hvaða mál eru tekin fyrir dag hvern. Hið sérkennilega er að ekkert var sagt frá fyrirtöku málsins á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

Enn sérkennilegra er að ekki hefur verið sagt frá leyndinni yfir málinu í fjölmiðlum. Ætli fjölmiðlamönnum sé sama um að staðið sé að upplýsingamiðlun hjá Héraðsdómi Reykjavíkur á þennan hátt? Réttarhöld í sumum málum eru kynnt en ekki öðrum. Hvaða regla gildir?

Einn besti sakamálaþáttur í sjónvarpi um þessar mundir er þátturinn Beck sem til dæmis er sýndur á DR1 á laugardagskvöldum.

Föstudagur 22. 03. 13 - 22.3.2013 23:55

Á Evrópuvaktinni hafa undanfarna viku birst fjölmargar fréttir um þróun mála á Kýpur eftir að leiðtogar og fjármálaráðherrar evru-ríkjanna ákváðu að veita Kýpverjum neyðarlán með því skilyrði að þeir legðu sjálfir fram 5,8 milljarða evra.

Ríkisstjórn Kýpur er á milli steins og sleggju.

Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur misst þolinmæði vegna vandræðagangsins í ríkisstjórn Kýpur á bakvið hana er ekki á 56 manna þingi landsins.

Kremlverjar hafa ekki heldur neitt álit á stjórn Kýpur en talið er að Rússar eigi 37 milljarða evra í bönkum á Kýpur. ESB-ráðherrarnir vilja ná í hluta þeirra peninga og jafnframt grafa undan Kýpur sem skattaskjóli og peningaþvottastöð.

Fullveldi Kýpur hefur verið skert á þann veg að stjórnvöld í Nikósíu geta ekki um frjálst höfuð strokið. Þau verða að fá samþykki frá Brussel og Berlín vegna allra efnahagsákvarðana. Þá liggur í loftinu að þeir séu óvelkomnir á evru-svæðinu og hafi verið allt frá upphafi þegar þeir komust þangað sem fylgihnöttur.

Það er með ólíkindum að hér berjist menn fyrir að Íslendingar komist að sameiginlegri niðurstöðu með stækkunardeild ESB um aðild að sambandinu til að hljóta sömu stöðu og Kýpur, jafnvel enn meira ósjálfstæði vegna samrunaþróunar innan ESB.

Fimmtudagur 21. 03. 13 - 21.3.2013 21:50

Það er eftir öðru að rúmum mánuði fyrir kosningar taki fréttastofa ríkisútvarpsins og ráðherrar höndum saman til að varpa rýrð á álfyrirtækin Alcoa og Norðurál vegna starfskjara sem þau njóta hér á landi á grundvelli samninga við íslenska ríkið. Ráðherrarnir hafa haft rúm fjögur ár til að taka á málum þessara fyrirtækja en láta nú eins og það verði tafarlaust að gera eitthvað í málinu. Kosningabaráttan tekur á sig ýmsar myndir.

Kastljós er meðvirkt með ráðherrunum sem hlut eiga að máli og Indriði H. Þorláksson sem síðast lét að sér kveða við gerð Icesave-samningana er kallaður í Spegillinn og kynntur til samtalsins á þann veg að ætla mætti að hann hefði vakið athygli Kastljóss á að þarna væri mál sem hentaði til að kasta rýrð á álfyrirtækin. Ráðherrarnir fengu tækifæri til að stunda eftirlitsiðju sína að tala illa um það sem vel gengur í landinu. Þarf einhver að undrast að ekki hafi tekist að laða erlenda fjárfesta til landsins í stjórnartíð þessa fólks?

Hannes Pétursson skáld skrifar neyðarlega um Evrópuvaktina  í Fréttablaðið í dag, ég vakti athygli á grein hans á Evrópuvaktinni.

Ögmundur Jónasson innaríkisráðherra kveinkar sér í Fréttablaðinu í dag undan því sem ég sagði hér á síðunni 14. mars þegar Varðberg efndi til fundar með Stefáni Eiríkssyni, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um rannsóknarheimildir lögreglu. Ögmundur vill þrengja þessar heimildir og hefur lagt fram frumvarp í þá veru fyrir alþingi. Það er strandað í nefnd sem vill styrkja þennan þátt í starfi lögreglunnar í þess að veikja hann.

Á Eyjunni í dag sá ég á tveimur stöðum vitnað til þess að ég hefði á árinu 1991 ritað grein í Morgunblaðið og varað við þeim sem lögðust gegn EES-samstarfinu af því að það kynni að leiða til þess að þjóðin glataði sjálfstæði sínu, menningu og tungu. Nú eru brátt 20 ár frá aðild okkar að EES, sjálfstæðinu, menningunni og tungunni hefur ekki verið unnið mein. Tilvitnunin í þessi orð mín er enn eitt hálmstrá þeirra sem berjast fyrir ESB-aðild. Ég bendi þeim í vinsemd á að lesa það sem ég hef skrifað og varað við ESB-aðildinni og gef Eyjunni heimild til að endurprenta það eins oft og ritstjórnin vill.

 


Miðvikudagur 20. 03. 13 - 20.3.2013 19:30

Á Kýpur hafa menn ákveðið að loka bönkum fram  yfir helgi. Ríkisstjórnin veit ekki til hvaða ráða hún á grípa eftir að þing Kýpur hafnaði afarkostum ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum einum rómi í atkvæðagreiðslu þriðjudaginn 19. mars.

Menn spyrja hvort ekki sé til neitt „plan B“ á Kýpur. Hvaða leið ætlar ríkisstjórnin að fara til tryggja starfsgrundvöll bankanna? Hvað gerist ef ekki verður unnt að gera það? Ekki er unnt að loka bönkum til allrar framtíðar.

Á Íslandi hefur ríkisstjórnin ákveðið að alþingi komi ekki saman. Enginn fundur var haldinn á alþingi í dag. Á vefsíðu alþingis er ekki birt nein dagsetning um næsta þingfund. Ástæðan fyrir því að alþingi kemur ekki saman til fundar er að þar ríkir upplausn.

Það er á ábyrgð ríkisstjórnar og þingforseta að sjá til þess að alþingi sé starfhæft og þar sé unnt að leiða mál til lykta.

Þingmenn ætluðu sjálfir að hafa lokið störfum sínum föstudaginn 15. mars. Þeim tókst ekki að gera það á formlegan hátt, nú er hins vegar hætt að kalla þingmenn saman til fundar. Er ekki einfaldast að halda enga fundi fram að kosningum? Þær verða eftir fáeinar vikur og þar af taka páskar eina.

Íslendingar búa betur en Kýpverjar. Eins og málum er komið er best að alþingi sé lokað þar til þjóðin hefur kosið nýtt fólk til setu þar. Kýpverjar þola hins vegar ekki til lengdar að bankar séu lokaðir.

 

Þriðjudagur 19. 03. 13 - 19.3.2013 18:24

Frá 20. janúar hef ég staðið að fjórum 50 mínútna þáttum á sjónvarpsstöðinni ÍNN um stjórnarskrármálið.

Í fyrsta þættinum 20. janúar ræddi ég við Sighvat Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra, um þátt frumvarps stjórnlagaráðs um stjórnskipunina: forsetaembættið, ríkisstjórn og alþingi. Ræddum við Sighvatur málið með hliðsjón af reynslu okkar af stjórnmálastörfum. Sjá má þáttinn hér.

Í öðrum þættinum 3. febrúar var Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, gestur minn og ræddum við um stjórnmálafræðilega þætti málsins og samanburð við stjórnarfar í öðrum löndum. Sjá má þáttinn hér.

Í þriðja þáttinn 13. febrúar kom Brynjar Níelsson hrl. til mín og ræddum við um mannréttindaákvæði í stjórnlagafrumvarpinu og álit Feneyjanefndarinnar. Sjá má þáttinn hér.

Í fjórða og síðasta þættinum 17. mars ræddum við Skúli Magnússon, lektor við lagadeild Háskóla Íslands og héraðsdómari, um stjórnlagaferlið í heild og „litla stjórnarskrárfrumvarpið“ sem nú er til meðferðar á alþingi. Sjá má þáttinn hér.

Ég leyfi mér að fullyrða að á ÍNN hafi verið farið ítarlegar yfir stjórnarskrármálið eins og það er nú en á nokkurri annarri sjónvarpsstöð og þar geti menn áttað sig betur á álitaefnum í málinu en annars staðar í fjölmiðlum. Ég leyni ekki skoðun minni á málinu og meðferð þess og viðmælendur mínir ekki heldur. Allt sem sagt er styðst hins vegar við málefnaleg rök. Þeir sem horfa á þættina hljóta að sannfærast um hve varasamt er að afgreiða stjórnarkrármálið í þeim búningi sem það er, hvort heldur litið er á stóra eða litla frumvarpið.

Mánudagur 18. 03. 13 - 18.3.2013 22:55

Augljóst virðist af fréttum að aðfaranótt laugardagsins hafi fjármálaráðherrar evru-ríkjanna og viðmælendur þeirra frá Kýpur ekki gert sér neina grein fyrir hvaða afleiðingar það hefði að sparifjáreigendur á Kýpur ættu að taka þátt í björgun bankakerfisins þar með neyðarlánveitendum og sætta sig við eignaupptöku.

Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórnar ESB hafi gert kröfur um að almennir sparifjáreigendur kæmu að uppgjörsmálum vegna Kýpur. Þetta fólk fjarlægist þann heim meira og meira þar sem menn þurfa að leita eftir lýðræðislegu umboði við töku ákvarðana. Allt önnur sjónarmið ráða hjá því en stjórnmálamönnum.

Reynsluleysi Kýpverjanna eða raunverulegur ótti við gjaldþrot ríkisins vegna skulda bankanna kann að hafa ráðið því að kýpverskir embættismenn með sjálfan forsetann í broddi fylkingar féllust á hinar fráleitu kröfur sem meira að segja Þjóðverjar vilja tæplega viðurkenna að hafa samþykkt, að minnsta kosti taka ráðamenn í Berlín ekki til varna fyrir samkomulagið við Kýpverja á sannfærandi hátt. Að baki kröfunni á hendur sparifjáreigendum býr að einhverju leyti von um að ná sér niðri á Rússum sem sagðir eru eiga um 15 milljarða evra í bönkum á Kýpur.

Rússarnir búa sig undir að fara með peningana sína og leita sér að öðru skjóli. Því er slegið fram að með þessu samkomulagi við Kýpur hafi evru-hópnum, ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tekist að eyðileggja fjármálageirann á Kýpur. Hann muni aldrei bera sitt barr eftir þetta. Bankar á Kýpur hafi verið rúnir trausti um langa framtíð.

Hér skal engu slegið föstu um réttmæti þessara yfirlýsinga. Auðvitað er ekki unnt að útiloka að Rússagullið og sérstaða þess á Kýpur hafi verið eitur í beinum ráðamanna í ESB og þeir hafi ákveðið að hrekja Rússa á brott af eyjunni á þennan hátt. Sé svo er enn réttmætara en ella af Kýpverjum að segja að hinir ríku og voldugu innan ESB beiti þá fjárkúgun. Kýpverjar eru nógu litlir til að Brusselmönnum þyki réttmætt að sparka í þá á sama tíma og ekkert er gert við Frakka þótt þeir brjóti eigin skuldbindingar um samdrátt í ríkisútgjöldum.

Stjórnmálamenn víða innan ESB hafa skömm á því hvernig Brusselmenn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn koma fram gagnvart Kýpverjum. Þetta gildir þó ekki um utanríkisráðherra Íslands eða fylgismenn hans í röðum ESB-aðildarsinna. Þeir lýsa áfram yfir að best sé fyrir Íslendinga að feta í fótspor Kýpverja og lifa í skugga hinna stóru í ESB og verða að sætta sig við allt sem þeir vilja eða gert er í þeirra nafni.

Sunnudagur 17. 03. 13 - 17.3.2013 22:41

Í dag var síðasti þáttur minn á ÍNN um stjórnarskrármálið sýndur. Þar ræddi ég við Skúla Magnússon, dósent við lagadeild Háskóla Íslands og héraðsdómara. Hann hefur gagnrýnt efni tillagna stjórnlagaráðs og hvernig að gerð þeirra og meðferð hefur staðið. Hann gagnrýnir einnig „litla stjórnarskrárfrumvarpið“ sem Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson hafa lagt fram í sáttaskyni. Þar er gert ráð fyrir „skemmri skírn“ við breytingar á stjórnarskrá á næsta þingi. Margrét Tryggvadóttir í Hreyfingunni hefur sett afgreiðslu þessa frumvarps í uppnám með breytingartillögu sem er ætlað að „smygla“ nýjum stjórnlögum í gegnum þingið.

Þessi staða stjórnarskrármálsins er með ólíkindum. Breyting á stjórnarskránni var fyrsta stórmálið sem Jóhanna Sigurðardóttir kynnti eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009. Nú er vika eða 10 dagar til þingloka og stjórnarskrármálið er í meira uppnámi en áður vegna ágreinings innan Samfylkingarinnar.

Þeir sem kynnst hafa heift Jóhönnu Sigurðardóttur í þessu máli vita að hún hugsar Árna Páli þegjandi þörfina fyrir að segja sannleikann um stöðu stjórnarskrármálsins og að vonlaust sé að ljúka því og ekki borgi sig að knýja fram atkvæðagreiðslu um það vegna ágreinings innan stjórnarliðsins. Orðrómur er um að Jóhanna standi að baki tillögu Margrétar Tryggvadóttur. Jóhanna ber það til baka. Ástæðulaust er að taka slíkar yfirlýsingar af hennar hálfu hátíðlegar. Segði hún annað væru dagar stjórnar hennar taldir.

Árni Páll taldi að Jóhanna yrði til friðs fengi hún að sitja áfram sem forsætisráðherra. Það hefur reynst misskilningur.

Í kvöld dönsuðu norðuljós yfir Reykjavík eins og spáð hafði verið vegna óláta á sólinni.

Laugardagur 16. 03. 13 - 16.3.2013 22:41

Í dag ókum við upp í Reykholt í  Borgarfirði og tókum þátt í fjölmennri og vel heppnaðri athöfn þegar Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði sýninguna Saga Snorra. Sem formaður stjórnar Snorrastofu flutti ég ávarp og má lesa það hér.

Kenningar eru um að hópur sjálfstæðismanna sé lagður af stað inn í ESB án Sjálfstæðisflokksins. Hið furðulega er að hópurinn vill kjósa vinstri stjórn til að leiða sig í sambandið. 

Málið snýst ekki um ESB og Sjálfstæðisflokkinn heldur hvort menn vilji vinstristjórn áfram eða ekki og það utan ESB því að Ísland verður aldrei aðili án stuðnings Sjálfstæðisflokksins, frekar en stjórnarskránni verður ekki breytt án stuðnings flokksins.  Hinir ESB-sinnuðu munu líklega flytja úr landi eins og fleiri þegar vinstristjórnin heldur áfram.

Verði mynduð ríkisstjórn að loknum kosningum án Sjálfstæðisflokksins verður hún vinstri stjórn eins og sú sem nú situr. Ekkert breytist, hnignunin heldur áfram. Engum öðrum er um að kenna en þeim sem styðja ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Föstudagur 15. 03. 13 - 15.3.2013 22:41

Þegar gjaldeyrishöftin komu til sögunnar fyrir rúmum fjórum árum var talað um að þau giltu í 10 mánuði. Þau eru enn og nú berast fréttir um að nauðsynlegt sé að auka heimildir Seðlabanka Íslands til að framfylgja þeim. Enginn stjórnmálaflokkur veit hvernig hann ætlar að losna við höftin. Þau eru síðasta hálmstrá Samfylkingarinnar til að rökstyðja ESB-aðild, með henni megi losna við höftin. ESB segir hins vegar að fyrst verði að losna við höftin og síðan sé unnt að ljúka aðildarviðræðunum.

Stjórnmálaflokkarnir sameinast um að auka heimildir seðlabankans til að fara ofan í fjármál einstaklinga og fyrirtækja og jafnvel grípa til forvirkra aðgerða af því að bankinn lætur sig ekki varða um hvort þeir sem hann rannsakar liggi undir grun. Hið furðulega er að ekki er um að ræða neitt eftirlit með þessari starfsemi seðlabankans. Hann fer sínu fram án þess að þurfa að standa neinum reikningsskil. Það stangast á við kröfur um gegnsæi og reikningsskil innan stjórnsýslunnar og allt sem sagt var í rannsóknarskýrslunni til alþingis.

Tillögur rannsóknarnefndarinnar lentu greinilega í annarri skúffu hjá þingmönnum en þeir opna þegar þeir fjalla um gjaldeyrishöftin og völd seðlabankans.

Allt hið versta hefur gerst vegna gjaldeyrishaftanna sem spáð var: Þau festast í sessi, stjórnmálamenn sjá sér hag af því að halda lífi í þeim, eftirlitskerfi var komið á fót sem krefst meiri og meiri valda, kerfið mismunar einstaklingum og fyrirtækjum og telur sig ekki þurfa að lúta eftirliti neins. Þetta er sem sagt orðinn dæmigerður jarðvegur fyrir opinbera spillingu, jarðvegur þar sem stjórnlyndum vinstrisinnum líður best.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagði eins og ekkert væri sjálfsagðara að fyrirtækið nyti „algjörrar undanþágu“ frá gjaldeyrishöftunum. Það mun vera unnt að nálgast lista yfir fyrirtæki sem njóta þessarar sérstöðu með leyfi seðlabankans. Slíkir undanþágulistar eru hluti allra skömmtunarkerfa og aðferðir við að komast inn á eru ekki alltaf gegnsæjar.

 

Fimmtudagur 14. 03. 13 - 14.3.2013 22:05

Frans páfi var kjörinn í gær. BBC World Service sýnir páfakjörinu og hinum nýja páfa mikinn áhuga og fróðleikurinn sem miðlað er eykur traust í garð þess sem var valinn eftirmaður Péturs postula. Einkennilegasta fréttin tengd páfakjörinu kom frá Venezúela þar sem varaforseti landsins og frambjóðandi til forseta eftir andlát Hugos Chavezar segir fullum fetum að Chavez sé nú með Jesú Kristi í himnaríki og hafi bent honum á Jorge Mario Bergoglio (76 ára), erkibiskup í Buenos Aires, sem góðan páfa og að sjálfsögðu hafi verið farið að þeim ráðum.

Í hádeginu flutti Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, erindi um rannsóknarheimildir lögreglu á fundi Varðbergs. Stefán fjallaði um málið út frá þeim heimildum sem lögreglan hefur nú. Eiður Guðnason, fyrrv. ráðherra og sendiherra, benti á að yrði ekki tryggt að íslensk lög veittu lögreglu sömu heimildir og gilda í nágrannaríkjum væri hætta á að hingað leituðu afbrotamenn sem teldu sig hafa meira skjól hér á landi en annars staðar.

Ögmundur Jónasson stendur gegn þróun löggjafar í þessu efni, ekki megi veita heimildir til forvirkra rannsókna gagnvart hópum sem berjist fyrir ákveðnum skoðunum. Þetta viðhorf er vísasta leiðin til að skapa skjól fyrir öfgahópa sem svífast einskis til að vinna málstað sínum brautargengi. Þá er einkennilegt að heyra þann ráðherra segja þetta sem er frægastur utan lands í seinni tíð fyrir að ætla að reisa „klámskjöld“ um Ísland í netheimum og beita til þess sömu aðferðum og kínversk stjórnvöld beita til skoðanakúgunar í landi sínu. Vinstri grænir láta ekki að sér hæða þegar lögreglan á í hlut.

Á vefsíðu andriki.is má lesa í dag:

„Það er sakleysislegt nafn búsáhaldabyltingin. En öllum sem lesa nýja bók Stefáns Gunnars Sveinssonar sagnfræðings, Búsáhaldabyltingin – sjálfsprottin eða skipulögð? hlýtur að bregða við þá upprifjun á atburðunum sem voru í þeim potti, ofbeldinu, skemmdarverkunum, orðbragðinu, þátttöku þingmanna, misbeitingu fjölmiðla.“

Fyrst var sagt frá þessari bók í gær og varð þá furðulegt uppnám á ýmsum stöðum. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sem sögð er koma við sögu vegna ónota í garð lögreglu þegar hún varði vinnustað hennar, Alþingishúsið, endurtekur að allir sem gagnrýna framgöngu hennar sem þingmanns hafi rangt fyrir sér. Sérkennilegast var þó að lesa blogg-viðbrögð Egils Helgasonar, umræðustjóra ríkisútvarpsins: Þarf hann ekki að lesa bækur til að leggja dóm á þær? Aðrir tóku til við að gera höfundinn tortryggilegan. Fyrir okkur sem þekkjum málið úr návígi verður fróðlegt að sjá þessa sögu sagða.

Miðvikudagur 13. 03. 13 - 13.3.2013 21:25

Í dag er sýnt á ÍNN samtal mitt við Valgerði Gunnarsdóttur, skólameistatara á Laugum og frambjóðanda í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi. Ræðum við stöðu mála í kjördæminu og einnig framhaldsskólastigsins almennt enda er Valgerður formaður skólameistarafélagsins. Næst verður samtalið sýnt klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, skrifar pistla á vefsíðuna Eyjuna. Í pistli í gær skrifar hann um fyrstu skóflustungu að húsi íslenskra fræða sem Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, tók mánudaginn 11. mars. Stefán segir:

„Forsaga Húss íslenskra fræða er líka fróðleg. Þannig var að þegar Háskóli Íslands varð 90 ára gamall, árið 2001, þá færði þáverandi menntamálaráðherra Björn Bjarnason háskólanum afmælisgjöf, eins og margir gerðu við það tækifæri.

Afmælisgjöfin sem Björn Bjarnason færði HÍ fyrir hönd þáverandi ríkisstjórnar var sú, eins og tilkynnt var við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu, að ríkið myndi færa Háskólanum nýja byggingu yfir íslensk fræði og Árnastofnun.

Sá böggull fylgdi skammrifi að gjöfin skyldi afhendast á 100 ára afmæli Háskóla Íslands, árið 2011! Þetta var sem sagt “loforð” um að einhver önnur ríkisstjórn myndi færa HÍ slíka afmælisgjöf á hundrað ára afmælinu, tíu árum síðar!

Þessi “afmælisgjöf” ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar vakti mikla furðu í yfirstjórn Háskólans á þessum tíma – og litla kátínu. Mönnum var auðvitað ljóst að loforð án fjármögnunar eru almennt lítils virði.“

Þetta er ótrúleg samsuða. Hér má lesa ávarp sem ég flutti í Alþingishúsinu 17. júní 2001 í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands; að ég „gefi“ skólanum hús við það tækifæri hrein ímyndun. Ég flutti síðan ræðu á háskólahátíð 5. október 2001 og má lesa hana hér. Þar nefni ég, að í tilefni 100 ára afmælis Stjórnarráðs Íslands árið 2004 skuli tekin ákvörðun um að reisa hús hér á háskólalóðinni í tengslum við Þjóðarbókhlöðuna, sem hýsi handritin og stofnanir íslenskrar tungu og fræða, færi vel á að taka húsið í notkun á 100 ára afmæli Háskóla Íslands. Við sölu Landsímans var ákveðið að verja 1.000 milljónum af söluandvirðinu til þessarar byggingar.

Ég skoraði á Stefán Ólafsson að færa sönnur á fullyrðingar sínar í pistlinum á Eyjunni. Hann hefur ekki gert það enda um hreinan hugarburð að ræða.

Þriðjudagur 12. 03. 13 - 12.3.2013 21:10

Í dag komu kardínálarnir (115) saman í fyrsta sinn saman í Sixtinsku-kappelluna, sem var reist 1475 til 82 fyrir Sixtus IV páfa til að greiða atkvæði um nýjan páfa undir málverki Michelangelo, Dómsdegi. Listaverkin í kapellunni hafa nýlega verið hreinsuð og er hún eins og annað í þessum hluta Vatíkansins meðal helstu dýrgripa mannkyns. Ég var á ráðstefnu í Vatíkaninu í byrjun janúar 1999 og skrifaði í pistil hér á síðuna 17. janúar 1999:

„Okkur málþingsgestum var boðið að gista í Domus Sanctae Marta í Casa Santa Marta. Þetta er nýtt gistihús, sem var reist í þeim megintilgangi að hýsa kardínála, þegar þeir koma saman í Róm til að kjósa páfa.

Í [...] bók um Jóhannes Pál páfa II er sagt frá því, að þannig hafi verið búið að kardínálum haustið 1978, þegar þeir komu síðast saman til páfakjörs, að þeir hafi gist í klefum, sem hafi verið innréttaðir til bráðabirgða í gömlum híbýlum Borgia-páfanna. Í hverjum klefa hafi verið beddi, náttborð og lítið skrifborð. Sameiginlegt baðherbergi hafi þjónað þeim.

Í Casa Santa Marta er aðstaðan allt önnur, þótt þar sé enginn íburður. Í tölvupósti hafði verið sagt, að aðeins væri um eins manns herbergi að ræða, en þegar við Rut komum á staðinn hafði aukarúm verið flutt í rúmgott svefnherbergið, en framan við það var skrifstofa með tveimur stólum við allstórt skrifborð. Má því segja að hver kardínáli hafi nú litla íbúð með baði til ráðstöfunar. Sími er í íbúðinni en hvorki útvarp né sjónvarp. Þá virðast menn þurfa að fara út fyrir Vatíkanið, vilji þeir kaupa dagblöð, raunar sjást ekki neinar verslanir innan veggja þess.

Á fyrstu hæð Domus Sanctae Marta er stór borðsalur, þar sem nunnur með aðstoðarkonum ganga um beina. Á sömu hæð er einnig sameiginlegt sjónvarpsherbergi. Húsinu tilheyrir einstaklega falleg kapella, þar sem sungin var messa á hverjum morgni, á meðan við dvöldumst þar.

Kyrrðin er algjör í byggingunni og raunar næsta einkennilegt að hugsa til þess í þögninni, að rétt utan við múra Vatíkansins sé iðandi mannlíf og stöðugt umferðaröngþveiti stórborgar, sem er sprungin utan af sjálfri sér.“

Það væsir ekki um kardínálana á meðan þeir dveljast í Vatíkaninu við val á páfa, samkunda þeirra nefnist conclave – bein þýðing er „með lykli“ – vísar orðið til þess að kardínálarnir eru læstir inni þar til hvítur reykur stígur upp úr Sixtinsku-kappellunni. Eftir fyrstu atkvæðagreiðsluna í dag var hann svartur. Á morgun greiða þeir atkvæði fjórum sinnum.

 

Mánudagur 11. 03. 13 - 11.3.2013 22:10

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tók í dag kl. 17  fyrstu skóflustunguna að nýbyggingu fyrir starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands, Húsi íslenskra fræða. Efnt var til hátíðlegrar athafnar af þessu tilefni í tjaldi fyrir austan Þjóðarbókhlöðuna en hin nýja hús á að rísa þar sem Melavöllurinn stóð áður.

Það var vel við hæfi að sjá kvikmyndina Lincoln sama dag og ráðherrar og stuðningsmenn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur töldu saman atkvæði gegn vantrauststillögunni sem Þór Saari flutti. Kvikmyndin snýst um hvernig Abraham Lincoln vann að því að mynda meirihluta í fulltrúdeild Bandaríkjaþings fyrir 13. breytingartillögu við stjórnarskrá Bandaríkjanna sem hefur að geyma ákvæði um afnám þrælahalds.

Tillaga Þórs Saari var felld með 32 atkvæðum gegn 29, Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra og þingmaður VG, sat hjá og Atli Gíslason, fyrrv. VG-þingmaður, var fjarverandi. Í gær var tilkynnt að þeir félagar og Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi, fyrrv. þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrv. aðstoðarmaður Jóns Bjarnasonar, ætluðu að stofna til framboðs í komandi þingkosningum. Þeir félagar slógu ekki margar keilur í dag.

Þetta framtak Þórs Saari er sýndarmennska frá upphafi til enda.

 

Sunnudagur, 10. 03. 13 - 10.3.2013 19:36

Evrópskir stjórnmálamenn  kveða sífellt fastar að orði um þróun mála innan ESB.

Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, segir að ástandið minni sig á það sem lesa megi um það sem gerðist í Evrópu fyrir 100 árum, 1913, þegar menn héldu að eilífur friður mundi ríkja í Evrópu en þjóðirnar sigldu grunlausar í átt til fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Bruno Le Maire, fyrrverandi Evrópu- og landbúnaðarmálaráðherra Frakka, segir að mótmæli Ítala í nýlegum þingkosningum séu heilbrigð viðbrögð, þau séu ákall um meira lýðræði. Þjóðum Evrópu líði illa. Unga fólkið eygi enga framtíð. Atvinnulausir kveiki í sér fyrir utan skráningarstöðvar. Góðgerðastofnanir hafi ekki lengur undan við að aðstoða þá sem eigi ekki málungi matar. „Hvað gerir Evrópusambandið?“ spyr franski stjórnmálamaðurinn og svarar: „Það sýnir yfirlætisfullt afskiptaleysi. Afstaða þess ýtir undir lýðskrumara. Evrópu [ESB] verður ekki bjargað nema með annars konar Evrópu [ESB].“

Hefðu Íslendingar sem vara við aðild að Evrópusambandinu látið þau orð falla sem hér eru tíunduð hefðu þeir verið taldir gengnir af göflunum vegna óvildar í garð sambandsins ef marka má harkaleg viðbrögð ESB-aðildarsinna við gagnrýni á ESB sem er hreinn barnaleikur miðað við það sem fram kemur í hinum tilvitnuðu orðum.

Hér er haldið uppi starfsemi á vegum stækkunardeildar ESB undir merkjum Evrópustofu sem rekin er af almannatengslafyrirtækinu Athygli í umboði þýska fyrirtækisins Media Consulta fyrir 1,4 milljónir evra í tvö ár. Þessi stofa býður til dæmis fræðslu með fjarbúnaði sem kynnt er á vefsíðum sveitarfélaga og menn geta nýtt sér gegn 1.000 kr. greiðslu. Þar er dregin upp allt önnur mynd  af þróuninni innan ESB en fram kemur í orðum hinna þaulreyndu evrópsku stjórnmálamanna sem vitnað er til hér að ofan. Evrópustofa dregur upp glansmynd af ESB í von um að vinna Íslendinga til fylgis við aðild.

Mikilvægi þessa áróðurs fyrir íslenska ESB-aðildarsinna kemur best í ljós við lestur hinna harkalegu ummæla sem þeir hafa látið falla vegna krafna um að einhliða ESB-áróðrinum skuli hætt. Í aðdraganda þingkosninganna er ESB þátttakandi til stuðnings einum stjórnmálaflokki, Samfylkingunni, enda keppist Össur Skarphéðinsson, frambjóðandi flokksins, við að dásama starf stofunnar og skapa henni skjól sem utanríkisráðherra.

Laugardagur 09. 03. 13 - 9.3.2013 23:30

Eftir að Jón Ásgeir Jóhannesson réð Mikael Torfason sem ritstjóra Fréttablaðsins hefur Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri blaðsins, sagt upp störfum. Hún hafði starfað við blaðið frá því að það var stofnað fyrir 12 árum. Þá hefur Þórður Snær Júlíusson, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, sagt upp störfum. Uppsögn hans má einnig rekja til ráðningar Mikaels Torfasonar. Steinunn og Þórður Snær rituðu leiðara í Fréttablaðið ásamt Ólafi Þ. Stephensen sem starfar enn á blaðinu.

Brotthvarf þessara lykilstarfsmanna staðfestir að Jón Ásgeir Jóhannesson réð Mikael Torfason á Fréttablaðið til að herða eigendatökin á blaðinu og til að tryggja að Jón Ásgeir gæti átölulaust skipt sér af ritstjórn blaðsins í eigin þágu. Þörf Jóns Ásgeirs fyrir jákvæð skrif um sjálfan sig og viðskiptamál sín eru alkunn. Hann hefur átt Fréttablaðið eða síðasta orð um efni þess í tæp 11 ár. Fyrsta árið átti hann blaðið á laun nú er blaðið eign eiginkonu hans.

Fyrir 10 árum beitti Jón Ásgeir Fréttablaðinu með Samfylkingunni í kosningabandalagi gegn Davíð Oddssyni og Sjálfstæðisflokknum. Sameiginlega tókst Jóni Ásgeiri og forystu Samfylkingarinnar ekki að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum árið 2003. Nú er Fréttablaðið vettvangur þeirra sem vinna með Samfylkingunni að því að koma Íslandi í Evrópusambandið og þar birtast enn óvildargreinar í garð Sjálfstæðisflokksins og ásakanir um að hann lúti stefnumótandi forystu Davíðs Oddssonar.

Frá því að Jón Ásgeir eignaðist Fréttablaðið hefur óvild í garð Davíðs Oddssonar verið rauður þráður í skrifum blaðsins.

Fastir dálkahöfundar í Fréttablaðinu láta það ekki á sig fá þótt Jón Ásgeir herði tökin á blaðinu í þágu eigin hagsmuna. Höfundarnir eru líka flestir ef ekki allir þeirrar skoðunar að Ísland eigi erindi í Evrópusambandið auk þess sem þeim fellur aldrei velvildarorð í garð Davíðs Oddssonar. Baráttan fyrir ESB-aðild og gegn Davíð Oddssni er pólitískur samnefnari og drifkraftur þeirra sem enn skrifa í Fréttablaðið samhliða varðstöðunni um viðskiptahagsmuni og persónu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Fáheyrt er að auðmaður og fjölskylda hans haldi úti dagblaði í þeim tilgangi sem hér er lýst og enn undarlegra að um fríblað sé að ræða sem dreift er inn á heimili fólks á þéttbýlissvæðum án þess að nokkur óski eftir blaðinu.  Jón Ásgeir álítur að hann nái markmiði sínu betur með því að ráða Mikael Torfason sem ritstjóra.

 

Föstudagur 08. 03. 13 - 8.3.2013 21:40

Helgi Magnússon ritar grein í Fréttablaðið í dag og hellir úr skálum reiði sinnar yfir okkur sem erum ósammála honum innan Sjálfstæðisflokksins um ESB-aðildarviðræðurnar. Sá boðskapur dugði honum til að komast í fréttir ríkisútvarpsins. Ég skrifaði um það á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.

Helgi vitnar í ræðu sem faðir minn flutti vegna EFTA-samningsins og telur sig þess umkominn að túlka ræðuna á þann veg að ræðumaður væri þeirrar skoðunar nú að Ísland ætti heima innan Evrópusambandsins. Þetta er einkennileg túlkun og á ekki við nein rök að styðjast. Finna má tilvitnanir sem hníga til annarrar áttar.

Eftir að hafa orðið undir á landsfundi sjálfstæðismanna láta ESB-aðildarsinnar eins og þeir hafi verið beittir einhverju harðræði á fundinum. Sú kenning stenst ekki. Þeir þola hins vegar greinilega ekki að tapa í lýðræðislegri kosningu og reyna allt sem þeir geta til að ná sér niðri á þeim sem höfnuðu sjónarmiði þeirra.

ESB-aðildarsinnarnir í Sjálfstæðisflokknum minna á þá sem sátu í stjórnlagaráði og láta nú öllum illum látum og hafa í hótunum við alþingismenn verði ekki farið að vilja þeirra. Ofstæki og illmælgi af því tagi sem þessir hópar tileinka sér í ræðu og riti um þá sem eru þeim ósammála færa stjórnmálaumræðurnar marga áratugi aftur í tímann.

Fimmtudagur 07. 03. 13 - 7.3.2013 23:10

Þættir Stephens Frys um græjuæði hans eru skemmtilegir eins og annað efni sem þessi ágæti maður kynnir í sjónvarpi. Græjurnar sem unnt er að fá eru magnaðar þótt litlar séu. Nú var ég að setja hjá mér magnara fyrir beininn (routerinn). Þetta er tæki á stærð við stórt millistykki sem gerir mér kleift að tvöfalda þráðlausa svæðið.

Ég hafði samband við Símann og spurði hvernig ég ætti að magna þráðlausa styrkinn hjá mér. Í símtali fékk ég leiðbeiningar og mér var bent á magnara á vefsíðu Símans. Þar pantaði ég magnara og fékk hann sendan heim til mín án þess að ég þyrfti að greiða sendingarkostnað. Með því að fara eftir leiðarvísi tengdi ég magnarann við beininn.

Nú líður að 200 ára afmæli Richards Wagners. Úr því að ríkissjónvarpið hefur aðgang að efni sem Stephen Fry gerir ætti að sýna þátt hans um Wagner og nasismann. Fry er gyðingur og það var honum tilfinningalega mjög erfitt að ákveða að fara til Bayeuth og sjá sýningar á verkum Wagners á hátíðinni þar. Sjónvarpsmyndin sýnir hvernig hann sigraði eigin fordóma.

Viðtal mitt við Hannes Hólmstein Gissurarson á ÍNN frá 27. febrúar er komið á netið og má sjá það hér.

Miðvikudagur 06. 03. 13 - 6.3.2013 23:55

Öllu var aflýst sem átti að vera á dagskrá minni fyrri hluta dags, þar á meðal erindi um öryggis- og varnarmál sem ég átti að flytja á Rotary-fundi í hádeginu. Klukkan 11.00 sendi lögregla frá sér tilkynningu um að fólk ætti að halda sig innan dyra vegna óveðursins sem gekk yfir borgina. Við svo búið var fundur Rotary-klúbbs Reykjavíkur blásinn af. Samtök atvinnulífsins héldu hins vegar aðalfund sinn sá ég í fréttum.

Þegar stjórnstöð almannavarna tilkynnti um kl. 13.30 að sækja mætti börn í skólum fyrir vestan Kringlumýrarbraut fórum við í Hlíðaskóla og Háteigsskóla og sóttum barnabörnin.

Frá klukkan 18.00 til miðnættis var ég í sal 1 í Kringlubíói og horfði á endursýningu á óperunni Parsifal  eftir Richard Wagner frá Metropolitan óperunni í New York. Óperan er með dagskrá sem heitir: The Met: Live in HD og nær til heimsins alls. Fyrri sýningin var í beinni útsendingu laugardaginn 2. mars. Það er einstakt tækifæri að geta notið listræns viðburðar á þennan hátt, ekki síst þegar fremstu listamenn heims eiga í hlut.

Í þessari sýningu var Jonas Kaufmann í hlutverki Parsifals, Réne Pape var Gurnemanz, Katarina Dalyman var Kundry, Peter Mattei var Amfortas og Evgeny Nikitin var Klingsor. Daniele Gatti stjórnaði hljómsveitinni og náði frábærum árangri. Sviðsmyndirnar í Metropolitan eru með ólíkindum og minna á málverk eftir stórmeistara fyrri tíma.

Michael Tanner, óperugagnrýnandi enska vikublaðsins The Spectator, fer í kvikmyndahús í London og fylgist með sýningunum frá Metropolitan og ritar síðan umsögn um uppfærsluna í blað sitt. Honum finnst jafnvel meira til þess koma að horfa á óperu á þennan hátt en að fara í óperuhúsið sjálft. Hann segir að sá sé að vísu munurinn að fari menn á óperusýningu í bíói geti þeir ekki sagt að þeir hafi verið í návist einhverrar stjórstjörnu, setið í salnum og hlustað á hana.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna sem lesa má hér.


Þriðjudagur 05. 03 13 - 5.3.2013 22:41


Mikael Torfason er aftur orðinn ritstjóri í þjónustu Baugsmanna. Skýrt var frá því dag að Mikael yrði ritstjóri Fréttablaðsins við hlið Ólafs Þ. Stephensens sem vann sér það til vandræða að taka undir með Magnúsi Halldórssyni, blaðamanni hjá 365, sem gagnrýndi afskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af störfum blaða- og fréttamanna 354.

Jón Ásgeir herðir tök sín á ritstjórn Fréttablaðsins með því að setja Mikael til höfuðs Ólafi. Raunar er ólíklegt að Ólafur sætti sig við að hafa ritstjóra sér við hlið, Hann sat einn á stóli ritstjóra Morgunblaðsins um skeið og hefur verið ritstjóri Fréttablaðsins einn. Ýmislegt bendir til að líta beri á ráðningu Mikaels sem óbeina uppsögn Ólafs.

Viðbrögð Jóns Ásgeirs við öllu sem um hann er sagt opinberlega sýna að hann hefur mikla þörf fyrir að hafa tök á fjölmiðli eða fjölmiðlaveldi og hann heldur utan um 365 í umboði eiginkonu sinnar sem á allt batteríið.

Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar alþingis, telur sér til framdráttar að halda lífi í fréttum um að hann eigi kannski að fá að lesa í trúnaði útskrift seðlabankans af símtali Geirs H. Haarde, þáv. forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáv. seðlabankastjóra, um ráðstafanir til að halda Kaupþingi á lífi í bankahruninu i október 2008.

Talið um þetta símtal eru leifar af viðleitni VG til að sverta Sjálfstæðisflokkinn vegna fjármálakreppunnar sem gekk fyrst yfir hér á landi með eyðileggjandi þunga. Aðgerðir ríkisstjórnar Geirs H. Haarde lögðu grunn að skynsamlegri leið úr kreppunni. Björn Valur vonar að hann geti kastað rýrð á þann árangur með því að gera þetta símtal grunnsamlegt, hann getur annað hvort skákað í því skjóli að hann fái ekki að sjá það eða megi ekki segja frá því sem hann sá fái hann að lesa það.

Mánudagur 04. 03. 13 - 4.3.2013 22:50

Í kvöld var fundur hér í Goðalandi í Fljótshlíðinni þar sem Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gerði grein fyrir niðurstöðum rannsókna eftir að boruð var 250 m hola í leit að heitu vatni á landi sveitarfélagsins við Goðaland. Úr holunni má fá 57 sekúndulítra af 14 C° heitu vatni sem unnt er að nýta á hagkvæman hátt með varmadælu. Mikið magn af vatni rennur neðanjarðar um Fljótshlíðina.

Sveitarstjórn stóð að þessari tilraunaborun og kom vatnsmagnið Hauki á óvart. Nú er spurning hvaða skref verður stigið næst. Holan er á stað þar sem tiltölulega stutt er til bæja og frístundahúsa.

Þegar ég kveikti á frönsk/þýsku sjónvarpsstöðinni Arte var verið að sýna þar Mýrina eftir Arnald Indriðason í kvikmyndaleikstjórn Baltasar Kormáks. Nú er Ingvar Sigurðsson að spæna í sig sviðakjamma sem Erlendur og talar þýsku eða frönsku eftir því á hvora rásina er stillt.

Undarlegt er að sjá menn sem vilja láta taka sig alvarlega kvarta undan því og kenna við kommúnisma að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi ályktað um að loka bæri Evrópustofu í ljósi þess að þessir sömu menn sátu landsfundinn og hreyfðu engum andmælum við tillögunni um lokunina þegar  hún var flutt eða borin undir atkvæði.

Úr því að menn kjósa að þegja á fundi um mál sem þeir eru ósammála en höfðu þó tækifæri til að reyna að breyta liggur beint við að álykta að þeir eigi einnig að þegja um málið eftir að fundinum er lokið nema fyrir þeim vaki það eitt að stofna til leiðinda. Lýðræðislegar leikreglur gera meðal annars ráð fyrir að málum sé lokið með atkvæðagreiðslu.

Þá er rétt að minna á að þeir sem stigu fyrsta skrefið til að rjúfa sáttargjörðina um ESB-mál frá landsfundi sjálfstæðismanna árið 2011 voru talsmenn ESB-aðildarviðræðnanna. Þeir töldu að breyta ályktuninni á þann veg að ESB-viðræðunum skyldi lokið. Við það hófst atburðarás sem lauk með að orðin „verði hætt“ komu í staðinn fyrir að „gera hlé“ á ESB-viðræðunum.

Sunnudagur 03. 03. 13 - 3.3.2013 22:41

Nú eru hafnar umræður um hvort evru-ríkin eigi kannski að láta Kýpur sigla sinn sjó, landið sé svo lítið og fámennt að ekki taki að halda því á fjárhagslega á floti með neyðarláni. Olli Rehn, efnahagsmálastjóri ESB, segir að vísu að það kunni að skapa kerfislegan vanda að Kýpur hverfi á brott. Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, gefur ekki mikið fyrir kerfisvandann.

Þetta er forvitnileg umræða fyrir þá sem telja að hinn endanlegi stöðugleiki finnist í efnahagsmálum Íslendinga með inngöngu í ESB og upptöku evru. Sé Kýpur of lítið til að skipta máli til eða frá í evru-samhengi – hvað yrði þá um Ísland í evru-landi ef hér yrðu áföll?

Í Bretlandi hefur dómsmálaráðherrann lagt til að aðild Breta að mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindadómstólnum í Strassborg verði endurskoðuð. Lögfesting í stjórnartíð Verkamannaflokksins á mannréttindasáttmálanum hafi verið mistök og leitt til of mikillar erlendrar íhlutunar í bresk innanríkismál. Ráðherrann segir þetta nú í umræðum um viðbrögð við aukakosningum í Eastleigh þar sem frjálslyndir sigruðu, UKIP-sjálfstæðissinnar urðu í öðru sæti og Íhaldsflokkurinn hinu þriðja. Dómsmálaráðherrann er íhaldsmaður og telur baráttu fyrir brotthvarfi frá mannréttindasáttmálanum geta styrkt flokk sinn meðal almennings.

Þessi afstaða dómsmálaráðherrans sýnir að stjórnmálaumræður í Bretlandi eru annars eðlis en hér.Þar geta menn rætt mál af þessum toga án þess að misvitrir álitsgjafar eða bloggarar pólitískrar rétthugsunar umturnist.

Hér má stjórnmálaflokkur ekki álykta gegn áróðursskrifstofu ESB án þess að látið sé eins og óbætanlegt skemmdarverk hafi verið unnið og hætta sé á að þjóðin verði útskúfuð úr samfélagi síðaðra.

Laugardagur 02. 03. 13 - 2.3.2013 23:00

Árni Páll Árnason átti ekki annarra kosta völ en ákveða að leggja stjórnarskrármálið til hliðar og knýja ekki á um afgreiðslu þess fyrir þinglok. Málið er alls ekki í þeim búningi að unnt sé að afgreiða það. Í raun er ákveðin hula yfir frumvarpinu enn þótt það hafi verið til meðferðar á alþingi frá hausti 2011.

Alþingi sendi tillögur stjórnlagaráðs óbreyttar til ráðsins með nokkrum fyrirspurnum. Þá var málið sent til skoðunar hjá hópi lögfræðinga. Þingnefndin gerði lítið eða ekkert með tillögur þeirra. Lögfræðingarnir töldu að óháður aðili ætti að leggja mat á tillögurnar. Feneyjanefndin gerði fjölda athugasemda. Farið var yfir þær og þingnefndin tók afstöðu til nokkurra þeirrs. Nýjar breytingartillögur þingnefndarinnar eru að sjá dagsins ljós á 87 bls.

Árni Páll vill að þingmenn nú skuldbindi þingmenn eftir kosningarnar 27. apríl til að halda áfram meðferð stjórnarskrármálsins á grundvelli þeirra tillagna sem hafa verið smíðaðar af stjórnlagaráði og meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Vill Árni Páll að þessi skipan mála verði ákveðin með þingsályktun. Ósk Árna Páls er skiljanleg tilraun til að skapa frið innan Samfylkingarinnar og gagnvart Hreyfingunni. Hún er hins vegar marklaus, væntanlegir þingmenn verða ekki bundnir á þennan hátt í neinu máli og síst af öllu stjórnarskrármálinu.

Föstudagur 01. 03. 13 - 1.3.2013 22:20

Athygli beinist einkum að fylgi Framsóknarflokksins í könnun Gallups sem birt var í dag tæpum tveimur mánuðum fyrir kjördag. Flokkurinn fengi 22% atkvæða (16 þingmenn) og hefur ekki mælst stærri í 17 ár, það er síðan 1996, skömmu eftir að hann settist í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Í þessari könnun nú fékk Sjálfstæðisflokkurinn 30% (21 þingmann) en 36% fyrir mánuði og hefur þó landsfundur flokksins verið haldinn í mánuðinum. Þetta er skrýtilega lágt fylgi og ætti að verða kosningastjórn og frambjóðendum hvatning til dáða.

Eftir landsfundinn hóf Sjálfstæðisflokkurinn auglýsingaherferð í hljóðvarpi. Þar fylgir sá galli gjöf Njarðar að ógerlegt er að greina á milli D eða B þegar hlustað er á þulinn. Skorað er á kosningastjórnina að skrifa Sjálfstæðisflokkurinn undir auglýsingarnar í stað XD.

Samtals fá Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fylgi 52% kjósenda og 37 þingmenn í þessari könnun. Eru þetta ekki stærstu tíðindin í könnuninni? Ríkisstjórnarflokkarnir fá ekki nema 22% fylgi, Samfylking 15% (10 þingmenn) og vinstri grænir (VG) 7% (5 þingmenn), stjórnarflokkarnir samtals með aðeins 15 þingmenn, einum færri en Sjálfstæðisflokkurinn á nú á þingi og hlaut hann mjög lélega kosningu í apríl 2009.

Björt framtíð, flokkur Guðmundar Steingrímssonar, fengi 16% (11 þingmenn) gengi könnun Gallups eftir í kosningum. Þriggja flokka stjórn þess flokks, Samfylkingar og VG fengi aðeins 26 þingmenn, þarf 32 til meirihluta á þingi. ESB-aðildarviðræðuflokkunum vex ekki ásmegin. Verði þeir á þessu róli fram yfir kosningar er það enn ein sönnun þess að ESB-aðildina ber ekki hátt í þessum kosningum.

Stuðningsmenn og andstæðingar Sjálfstæðisflokksins gera þá kröfu til flokksins að hann fái meira en 30% í kosningum. Þess vegna er staða hans gjarnan helsta umræðuefnið þegar rætt er um úrslit kannanna þar sem flokkurinn stendur ekki undir þeim væntingum.

Vissulega er nauðsynlegt að Sjálfstæðisflokkurinn styrki stöðu sína en staða stjórnarflokkanna hlýtur þó að vera stuðningsmönnum þeirra meira áhyggjuefni en staða Sjálfstæðisflokksins í augum stuðningsmanna hans. Nýir formenn hafa verið valdir til forystu í Samfylkingu og VG, takist þeim ekki að gera sig gildandi ná flokkar þeirra sér ekki á strik.