7.3.2013 23:10

Fimmtudagur 07. 03. 13

Þættir Stephens Frys um græjuæði hans eru skemmtilegir eins og annað efni sem þessi ágæti maður kynnir í sjónvarpi. Græjurnar sem unnt er að fá eru magnaðar þótt litlar séu. Nú var ég að setja hjá mér magnara fyrir beininn (routerinn). Þetta er tæki á stærð við stórt millistykki sem gerir mér kleift að tvöfalda þráðlausa svæðið.

Ég hafði samband við Símann og spurði hvernig ég ætti að magna þráðlausa styrkinn hjá mér. Í símtali fékk ég leiðbeiningar og mér var bent á magnara á vefsíðu Símans. Þar pantaði ég magnara og fékk hann sendan heim til mín án þess að ég þyrfti að greiða sendingarkostnað. Með því að fara eftir leiðarvísi tengdi ég magnarann við beininn.

Nú líður að 200 ára afmæli Richards Wagners. Úr því að ríkissjónvarpið hefur aðgang að efni sem Stephen Fry gerir ætti að sýna þátt hans um Wagner og nasismann. Fry er gyðingur og það var honum tilfinningalega mjög erfitt að ákveða að fara til Bayeuth og sjá sýningar á verkum Wagners á hátíðinni þar. Sjónvarpsmyndin sýnir hvernig hann sigraði eigin fordóma.

Viðtal mitt við Hannes Hólmstein Gissurarson á ÍNN frá 27. febrúar er komið á netið og má sjá það hér.