Dagbók: janúar 2017
Þriðjudagur 31. 01. 17
Um þessar mundir eru 22 ár frá því að vefsíðan bjorn.is fór í loftið en þar hefur hún verið frá janúar/febrúar 1995. Örugglega ein af fáum vefsíðum sem nú kallast líka blogg-síður sem hefur lifað samfellt svo lengi og er þá vísað til mannkynssögunnar, hvorki meira né minna.
Í nóvember 2002 tók Hugsmiðjan að sér að endurhanna síðuna og setja hana í eplica-forrit sitt. Hefur hún haldist í megindráttum óbreytt í 14 ár. Í morgun fór ég hins vegar á fund í Hugsmiðjunni til að ræða uppfærslu á síðunni og breytingar á útliti hennar og viðmóti. Ég vil að tæknilega sé síðan í eins góðri umgjörð og verða má.
Það kemur í ljós hvort ég breyti efnisskipan á síðunni við þessa uppfærslu. Að ég skrifi pistla á síðuna eða sendi efni á póstlista minn heyrir nú til undantekninga. Dagbókin og efnisþátturinn Ræður og greinar eru lifandi hlutar síðunnar núna. Hvað verður kemur í ljós.
Eitt er að berjast á móti Donald Trump. Annað að láta hann rugla sig algjörlega í ríminu. Jónas Kristjánsson, fyrrv. ritstjóri, heldur úti bloggi þar sem hann skeytir skapi sínu á mönnum og málefnum. Í dag segir hann meðal annars:
„Þegar við dissum Trump fyrir að fangelsa flugfarþega, skulum við muna, að hann er að stæla Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmála. Sá fangelsaði ólöglega hóp af friðarsinnum, svonefnda Falun Gong og rak úr landi. Enn er Trump ekki verri en Björn, hvað sem síðar verður.“
Jónas vísar hér til atburða sem gerðust árið 2002 þegar forseti Kína kom hingað í opinbera heimsókn. Jónas heldur líklega að ég hafi verið dómsmálaráðherra þá sem ég var ekki og sat ekki einu sinni í ríkisstjórn, raunar gagnrýndi ég hvernig tekið var á Falun gong fólki þótt ég sé alls ekki hlynntur aðferðum þess.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jónas tapar dómgreindinni þegar hann ræðst að einstaklingum. Ég veit hins vegar ekki til þess að hann leiðrétti vitleysuna eða biðjist afsökunar á henni.
Ég vakti máls á þessari marklausu gagnrýni Jónasar á Facebook-síðu minni í dag. Það er einkennileg árátta að reyna að troða Trump í félagsskap með mönnum hér á landi sem hafa margsinnis lýst skömm á honum, framkomu hans og vinnubrögðum. Því miður hefur ekki reynst rétt sem margir vonuðu að forsetambættið og Hvíta húsið hefðu róandi áhrif á hann.
Mánudagur 30. 01. 17
Halldór Guðmundsson er að hætta sem forstjóri Hörpu vegna starfs sem hann hefur fengið í Noregi. Mun hann stjórna þátttöku Norðmanna í bókamessunni í Frankfurt þegar þeim verður skipað þar í öndvegi. Af þessu tilefni er rætt við Halldór í Morgunblaðinu í dag. Hann er meðal annars spurður um neikvæðar hliðar á starfinu í Hörpu og lýsir Halldór þá baráttu sinni við ríki og borg vegna ofurhárra fasteignaskatta á Hörpu. Hann segir: „Þegar ég ræði við erlenda kollega mína þá skilur ekki nokkur maður af hverju stjórnvöld sýna þessa þrákelkni við að drekkja rekstri hússins í sköttum, því hann er alveg nógu erfiður samt.“
Þetta viðhorf erlendra manna kemur ekki á óvart. Þegar ég kom að því sem menntamálaráðherra að leggja grunn að hugmyndinni um Hörpu sem ráðstefnu- og tónlistarhús hafði ég ekki hugmyndaflug til að ímynda mér að það yrði mest íþyngjandi í rekstri hússins að Reykjavíkurborg vildi sem hæstar skatttekjur af því og nyti til þess aðstoðar þeirra sem búa til grunn fasteignaskattheimtu, ríkisstofnunarinnar Þjóðskrár.
Hæstiréttur dæmdi að reikna ætti fasteignagjöld út frá tekjuvirði hússins en ekki byggingarkostnaði eins og Þjóðskrá gerði. Dómur um þetta féll í febrúar 2016 og ber að endurgreiða Hörpu oftekna skatta. Eftir að hafa tapað málinu gerði Þjóðskrá sér lítið fyrir og bjó til nýjan skattflokk tónlistar- og ráðstefnuhúsa til að fasteignaskatturinn yrði 80% af því sem áður var. Spjótunum var sem sagt áfram sérstaklega beint að Hörpu. „Niðurstaðan er þessi sama: Harpa greiðir sex sinnum hærri fasteignagjöld en Egilshöll og eru þó þessi hús jafnstór. Hvaða vit er í þessu?“ spyr Halldór.
Hefur ákvörðun Þjóðskrár leitt til nýrra málaferla. „Borgin vill fá sem hæst fasteignagjöld í sinn hlut, en það er ríkisstofnun sem ákveður gjöldin, og allir aðilar vita að rekstur Hörpu stendur ekki undir þeim, og þar situr málið fast í einhverri furðulegustu hringekju sem ég hef séð á langri starfsævi,“ segir Halldór.
Að Reykjavíkurborg geri Hörpu að féþúfu með aðstoð Þjóðskrár og hvorugur aðili sætti sig í raun við niðurstöðu hæstaréttar heldur leiti nýrra leiða til ofurskatta er óskiljanlegt þegar litið er til forsögunnar og hugmynda að baki þessu húsi. Enn einkennilegra verður málið þegar hugað er mikilvægu þjónustuhlutverki Hörpu við alla ferðamennina sem heimsækja Reykjavík og fá þar til dæmis betri salernisaðstöðu fyrir almenning en annars staðar er í boði í miðborg Reykjavíkur.
Sunnudagur 29. 01. 17
Donald Trump Bandaríkjaforseti vekur undrun dag hvern vegna ákvarðana sinna. Sumar tekur hann aðeins til að sýnast því að fleiri þurfa að koma að málum til að því verði hrundið í framkvæmd sem hann ákveður. Annað hefur tafarlaus áhrif og má þar nefna forkastanlega lokun bandarísku landamæranna fyrir ákveðnum hópum fólks. Þeir sem urðu strandaglópar vegna þessa ætla þó að láta reyna á það fyrir dómstólum.
Föstudaginn 27. nóvember skrifaði ég grein í Morgunblaðið sem má lesa hér um fund Thereseu May, forsætisráðherra Breta, þann dag með Trump í Washington. Hún var fyrsti þjóðarleiðtoginn sem hitti Trump eftir að hann varð forseti. Bæði lögðu þau áherslu á sérstaka sambandið sem er á milli Breta og Bandaríkjamanna og daginn fyrir fundinn með Trump flutti May erindi í Fíladelfíu á fundi þingmanna repúblíkana. Ég snaraði þessu erindi á íslensku og má lesa það hér.
Ástæðan fyrir að ég tók mér fyrir hendur að þýða erindi May er að líklega verður litið á för hennar til Bandaríkjanna og fund hennar með Trump sem upphaf nýrra tíma í þróun alþjóðamála. Það er stærra skref en við skynjum á líðandi stundu að Bretar stíga út úr Evrópusambandinu og ætla að láta að sér kveða á eigin forsendum og í sérstakri samvinnu við Bandaríkjamenn á alþjóðavettvangi.
Engu er líkara en einhverjir kraftar hafi losnað úr læðingi í Bretlandi við ákvörðunina um að segja skilið við ESB. Birtist þetta greinilega í ræðu May en sem aðilar að ESB gátu breskir ráðamenn ekki talað á þennan veg, allar þeirra skoðanir á samvinnu við aðrar þjóðir urðu að fara í gegnum sigti í Brussel enda gerir ESB samninga við þriðju ríki en ekki einstök aðildarríki.
Þeir sem hafa komið að samtölum við stjórnarerindreka Bandaríkjanna undanfarin ár fyrir Íslands hönd urðu varir við að innan bandaríska stjórnkerfisins litu menn þannig á að leiðin að samstarfi við Íslendinga yrði líklega framvegis í gegnum Brussel vegna aðildar Íslands að ESB. Aðildin er úr augsýn og Bandaríkjamenn munu endurskoða samstarf sitt við þjóðir við Norður-Atlantshaf vegna úrsagnar Breta úr ESB.
Stóra utanríkispólitíska viðfangsefni íslenskra stjórnmálamanna næstu misseri er að tryggja hagsmuni þjóðarinnar við þessar breyttu aðstæður. Þar verður að í senn að sýna staðfestu og framsýni. Utanríkismál hafa ekki verið ofarlega á dagskrá íslenskra stjórnmála, þekking og þjálfun í umræðum um þau ber þess merki. Þessu verður að breyta.
Laugardagur 28. 01. 17
Umræður um hvort heimila eigi þeim sem fara í aðgerð í Klínikinni í Ármúla að liggja inni í sjúkrarúmi í allt að fimm daga eftir aðgerð minna á það sem sagt var fyrir 20 árum þegar sett voru lög með heimild ríkisins til að greiða fyrir háskólamenntun í einkareknum háskólunum.
Sú skoðun er lífseig að á sumum sviðum sé best að ríkið skipti við sjálft sig þótt einkaaðilar geti veitt jafngóða eða betri þjónustu.
Innan háskólakerfisins var búið til reiknilíkan sem sýndi hvað kostaði að bjóða nemenda ákveðið nám og samþykkt að greiða þá fjárhæð til þess sem byði námið hvort sem um einkaaðila eða ríkisstofnun væri að ræða. Raunar hefði falist í því mikil mismunun að borgararnir yrðu verr settir að þessu leyti eftir því hvort þeir stunduðu nám í ríkisreknum eða einkareknum skóla.
Þá var einkareknum skólum veitt heimild til að innheimta skólagjöld. Þeir hafa sjálfir staðið undir fjárfestingum í húsakosti en Háskóli Íslands nýtur til dæmis góðs af einkarétti happdrættis HÍ til að reka peningahappdrætti.
Fjárhagslega umgjörðin er eitt og menn geta haft mismunandi skoðanir á henni. Hitt er ekki lengur ágreiningsefni að ákvarðanirnar um að svipta ríkið einokun á háskólastarfsemi reyndust farsælar og ólíklegt er að nokkru sinni verði snúið aftur til ríkiseinokunar á þessu sviði.
Í Klínikinni ætla menn meðal annars að skapa sér aukið svigrúm til að sinna þeim sem eru á biðlistum. Einkaaðilar veita nú þegar fjölbreytta þjónustu á þessu sviði og má þar til dæmis nefna skipti á augasteinum eða aðgerðir vegna axlarmeina. Fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda er fagnaðarefni sé hún aukin.
Innan Háskóla Íslands fóru margir í varnarstöðu þegar Háskólinn í Reykjavík kom til sögunnar. Þegar HR tók að bjóða nám í lögfræði létu ýmsir eins og vá væri fyrir dyrum, einsleitni í menntun allra lögfræðinga tryggði best réttlætið. Þetta stóðst auðvitað ekki gagnrýni frekar en það stenst gagnrýni að Landspítalinn setji niður þótt menn njóti sérþekkingar lækna í einkareknum skurðstofum. Frjálsræði innan skilgreindra, lögbundinna marka kallar fleiri til starfa, þjónustan eykst, reynslan og þekkingin.
Að ákveða hvort aðili sem fullnægir öllum lagaskilyrðum fái að veita fólki þjónustu og stytta biðlista af meiri þunga en áður getur varla þvælst fyrir neinum hafi hann málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi. Önnur afstaða stjórnvalds kann að valda skaðabótaskyldu.
Föstudagur 27. 01. 17
Nú hefur Gunnar Smári Egilsson, útgefandi og ritstjóri furðublaðsins Fréttatímans, snúið sér til almennings með ósk um að fólk verji sem nemur andvirði eins kaffibolla á mánuði til að tryggja fjárhagsgrundvöll blaðsins. „Framlög almennings fara ekki til venjulegs rekstrar Fréttatímans heldur aðeins til að styrkja ritstjórnina,“ segir Gunnar Smári í blaðinu í dag. Hann er skráður fyrir 46% hlut í blaðinu.
Gunnar Smári ætlar að stofna félag, Frjálsa fjölmiðlun, til að efla frjálsa og óháða blaðamennsku á Íslandi „í fyrstu með því að efla Fréttatímann“.
Í tilefni af þessari fjáröflunarherferð Gunnars Smára segir Páll Vilhjálmsson á vefsíðu sinni:
„Gunnar Smári stofnaði nýlega sósíalistaflokk. Áður vildi hann gera Ísland að fylki í Noregi, eftir pólitískt ævintýri um að múslímavæða landið misheppnaðist.
Gunnar Smári velur sér einatt málstað á síðasta snúningi. Kortéri áður en Ólafur F. Magnússon missti embætti borgarstjóra nokkrum vikum fyrir hrun var Smárinn orðinn aðstoðarmaður hans. Örugga leiðin til að finna andstreymi umræðunnar er að kíkja á hvaða dyntir eru upp á pallborði Gunnars Smára. Nú stendur gamaldags fríblaðaútgáfa höllum fæti og auðvitað er Gunnar Smári þar í stafni.“
Meginstef í blaði Gunnars Smára hefur birst í greinum eftir Inga F. Vilhjálmsson um afskriftir eftir hrun. Ingi F. segir ekki alla söguna heldur beinir spjóti sínu einkum að Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra og fjölskyldu hans. Leitað er að nýjum „vinklum“ til að endurtaka sömu söguna hvað eftir annað.
Nú þegar Gunnar Smári hefur snúið sér með söfnunarbauk til almennings má vænta þess að Ingi F. geri lesendum Fréttatímans grein fyrir fjármálaumsvifum stofnanda félagsins Frjáls fjölmiðlun, útgefanda og ritstjóra Fréttatímans.
Í nóvember 2008, eftir hrun bankanna, deildu Gunnar Smári og Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi Baugs, í fjölmiðlum um hve háar skuldir Jóns Ásgeirs væru. Taldi Gunnar Smári þær nema 1000 milljörðum króna. Sakaði Jón Ásgeir Gunnar Smára um að telja ekki eignir á móti skuldum. Þá birtist þetta á dv.is:
„Ritdeila þeirra fyrrverandi félaga er merkileg í því ljósi að Gunnar Smári reisti fjölmiðlaveldi í skjóli Jóns Ásgeirs. Þar má nefna Fréttablaðið, NFS, Nyhedsavisen og Boston NOW. Samanlagt tjón vegna ófara hluta þeirra fjölmiðla er talið vera yfir 20 milljarðar króna. Eina sem enn lifir er Fréttablaðið.“
Væri Ingi F. samkvæmur sjálfum ætti hann að birta almenningi úttekt á fjármálaumsvifum Gunnars Smára svo að hann geti tekið upplýsta ákvörðun um að leggja honum til fjármuni.
Fimmtudagur 26. 01. 17
Viðtal mitt við Sigríði Andersen dómsmálaráðherra á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra mælti í dag fyrir tillögu til ályktunar á alþingi um að til sögunnar kæmi dómsmálaráðuneyti að nýju með því að skipta málaflokkum innanríkisráðuneytisins milli þess og annars vegar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis hins vegar. Þetta er tímabær breyting og í raun nauðsynleg leiðrétting vegna þess skemmdarverks sem var unnið undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar á árinu 2010 þegar ákveðið var að setja innanríkisráðuneytið á fót, það tók til starfa 1. janúar 2011.
Í ár eru 100 ár frá því að embætti dómsmálaráðherra var stofnað hér á landi við myndun ráðuneytis Jóns Magnússonar árið 1917. Er vel við hæfi að fagna afmælinu með að endurreisa þetta embættisheiti innan stjórnarráðsins og koma að nýju á sjálfstæðu dómsmálaráðuneyti með eigin ráðuneytisstjóra, embættismönnum og sérfræðingum. Dómstólar eru þriðja stoð ríkisvaldsins og alls staðar í réttarríkjum er sérstakt ráðuneyti vegna þessa mikilvæga þáttar.
Í greinargerð með þingsályktunartillögu forsætisráðherra segir meðal annars:
„Markmiðið með stofnun dómsmálaráðuneytis annars vegar og samgöngu- og sveitar- stjórnarráðuneytis hins vegar er fyrst og fremst að skýra verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og skerpa þar með hina pólitísku forystu í málaflokkum sem undir hvort ráðuneytið falla. Með sameiningu ráðuneytanna á sínum tíma voru gríðarlega viðamikil og ólík stjórnarmálefni færð undir eitt og sama fagráðuneytið. Með því að skipta innanríkisráðuneytinu að nýju upp í tvö ráðuneyti má tryggja markvissari forystu í málaflokkum hvors ráðuneytis um sig og gera ráðuneytunum þannig betur fært að sinna þeim umfangsmiklu lögbundnu verkefnum sem nú heyra undir innanríkisráðuneytið. Breytingin stuðlar einnig að aukinni sérþekkingu á þeim málefnasviðum sem um ræðir og skarpari stefnumótun.“
Allt er þetta rétt. Ekki kemur á óvart að tveir þingmenn vinstri-grænna (VG), Steingrímur J. Sigfússon og Svandís Svavarsdóttur mæltu gegn tillögu forsætisráðherra og báru einkum fyrir sig að útgjöld mundu aukast. Að sparnaður hafi orðið í ríkisrekstri við breytingar Jóhönnu á stjórnarráðinu má draga mjög í efa.
Þau Steingrímur J. og Svandís átta sig á að með markvissari forystu í málefnum lögreglu og landhelgisgæslu er líklegt að þessir innviðaþættir styrkist og eflist. Lögreglan hefur löngum verið þyrnir í augum þeirra pólitísku afla sem standa að baki þessum þingmönnum VG. Það er einskonar pólitískur kjækur hjá þeim að mótmæla alltaf ef hugað er að eflingu löggæslu.
Miðvikudagur 25. 01. 17
Í kvöld klukkan 20.00 verður frumsýnt á ÍNN samtal mitt við Sigríði Andersen dómsmálaráðherra.
Augljóst er að stjórnarandstaðan á þingi lítur samkomulag þeim augum að samið skuli um það sem aðra varðar en ekki þegar kemur að henni sjálfri. Þetta er ekki nýtt á vettvangi stjórnmálanna en hefur nú leitt til þess að stjórnarandstæðingar eiga ekki neinn nefndarformann á alþingi. Þá er gripið til þeirra raka að það sé í bága við einhverja niðurstöðu á alþingi árið 2011 um ráðstafanir um bætta stjórnarhætti eftir hrun og veiki stöðu þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu.
Að lokum ræður meirihluti alþingis hvort heldur í þingsalnum eða við atkvæðagreiðslu í nefndum hvað kemur frá alþingi. Hver skipar formennsku í nefnd þingsins breytir engu um það. Það ræðst ekki af því hvort stjórnarandstaðan á formann í nefnd hvernig þingstörfum miðar, meirihlutinn ræður ferðinni.
Eftir að hæstiréttur Bretlands sagði að bera ætti ákvörðun um að virkja 50. grein sáttmála ESB vegna úrsagnar Breta sá ég í fyrsta sinn minnst á hóp sem fylgir stefnu sem ég hef aðhyllst að Bretar ættu að gerast aðilar að EES-samningnum. Þessi hópur kallar sig Single Market Justice (SMJ) og 3. febrúar mun hann flytja mál sitt fyrir High Court í Bretlandi þar sem hann krefst úrskurðar dómara um að breska þingið verði að samþykkja sérstaklega úrsögn Breta úr EES-samstarfinu.
Lögfræðingar standa að SMJ og þeir telja ekki nóg að þingið ákveði hvort virkja eigi 50. gr. Þingið verði einnig að taka afstöðu til að virkja 127. gr. sáttmála ESB sem mæli fyrir um aðild Breta að innra markaði ESB sem Bretar kalla the single market. „Við eigum aðild að innri markaðnum sem er skilin frá ESB. Þingið greiddi atkvæði um aðild okkar að honum og verður einnig að greiða atkvæði um slit hennar.“ Breska stjórnin telur þetta óþarft, það nægi að segja skilið við ESB til að slíta EES-samstarfinu.
Lögfræðilegu deilunnar í Bretlandi vegna ESB-úrsagnarinnar eru skiljanlegar vegna þess að ESB-samstarfið sækir meiri styrk til lögfræðilegra ákvarðana en ákvarðana sem teknar eru á stjórnmálavettvangi. Vissulega taka stjórnmálamenn frumákvarðanir um að framselja fullveldi þjóða sinna til yfirríkjastofnunar en innan hennar ráða sáttmálar og samþykktir sem að lokum má fela dómurum að skýra og túlka án tillits til lýðræðislegs vilja. Þessi þróun er meginástæðan fyrir að Bretar ákváðu að segja skilið við ESB og taka málin í eigin hendur.
Þriðjudagur 24. 01. 17
Í raun er óskiljanlegt að bresku ríkisstjórninni skyldi hafa dottið í hug að hún gæti gengið til viðræðna um úrsögn úr ESB án þess að kynna þinginu á formlegan hátt samningsmarkmið sín. Deilan um þetta sem lauk með dómi hæstaréttar í dag ræðst meðal annars af því að Bretar hafa ekki skrifaða stjórnarskrá og hafa aldrei staðið í þessum sporum áður.
Ríkisstjórnin sagði að ráðherrar hefðu heimild til að gera alþjóðasamninga og ættu einnig að hafa heimild til að binda enda á aðild að þeim og þess vegna virkja úrsagnarákvæðin í 50. gr. sáttmála ESB. Á það var hins vegar bent að úrsögn úr ESB mundi leiða til umtalsverðra breytinga á breskum lögum og réttarstöðu íbúa Bretlands þess vegna yrði að taka ákvörðun um hana með lögum.
Kjarni málshöfðunarinnar var að breska þingið eitt gæti sett lög og því gæti þingið eitt ákveðið að ráðist skyldi í breytingar á þeim með úrsögn úr ESB. Meirihluti hæstaréttar (8:3) féllst á þetta.
Forseti hæstaréttar tók fram að málið snerist alls ekki um hvort rétt væri að fara úr ESB, hvernig það skyldi gert, tímasetningar í tengslum við úrsögnina eða hvernig framtíðarsamskiptum Breta við ESB skyldi háttað.
Beri menn þessi ágreiningsmál í Bretlandi saman við það sem deilt er um hér vegna afturköllunar ESB-umsóknarinnar sjá þeir hve fráleitt er að samþykki alþingis þurfi við bréfi Gunnars Braga Sveinssonar til ESB frá 12. mars 2015 um að ríkisstjórnin teldi Ísland ekki lengur í hópi umsóknarríkja og færi þess á leit við ESB að sambandið tæki hér eftir mið af því.
Engum hefur dottið í hug að leita til dómstóla hér til að hnekkja tilkynningu Gunnars Braga. Fréttir í DV herma hins vegar að þrír alþingismenn Samfylkingarinnar íhugi alvarlega að flytja tillögu til ályktunar á þingi um að þjóðin samþykki að halda áfram ESB-viðræðum á grundvelli afturkölluðu umsóknarinnar frá 2009.
Samfylkingin hefur allt frá upphafi rekið ESB-málið öðrum þræði til að skapa vandræði innan annarra stjórnmálaflokka vegna þess. Að flytja tillögu í þessa veru nú yrði einmitt gert í þeim anda.
Þríeykið í Samfylkingunni ætti að minnast þess að flokkur þeirra hefur farið verst vegna ESB-málsins. Sjálfseyðingarhvötin er líklega takmarkalaus innan flokksins.
Mánudagur 23. 01. 17
Áður hefur verið vakið máls á því hér að stjórnmáladeilur í Bandaríkjunum vekja jafnvel heitari umræður hér á landi og kalla fram meiri dómhörku en menn beita gagnvart íslenskum stjórnmálamönnum. Hvort þetta er hluti af alþjóðavæðingunni eða stafar af sérstökum áhuga Íslendinga á því sem gerist í Bandaríkjunum hefur ef til vill verið rannsakað án þess að niðurstöður hafi verið kynntar á opinberum vettvangi.
Þessi áhugi á mönnum og málefnum í Bandaríkjunum er sérstaklega mikill núna þegar Donald Trump tekur við embætti forseta með bauki og bramli. Hann segir öllum ráðandi öflum stríð á hendur. Í sjónvarpsþætti í gær var leiðtogi repúblíkana í öldungadeild Bandaríkjaþings spurður hvernig honum hefði liðið að sitja á svölum þinghússins og hlusta á skammir Trumps um elítuna í Washington og að valdið yrði flutt frá henni til fólksins.
Þingmaðurinn sagði að sér hefði liðið vel. Hann hefði ekki tekið þetta til sín, hann hefði fengið endurnýjað umboð frá fólkinu í nýlegum kosningum. Hann væri með öðrum orðum fulltrúi þess en ekki hluti elítunnar þótt þingið sæti í Washington.
Daginn eftir harkalegu innsetningarræðuna gerði Trump harða hríð að fjölmiðlamönnum eins og minnst var á hér í gær. Talsmenn Trumps í sunnudags-umræðuþáttunum lentu í vandræðum þegar spurt var um hvernig sanna ætti að fleira fólk hefði verið á götum úti til að fagna innsetningu Trumps en Obama árið 2009.
Reine Priebus, liðsstjóri Trumps í Hvíta húsinu, varðist á þennan veg í þættinum Fox News Sunday: „Málið snýst ekki um mannfjöldann. Málið snýst um árásirnar og tilraunirnar til að grafa undan lögmæti forsetans strax á fyrsta degi – og við ætlum ekki að sitja undir þessu aðgerðalaus.“
Til marks um að standa yrði vörð um forsetann gagnvart fjölmiðlum nefndu málsvarar hans að hópi fjölmiðlamanna hefði verið hleypt inn í forsetaskrifstofuna til að mynda forsetann og verða vitni að honum við störf þar.
Þessi hópur miðlaði frásögnum til annarra fjölmiðlamanna. Fulltrúi Time vikuritsins í hópnum sagði ranglega að Trump hefði látið fjarlægja brjóstmynd af Martin Luther King jr. úr forsetaskrifstofunni. Síðar leiðrétti blaðamaðurinn frásögn sína með afsökun en þá hafði hún borist til 3.000 annarra miðla að sögn talsmanna Trumps.
Þetta atvik notuðu talsmenn Trumps sér til varnar. Hve þeir voru samstiga og einarðir sýnir að hart verður barist. Spurning er hvort báðar hliðar birtist hér á landi, áhugamönnum um bandarísk stjórnmál til upplyftingar.
Sunnudagur 22. 01. 17
Í Washington er hafið kalt stríð milli Donalds Trumps og hans manna í Hvíta húsinu og fjölmiðlamanna. Trump segist raunar hafa átt í stöðugu stríði við fjölmiðlamenn en hann geti nú ekki orða bundist vegna ósanninda þeirra um fjölda fólks sem komið hafi til að hylla sig við innsetningarathöfnina 20. janúar.
Trump heimsótti höfuðstöðvar CIA laugardaginn 21. janúar. Í ræðu sem hann flutti þar sagði hann blaðamenn „meðal óheiðarlegustu manna í jarðríki“. Um 1,5 milljón manna hefði verið við embættistöku sína föstudaginn 20. janúar þótt fjölmiðlar nefndu töluna 250.000. Þeir birtu falsaðar myndir.
Sean Spicer, blaðafulltrúi forsetans, sagði að fleiri hefðu komið til að fylgjast með innsetningu Trumps en nokkurri annarri í sögunni. NYT segir myndir sýna að þetta sé rangt. Spicer sagði að myndir sem teknar hefðu verið af mannfjöldanum við athöfnina hefðu af ásetningi verið birtar á þann veg að gera sem minnst úr mannfjöldanum fyrir framan þinghúsið í Washington.
Fyrir áhugamenn um íslensk stjórnmál er ekkert nýtt við deilur af þessu tagi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákvað eftir deilur í apríl 2016 um hve margir hefðu komið á Austurvöll til að mótmæla Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni eftir Panama-þáttinn í sjónvarpinu að hætta að segja tölur um mannfjölda í miðborg Reykjavíkur við mótmæli eða aðrar athafnir. Vildi lögreglan réttilega ekki dragast inn í þras um þetta en tölurnar eru notaðar til að upphefja einstaklinga og málstað eða niðurlægja.
Deilurnar um mannfjöldann í Washington og flutningur frétta af þeim til dæmis í The New York Times sýnir að hart verður barist á fjölmiðlavettvangi milli manna Trumps og andstæðinga hans. Í frétt NYT segir meðal annars:
„Yfirlýsingar nýja forsetans og talsmanns hans voru gefnar þegar hundruð þúsunda manna mótmæltu Trump, mannhaf sem virtist drekkja fjöldanum sem kom saman daginn áður þegar hann var settur í embætti. Þetta var skýrt dæmi um fúkyrðaflaum og gremju við upphaf nýs stjórnartímabils forseta, á degi sem starfsmenn í Hvíta húsinu nota venjulega til að gefa tón til þjóðarsamstöðu og trausts í garð nýs leiðtoga.“
Þarna er greinilega stigið yfir þau mörk sem venjulega skilja að fréttir og skoðanir blaða. Á ritstjórn NYT er mönnum mikið í mun að láta ekki forsetann og menn hans setja sér neinar skorður. Þá hefur verið tilkynnt að Washington-skrifstofa blaðsins verði efld til að veita forsetanum meira aðhald. Ballið er rétt að byrja!
Laugardagur 21. 01. 17
Viðtal mitt á ÍNN við Sigurð Yngva Kristinsson prófessor er komið á netið og má sjá það hér. Við ræðum um rannsókn sem Sigurður Yngvi stjórnar og snýst um blóðskimun 148.000 Íslendinga til að kanna leiðir í baráttunni við mergæxli. Þeir sem eru fæddir fyrir árið 1975 og hafa ekki fengið bréf með boði um þátttöku í þessu mikla átaki ættu að kynna sér málið á vefsíðunni www.blodskimun.is– mikið er í húfi.
Ræðan sem Donald J. Trump flutti þegar hann varð 45. forseti Bandaríkjanna var í sama dúr og ræða hans á flokksþingi repúblíkana. Honum er ekki sérstakt kappsmál að sameina þjóðina að baki sér heldur vill hann sýna að hann sé á móti elítunni í Washington, bjóði henni byrginn með því að tala máli almennings. Slagorðið Bandaríkin fyrst kynnti hann á þann hátt að ætla mætti að honum væri sama um allt annað en að sannfæra kjósendur sína um að hann geti með aðför að frjálsri verslun og alþjóðvæðingu gjörbreytt bandarísku atvinnulífi og lífskjörum verkamanna.
Boðskapur af þessu tagi er í ætt við það sem andstæðingar alþjóðlegra fríverslunarsamninga af vinstri kanti stjórnmálanna boða. Hér á landi má ætla að Ögmundur Jónasson, fyrrv. þingmaður og hugsjónaríkur vinstrisinni, ætli að helga sig baráttunni gegn frjálsum alþjóðaviðskiptum. Hann hlýtur því að fagna þjóðernissinnaðri stefnu Trumps.
Langt viðtal birtist við Ögmund í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 22. janúar þar sem hann tíundar pólitískar skoðanir sínar og hvernig hann ætlar að berjast fyrir framgangi þeirra þrátt fyrir brottför sína af alþingi. Í Morgunblaðinu eru forsetaskiptin í Bandaríkjunum og áhrif þeirra á varnarhagsmuni Íslands borin undir Silju Báru Ómarsdóttur, aðjunkt við Háskóla Íslands, sem er kunn fyrir að skoða heiminn frá feminískum sjónarhóli.
Þótt skoðanir Ögmundar séu skyldar viðhorfi Trumps sýnist því ekki hampað sérstaklega í viðtalinu við hann. Í dag sameinuðust konur um allan heim og fóru í mótmælagöngur vegna valdatöku Trumps. Á þetta er ekki minnst í viðtalinu við Silju Báru heldur rætt um varnar- og öryggismál þar sem þekking hennar stendur greinilega ekki á djúpum grunni,
Föstudagur 20. 01. 17
Donald Trump verður 45. forseti Bandaríkjanna í dag. Þetta er í raun ótrúleg staðreynd, að minnsta kosti í augum okkar sem töldum að framboð hans innan flokks repúblíkana væri vonlaust frá upphafi og yrði hann valinn mundi Hillary Clinton mala hann í sjálfum kosningunum 8. nóvember 2016. Að hafa svona herfilega rangt fyrir sér um þetta er eins og hvert annað hundsbit. Úr því að bandarískir kjósendur treystu honum manna best til að veita sér forystu verður að taka því af karlmennsku og vona hið besta.
Margt af því sem Trump segir setur menn úr jafnvægi. Nú herma fréttir til dæmis að þingmenn á ESB-þinginu krefjist þess að af hálfu Evrópusambandsins verði flutt opinber, formleg mótmæli við sendiherra Bandaríkjanna vegna þess hve illa Trump talar um sambandið og framtíð þess. Hann telur ESB í raun dauðadæmt verði haldið áfram á sömu braut.
Í fréttum um þessa kröfu er þess síðan getið að frá og með 20. janúar sé Anthony Gardner, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart ESB, sviptur embætti sínu og sama sé að segja um sendiherra Bandaríkjanna gagnvart NATO. Báðir eru það sem kallað er „pólitískt skipaðir“, það er valdir í há embætti sín án þess að hafa starfað innan bandarísku utanríkisþjónustunnar og risið þar stig af stigi til meiri metorða.
Donald Trump gaf skilyrðislaus fyrirmæli um embættismissi allra „pólitískt skipaðra“ sendiherra frá og með 20. janúar. Ná fyrirmælin meðal annars til Roberts C. Barbers sem verið hefur farsæll sendiherra Bandaríkjanna hér á landi frá 8. janúar 2015. Hann var kvaddur með móttöku í bandaríska sendiráðinu þriðjudaginn 17. janúar. Þegar hann flutti kveðjuræðu sína fór ekki framhjá neinum að hann bar heitar tilfinningar til lands og þjóðar og hafði notið þess að starfa í þjónustu stjórnar sinnar hér.
Nokkurt uppnám hefur orðið í Danmörku eftir breytingar á ríkisstjórninni þar fyrir um það bil tveimur mánuðum. Bertel Haarder (72 ára), þingmaður Venstre-flokksins, var settur af sem ráðherra eftir að hafa gegnt ráðherraembætti einna lengst allra Dana. Flokksbróðir hans, Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, vildi bæta honum ráðherramissinn með því að gera Haarder að aðalræðismanni meðal danska minnihlutans í Flensborg í Slesvík-Holstein. Þessi „pólitíska skipun“ mæltist svo illa fyrir að Haarder gaf ekki kost á sér í embættið og hefur hún vakið töluverðar umræður um skipun stjórnmálamanna í embætti sendiherra. Sjónarmið í þeim umræðum eiga erindi hingað til lands.
Fimmtudagur 19. 01. 17
Myndin skýrist af því sem gerðist snemma morguns laugardaginn 14. janúar í tengslum við hvarf Birnu Brjánsdóttur sem sást síðast á ferli á Laugaveginum í Reykjavík.
Lögregla hefur meðal annars stuðst við myndir úr eftirlitsmyndavélum. Myndirnar eru ekki nægilega skýrar til að greina bílnúmer og varð lögregla því að nota útilokunaraðferð til að finna þann rauða bíl sem hún taldi tengjast málinu. Það tókst og beindi bíllinn athygli lögreglu að skipverjum grænlensks togara sem lét úr Hafnarfjarðarhöfn á laugardagskvöld.
Dönsku herskipi var siglt í átt til togarans með íslenska lögreglumenn sem fluttir voru með þyrlu um borð í það. Síðan var þyrla landhelgisgæslunnar hins vegar notuð til að senda íslenska sérsveitarmenn beint um borð í togarann, höfðu eigendur hans gefið skipstjóra fyrirmæli um að snúa að nýju til Íslands. Lögregla yfirheyrði þrjá skipverja aðfaranótt fimmtudags 19. janúar.
Samhliða þessu hafa fjölmennir leitarhópar björgunarsveitanna leitað að Birnu bæði í sjó og á landi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu undir stjórn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns hefur skipulagt og stjórnað þessari umfangsmiklu aðgerð af fumleysi undir þungu álagi vegna atburðarins sjálfs, áhuga allrar þjóðarinnar og ágengni fjölmiðla. Hefur enn sannast hve unnt er að virkja marga til skipulegra aðgerða þegar þörf krefst.
Lögreglan hefur gengið fram af varúð og virðingu og haldið á miðlun upplýsinga á þann veg að engu sé spillt vegna ógætilegra aðgerða.
Í ljósi þessarar varkárni lögreglu vekur athygli hve fljótt Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, fellir þann dóm að peningaleysi lögreglunnar hafi tafið fyrir félagsmönnum hans við störf þeirra. Hann segir fimmtudaginn 19. janúar á vefsíðunni visir.is:
„Fjárhagsstaðan hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er slík að það er útilokað að það sé búið að bæta við eða endurnýja þær [eftirlitsmynda]vélar sem eru uppi. Þetta eru vélar sem voru settar upp í samvinnu við Reykjavíkurborg árið 1997 og þetta voru og eru enn miklir hlunkar.“
Er málum farið á þennan veg? Á mbl.is má lesa frétt frá 24. maí 2012 um að borgarráð hafi þann sama dag samþykkt að kaupa 12 eftirlitsmyndavélar til nota í miðborg Reykjavíkur, Neyðarlínan sjái um uppsetningu, viðhald og flutning merkis en lögregla um endabúnað, viðtöku merkis, vöktun og úrvinnslu. Var aldrei ráðist í uppsetningu þessara véla? Var það vegna peningaleysis lögreglu eins og Snorri Magnússon segir?
Miðvikudagur 18. 01. 17
Í dag ræddi ég við dr. Sigurð Yngva Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Hann er í forystu verkefnisins blóðskimun til bjargarm þjóðarátaks gegn mergæxlum sem hóst formlega 15. nóvember 2016 og nær til 148.000 Íslendinga, allra sem eru fæddir fyrir árið 1975. Hér er um merkilegt rannsóknarverkefni að ræða eina „viðamæstu vísindarannsókn sem hefur verið ráðist í á Íslandi,“ segir í kynningarbæklingnum sem hefur verið sendur til þeirra sem boðin er þátttaka í verkefninu.
Verkefnið er algjörlega sjálfbært, ef svo má orða það. Til þess hefur verið aflað styrkja innan lands og utan auk þess sem stofnað hefur verið til samstarfs við aðila í Bretlandi sem greinir blóðsýni á kostnað breskra sjóða. Ekki er um að ræða framlag á fjárlögum íslenska ríkisins til þessa verkefnis sem getur skipt sköpum í öllum heiminum gegn sjúkdómi sem nær til 20 til 25 Íslendinga á ári.
Vonandi verður samtal okkar Sigurðar Yngva til þess að kveikja áhuga sem flestra á þátttöku. Ég spurði hann hvers vegna ég hefði fengið bréf en ekki Rut, kona mín. Þá kom í ljós að eftir margra ára undirbúning við að semja bréf og kynningargögn reyndist dreifingin á þeim ekki takast eins og við var búist og í boði er hjá þeim sem annast póstdreifingu. Sigurður Yngvi og samstarfsfólk hans hefur ekki fengið neina haldbæra skýringu á því hvað gerðist. Er nú sjálfstætt rannsóknarefni að finna út úr því.
Þeir sem fæddir eru fyrir 1975 og vilja taka þátt í verkefninu blóðskimun til bjargar en hafa ekki fengið bréf með ósk um þátttöku þeirra geta farið inn á vefsíðuna www.blodskimun.is og skráð sig til þátttöku.
Samtal okkar Sigurðar Yngva verður frumsýnt klukkan 20.00 í kvöld á ÍNN.
Þriðjudagur 17. 01. 17
Theresa May, forsætisráðherra Breta, kynnti í dag samningsmarkmið sín gagnvart ESB í tengslum við úrsögn Breta úr sambandinu. Hún kynnti 12 punkta markmið. Eitt er að segja skilið við innri markað ESB, annað að Bretar verði að stýra þeim fjölda fólks sem koma til Bretlands frá Evrópu.
Í þessu felst að Bretar verða ekki aðilar að EES-samningnum. Þeir vilja ekki aðild að innri markaðnum enda gerir hún ráð fyrir frjálsri för innan EES.
Í þessu felst að EFTA kann að gera fríverslunarsamning við Breta eða ríkin innan EFTA (Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss) semja hvert um sig við Breta.
Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi 23. júní 2016 þegar Barack Obama Bandaríkjaforseti studdi David Cameron, þáv. forsætisráðherra, og aðild Breta að ESB gaf hann til kynna að það yrði ekki forgangsverkefni Bandaríkjastjórnar að semja um viðskipti við Breta utan ESB.
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, fagnar úrsögn Breta úr ESB og segir að það verði forgangsmál hjá sér að hitta Theresu May og gera viðskiptasamning við Breta utan ESB. Vakti May máls á þessari stefnubreytingu Bandaríkjamanna undir forystu Trumps í ræðu sinni.
Lilja D. Alfreðsdóttir, fyrrv. utanríkisráðherra, fól Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra að leiða starf innan utanríkisráðuneytisins gagnvart Bretum og ESB auk EFTA-ríkjanna vegna úrsagnar Breta.
Í hálft ár hafa menn velt fyrir sér hvaða leið Bretar ætli að velja, mjúka eða harða leið úr ESB. Ég hef mælt með mjúku leiðinni: að Bretar gerist aðilar að EFTA og að EES, innri markaðnum, og fái undanþágu vegna frjálsrar farar í krafti öryggisákvæða í EES-samningnum eins og Liechtensteinar. May velur hörðu leiðina, stöðu utan innri markaðarins.
Harða leiðin krefst meira af íslenskum samningamönnum en mjúka leiðin. Bretar vilja gera víðtækan fríverslunarsamning við ESB. Sambandið hefur gert tvíhliða samninga við Sviss, samninga sem það hefur viljað fella undir EES-skipulagið. Nú sækjast Bretar eftir svipaðri stöðu og Svisslendingar hafa. Spurning er hvort þessi þróun breytir afstöðu ESB til EES-samningsins.
Viðbrögð ráðgjafa Angelu Merkel var að Bretar gætu ekki nálgast ESB með því hugarfari að tína aðeins rúsínurnar úr bollunni. Þeir yrðu að taka hana alla. Þetta er hefðbundin afstaða af hálfu ESB. David Davis, ráðherra úrsagnarmála í bresku stjórninni, sagði á þingi eftir ræðu May að Bretar ætluðu ekki að tína rúsínur, þeir vildu semja, tækist það ekki yrðu þeir að sætta sig við það.
Mánudagur 16. 01. 17
Yfirlýsingar Donalds Trumps í viðtali við Bild og The Times valda undrun og uppnámi í Evrópu og Bandaríkjunum, hér má sjá frásögn af samtalinu. Fimm dögum fyrir embættistöku sína heldur Trump áfram að tala út og suður um viðkvæm málefni.
Annars vegar segir hann að NATO sé sér „mikils virði“ og hins vegar að bandalagið sé „úrelt“. Annars vegar segist hann dást að Merkel sem „frábærum leiðtoga“ hins vegar segir hann Merkel hafa gert „hroðlaleg mistök“ í útlendingamálum með því að opna Þýskaland á árinu 2015 fyrir farand- og flóttafólki. Annars vegar segist hann ætla að efla kjarnorkuherafla Bandaríkjanna og hins vegar að bjóða Rússum afnám viðskiptaþvingana minnki þeir kjarnorkuherafla sinn.
Í raun stendur ekki steinn yfir steini en athyglin beinist að þeim hluta ummælanna sem þykja fréttnæmust og það eru þau sem valda mestu uppnámi.
Ég hef fylgst með og skrifað um utanríkis- og öryggismál í um það bil hálfa öld og aldrei orðið vitni að öðru eins og þessari lausung Donalds Trumps sem er í hróplegri andstöðu við festuna sem birtist í skoðunum þeirra sem hann hefur valið í stjórn sína til að fara með utanríkis- og varnarmál.
Á sjöunda og áttunda áratugnum voru umræður um framleiðslu og notkun á svonefndri nifteindarsprengju sem sögð var hafa hræðilegan eyðingarmátt en nota mætti í návígi til dæmis gegn skriðdekum. Var ráðgert að koma slíkum sprengjum fyrir í Vestur-Þýsklalandi til að auka fælingarmátt bandaríska hersins gegn sovéska heraflanum. Tók jafnaðarmaðurinn Helmut Schmidt, kanslari Þýskalands frá 1974 til 1982, á sig verulega pólitíska ágjöf til að Bandaríkjamönnum yrði heimilt að geyma nifteindarsprengjur í vopnabúrum sínum í V-Þýskalandi.
Þegar komið var að framkvæmd málsins á árinu 1978 snerist Jimmy Carter Bandaríkjaforseta allt í einu, jafnvel á einni nóttu, hugur og hætt var við allt saman. Man ég eftir að hafa heyrt Helmut Schmidt flytja ræðu á ráðstefnu sem ég sat þar sem hann hellti úr skálum reiði sinnar vegna þessa tvískinnungs Carters sem hefði skilið sig eftir á berangri sem skotspæni pólitískra andstæðinga sinna.
Hvergi var ánægjan meiri með Carter en í Moskvu. Skyldi ekki sama gilda um Trump núna?
Sunnudagur 15. 01. 17
Á ruv.is mátti lesa laugardaginn 14. janúar:
„Hælisumsóknum á síðasta ári fjölgaði um 220% frá árinu 2015. Langflestir umsækjendur koma frá Makedóníu og Albaníu, en þeir fá ekki hæli hér á landi þar sem löndin flokkast sem örugg ríki.
Aldrei hafa jafn margir sótt um hæli hér á landi og í fyrra eða 1132. Það er nærri þreföld aukning frá 2015, þegar 354 sóttu um hæli hér á landi. Langflestir hælisleitendur í fyrra eru Makedónar eða 467. Flestir sóttu um hæli í nóvember eða 187, en 63 í desember. Árið 2015 voru hælisleitendur frá Makedóníu ekki nema 27 og voru því umsækjendur frá Makedóníu um sextánfalt fleiri í fyrra en árið 2015.
Næstflestir hælisleitendur í fyrra komu frá Albaníu. Þá sótti 231 Albani um hæli hér á landi, samanborið við 108 árið 2015.“
Þessi þróun hefur ekki orðið fyrir tilviljun. Hana má rekja til þess að fyrir jól 2015 tóku alþingismenn þá sérkennilegu ákvörðun að hafa niðurstöðu útlendingastofnunar um brottvísun fjölskyldu frá Albaníu að engu og veita henni ríkisborgararétt. Þá var fullyrt að þetta yrði ekki fordæmi. Hvað sem þeim fullyrðingum leið hefur ákvörðunin dregið þann dilk á eftir sér sem birtist í tölunum hér að ofan.
Hér hefur verið bent á að tilgangur þeirra sem koma hingað frá Makedóníu og Albaníu sem hælisleitendur sé þríþættur: 1. Að dveljast hér að minnsta kosti í þrjá mánuði á kostnað ríkisins. 2. Að stunda svarta vinnu. 3. Að njóta íslenskrar heilbrigðisþjónustu.
Tregða er til að ræða þessi mál á opinberum vettvangi eins og ber að gera. Ættu Íslendingar í hlut og reyndu þannig skipulega að hafa fé út úr íslenska ríkinu á ólögmætan hátt eða stunda svarta vinnu yrði þess strax krafist að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana til að stöðva svindlið. Í tilviki Makedóníumannanna og Albanana er staðið þannig að málum að fjárveitingar eru auknar með því að fara dýpra í vasa skattgreiðenda. Meira að segja er reynt að koma rasistastimpli á þá sem benda á ósómann.
Á miðvikudögum og sunnudögum kemur hingað til lands flugvél Wizz-air frá Búdapest. Eftir komu þessarar vélar fjölgar hælisleitendum frá Makedóníu og Albaníu gjarnan hér á landi. Spurning vaknar hvers vegna ekki er samið við ungversk stjórnvöld um ráð til þess að benda þessu farandfólki á að það sé til einskis að ætla sér að sækja um hæli á Íslandi.
Laugardagur 14. 01. 17
Samtal mitt við Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð á ÍNN 11. janúar er komið á netið eins og sjá má hér.
Fréttin (sjá hér) um að varnarmálaráðherra Danmerkur telji hættu á að ríkisstyrktir rússneskir tölvuþrjótar kunni að brjótast inn í tölvukerfi sjúkrahúsa eða heilbrigðismála í Danmörku til að skapa ótta, öryggisleysi eða vantrú í garð stjórnvalda og vega þannig að lýðræðislegum stjórnarháttum er verð umhugsunar.
Ekkert innviðakerfi samfélaga er viðkvæmara en heilbrigðiskerfið. Þess vegna verða oft miklar umræður um það á stjórnmálavettvangi. Við sjáum það til dæmis núna við valdaskiptin í Bandaríkjunum. Repúblíkanar gera aðför að breytingunum sem Barack Obama beitti sér fyrir á heilbrigðiskerfinu og vilja með tafarlausum breytingum sanna fyrir almenningi að þeir standi við loforð sín.
Færa má rök fyrir að hér hafi verið sótt að stjórnvöldum með áður óþekktum aðferðum fyrir kosningar til að knýja á um mikilvægi heilbrigðismála og fjárveitingar til þeirra. Safnað var undirskriftum undir kröfu um að alþingi verði „árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins“.
Undirskriftunum (86.761) var skilað 30. apríl 2016 og í krafti þeirra sótti upphafsmaðurinn, Kári Stefánsson, hart að fjármálaráðherra í aðdraganda kosninganna 29. október. Aðfinnslum Kára var ekki ætlað að auka traust á stjórnvöldum og aðferðin bar þess merki að beita þyrfti öðru en hefðbundnum lýðræðislegum aðferðum í kosningabaráttu til að bjarga heilbrigðiskerfinu.
Í tengslum við undirskriftasöfnunina var efnt til fjölmiðlaherferðar þar sem frásagnir um afleiðingar fjárskorts innan heilbrigðiskerfisins vöktu gagnrýni í garð ríkisstjórnar og meirihluta fjárveitingarvaldsins.
Hér hefur áður verið vakið máls á að stundum sé engu líkara en fréttahallæri á ríkisútvarpinu sé bjargað með símtali í einhvern starfsmann Landspítalans sem segi veruleg vandræði af einni ástæðu eða annarri. Þar með sé fréttatímanum bjargað og höggi auk þess komið á ríkisstjórnina.
Eitt er að tekist sé á um heilbrigðismál á innlendum, pólitískum forsendum. Annað ef það gerist sem danski varnarmálaráðherrann nefnir að tölvuþrjótar með tilstyrk rússneska ríkisins ráðist til atlögu í því skyni að upplausn innan heilbrigðiskerfisins leiði til upplausnar í samfélaginu og veiki trú á stjórn þess. Að slíkt gerist er örugglega fjarlægt í huga allra almennra borgara. Dönum hefur þó verið birt viðvörunina og greinilega getur allt gerst í netheimum.
Föstudagur 13. 01. 17
Fylgt hefur verið markvissri stefnu í heilbrigðismálum undanfarin ár sem felur í sér að allir landsmenn eigi rétt til tafarlausrar bestu þjónustu á Landspítalanum. Til þess að framkvæma stefnuna hefur verið lögð áhersla á að bæta sjúkraflutninga til Reykjavíkur. Í því tilliti gegnir sjúkraflug lykilhlutverki fyrir mög byggðarlög.
Í dag birtist ályktun sveitarstjórna Langanesbyggðar sem harmar eindregið ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um lokun suðvesturbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli, svonefndri neyðarbraut. Telur sveitarstjórnin að sú ákvörðun hafi grafalvarlegar afleiðingar. Aldrei megi gleyma að það sé „sameiginleg ábyrgð allrar þjóðarinnar að öryggi og heilsu íbúa landsins sé ekki stefnt í tvísýnu.“ Lokun flugbrautarinnar sé ekki einkamál borgarstjórnar Reykjavíkur, því flugvöllurinn í Vatnsmýrinni sé mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra ber lokaábyrgð á pólitískum vettvangi á framkvæmd heilbrigðisstefnunnar. Beiti hann sér ekki gegn hindrunum sem reistar eru gegn framkvæmd stefnunnar bregst hann skyldum sínum.
Óttarr á flokksbræður í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur þar sem hann sat sjálfur á sínum tíma og studdi Jón Gnarr sem borgarstjóra. Óttarr hefur því tök á að beita sér pólitískt í flugvallarmálinu á annan veg en aðrir ráðherrar í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.
Væri lögð hindrun á leið sjúkrabifreiðar á sjúkrahús er öllum ljóst að tafarlaust yrði gripið til ráðstafana í því skyni að ryðja henni úr vegi. Allir vegfarendur vita að sjúkrabílar njóta forgangs í umferðinni og öllum ber að víkja til hliðar til að tryggja hindrunarlausa för þeirra. Gildir annað um sjúkraflugvélar?
Þeir sem standa í vegi fyrir að sjúkraflugvélar geti notað allar brautir Reykjavíkurflugvallar eru í sömu sporum og þeir sem leggja stein í götu sjúkrabíls.
Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að hún ætli að beita sér fyrir lausn á deilunni um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila.
Bjarni Benediktsson sagði á alþingi mánudaginn 10. október 2016 að hann hefði fengið skýrslu sem hann bað um sem fjármálaráðherra um flutning fjár á aflandsreikninga. Hann sagðist ætla að leggja hana fram. Þingi lauk 13. október 2016 og kosið var til nýs þings 29. október 2016. Nú hefur skýrslan verið birt og dagsett í janúar 2017, í útgáfumánuðinum.
Rannsóknarblaðamaður Stundarinnar fann út að „hvíttað“ hefði verið yfir útgáfumánuð í september og gert þar tortryggilegt í „lærðri“ grein sem reynist vitleysa. Fjármálaráðuneytið hefur tekið af skarið að ekki var „hvíttað“ yfir neitt, sjá hér.
Fimmtudagur 12. 01. 17
Í dönskum blöðum segir frá því í dag að verð á hlutabréfum í lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk hafi hríðfallið eftir blaðamannafund Donalds Trumps, verðandi forseta Bandaríkjanna, miðvikudaginn 11. janúar. Þar gagnrýndi hann lyfjafyrirtæki fyrir alltof háa verðlagningu á vörum sínum og sagði að hann mundi beita sér fyrir nýjum útboðsreglum til að lækka verðið. Segir á vefsíðu Berlingske Tidende að yfirlýsing Trumps hafi strax haft afleiðingar fyrir dönsk lyfjafyrirtæki sem selja framleiðslu sína til Bandaríkjanna.
Engar fréttir hafa birst hér á landi um hvort boðskapur Trumps hafi áhrif á lyfjafyrirtækin sem hér starfa. Trump vill draga úr frjálsum viðskiptum, að eigin sögn til að bæta efnahag Bandaríkjanna. Á sama tíma og hann sest að völdum eykst óvissan um hvernig hagað verður úrsögn Breta úr ESB en nú er tæpt hálft ár frá því að hún var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki hefur einu sinni verið skýrt frá hvaða markmið breska ríkisstjórnin setur sér í málinu.
Fréttablaðið birti forsíðufrétt í morgun um að ríkið hefði klúðrað kaupum á Jökulsárlóni. Var þetta haft eftir lögmanni aðila sem sættir sig ekki við að ríkið nýti forkaupsrétt sinn. Fyrir hádegi tilkynnti sýslumaðurinn á Suðurlandi að ríkið hefði ekki klúðrað neinu. Tímafrestur til að tilkynna að forkaupsrétturinn yrði nýttur hefði ekki verið útrunninn þegar tilkynning ríkisins barst.
Á tímanum sem leið frá því að Fréttablaðið birti hálfunna frétt sína og þar til sýslumaður hafði lokið athugun sinni höfðu nokkrir einstaklingar rokið upp til handa og fóta og hellt úr skálum reiði sinnar á athugasemdakerfi Fréttablaðsins.
Fréttin og athugasemdirnar við hana eru til marks um óþolið í samfélaginu í leitinni að sökudólgum til að skeyta skapi sínu á hvort sem menn vita eitthvað um viðkomandi mál eða ekki. Blaða- og fréttamennska snýst því miður æ meira um þetta og dregur það óskemmtilegan dilk á eftir sér í opinberum umræðum. Hér höfum við hvað skýrast kynnst þessu í átökum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrv. forsætisráðherra, og fréttastofu ríkisútvarpsins.
Í Bandaríkjunum taka menn síðasta blaðamannafund Donalds Trumps sem dæmi um að hann muni láta fjölmiðlamenn heyra það sé hann ósáttur við fréttir miðlanna. Trump gerði hróp að fréttamanni CNN og sagði stöð hans flytja gervifréttir, fake news, og vísaði þar til þess að stöðin varð fyrst meginmiðla til að segja frá leynilegri skýrslu um meintar ávirðingar Trumps í Rússlandi sem stjórnvöld þar kynnu að nota til að beit hann nauðung.
Miðvikudagur 11. 01. 17
Í dag ræði ég við Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð á ÍNN, frumsýnt kl. 20.00 í kvöld.
Það tók frá 29. október 2016 til 9. janúar 2017 að mynda ríkisstjórnina sem síðan var skipuð á fundi ríkisráðsins á Bessastöðum í dag. Allan þennan tíma höfðu forystumenn flokkanna sjög sem eiga sæti á alþingi tækifæri til að reyna myndun meirihluastjórnar, þrír fengu formlegt umboð til þess frá forseta Íslands: Birgitta Jónsdóttir Pírati, Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir VG.
Birgittu og Katrínu mistókst.
Birgitta útilokaði Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Tilraun hennar var dauðadæmd frá upphafi þótt hún teldi þremur dögum fyrir uppgjöf sína 90% líkur á að tilraun sín mundi heppnast. Sannaðist enn hve pólitísk dómgrein hennar er brengluð og sama má segja um Smára McCarthy, flokksbróður Birgittu. Hann mat stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðunum einnig alrangt.
Eftir að hafa tapað á heimavelli og öllu trausti rúin reynir Birgitta að ná sér niðri á Bjarna Benediktssyni með aðstoð erlendra fjölmiðlamanna. Veikir það mjög traust til erlendra blaða að sjá þau birta fréttir með Birgittu sem heimildarmann. Fyrir henni vakir ekki annað en skítkast í sama anda og hún stundar hér á landi.
VG klofnaði ofan í rót þegar hann átti aðild að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 2009 til 2013. Katrín Jakobsdóttir varð formaður til að breiða yfir klofninginn. Sú viðleitni hennar gerir hana í raun áhrifalausa í samskiptum við aðra flokka. Henni er um megn að taka ákvörðun sem miðar að samstarfi við aðra af ótta við að gjáin í flokki hennar opnist að nýju og hún detti sjálf ofan í hana. Undir forystu Katrínar verður VG ekki annað en nöldurflokkur sem helst hampar því að hann sé grænn þótt kjarninn sé rauður.
Bjarna Benediktssyni tókst að mynda ríkisstjórn með eins atkvæðis meirihluta. Hann sýndi þolinmæði í viðræðum við forystumenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og til varð stjórnarsáttmáli flokkanna sem endurspeglar að sjálfsögðu að þeir eru ekki sammála um allt en er fjarri því sem um hefði verið samið til að finna samnefnara í viðræðum Bjarna við VG og Framsóknarflokkinn.
VG undir forystu Katrínar vildi aldrei annað en sýndarviðræður við Bjarna. Það er því meira en lítið hallærislegt að sjá Katrínu hneykslast á sáttmála ríkisstjórnarinnar. Vilji hún beina spjótum sínum að einhverjum vegna niðurstöðunnar um stjórnarsamstarf ætti hún að gera sjálfa sig að skotspæni. Verður henni lengur sætt sem formaður VG?
Þriðjudagur 10. 01. 17
Flokksstofnanir sjálfstæðismanna, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar samþykktu sáttmála nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á fundum sínum í gærkvöldi. Fram á síðustu stundu reyndu vinstrisinnar að spilla fyrir stjórnarmynduninni með vísan til þess að Bjarni hefði ekki birt fyrir kosningar skýrslu um aflandseignir.
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, sagði við ríkisútvarpið að skýrslumálið hefði valdið þingflokknum miklu hugarangri og miklum áhyggjum. Flokkurinn hefði rætt við Bjarna á símafundi. „Ég mat þær skýringar sem hann gaf á þeim fundi að honum væri treystandi til að leiða næstu ríkisstjórn,“ sagði Pawel. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hallmælti Bjarna á lokaðri FB-síðu Viðreisnar og sakaði hann um „klaufaskap og lélega dómgreind“ frekar en „ásetning“ varðandi birtingu skýrslunnar.
Í Morgunblaðinu segir að innan Bjartrar framtíðar (BF) hefði stjórnarsáttmálinn verið samþykktur í rafrænni atkvæðagreiðslu með 51 atkvæði en 18 voru á móti. Í gær var greinilegt að stjórnarandstaðan batt helst vonir við að hræða mætti Óttar Proppé, formann BF, frá þátttöku í stjórninni.
Bjarni Benediktsson hefur sýnt þrautseigju í erfiðri pólitískri stöðu við myndun ríkisstjórnarinnar. Ætla má að hann hafi viljað styðjast við rýmri meirihluta en eitt atkvæði á þingi og þess vegna kosið að hafa Framsóknarflokkinn með í stjórninni ásamt Viðreisn og BF. Þau áform strönduðu á eindreginni andstöðu þessara flokka við Framsóknarflokkinn.
Eitt er að smáflokkar leggist gegn samstarfi við tvo stærri flokka. Hitt er einkennilegra að klofningur innan Vinstri grænna (VG) komi í veg fyrir að sá flokkur reynist liðtækur í stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Sitja þingmenn VG eftir með sárt enni og spurning er hve lengi tekst að breiða yfir djúpstæðan ágreining innan flokksins.
Nú eru rétt átta ár liðin frá því að ráðamenn innan Samfylkingarinnar brugguðu launráð gegn Sjálfstæðismönnum, samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn. Meginstef launráðsmanna var að hrekja Sjálfstæðismenn úr ríkisstjórn, reka þá út í horn vegna þess að hér varð hrun og leiða Ísland inn í Evrópusambandið samhliða því sem Sjálfstæðisflokkurinn yrði eilíft í skammarkróknum. Samfylkingin er horfin og Íslendingar fjær því að ganga inn í ESB en nokkru sinni.
Bjarni Benediktsson hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í þessi átta ár. Hann hefur unnið pólitískt þrekvirki.
Mánudagur 09. 01. 17
Spennandi er að fylgjast með bylgjunni sem fer nú frá fréttastofu ríkisútvarpsins um samfélagsmiðla yfir á Kjarnann og Stundina vegna stjórnarmyndunarinnar. Lokaskrefin verða stigin næstu klukkustundir í viðræðunum milli forystumanna Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Flokkarnir hafa boðað til funda í kvöld í stofnunum sínum sem verða að samþykkja aðild þeirra að ríkisstjórn.
Á þessari úrslitastundu er öllum spjótum andstæðinga þessa stjórnarsamstarfs beint að Bjarna Benediktssyni og fréttastofa ríkisins tekur eins og oft áður að sér að setja hulu hlutlægni yfir aðförina að Bjarna.
Undir liggjandi er sá áróður að Bjarni hafi vísvitandi ákveðið að leyna þing og þjóð skýrslu um aflandseignir á lokadögunum fyrir kjördag 29. október. Það hefur orðið til að hella olíu á áróðurseldinn að Bjarni hafði ekki á takteinum réttar dagsetningar um það hvenær honum var kynnt skýrslan í október 2016 þegar hann svaraði spurningum fréttamanns ríkisins um málið, nýkominn af þingflokksfundi um stjórnarmyndun í Valhöll laugardaginn 7. janúar. Hefur Bjarni beðist afsökunar á ónákvæmni sinni.
Vinstrisinnum var mikið í mun að fréttastofa ríkisútvarpsins léti málið til sín taka eins og sjá mátti á því sem Ingimar Karl Helgason, fyrrv. fréttamaður, skrifaði á FB-síðuna Fjölmiðlanördar. Má með sanni segja að farið hafi verið að hvatningu hans.
Frá 29. október 2016 til þessa dags hafa annarra flokka menn og fjölmiðlar á þeirra bandi verið á hjólum í kringum Bjarna Benediktsson í von um að hann stofnaði til stjórnarsamstarfs við þá, meira að segja Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, hefur talað fyrir samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
Nú er þetta allt breytt. Um leið og spjótunum er beint harkalega að Bjarna er leitað að veikasta hlekknum meðal þingmanna sem styðja væntanlega ríkisstjórn. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, er talinn þessi hlekkur.
Ríkissjónvarpsmaðurinn og álitsgjafinn Egill Helgason segir á vefsíðu sinni: „í rauninni gæti Óttarr þarna verið kominn með átyllu til að hætta við [stjórnarmyndun] ellegar bíða þangað til málið skýrist betur“. Þau kallast á Egill og Birgitta Jónsdóttir Pírati sem segir á FB-síðu sinni „held ég að hann [Óttarr] yrði samstundis að þjóðhetju ef hann myndi slíta sig frá Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum“.
Gamall samfylkingar-bloggari, Gísli Baldvinsson, telur stríðið rétt að hefjast. Hann segir á Stundinni í dag: „Stórskotahríðin er eftir þegar málefnasamningur ríkisstjórnar verður kynntur. Hugsanlega loftárás einnig.“
Sunnudagur 08. 01. 17
Stjórnmálaumræður í Bretlandi hafa jafnan haft mikil áhrif hér á landi og einnig stefnumótun stjórnmálaflokka þar. Löngum hafa Sjálfstæðismenn til dæmis verið sagðir aðhyllast Thatcherisma.
Innan Samfylkingarinnar hreyktu ýmsir forystumenn sér af því að vera félagar í breska Verkamannaflokknum. Hann man nú sinn fífil fegri eins og Samfylkingin. Báðir flokkarnir töpuðu áttum, meðal annars vegna þess hvernig Tony Blair, sigursæli foringi Verkamannaflokksins hélt á málum og sigraði hvað eftir annað í kosningum.
Theresa May, varð forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, með skömmum fyrirvara eftir að David Cameron sagði af sér vegna ósigursins í Brexit-atkvæðagreiðslunni 23. júní 2016. Hún á fullt í fangi með að leiða Breta út úr ESB en hefur þó gefið sér tíma til að móta nýja stefnu sem hún kennir við shared society sem þýða má með orðunum „sameiginlegt samfélag“.
Kynnir hún þessa stefnu í The Telegraph í dag og segir að ríkisvaldinu sé skylt að grípa inn í og leiðrétta „hróplegt óréttlæti“ í Bretlandi. Hún segir að ríkisvaldið eigi ekki „að halda sér til hlés“ og áréttar að „lífið [snúist] um meira en einstaklingshyggju og sérhagsmuni“.
Ben Riley-Smith, aðstoðar-stjórnmálaritstjóri The Telegraph segir að í grein May lýsi hún nánar en nokkru sinni frá því að hún varð forsætisráðherra hvað fyrir henni vaki við mótun samfélagsins og að greinin sýni einnig staðfastan vilja hennar til að marka skil á milli sín og forvera hennar í leiðtogasæti Íhaldsflokksins.
Hann minnir á að David Cameron hafi talað um big society þar sem gert var ráð fyrir að góðgerðasamtök veittu aðstoð sína við að minnka ójafnrétti. Margaret Thatcher hefði hins vegar sagt að „ekki [væri] til neitt samfélag“. May hafni þessum skoðunum Camerons og Thatcher. Í stað þess færi hún skýlaus rök fyrir því hvers vegna ríkisvaldið eigi að láta að sér kveða sé vegið að hag neytenda á mörkuðunum.
Ben Riley-Smith segir að litið verði á grein forsætisráðherrans sem fráhvarf frá hugmyndafræðinni sem breskir íhaldsmenn hafi fylgt í áratugi og reist sé á þeirri skoðun að besta leiðin til að aðstoða þá verst settu sé að stuðla að hagvexti í krafti frjálsra markaða. Þá bendi greinin einnig til þess að fyrir May vaki að endurskilgreina Íhaldsflokkinn sem flokk „vinnandi stétta“ og skipa Verkamannaflokknum út í horn í augum kjósenda.
Þetta eru vissulega söguleg þáttaskil innan breska Íhaldsflokksins. Verður spennandi að fylgjast með umræðunum innan flokksins og í bresku samfélagi.
Laugardagur 07. 01. 17
Nú liggur fyrir skýrsla um hvernig háttað hefur verið flutningi fjár frá Íslandi til aflandsfélaga. Bjarni Benediktsson lét vinna þessa skýrslu á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Ákveðið var að birta skýrsluna eftir að nýtt þing kom saman enda eru ábendingar í henni um breytingar sem er á valdi alþingis að gera. Það er pólitískt umkvörtunarefni á vefsíðunni Kjarninn.is að skýrslan hafi ekki verið birt fyrir kosningarnar 29. október en breytir engu um efni málsins.
Skýrslan sem er 50 bls. að lengd ber með sér að á fyrsta áratug aldarinnar hafi risavaxin bylgja „aflandsvæðingar“ gengið yfir. Varla kemur það nokkrum á óvart miðað við þjónustuna sem íslenska bankakerfið veitti á þessum tíma til að auðvelda mönnum að flytja fé til útlanda.
Fram kemur að erfitt er að greina þetta allt og telur starfshópurinn þörf á frekari rannsóknum til þess að unnt sé að átta sig á uppruna aflandsfjárins til hlítar.
Tölurnar sem þarna eru nefndar til sögunnar eru í raun smáræði við tölurnar sem kröfuhafarnir höfðu úr landi á grundvelli leyni-einkavæðingarnar sem hér varð vorið 2009 á vegum ríkisins og beinlínis fyrir tilstuðlan þess. Kröfuhafarnir sem komu þar að málum eru taldir hafa haft allt að 2.500 milljörðum króna upp úr krafsinu. Segir Pétur Einarsson, höfundur kvikmyndarinnar Ránsfengur, í viðtali við mig á ÍNN, sem sjá má hér, að þetta verði aldrei upplýst, þetta hafi gerst „algjörlega á bak við tjöldin“, vogunarsjóðirnir sem þarna áttu hlut að máli séu „svarthol“ og bætir við (útskrift Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins):
„Til þess að eiga banka, þá þarftu að vera viðurkenndur af Fjármálaeftirlitinu. Og við gerum strax eftir hrun stærstu undanþágu sem er hægt að gera varðandi fjármálakerfið, það er það að vita ekki almennilega hverjir eiga bankana. Og það er fyrir mér líka gríðarleg mistök og ég er bara alls ekki sáttur við sem Íslendingur og sem fyrrverandi bankamaður. Vegna þess að það eru ákveðnar reglur sem eru hér og alls staðar í heiminum, varðandi eignarhald á bönkum, og við eigum auðvitað að fylgja þeim.“
Þegar vakið er máls á að komast þurfi til botns í þessu stóra máli leggja álitsgjafarnir sem telja sig hafa mátt til að knýja fram rannsóknir eða birtingu á skýrslum á flótta. Hvers vegna? Hér varð hrun er setningin sem stjórnarherrar notuðu fyrir misráðnum ákvörðunum árin 2009 til 2013. Setningin skýldi ákvörðunum sem hafa ekki enn verið skýrðar. Hvers vegna?
Föstudagur 06. 01. 17
Fréttatíminn er furðublað sem dreift er ókeypis til einhvers hluta landsmanna sem fær ekki rönd við reist. Nú er upplýst að tveir kjölfestufjárfestar blaðsins hafi selt Gunnari Smára Egilssyni ritstjóra þess sinn hlut í félaginu að baki blaðinu, Morgundegi, og Gunnar Smári sé í senn stjórnarformaður og ritstjóri. Blaðið sem dreift var í dag snýst að mestu um það hugðarefni ritstjórans að skattar verði hækkaðir á Íslandi auk þess sem hann heldur áfram fyrri iðju að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn og skilgreina hann á sérkennilegum forsendum sem hann gefur sér.
Þessi skrif Gunnars Smára eru eins og ákall úr fortíðinni. Einhverjir geta líklega fundið út hvar hann sigldi skoðanalega í strand. Víst er að hann hefur siglt mörgum fjölmiðlum í strand. Er raunar einnig rannsóknarefni hvers vegna fjármálamenn eru til þess búnir að veðja á blaðaútgáfu Gunnars Smára miðað við söguna, þær fjárfestingar eru örugglega ekki reistar á nákvæmum áreiðanleikakönnunum.
Nokkrar umræður hafa orðið um hvort hér sé hagrætt úrslitum kappleikja til að tryggja sem mestan hagnað þeirra sem veðja á slík úrslit.
Þegar um þetta er rætt minnist ég þáttar um þennan alþjóðavanda í BBC World Service. Sé rétt munað var fréttamaðurinn á ferð í Singapúr og fór þar inn á veðmálastofu þar sem menn sátu og veðjuðu á leiki.
Fréttamaðurinn spurði hvort þeir óttuðust ekki hagræðingu úrslita. Einn þeirra sagðist vissulega gera það en hann vissi þó um eitt land þar sem menn gripu ekki til slíkra ráða í gróðaskyni, það væri Ísland. Nú er þetta ef til vill breytt eins og svo margt annað.
Fimmtudagur 05. 01. 17
Nú er samtal mitt við Pétur Einarsson um mynd hans Ránsfeng sem verður sýnd í ríkissjónvarpinu á sunnudag kl. 20.00 komið á netið og má sjá það hér.
Þegar menn vita ekki alveg hvort eða hvenær þeir ná landi í viðræðum orða þeir stöðuna gjarnan svona: „Þetta hefur gengið alveg ágætlega þótt hægt hafi miðað. Við höfum alltaf verið að tomma þetta áfram.“ Nota má þessa setningu til að lýsa stöðunni í viðræðunum núna þar sem forystumenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hittast dag eftir dag til að ræða stjórnamyndun undir forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.
Megi marka fréttir hefur Bjarna tekist að sigla viðræðunum fram hjá skerjum eða þeim hefur verið rutt úr leið. Þrátt fyrir það er töluverð vinna enn óunnin og ekki hefur verið tekið til við að ræða skiptingu ráðherraembætta milli flokkanna.
Fréttablaðið er notað eins og áður til að leka óskum viðmælenda Bjarna. Blaðið gengur að því sem vísu í dag að ráðherrar verði 10, Sjálfstæðisflokkur fái fimm ráðherra, Viðreisn þrjá og Björt framtíð tvo. Í lok fréttar blaðsins segir:
„Heimildir Fréttablaðsins herma að formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, sækist af ákafa eftir fjármálaráðuneytinu. Heimildir Fréttablaðsins herma jafnframt að Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmenn flokksins, sækist líka eftir ráðherraembættum af fullum þunga. Þó sé ekki útilokað að Hanna Katrín Friðriksson hljóti eitt af þessum þremur ráðherraembættum.“
Enn á ný er augljóst að ónafngreindur heimildarmaður blaðsins stendur nærri Viðreisn og segir fréttir af því hvernig menn í forystusveit flokksins hugsa. Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var rætt við Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, og á ruv.is er sagt frá samtalinu meðal annars með þessum orðum:
„Hann [Benedikt] segir að þótt viðræðurnar séu komnar langt þá sé ekki hægt að slá neinu föstu. „Já eins og ég hef sagt oft áður, þetta er ekki alveg búið fyrr en það er búið. Á meðan við færumst í rétta átt, þá er maður bjartsýnn.“ Hann segir að skipting ráðuneyta hafi verið rædd en ekki sé búið að ljúka þeim málum.“
Það er sem sagt ekki hægt að „slá neinu föstu“. Margt bendir til þess að daglegar yfirlýsingar forystumanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar séu að verulegu leyti reistar á óskhyggju. Það ríki í raun meiri óvissa um þetta allt en við blasir í fréttum. Í sjálfu sér þarf enginn að undrast það, líf stjórnar af þessu tagi hangir aðeins á afstöðu eins þingmanns einhvers þingflokkanna þriggja.
Miðvikudagur 04. 01. 17
Í dag ræddi ég við Pétur Einarsson kvikmyndagerðarmann í þætti mínum á ÍNN í tilefni af því að sunnudaginn 8. janúar sýnir sjónvarpið mynd hans Ránsfeng um aðdraganda hrunsins árið 2008 en þó sérstaklega eftirleik þess. Pétur hefur reynslu sem bankamaður og starfsmaður í fjármálaheiminum og nálgast því viðfangsefnið af þekkingu og innsýn í þann heim sem hann lýsir. Samtal okkar verður frumsýnt kl. 20.00 í kvöld.
Uppgjörið við hrunið sjálft hefur verið unnið af kostgæfni af rannsóknarnefndum, saksóknurum og dómurum auk þess sem tekist hefur verið á um það á pólitískum vettvangi. Eftirleikurinn hefur ekki verið skoðaður á sama hátt en í myndinni bregður Pétur ljósi á hlut vogunarsjóðanna og eignarhald þeirra á bönkunum.
Í samtali okkar nefnir hann leyndina sem hvíldi yfir einkavæðingu bankanna til kröfuhafanna í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Við þá framkvæmd hefði verið brotin meginregla um gegnsætt eignarhald á bönkum, með einni stjórnvaldsákvörðun hefði verið gengið gegn öllu sem hefði átt að vera meginlærdómur af hruninu: að fyrir liggi opnar upplýsingar um eigendur banka.
Rannsóknir sem Víglundur Þorsteinsson lögfræðingur og Vigdís Hauksdóttir alþingismaður hafa unnið undanfarin misseri hafa einmitt lotið að því hvað gerðist í raun við einkavæðingu Steingríms J. Sigfússonar á bönkunum vorið 2009.
Á þingi og í fjölmiðlum hefur verið takmarkaður áhugi á að segja fréttir af þessu leynimakki öllu og raunar sat Vigdís eins og hálfgerður sakamaður fyrir svörum í Kastljósi þegar hún birti skýrslu sína. Álitsgjöfum (með stuðningi banka eða fjármálastofnana?) tókst að snúa umræðum um niðurstöður Vigdísar í persónulegar árásir á hana. Ákvað hún að bjóða sig ekki að nýju fram til alþingis.
Pétur Einarsson er eindregið þeirrar skoðunar að skilja eigi á milli viðskiptabankaþjónustu og fjárfestingastarfsemi banka. Ágóða banka og ofurlaun starfsmanna þeirra megi rekja til fjárfestinganna innan fjármálaheimsins án þess að aðrir hafi hag af því en þeir sem lifa og hrærast í honum. Hann telur nú einstakt tækifæri til að koma á slíkum aðskilnaði hér á landi þar sem ríkið eigi tvo stóra banka og hafi mjög mikil ítök innan þess þriðja.
Umræður um lærdóma af hruninu eru of litlar. Margt í íslenska fjármálaheiminum stefnir í sama horf og fyrir október 2008. Myndin Ránsfengur ætti vekja til umhugsunar um nauðsynlegar umbætur.
Þriðjudagur 03. 01. 17
Hér var því haldið fram í gær að gervifrétt hefði birst á forsíðu Fréttablaðsins þann dag um stjórnarmyndunarviðræður fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar/Bjartrar framtíðar. Það leið ekki á löngu þar til réttmæti þessara orða voru staðfest með yfirlýsingu Bjarna Benediktssonar um að í fréttinni væri ranglega lýst niðurstöðum varðandi ESB-mál. Taldi ég þar með staðfest að um uppsuna hafi verið að ræða í Fréttablaðinu og sagði það á Facebook.
Margir létu orð falla af því tilefni og í gærkvöldi bættist Karl Pétur Jónsson, upplýsingafulltrúi Viðreisnar, í þann hóp og sagði:
„Hvernig getið þið Björn [og Gunnlaugur Snær Ólafsson, formaður utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins] verið svona vissir um að þessar upplýsingar komi frá Viðreisn eða BF? Mér finnst það býsna rösklega ályktað. Og hvers vegna ættu þessir tveir flokkar að segja fjölmiðlum ósatt um það sem fram fer milli þeirra í trúnaði við formann Sjálfstæðisflokksins?“
Björn Bjarnason:
Hafi Fréttablaðið ekki haft heimildarmann úr innsta kjarna Viðreisnar frekar en Bjartrar framtíðar fyrir forsíðufrétt sinni er blaðið verri heimild um stjórnmál en jafnvel ég ímyndaði mér. Karl Pétur Jónsson veit ef til vill meira um kröfur 365 til forsíðufrétta en ég.
Karl Pétur Jónsson
Þetta er ekki frá okkur komið. Þekki lítið til þess hvernig forsíðufréttir eru valdar á fréttastofu 365 eða hvaða kröfur þar eru gerðar til heimildamanna. Hitt er svo annað mál að þetta er ekki fyrsti rakalausi spuninn sem ég sé í fjölmiðlum um eftirmála kosninganna. Sá spuni hefur hinsvegar aldrei mér vitanlega stafað frá forystu flokkanna sjö, yfirleitt úr baklöndum þeirra.
Björn Bjarnason
Allir fjölmiðlar hafa stjórnast af þessari lygafrétt í dag og það er þó ekki fyrr en núna um kl. 22.00 sem upplýsingafulltrúi Viðreisnar kippir endanlega löppunun undan henni eftir gagnrýni mína. Hvers vegna hefur málið verið látið malla í allan dag?
Karl Pétur Jónsson
Góður punktur, Björn. Benedikt hefur reyndar borið þetta til baka í viðtölum, en hugsanlega hefði hann mátt vera afdráttarlausari.
Mánudagur 02. 01. 17
Greinilegt er af lestri Fréttablaðsins i dag að stuðningsmenn pólitíska tvíhöfðans, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, hafa lekið í blaðið efni sem þeir telja hagstætt fyrir sig í viðræðunum sem hefjast formlega í dag undir forystu Bjarna Benediktssonar eftir að forseti Íslands fól honum öðru sinni föstudaginn 30. desember að reyna stjórnarmyndun.
Forsíðufyrirsögn blaðsins er: Þjóðaratkvæði um ESB í stjórnarsáttmálanum. Inni í blaðinu, við hlið leiðarans, er það sem hér hefur verið kallað húskarlahorn Fréttablaðsins. Þetta er smálegur fróðleikur sem fellur að skoðun eigenda og ráðamanna blaðsins. Þar segir í dag:
„Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur náðst sátt í stjórnarmyndunarviðræðum um að kosið verði um viðræður við ESB, kvóti fari á markað, MS verði sett undir samkeppnislög og tollar á hvítt kjöt lækkaðir í skrefum á kjörtímabilinu. Verður að telja þetta nokkur pólitísk tíðindi og verður landsbyggðararmur Sjálfstæðisflokksins líkast til ekki hoppandi glaður yfir þeim stjórnarsáttmála. Sérstaklega ekki ákvæðinu um ESB-þjóðaratkvæðagreiðslu. Rétt er þó að minna á að fyrir kosningar 2013 lofaði Bjarni Benediktsson þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við ESB.
Svo virðist sem Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé hafi, með samstilltu átaki sínu um að vinna náið saman eftir kosningar, náð öllum sínum stóru málum áfram í samningaviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn.“
Þessi klausa sannar að tilgangur lekans til Fréttablaðsins er að hampa tvíhöfða stjórnmálanna á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Á mbl.is í dag lætur síðan Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, eins og þetta komi honum allt á óvart!
Þetta lofar ekki góðu um andrúmsloft í samstarfi flokka með aðeins eins atkvæðis meirihluta á alþingi. Minna æfingarnar dálítið á það sem gerðist fyrir kosningar 1995 og varð til þess að Davíð Oddsson treysti sér ekki til að vinna áfram með Alþýðuflokknum (með eins atkvæðis meirihluta) og hóf farsælt samstarf við Framsóknarflokkinn sem stóð til 2007. Morgunblaðið birtir í dag forsíðufrétt um að Framsóknarflokkurinn og vinstri grænir leggi á ráðin um samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.
Að jafnmikil áhersla skuli lögð á ESB-mál í frétt Fréttablaðsins og raun sýnir er ekki til marks um neitt annað en þráhyggju Viðreisnar. Bjarni Benediktsson hefur sagt að alþingi verði að taka ákvörðun um að sækja að nýju um ESB-aðild og verði það gert skuli sú ákvörðun borin undir þjóðina. Fréttablaðs-fréttin segir ekkert um þetta. Hún er með öðrum orðum hálf-sannleikur, fluttur í áróðursskyni og spillir aðeins fyrir þeim sem að baki stendur.
Sunnudagur 01. 01. 17
Gleðilegt ár!
Eftir Johann Wolfgang von Goethe (1749-1832) er haft: „Haldið alltaf fast í núlíðandi stund. Hvert atvik, raunar hvert augnablik hefur óendanlegt gildi því að það er fulltrúi allrar eilífðar.“
Við áramót er gott að hafa þetta hugfast. Árin hverfa, ekkert þeirra kemur til baka frekar en sekúndan sem leið rétt í þessu. Ekkert er dýrmætara en tíminn, hann verður ekki endurheimtur.
Marcus Aurelius keisari í Róm 161 til 180 e.kr. sagði: „Þú skalt vinna hvert verk eins og það sé síðasta verk lífs þíns.“
Minnumst þessa við upphaf nýs árs.