10.1.2017 10:30

Þriðjudagur 10. 01. 17

Flokksstofnanir sjálfstæðismanna, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar samþykktu sáttmála nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á fundum sínum í gærkvöldi. Fram á síðustu stundu reyndu vinstrisinnar að spilla fyrir stjórnarmynduninni með vísan til þess að Bjarni hefði ekki birt fyrir kosningar skýrslu um aflandseignir.

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, sagði við ríkisútvarpið að skýrslumálið hefði valdið þingflokknum miklu hugarangri og miklum áhyggjum. Flokkurinn hefði rætt við Bjarna á símafundi. „Ég mat þær skýringar sem hann gaf á þeim fundi að honum væri treystandi til að leiða næstu ríkisstjórn,“ sagði Pawel. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hallmælti Bjarna á lokaðri FB-síðu Viðreisnar og sakaði hann um „klaufaskap og lélega dómgreind“ frekar en „ásetning“ varðandi birtingu skýrslunnar.

Í Morgunblaðinu segir að innan Bjartrar framtíðar (BF) hefði stjórnarsáttmálinn verið samþykktur í rafrænni atkvæðagreiðslu með 51 atkvæði en 18 voru á móti.  Í gær var greinilegt að stjórnarandstaðan batt helst vonir við að hræða mætti Óttar Proppé, formann BF, frá þátttöku í stjórninni.

Bjarni Benediktsson hefur sýnt þrautseigju í erfiðri pólitískri stöðu við myndun ríkisstjórnarinnar. Ætla má að hann hafi viljað styðjast við rýmri meirihluta en eitt atkvæði á þingi og þess vegna kosið að hafa Framsóknarflokkinn með í stjórninni ásamt Viðreisn og BF. Þau áform strönduðu á eindreginni andstöðu þessara flokka við Framsóknarflokkinn.

Eitt er að smáflokkar leggist gegn samstarfi við tvo stærri flokka. Hitt er einkennilegra að klofningur innan Vinstri grænna (VG) komi í veg fyrir að sá flokkur reynist liðtækur í stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Sitja þingmenn VG eftir með sárt enni og spurning er hve lengi tekst að breiða yfir djúpstæðan ágreining innan flokksins.

Nú eru rétt átta ár liðin frá því að ráðamenn innan Samfylkingarinnar brugguðu launráð gegn Sjálfstæðismönnum, samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn. Meginstef launráðsmanna var að hrekja Sjálfstæðismenn úr ríkisstjórn, reka þá út í horn vegna þess að hér varð hrun og leiða Ísland inn í Evrópusambandið samhliða því sem Sjálfstæðisflokkurinn yrði eilíft í skammarkróknum.  Samfylkingin er horfin og Íslendingar fjær því að ganga inn í ESB en nokkru sinni.

Bjarni Benediktsson hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í þessi átta ár. Hann hefur unnið pólitískt þrekvirki.