Dagbók: janúar 2009

Laugardagur, 31. 01. 09. - 31.1.2009 22:08

Framsóknarflokkurinn gaf grænt ljós á rauðgræna minnihlutastjórn rúmlega 18.00 í dag - hann segist ætla að verja hana vantrausti en ekki lofa framgangi einstakra lagafrumvarpa. Ég fjalla um stjórnarslit og stjórnarmyndun í pistli á vefsíðu minni í dag.

Bjarni Benediktsson lýsti yfir framboði til formennsku í Sjálfstæðisflokknum í samtali við sjónvarpið í kvöld. Skrýtið er að sjá Egil Helgason segja á vefsíðu sinni, að Bjarni vilji Ísland í Evrópusambandið. Þetta stenst ekki. Bjarni hefur hins vegar oft vakið máls á því, að finna þurfi niðurstöðu í Evrópumálum, þar sem tekið sé af skarið á þann veg, að þau þvælist ekki fyrir úrlausn annarra brýnni mála. Það er verkefni væntanlegs landsfundar að leiða málið til lykta innan Sjálfstæðisflokksins.

Fyrir Evrópufíkla eins og Egil nægir að heyra orðið aðildarviðræður til að þeir haldi, að aðild sé á dagskrá. Þetta sannaðist best við túlkunina á samþykkt flokksþings framsóknarmanna. Kiolbrún Bergþórsdóttir ræðir við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, í Morgunblaðinu í dag og spyr, hvort hann sé hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann svarar:

»Evrópusambandið hefur verið notað sem afsökun fyrir aðgerðaleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gagnvart stöðu fyrirtækjanna og heimilanna í landinu. Viss hluti ríkisstjórnarinnar hefur sagt að allt yrði gott ef við gengjum í Evrópusambandið. En heimilin og fyrirtækin geta ekki beðið eftir framtíðarinngöngu í Evrópusambandið. Það þýðir ekkert að ætla að ganga til samninga við Evrópusambandið þegar 70 prósent fyrirtækja í landinu eru rjúkandi rúst og heimilin geta ekki lengur borgað af skuldum sínum. Jafnvel þeir sem vilja ganga sem allra fyrst inn í Evrópusambandið hljóta að vera sammála um að við verðum að byrja á því að taka til hér heima áður en við getum gengið til viðræðna við Evrópusambandið. Svo verður að sjá hvað út úr því kemur.«

Sigmundur Davíð telur annað brýnna núna en deilur um Evrópusambandið. Egill Helgason nefndi ESB-málið „red herring“ eða óþarfa truflun í samtali við mig í Silfri Egils á dögunum. Stundum dettur manni í hug orðið þráhyggja, þegar leitast er við að skýra allt á þann veg, að hljóti að kalla á aðild að Evrópusambandinu eða allt og alla beri að vega og meta með ESB sem kvarða.

ps. Egill bregst við þessari færslu minni hér.

Föstudagur, 30. 01. 09. - 30.1.2009 10:35

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifar leiðara um hvalveiðar í blað sitt í dag, en Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi blaðsins, hefur lýst eindreginni andstöðu við hvalveiðar, eins og sjá má hér.

Í leiðara sínum segir Þorsteinn meðal annars:

„Athyglisvert er að í hópi mjög ákveðinna stuðningsmanna endurnýjaðra og aukinna hvalveiðiheimilda nú eru menn sem áður fyrr voru þeim andsnúnir. Einn þeirra er fráfarandi dómsmálaráðherra. Leiða má að því líkum að Evrópumálin hafi þar nokkur áhrif. Hvalveiðarnar munu án vafa valda talsverðum erfiðleikum á síðari stigum í hugsanlegum aðildarviðræðum. Auðvelt er að gera andstöðu Evrópusambandsins við þennan fullveldisrétt tortryggilega.“

Hér fer Þorsteinn með rangt mál. Þegar hann var sjávarútvegsráðherra og beitti sér fyrir úrsögn Íslands úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, snerist ég eindregið gegn því. Ég taldi, að Íslendingar gætu ekki hafið hvalveiðar nema þeir væru í ráðinu. Sú skoðun reyndist rétt - Íslendingar gengu aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið, áður en ákveðið var að hefja hvalveiðar. Að lýsa þessari skoðun minni sem andstöðu við hvalveiðar er alrangt og enn fjær öllu lagi er láta að því liggja, að skoðanir mínar á þessu máli ráðist af andúð minni á því, að Íslendingar gerist aðilar að Evrópusambandinu.

Síðdegis var efnt til mjög fjölmenns fundar sjálfstæðismanna á Grand hotel, þar sátum við ráðherrar flokksins fyrir svörum. Hér er frétt af því, sem ég sagði og einnig hér.

Fimmtudagur, 29. 01. 09. - 29.1.2009 10:06

Guðfinnur Sigurvinsson tók við mig viðtal fyrir Kastljós en jafnframt kom fram, að það yrði varðveitt í heild heimildasafni RÚV um ríkisstjórnir og stjórnmál.

Í fréttum sjónvarps var þetta hafst eftir mér úr samtali okkar Guðfinns:

„Ég hef líka sagt að Fjármálaeftirlitið hér finnst mér starfa fyrir of luktum dyrum. Það er ekki vansalaust að menn hafi það á tilfinningunni að það sé miklu meira á bakvið eitthvað heldur en af er látið og varla getur hvílt ennþá bankaleynd á einhverjum atburðum sem gerðust og leiddu til þess að íslenska þjóðin er í þeirri stöðu sem  hún er í núna. Og hver eru varnaðaráhrifin af því að að menn geti í samtölum við Fjármálaeftirlitið og niðurstöðum þar borgað einhverjar sektir án þess að það spyrjist nokkurn tímann út að það hafi einu sinni þótt tilefni til að sekta þá?“

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 15.00.

Síðdegis buðum við Rut samstarfsfólki í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu heim til okkar í kveðjuskyni.

Miðvikudagur, 28. 01. 09. - 28.1.2009 10:02

Skrifaði grein á smugan.is til að svara Atla Gíslasyni, þingmanni vinstri grænna, vegna skrifa hans um lögregluna.

Þriðjudagur, 27. 01. 09. - 27.1.2009 21:19

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, hefur verið háværasti hvatamaður þess af kunnum sjálfstæðismönnum, að nú ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Hann viðurkennir í leiðara í blaðinu í dag, að hafa orðið undir í umræðunum. Hann ræðir um stjórnarslitin og segir:

Mesta athygli vekur að krafa Samfylkingarinnar um aðild að Evrópusambandinu er ekki röksemd fyrir stjórnarslitunum. Ástæðan er sú að þeir sem keyrðu þau fram innan flokksins eru tilbúnir að skjóta stærsta máli flokksins, og hans einu sérstöðu, á frest til þess að ná samstarfi til vinstri.

Þessi upplausn þýðir væntanlega að aðildarumsókn kemst ekki með afgerandi hætti á pólitíska dagskrá eins og sakir standa?. Stuðningur meðal þjóðarinnar við aðild hefur einnig dalað mjög afgerandi.“

Ritstjórar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins ákváðu að beita blöðum sínum í þágu aðildarsinna og elta Samfylkinguna í Evrópumálum, þegar hún hótaði Sjálfstæðisflokknum. Afleiðingin er sú, sem Þorsteinn Pálsson lýsir, stuðningur meðal þjóðarinnar við þennan málstað hefur „dalað mjög afgerandi.“

Skýringin er einföld: Það var engin innistæða fyrir þeirri fullyrðingu, að unnt yrði að leysa efnahagsvanda Íslendinga með því að senda þá sem beiningamenn inn í Evrópusambandið og knýja þá til að láta af stjórn auðlinda sinna. Í ljósi þessa er jafnnauðsynlegt að vara allan almenning og ritstjóra blaðanna við að trúa öðrum fullyrðingum forystu Samfylkingarinnar um að hún þekki leið þjóðarinnar út úr vandanum.

Viðvaranir af þessu tagi eru þeim mun brýnni vegna þess hvernig þeir, sem hafa verið gagnrýnastir á hið pólitíska vald, eru mun mildari í orðum nú en áður. Reynslan hefur kennt, að það er til dæmis ekki aðferðin, sem beitt er við að velja fólk í embætti, sem ræður, hvort niðurstaðan sætir gagnrýni, heldur hver velur hvern. Nú kemur í ljós, að gagnrýni á hið pólitíska vald og stjórnkerfið beinist ekki að því heldur þeim, sem trúað er fyrir því að fara með það. Allt tal um „nýtt lýðveldi“ mun snarþagna innan tíðar eins og sleifarnar á pottlokunum, eftir að vinstri græn gengu inn til Bessastaðabóndans.

Mánudagur, 26. 01. 09. - 26.1.2009 8:30

Sögulegur dagur er að kvöldi kominn. Klukkan 10.00 kom þingflokkur sjálfstæðismanna saman í þinghúsinu. Geir H. Haarde gerði okkur grein fyrir viðræðum við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sunnudaginn 25. janúar, þar sem endapunkturinn hefði orðið sá, að Samfylkingin vildi fá „verkstjórn“ í ríkisstjórn, það er forsætisráðherraembættið.

Þetta var lokaskilyrði Samfylkingar fyrir framhaldi á stjórnarsamvinnu við Sjálfstæðisflokkinn og gekk Geir svo langt gagnvart ósk Ingibjargar, að hann lagði til, að þau vikju bæði úr stjórninni og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir yrði starfandi forsætisráðherra. Þetta vildi Ingibjörg Sólrún ekki samþykkja.

Þingflokkur sjálfstæðismanna var þeirrar skoðunar, að héldi Samfylking fast í kröfuna um nýjan „verkstjóra“ yrði hún að sitja uppi með þá kröfu án samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Jafnframt var samþykkt umboð til Geirs um að ganga til samstarfs um þjóðstjórn.

Við lukum fundi okkar í þann mund, sem Ingibjörg Sólrún kom út af þingflokksfundi Samfylkingarinnar, sem haldinn var í flokksherbergi þeirra, en Ingibjörg Sólrún komst ekki til fundar við Geir til að skýra honum frá niðurstöðum í sínum flokki, án þess að ganga fram hjá fréttamönnum á anddyri skálans.

Fréttamenn beindu hljóðnemum að Ingibjörgu Sólrúnu og fylgdist þingflokkur okkar með samtalinu í beinni útsendingu. Það hófst á því, að Ingibjörg Sólrún sagðist ekki vilja segja neitt, enda ætlaði hún fyrst að segja Geir frá niðurstöðunni - síðan hélt samtalið áfram stig af stigi og hún sagði frá öllu sem máli skipti í fjölmiðlum, áður en hún hitti Geir. Við í þingflokknum vissum þá, að fundur þeirra yrði stuttur, því að Ingibjörg endurtók kröfuna um að Samfylkingin fengi verkstjórann, án þess þó að geta hver hann yrði.

Við biðum í þingflokksherberginu, þar til Geir kom af fundinum með Ingibjörgu og sagði okkur, að hann hefði slitið samstarfinu vegna kröfunnar um, að hann viki. Síðan hlustuðum við á Geir ræða við fréttamenn, þar sem hann sagði meðal annars, að ekki væri unnt að eiga samstarf við Samfylkinguna, enda væri hún „flokkur í tætlum“. Eftir það fórum við og fengum okkur fiskibollur í mötuneyti þingsins.

Lesa meira

Sunnudagur, 25. 01. 09. - 25.1.2009 21:32

Föstudaginn 23. janúar tilkynnti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að efnt yrði til kosninga 9. maí. Þar með urðu þáttaskil í stjórnarsamstarfinu, því að það stendur ekki lengur en þetta þing situr.

Laugardaginn 24. janúar snýr Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, heim af sjúkrabeði í Stokkhólmi eftir erfiða höfuðaðgerð vegna heilaæxlis.

Að morgni 25. janúar tilkynnir Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, að hann segi af sér ráðherraembætti og hann hafi rekið forstjóra fjármálaeftirlitsins og alla stjórn þess.

Um hádegi 25. janúar er bein útsending frá því, þegar Ingibjörg Sólrún og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, ganga saman frá heimili forsætisráðherra, þar sem þau sátu fund með honum og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra.

Klukkan 17.00 25. janúar er sagt frá því, að Ingibjörg Sólrún hafi að nýju farið heim til forsætisráðherra. Í kvöldfréttum er rætt við þau Ingibjörgu Sólrúnu og Geir um stjórnarsamstarfið, sem sagt er í óvissu en niðurstaða fáist 26. janúar.

Í fréttum er sagt frá því, að Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, hafi sett fram kröfur á hendur Sjálfstæðisflokknum á vefsíðu Samfylkingarinnar. Af spurningum og frásögnum fréttamanna má ráða, að þeir líti á samtölin á heimili forsætisráðherra eins og um stjórnarmyndun sé að ræða. Hvort fallist verði á þetta skilyrðið eða hitt til að stjórnin sitji áfram.

Nýlunda er, að lagt sé á ráðin um nýja stjórn eða ný pólitísk markmið, hafi kosningar verið ákveðnar, vegna þess að menn koma sér ekki saman um að starfa út kjörtímabilið.

Ég hallast að því, að í dag höfum við orðið vitni að upphafi á kosningabaráttunni og nú sé það í höndum flokkanna að huga að eigin stefnu til framtíðar en ekki semja um, hvað stjórnin eigi að gera í öðru en brýnum afgreiðslumálum fram að kosningum - þau skortir ekki og þau verða ekki leyst með úrslitakostum, sem settir eru til að skapa sér pólitíska stöðu.

Björgvin G. Sigurðsson telur sér henta að sækjast eftir endurkjöri utan ríkisstjórnar. Hvað um Samfylkinguna í heild? Spurningin er þessi en ekki, hvaða skilyrði Samfylkingin setur Sjálfstæðisflokknum. Talið um skilyrðin þjónar þeim eina tilgangi að breiða yfir ágreining innan Samfylkingarinnar og það veit framkvæmdastjóri hennar og einnig hitt, að fjölmiðlamenn blekkjast oft af villuljósum.

Laugardagur, 24. 01. 09. - 24.1.2009 21:08

Nú er meira en áður rætt, að vinstri/græn setjist í ríkisstjórn, ef ekki næstu daga þá örugglega eftir kosningar í maí. Á sínum tíma mynduðum við Einar Kristinn Guðfinnsson samstöðu með þeim Ragnari Arnalds og Katrínu Jakobsdóttur, fulltrúum vinstri/grænna, í Evrópunefnd og skiluðum við fjögur sameiginlegu áliti gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég get því vel tekið afstöðu með vinstri/grænum, ef svo ber undir. Á hinn bóginn er einnig margt, sem á milli skilur.

Síðustu daga hefur ágreiningur minn við vinstri/græn skerpst vegna tveggja mála. Í fyrsta lagi vegna þess hve þingmenn þeirra hafa sýnt mikinn tvískinnung í afstöðu sinni til lögreglunnar og varðstöðu hennar við alþingishúsið. Þingmennirnir Álfheiður Ingadóttir og Atli Gíslason hafa beinlínis veist að lögreglunni vegna aðgerða hennar. Álfheiður varð sér hreinlega til skammar með framgöngu sinni í þinghúsinu þriðjudaginn 20. janúar til stuðnings þeim, sem réðust að húsinu, og óvild í garð lögreglu. Að þeim degi loknum lét Atli eins og þinghúsinu hefði verið breytt í lögreglustöð og fangelsi og gaf til kynna, að hann ætlaði lengra með það mál en í fjölmiðla.

Ögmundur Jónasson, þingmaður v/g, er formaður BSRB stéttarfélags lögreglumanna. Meðal lögrelumanna hefur oft verið rætt, hvort landssamband þeirra eigi heima í BSRB og hafa þær umræður nú sprottið upp að nýju.

Í þingumræðum fimmtudaginn 22. janúar vildi Steingrímur J. Sigfússon bera í bætifláka fyrir flokkssystkini sín í v/g og sagði: „Ég held að það sé óhjákvæmilegt að héðan úr þessu húsi sendum við þá áskorun til allra að gæta stillingar og halda sig við friðsamlegar og lögmætar aðgerðir og hvetja bæði mótmælendur og lögreglu til þess að reyna að halda ró sinni.... “

Í ljósi skrílslátanna, sem urðu aðfararnótt þessa fimmtudags er sérkennilegt, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, að Steingrímur J. dragi mótmælendur og lögreglu í sama dilk og hvetji báða til að sýna ró. Lögreglan hefur svo sannarlega sýnt mikið langlundargeð og með öllu ósæmilegt að líkja framgöngu hennar við lætin í mótmælendum á þann hátt, sem Steingrímur J. gerir.

Eiður Guðnason, fyrrv. sendiherra og ráðherra, ræðir um heiðurslaunalistamanninn Þráin Bertelsson á vefsíðu sinni. Eiður gerði athugasemd á vefsíðu Þráins, en hún var afmáð. Þráinn telur sig til þeirra, sem hæst hrópa á mannréttindi, þótt hann setji hömlur á ritfrelsi. Þráinn vill ekki, að upplýst sé, að framsóknarmenn tróðu honum á heiðurslaunalistann.  

Föstudagur, 23. 01. 09. - 23.1.2009 10:00

Miðstjórn og þingflokkur sjálfstæðismanna komu saman á fundi í hádegi til að ræða landsfundinn, sem boðaður hafði verið 29. janúar. Í upphafi fundar gerði Geir H. Haarde grein fyrir því, að staðan í stjórnmálum væri á þann veg, að hann teldi öll rök hníga að því að boða til kosninga annan laugardag í maí, hinn venjulega kjördag hin síðari ár, að þessu sinni 9. maí. Í ljósi þessa væri skynsamlegt að fresta landsfundi flokksins til síðustu helgarinnar í mars. Fyrir utan þessi stjórnmálarök væri annað persónulegra, sem mælti með frestun landsfundarins, það er að hann hefði þriðjudaginn 20. janúar greinst með krabbamein í vélinda og yrði að ganga undir aðgerð erlendis um aðra helgi, það er fyrirhugaða landsfundarhelgi. Þetta hefði komið í ljós við reglulega skoðun lækna.

Víst var, að ýmsir fundarmenn höfðu ætlað að koma í veg fyrir frestun landsfundar, en þess var getið í Morgunblaðinu í morgun, að það væri til athugunar. Við ræðu Geirs og óvænta og dapurlega tilkynningu hans varð öllum ljóst, að ákvörðun um frestun landsfundar yrði ekki hnikað. Geir skrapp af fundinum í svonefnda bókastofu Valhallar og gaf þar yfirlýsingu á blaðamannafundi.

Fyrir utan Valhöll höfðu mótmælendur barið pottlok undir forystu Hallgríms Helgasonar rithöfundar en Ragnheiður Ríkharðsdóttir, alþingismaður, vék sér út af fundi og benti Hallgrími á, hvað Geir hefði sagt og hætti þá gauraganguinn utan dyra.

Kjartan Gunnarsson, æskuvinur Geirs, tók til máls og lýsti fyrir hönd allra á fundinum þeim tilfinningum, sem brutust fram við ræðu forsætisráðherra. Fundarmenn óskuðu Geir og fjölskyldu hans alls góðs en líklegt er, að á þessari stundu hafi menn ekki áttað sig til fulls á því, hve mikil tíðindi voru þarna að gerast og hver áhrif þeirra yrðu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, kom til landsins í dag frá Stokkhólmi, þar sem hún gekkst undir aðgerð og rannsókn vegna heilaæxlis. Við heimkomuna skýrði hún frá því, að rannsóknir hefðu staðfest, að æxlið væri góðkynja.

Formenn beggja stjórnarflokkanna glíma við veikindi, þegar um 100 dagar eru til kosninga. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, tók að múðra yfir því, að kjördagu yrði 9. maí, hann ætti að verða fyrir páska. Kannski var hann að gera þetta, svo að mótmælendur gætu haldið áfram að kalla á kjördag, þótt hann hefði verið ákveðinn í vor.

Lesa meira

Fimmtudagur, 22. 01. 09. - 22.1.2009 19:09

Atburðum næturinnar, þegar lögregla varð að beita táragasi til að verja alþingishúsið, verður lengi minnst vegna styrks og skipulegrar framgöngu lögreglu og harkalegra tilrauna til að brjóta hana á bak aftur. Sömu nótt þurfti lögregla einnig að verja stjórnarráðshúsið.

Bæði á Austurvelli og við Lækjartorg var grjóti og götusteinum kastað í lögreglu, saur og hlandi í plastpokum, sem endurspeglar innræti þeirra, sem töldu þetta hæfa skoðunum sínum á framvindu þjóðmála, en undir þeim formerkjum var til mótmæla stofnað, sem þróuðust á þennan sorglega hátt.

Í kvöldfréttum ljósvakamiðlanna var rætt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingar og utanríkisráðherra, af sjúkrabeði hennar í Stokkhólmi, en hún taldi, að þau Geir H. Haarde væru sammála um, að boðað yrði til kosninga í vor. Hver framvinda stjórnmála verður næstu daga er meira spennandi en fréttir af mótmælum á Austurvelli - en þar fjölgar fólki alltaf eftir beinar útsendingar sjónvarpsstöðvanna í kvöldfréttum. Engu er líkara en fréttamenn séu að réttlæta þessar útsendingar með því að láta í veðri vaka, að fólki fjölgi alltaf, þegar þeir birtast á skjánum.

Í dag hefði verið réttmætt, að fréttamenn vektu rækilega athygli á hinni hörmulegu framgöngu of margra gegn lögreglunni. Sjö lögreglumenn voru fluttir slasaðir af vettvangi í nótt, einn með höfuðáverka. Í dag var skýrt frá því, að óprúttnir andstæðingar lögreglunnar settu nöfn og heimilisföng einstakra lögreglumanna inn á vefsíður með ábendingum um fjölskylduhagi - er þetta greinilega gert til að hóta lögreglumönnum fyrir að sinna skyldustörfum sínum. Þetta framferði er í hróplegri andstöðu við hina grímuklæddu mótmælendur.

Landssamband lögreglumanna hefur réttilega brugðist gegn þessum árásum á lögreglu, eins og sjá má á þessari tilkynningu.

Skýrt var frá því, að hjónunum Elínu Sveinsdóttur, útsendingarstjóra, og Sigmundi Erni Rúnarssyni, yfirmanni fréttasviðs Stöðvar 2, hefði verið sagt upp í dag. Sigmundur Ernir sagðist fagna því eða vera frjáls undan oki auðjöfra. Var einhver að tala um Baugsmiðla?

Klukkan 20.00 var ég á fundi um Evrópumál hjá sjálfstæðismönnum í Mosfellsbæ. Ágúst Hjörtur Ingþórsson var frummælandi ásamt mér. Fjöldi fyrirspurna barst enda fundarmenn fjölmargir.

Miðvikudagur, 21. 01. 09. - 21.1.2009 9:00

Í fréttum hljóðvarp ríkisins klukkan 08.00 birtist þessi frétt (feitletrun mín):

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að lögreglan verði efld bæði með tækjum og mannafla ef mótmæli gegn valdstjórninni harðna. Dómsmálaráðherra segist skilja vel að fólk vilji mæta á Austurvöll, mótmæla og láta í ljós skoðun sína á einstökum málum eins og því hvort ríkisstjórn eigi að fara eða vera.

Hann gerir athugasemdir við samskipti Álfheiðar Ingadóttir, þingmanns Vinstri grænna, við mótmælendur í gær. Hann hafi ekki séð þau en fólk sem hafi séð til hennar hafi orðið undrandi. Menn hafi talið að hún væri að gefa mótmælendum bendingar sem þeir töldu óeðlilegar. Þá hafi viðbrögð hennar við lögreglumönnum á svæðinu vakið undrun fólks.“

Þessi frétt er birt með vísan til samtals, sem Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttamaður RÚV, tók við mig um kl. 19.00 þriðjudaginn 20. janúar í þinghúsinu. Útskrift af viðtalinu eins og það var birt á Morgunvakt rásar 1 nú í morgun birti ég hér.

Heiðar Örn spyr mig: „Heldur þú að það þurfi að efla lögregluna til þess að takast á við þetta eða einhverja aðra?“ Og ég svara: „Ja, ég tel nú að það þurfi að sjálfsögðu að huga að því ef mótmæli verða harðari og mótmælendur einbeittari núna í því að brjóta á bak aftur valdstjórnina þá þurfi að búa hana þannig að hún geti tekist á við þau viðfangsefni bæði með tækjum og mannafla.“

Ég legg það í dóm lesenda, hvort ekki sé annar blær á orðum mínum í samtalinu en útleggingu fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Blæbrigðamunurinn olli því vafalaust, að hinir ofurnæmu stjórnendur Víðsjár  á rás 1 urðu skelkaðir og sögðu mig hneykslaðir við sama heygarðshornið, alltaf að ögra fólki. Í raun lá beint við að svara spurningu Heiðars Arnar á þann veg, að styrkja yrði lögreglu, ef í frekara óefni stefndi - það hefði verið fréttnæmt, ef ég hefði svarað á annan veg.

Þingfundir voru felldir niður í dag, svo að unnt yrði að gera við skemmdir á þinghúsinu og þrífa það. Mótmæli voru áfram við mannlaust húsið og einnig við stjórnarráðshúsið, þar sem ráðist var að bíl Geirs H. Haarde, þegar hann hélt úr húsinu.

Þingflokkur sjálfstæðismanna hittist og ræddi ítarlega um stöðuna í stjórmálum. Lesa meira

Þriðjudagur, 20. 01. 09. - 20.1.2009 21:43

Fyrir hádegi birti dóms- og kirkjumálaráðuneytið tilkynningu um neikvæð viðbrögð mín við þeirri ákvörðun sýslumannsins á Selfossi að láta lögreglu handtaka 370 manns í Árnerssýslu, sem ekki hefðu sinnt boði um fjárnám.

Klukkan 13.00 hófust mótmæli við alþingishúsið, sem hvatt hafði verið til af Röddum fólksins, það er Herði Torfasyni og samstarfsmönnum hans. Þeir hafa staðið fyrir friðsömum laugardags-mótmælum á Austurvelli. Var fólk hvatt til þess að koma með koppa og kirnur til að lemja í því skyni að vekja athygli okkar alþingismanna, en þing hófst í dag að nýju eftir jólahlé. Ögmundur Jónasson flutti dæmalausa ræðu í upphafi fundar til að ganga í augun á mótmælendum fyrir utan húsið.

Þingfundur stóð með stuttu hléi fram á fimmta tímann. Þá settust margir þingmenn í skálann við þinghúsið og annars staðar og fylgdust með því, þegar Barack Obama sór embættiseið, sem 44. forseti Bandaríkjanna. Mér þótti ræðan, sem Obama flutti í Chicago eftir sigur sinn í forsetakjörinu betri en embættistökuræðan.

Ég fór heim úr þinginu um klukkan 19.00 en þá hafði ég hitt lögreglumenn, sem höfðu staðið vaktina við þinghúsið allan daginn og lent í átökum við mótmælendur, sem lömdu um tíma glerveggina milli skálans og þinghússins svo duglega, að lögregla varð að beita valdi til að varna þeim skemmdum.  Ég þakkaði lögreglumönnunum framgöngu þeirra við þessar erfiðu og sem betur fer einstöku aðstæður.

Í Kastljósi var Helga Vala Helgadóttir, laganemi og samfylkingarkona, og sagði þetta dag 1 í mótmælum, þótt ólögráða dóttir hennar hefði verið handtekin af lögreglu. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, var einnig í Kastljósi og sagði lögreglu hafa þurft að verja 11 ára gamalt barn, sem hafði verið með foreldrum sínum í fremstu röð mótmælenda í þinghúsgarðinum, en þar virtist hitinn mestur. Lögregla handtók 22 og geymdi suma í bílageymslu þingmanna undir skálanum.

Helgi Seljan var með beina útsendingu í Kastljósi frá mótmælendum. Kom hann inn í þáttinn oftar en einu sinni og fjölgaði þeim, sem lögðu leið sína á Austurvöll, eftir að hann hafði lokið máli sínu.  Þar logaði eldur fyrir framan skálann og kastað var á húsið málningu.

 

Mánudagur, 19. 01. 09. - 19.1.2009 21:55

Pétur H. Blöndal, flokksbróðir minn á þingi, hefur hvað eftir annað sagt, að hvetja eigi til þess, að heimskunnir hagfræðingar komi hingað til lands og geri á eigin kostnað úttekt á því, sem gerðist í bankahruninu, aðdraganda og afleiðingum. Opna eigi öll gögn til slíkra rannsókna, því að atburðir hér séu einstakir í hagfræðisögunni og með rannsóknum á þeim gætu menn jafnvel öðlast Nóbelsverðlaun í hagfræði.

Ég nefndi í Silfri Egils í gær, að hinn heimskunni sagnfræðiprófessor við Harvard-háskóla, Niall Fergusson, hefði ritað grein um aðdraganda fjármálakrísunnar í heiminum í nýjasta hefti tímaritsins Vanity Fair. Þar er sagt frá ýmsu, sem skýrir, hvernig er komið fyrir okkur Íslendingum. Þetta vilja þeir ekki lesa eða heyra, sem láta eins og aðeins sé við íslensk stjórnvöld að sakast í þessu efni og einhver bloggari vildi gera lítið úr mér fyrir að nefna tímaritið Vanity Fair til sögunnar, það væri líklega ekki nógu fínt til að nefna við Egil Helgason - mér finnst innihaldið skipta meira máli en umbúðirnar, en þeir, sem hafa áhuga á að lesa grein Nialls, geta nálgast hana hér á vefsíðu hans.

Hingað hefur komið fjöldi erlendra hagfræðinga undanfarnar vikur og mánuði, sagt frá eigin varnaðarorðum í aðdraganda hrunsins, dæmt aðgerðir síðan og lýst því, sem gera skuli. Umræður af þessu tagi eru vissulega gagnlegar til að kynnast ólíkum sjónarmiðum til málefna. Þær leysa hins vegar ekki neinn vanda, því að ráðin eru eins mörg og mennirnir.

Grein Nialls sýnir, að of mikil einföldun er að kenna atburði hér og erlendis við „nýfrjálshyggju“ eða frjálshyggju almennt. Lánsfé varð of ódýrt og of margir létu freistast - Niall kallar síðustu tíma The Age of Leverage eða Tíma vogunar.

Sunnudagur, 18. 01. 09. - 18.1.2009 20:44

Var í hádeginu í Silfri Egils og ræddi um bókina mína, sérstakan saksóknara og lögregluna með meiru. Hér er útskrift af samtali okkar Egils Helgasonar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins eftir keppni við Höskuld Þórhallsson í seinni umferð formannskjörs. Páll Magnússon féll út í fyrri umferðinni, sem kom mér ekki á óvart, hann var ákafasti talsmaður Evrópusambandsaðildar meðal frambjóðanda, Sigmundur Davíð sagðist hafa sett inn nei-skilyrðin á ályktun fundarins um ESB. Ýmsar yfirlýsingar Páls í kosningabaráttunni voru einnig furðulegar - hin síðasta, að formaður flokksins ætti að sækjast eftir að verða forseti alþingis var alveg út í hött - forseti þingsins á að gæta þess að vera ekki flokkspólitískur við stjórn sína á þinginu.

Siv Friðleifsdóttir tapaði fyrir Birki Jóni Jónssyni í varaformannskjörinu. Það kom mér meira á óvart en niðurstaðan í formannskjörinu.

Ég ritaði í dag pistil um verkefni í utanríkismálum, sem mér þykir brýnni og meira virði fyrir okkur en aðild að Evrópusambandinu.

Laugardagur, 17. 01. 09. - 17.1.2009 16:58

Af blöðum í morgun má helst ráða, að framsóknarmenn hafi samþykkt að fara í Evrópusambandið á flokksþingi sínu í gær. Þegar ályktunin er lesin, sést, að þetta er ósköp hefðbundin já,já/nei,nei afstaða framsóknarmanna, enda hefði hún ella ekki hlotið jafnafgerandi stuðning flokksmanna. Einkennilegt er, að þessi niðurstaða skuli gleðja aðildarsinnana Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann Samfylkingarinnar, og Eirík Bergmann Einarsson á Bifröst. Hitt er að vísu vitað, að litlu verður Vöggur feginn.

Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins boðaði til kynningarfundar í Valhöll í hádeginu í dag. Mikill fjöldi fólks hlýddi á þá formenn nefndarinnar, Kristján Þór Júlíusson, alþingismann, og Árna Sigfússon, bæjarstjóra, útlista það, sem fram hefur komið í nefndarstarfinu.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti ræðu á fundinum. Hann taldi starf Evrópunefndar hafa gengið afar vel og til marks um það væri, að um 1500 manns hefðu sótt fundi á hennar vegum um land allt. Tekist hefði að blása lífi í Evrópuumræður innan Sjálfstæðisflokksins, þótt aðild að Evrópusambandinu væri ekki neitt skyndilegt bjargráð út úr vanda þjóðarinnar. Ekki væri unnt að reikna sig inn í sambandið og nota til þess peningalegan mælikvarða, huglægt mat yrði einnig að ráða. Hafa yrði að leiðarljósi, hvað Íslandi yrði fyrir bestu.

Fjöldi ábendinga og spurninga var mikill á fundinum og fleiri en einn ræðumaður töldu, að skilja ætti á milli ESB-mála og spurningarinnar um framtíð krónunnar; ætti landsfundur að álykta sérstaklega um gjaldmiðilsbreytingu. Einnig sætti gagnrýni, að í niðurstöðum kynningar þeirra formannanna væri ekki vakið máls á því, að fyrir þjóðina yrði lagt, hvort senda ætti umsókn um aðild til ráðherraráðs Evrópusambandsins.

Föstudagur, 16. 01. 09. - 16.1.2009 17:58

Ég vek athygli á því, að inn á vefsíðuna eru komnar útskriftir af tveimur útvarpsviðtölum við mig í gær á morgunvakt rásar 1 og í síðdegisútvarpi Bylgjunnar.

Framsóknarflokkurinn hóf flokksþing sitt í dag með ræðu Valgerðar Sverrisdóttur, fráfarandi formanns flokksins. Hún sagði flokkinn hafa verið í stjórnarforystu við upphaf vegferðar inn í evrópska efnahagssvæðið 1989 en lét þess ógetið, að enginn þingmanna flokksins greiddi atkvæði með EES-samningnum, nokkrir þeirra voru á móti samningnum. Þá taldi hún, að íslenskur landbúnaður gæti blómstrað innan Evrópusambandsins. Bændaforystan er allt annarrar skoðunar.

Fimmtudagur, 15. 01. 09. - 15.1.2009 19:15

Klukkan 07.30 var ég í Efstaleiti og fór í samtal á Morgunvaktinni hjá Önnur Kristínu Jónsdóttur og Kristjáni Sigurjónssyni um Evrópumál og má sjá útskrift af viðtalinu hér.

Hin öfluga net-bóksala Andríkis hefur tekið bók mína Hvað er Íslandi fyrir bestu? til sölu eins og hér má sjá. Færi ég þeim Andríkismönnum þakkir fyrir framtakið, Bókafélagið Ugla er útgefandi bókarinnar.

Þröstur Helgason ritar grein um landsfund Sjálfstæðisflokksins í Morgunblaðið í morgun og lætur eins og hann skipti engu og því síður umræður á honum um Evrópusambandið. Undrast Þröstur á því, að menn hafi almennt áhuga á þessu og fjargviðrast í garð Sjálfstæðisflokksins þess vegna. Hið einkennilega er, að sjálfstæðismenn hafa ekki gert annað en flýta fundi sínum og ákveðið að ræða Evrópumál. Það eru hins vegar álitsgjafar, fjölmiðlamenn og samfylkingarfólk, sem hefur vakið mesta athygli á fundinum og gert mest veður út af því, hvaða ákvörðun verður þar tekin í Evrópumálum. Grein Þrastar varð mér tilefni til að rita pistil á vefsíðuna www.amx.is og má lesa hann hér.

Þorgeir Ástvaldsson og Kristófer Helgason ræddu við mig í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og má lesa útskrift af samtali okkar hér.

Miðvikudagur 14. 01. 08. - 14.1.2009 21:52

Snemma morguns ók ég með þeim Þóri Hrafnssyni, aðstoðarmanni mínum, og Þórunni J. Hafstein, skrifstofustjóra, frá Reyðarfirði til Egilsstaða til fundar við Lárus Bjarnason, sýslumann, Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjón, og samstarfsfólk þeirra. Áður en við hittum þá klukkan 09.00 höfðum við tíma til að skreppa í Menntaskólann á Egilsstöðum og skoða nýbyggingu hans undir leiðsögn Þorbjörns Rúnarssonar, setts skólameistara.

Að lokinni heimsókninni til sýslumanns hittum við Halldór Björnsson, héraðsdómara á Austurlandi, áður en við ókum til Norðfjarðar. Þar fórum við í Verkmenntaskóla Austurlands og skoðuðum nýtt verknámshús hans undir leiðsögn Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara.

Í hádeginu var efnt til fundar á vegum sjálfstæðismanna í hótel Capitano í Neskaupstað, þar sem við Ólöf Nordal, alþingismaður, fluttum framsöguræður. Hugur fundarmanna í garð Evrópusambandsins var hinn sami og á Reyðarfirði.

Klukkan 15.15 vorum við á lögreglustöðinni í Eskifirði og hittum þar Inger L. Jónsdóttur, sýslumann, Jónas Vilhelmsson, yfirlögregluþjón, og samstarfsfólk þeirra. Var því formlega fagnað, að framkvæmdum við stækkun á húsnæði embættisins væri lokið.

Frá Eskifirði ókum við að nýrri öryggismiðstöð, sem reist hefur við hliðina á álveri Alcoa og hýsir slökkvilið og sjúkrabifreiðar. Undir forystu Helgu Jónsdóttur, bæjarstjóra Fjarðabyggðar, og Guðmundar Helga Sigfússonar, slökkviliðsstjóra, var okkur kynnt starfsemi þessarar glæsilegu miðstöðvar.

Það var nokkur hálka á vegum fyrir austan og fjúk á leiðinni um Oddskarð. Íbúum í Norðfirði er mikið kappsmál, að ný jarðgöng verði gerð milli þeirra og Eskifjarðar til að bæta öryggi og greiða fyrir samgöngum. Þegar færðin er eins og hún var í dag eða enn verri, er ekki að undra, að litið sé á skarðið sem farartálma innan sveitarfélagsins og á leið til sjúkrahússins á Neskaupstað.

Í ferðinni notaði ég tækifærið og kynnti bók mína um Evrópumálin, Hvað er best fyrir Ísland?

Klukkan 19.25 flugum við frá Egilsstöðum.

 

Þriðjudagur, 13. 01. 09. - 13.1.2009 15:36

Í morgun var ég í þættinum Ísland í bítið á Bylgjunni og ræddi við þau Heimi Karlsson og Kolbrúnu Björnsdóttur um bók mína Hvað er Íslandi fyrir bestu? Útskrift af samtali okkar birtist hér.

Klukkan 15.00 komu fulltrúar þingflokka í allsherjarnefnd alþingis til fundar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Kynnti ég þeim, að Ólafur Þór Hauksson, sýslumaður á Akranesi, hefði sótt um embætti sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins. Teldi ég einsýnt, að hann væri hæfur til að gegna embættinu og voru þingmenn sammála þeirri skoðun. Um klukkan 16.00 var gefin út fréttatilkynning um skipun Ólafs.

Flaug klukkan 18.00 til Egilsstaða og ók þaðan til Reyðarfjarðar, þar sem ég flutti ræðu á fundi sjálfstæðismanna í hótelinu klukkan 20.00 með Arnbjörgu Sveinsdóttur, alþingismanni.

Fundarmenn tóku virkan þátt í fundinum með fjölda spurninga bæði um bankahrunið og Evrópumál - var það samdóma álit þeirra og mitt, að annað væri brýnna núna en að deila um aðild að Evrópusambandinu og best væri, að hafna henni á afdráttarlausan hátt.

Mánudagur, 12. 01. 09. - 12.1.2009 20:39

Í umræðum um fjármálakrísuna erum við Íslendingar dregnir meira en nokkru sinni fyrr inn í ágreining hagfræðinga, íslenskra og erlendra.

Charles Wypolsz, prófessor í Genf og ráðgjafi Evrópusambandsins og fjölda annarra, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, þar sem hann andmælir því, sem fram kom í grein 32 íslenskra hagfræðinga á dögunum, þegar þeir lýstu ókostum þess, að skipta einhliða um gjaldmiðil. Wypolsz gefur ekki mikið fyrir kenninguna um nauðsyn þess að hafa Seðlabanka Íslands sem lánveitanda til þrautavara - skattgreiðendur gegni að lokum þessu hlutverki. Myntsláttuhagnaðurinn, sem hagfræðingarnir 32 nefndu til sögunnar, er ekki heldur mikils virði að mati Wypolsz.

Robert Wade, prófessor í stjórnmálahagfræði við London School of Economics, var í Kastljósi og dró upp svarta mynd af því, sem í vændum væri, ef stjórnvöld nýttu ekki núverandi stöðu sem best. Hann sagði að vísu ekki, hvað gera ætti, en hann býr að því, að hafa sagt fyrir um það þegar árið 2007, að hér yrðu erfið þáttaskil í efnahagsmálum, ef ekki yrði breytt um stefnu í banka- og efnahagsmálum. Hann minnti einnig á viðvaranir annars sérfræðings, sem þurfti ekki annað en telja byggingarkrana á höfuðborgarsvæðinu til að sjá, að ástandið væri stórhættulegt. Allar slíkar viðvaranir hefðu verið hafðar að engu.

Um Charles Wypolsz segir, að hann sé í „efnahagslegu ráðgjafaráði forseta Frakklands“. Í ljósi hinna ólíku hagfræðilegu sjónarmiða, sem við okkur blasa á þessum örlagatímum, vaknar spurning, hvort ekki sé nauðsynlegt að leita nýrra leiða til að virkja þessa hagfræðikrafta í þágu þjóðarinnar - til að varða leið út úr rústum fjármálakerfisins. Eða er það rétt, sem Göran Persson sagði á dögunum, að betra væri að treysta á heilbrigða skynsemi við töku ákvarðana en fræðikenningar?

Þeir, sem reka netbókaverslunina á www.andriki.is hafa ákveðið að taka bók mína Hvað er Íslandi fyrir bestu? til sölu. Hér má sjá, hvernig sagt er frá bókinni á vefsíðu Viðskiptablaðsins. Svona segir eyjan.is frá henni.

 

Sunnudagur, 11. 01. 09. - 11.1.2009 18:20

Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræði-prófessor, heldur áfram að ræða íslenska stjórnsýslu eins og hér eigi að gilda sömu reglur og í öðrum löndum, eða einhverju öðru landi. Hvaða landi? Það væri gott, að Gunnar Helgi nefndi kvarðann, sem hann vill nota um íslenska stjórnsýslu, úr því að ekki er unnt að dæma hana á eigin forsendum í ljósi sögulegrar og lagalegrar þróunar hér á landi.

Nú keppist fréttastofa RÚV við að gera því skóna, að innan ríkisstjórnarinnar ríki ágreiningur um afstöðu til innrásar Ísraela inn á Gaza. Ég hef ekki orðið var við þann ágreining og sit þó í ríkisstjórninni. Utanríkisráðherra kemur fram fyrir hönd íslenskra stjórnvalda inn á við og út á við í þessu máli.

Gunnar Helgi nefnir dæmi frá Svíþjóð. Þar starfar ríkisstjórnin hins vegar eins og nefnd. Það gerir hún ekki hér á landi. Hér er hver ráðherra ábyrgur fyrir sinn málaflokk. Vilji menn breyta því, þarf meira til en álit Gunnars Helga.

Hann nefnir einnig dæmi frá Bretlandi, þar sem stjórnarhættir eru með sínum svip og eins-flokksstjórn er regla undir forystu forsætisráðherra, sem er ótvíræður flokkspólitískur leiðtogi allrar ríkisstjórnarinnar. Hér er reglan hins vegar samsteypustjórn enda kosningakerfi allt annað en í Brelandi, þar sem beinlínis er markmið, að kjósendur velji sér stjórn eins flokks, sem kalla má til ábyrgðar í næstu kosningum.

 

 

Laugardagur, 10. 01. 09. - 10.1.2009 20:39

Morgunblaðinu er síður en svo alls varnað. Kolbrún Bergþórsdóttir ræðir í dag við Gauta Kristmannsson, þýðingafræðing og dósent við Háskóla Íslands, og fræðir lesendur um sjónarmið hans á Evrópumálum, sem falla auðvitað að skoðun Kolbrúnar og blaðsins um nauðsyn þess, að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Spyrja má, hvaða þýðingu það hafi, að þýðingafræðingur segi: „Málið er að við hefðum átt að gera það fyrir löngu (að fara í Evrópusambandið); að kvótamistökunum frátöldum eru það sennilega stærstu pólitísku mistök síðustu ára að hafa ekki gerst þátttakendur ESB fyrir mörgum árum. “

Leyfði sér einhver vel menntaður maður, án þess að vera þýðingarfræðingur, að tala á þennan hátt um þýðingar og  leggja þungan dóm á þær, myndi Gauti áreiðanlega svara honum á þann veg, að hann hefði ekkert vit á því, hvernig ætti að þýða, þótt hann kynni bæði tungumálin, sem um væri að ræða.

Gauti veit ekki aðeins betur en aðrir um kvóta og ESB. Hann segir um þá, sem stýra landi og fjármálakerfi, að þeir hafi „bara“ verið „svo miklir amatörar“, að þeir hafi ekki getað gert betur og eigi það bæði við pólitíkusa og bankamenn. Loks lýsir Gauti vanþóknun á þeim „sem vilja ekki horfast í augu við staðreyndir heimsins og vilja bara taka upp annan gjaldmiðil af því að það er gjaldeyriskreppa.“

Hið merkilegasta við viðtalið er, að Kolbrún skuli ekki hafa spurt Gauta að því, hvers vegna hann bjóði sig ekki fram til að leysa mál þjóðarinnar, það hlyti alla vega að hafa mikla þýðingu.

Föstudagur, 09. 01. 09. - 9.1.2009 21:35

Í dag var lokið prentun bókar eftir mig Hvað er Íslandi fyrir bestu? Hún fjallar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins og hefur að geyma ritgerðir og pistla  úr bókum, blöðum og af netinu. Bókafélagið Ugla gefur bókina út og verður hún kynnt og til sölu í bókaverslunum eftir helgi.  Með bókinni vil ég efla umræður um Evrópumálin.

Breytingar urðu á yfirstjórn dóms-  og kirkjumálaráðuneytisins í dag, þegar Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri lagasviðs og staðgengill ráðuneytisstjóra, fór tímabundið til starfa sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, en Halldór Árnason fór þaðan í ráðuneytisstjórastól menntamálaráðuneytisins, Guðmundur Árnason hvarf úr því embætti til að samhæfa mál vegna bankahrunsins fyrir forsætisráðherra.  Þórunn J. Hafstein verður staðgengill ráðuneytisstjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneyti og Bryndís Helgadóttir verður sett í stól Rögnu. Öll eru þau öflugir embættismenn, sem ég hef kynnst af góðu einu í áranna rás.

Gísli Marteinn Baldursson var í Kastljósi hjá Helga Seljan í kvöld og dró vel fram, hve mikið ójafnvægi er í umræðum Helga og samstarfsmanna hans um skipan manna í störf dómara. Ég hef áður minnst á ásakanir Helga í minn garð um lögbrot fyrir að hafa vikið sæti á öðrum tíma en umboðsmaður taldi heppilegt.

Guðmundur Steingrímsson, pólitískur flóttamaður úr Samfylkingunni og nýendurnýjaður framsóknarmaður, var með þeim Gísla og Helga í þættinum. Honum þótti óviðeigandi, að Gísli skyldi víkja gagnrýnisorði að áliti umboðsmanns  alþingis  – Gísli Marteinn minnti á, að ekki þætti lengur goðgá að rökræða niðurstöðu dóma.

Guðmundur hefur tilkynnt, að hann taki ekki sæti sem varamaður  fyrir Samfylkinguna á þingi eftir flóttann. Meðal þingmanna velta menn því fyrir sér, hvort Guðmundur sé í hópi þeirra, sem þola ekki að þurfa að styðja ríkisstjórn. Hann hafi flúið Framsóknarflokkinn, á meðan hann var í stjórn, og nú flýi hann Samfylkinguna.

Á vefsíðu The Economist  er að finna forvitnilega úttekt á þróun mála á Norðurskautinu.

Í sama mund og ég er að ganga frá þessu inn á síðuna er bandaríska myndin Smáborg í sjónvarpinu og er hún kynnt sem fjölskyldumynd. Hver skyldi velja þessar bandarísku fjölskyldumyndir á vegum ríkisins?

 

 

Lesa meira

Fimmtudagur, 08. 01. 09. - 8.1.2009 20:12

Nú um jólahátíðina sendi hugveitan Open Europe frá sér greinargerð um fjárveitingar Evrópusambandsins (ESB) til kynningar á sjálfu sér og til að ná markmiðinu um „sífellt nánari Evrópu“. Þar kemur fram, að árinu 2008 hafi verið varið að minnsta kosti 2,8 milljörðum evra í þessu skyni. Segir í greinargerðinni, að það sé hærri fjárhæð en Coca Cola verji ár hvert til auglýsinga og kynningarstarfs um heim allan.

Open Europe gagnrýnir allt þetta kynningarbrölt ESB og telur um hreinan fjáraustur í alls kyns gæluverkefni að ræða. Bent er á, að í Bretlandi hafi ESB aldrei síðustu 25 ár notið jafn lítils stuðnings og um þessar mundir. Áróður ESB megi sín lítils á meðan forystumenn sambandsins taki sig ekki á og geri betur. Vilji forystumenn ESB raunverulega öðlast vinsældir meðal fólks ættu þeir að sýna kjósendum snefil að virðingu, en ekki tala niður til þeirra, eins og gert hafi verið eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á Írlandi.

32 hagfræðingar rituðu gegn einhliða gjaldmiðilsskiptum í Morgunblaðið 7. janúar. Grein þeirra eru gerð nokkur skil í Vef-Þjóðviljanum í dag. Þá benda tveir hagfræðingar á það í Morgunblaðinu í dag, að hvert ár, sem dragist að skipta um gjaldmiðil kosti Íslendinga 100 milljarða króna í vaxtagreiðslur af jöklabréfunum svonefndu. Þá sé ekkert að marka þá fullyrðingu, að seðlabankar séu lánveitendur til þrautavara - fjármálakrísan hafi einmitt sýnt, að það séu ríkissjóðir en ekki seðlabankar, sem komi bönkum til bjargar og ábyrgist innistæður.

Í dag var sagt frá því, að þýska ríkið hefði að hluta þjóðnýtt Commerzbank, annan stærsta þýska bankann, með því að eignast 25% hlutafjár í honum og láta honum í té 10 milljarða evra.

Þýska ríkisstjórnin kom á laggirnar 500 milljarða björgunarsjóði banka sl. haust til að koma á stöðugleika í fjármálakerfinu. Ekki bendir það til, að þýski seðlabankinn eða hvað þá heldur hinn evrópski séu lánveitendur til þrautavara. Hvernig ætli 32 íslenskum hagfræðingum detti í hug, að þrautavaramál séu í höndum seðlabankastjóra í Evrópu - eða Bandaríkjunum? Hagfræðingarnir sögðu: „Mestu skiptir þó (við að fara ekki leið einhliða upptöku á evru) að hlutverk Seðlabankans á sviði fjármálastöðugleika, einkum sem lánveitanda til þrautavara, yrði eflt til muna ..“

Samfylkingarbloggarinn Andrés Jónsson telur mig hafa verið að harma fjárveitingar til að auka öryggisgæslu við Bessastaði hér á síðunni 23. desember. Þessi niðurstaða lýsir hug Andrésar en ekki mínum. Ég fagna því, að veitt sé fé til þessa þáttar öryggismálanna eins og annarra.  

 

Miðvikudagur, 07. 01. 09. - 7.1.2009 20:51

Forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag er byggð á ársskýrslum embættis ríkislögreglustjóra um skiptingu fjármuna þess milli sérsveitar og efnahagsbrotadeildar.

1. mars 2004 var kynnt ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að efla sérsveit lögreglunnar og hefur hún gengið eftir með auknum fjárveitingum. Allt frá fyrsta degi hefur þetta verið umdeild ákvörðun en engu að síður rétt og nauðsynleg. Öryggi og innviði lögreglunnar ber að styrkja með öllum ráðum. Við þær aðstæður, sem nú eru, tel ég, að lögreglan, einkum á höfuðborgarsvæðinu, hafi staðið sig frábærlega vel.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur birt greinargerð um góða málastöðu hjá efnahagsbrotadeild embættisins, þrátt fyrir það virðist punkturinn í forsíðufrétt Fréttablaðsins eiga að vera sá, að ekki hafi verið nóg að gert til að efla efnahagsbrotadeildina. Nafnlausir bloggarar leggja síðan þannig út af fréttinni, að þetta sýni sko svart á hvítu, að ég vilji hylma yfir með fjárglæframönnum!

Endurteknar, nýlegar fréttir Fréttablaðsins um nauðsyn þess að efla efnahagsbrotarannsóknir lögreglu ber kannski að skilja sem yfirbót af hálfu blaðsins? Það sjái nú að sér eftir þá áherslu þess undanfarin ár, að með því að veita fé í þennan málaflokk sé bara verið að ýta undir ofsóknir á hendur eigendum blaðsins.

Hitt er síðan sérstakt umhugsunarefni um fréttamat á þessum umbrotatímum, að forsíða Fréttablaðsins skuli lögð undir efni úr ársskýrslum ríkislögreglustjóra og álit viðmælenda blaðsins á því, sem þar stendur. Líklega er þó tilviljun, að á sama tíma er um það rætt, að útgáfudögum blaðsins eigi að fækka, einnig ritstjórum þess og blaðsíðufjölda.

Þriðjudagur, 06. 01. 09. - 6.1.2009 22:06

Ríkisstjórn kom saman til fyrsta fundar á árinu og var hann haldinn í alþingishúsinu.

Síðdegis hittist þingflokkur sjálfstæðismanna á fundi og ræddi stöðu mála í upphafi nýs árs.

Kristmundur Bjarnason, fræðaþulur á Sjávarborg í Skagafirði, sendi fyrir jólin frá sér bókina Amtmaðurinn á Einbúasetrinu - ævisaga Gríms Jónssonar. Þetta er vel rituð og trúverðug bók. Hún lýsir ekki aðeins ævi söguhetjunnar heldur einnig samskiptum Íslendinga og Dana á fyrri hluta nitjándu aldar og íslenskum stjórnmálum og þjóðlífi á síðustu árunum fyrir endurreisn alþingis.

Gildi frásagnarinnar byggist ekki síst á því, hve mikla virðingu Kristmundur ber fyrir heimildum sínum og hve víða hann hefur leitað fanga meðal annars til að hrekja fullyrðingar þeirra, sem skráðu söguna sjálfir.

Íslensk stjórnsýsla er sprottin úr þeim jarðvegi, sem skapaður er af Grími og öðrum embættismönnum þessa tíma. Afskipti sýslunarmanna af hag einstaklinga og áhrif þeirra á afkomu þeirra hafa verið ótrúlega mikil.

Þegar rætt er um hefðir og venjur hér á landi og það, sem tíðkast í stjórnsýslu annars staðar, verður samanburðurinn lítils virði, þegar mælistaka einnar þjóðar er færð yfir á aðra. Í þessu efni er miklu nær að meta stöðu samtímans í ljósi þess, sem áður var innan sömu stjórnsýslu og spyrja síðan, hvort miðað hafi til betri áttar.

 

Mánudagur, 05. 01. 09. - 5.1.2009 20:41

Fjölmenni var á fundi í Valhöll í dag, þar sem þeir Bjarni Benediktsson, alþingismaður, og Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, ræddu hvaða umboð forysta Sjálfstæðisflokksins ætti að fá í Evrópumálum.

Þeir nálguðust málið frá ólíku sjónarhorni en hvorugur mælti með aðild. Bjarni lagði áherslu á, að meta yrði Evrópusamstarf í ljósi hagsmuna okkar í peningamálum og stöðu í veröldinni, Styrmir sagði, að forysta Sjálfstæðisflokksins yrði að standa vörð um yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum hennar.

Bjarni velti fyrir sér spurningunni um tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og sagði, að í stað hinnar fyrri gæti komið sameiginleg afstaða allra stjórnmálaflokka um inntak aðildarumsóknar, yrði hún lögð fram. Styrmir hefur rætt um tvær atkvæðagreiðslur en sagði á fundinum að í stað hinnar fyrri kynni að nægja að leggja spurninguna um umsókn/ekki umsókn fyrir alla flokksbundna sjálfstæðismenn, 40 til 45 þúsund. Ég hef hallast að tveimur atkvæðagreiðslum til að fá á hreint, hvort þjóðin veiti heimild til að slá af kröfum um yfirráð yfir auðlindum sjávar.

Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss, tók þrisvar fram í kvöld, þar á meðal í kynningu í fréttatíma, að ég hefði brotið lög, þegar Árni M. Mathiesen, settur dómsmálaráðherra, skipaði Þorstein Davíðsson héraðsdómara. Bar Þórhallur orð Sigurðar Líndals, lagaprófessors, fyrir sig. Sigurður kvað ekki upp þennan dóm heldur Helgi Seljan, starfsmaður Þórhalls í Kastljósi. Að kenna þá leiðbeiningu, sem umboðsmaður gefur í áliti sínu um það, hvenær ég hefði átt að segja mig frá málinu, við lögbrot, er í besta falli ákaflega langsótt - og hið sama á við um svar Sigurðar við leiðandi spurningu Helga. Að fara þess á leit, að Þórhallur leiðrétti orð sín, kallar aðeins á leiðindi, svo að ég læt þessi orð mín duga.

Sunnudagur, 04. 01. 09. - 4.1.2009 19:48

Skyldi fréttamaður sjónvarps ríkisins hafa búist við því í kvöld, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segði henni og þjóðinni, að Evrópuumræða Samfylkingarinnar væri aðeins átylla til stjórnarslita?

Í pistli mínum í gær ályktaði ég, að færi Samfylking í ríkisstjórn með vinstri/grænum að loknum þingkosningum í vor, en formenn beggja flokka hefðu rætt vorkosningar, væri unnt að líta á kröfu formanns Samfylkingarinnar um nýja Evrópustefnu á hendur Sjálfstæðisflokknum sem átyllu fyrir að slíta stjórnarsamstarfinu.

Rökrétt spurning fréttamanns til Ingibjargar Sólrúnar af þessu tilefni hefði verið, hvort hún kynni að fara í stjórn með vinstri/grænum að loknum þingkosningum, þrátt fyrir andstöðu þeirra gegn Evrópusambandsaðild.

Laugardagur, 03. 01. 09. - 3.1.2009 21:24

Ég leit rúm 50 ár aftur í tímann til að glöggva mig á stjórnmálaástandi líðandi stundar og stöðu stjórnarsamstarfsins við upphaf nýs árs, þegar ég skrifaði pistil minn í dag.

Nú er BBC World News að segja frá innrás landhers Írsaels inn á Gazasvæðið, þar sem um 1,5 milljón Palestínumenn búa á litlum landskika. Markmið Ísraela er að stöðva í eitt skipti fyrir öll eldflaugaárásir hamas-liða á Gaza á bæi og borgir í Ísrael.

Tilraunir til að koma á friði með milligöngu fulltrúa Evrópusambandsins hafa engan árangur borið. Boðað er, að Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, komi á vettvang nk. mánudag. Hann hefur þó ekki lengur umboð frá Evrópusambandinu.

Stjórnarkreppa er í Ísrael og kosningar í vændum. Það er ekki nýmæli, að við þessar aðstæður grípi Ísraelsstjórn til vopna og hafi alla gagnrýni alþjóðasamfélagsins að engu. Innrásin er gerð eftir 8 daga loftárásir á Gaza. Spurning er, hvort Arabaríki grípi til vopna gegn Ísrael en spenna er einnig á landamærum Ísraels og Líbanons.

Fréttakona BBC er í þessari andrá í símasambandi við íbúa á Gaza en verður að ljúka samtalinu, þegar sprengja fellur í nágrenni viðmælandans, sem segist sitja í myrkri í kjallara með fjölskyldu sinni.

Föstudagur, 02. 01. 09. - 2.1.2009 18:31

Í nýjasta hefti The Economist er sérstakur blaðauki um málefni hafsins og þar er íslenska fiksveiðistjórnunarkerfið tekið til marks um góða nýtingu sjávarauðlinda og dregin upp sú mynd, að það sé algjör andstaða við ömurlegt kerfi Evrópusambandsins. Greinin sýnir enn og aftur hvílíkt djúp er á milli auðlindastefnu Íslands og Evrópusambandsins - en stefna sambandsins gildir að sjálfsögðu innan þess.

Fimmtudagur, 01. 01. 09. - 1.1.2009 15:16

Gleðilegt ár!

Sjónvarpið sýndi í kvöld frá síðustu prédikun Sigurbjörns Einarssonar biskups í Reykholti 27. júlí 2008. Við Gunnar Eyjólfsson, stórleikari, qi gong meistari og vinur minn. vorum í messunni. Gunnar er katólskur og á sjónvarpsmyndinni sést, þegar þeir biskupinn og Gunnar eru að skiptast á skoðunum um konverteringu lúterskra klerka til katólsku yfir fangið á mér. Ég er veikur fyrir katólskunni, þótt ekki hafi ég konverterað.

Mér þótti gaman að fara með barnabörn mín til Karmelnunna í Hafnarfirði um jólin og sýna þeim jötuskreytinguna í klausturkirkjunni og hitta systir Agnesi - á Péturstorginu í Róm er stærsta jötuskreyting, sem ég hef séð. Börnunum þótti forvitnilegt að koma í klaustrið og spurðu mig margra spurninga af því tilefni.