Mánudagur, 12. 01. 09.
Í umræðum um fjármálakrísuna erum við Íslendingar dregnir meira en nokkru sinni fyrr inn í ágreining hagfræðinga, íslenskra og erlendra.
Charles Wypolsz, prófessor í Genf og ráðgjafi Evrópusambandsins og fjölda annarra, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, þar sem hann andmælir því, sem fram kom í grein 32 íslenskra hagfræðinga á dögunum, þegar þeir lýstu ókostum þess, að skipta einhliða um gjaldmiðil. Wypolsz gefur ekki mikið fyrir kenninguna um nauðsyn þess að hafa Seðlabanka Íslands sem lánveitanda til þrautavara - skattgreiðendur gegni að lokum þessu hlutverki. Myntsláttuhagnaðurinn, sem hagfræðingarnir 32 nefndu til sögunnar, er ekki heldur mikils virði að mati Wypolsz.
Robert Wade, prófessor í stjórnmálahagfræði við London School of Economics, var í Kastljósi og dró upp svarta mynd af því, sem í vændum væri, ef stjórnvöld nýttu ekki núverandi stöðu sem best. Hann sagði að vísu ekki, hvað gera ætti, en hann býr að því, að hafa sagt fyrir um það þegar árið 2007, að hér yrðu erfið þáttaskil í efnahagsmálum, ef ekki yrði breytt um stefnu í banka- og efnahagsmálum. Hann minnti einnig á viðvaranir annars sérfræðings, sem þurfti ekki annað en telja byggingarkrana á höfuðborgarsvæðinu til að sjá, að ástandið væri stórhættulegt. Allar slíkar viðvaranir hefðu verið hafðar að engu.
Um Charles Wypolsz segir, að hann sé í „efnahagslegu ráðgjafaráði forseta Frakklands“. Í ljósi hinna ólíku hagfræðilegu sjónarmiða, sem við okkur blasa á þessum örlagatímum, vaknar spurning, hvort ekki sé nauðsynlegt að leita nýrra leiða til að virkja þessa hagfræðikrafta í þágu þjóðarinnar - til að varða leið út úr rústum fjármálakerfisins. Eða er það rétt, sem Göran Persson sagði á dögunum, að betra væri að treysta á heilbrigða skynsemi við töku ákvarðana en fræðikenningar?
Þeir, sem reka netbókaverslunina á www.andriki.is hafa ákveðið að taka bók mína Hvað er Íslandi fyrir bestu? til sölu. Hér má sjá, hvernig sagt er frá bókinni á vefsíðu Viðskiptablaðsins. Svona segir eyjan.is frá henni.