Dagbók: febrúar 2013

Fimmtudagur 28. 02. 13 - 28.2.2013 22:20

Þegar Össur Skarphéðinsson, nýorðinn utanríkisráðherra, hitti Barack Obama Bandaríkjaforseta í Strassborg vorið 2009 á 60 ára afmæli NATO bauð Össur forsetanum að heimsækja Ísland og lét eins og Obama ætlaði við fyrsta tækifæri að þiggja boðið. Hann hefur ekki komið og gerir ekki á meðan Össur er utanríkisráðherra.

Í gær hitti Össur nýjan utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, á fundi í Róm. Í frétt utanríkisráðuneytisins vegna fundarins segir:

„Í viðræðum [Össurar] við John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna ræddu ráðherrarnir samvinnu Íslands og Bandaríkjanna á Norðurslóðum og áhuga Kerrys á því að Bandaríkjamenn gerðust aðilar að hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fram kom sterkur vilji hjá Kerry til að nýta reynslu og þekkingu Íslendinga á sviði fiskveiðistjórnunar og kvaðst hann vilja fá sérfræðinga og stjórnmálamenn til ráðgjafar á því sviði sem fyrst. Þá bauð Össur Kerry í heimsókn til Íslands og lýsti Kerry áhuga á að þiggja boðið.“

Össur segir ekki frá því í þessari tilkynningu að hann hafi boðið Kerry að fá Ólaf Ragnar Grímsson sem ræðumann um fiskveiðistjórnun. Þegar Össur sagði frá tillögu sinni við fréttamann mátti velta fyrir sér hvort hann hefði gert grín að forseta Íslands í samtali við utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.

Enginn úr stjórnarliðinu kemur til álita sem ræðumaður í Bandaríkjunum um fiskveiðistjórnun, þar eru menn ekki að leita eftir sjónarmiðum gegn hinum íslensku reglum heldur þeim sem skilja þær og geta rökrætt á þann veg að aðrir átti sig á hve miklum stakkaskiptum kvótakerfið hefur valdið fyrir íslenskan sjávarútveg og þar með þjóðina alla.

 

Miðvikudagur 27. 02. 13 - 27.2.2013 22:41

Í dag ræddi ég við Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor í þætti mínum á ÍNN og fjölluðum við um stjórnmálaástandið og nýlegan afmælisfyrirlestur sem Hannes flutti í þéttsetnum hátíðasal Háskóla Íslands. Þáttinn má sjá næst á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Eftir viðtalið við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í Kastljósi er ég engu nær um hvað hann vill í raun gera til að bæta starfsumhverfi lögreglunnar við gjörbreyttar aðstæður. Þá er ég eins og fleiri undrandi yfir hinum gífurlega vexti sem hlaupið hefur í hleranir lögreglu undanfarin ár.

Nú sýnist staðan hafa breyst frá því á þeim tíma þegar ég var dómsmálaráðherra. Þá stóðu þingmenn, einkum samfylkingarmenn, gegn tillögum mínum um auknar forvirkar heimildir fyrir lögreglu. Nú vill Ögmundur ráðherra ekki koma til móts við vilja þingsins í þessu efni. Skapast hefur ágreiningur milli Ögmundar og þingmanna sem leiðir til þess að mál stranda í þinginu.

Ögmundur lætur eins og ekki sé þörf á öðru en að ræða málið. Það hefur verið gert í mörg ár á bakvið þetta tal er ekki annað en andstaða við að stíga þau skref sem tryggja að lögregla hér standi jafnfætis lögreglu annars staðar.

Við upphaf stjórnarsamstarfsins var látið eins og ætlunin væri að skapa hér á landi sérstakt skjól fyrir þá sem halda úti samskiptum og miðlun í netheimum. Hér yrði unnt að starfa í vernduðu umhverfi. Birgitta Jónsdóttir alþingismaður sem heldur lífi í ríkisstjórninni vann að því með Julian Assange og félögum að semja tillögu til þingsályktunar sem var samþykkt og vakti athygli víða. Nú undir lok kjörtímabilsins dregst athygli að Ögmundi og samstarfsfólki hans vegna tillagna um að grípa til aðgerða í netheimum gegn klámi, aðgerðum sem ganga þvert á það sem Birgitta og Assange vildu.

Þriðjudagur 26. 02. 13 - 26.2.2013 22:30

Ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um lokun Evrópustofu, útibús stækkunardeildar ESB á Íslandi, hefur valdið uppnámi á meðal aðildarsinna. Sigmundur Ernir Rúnarsson, fráfarandi þingmaður Samfylkingarinnar, telur ályktunina jafngilda því að landinu verði lokað!

Fréttastofu ríkisútvarpsins tókst að finna háskólakennara, Pétur Dam Leifsson, lektor í Evrópurétti við Háskóla Íslands, sem hélt uppi vörnum fyrir Evrópustofu í fréttum þriðjudaginn 26. febrúar. Hann bar starfsemi Evrópustofu saman við Fulbright-stofnunina sem veitir styrki til háskólanáms í Bandaríkjunum og leitaðist þar með við að blekkja hlustendur. Starfsemin er gjörólík.

Pétur Dam sagði að stjórnvöld gætu látið loka slíkri skrifstofu þar sem alþjóðastofnanir og erlend ríki héldu ekki úti þess háttar starfsemi nema með velþóknun móttökuríkisins. Þegar Evrópustofa var á teikniborðinu haustið 2011 þóttist Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ekkert kannast við að ráðuneyti sitt hefði lagt blessun sína yfir hana. Þá var bent á að stækkunardeild ESB hefði aldrei staðið að því að opna Evrópustofu án vilja og vitundar utanríkisráðuneytisins. Taldi Össur þessa skoðun ekki eiga við nein rök að styðjast.

Á vefsíðunni ruv.is segir í dag:

„Evrópustofa er fjármögnuð af ESB og veitir upplýsingar um starfsemi þess. Slíkar skrifstofur eru starfræktar í 130 löndum. Í svari utanríkisráðuneytisins segir að Evrópustofa starfi á grundvelli Vínarsamnings frá 1961 um starfsemi sendiráða. Ráðuneytið telur að kynningarstarf ESB hérlendis sé eðlilegur hluti af starfsemi sendiskrifstofunnar.“

Þetta eru alrangar upplýsingar frá utanríkisráðuneytinu. Þýska fyrirtækið Media Consulta (MC) með höfuðstöðvar í Berlín rekur Evrópustofu og er almannatengslafyrirtækið Athygli undirverktaki hér á landi. Stækkunardeild ESB samdi árið 2011 við  MC til tveggja ára og ESB greiðir alls 1,4 milljónir evra fyrir verkefnið.

Hvers vegna kjósa fræðimaður og utanríkisráðuneytið að fara með fleipur þegar málefni Evrópustofu ber á góma?

Mánudagur 25. 02. 13 - 25.2.2013 21:40

Það sást í Kastljósi kvöldsins hvers vegna VG ákvað að efna til landsfundar um sömu helgi og Sjálfstæðisflokkurinn. Tilgangurinn var að láta líta svo út sem flokkarnir stæðu jafnfætis, jafnvel að þeir væru jafnstórir. Þeim var stillt andspænis hvort öðru: Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, og Birni Vali Gíslasyni, varaformanni VG. Talaði Björn Valur eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefði á einhvern hátt einangrað sig og ætti fárra eða nokkurra kosta völ að loknum landsfundinum. VG hefði allt í hendi sér eftir að flokkurinn hafði lagst flatur fyrir Samfylkingunni.

VG berst fyrir lífi sínu og skipti um andlit á landsfundinum af því að stofnandi flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, hefði annars getað gengið að flokknum dauðum.  Í átakamestu atkvæðagreiðslunni á fundi VG tóku færri þátt en í fjölmennri nefnd á fundi sjálfstæðismanna.

249 tóku þátt í kjöri varaformanns VG. Björn Valur fékk 57% atkvæða, það er 142 atkvæði. 1228 tóku þátt í varaformannskjöri Sjálfstæðisflokksins, 1179 atkv. voru gild og hlaut Hanna Birna 1120 atkv. eða 95%.

Þessar tölur segja allt um hvort þeirra er á kantinum Björn Valur eða Hanna Birna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mun víðtækari og sterkari rætur meðal þjóðarinnar en VG. Björn Valur heldur áfram skítkasti í  Sjálfstæðisflokkinn og VG heldur áfram að minnka.

Þeir sem fylgst hafa með umræðum um íslensk stjórnmál áratugum saman kannast við innihaldsleysi fullyrðinga eins og þeirra sem fallið hafa í dag um að ályktun sjálfstæðismanna um að tekið skuli af skarið í ESB-viðræðunum einangri flokkinn.

Stjórnmálamenn eru gagnrýndir fyrir miðjumoð og óljósar yfirlýsingar. Hitt bregst síðan ekki að sé tekið af skarið streyma alls kyns spekingar fram á sjónarsviðið og segja að hin skýra afstaða sé viðkomandi stjórnmálaflokki til vandræða. Hann útiloki sig frá öðrum. Það er ótrúlegt hvað fréttastofa ríkisútvarpsins er iðin við að leita að slíku fólki þegar Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut.

Hanna Birna Kristjánsdóttir átti ekki í neinum vandræðum með að skýra stefnu Sjálfstæðisflokksins í Kastljósinu. Öllum er ljóst að stefnan einangrar ekki flokkinn. Hverjum dettur í hug að nokkur skynsamur maður vilji kjósa áfram yfir sig stjórn Samfylkingar og VG að nýju til að komast í ESB?

 

Sunnudagur 24. 02. 13 - 24.2.2013 20:20

Mikill sóknarhugur einkenndi 41. landsfund okkar sjálfstæðismanna, hann birtist skýrt í ályktunum og kjöri trúnaðarmanna. Bjarni Benediktsson fékk bestu formannskosningu sína til þessa, tæplega 79% fylgi og Hanna Birna hlaut 95% stuðning í embætti varaformanns. Glæsileg kosning fyrir þau bæði.

Málefnaleg samstaða einkenndi einnig fundinn. Samstaða náðist um öll meginmál og þar sem menn ákváðu að bera ágreining undir atkvæði fundarmanna varð niðurstaðan einnig afdráttarlaus eins og í ESB-málinu. Þar var ákveðið að hætta við aðildarviðræðurnar.

Á Eyjunni birtist samtal laugardaginn 23. febrúar við Svein Andra Sveinsson hrl. um að niðurstaða landsfundarins um ESB-mál mundi leiða til heimasetu hans á kjördag. Hann gæti ekki lagt Sjálfstæðisflokknum lið. Sveinn Andri tók hins vegar þátt í störfum landsfundarins sunnudaginn 24. febrúar án þess að gera minnstu tilraun til að breyta ályktunum fundarins um ESB-mál, gafst þó tækifæri til þess þegar stjórnmálaályktun fundarins kom til afgreiðslu. Annaðhvort var samtalið á Eyjunni tilbúningur ritstjórnar hennar eða ekkert er að marka Svein Andra þegar hann hallmælir Sjálfstæðisflokknum vegna ESB-afstöðu landsfundarins.

Löngum hefur verið umhugsunarefni hvað í ályktunum landsfunda sjálfstæðismanna vekur athygli fjölmiðlamanna. Nú hafa fréttir snúist um eina setningu sem virðist hafa farið inn í ályktun fyrir misskilning um kristin gildi og lagasetningu. Hún var dregin til baka. Hvergi hefur hins vegar verið minnst á þessa setningu í lok ályktunar um utanríkismál:

„Landsfundur áréttar að full ástæða sé til að Íslendingar kanni grundvöll þess að sækja rétt sinn gagnvart Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaganna haustið 2008 sem verulega skaðaði íslenska hagsmuni.“

Er þetta ekki fréttnæmt? Eða þetta.

„Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fagnar því að ekki var ritað undir nauðasamninga við þrotabú föllnu bankanna síðastliðið haust.

Það er nauðsynlegt að forræði nauðasamninga sé á hendi Alþingis, ríkisstjórnar og sérfræðinga á þeirra vegum, en ekki hjá Seðlabanka Íslands. Það samrýmist ekki starfsemi seðlabanka að standa í nauðasamningum. Gæta þarf hagsmuna þjóðarinnar og ná fram ítrustu kröfum í þeim efnum.

Forréttindi erlendra kröfuhafa, með undanþágum frá gjaldeyrislögum sem veittar voru þrotabúum föllnu bankanna, þar með talið þrotabúi Landsbanka Íslands og kröfuhöfum fyrirtækja í eigu sveitarfélaga, þarf að afnema. Slík forréttindi eru á kostnað almennings á Íslandi.“

 

Laugardagur 23. 02. 13 - 23.2.2013 21:40

Það fór eins og ég taldi líklegt. Úr því að ESB-aðildarsinnar vildu láta reyna á málstað sinn á 41. landsfundi sjálfstæðismanna urðu þeir undir í atkvæðagreiðslu á fundinum. Fundarmenn hertu á andstöðu sinni við ESB-viðræðurnar. Í stað þess að gera hlé á þeim vilja sjálfstæðismenn nú að þeim verði hætt. Ég stóð að málamiðluninni á 40. landsfundinum og ætlun ráðamanna flokksins var að hún stæði áfram. ESB-aðildarsinnar spilltu þeim áformum. Niðurstaðan nú er ágæt, hún er afdráttarlausari en málamiðlunin. Hér má lesa frétt um afgreiðslu þessa máls.

Þrjár konur fluttu góðar ræður á landsfundinum í dag.

Ólöf Nordal kvaddi landsfundarfulltrúa sem varaformaður í eftirminnilegri ræðu þar sem hún gagnrýndi meðal annars umræðuhefðina í netheimum. Ólöf tók enn á ný upp hanskann fyrir Bjarna Benediktsson, formann flokksins, sem hún taldi sæta ómaklegum árásum meðal annars á netinu. Þegar Ólöf Nordal hverfur frá beinni þátttöku í stjórnmálum fækkar þingmönnum sem ávallt leggja áherslu á málefnaleg vinnubrögð og afstöðu. Af henni er eftirsjá.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, ákvað í dag að gefa kost á sér til 2. varaformanns í Sjálfstæðisflokknum. Henni mæltist vel í framboðsræðu sinni og höfðaði sterkt til fundarmanna þegar hún ræddi nauðsyn þess að breikka forystu flokksins. Undir orð hennar var tekið þegar samþykkt var að 2. varaformaður flokksins mætti ekki taka sæti í ríkisstjórn. Sveitarstjórnamenn skipta miklu innan Sjálfstæðisflokksins og ekki óeðlilegt að einn af þeim sækist eftir einni af æðstu trúnaðarstöðum flokksins.

Hanna Birna Kristjánsdóttir flutti glæsilega framboðsræðu til varaformanns. Henni var einstaklega vel tekið. Hún sýndi næma tilfinningu og náði góðu sambandi við fundarmenn.

Föstudagur 22. 02. 13 - 22.2.2013 22:41

Sat 41. landsfund sjálfstæðismanna síðdegis í dag. Forystumenn flokksins sátu fyrir svörum og formenn landssambanda sjálfstæðismanna fluttu ávörp. Klukkan 16.00 komu nefndir  saman. Ég sótti fund utanríkisnefndar. Lauk hún störfum fyrir kvöldmat. Ekki var hróflað við samkomulaginu um ESB-málið sem Friðrik Sophusson kynntum með sameiginlegri tillögu á landsfundi 2011 og var samþykkt þar.

Á nefndarfundinum komu fram tillögur sem voru róttækari til beggja átta það er með og móti í ESB-aðildarviðræðunum. Þær féllu fyrir gömlu sáttatillögunni. Á hinn bóginn er ljóst að róttækar tillögur kunna að koma fram á fundinum sjálfum við lokaafgreiðslu á tillögum málefnanefnda.

Við Kjartan Gunnarsson fluttum tillögur sem voru samþykktar til að andmæla áróðursstarfsemi sendiherra ESB hér á landi og útibúi stækkunardeildar ESB, Evrópustofu. Engin andmæli komu við tillögum um þetta efni.

Magnús Halldórsson, viðskiptafréttastjóri Stöðvar 2 og Vísis, ritaði fimmtudaginn 21. febrúar grein á visir.is þar sem hann kvartaði undan afskiptum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar (Baugi) af störfum ritstjórna á miðlunum sem ég hef kallað Baugsmiðla hér á síðunni í áranna rás.  Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, hefur tekið undir með Magnúsi og sagt að Jón Ásgeir hafi reynt að hafa áhrif á skrif um sig í Fréttablaðinu. Jón Ásgeir segir að Ólafur hafi ritað greinina með Magnúsi. Freyr Einarsson, ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, segist aldrei hafa orðið fyrir þrýstingi frá Jóni Ásgeiri. Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir að Magnús hafi skrifað grein sína gegn fyrirtækinu. Ari segir stöðu Ólafs Þ. Stephensens óbreytta.

Reynslan ætti að hafa kennt mönnum að ekkert er að marka yfirlýsingar Jóns Ásgeirs eða hans nánustu samstarfsmanna um afskipti hans af störfum blaðamanna á Baugsmiðlunum. Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi nefni ég dæmi um þessi afskipti. Unnt er að skoða þau þar. Þegar hæstiréttur sneri á dögunum dómi undirréttar mér í vil gegn Jón Ásgeiri gaf Freyr Einarsson fyrirmæli um fyrirsögn á frétt á visir.is mér í óhag. Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður á Stöð 2, sagði mér frá þessu eins og áður hefur birst hér á síðunni. Tók Þorbjörn fréttina af vefsíðunni þegar hann hafði áttað sig á efni málsins að fenginni kvörtun minni.

Magnús Halldórsson og Ólafur Þ. Stephensen eiga hrós skilið fyrir að segja skoðun sína. Fjölmargir starfsmenn 365 taka undir með þeim. Reynir Traustason, ritstjóri DV, birtir ítarlegar fréttir um málið. Hann ætti að segja frá samskiptum sínum við Jón Ásgeir, til dæmis þegar Reynir birti bútana úr fundargerðum stjórnar Baugs í Fréttablaðinu fyrir 10 árum til að koma höggi á Davíð Oddsson. Þá var ekki á opinberu vitorði að Jón Ásgeir ætti Fréttablaðið.

Fimmtudagur 21. 02. 13 - 21.2.2013 22:20

Bjarni Benediktsson lagði spilin vel á borðið í setningarræðu 41. landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Viðmælendur Gunnars Gunnarssonar í Spegli ríkisútvarpsins höfðu alltof mikla fyrirvara þegar þeir sögðu álit sitt á ræðunni og annar lét jafnvel eins og í henni hefði verið eitthvað að finna sem minnti á Jón Gnarr borgarstjóri. Allt sem Bjarni boðaði er framkvæmanlegt fái Sjálfstæðisflokkurinn til þess umboð.

Í Kastljósi spurði Helgi Seljan Bjarna um þau atriði í ræðunni sem honum þótti sérstaklega þarfnast skýringa og Bjarni svaraði skilmerkilega. Hann skaut sér ekki undan að svara eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerði þegar Helgi ræddi við hann eftir flokksþing framsóknarmanna. Svarið sem Sigmundur Davíð gaf um úrræði framsóknarmanna í þágu heimilanna var óskiljanlegt.

Bjarni sagði í ræðu sinni:

„Ísland er réttarríki. Hér á landi er lögð áhersla á að vernda eignarrétt og tryggja sanngjarna og eðlilega málsmeðferð. Við munum áfram standa vörð um þessi gildi. En, við ætlum ekki að sætta okkur við, að fyrir það eitt að erlendir aðilar hafi eignast kröfur á þrotabú fallinna einkabanka, þá sé þjóðinni allri, heimilunum og atvinnulífinu, haldið í spennitreyju gjaldeyrishafta.Fráfarandi ríkisstjórn hefur algerlega brugðist í þessum málum, hik og sleifarlag hefur einkennt allar aðgerðir hennar. Nú er kominn tími til að setja afarkosti með almannahag að leiðarljósi. Þessar kröfur þarf að afskrifa að verulegu leyti. Í þágu almannahags - í þágu heimilanna.“

Ekki er vafi á að þessi yfirlýsing Bjarna ein verður til þess að lækka kröfurnar í þrotabú föllnu bankanna. Verði henni fylgt eftir af staðfestu munu kröfuhafarnir slá enn frekar af kröfum sínum. Þeir keyptu þær á mun lægra verði en þeir vilja fá úr þrotabúunum. Mikilvægt er að fá til liðs við stjórnvöld í þessu efni menn sem þrautþjálfaðir eru í að glíma við vanda af þessu tagi, slíka sérfræðinga er ekki að finna í Seðlabanka Íslands og því síður hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sannaði enn í dag hve lítið erindi hann á á alþingi. Ég skrifaði um hann á Evrópuvaktina eins og sjá má hér.

 

Miðvikudagur 20. 02. 13 - 20.2.2013 18:40

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, telur sig hafa stöðu til að knýja fram afgreiðslu hins misheppnaða stjórnlagafrumvarps með því að flytja tillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Þrír þingmenn Hreyfingarinnar hafa haldið ríkisstjórninni á floti frá jólum 2011 í þeirri trú að á þann veg tryggðu þeir framgang nýrrar stjórnarskrár. Þór telur að stjórnarskráin 1944/1874 hafi valdið bankahruninu haustið 2008.

Enginn þingmaður hefur talað verr um alþingi en Þór Saari. Hann kveður sér varla hljóðs án þess að hallmæla þinginu sem stofnun. Þykist hann hafa stöðu til að segja öllum til syndanna og nú tekur hann lokasnúninginn með því að vilja fella ríkisstjórnina.

Arnar Páll Hauksson, fréttamaður ríkisútvarpsins, komst að þeirri niðurstöðu í samtali við Björn Val Gíslason, þingmann VG og varaformannsefni, í Speglinum í kvöld að vantrausttillagan yrði ekki samþykkt. Guðmundur Steingrímsson mundi fleyta ríkisstjórninni áfram og Róbert Marshall sæti utan þings með tryggan stuðningsmann ríkisstjórnarinnar í sinn stað í þingsalnum. Björn Valur róaðist í samtalinu við Arnar Pál og samsinnti honum, stjórninni væri borgið. Var þeim viðmælendunum báðum létt.

Augljóst er að fréttatofa ríkisútvarpsins vill ekki að ríkisstjórnin falli. Hún hefur jafnt og þétt reynt að róa Þór Saari og félaga undanfarna daga með fréttum af sáttatilraunum í stjórnarskrármálinu. Þær tilraunir eru aðeins á vitorði samfylkingarfólks enda snúast þær um sættir innan Samfylkingarinnar eins og hér er lýst.

Þór Saari sem alla skammar úr ræðustól alþingis og sakar um fávisku eða eitthvað annað enn verra er ekki betur að sér um stjórnarhætti en svo að hann heldur að unnt sé að mynda „starfsstjórn“ allra flokka fram að kosningum verði stjórn Jóhönnu og Steingríms J. felld þrátt fyrir stuðning Spegilsins. Starfsstjórn er stjórn sem ekki nýtur trausts meirihluta alþingis en situr þangað til mynduð er stjórn sem nýtur stuðnings meirihluta þingmanna.

Vilji Þór Saari ekki að Jóhanna og Steingrímur J. sitji í starfsstjórn fram að kosningum snúist meirihluti þings gegn þeim verður forseti Íslands að koma til sögunnar við myndun nýrrar stjórnar. Stjórn allra flokka á þingi yrði þjóðstjórn. Þór Saari vill komast í slíka stjórn (kannski sem forsætisráðherra?)  síðustu vikurnar sem hann situr á þingi. Líkindi til þess að það verði kunna að valda falli vantrauststillögu hans.

 

Þriðjudagur 19. 02. 13 - 19.2.2013 21:00

Vinur minn Hannes Hólmsteinn Gissurarson fagnaði 60 ára afmæli í dag. Hann flutti fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands um frjálshyggjuna, kreppuna og kapítalisminn Salurinn var þéttsetinn og góður rómur gerður að máli afmælisbarnsins.

Að loknum fyrirlestri Hannesar Hólmsteins var efnt til hófs í Hámu á Háskólatorgi og þar hyllti ég afmælisbarnið með ávarpi sem má lesa hér.

Í síðustu viku ræddi ég við Brynjar Níelsson á ÍNN, þátturinn verður á dagskrá sunnudaginn 3. mars en hann er þegar kominn á netið eins og sjá má hér

Það er síður en svo leikur að laga frumvarp stjórnlagaráðs að kröfum Feneyjanefndarinnar. Vilji menn vinna verkið vel, tekst það ekki á síðustu dögum þings fyrir kosningar.

Stjórnarskrármálið er í öngstræti og kemst ekki þaðan undir pólitískri yfirstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta er kjarni málsins. Sé hann ekki viðurkenndur halda vandræðin áfram án tillits þess hve lengi þingið verður látið sitja. Jóhanna á síst af öllu nokkuð inni hjá Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Hún hefur leitast við að nota stjórnarskrána í fjögur ár til að berja á Sjálfstæðisflokknum. Þingmenn flokksins ættu að láta Jóhönnu sitja uppi með málið í óefni.




Mánudagur 18. 02. 13 - 18.2.2013 20:55

Fréttir kvöldsins herma að viðræður séu hafnar milli þingmanna Samfylkingar og Framsóknarflokksins um að beyta einhverjum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hugmyndin um nýja stjórnarskrá  virðist þar með úr sögunni. Eigi að setja ný ákvæði í stjórnarskrá verður það gert í lýðveldisstjórnarskrána frá 1944. Til þessa hefur Jóhanna Sigurðardóttir viljað að sett yrði ný stjórnarskrá sem kenna mætti við hana. Draumur hennar er úr sögunni.

Fréttastofa ríkisútvarpsins sagði ekki frá málinu á þennan hátt. Þetta er þó meginfréttin núna. Fallið hefur verið frá áformum um nýja stjórnarskrá.

Á ruv.is má lesa í kvöld: „Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn hafa hafið formlegar samningaviðræður um hvernig afgreiða eigi stjórnarskrárfrumvarpið.“ Ber ekki að skilja þetta þannig að stjórnarskrárfrumvarpið sé ekki lengur á dagskrá heldur hvernig eigi að taka ákvæði úr því og fella inn í núgildandi stjórnarskrá? Hvaða annan skilning er unnt að leggja í þessi orð? Að núgildandi stjórnarskrá verði felld inn í frumvarpið sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins hefur flutt?

Stjórnarskrármálið er á sama reit og það var um þetta leyti fyrir fjórum árum. Þá tóku þingmenn Samfylkingar og Framsóknarflokks höndum saman um breytingu á stjórnarskránni. Samstarfið snerist einkum um að svipta alþingi valdi stjórnlagagjafans og færa það annað. Þessi atlaga að valdi alþingis misheppnaðist og ekki varð nein breyting á stjórnarskránni. Jóhanna Sigurðardóttir hélt illa á málinu og klúðraði því vegna þvermóðsku sinnar. Hún kann ekki að semja. Hefur hún lært eitthvað á fjórum árum?

Steingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósi kvöldsins að Samfylkingin undir forystu Jóhönnu hefði haldið vitlaust á ESB-málinu eftir kosningarnar 25. apríl 2009 þegar hún neitaði að leggja það undir dóm kjósenda áður en sótt var um aðild. Steingrímur J. sagðist hafa viljað fara þá leið en Jóhanna mátti ekki heyra á það minnst. ESB-umsóknin er nú í klessu og 77% þjóðarinnar eru á móti aðild.

Það verður æ óskiljanlegra hvers vegna ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hafa svo lengi látið stjórnast af þvermóðsku Jóhönnu Sigurðardóttur. Hafi verið tilgangur hennar að eyðileggja VG og stjórnmálaferil Steingríms J. tókst það. Málefnin er almennt í verri stöðu en þegar ríkisstjórnin tók að glíma við þau.  

Sunnudagur 17. 02. 13 - 17.2.2013 23:10

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, tilkynnti í dag að hún ætlaði að bjóða sig fram til formanns á landsfundinum eftir viku. VG þróast á svipaðan hátt og flokkar græningja víða í Evrópu þar sem vinstrisinnað menntafólk tekur höndum saman og setur umhverfisvernd á oddinn í stað marxisma og sósíalisma áður. Almennt sættir þetta fólk sig vel við yfirþjóðlegt vald innan Evrópusambandsins. Daniel Cohn-Bendit, vinstrisinnaður aðgerðarsinni í París vorið 1968 og núverandi ESB-þingmaður, er dæmigerður fulltrúi þessa fólks.

Eftir val VG á lista í Reykjavík var haft á orði að þar hefðu aðeins nokkrar fjölskyldur átt aðild að ákvörðun um framboðslistans og Birni Vali Gíslasyni hefði þess vegna verið hafnað. Enn færri tóku þátt í vali á framboðslistann í Norðausturkjördæmi þar sem Steingrímur J. hlaut aðeins 199 atkvæði. Björn Valur hefur setið á þingi fyrir það kjördæmi.

Fylgiskannanir í Reykjavík benda til þess að VG sé 101 og 107 flokkur í kringum Háskóla Íslands. Einmitt þess vegna varð flokksforystan fyrir léttu áfalli þegar Vaka hlaut 77% atkvæða í kosningunum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands á dögunum.

Daginn áður en Steingrímur J. boðaði afsögn sína sem flokksformaður birtist (16. febrúar) viðtal á Smugunni, vefsíðu VG, við Jóhann Pál Jóhannsson, heimspekinema, efsta mann á lista Röskvu fyrir hugvísindasvið HÍ.  Hann sagði: ,,Þegar Röskva galt þetta afhroð hafði ég fyrst á tilfinningunni að þetta væri einhvers konar fyrirboði fyrir þingkosningarnar í vor. Mér fannst það einna verst. [...] Ég fékk algjört sjökk (svo!) þegar ég heyrði úrslitin því mín tilfinning var allt önnur fyrir kosningarnar.“ Jóhann Páll taldi þó ólíklegt að 77% stúdenta ætlaði að kjósa „hægri öfl“ í vor.

Verði Katrín Jakobsdóttir formaður VG mun sókn flokksins eftir atkvæðum einskorðast við  vinstrisinnaða menntamenn með umhverfisáhuga og ofurtrú á valdi teknókrata og þess vegna einlægan áhuga á aðild að ESB. Áhugi þessa fólks á undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar er í lágmarki. Leiðir þess til tekjuöflunar eru allt aðrar og taka mið af ríkisútgjöldum og ESB-styrkjum, þar á meðal IPA-aðlögunarstyrkjum sem beinast nú þegar helst að sviðum undir stjórn ráðherra VG.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna í tilefni af 18 ára afmæli hennar.

 

Laugardagur 16. 02. 13 - 16.2.2013 22:41

Þegar sagt var frá ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar um að láta af formennsku í VG í sjónvarpsfréttum ríkisins var meðal annars birtur bútur úr ræðu hans á alþingi þar sem hann kallaði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, gungu og druslu. Samhliða þessum skömmum hefði fréttastofan átt að sýna myndbrotið af því þegar Steingrímur J. öskraði „Étt‘ann sjálfur!“ og lagði síðan hendur á Geir H. Haarde, þáv. forsætisráðherra, þar sem hann sat við hlið forsetastólsins. Einnig hefði mátt birta samtalsbrotið eftir að samþykkt var að draga Geir H. Haarde fyrir landsdóm og Steingrímur J. sagðist hafa greitt atkvæði með því með „sorg í hjarta“.

Ég skrifaði um afsögn Steingríms J. á Evrópuvaktina eins og lesa má hér. Þegar litið er á efni málsins kemur ákvörðunin ekki á óvart. Steingrímur J. hefur leitt VG í öngstræti vegna alls sem hann hefur fórnað fyrir ráðherrastólinn. Verst hefur hann leikið flokkinn og trúverðugleika hans með stuðningi við ESB-aðildarumsóknina. Að fórna flokki og stjórnmálaframa fyrir þann málstað sýnir mikla valdafíkn.

Nú má sjá viðtal mitt við Arnar Þór Jónsson, sérfræðing við lagadeild Háskólans í Reykjavík, á ÍNN hér á netinu.

Þess er minnst í Morgunblaðinu í dag að brátt eru 10 ár liðin frá því að hús Orkuveitu Reykjavíkur var tekið í notkun. Frásögn blaðsins er ágæt svo langt sem hún nær. Því fer hins vegar víðs fjarri að hún segi alla söguna.

Ég sat í borgarstjórn á þessum árum og hér á síðunni má finna frásagnir af viðleitni minni við að fá upplýstan kostnað við smíði hússins. Ég taldi þá að ráðamenn innan OR færu með rangt mál þegar þeir nefndu tölur um byggingarkostnað. Það hefur reynst rétt. Blekkingarnar voru miklar, raunar meiri en mig grunaði þá.

Sala hússins nú til að OR geti leigt það aftur er leikflétta sem léttir ekki byrðar af okkur viðskiptavinum OR vegna hússins.

Á þessum árum gagnrýndi ég einnig erlenda lántöku OR og var svarað með fullyrðingum um að OR hefði þann styrk að sjálfsagt og eðlilegt væri fyrir fyrirtækið að nýta tækifæri til lántöku í útlöndum. Allir sjá nú að menn reistu sér þar hurðarás um öxl. OR er nú fast í greipum erlendra lánveitenda og viðskiptavinir með skuldirnar á herðum sér.

Föstudagur 15. 02. 13 - 15.2.2013 21:40

Um síðustu helgi birtust fréttir um að fram færu viðræður á bakvið tjöldin um að búta tillögur stjórnlagaráðs niður og samþykkja einhvern hluta stjórnlagatillagnanna í stað þeirra allra. Þegar þing kom saman sl. mánudag og þingflokkur Samfylkingarinnar hittist var slegið á allar hugmyndir um bútasaum í stjórnarskrármálinu. Var augljóst að Jóhanna Sigurðardóttir hafði heimtað að siglt yrði áfram með stjórnarskrártillögurnar þótt þær sætu fastar á skeri. Virtust einhverjir trúa að björgun bærist frá Feneyjanefndinni, ráðgjöfum um stjórnarskrármálefni á vegum Evrópuráðsins.

Álit Feneyjanefndarinnar var kynnt í vikunni. Álítið eykur á vanda þeirra sem fylgja stefnu Jóhönnu í stjórnarskrármálinu. Eigi að fara að álitinu þarf að fara yfir stjórnlagatillögurnar í heild, stokka þær upp og huga auk þess að ýmsum mikilvægum greinum.

Þingflokkur Samfylkingarinnar kom saman í dag til sérstaks fundar um stjórnarskrármálið. Að honum loknum gaf Jóhanna Sigurðardóttir ekki yfirlýsingu heldur Árni Páll Árnason flokksformaður sem sagði meðal annars við fréttastofu ríkisútvarpsins:

„Við ræddum auðvitað slíka möguleika [bútasaum]. Við ræddum einnig ábendingu Feneyjanefndarinnar um að einfalda breytingaferli stjórnarskrárinnar til þess að auðvelda úrvinnslu einhverra áfanga á síðari stigum, en það var engin niðurstaða í því. Við verðum auðvitað að bíða eftir því að þau öfl sem hingað til hafa hingað til beitt málþófi komi með jákvæðar tillögur um hvernig hægt sé að finna málinu frekari framgang. Við þurfum að fara yfir málið með öðrum flokkum og finna málinu eins heppilegan farveg og mögulegt er.“

Þetta er skrýtið svar miðað við heitstrengingarnar í upphafi vikunnar. Samfylkingin tekur enga efnislega afstöðu frekar en fyrri daginn. Nú er það ekki Feneyjanefndin sem á að rétta hjálparhönd heldur stjórnarandstaðan, þeir sem hafa „beitt málþófi“. Það eru þeir sem eiga að kynna „jákvæðar“ tillögur um hvernig þoka eigi stjórnarskrármálinu áfram. Finna á málinu farveg með öðrum flokkum.

Spurningin er: Styður Jóhanna Sigurðardóttir þessa afstöðu Árna Páls? Eða Þór Saari? Stjórnarandstöðunni ber síður en svo nokkur skylda til að hjálpa Samfylkingunni úr stjórnarskrárvíti hennar. Hæfilegt er að málið sé skilið eftir í núverandi stöðu fram yfir kosningar og tekið verði á því í heild að nýju að þeim loknum. Nokkrum stjórnlagaráðsliðum er orðið ljóst að þetta er staðan og hafa þeir því stofnað nýjan stjórnmálaflokk til að berjast fyrir málstað sínum í von um að hafa bein áhrif á þingi að kosningum loknum.

 

Fimmtudagur 14. 02. 13 - 14.2.2013 22:20

Æ betur skýrist að pólitísk afskipti Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra af lögreglurannsókn bandarískra og íslenskra yfirvalda stafa af tilraun hans til að halda verndarhendi yfir Wikileaks upplýsingavefsíðunni en Julian Assange, upphafsmaður hennar, er í sjálfskipuðu stofufangelsi í sendiráði Ekvador í London af því að hann þorir ekki að mæta fyrir dómara í Svíþjóð. Hönnuð hefur verið samsæriskenning um að fari Assange til Stokkhólms verði hann framseldur til Bandaríkjanna.

Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, segir á fasbókarsíðu sinni í dag:

„Þetta er ein umfangsmesta sakarannsókn síðari tíma og engu er eirt í ofstækinu eins og Íslandsheimsóknin sannar. Og hver er glæpurinn? Jú að birta eins og hver annar fjölmiðill og í samstarfi við 100 aðra fjölmiðla, opinber skjöl m.a. um stríðsglæpi og vafasama utanríkisstefnu stjórnvalda. Það hefur aldrei áður verið gerð jafn viðamikil og meðvituð tilraun til að drepa sendiboðann.

Á ég að trúa því þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks vilji aðstoða við þessar nornaveiðar? Endilega svarið því fyrir stjórnarmyndun í vor svo ég geti gert persónulegar ráðstafanir í samræmi við svörin.“

Óljóst er hvað niðurlagsorð Kristins þýða. Hitt er ljóst að hann telur að Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson hafi gengið í lið með sér og Wikileaks til að hefta rannsókn FBI hér á landi. Að innanríkis- og utanríkisráðherrar lands skuli beita valdi sínu á þennan hátt þegar rannsókn á vegum lögreglu og ákæruvalds er annars vegar sýnir virðingarleysi fyrir lögum og rétti.

Hvers vegna má ekki rannsaka starfsemi Wikileaks? Hafi engin lög verið brotin þurfa Julian Assange og Kristinn Hrafnsson ekkert að óttast. Af hverju er Kristinn svona hræddur? Ætlar hann að sækja um hæli með Assange verði stjórnarskipti á Íslandi?

Það er furðuleg staða sem þessir Wikileaks-menn hafa skapað sér. Þeir birta gögn sem kemur fjölda fólks í vanda, meðal annars embættismönnum íslenska utanríkisráðuneytisins. Birt var skjal sem sýndi að Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, hefði farið í sendiráð Bandaríkjanna í byrjun janúar 2010 og sagt að Ísland yrði gjaldþrota árið 2011 drægist Icesave-málið  á langinn.

Nú telur Kristinn sjálfsagt og eðlilegt að utanríkisráðuneytið líti á Wikileaks sem hvern annan fjölmiðil og taki þátt í að spilla pólitísku sambandi við Bandaríkin í þágu Wikileaks. Þar eru ekki íslenskir hagsmunir í húfi heldur einkahagsmunir Kristins og Assange. Það eru hörmuleg mistök að blanda íslenska ríkinu og þjóðinni á þennan hátt inn i þetta mál.

 

 

Miðvikudagur 13. 02. 13 - 13.2.2013 22:50

Í dag ræddi ég við Arnar Þór Jónsson, sérfræðing við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í þætti mínum á ÍNN. Tilefni samtals okkar er grein Arnars Þórs í nýjasta hefti Úlfljóts, tímarits laganema við Háskóla Íslands, um traust á dómstólunum. Þetta er mikilvægt umræðu- og umhugsunarefni. Arnar Þór er vel til þess fallinn að ræða þetta mál enda hefur hann bæði starfað í héraðsdómi og hjá hæstarétti.

Þátturinn verður næst á dagskrá á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00. Í þættinum gerðist það sem aldrei hefur komið fyrir mig áður að það var komið fram í miðjan fyrri hluta þáttarins þegar ég áttaði mig á því að ég hafði gleymt að setja á mig gleraugun eftir að ég var sminkaður. Fann ég fyrir þessu þegar ég átti erfitt með að sjá hvað tímanum leið á klukkunni í upptökuherberginu.

Kvikmyndin Zero Dark Thirty um leitina að Osama bin Laden, leiðtoga al-Kaída og endalok hans undir leikstjórn Kathryn Bigelow var frumsýnd 19. desember 2012 í Los Angeles hefur verið tilnefnd ein af bestu myndunum við Óskarsverðlaunin sem verða afhent eftir rúma viku.

Myndin hefur vakið deilur og í Hollywood vildu einhverjir setja hana á bannlista svo að hún kæmi ekki til álita við Óskarsverðlaunin vegna atriða í henni sem sýna pyntingar CIA á hryðjuverkaföngum. Um það er meðal annars deilt hvort pyntingar hafi leitt CIA á slóð bin Ladens eins og fram kemur í myndinni. Í nafni tjáningar- og sköpunarfrelsis höfnuðu menn því að setja myndina á bannlista.

Ýmsir töldu að myndin kynni að verða frumsýnd fyrir bandarísku forsetakosningarnar og hún yrði Barack Obama til framdráttar þar sem atlagan að bin Laden er meðal þess sem Obama er talið helst til tekna og í myndinni kemur fram að forsetinn tók að lokum af skarið um að farið skyldi að ráðum CIA-fólksins sem taldi bin Laden dveljast í húsinu í Abottabad þar sem hann fannst að lokum og var drepinn.

Það er vandi að halda spennu í mynd sem öllum sem fylgjast með fréttum vita hvernig endar. Kathryn Bigelow tekst það með ágætum og lokaatriðið er mjög fagmannlega gert í senn af hörku og hógværð .

Þriðjudagur 12. 02. 13 - 12.2.2013 21:10

Fráleitt er að unnt sé að skauta fram hjá áliti Feneyjanefndarinnar við frekari meðferð á frumvarpi stjórnarflokkanna að nýrri stjórnarskrá. Nauðsynlegt er að rýna nákvæmilega í það og skoða þær ábendingar sem þar koma fram. Þær bera allar með sér að sú gagnrýni á við full rök að styðjast að stjórnarskrárfrumvarpið er hálfkarað. Þá telur nefndin einnig í raun fráleitt að afgreiðsla stjórnarskrár sé knúin fram í þeirri ósátt sem ríkir um tillögur stjórnlagaráðs. Óhjákvæmilegt er að þetta mál verði lagt til hliðar og skoðað að nýju frá grunni.

Frásagnir af samskiptum íslenskra yfirvalda við FBI vegna gruns um netarásás á íslenska stjórnarráðið bera með sér að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur hlutast til um málefni á verksviði lögreglu og ákæruvalds á flokkspólitískum grunni. Á visir.is  er í dag sagt frá komu Ögmundar á fund allsherjar- og menntamálanefndar þingsins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sat fundinn. Hún segir á visir.is að Ögmundi hafi greinilega orðið á mistök í þessu máli sem beri keim taugaveiklunar og „kanafóbíu“. Ögmundur hafi vegið „alvarlega að sjálfstæði ákæruvaldsins“. „Fundurinn kallar í raun á fleiri spurningar en hann svaraði," sagði Þorgerður Katrín að lokum.

Að svo sé kemur ekki á óvart. Þegar Ögmundur Jónasson lendir í vandræðum vegna embættisfærslu sinnar veður hann úr einu í annað í því skyni að dreifa athygli frá kjarna málsins. Tvennt er ljóst: Ögmundur hikar ekki við að beita pólitísku valdi gagnvart embættismönnum í því skyni að laga stöðu mála að flokkspólitískum hagsmunum sínum. Ögmundur er haldinn „kanafóbíu“ á hástigi eins og sannaðist nýlega með ræðu hans gegn Ísrael við bandaríska sendiráðið á Laufásvegi. Enginn þarf að fara í grafgötur um að Ögmundur telur sér það pólitískt til framdráttar að vekja tortryggni í garð FBI, bandarísku alríkislögreglunnar. Hið sama má raunar segja um undileikara hans í þessu máli Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

Mánudagur 11. 02. 13 - 11.2.2013 18:55

 

Engum blöðum er um að fletta að fyrir helgi var unnið að því á bakvið tjöldin að leita leiða til sameiginlegrar niðurstöðu um stjórnarskrármálið á alþingi. Öllum skynsömum mönnum ætti að vera ljóst að ekki er unnt að afgreiða málið á þessu þingi nema kastað sé til þess höndunum. Málið snýst ekki lengur um góðan vilja neins eða andstöðu heldur hreinlega skort á tíma til að vinna verkið á þann veg að til sóma sé og hæfi stjórnarskrá og þeim gögnum sem óhjákvæmilegt er að henni fylgi. Engu er líkara en að á þingi hafi menn raunverulega trúað að stjórnlagaráðið hafi gengið þannig frá málinu að unnt væri að taka það til afgreiðslu.

Málinu er alls ekki þannig háttað. Margar yfirlýsingar stjórnlagaráðsliða benda til að þeir hafi ekki lesið eigin tillögur í samhengi og lagt niður fyrir sér hvernig staðið yrði að málum næðu þær fram að ganga. Ég hef fengið tvo viðmælendur til mín á ÍNN um málið, annars vegar gamalreyndan stjórnmálamann, Sighvat Björgvinsson, hann var um tíma formaður Alþýðuflokksins, og hins vegar Stefaníu Óskarsdóttur, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hvorugt hefur neinna hagsmuna að gæta varðandi tillögur stjórnlagaráðs annarra en þeirra að þau hafa þekkingu á málinu, vegna starfsreynslu og fræðistarfa. Bæði gagnrýndu þau frumvarpið með svo sterkum rökum að beinlínis er hættulegt að festa það óbreytt í lög. Íslensku stjórnkerfi er kollvarpað án þess að nokkur leið sé að gera sér grein fyrir hvað kemur í stað þess kerfis sem nú er lögfest.

Glundroðinn sem ríkir á alþingi og í landstjórninni við lok stjórnmálaferils Jóhönnu Sigurðardóttir er algjör: Landspítalinn er að sligast vegna óþolandi vinnubragða velferðarráðherra; sjávarútvegurinn er enn í uppnámi vegna enn eins frumvarpsins um að vegum rótum velgengni í fiskveiðum; aðilar vinnumarkaðarins hafa slitið stjórnmálasambandi við ríkisstjórnina og algjör óvissa ríkir um framtíð stjórnarhátta landsins.

Á meðan þingflokkar komu ekki saman vegna hlés í störfum alþingis reyndi nýr formaður Samfylkingarinnar að þreifa fyrir sér um samkomulag vegna stjórnarskrármálsins. Strax og þingflokkur Samfylkingarinnar hittist í dag er slegið á fingurna á honum og hann lætur fréttastofu ríkisútvarpsins ná í sig til að segja að stefnt sé að afgreiðslu hins meingallaða stjórnarskrárfrumvarps fyrir þinglok.

Sunnudagur 10. 02. 13 - 10.2.2013 22:15

Þorrablótið í Fljótshlíðinni heppnaðist vel og var fjölmennt. Milt veðrið minnti hins vegar ekki mikið á þorrann. Enn er beðið ákvarðana um næstu skref eftir að heita vatnið fannst í landi Goðalands þar sem þorrablótið var haldið. Sveitarfélagið á landið og er það því alfarið á valdi sveitarstjórnarinnar að grípa til næstu ráða vegna heita vatnsins.

Í gær rifjaði ég upp að Ólafur Jóhannesson samdi lögin um verðtrygginguna við eldhúsborðið á Aragötunni eins og hann sagði sjálfur. Á Vef-Þjóðviljanum ræddu menn einnig um fyrri ákvarðanir framsóknarmanna og sögðu:

„Er ekki hin helsta tillagan af flokksþinginu [Framsóknarflokksins 2013] sú að „húsnæðislán verði leiðrétt á sanngjarnan hátt“? Eru það ekki helst verðtryggðu 90% lánin sem flokkurinn hafði forgöngu um að Íbúðalánasjóður fór að veita fyrir nær áratug? Lánin sem flokkurinn lét hækka úr 70 í 90% vill hann nú „leiðrétta“ til baka um 20%.“

Ég man vel eftir kosningabaráttunni 2003 og framboðsfundi í banka þar sem menn áttu ekki nógu sterk orð til að lýsa hneykslan sinni í 90% loforði framsóknarmanna. Fundarmenn voru ekki í nokkrum vafa um að þetta væri hið mesta óráð sem mundi leiða til ófarnaðar fyrir bankana og lántakendur. Framsóknarmenn sátu áfram í stjórn með okkur sjálfstæðismönnum eftir kosningarnar 2003. Þeir báru pólitíska ábyrgð á Íbúðarlánasjóði og 90% lánin komu til sögunnar.

Í stað þess að bankarnir mótmæltu þessu ráðslagi hjá Íbúðarlánasjóði reyndu þeir að yfirbjóða hann með 100% lánum. Eftir það áttaði ég mig betur á því en áður að ekki er allt sem sýnist í tali bankamanna um hvað sé skynsamlegast að gera á markaðnum. Nú vitum við til hvers þessi yfirboð leiddu.

 


Föstudagur 08. 02. 13 - 9.2.2013 23:00

Árangur Vöku í stúdentaráðskosningunum sem kynntur var í gær er glæsilegur. Félagið fékk 77% atkvæða. Röskva sem sameinar félagshyggjufólk í Háskóla Íslands, stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna, fékk aðeins 6 af 27 stúdentaráðsliðum. Nú var í fyrsta skipti kosið eftir nýjum reglum. Kosnir voru sviðsfulltrúar á fimm fræðasviðum háskólans.. Saman mynda sviðsfulltrúarnir eitt stúdentaráð.

Þetta er  glæsilegasti sigur í sögu Vöku.

Frá því er sagt á vefsíðu BBC að Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi hafi verið dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik auk þess eigi hann að greiða 62 milljónir króna í sekt. Vitnað er í Jón Ásgeir sem segir að sektin sé „peanuts“ miðað við kostnaðinn við stofna til málsins. BBC segir frá fyrirtækjum á Bretlandi þar sem Jón Ásgeir hafi átt hlut áður en hin hnattræna fjármálakreppa hófst.

Þess er getið að Kristín Jóhannesdóttir, systir Jóns Ásgeirs, og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi samstarfsmaður þeirra, hafi einnig verið fundin sek. Baugur hafi lýst sig gjaldþrota árið 2009 og þá hafi hann skuldað 1 milljarð punda (200 milljarða ISK).

Yfirlýsingin sem Jón Ásgeir birti eftir að dómur hæstaréttar féll fimmtudaginn 7. febrúar er enn eitt dæmið um hroka hans í garð þeirra sem hann telur að geri á sinn hlut. Hann leggur á sig krók til að ráðast á mig eins og vandi hans er þegar þessi mál hans eru á döfinni.

Jón Ásgeir ætlar fara með málíð fyrir mannréttindadómsólinn í Strassborg. Á sínum tíma kærði hann niðurstöðuna í sakamálinu gegn sér til Strassborgar. Dómarar töldu málið ekki eiga heima hjá dómstólnum. Þá var kæran meðal annars reist á því að um pólitísk málaferli væri að ræða og vísað til orða sem ég hafði látið fara því til staðfestingar.

 

Laugardagur 09. 02. 13 - 9.2.2013 18:40

Fréttir af stöðu mála á Landspítalanum og lýsingar á hættuástandi þar vekja spurningu um hvers vegna í ósköpunum Guðbjartur Hannesson segi ekki af sér störfum velferðarráðherra. Öllum ætti að vera ljóst að aldrei tekst að leysa þann hnút sem myndast hefur á spítalanum á meðan æðsta stjórn velferðarmála er í höndum Guðbjarts. Önnur eins stjórnsýsla og einkennir starfshætti ráðherrans er sem betur fer einsdæmi. Ekkert annað kemur til greina en að binda strax enda á hana með brottrekstri ráðherrans.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra heldur verndarhendi yfir Guðbjarti. Hún vildi meira að segja að hann yrði eftirmaður sinn sem formaður Samfylkingarinnar. Í þann mund sem formannskjörið var á lokastigi var látið við hjúkrunarfræðinga eins og glufa hefði skapast fyrir tilverknað ráðherrans. Glufan breyttist í úrslitakosti eftir að Guðbjartur tapaði kosningunni. Jóhanna treystir honum til að bera pólitíska ábyrgð á ráðstöfun á um 50% af útgjöldum íslenska ríkisins. Guðbjartur er dæmigert sjúkdómseinkenni lélegra stjórnarhátta undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.

Þótt Guðbjartur sé skjólstæðingur Jóhönnu Sigurðardóttur ber Árni Páll Árnason, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, endanlega pólitíska ábyrgð á setu Guðbjarts í ríkisstjórninni. Árni Páll hefur ekki styrk innan þingflokks Samfylkingarinnar til að ýta Jóhönnu til hliðar. Hann verður hins vegar að krefjast þess af þingflokknum að Guðbjartur Hannesson sé knúinn til að segja af sér. Því verður ekki trúað að þingmennirnir sætti sig við að innra starf Landspítalans sé lagt í rúst rúmum tveimur mánuðum fyrir þingkosningar og öryggi landsmanna ógnað.

Þegar fluttar eru fréttir um að framsóknarmenn álykti á flokksþingi að afnema beri verðtrygginguna verður mér hugsað til laganna sem Ólafur Jóhannesson, þáverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, samdi við eldhúsborðið á Aragötunni snemma árs 1979, Ólafslaganna. Þar var mælt fyrir um verðtryggingu. Ólafur beitti pólitískri kænsku til að knýja á um samþykkt laganna og storkaði ráðherrum í stjórn sinni, úr Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi.  Nú vilja framsóknarmenn kasta Ólafslögum og telja þau hinn mesta vágest. Sic transit ...

 

 

 

Fimmtudagur 07. 02. 13 - 7.2.2013 23:40

Við héldum eldsnemma af stað frá Róm með Lufthansa í morgun til München og þaðan til Keflavíkur með Icelandair þar sem vélin lenti nákvæmlega á áætlun. Jörð var alhvít í München. Þegar ég ók fram hjá Dalshrauni í Hafnarfirði bilaði bíllinn, ég kom honum inn á Max1.Úr því að þetta varð að gerast, gat það ekki orðið á betri stað.

Á meðan ég beið eftir flugvélinni í München skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina sem má lesa hér. Þar lýsti ég þeirri skoðun að umræður um fangaflug og Ísland mætti að nokkru skýra sem leit vinstri-grænna að kosningamáli. Þegar ég hlustaði á Spegil fréttastofu ríkisútvarpsins í kvöld þar sem rætt var við Árna Þór Sigurðsson (VG), formann utanríkismálanefndar alþingis, undanfarin ár eins og hann bæri enga ábyrgð á að ekki hefði verið upplýst um það sem hann og aðrir telja vanta til að svara spurningum um fangaflugvélar eða ákvarðanir íslenskra stjórnvalda vegna innrásarinnar í Írak síðla vetrar 2003.

Í tíu ár hefur fréttastofa ríkisútvarpsins látið eins og eitthvað sé óupplýst varðandi þessi mál og á vegum hennar velta menn vöngum um málið í samtölum við Árna Þór og aðra sem tala í hálfkveðnum vísum og um að rannsaka þurfi hitt og þetta án þess að hafa sjálfir dug eða styrk til að gera það.

Hvers vegna leggjast fréttamenn ríkisútvarpsins ekki í þær rannsóknir sem þeir telja að þurfi til að upplýsa þessi mál? Er það ekki hlutverk þeirra sem fréttamanna? Eða er hlutverkið að gefa fylgislausum forystumönnum VG tækifæri til að velta sér upp úr einhverju sem þeir eiga sjálfir að leiða til lykta vegna ábyrgðar sinnar meðal annars í formennsku utanríkismálanefndar alþingis?

Nú virðist nýtt mál á döfinni sem geti orðið að óupplýstu máli í áratug eða svo. Það snertir rannsókn sem FBI-lögreglumenn stunduðu hér á landi með vitund íslenskra yfirvalda á póltíska ábyrgð Ögmundar Jónassonar ráðherra. Hvers vegna er málið ekki tekið fyrir á alþingi og Ögmundur látinn upplýsa það?  Ögmundur slær úr og í. Hann ætlar kannski að skýra frá málavöxtum á mótmælafundi við bandaríska sendiráðið?

Viðtalsþáttur minn við Stefaníu Óskarsdóttur, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, á ÍNN hinn 3. febrúar um stjórnarskrármálið er kominn á netið og má skoða hann hér.

Miðvikudagur 06. 02. 13 - 6.2.2013 17:15

Þing ATA, Atlantic Treaty Association, hélt áfram í Róm í dag og lauk með því að við hittum borgarstjóra Rómar í hinu glæsilega safni á Kapítol-hæðinni.

Um efni þingsins mun ég fjalla eftir heimkomu. Ítalir stóðu vel að vali á ræðumönnum og var mikill fróðleikur á borð borinn.

Þriðjudagur 05. 02. 13 - 5.2.2013 23:55

Síðan mín lá niðri í dag og fram á miðvikudaginn 6. febrúar. Blaðamaður vakti athygli mína á því. Ég gat ekki svarað honum hvort um tölvuárás hefði verið að ræða. Hugsmiðjan vistar síðuna, þar telja menn nauðsynlegt að uppfæra hana í nýtt kerfi.

Ég sat frá morgni til kvölds á 58. þingi Atlantic Treaty Association (ATA) sem að þessu sinni er haldið í Róm, nánar tiltekið í NATO´s Defence College í útjarðri borgarinnar eilífu.

Mánudagur 04. 02. 13 - 4.2.2013 18:20

Það var gaman að fara um Rómaborg í gær og skoða kunnuglega staði. Jólatréð stendur enn skreytt á Péturstorginu. Mikill mannfjöldi var í Péturskirkjunni eins og jafnan áður.

Veðrið var sólbjart og einnig í dag en þá sat ég frá morgni til kvölds á fundi í sal ítalska þingsins þar sem fram fór fundur ATA-samtakanna þar sem Varðberg er meðal aðildarfélaga. Rætt var um málefni samtakanna og fulltrúar nokkurra aðildarfélaga gerðu grein fyrir því sem efst er á baugi hjá þeim.

Sunnudagur 03. 02. 13 - 3.2.2013 22:41

Árni Páll Árnason, nýr formaður Samfylkingarinnar, telur sig hafa vald til að ákveða hvort Jóhanna Sigurðardóttir situr áfram sem forsætisráðherra eða ekki. Því er hampað að hann hafi talað frá hægri í ræðu sinni á landsfundinum. Tali hann frá hægri en lætur Jóhönnu sitja áfram er talið merkingarlaust.

Telji Árni Páll að Jóhanna sjái kannski það sem hann hefur ritað á vegginn sýnir það aðeins pólitískt skilningsleysi. Jóhanna hefur aldrei sé það sem skrifað er á vegginn, hún lifir aðeins í eigin hugarheimi. Leitun er að forsætisráðherra sem farið hefur verr með vald sitt en hún. Árni Páll verður að beita pólitísku afli og snúa þingflokki Samfylkingarinnar á sveif með sér ef hann ætlar að losna við Jóhönnu.

Líklegast er að þetta sé allt í nösunum á Árna Páli. Hann er ekki maður pólitískrar sannfæringar. Hann kom inn í Samfylkinguna frá vinstri, úr Alþýðubandalaginu. Um tíma starfaði hann í utanríkisþjónustunni og taldi síðar að sími sinn hefði verið hleraður, Hann hafði ekkert fyrir sér í því. Árni Páll var handgenginn Halldóri Ásgrímssyni sem utanríkisráðherra og veitti honum ráðgjöf.

Nú er sem sagt talið að Árni Páll ætli að ögra Sjálfstæðisflokknum og það frá hægri. Auðvitað er nauðsynlegt að átta sig vel á því hvað Árni Páll hefur fram að færa. Hitt skiptir þó ekki síður máli að skoða pólitíska fortíð hans sem einkennist ef sérstæðu ístöðuleysi og tækifærismennsku. Að slíkur maður veljist til forystu í Samfylkingunni er rökrétt miðað við stefnu flokksins og stöðu hans núna þegar menn átta sig á hve lítið hald er í flokknum fyrir þjóðarhag. Hann spólar í hjólförum óvildar sem jaðrar við hatur á Sjálfstæðisflokknum.

Laugardagur 02. 02. 13 - 2.2.2013 18:10

Flugum í dag um München til Rómar með Icelandair og Lufthansa. Báðar vélar á áætlun og ferðalagið gekk eins og í sögu.

Nýjasti þáttur minn á ÍNN er kominn á netið, viðtal við Sindra Sigurgeirsson, sauðfjárbónda í Bakkakoti í Stafholtstungum, sem fyrst var sýnt miðvikudaginn 30. janúar. Viðtalið má sjá hér Sindri gefur kost á sér til formennsku í Bændasamtökum Íslands.

Á morgun, sunnudag klukkan 17.00, ræði ég við Stefaníu Óskarsdóttur, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, á ÍNN. Er þetta annar þáttur af fjórum sem ég geri um stjórnarskrármálið. Því fleiri sem ég fæ til viðræðna um málið þeim mun sannfærðari verð ég um hve hættulegt er að samþykkja tillögurnar sem liggja fyrir alþingi.

Árni Páll Árnason var kjörinn formaður Samfylkingarinnar í dag. Um leið og ég óska honum til hamingju með kjörið hvet ég hann til að afturkalla stjórnarskrártillögurnar. Hann gæti ekki sýnt á skýrari hátt að umskipti hefðu orðið í Samfylkingunni. Katrín Júlíusdóttir, efnahags- og fjármálaráðherra var kjörin varaformaður. Henni eru fluttar heillaóskir með sömu hvatningarorðum og til Árna Páls.

Á kjörskrá voru 18.318 og greiddu 5.621 atkvæði. Af þeim atkvæðum sem bárust voru 5241 rafræn en 380 bárust með hefðbundnum pósti. Atkvæði féllu þannig:

Guðbjartur Hannesson hlaut 2.115 atkvæði - 37.8% atkvæða. Árni Páll Árnason hlaut 3.474 atkvæði - 62.2% atkvæða. Auðir seðlar og ógildir voru 32. Innan við 20% þeirra sem voru á kjörskrá studdu Árna Pál. Kosningaþátttakan var aðeins tæp 30%.

Þessar tölur eru til marks um uppdráttarsýkina í Samfylkingunni þegar Jóhanna Sigurðardóttir kveður formannsstólinn. Árni Páll á verk að vinna til að auka stuðning við sjálfan sig innan eigin flokks og til að efla flokkinn út á við. Hann getur slegið margar flugur í einu höggi með því að hætta við stjórnarskrárbröltið svo að ekki sé minnst á ESB-viðræðurnar þar sem Össur Skarphéðinsson hefur málað Samfylkinguna út í horn.

 

Föstudagur 01. 02. 13 - 1.2.2013 21:30

Niðurstöður í könnunum á fylgi flokka birtust á óheppilegasta tíma í dag fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, fráfarandi formann Samfylkingarinnar, sem gortaði sig af góðum árangri ríkisstjórnarinnar og Samfylkingarinnar undir sinni stjórn undanfarin fjögur og hélt áfram reiðilestri um sjálfstæðismenn. Má segja að hún sé trú þeim óvildarmálstað fram á síðustu stundu. Það skilar henni hins vegar ekki miklu fylgi.

Sá sem tekur við formennsku í Samfylkingunni af Jóhönnu er ekki öfundsverður hvort heldur litið er til málefnastöðu flokksins eða vinsælda hann meðal kjósenda. Ef til vill er Jóhanna kjósendafæla flokksins og þeir kunna að laðast aftur að Samfylkingunni þegar hún hverfur úr formennskunni. Það kemur í ljós. Hitt er víst að þingflokkur Samfylkingarinnar hefur látið Jóhönnu leiða sig í ógöngur í Icesave-málinu og nú síðast í stjórnarskrármálinu.

Icesave-málið er úr sögunni . Stjórnarskrármálið er hins vegar enn til umræðu á alþingi. Nýr formaður Samfylkingarinnar mundi örugglega bæta stöðu flokksins ef hann viðurkenndi tafarlaust að óskynsamlegt sé að halda áfram á stjórnarskrárbraut Jóhönnu.