Laugardagur 23. 02. 13
Það fór eins og ég taldi líklegt. Úr því að ESB-aðildarsinnar vildu láta reyna á málstað sinn á 41. landsfundi sjálfstæðismanna urðu þeir undir í atkvæðagreiðslu á fundinum. Fundarmenn hertu á andstöðu sinni við ESB-viðræðurnar. Í stað þess að gera hlé á þeim vilja sjálfstæðismenn nú að þeim verði hætt. Ég stóð að málamiðluninni á 40. landsfundinum og ætlun ráðamanna flokksins var að hún stæði áfram. ESB-aðildarsinnar spilltu þeim áformum. Niðurstaðan nú er ágæt, hún er afdráttarlausari en málamiðlunin. Hér má lesa frétt um afgreiðslu þessa máls.
Þrjár konur fluttu góðar ræður á landsfundinum í dag.
Ólöf Nordal kvaddi landsfundarfulltrúa sem varaformaður í eftirminnilegri ræðu þar sem hún gagnrýndi meðal annars umræðuhefðina í netheimum. Ólöf tók enn á ný upp hanskann fyrir Bjarna Benediktsson, formann flokksins, sem hún taldi sæta ómaklegum árásum meðal annars á netinu. Þegar Ólöf Nordal hverfur frá beinni þátttöku í stjórnmálum fækkar þingmönnum sem ávallt leggja áherslu á málefnaleg vinnubrögð og afstöðu. Af henni er eftirsjá.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, ákvað í dag að gefa kost á sér til 2. varaformanns í Sjálfstæðisflokknum. Henni mæltist vel í framboðsræðu sinni og höfðaði sterkt til fundarmanna þegar hún ræddi nauðsyn þess að breikka forystu flokksins. Undir orð hennar var tekið þegar samþykkt var að 2. varaformaður flokksins mætti ekki taka sæti í ríkisstjórn. Sveitarstjórnamenn skipta miklu innan Sjálfstæðisflokksins og ekki óeðlilegt að einn af þeim sækist eftir einni af æðstu trúnaðarstöðum flokksins.
Hanna Birna Kristjánsdóttir flutti glæsilega framboðsræðu til varaformanns. Henni var einstaklega vel tekið. Hún sýndi næma tilfinningu og náði góðu sambandi við fundarmenn.