Var klukkan 12.00 á Hvolsvelli og hitti þar Kjartan Þorkelsson sýslumann, Jónas Elíasson prófessor og Magnús Tuma Guðmundsson jarðfræðing. Klukkan 13.00 héldum við af stað með Jens bónda á Teigi í Fljótshlíð, mönnum úr almannavarnanefnd og Guðrúnu Larsen jarðfræðingi og Aðalasteini Eiríkssyni og kynntum okkur jarðfræðilegar minjar og flóð vegna eldgosa í Eyjafjallajökli og vesturhluta Mýrdalsjökuls, Ókum við inn með Markarfljóti að vestan verðu þar til við gátum séð Entu-jökul en hann er nyrsta gosstöðin, sem getur valdið flóði. Var komið að nýju til Hvolsvallar klukkan 18.00.
Var síðdegis í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli, þar sem kynnt var ný stefna gæslunnar og skipurit.
Ráðherrafundur í Varkaus fram yfir hádegi, þá haldið flugleiðis til Helsinki og um Kaupmannahöfn til Íslands, þar sem lent var klukkan 21.00.
Hélt klukkan 07.20 um Helsinki til Varkaus í 45 mínútna flugferð fyrir norðaustan Helsinki og hitti þar norræna ráðherra innflytjenda og landamæraeftirlits.
Fór í 75 ára afmæli SUS, sem efnt var til síðdegis í Valhöll, en þar flutti Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður hátíðarræðu.
Var klukkan 10.00 í Vinaskógi við Þingvelli, þar sem við Rut tókum þátt í 75 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands með því að gróðursetja birkitré.
Flutti
ávarp við upphaf kirkjudaga í Hallgrímskirkju klukkan 20.00.
Dagurinn hófst á fundi í danska dómsmálaráðuneytinu. Um hádegisbilið átti ég fund með Sören Gade, varnarmálaráðherra Dana. Þá fór ég í höfuðstöðvar danska hersins og hitti Tim Sloth Jörgensen vice-admiral, formann herráðs Dana. Síðdegis hitti ég innflytjendaráðherrann Rikke Hvilshöj. Loks fórum við í íslenska sendiráðið á Norðurbryggju í boði Þorsteins Pálssonar sendiherra en Helga Hjörvar, sem veitir menningarsmiðstöðinni þar forstöðu, sýndi okkur aðstöðuna hjá sér.
Flugum heim kl. 19.45 og lentum rétt um 21.00 að íslenskum tíma.
Hélt frá Skagen um Álaborg til Kaupmannahafnar. Fór síðdegis á fund í Söværnets Materielkommando og fræddist um nýsmíði gæsluskipa við Grænland. Um kvöldið hitti ég Bertel Haarder, mennta- og kirkjumálaráðherra Dana.
Fundi dómsmálaráðherra Norðurlandanna lauk upp úr hádeginu og eftir hann fórum við út á Grenen, ysta tanga Skagen, og síðan að skoða sandölduna, sem hreyfist 15 metra á ári á leið frá vestri til austurs yfir Skagen.
Flaug klukkan 07.45 til Kaupmannahafnar og þaðan til Álaborgar en fór síðan í rútu út á Skagen til að sitja fund dómsmálaráðherra Norðurlandanna.
Flutti
þjóðhátíðarræðu við messu í Stórólfshvolskirkju, sem hófst klukkan 13.00. Við athöfn í Goðalandi, félagsheimili Fljótshlíðinga, sem hófst klukkan 14.00, flutti ég sömu ræðu. Minnist ég þess ekki, að mér hafi gefist tækifæri til að flytja sömu ræðuna tvisvar sinnum.
Tók um klukkan 14.30 við mótmælabréfi frá náttúruverndarsinnum, sem lýstu óánægju sinni yfir því, að einn úr hópi þeirra, Breti, hefði verið dæmdur í gæsluvarðhald fyrir að skvetta lituðu mjólkurefni yfir þátttakendur í álráðstefnu á hótel Nordica. Boðað hafið verið til mótmæla fyrir framan dóms- og kirkjumálaráðuneytið kl. 14.00 og var meðal annars sagt frá þeim í 08.00 fréttum hljóðvarps ríkisins þennan sama morgun. Mótmælendur voru sárafáir og afhenti Elísabet Jökulsdóttir mér skjal þeirra.
Ritaði klukkan 15. 30 undir árangursstjórnunarsamning við lögregluna í Reykjavík við hátíðlega athöfn í lögreglustöðinni.
Opnaði klukkan 17.30 vefsíðu Félags fasteignasala í húsakynnum félagsins að Síðumúla 1.
Tók klukkan 17.00 þátt í upphafi fjölmenns íbúaþings borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna um skipulagshugmyndir flokksins en þingið var haldið í tjaldi í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
Sat borgarstjórnarfund frá klukkan 14.00 til um 18.00 þegar ég fór í Kastljósið með Jóhanni R. Benediktssyni til að ræða um útlendingamál. Í borgarstjórn var einkum rætt um hugmyndir okkar sjálfstæðismanna í skipulagsmálum.
Klukkan 09.30 var fjórði aðalfundur Aflsins, félags qi gong iðkenda, haldinn í í veitingahúsinu í Grasagarðinum í blíðskaparveðri. Kyrrðin var rofin með þjófavarnarflauti í garðinum og urðum við að gera hlé á fundinum vegna hávaða - undruðumst við, hve langan tíma það tók Securitas að koma og skökkva á flautunni.
Hélt klukkan 11.10 af stað með KLM frá Lúxemborg, þar sem verið er að reisa nýja flugstöð, til Amsterdam og tók þar Icelandair-vél klukkan 14.00 og lenti 14.50 að íslenskum tíma, 20 mínútum á undan áætlun.
Fór akandi til Lúxemborgar um hádegisbilið, en klukkan 16.30 tók ég þátt í ráðherrafundi vegna framkvæmdar Schengen-samningsins.
Síðan var haldið til Schengen, lítils bæjar í Móseldalnum, þar sem landamæri Þýskalands, Frakklands og Lúxemborgar falla saman, en þar var þess minnst á hátíðlegan hátt, að 20 ár eru liðin frá því að Schengen-samningurinn var undirritaður.
Leikin var tónlist, ræður fluttar og síðan siglt á glæsiskipi um Mósel og snæddur kvöldverður.
Klukkan 09.30 hófst fundur í skrifstofu EFTA í Brussel. William Rossier, framkvæmdastjóri EFTA, ræddi um ákvarðanaferlið milli ESB og EFTA vegna EES-samningsins. Bernhard Marfurt, sendiherra Sviss gagnvart ESB, sagði frá reynslu Svisslendinga af tvíhliða samningagerð við ESB. Þá ræddi Þórunn Hafstein, skrifstofustjóri hjá EFTA, um rekstur EES-samningsins.
Í hádeginu hittum við Francis Jakobs, skrifstofustjóra umhverfisnefndar Evrópusambandsþingsins, og fræddumst um starfsemi þingsins.
Síðdegis flutti Lillian Andenæs hjá EFTA fyrirlestur um þjónustutilskipun ESB, sem er í mótun.
Við svo búið bjuggust sumir nefndarmanna til heimferðar, aðrir til annarra funda erlendis, þar á meðal ég.