Dagbók: mars 2008

Mánudagur, 31. 03. 08. - 31.3.2008 20:42

Áður en flogið var heim frá París, gafst tími til að skreppa í Musée du Luxembourg, en það er hluti af höll öldungadeildar franska þingsins. Þar er nú sýning á verkum eftir Maurice de Vlaminck. Hún var opnuð 20. febrúar og stendur til 20. júlí. Strax að mánudagsmorgni var löng biðröð fólks við safnið.

Icelandair vélin hóf sig á loft á áætlun kl. 14.15 og lenti 15.30, en klukkunni var seinkað um klukkustund í Evrópu um helgina.

Sunnudagur, 30. 03. 08. - 30.3.2008 20:36

Lent í París um hádegisbil. Gengum um í rigningu síðdegis, þeir hefðu áreiðanlega verið þakklátir fyrir skammt af vætunni í Chile.

Laugardagur, 29. 03. 08. - 29.3.2008 13:18

Nú er kominn tími til að taka saman föggur sínar hér í Chile og búast til heimferðar. Flugið verður langt, tæpir 14 tímar, til Parísar. Það hefur verið ánægjuleg reynsla að kynnast landi og þjóð fyrir utan að fylgjast með framvindu mála við smíði nýja varðskipsins okkar. Við slíka stórframkvæmd er í mörg horn að líta og stilla verður saman alla strengi á skipulegan hátt, svo að ekkert fari úrskeiðis.

Ég sé í Morgunblaðinu, að Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, sér ný sóknarfæri með breytingum á yfirstjórn tollgæslu á Keflavíkurflugvelli og flutningi hennar undir fjármálaráðuneytið, þar sem hún á heima miðað við verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Ragnhildur Hjaltadóttiir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis, telur engin vandkvæði við að taka við öryggisgæslunni á Keflavíkurflugvelli.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sagði á ruv.is, að hann teldi breytingar á embætti lögreglustjórans til þess fallnar að styrkja löggæslu á Suðurnesjum.

Meðal þeirra, sem fara með yfirstjórn þessara mikilvægu málaflokka, er þannig einhugur um, að með breytingum á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum sé ekki vegið að þeirri starfsemi, sem um er að ræða, enda hefðu ákvarðanir um skipulagsbreytingar aldrei verið teknar með það í huga.

Fyrir ákvörðunina um skipulagsbreytingarnar, snerust umræður um, hve mörgum starfsmönnum ætti að segja upp við embættið til að rekstur þess yrði innan fjárlaga. Tillögur um uppsagnir lágu fyrir frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, enda hafði ráðuneytið verið í samráðsferli við embættið um leiðir til að ná tökum á fjármálastjórn þess. Það stefndi í 200 milljón króna halla  hjá embættinu umfram fjárheimildir.

Föstudagur, 28. 03. 08. - 28.3.2008 20:42

Síðasta daginn hér í Chile höfum við áfram rætt við forystumenn ASMAR skipasmíðastöðvarinnar um smíði nýja varðskipsins. Á morgun skilja leiðir okkar Íslendinganna hér. Georg Lárusson, forstjóri landhelgisgæslunnar, og hans menn verða hér áfram til að fara ofan í ýmsa tæknilega þætti vegna þessarar stórsmíði en ég held heim á leið.

Strax eldsnemma í morgun fóru að berast til mín fyrirspurnir frá fréttamönnum hingað út til Valparíso við Kyrrahafsströnd Chile vegna fullyrðinga um, að Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefði sagt starfi sínu lausu vegna skipulagsbreytinga á embætti hans. Við nánari athugun kom í ljós, að Jóhann hafði sagt, að hann ætlaði að ræða starfslok sín við dóms- og kirkjumálaráðuneytið.

Við Jóhann hittumst á fundi í ráðuneytinu með embættismönnum þess og síðan lykilstarfsmönnum embættis hans fyrir rúmri viku, það er 19. mars, miðvikudag fyrir páska. Þar skýrði ég frá þeirri niðurstöðu minni, að skynsamlegasta leiðin til að bregðast við tillögum frá embættinum um 200 m. kr. útgjöld á þessu ári umfram fjárlög og heimildir væri, að hvert ráðuneyti tæki málaflokka embættisins undir sína forsjá, að flugöryggismál færu undir samgönguráðuneyti, tollamál undir fjármálaráðuneyti og löggæsla og landamæravarsla færi undir dóms- og kirkjumálaráðuneyti.

Í niðurlagi tilkynningarinnar sagði:

Nú fer í hönd undirbúningsvinna vegna breytinganna og er stefnt að því að nýtt skipulag taki gildi frá 1. júlí 2008. Engin röskun verður á starfsemi Keflavíkurflugvallar og löggæslu á Suðurnesjum og engar uppsagnir eru fyrirhugaðar í tengslum við breytingarnar.“

Þetta var niðurstaða fundanna, sem ég átti með Jóhanni R. og samstarfsfólki hans 19. mars. Þá var boðað, að undirbúningsvinna vegna breytinganna yrði hafin. Ráðuneytið hafði mótað framtíðarstefnu fyrir embættið, eftir að hafa fengið tillögur frá því, sem sýndi það í fjárhagslegum ógöngum miðað við fjárlög 2008.

Nú 28. mars fæ ég um það fréttir, að lögreglustjórinn vilji ræða starfslok vegna málsins. Jafnframt les ég blogg um, að samstarf okkar Jóhanns hafi verið annað en gott og látið er að því liggja, að ég hafi verið samblástur gegn honum. Allt er þetta úr lausu lofti gripið, enda alrangt.

 

 

Lesa meira

Fimmtudagur, 27. 03. 08. - 27.3.2008 3:16

Flugum í morgun frá Vina del Mar flotaflugvellinum til Talcahuano, sunnar í Chile, þar ASMAR er með stærstu skipasmíðastöð sina.

Klukkan 12.30 var lagður kjölur að nýju varðskipi okkar Íslendinga í stöðinni við hátíðlega athöfn, þar sem þjóðsöngvar landanna voru leiknir og fluttar voru ræður.

Síðdegis flugum við aftur til Vina del Mar.

Í stöðinni sáum við m.a. togara og þegar betur var að gáð, mátti sjá nafnið Bessi á honum. Skipið er nú í eigu Chilemanna. Þá voru þarna við bryggju tveir stórir verksmiðjutogarar. Þeir urðu eldi að bráð við veiðar í Kyrrahafi og liðu aðeins nokkrar vikur á milli atvikanna, án þess að upptök eldsins séu ljós. Samherji á annan skipskrokkinn og leitar samninga við ASMAR um endursmíði skipsins. Þarna var verið að leggja lokahönd á færeyskan verksmiðjutogara. Ísfélagið í Vestmannaeyjym hefur samið við ASMAR um smíði á tveimur verksmiðjutogurum.

Íslendingar hafa verulegra hagmsuna að gæta í samskiptum við ASMAR.

Athöfnin í dag vakti verulega athygli heimamanna, ef marka má hana af áhuga frétta- og blaðamanna.

Í stuttri ræðu minntist ég þess, að fyrir okkur Íslendinga skipti smíði hins nýja varðskips mjög miklu - við hefðum ekki eignast nýtt varðskip í rúm þrjátíu ár.

Ávallt er álitaefni, hvort verja eigi fé og tíma í langferðir af þessu tagi. Í þessu tilviki hefur hvoru tveggja verið vel varið, enda um skýra þjóðarhagsmuni að ræði og einstakt tækifæri til að treysta tengsl við fjarlæga þjóð, sem tekst að mörgu leyti á við svipuð viðfangsefni og við Íslendingar, þegar litið er til hagsmuna á hafinu.

 

Miðvikudagur, 26. 03. 08. - 26.3.2008 21:29

Hitti í morgun José Goñi Carrasco, varnarmálaráðherra Chile, en hann var á sínum tíma sendiherra í Stokkhólmi og átti sem slíkur oftar en sinu sinni erindi til Íslands.

Síðan var ekið til Valparasío um 100 km að Kyrrhafsströndinni, þar sem flotinn er með höfuðstöðvar. Þar var kynnt starfsemi landhelgisgæslu Chile en hún er hluti af flotanum.

Hafsvæðið, sem fellur undir leit og björgun Chile er ótrúlega stórt. Eftirlits- skrásetningar- og tilkynningakerfið, sem hannað hefur verið til rafræns eftirlits með skipum er mjög fullkomið og var merkilegt að kynnast, hvernig það virkar.

Mánudagur, 24. 03. 08. - 24.3.2008 22:18

Hitti í dag Carlos Fanta de la Vega, forstjóra ASMAR-skipasmíðastöðvarinnar, og ræddi um smíði hins nýja varðskips en tilgangur ferðar minnar hingað til Chile er einmitt að taka þátt í athöfn, þegar lagður er kjölur að varðskipinu. Auk þess hitti ég fulltrúa stjórnvalda.

Tími gafst til að heimsækja forsetahöllina í miðborg Santiago og skoða fundarsal ríkisstjórnar ásamt fleiru undir leiðsögn fræðimanns, sem þekkti íslenskar bókmenntir, Halldór Laxness og Íslendingasögur og vissi um Eystribyggð og Vestribyggð á Grænlandi, Eirík rauða og fund Vínlands.

Á ferð okkar litum við inn í gamalt klaustur, sem hefur verið breytt í miðstöð fyrir handverksmenn og heimilisiðnað. Á leiðinni þaðan gengum við í flasið á fjórum íslenskum konum og varð fagnaðarfundur eins og jafnan, þegar Íslendingar hittast á fjarlægum slóðum, án þess að eiga hina minnstu von á því.

Sunnudagur, 23. 03. 08. Páskadagur. - 23.3.2008 21:00

Flaug frá Amsterdam kl. 18.45 í gærkvöldi til Parísar og þaðan 23.15 í tæpa 14 tíma til Santiago í Chile. Þar var klukkan um 09.00 á páskadagsmorgni, þegar lent var í þoku. Var sagt, að tvær vélar úr langflugi hefðu orðið frá að hverfa vegna þokunnar , skömmu áður en Air France Boeing 777 þotan lenti. Út mars er þriggja tíma munur á klukkunni hér og á Íslandi. Eftir það hefst vetrartími hér og verður munurinn þá 4 tímar. Nú er klukkan 18.00 hér í Santiago en 21.00 á Íslandi. Hitinn í dag var um 30 gráður, þótt tekið sé að hausta. Santiago er í fjallverpi og er mikil mengun yfir borginni, enda íbúar um 5 milljónir af um 16 milljón manns, sem búa í Chile.

Ég hef aðeins fylgst áfram með netfærslum um gerendur og masara. Undarlegt er, hve fljótt sumir stökkva upp á nef sér vegna þessa.  Nefni ég þar til sögunnar bloggarna Benedikt Sigurðarson og Pétur Tyrfingsson. Þeir geta til dæmis ekki rætt málið, án þess að veitast persónulega að mér eða Guðmundi Magnússyni. Masarar gera allt til að halda lífi í innihaldslausri umræðu. Hún einkennist oft af skítkasti í garð einstaklinga í stað rökræðu um málefni. Þeir Benedikt og Pétur eru við það heygarðshornið.

Laugardagur, 22. 03. 08. - 22.3.2008 9:15

Guðmundur Magnússon grípur á lofti pistil minn frá því í gær og tekur sér fyrir hendur að íslenska doers og talkers. Hann er minntur á athafnastjórnmál og umræðustjórnmál. Guðmundur nefnir nokkur orð til sögunnar. Mér líst best á gerendur og masarar.

Virðing fyrir eigin þjóðerni er ekki and-evrópsk. Franco Frattini, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, svarði fyrir skömmu spurningum þýska vikuritsins Spiegel. Síðasta spurningin var: Verðum við öll aðeins ESB-borgarar og ekki lengur Ítalir eða Þjóðverjar? Frattini svaraði: Nei, ég er eindreginn málsvari heimabyggðar og þjóðlegra hefða. Ég tel mig fyrst Flórensbúa, næst Tuskanabúa, þá Ítala og loks Evrópumann.

Guðmundur Magnússon hefur tekið af skarið.

Nú hefur Egill Helgason blandað sér í orðakipti okkar Guðmundar og lýsir réttum skilningi á afstöðu minni. Ég bendi hins vegar á, að ég var að vitna í Thomas Sowell um hópana tvo, gerendur og masara. Takið eftir athugasemd nafnleysingjans Rómverja við færslu Egils. Rógtungur þora ekki að skrifa undir nafni. Ætli Agli leiðist ekki að hleypa þeim inn á síðuna sína?

Hjörtur J. Guðmundsson tekur réttilega í sama streng og Egill.

Ritað á Charles de Gaulle flugvelli í París fyrir næturflug yfir til Santiago, Chile.

Föstudagur, 21. 03. 08. - 21.3.2008 20:28

Páskar eru snemma á ferð að þessu sinni. Ég átti hins vegar ekki von á, að það yrði slydda hér í Amsterdam í dag. Fleiri vegfarendur en ég voru undrandi á veðráttunni. Ég settist inn á hótel og skrifaði pistil.

 

Fimmtudagur, 20. 03. 08. - 20.3.2008 17:40

Við Sigmundur Ernir Rúnarsson hittumst í þætti hans Mannamáli sunnudaginn 16. mars og nú hef ég sett texta samtals okkar hér inn á síðuna með þeirri skýringu, að ég hafi slípað hann aðeins til að færa nær ritmáli og sett skýringar á fáeinum stöðum innan hornklofa. Ekki er hróflað við neinni skoðun.

Sigmundur Ernir minnist á samtal okkar á vefsíðu sinni 18. mars og í dag er orðum hans slegið upp á eyjan.is. Sigmundur Ernir segir meðal annars:

„Menn eru smám saman að átta sig á pólitískum þunga sem hvílir í Evrópuummælum Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem hann lét falla í Mannamáli á Stöð 2 á sunnudagskvöld.

Þar talaði hann um vegvísinn að Evrópu.

Vegvísinn, já.

Flokksglufan er að víkka.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra henti þessi ummæli á lofti í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag og virtist túlka ummæli Björns á þann veg að Evrópuumræðan innan Sjálfstæðisflokksins væri að taka nýja stefnu.“

Það er skemmtilegt að fylgjast með hvernig orð eru túlkuð og hvað þykir fréttnæmast af því, sem sagt er. Strax eftir þáttinn þótti merkilegast á visir.is, að ég teldi sjálfstæðismenn ekki einhuga í afstöðiu til ESB og málið gæti valdið krofningi í þeirra röðum. Hallgrími Thorsteinssyni þótti það ekki frétt heldur hitt um vegvísinn.

Mér finnst svo sjálfsagt, að heimavinna okkar Íslendinga skipti mestu í sambandi við tengsl okkar við Evrópu, að mér kemur á óvart, að mönnum þyki ábening um það boða tímamót.

Undrast má, að enginn taki undir með mér og velti fyrir sér, hvort Samfylkingin kunni að lenda í sömu stöðu í samstarfi við okkur sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn í Þýskalandi, en þungt er sótt að þeim af nýjum flokki frá vinstri, flokki, sem minnir dálítið á vinstri/græn, þótt hann sé meira rauður en grænn.

Þetta skrifa ég í rigningu í Amsterdam en þangað hélt ég í morgun.

Hér heldur Hallgrímur Thorsteinsson áfram að ræða málið.

Miðvikudagur, 19. 03. 08. - 19.3.2008 7:51

Í dag efndi ég til fundar með Jóhanni Benediktssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum, og síðan með lykilstjórnendum embættis hans til að skýra þeim frá þeirri ákvörðun, að starfsemi embættisins verði löguð að verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Samgönguráðuneytið hefur tekið að sér rekstur Keflavíkurflugvallar og þar með flugöryggismál, sá þáttur verður því á verksviði þess, þar með skoðun á farangri við brottför. Fjármálaráðuneytið fer með tollamál og fer með yfirstjórn þeirra þarna eins og annars staðar á landinu. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið fer með löggæslu- og landamæravörslu.

Að þetta skuli allt hafa verið undir einum hatti ber að rekja til dvalar varnarliðsins og þess hlutverks utanríkisráðuneytisins að koma fram fyrir öll ráðuneyti á Keflavíkurflugvelli. Þegar varnarliðið fór, var lýst yfir því, að stjórnsýsla myndist breytast og laga sig að almennri stjórnsýslu í landinu. Utanríkisráðuneyti er nú að láta af stjórn flugmála í hendur samgönguráðuneyti og þess vegna er eðlilegt að koma skipan þeirra í varanlegt horf, þar á meðal flugvernd og öryggisgæslu.

Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélags Íslands og forystumaður við tollgæslu á Keflavíkurflugvelli, sat fund okkar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í dag og lagði þar gott til mála. Hann lýsir í fréttum áhyggjum af því, að þessi breyting kunni að leiða til verri tollgæslu. Á visir.is segir:

„Hann (Guðbjörn) segir að í yfirlýsingu frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu komi fram að með þessu eigi að bæta tollgæsluna en bendir á að tollgæslan á Suðurnesjum hafi verið að skila toppárangri, þeim besta í landinu. „Ég skil því ekki hver á að segja okkur til verka," segir Guðbjörn að lokum.“

Í tilkynningu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins segir um þennan þátt:

„Forræði á sviði stjórnsýslu og samfélagsþróun á Suðurnesjum verða að haldast í hendur til að tryggja hátt þjónustustig. Skipulagsbreytingarnar miða að því að styrkja daglega löggæslu í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum með því að einfalda rekstur lögreglustjóraembættisins. Jafnframt er þeim ætlað að styrkja tollgæslu og samhæfða framkvæmd flugverndarmála. Lögð er áhersla á, að ekki verði hróflað við hinu nána og góða faglega samstarfi við lög- og tollgæslu á svæðinu.“

Eins og gefur að skilja hefur fjármálaráðuneytið ekki ákveðið á þessari stundu, hverjir eiga að segja tollvörðum til verka, enda gefa menn sér tíma til 1. júlí til að hrinda málum í framkvæmd og þar til fer lögreglustjórinn með stjórn tollamála á svæðinu. Ástæðulaust er að ætla annað en þessi þáttur málsins verði leystur á farsælan veg, enda vakir ekki fyrir neinum að ganga á hlut tollvarða eða tollgæslu.

Lesa meira

Þriðjudagur, 18. 03. 08. - 18.3.2008 18:01

Fyrir nokkrum mánuðum birtist dagbókardálkur í vikuritinu The Spectator eftir Andrew Roberts, sem var á ferð í Bandaríkjunum og kynnti nýja bók sína um sögu enskumælandi þjóða. Dálkurinn vakti mikla athygli fyrir „name dropping“ höfundar - hann tíundaði rækilega allt fræga fólkið, sem hann hitti og var ekki síður hrifinn en Össur Skarphéðinsson, af því að hafa hitt George W. Bush, forseta Bandaríkjanna.

Lesendur The Spectator voru ekki allir sáttir við, að Roberts væri að gera sig merkilegri í augum þeirra með því að nefna frægt fólk til sögunnar og þótti í raun óþarfi - hann væri nógu merkur af sjálfum sér.

Mér datt þetta í hug, þegar Egill Helgason lét þess getið, að hann hefði séð Vanessu Redgrave í rauðri flíspeysu á Heathrow-flugvelli við komu sína til London í vikunni, og síðan Boris Berezovskí, heimsfrægan, landflótta rússneskan auðkýfing, á sushistað.

Raunar læddist hið sama að mér, þegar ég las grein Árna Snævars í Morgunblaðinu í morgun. Þar nær hann sér á strik í ritdeilu við Sigurð Kára Kristjánsson, alþingismann, um Evrópusambandið með því að nefna Davíð Oddsson til sögunnar sem frænda sinn og kenna skýrslu Evrópunefndar við mig.

Mánudagur, 17. 03. 08. - 17.3.2008 20:36

Var um hádegisbil með samstarfsfólki í ráðuneytinu á Litla Hrauni, þar sem Páll Winkel, fangelsismálastjóri, og Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsisins, tóku á móti okkur með samstarfsfólki sínu. Að loknum hádegisverði í mötuneyti starfsmanna var efnt til fundar með starfsfólkinu í íþróttasal fangelsins. Þar ræddi ég þau mál, sem efst eru á baugi í rekstri og uppbyggingu fangelsa, og svaraði fyrirspurnum.

Síðan gengum við um staðinn og kynntum okkur aðstæður, sem hafa tekið og eru að taka miklum breytingum til hins betra.

Á grundvelli stefnu í menntamálum fanga, sem mótuð var í samvinnu menntamálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis, hefur menntamálaráðherra nú ráðið starfs- og námsráðgjafa til starfa fyrir fanga. Ég tel brýnt að sambærileg stefna verði mótuð í samvinnu dóms- og kirkjumálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis um læknis- og meðferðarþjónustu fanga. Stundum mætti ætla, að annað heilbrigðiskerfi ætti við um fanga en landsmenn almennt. Svo er auðvitað ekki. Þurfa heilbrigðisyfirvöld að koma markvisst til móts við hið góða starf, sem nú er unnið á Litla Hrauni til að losa fanga úr viðjum fíkniefna.  Hér þarf hið félagslega kerfi ríkis og sveitarfélaga einnig að láta að sér kveða með stjórnendum og starfsmönnum fangelsa.

Frá Litla Hrauni ókum við til sýslumannsins á Selfossi, Ólafs Helga Kjartanssonar, og hittum hann með Oddi Árnasyni, yfirlögregluþjóni, og samstarfsmönnum þeirra. Kynntu þeir okkur viðamikið og sívaxandi starf á vegum embættisins og svöruðu fyrirspurnum okkar um einstök atriði, áður en við hittum annað starfsfólk.

Mikill metnaður er hjá þessum stofnunum ráðuneytisins og gott og náið samstarf milli þeirra. Hvatti ég til þess að haldið yrði áfram á sömu braut og meðal annars hugað að nánara samstarfi með fíkniefnahunda, en sá á Litla Hrauni mun nefndur Moli Björnsson með vísan til afskipta minna af tilvist hans á staðnum.

Sunnudagur, 16. 03. 08. - 16.3.2008 21:15

Var klukkan 19.00 í þættinum Mannamál á Stöð 2 hjá Sigmundi Erni. Við ræddum lögreglumál, Evrópumál, stjórnarsamstarfið og stöðuna í borgarstjórn.

Ég tel, að Evrópuumræðan sé marklaus nema fyrst sé komist að því heima fyrir, hvernig á að standa að úrlausn málsins. Eiga að vera ein eða tvær þjóðaratkvæðagreiðslur a) um það hvort sækja eigi um aðild b) um aðildarskilmála. Hvaða reglur eiga að gilda um þjóðaratkvæðagreiðslurnar? Hvernig á að standa að breytingu á stjórnarskránni? Um þetta þarf vegvísi og heimavinnu. Það er engin spurning um, að ESB tekur okkur opnum örmum, enda förum við að öllum óskum ESB.

Ég hafnaði því eindregið, sjálfstæðismenn vildu ekki ræða Evrópumálin, tel raunar mesta þekkingu á þeim innan flokksins og menn komist ekki áfram með málin án forystu hans. Ég sagði fráleitt að kalla mann með mínar skoðanir í Evrópumann afturhaldssinna. Einnig væri fráleitt að leita fyrir sér um einhverja samninga í Brussel, annað hvort hefðu menn umboð til að semja eða ekki. Til að öðlast það umboð yrði að ræða málið í botn innan lands.

1995 fjarlægðist Alþýðuflokkurinn Sjálfstæðisflokkinn vegna Evrópustefnu sinnar og síðan voru jafnaðarmenn utan stjórnar í 12 ár. Vilja þeir lenda í sömu stöðu núna? Morgunblaðið telur í Reykjavíkurbréfi í dag, að Ingibjörg Sólrún sé að einangra flokkinn með Evrópustefnu sinni.

Ég sagðist telja meiri líkur á því að Samfylkingin klofnaði en Sjálfstæðisflokkurinn. Tók dæmi frá Þýskalandi, þar sem jafnaðarmenn eiga nú undir högg að sækja vegna sóknar frá vinstri, hið sama gæti hæglega gerst hér og Samfylkingin væri hrædd við vinstri/græna eins og birtist í stefnu hennar til orkunýtingar og stóriðju.

Ég hef sett tvær greinar úr vetrarhefti Þjóðmála 2007 og vorhefti 2008 um OR/REI málið hér inn á vefinn með góðfúslegu leyfi Jakobs F. Ásgeirssonar ritstjóra.

Laugardagur, 15. 03. 08. - 15.3.2008 19:16

Síðdegis í dag var opnuð sýning á miklu myndverki eftir Baltasar Samper - Sjö orð Krists á krossinum - sem hangir í kór Hallgrímskirkju, 10 metra hátt og sex metra breitt. Sjö andlitsmyndir Krists með tilvísun í Passíusálma Hallgríms Péturssonar.

Það hefur krafist dirfsku og hugkvæmni að setja verkið á þennan stað. Verkið nýtur sín og fellur vel að mikilli umgjörð sinni. Áætlað er, að það verði í kirkjunni til 5. maí nk.

 

 

Föstudagur, 14. 03. 08. - 14.3.2008 19:00

Klukkan 09.15 setti ég ráðstefnu um öryggis- og neyðarfjarskipti að hótel Loftleiðum.

Í Slóveníu hitti ég meðal annarra ráðherra Günther Platter, innanríkisráðherra Austurríkis. Við skiptumst á upplýsingum um, hvaÐ hæst bæri í störfum okkar. Hann sagðist hafa fengið frétt um það daginn áður, að tveimur austurrískum ferðamönnum hefði verið rænt í Túnis.

Ég sé á vefsíðu BBC í dag, að talið er að al-kaída liðar hafi rænt ferðafólkinu 22. febrúar. Í gær kröfðust mannræningjarnir þess, að austurrísk stjórnvöld tryggðu, að innan þriggja daga fengju al-kaída liðar í fangelsum í Túnis og Alsír frelsi, annars týndu gíslarnir lífi.

Alfred Gusenbauer, kanslari Austurríkis, sagði í dag, að ekki yrði farið að kröfum al-kaída. Hryðjuverkamennirnir hafa varað ferðamenn frá Vesturlöndum við að ferðast til Túnis og annarra landa Norður-Afríku, það er Marokkó, Alsír og Máritaníu.

Fimmtudagur, 13. 03. 08. - 13.3.2008 18:17

Enn einu sinni er ég á Kastrup að bíða eftir flugvél. Að þessu sinni á leið frá Lubljana í Slóveníu með millilendingu í Vínarborg og síðan nokkuð langri bið hér, sem gaf tóm til að svara tölvupósti og semja texta af ýmsu tagi.

Áhrif löggæslu eru mælanleg á ýmsan hátt, Hér sést eitt dæmi, sem birtist á vefsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag:

„Brot 137 ökumanna voru mynduð í Hvalfjarðargöngum frá mánudegi til fimmtudags í þessari viku eða á rúmlega 68 klukkustundum. Vöktuð voru 5.927 ökutæki og því ók lítill hluti ökumanna, eða 2%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var rúmlega 84 km/klst en þarna er 70 km hámarkshraði. Fimmtán óku á 90 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 110.

Við vöktun á sama stað í janúar árið 2007 óku hlutfallslega mun fleiri ökumenn of hratt eða yfir afskiptahraða, eða 5%. “

Enn fæ ég tölvubréf frá þeim, sem lýsa undrun yfir héraðsdóminum í gær vegna árásar á lögreglumenn á Laugaveginum. Ég vísa til þess, sem ég sagði hér á síðunni í gær.

Miðvikudagur, 12. 03. 08. - 12.3.2008 20:35

Ráðherraráðstefnan um nýskipan landamæravörslu, rafrænar vegabréfsáritanir og fleira hér í Slóveníu var fróðleg og gagnleg. Greinilegt er, að á þessu sviði eins og öðrum eru enn breytingar í vændum.

Heimavarnaráðherra Bandaríkjanna kom á fundinn og gerði grein fyrir þróun landamæravörslu þar á bæ. Nú í haust kemur nýtt rafrænt eftirlit til sögunnar auk þess sem krafist er fingrafara af öllum tíu fingrum þeirra, sem til Bandaríkjanna fara.

Á fundinum kom fram, að talið væri, að um 50 milljónir manna hefðu hætt við að ferðast til Bandaríkjanna af andúð við hið mikla og síaukna landamæraeftirlit. Evrópuríki, sem taka á móti tugum milljóna ferðamanna á ári hverju, vilja ekki fá á sig slíkan stimpil.

Portúgalir hafa þróað rafrænt og sjálfvirkt kerfi til landamæravörslu. Það er til dæmis í Algarve, en þangað streyma Bretar (utan Schengen) hundruð þúsundum saman ár hvert. Hefur kerfið reynst mjög vel, flýtt fyrir allri afgreiðslu og dregið úr biðröðum fyrir utan að greina upplýsingar í vegabréfi og sannreyna við andlitsmynd af viðkomandi, áður en honum er hleypt sjálfvirkt inn í landið.

Hingað út til Bled berst reiðibylgja vegna héraðsdóms, þar sem tveir árásarmanna á lögreglumenn á Laugaveginum voru sýknaðir og hinn þriðji fékk vægan dóm. Að tillögu minni samþykkti alþingi nýlega hert ákvæði um þyngri refsingu, ef ráðist væri á lögreglumann. Það kemur greinilega fyrir ekki í þessu máli.

Nú væri gott fyrir dómstólaráð að hafa komið á skipan, sem tryggði, að niðurstaða dómara væri skýrð fyrir almenningi á viðunandi hátt.

Þriðjudagur, 11. 03. 08. - 11.3.2008 18:08

Flaug frá Kaupmannahöfn um Prag til Lubljana í Slóveníu og ók þaðan til Bled til ráðherraráðstefnu Schengen-ríkjanna um þróun landamæravörslu.

Það gafst tími til að aka umhverfis hið fagra vatn við Bled og einnig sáust tignarleg fjöllin í suðri og norðri, það er í áttina að Ítalíu og Austurríki - það var raki í frekar köldu loftinu.

Leiðsögumaðurinn spurði hvaðan ég væri og sagðist þá undrandi á, hve margir íslendingar væru þarna á ferð. Hann hefði farið með hópa Íslendinga í gönguferðir í Ölpunum og auk þess tekið á móti fólki frá Heimsferðum.

Mánudagur, 10. 03. 08. - 10.3.2008 18:56

Í morgun hitti ég lögreglustjórann á Suðurnesjum og samstarfsfólk hans til að ræða fjármál embættisins og rekstraráætlun fyrir árið 2008, sem þarf að falla að fjárlögum og reglum um framkvæmd þeirra.

Síðan hélt ég kl. 14.15 til Kaupmannahafnar, þar sem þetta er skrifað, á leið til Schengen-ráðherrafundar í Bled í Slóveníu en landið er nú í forsæti meðal ESB-landa.

Ég rakst einhvers staðar á þá skoðun, að skýrsla Evrópunefndar væri ekki um aðild að Evrópusambandinu. Þeir, sem héldu það, hafa í eitt ár vaðið reyk í Evrópuumræðunum. Skoðun þeirra á samhljóm í því, að ekki fari fram neinar Evrópuumræður, af því að stefnan hefur ekki verið tekin á aðild að Evrópusambandinu.

Álitsgjafar í hópi fjölmiðlamanna, sem tala á þennan veg, hafa oftast ekkert bitastætt til málanna að leggja sjálfir. Þeim fer ekki vel að gera lítið úr verkum þeirra, sem hafa lagt mikið af mörkum til umræðna um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Það gerði Evrópunefndin með skýrslu sinni og við framkvæmd tillagna hennar reynir á burði íslenska stjórkerfisins til enn virkari þátttöku í Evrópusamstarfinu. Mér finnst í raun furðulegast, þegar málsvarar aðildar að ESB, gera lítið úr slíkum tillögum.

 

Sunnudagur, 09. 03. 08. - 9.3.2008 21:50

Í dag skrifaði ég pistil, þar sem ég sótti efnivið að meginhluta annað, vegna þess að ég er sammála þeim sjónarmiðum, sem þar eru kynnt.

Vorhefti Þjóðmála 2008 kom út í síðustu viku og verð ég var við, að úttekt mín á OR/REI málinu vekur nokkra athygli. Málið er stórt og allt hið undarlegasta og í raun furðulegt, hvað lítið er rætt um einstaka þætti þess, enda hefur athyglin mest beinst að afleiðingunum innan borgarstjórnar Reykjavíkur.

Laugardagur, 08. 03. 08. - 8.3.2008 18:48

Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður á 24 stundum birtir við mig viðtal í blaðinu í dag.

Kolbrún er góður blaðamaður og fjölhæf. Hún hefur oft tekið við mig viðtöl í tímans rás. Lífseigast er, að ég sagðist hafa gaman að Bruce Willis.

Mikið vatn er síðan til sjávar runnið og margar góðar kvikmyndir hef ég séð, frá því að við Kolbrún ræddum um Bruce. Ég er undrandi á grimmd og ofbeldi í Óskars-verðlaunamyndum ársins, There will be Blood og No Country for Old Men. Ég las einhvers staðar að harkan í myndunum hefði fælt fólk frá að fylgjast með Óskars-hátíðinni.

Föstudagur, 07. 03. 08. - 7.3.2008 22:11

Forstöðumannafundur dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, hinn 4., var haldinn að hótel Sögu í dag. Þar var rætt um breytingar á réttarvörslukerfinu, það er ákæruvaldinu, og um hugmyndir um millidómstig. Auk þess var rætt um útvistun verkefna. Ég flutti ræðu og má sjá útlínur hennnar hér.

Fréttir eru um „niðurskurð“ hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Þarna er glímt við að finna leiðir til að embættið nái að starfa innan fjárheimilda. Ekki er um niðurskurð að ræða, heldur hitt að lögreglustjóri og samstarfsmenn hans geri dóms- og kirkjumálaráðuneyti grein fyrir, hvernig embættið nær endum saman miðað við fjárheimildir.

Gagnrýnt er þegar farið er fram úr fjárheimildum t.d. vegna Grímseyjarferju eða stúku á Laugardalsvelli, svo að nýleg dæmi séu tekin. Uppnám getur einnig orðirð, þegar leitast er við að fara að fjárheimildum.

Fimmtudagur, 06. 03. 08. - 6.3.2008 17:58

Þingvallanefnd kom saman til fundar í dag. Fjölgað var úr þremur í sjö í nefndinni eftir þingkosningar. Við það hefur starf nefndarinnar aukist að formfestu, dagskrá er í fastari skorðum og fundargögnum dreift á annan hátt en áður var. Auk þess sitja fleiri starfsmenn þjóðgarðsins fundi nefndarinnar en áður.

Fyrra lagið á störfum Þingvallanefndar var gott og skilaði miklum árangri fyrir þjóðgarðinn. Hin nýja skipan er einnig árangursrík, enda sýna allir nefndarmenn starfinu áhuga og leggja gott eitt til mála.

Neðri deild breska þingsins hafnaði í gærkvöldi með 311 gegn 248 tillögu Íhaldsflokksins um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjan stofnsáttmála Evrópusambandsins, það er með 63 atkvæða mun.

25 þingmenn Verkamannaflokksins höfðu kröfu Gordons Browns forsætisráðherra um andstöðu við þjóðaratkvæðagreiðslu að engu - er þetta mesta andstaða við Evrópustefnuna innan þingflokksins síðan flokkurinn komst til valda árið 1997.

William Hague, málsvari Íhaldsflokksins í utanríkismálum, lýsti þeirri von, að lávarðadeildin mundi samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu og þar með knýja Verkamannaflokkinn og Frjálslynda flokkinn til að efna kosningaloforð sín um, að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samtök iðnaðarins efndu til iðnþings í dag og áréttuðu þar stefnu sína um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Rökin fyrir aðild hjá talsmönnum hennar hafa verið misjöfn í áranna rás. Nú er þau, að evra komi ekki án aðildar - evran verði að koma, af því að krónan dugi ekki lengur.

Þegar um allt þraut greip Hillary Clinton til hræðsluáróðurs til að ná sér aftur á strik gagnvart Barack Obama. Hræðsluáróðri vegna krónunnar er nú beitt til að ýta okkur inn í Evrópusambandið.

Miðvikudagur, 05. 03. 08. - 5.3.2008 9:45

Siv Friðleifsdóttir lagði þessa fyrirspurn fyrir mig á alþingi: Telur ráðherra koma til greina að taka upp notkun svokallaðra ökklabanda til að tryggja betur farbann grunaðra sakamanna? Hún óskaði eftir skriflegu svari og er það svona:

„Dómsmálaráðuneytið telur að kanna eigi til hlítar hvernig best yrði staðið að því að nýta rafræn eftirlitskerfi til að framfylgja farbanni eða fullnustu refsinga. Rafræn ökklabönd hafa verið í notkun með góðum árangri víðs vegar í heiminum, m.a. í Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð svo að dæmi séu nefnd. Rafræn ökklabönd er hægt að nýta við afplánun vægari refsinga, t.d. vararefsingar fésekta, og með þeim yrði einnig unnt að hafa betra eftirlit með kynferðisafbrotamönnum sem fá reynslulausn.

Með hinum rafræna tæknibúnaði má skilgreina „heita reiti“, þ.e. svæði sem sakamaður má ekki fara til, svo sem flugvelli, hafnir o.s.frv. Nálgist sakamaður með rafrænt ökklaband „heitan reit“ sendir tækið frá sér viðvörunarmerki til stjórnstöðvar sem kemur boðum áleiðis til réttra yfirvalda.“

Undir forystu Margrétar Frímannsdóttur, fangelsisstjóra á Litla Hrauni, er reglum um bann við fíkniefnum í fangelsinu fylgt fram af þunga. Er í senn réttmætt og tímabært að grípa til hertra aðgerða og í samræmi við markmið fangelsisyfirvalda um að auðvelda föngum að losna undan fíkninni. AA starf hefur skotið góðum rótum á Litla Hrauni að frumkvæði fanga og eiga þeir allir rétt á því að vera lausir undan ánauð þeirra, sem halda að þeim fíkniefnum.

Á þingi í dag svaraði ég tveimur fyrirspurnum. Frá Björk Guðjónssdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um löggæsluskóla á Keflavíkurflugvelli, og Siv Friðleifsdóttur um nýja lögreglustöð/fangelsi á höfuðborgarsvæðinu.


Þriðjudagur, 04. 03. 08. - 4.3.2008 21:32

Nýlega las ég lofsamlegan ritdóm um bókina Economic Facts and Fallacies eftir bandaríska prófessorinn Thomas Sowell. Eins og titillinn gefur til kynna lítur höfundur á ýmsar hagfræðikenningar og veltir fyrir sér, hvort um sé að ræða stðareynd eða rangfærslu.

Nú hef ég fengið bókina í hendur og sé, að þar er margt forvitnilegt. Greinilega er ekki allt, sem sýnist, þegar rýnt er í það, sem að manni er haldið sem hagfræðilegum staðreyndum. Sowell telur það til dæmis með helstu rangfærslu í húsnæðismálum, að ríkið verði að láta að sér kveða á húsnæðismarkaði með íbúðalánum, niðurgreiðslum eða vaxtaþaki til að tryggja fólki húsnæði á „viðráðanlegu verði“. Hann segir síendurteknar yfirlýsingar um gildi ríkisafskipta á þessu sviði ekki jafngilda, að þau skili því, sem að er stefnt. Þvert á móti sé auðvelt að sanna, að íhlutun ríkisvaldsins hafi breytt viðráðanlegu húsnæðisverði í óviðráðanlegt. Færir Sowell rök fyrir þessari fullyrðingu sinni.

Nú nýtur sú skoðun vaxandi hljómgrunns, að skaðsemi lánveitinga Íbúðalánasjóðs undanfarin ár verði seint metin til fulls. Starfsemi sjóðsins hefur þó jafnan verið rökstudd á þann veg, að hann auðveldi fólki að eignast þak yfir höfuðið á viðráðanlegum kjörum, hvað sem verðlagi líður. Húsnæðisverð hefur hins vegar hækkað í réttu hlutfalli við umsvif sjóðsins og bankanna, sem vildu ekki láta sitt eftir liggja í keppni við hann. Hver er það, sem græðir að lokum? má spyrja. Nægir í því sambandi að líta á hlut húsnæðiskostnaðar í hækkandi verðbólgutölum og þar með verðtryggðum lánum. - Ekki hefur náðst nein samstaða um að taka þennan kostnað út úr verðbólguvísitölunni, en það hefði dregið úr hækkun verðtryggðra lána húskaupenda eða byggjenda.

Mánudagur, 03. 03. 08. - 3.3.2008 21:33

Í kvöld var ég í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins og ræddi um stjórnskipun og góða stjórnsýslu við áhugasaman hóp nemenda.

Ég fór meðal annars yfir þær stjórnskipulegu ákvarðanir, sem yrði að taka, ef stefna yrði tekin á aðild að Evrópusambandinu. Þá þyrfti að breyta stjórnarskrá og efna til þingkosninga af því tilefni. Einnig færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla og kannski tvisvar sinnum, fyrst til að kanna hug þjóðarinnar til þess, að í aðildarviðræður yrði ráðist og síðan um aðlidarsamninginn sjálfan. Í tengslum við það yrði nauðsynlegt að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslu og framkvæmd hennar.

Stjórnskipulegu álitamálin væru þannig mörg og flókin fyrir utan efnislega þáttinn sjálfan, hvort aðild yrði okkur til góðs. Efnahagslögmál og áhrif þeirra hyrfu ekki úr sögunni við aðild, en íslensk stjórnvöld hefðu hins vegar minna svigrúm til efnahagsráðstafana eftir aðild en án hennar. Síður en svo yxu gullepli á hverju tré innan Evrópusambandsins. Hagsæld væri almennt meiri í Evrópuríkjum utan sambandsins en innan.

Þeir, sem hæst töluðu um mikinn og skjótan hag Íslendinga af ESB-aðild, minntu á blekkingasmiði, sem fóru um Villta vestrið og predikuðu gæði lífselíxírs og sögðu hann allra meina bót, en áttu síðan oft fótum fjör að launa, þegar fjárplógsstarfsemi blasti við í stað heilsubata.

88% aðspurðra í Bretlandi vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjan stofnsáttmála ESB. Gordon Brown og félagar í ríkisstjórn Bretlands verða að hafa þessir óskir að engu vegna eigin loforða gagnvart ESB-valdhöfunum í Brussel.

Sunnudagur, 02. 03. 08. - 2.3.2008 21:47

Endirinn á danska sjónvarpsþættinum Forbrydelsen - Glæpnum - var ekki eins góður og aðdragandi hans. Kannski er það vegna endalokanna, sem þátturinn hefur ekki unnið til alþjóðlegra verðlauna eins og Danir væntu. Segir sá, sem ekki hefur hugmynd um, hvað dómnefndir leggja til grundvallar við ákvarðanir af þessum toga. Hinu má ekki heldur gleyma að dómnefndum getur skeikað á þessu sviði eins og öðrum.

Sérkennilegt var að hlusta á fréttir í dag um mestu snjókomu í Vestmannaeyjum síðan á sjöunda áratugnum á sama tíma og úrkomulaust var rétt norðan við Eyjarnar, í Fljótshlíðinni. Að vísu var skafrenningur þar og fauk svo í heimreiðina, að ég festi mig. Komu tveir góðir nágrannar mér til hjálpar, eftir að ég hafði árangurslaust reynt að moka bílinn lausan.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, lýsir hér heimsókn sinni á sveitasetur George Bush, forseta Bandaríkjanna.

Eftirskrift: Glöggur lesandi benti mér á að þáttaröðin Forbrydelsen hefði verið gerð í tveimur hlutum 1 til 10 (2006) og 11 til 20 (2007), Aðeins fyrri hlutinn hafi verið sendur í keppni. Leikmannsskýring mín hér að ofan er því ómerk.

 

Laugardagur, 01. 03. 08. - 1.3.2008 11:44

Ísland er að verða eins og Kúba, sagði Gunnar Smári Egilsson í þættinum Í vikulokin rétt í þessu. Málflutningurinn endurspeglaði sjónarmið, sem virðist vera stefna Baugsmiðlanna um þessar mundir, að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, talaði í sama þætti á þann veg um flokk sinn, að helst mátti ætla, að hún hefði afskrifað hann. Þó sá hún ljós í myrkrinu, þegar henni var hugsað til Halldórs Ásgrímssonar. Valgerður sagði meira að segja, að ársgömul skýrsla Evrópunefndar, sem ég stýrði, væri að verulegu leyti endurprentun á skýrslum Halldórs Ásgrímssonar. Þetta er einfaldlega hreinn uppspuni. Valgerður hefur varla lesið skýrslu Evrópunefndar eða aðrar Evrópuskýrslur, sé hún í raun þessarar skoðunar. Þar er einmitt að finna ýmislegt, sem gengur þvert á orð Halldórs Ásgrímssonar um Evrópumálin.

Síst er að undra, að sú spurning vakni, hvort Framsóknarflokkurinn sé lífs eða liðinn, þegar varaformaður hans talar á þennan veg.