18.3.2008 18:01

Þriðjudagur, 18. 03. 08.

Fyrir nokkrum mánuðum birtist dagbókardálkur í vikuritinu The Spectator eftir Andrew Roberts, sem var á ferð í Bandaríkjunum og kynnti nýja bók sína um sögu enskumælandi þjóða. Dálkurinn vakti mikla athygli fyrir „name dropping“ höfundar - hann tíundaði rækilega allt fræga fólkið, sem hann hitti og var ekki síður hrifinn en Össur Skarphéðinsson, af því að hafa hitt George W. Bush, forseta Bandaríkjanna.

Lesendur The Spectator voru ekki allir sáttir við, að Roberts væri að gera sig merkilegri í augum þeirra með því að nefna frægt fólk til sögunnar og þótti í raun óþarfi - hann væri nógu merkur af sjálfum sér.

Mér datt þetta í hug, þegar Egill Helgason lét þess getið, að hann hefði séð Vanessu Redgrave í rauðri flíspeysu á Heathrow-flugvelli við komu sína til London í vikunni, og síðan Boris Berezovskí, heimsfrægan, landflótta rússneskan auðkýfing, á sushistað.

Raunar læddist hið sama að mér, þegar ég las grein Árna Snævars í Morgunblaðinu í morgun. Þar nær hann sér á strik í ritdeilu við Sigurð Kára Kristjánsson, alþingismann, um Evrópusambandið með því að nefna Davíð Oddsson til sögunnar sem frænda sinn og kenna skýrslu Evrópunefndar við mig.