Dagbók: febrúar 2016

Mánudagur 29. 02. 16 - 29.2.2016 16:40

Hér hefur verið gripið til margvíslegra ráða á undanförnum af opinberri hálfu til að efla kvikmyndagerð, innlenda og erlenda. Beinir fjárstyrkir hafa ráðist af álvörðunum við gerð fjárlaga og eðlilega tekið mið af stöðu ríkissjóðs hverju sinni. Þá hefur verið búið í haginn á annan hátt. Árangurinn hefur verið góður í mörgu tilliti og kvikmyndagerð hefur vaxið fiskur hrygg.

Hér skiptir Kvikmyndaskóli Íslands miklu því að rannsóknir, menntun og þjálfun ráða úrslitum um framvindu á þessu sviði eins og öðrum. Skömmu fyrir jól var gengið frá samningi ríkisins til langs tíma við einkarekna kvikmyndaskólann og fréttir hafa birst um samstarf hans við Háskóla Íslands auk þess sem skólinn hefur ákveðið að opna dyr sínar nemendum frá öðrum löndum.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er stórfyrirsögn þar sem stendur: Kvikmyndagerð er stóriðja. Í fréttinni segir að um 1.300 ársverk hafi verið í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum á Íslandi árið 2014 og jafnist hann á við þrjú stóriðjuverkefn.  Þetta segi í nýrri skýrslu Capacent Ársverk vegna greinarinnar hafi verið um 2.000 árið 2014 og launagreiðslur tæplega 13 milljarðar króna. Bein og óbein velta kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðarins á Íslandi það ár hafi alls numið um 45 milljörðum króna. Skatttekjur ríkisins af greininni voru um 12 milljarðar en á sama tíma lagði það 5,9 milljarða til kvikmynda og sjónvarps.

Magnús Guðmundsson skrifar um íslenskan kvikmyndaiðnað í forystugrein í Fréttablaðinu í dag og segir meðal annars: „Það er líka gott að hafa í huga að heimur listrænna kvikmynda er ört stækkandi fyrirbæri á heimsvísu og þar liggja ómæld tækifæri fyrir þá sem hafa þor til þess að sækja fram til nýrra sigra. Það verður forvitnilegt að sjá hvort íslenska ríkið hefur þetta þor og rænu til þess að auka margfalt fjárfestingar í þessari ört vaxandi atvinnugrein.“

Þegar textinn er lesinn um að það sé undir íslenska ríkinu komið hvort íslensk kvikmyndagerð dafni áfram vaknar spurning hvort hann sé skrifaður af gömlum vana eða vantrú á að unnt sé að halda áfram á eigin forsendum þessarar öflugu listgreinar. Það er sem betur fer hvorki undir þori né rænu ríkisins komið hvernig íslensk kvikmyndalist þróast og hvort hún höfðar til þeirra sem hafa af henni ánægju. Þar ráða þeir ferðinni sem leggja stund á listgreinina.

Sunnudagur 28. 02. 16 - 28.2.2016 16:00

Furðulegt uppgjör hófst meðal ráðamanna pírata mánudaginn 22. febrúar þegar Erna Ýr Öldudóttir, formaður framkvæmdaráðs Pírata, sagði á svonefndu Pírataspjalli „gjörsamlega óþolandi“ hvernig Birgitta Jónsdóttir, þingmaður pírata, hagaði sér með „sólóplay“ og óheiðarlega með rangri framsetningu á sannleikanum.

Á mbl.is birtust þriðjudaginn 23. febrúar viðbrögð Helga Hrafns Gunn­ars­sonar, þingmanns og varaþing­flokks­formanns pírata, sem taldi eðli­legt, aug­ljóst og sjálfstagt mál að klofn­ing­ur gæti orðið í flokkn­um. „Ég kýs að hafa ekki áhyggj­ur af því,“ sagði Helgi og bætti við um Birgittu:

„Mér finnst það skjóta skökku við að mann­eskja í valda­stöðu, sem í þokka­bót hef­ur op­in­ber­lega rægt aðra, þónokkuð oft og mikið, [...] upp­lifi sjálfa sig í fórn­ar­lambs­hlut­verki.“

Eftir þessa yfirlýsingu Helga Hrafns birti Birgitta opið bréf til pírata og sagði:

„Það er mér ljúft og skilt að biðja opinberlega afsökunar á því ef ég hef sært einhvern. Það var ekki ætlun mín en ég veit að ég get stundum verið hvatvís og þver.“

Nú hefur Helgi Hrafn skrifað mea culpa á Pírataspjallið:

„Ég sé núna að það hefði verið mun betra að ræða málið fyrst við Birgittu, en satt best að segja var á þeim tíma ekki tal­sam­band milli okk­ar, sem er eitt­hvað sem við höf­um reynt að laga síðan þá. Mér var gjör­sam­lega mis­boðið en ég sé núna að það rétt­læt­ir ekki að ganga fram með þeim hætti sem ég gerði þá. Því vil ég biðja Birgittu Jóns­dótt­ur inni­lega af­sök­un­ar á því.“

„Af­sök­un­ar­beiðnin mót­tek­in og samþykkt. Þakka þér fyr­ir Helgi minn,“ svar­ar Birgitta.

 „Ég hef líka stund­um farið óvar­lega með vald sjálf­ur og vil endi­lega að við höld­um þeirri umræðu áfram, en þá frek­ar í góðu rúmi þar sem við get­um tekið málið fyr­ir með sem minnstri hættu á deil­um,“ segir Helgi Hrafn.

Nú er spurning hvort píratar ráði yfir nógu „góðu rúmi“ til að unnt sé að leysa deilumálin. Greinilegt er að eftir hinar opinberu sættir vegna stóryrðanna er ætlunin að falla frá frekara uppgjöri fyrir opnum tjöldum. Helgi Hrafn líkti á einu stigi stöðu sinni innan þingflokks pírata við „ofbeldissamand“. Til að búa við slíkt samband er nauðsynlegt að tileinka sér undirgefni og meðvirkni.

Af lestri frétta verður ekki ráðið að Erna Ýr Öldudóttir hafi dregið ummæli sín um Birgittu til baka.

 

Laugardagur 27. 02. 16 - 27.2.2016 17:50

Þar sem menn koma saman ber ferðamannafjölgunin oft á góma en ekki síður byggingar hótela og fjölgun gististaða af ýmsu tagi. Það virðist ekkert lát á hugmyndaflugi og fjármunum þegar að þeim þáttum ferðaþjónustunnar kemur. Hitt hefur alloft lengi verið látið sitja á hakanum að setja lágmarkskröfur um aðstöðu fyrir ferðamenn utan hótel- og veitingastaðanna. Þegar að þeim þætti kemur er ekkert sambærilegt átak til uppbyggingar gert og við fjölgun gististaða.

Engu er líkara en þeir sem mestan hag hafa af ferðaþjónustunni líti á það sem samfélagslegt vandamál að gestunum sé ekki búið öryggi í samræmi við hættur sem að kunna að steðja. Eru það ekki einkum þjónustuaðilarnir og sveitarfélög þeirra sem þarna eiga að vera í fararbroddi? Hvernig má það vera að fólk sem aldrei hefur kynnst náttúruöflunum fer ferða sinna án nauðsynlegrar aðgæslu við Jökulsárlón þar sem einkaaðilar hagnast á komu þeirra?

Þeir sem fá leyfi til að selja aðgang að gistirými verða að uppfylla kröfur heilbrigðiseftirlits og brunavarna. Þeir greiða árlegt gjald fyrir leyfið og fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði hækka sé það nýtt til útleigu til dæmi á Airbnb. Eru engar sambærilegar öryggiskröfur gerðar til þeirra sem eiga land sem nýtur vinsælda ferðamanna? Ber þessum landeigendum ekki skylda til að gera nauðsynlegar öryggisráðstafanir á eigin kostnað?

Raunar er óskiljanlegt hve rík þörf er til að breyta viðfangsefnum sem í raun eru á ábyrgð landeigenda eða skipulagsyfirvalda á viðkomandi stað í vanda sem ríkisvaldinu beri að leysa. Hvar verða menn varir við aðgerðir til að draga skýrar línur og marka ábyrgð hvers og eins? Ábyrgðin á eigin öryggi hvílir auðvitað fyrst og síðast á einstaklingnum sjálfum. Sé hann við aðstæður sem hann hefur aldrei kynnst ber að skýra þær sem best fyrir honum. Þar skiptir þekking staðkunnugra mestu og geri þeir ráðstafanir til að laða til sín ferðafólk ber þeim skylda til að kynna því hættur sem kunna að felast í komu á viðkomandi stað og standa að kynningu og gæslu á viðunandi hátt.

Ríkisvaldið á að hafa puttana sem minnst í ferðaþjónustunni og draga sig út úr henni til dæmis með einkavæðingu á starfsemi Isavia á Keflavíkurflugvelli. Hver bjóst við því að félag sem stofnað var til að halda utan um flugumferðarstjórn og öryggisreglur yrði einn helsti verslanarekandi og byggingaraðili í landinu? 

Föstudagur 26. 02. 16 - 26.2.2016 18:45

Að kvöldi fimmtudags 25. febrúar hafði ég framsögu á fundi í Valhöll um Schengen og flóttamannavandann en Viðar Guðjohnsen lyfjafræðingur stjórnaði fundinum.  Skoðun mín á Schengen-samstarfinu er í stuttu máli sú að það sé haft fyrir rangri sök hér á landi þegar menn kenna því til dæmis um straum hælisleitenda til landsins. Vandinn á því sviði er að Schengen-reglur eru ekki notaðar til að afgreiða mál á þann hátt sem ber – það er vísa fólki úr landi sem sækir hér um hæli í trássi við reglurnar. Líklega ná reglurnar til svo til allra ef ekki allra hælisleitenda hér því að þeir hafa haft viðdvöl í öðru Schengen-ríki áður en þeir koma hingað til lands. Umsókn þeirra ber að afgreiða í fyrsta landi þeirra á Schengen-svæðinu.

Hugmyndaflugið sem menn hafa til að fara í kringum þessa reglu er takmarkalaust. Virðist þó nægja að lögfræðingi hælisleitandans takist einum eða með aðstoð almannatengils að hafa samband við fréttastofu ríkisútvarpsins til að setja af stað ferli sem oft lýkur á þann veg af mannúðarsjónarmiðum eða öðrum mjög matskenndum ástæðum er sagt að lög og reglur Schengen gildi ekki um viðkomandi einstakling – síðan er skuldinni gjarnan skellt á Schengen-reglurnar!

Í dag birti útlendingastofnun svar sitt til umboðsmanns alþingis við spurningum hans um afgreiðslu stofnunarinnar á óskum um dvalarleyfi af heilsufarsástæðum. Spurningarnar sendi umboðsmaður vegna umræðna um ákvörðun útlendingastofnunar um að vísa tveimur albönskum fjölskyldum úr landi en þar á meðal voru veik börn. Talsmenn þeirra töldu að lífi barnanna væri stefnt í voða með brottvísuninni. Fór svo að alþingi ógilti hana með þeim óvenjulega gjörningi að veita fjölskyldunum íslenskan ríkisborgararétt. Í því efni hafði sjálft þingið Schengen lög og reglur að engu.

Fyrirspurn umboðsmanns alþingis var vatn á myllu þeirra sem létu eins og illa væri staðið að afgreiðslu mála af því tagi sem um er að ræða í henni. Þá ber allur þessi sérkennilegi málarekstur svip af því að heilbrigðiskerfið í Albaníu standi ekki undir nafni. Virtust úrslitarökin í málinu snúast um illa meðferð á veikum börnum í Albaníu.

Nýlega átti ég kost á að ræða við mann sem dvaldist í nokkur misseri í Albaníu og sagði honum frá þessu máli og að síst af öllu hefði dregið úr hælisumsóknum frá Albaníu eftir afgreiðslu þess. Hann lýsti undrun yfir gangi málsins og sagði fráleitt að halda því fram að ekki væru góðar sjúkrastofnanir í Albaníu. Teldu Albanir að þeim byðist ríkisborgararéttur og hágæða heilbrigðisþjónusta kæmu þeir til Íslands myndi umsóknum þeirra hér aðeins fjölga. Ekki verður Schengen kennt um það heldur alþingi.

Fimmtudagur 25. 02. 16 - 25.2.2016 16:30

Viðtal mitt við Pál Þórhallsson, formann stjórnarskrárnefndar, á íNN frá því í gær er komið á netið og má sjá það hér.

Í gær birtist á vefsíðu hins kunna bandaríska tímarits Foreign Affairs grein eftir tvo doktorsnema í alþjóðastjórnmálum: Gregory Winger og Gustav Pétursson undir fyrirsögninni: Return to Keflavik Station Iceland's Cold War Legacy Reappraised þar sem fréttin í Stars and Stripes  um fjárveitingu til að endurgera flugskýli 831 á Keflavíkurflugvelli er sett í samhengi við stöðu Íslands og hernaðarlegt mikilvægi á tíma kalda stríðsins. Lesa má greinina hér.

Höfundar segja að fréttin hafi vakið trepidation (kvíða) á Íslandi og hann hafi ekki minnkað við að forsætisráðherra og almenningur hafi fengið upplýsingarnar úr fjölmiðlum en ekki eftir opinberum leiðum. Þá er rifjað upp að Bandaríkjaher hafi farið héðan og skilið eftir sig sárindi ekki síst vegna aðferðarinnar við brottförina, þetta sitji enn í sumum og kunni að spilla fyrir áformum um endurkomu. Höfundum finns ólíklegt að opnuð verði hér bandarísk herstöð að nýju en segja í lok greinar sinnar:

„As long as European allies are reliant on U.S. military power, and as long the United States believes that it has strategic interests in Europe, Iceland will remain the indispensable bridge between Europe and North America that is needed for credible U.S. defense guarantees in Europe.“

Þessari niðurstöðu verður ekki mótmælt. Viðbrögð við nýjum aðstæðum munu að lokum ráðast af öðru en því sem gerðist fyrir 10 árum þegar Bandaríkjaher hvarf úr Keflavíkurstöðinni. Þau hljóta að ráðast af skynsömu mati á nýju aðstæðunum og nauðsynlegum ráðstöfunum til að tryggja öryggi Íslands og leiðanna milli Norður-Ameríku og Evrópu yfir Norður-Atlantshaf.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag birtist frétt sem skiptir miklu um pólitísk samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Þar segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals,  að engar hvalveiðar verði stundaðar á vegum fyrirtækis síns á þessu ári vegna erfiðleika við að selja hvalaafurðir í Japan. Hvalur hafi „mætt endalausum hindrunum við að koma hvalaafurðum á markað í Japan“.

Vegna bandarískra laga til að knýja fram bann við hvalveiðum hafa háttsettir bandarískir ráðamenn ekki getað átt eins náin samskipti við íslensk stjórnvöld og ella væri, til dæmis með heimsóknum hingað til lands. Þetta kann nú að breytast.

 

 

 

Miðvikudagur 24. 02. 16 - 24.2.2016 21:10

 

Í dag ræddi ég við Pál Þórhallsson, formann stjórnarskrárnefndar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum starf nefndarinnar, meginniðurstöður hennar og síðan efni tveggja af þremur greinum í tillögum hennar, það er um náttúruauðlindir og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Tillögur nefndarinnar snerta mál sem hafa verið lengi til umræðu í tengslum við breytingar á stjórnarskránni.

Davíð Oddsson hreyfði því til dæmis fyrst fyrir um það bil aldarfjórðungi að rétt væri að skilgreina fiskveiðiauðlindina sem sameign þjóðarinnar í stjórnarskrá. Í ákvæðinu kallar nefndin þetta þjóðareign. Páll segir í samtali okkar að um það sé deilt lögfræðilega hvort yfirleitt sé unnt að skilgreina eitthvað sem þjóðareign miðað við núverandi hugmyndir um eignarrétt sem reistar eru á ákvæðum núgildandi stjórnarskrár. Hann svarar þessari gagnrýni á þann hátt að stjórnarskrárgjafinn hafi heimild til að skilgreina nýja tegund af eignarrétti: þjóðareign.

Tillögur nefndarinnar má nálgast á vefsíðu forsætisráðuneytisins og þar eru einnig leiðbeiningar um hvernig unnt er að koma athugasemdum vegna tillagnanna á framfæri til 8. mars. Nefndin tekur síðan endanlega afstöðu til málsins og sendir lokatillögu sína til forsætisráðherra sem síðan ræðir málið við aðra flokksleiðtoga. Málið verður ekki afgreitt frá þingi nema tveir þriðju þingmanna styðji það.

Hér skal engu spáð um örlög málsins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lýsti í morgun óánægju yfir því að í tillögum nefndarinnar væri ekki gert ráð fyrir frumkvæðis- eða dagskrárvaldi almennings með því að ákveðinn fjöldi fólks gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu eitthvert mál. Slíkt ákvæði er til dæmis nýtt í Hollandi og hefur leitt til þess að í apríl verður efnt vtil ráðgefandi atkvæðagreiðslu um hvort staðfesta eigi samning ESB við Úkraínu. Tillaga nefndarinnar felur í sér að 15% kjósenda, um 30.000 manns, geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög.

Haldi forsætisráðherra fast í sjónarmið sitt þegar málið verður rætt á vettvangi stjórnmálaleiðtoga eða krefst þess að nefndin taki skoðun sína til afgreiðslu að loknum umsagnarfresti kann það að sigla málinu í strand.

Jóhanna Sigurðardóttir beitti forsætisráðherravaldi sínu til að gera skipan stjórnlagaþings að skilyrði fyrir afgreiðslu stjórnarskrármálsins í stjórnartíð sinni. Þessi krafa varð til þess að ekki fékkst nein efnisleg niðurstaða. Hið eina sem Jóhanna náði fram var ákvæði um að á því kjörtímabili sem nú stendur megi breyta stjórnarskránni eftir annarri aðferð en að þing sé rofið og breytingin borin undir þing að nýju að loknum kosningum.

Þriðjudagur 23. 02. 16 - 23.2.2016 17:20

Í gær var sagt frá niðurstöðu skoðanakönnunar í Hollandi sem sýnir að 53% Hollendinga styðja að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild þeirra að ESB. Könnunin sýnir einnig að 44% mundu styðja framhald aðildar en 43% úrsögn úr ESB.

Í huga Brusselmanna er eitt að seinni tíma aðildarþjóð eins og Bretar vilji láta reyna á ESB-aðildina í þjóðaratkvæðagreiðslu, annað að ein af stofnþjóðunum, Hollendingar, vilji fá tækifæri til að skoða hug sinn til aðildar.

Í Brussel hafa menn auk þess ekki gleymt því að vorið 2005 felldu Hollendingar í þjóðaratkvæðagreiðslu tillögu að stjórnarskrá fyrir ESB. Leiddi höfnun Hollendinga og Frakka á tillögunni til þess að gengið var til að gera Lissabon-sáttmálann sem gekk skemur en stjórnarskrártillagan, þó svo langt að Bretar hafa samið sig frá ákvæðum hans um samrunaþróunina. Telur David Cameron það einna bitastæðast í samningi sínum og segir að í því felist ekki aðeins að innan ESB geti aðild verið stigbundin, ef þannig má orða það, heldur ólík að eðli, þar sem ríki stefni til ólíkra átta.

Hollendingar voru á sínum tíma í hópi þeirra sem mest töluðu um gildi þess að afsala sér fullveldi til yfirþjóðlegrar stofnunar í því skyni að efla fullveldið í reynd með samruna þess við fullveldi annarra þjóða. Raddir sem þessar eiga minni hljómgrunn nú en nokkru sinni vegna vitneskjunnar um lýðræðishallann svonefnda innan ESB og skort ESB-embættismannakerfisins á lögmæti. Undan þessu kerfi vilja Bretar einnig skjóta sér.

Hvernig sem þjóðaratkvæðagreiðslan fer í Bretlandi hefur ESB breyst með samningi Davids Camerons. Með því að koma á tvíátta samstarfi gamalla aðildarþjóða ESB munu Brusselmenn leggja enn meiri áherslu en áður á ákvæði í aðildarskilmálum yngri aðildarríkja um einsleitni og að þeim beri að virða allar samþykktir og sáttmála sem fyrir liggja við aðild þeirra. Skilyrðalausri aðild og aðlögun verður framfylgt af meiri þunga en áður gagnvart þeim sem enn hafa áhuga á aðild að sambandinu.

Mánudagur 22. 02. 16 - 22.2.2016 20:20

 

David Cameron, forsætisráðherra Breta, kynnti niðurstöðu viðræðna sinna við ESB á fundi breska þingsins í dag. Í frásögnum breskra fjölmiðla af umræðunum er lagt út af því sem túlka mátti sem gagnrýni hans á Boris Johnson, flokksbróður hans og borgarstjóra í London, sem snerist í gær gegn ESB-stefnu Camerons og sagðist ætla að greiða atkvæði með úrsögn Breta úr ESB.

Johnson segir að það styrki stöðu Breta gagnvart ESB að segja nei, hið eina sem Brusselmenn skilji sé afdráttarlaus afstaða þjóðar. Það sé áfram nauðsynlegt að ræða við ESB þrátt fyrir úrsögn og með nei-i styrkist samningsstaðan.  Þessu svaraði Cameron með  því að segja að það þætti undarlegt að hvetja til hjónaskilnaðar með þeim orðum að sambandið yrði betra með því að hefja það að nýju.

Í lok framsöguræðu sinnar áréttaði Cameron að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í næstu þingkosningum. Afstaða sín til  ESB mótaðist því ekki af eigin framadraumum. Þarna skaut hann einnig á Johnson sem er sakaður um að láta eigin pólitískan metnað ráða afstöðu sinni frekar en hag Bretlands. Hann telji að andstaða gegn ESB styrki sig í komandi leiðtogakjöri í Íhaldsflokknum.

Einn stjórnmálaskýrandi sagði að ástandið meðal æðstu manna Íhaldsflokksins minnti nú á spennuna milli Tonys Blairs og Gordons Browns í Verkamannaflokknum áður en Blair hætti sem leiðtogi flokksins og forsætisráðherra.

Það verður spennandi að fylgjast með sveiflunum í bresku umræðunum fram til 23. júní þegar greidd verða atkvæði um ESB-aðildina. Þar verður unnt að kynnast aðferðum þaulæfðra stjórnmálamanna í átökum sem um mál sem klýfur flokka þar ekki síður en hér á landi og annars staðar. 

Sunnudagur 21. 02. 16 - 21.2.2016 20:20

Samtal mitt á ÍNN við Áslaugu Guðrúnardóttur um mínimalískan lífsstíl er komið á netið og má sjá það hér.

Ríkisstjórn Bretlands kom saman til fundar laugardaginn 20. febrúar til að ræða niðurstöðu leiðtogaráðs ESB frá því deginum áður um ný ESB-aðildarskilyrði Breta. Í fréttum var sagt að ekki síðan í Falklandaseyjastríðinu árið 1982 hefði ríkisstjórnin haldið fund á laugardegi. David Cameron forsætisráðherra er sáttur við niðurstöðu leiðtogaráðsins. Hann telur sig hafa náð góðum samningi og ætlar að mæla með áframhaldandi aðild Breta á grundvelli hans í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem hann hefur boðað 23. júní 2016.

Þar til í dag hafa andstæðingar ESB-aðildar Breta verið næsta forystulausir. Þetta breyttist hins vegar með því að Boris Johnson, borgarstjóri London,kynnti í dag ákvörðun sína um að snúast gegn niðurstöðu leiðtogaráðsins og berjast fyrir úrsögn úr ESB.

Johnson sagðist ekki ætla að taka þátt í umræðuþáttum til að deila við flokksbræður sína um málið þá mundi hann ekki heldur skipa sér á pall með þeim andstæðingum ESB-aðildar sem hann mæti lítils vegna annarra skoðana þeirra. Hins vegar er talið að hann taki þátt í fundum íhaldsmanna gegn ESB. Hann nái þar með til grasrótarinnar í flokknum og treysti með því stöðu sína í komandi flokksleiðtogakjöri gegn George Osborne fjármálaráðherra. Cameron dregur sig í hlé fyrir næstu þingkosningar.

Af 30 manns í ráðuneyti Camerons eru sjö andvígir ESB-aðild.

Laugardagur 20. 02. 16 - 20.2.2016 23:55

Heimferðin frá Miami gekk eins og í sögu. Icelandair-vélin fullsetinn nákvæmlega á áætlun frá Orlando. Flugstöðvar í Miami og Orlando eru risavaxnar og gott að gefa sér rúman tíma. Skipulagsleysið við öryggisleitina í Orlando stakk í stúf við annað í flugstöðinni.

Föstudagur 19. 02. 16 - 18.2.2016 23:55

Fréttir í dag um tillögur til breytinga á stjórnarskránni sannfæra mig endanlega um að tafir á að ná samkomulagi um það sem þar er að ræða megi  rekja til þvermóðskulegrar kröfu Jóhönnu Sigurðardóttur um að breyta yrði allri stjórnarskránni og kalla saman sérstakt stjórnlagaþing til þess. 


Jóhanna hóf þessa vitlausu vegferð strax eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009 og naut þá stuðnings Framsóknarflokksins enda var Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður flokksins, formaður stjórnarskrárnefndar. Annnarri eins meðferð á máli sem ekki varð afgreitt án samkomulags allra hef ég aldrei kynnst.

Ofríkið og frekjan var liður í að sverta Sjálfstæðisflokkinn á alla lund. Allt rann þetta út i sandinn hjá Jóhönnu eins og önnur mál sem henni voru heilög sem forsætisráherra. 

Samfylkingin sýpur nú seyðið af þessum óstjórnartíma eins og fráfarandi formaður hennar, Árni Páll Árnason, hefur lýst í uppgjörsbréfi við lok formennsku sinnar. Katrín Júlíusdóttir varaformaður segir skilið við stjórnmálin en hún hefur verið þátttakandi í hildarleiknum sem leiðir til falls flokksins.

Fimmtudagur 18. 02. 16 - 18.2.2016 23:55

Ókum frá höfninni í Palm Beach til South Beach í Miami. Búum á litlu hóteli við Ocean Drive, hina frægu strandgötu. Þar sem glæsivögnum er ekið á rúntinum og þeir sem eru á spyrnubílum láta í sér heyrast. Gatan er 2,1 km löng og þar eru hótel og veitingastaðir hlið við hlið á aðra hönd en opið Atlantshafið í austri.


Við Ocean Drive var tískufrömuðurinn Versace myrtur árið 1997 þegar hann var að ganga inn í glæsihús sitt við götuna. Þar er nú íburðarmesta hótel Miami.

Austan vindur blés af hafi og fáir voru á ströndinni, hitinn 26 gráður C. Á útiveitingastöðum var kveikt á gashiturum.

Miðvikudagur 17. 02. 16 - 17.2.2016 23:00


Áður en ég hélt utan tók ég upp viðtal á ÍNN við Áslaugu Guðrúnardóttur sem sendi nýlega frá sér bók um mímimalískan lífsstíl. Þátturinn var frumsýndur í kvöld en hann má sjá þar til kl. 18.00 á morgun auk þess sem hann er alltaf aðgengilegur á tímaflakkinu og síðar á inntv.is.


Um klukkan 08.00 í morgun lagði skipið Grand Celebration að landi í Freeport á Bahama-eyjum. Við fórum í skoðunarferð um bæinn og síðan röltum við um markað sem rekinn er fyrir gesti af skemmtiferðaskipum og aðra ferðamenn. Ferðaþjónusta er aðalatvinnugreinin á Bahama-eyjum.

Í skoðunarferðinni sáum við hverfi sem benda til fátæktar eða frumstæðra lifnaðarhátta. Áríð 2004 fór eyjan Grand Bahamas  mjög illa í fellibyl, til dæmis gjöreyðilagðist flugvöllurinn við Freeport.

Forvitnilegt var að koma hingað. Eyjaklasinn fékk sjálfstæði frá Bretum um miðjan áttunda áratuginn. Þar er vinstri handar umferð eins og í mörgum fyrrverandi nýlendum Breta. 

Skipið siglir til baka til Palm Beach í kvöld. Margir farþeganna gista nokkrar nætur í strandhóteli í Freeport en ströndin virtist falleg og Atlantshafið einstaklega blátt. Mér finnst ólíklegt að leið mín liggi aftur hingað.

Þriðjudagur 16. 02. 16 - 16.2.2016 23:55

Vöknuðum við þrumur og eldingar snemma morguns í Fort Lauderdale. Óveðrið stóð í skamma stund. Ókum í um klukkutíma norður til hafnarinnar í Palm Beach. Fórum þar um borð í skipið Grand Celebraition og sigldum kl. 18.00 til Freeport á Bahama-eyjum.

Mánudagur 15. 02. 16 - 15.2.2016 23:55

Hagvanur maður sagði við okkur á förnum vegi í dag að það væri skrýtið að verða að ganga í peysu í Flórída en þannig væri það næuna í Fort Lauderdale. Við tókum undir með honum þótt hitinn væri tæpar 20 gráður. Það sást hins vegar ekki til sólar og rigndi meira að segja aðeins

.
Ströndin var mannauð þegar við skruppum þangað akandi. Hér eru vegalengdir slíkar að nauðsynlegt er að hafa bíl við hendina til að komast á milli staða. Að vísu má sjá strætisvagna en hér ræður einkabíllinn og er rúmt um hann á götunum.

Ströndin var að vísu ekki alveg mannauð, nokkrir sérvitringar sátu inni í teppum eða stran-handklæðum til að verjast vindinum sem blés af Atlantshafinu í vestri. Þegar ströndin kallar ekki á fólkið er það hálf bjargarlaust í strandfötunum sínum og veit ekki alveg hvað best er að taka sæer fyrir hendur.

Í hinni risavöxnu verslanamiðstöð skorti ekki viðskiptavinina og það var jafnvel erfiðara að finna bílastæði heldur en í gær. 

Sunnudagur 14. 02. 16 - 14.2.2016 23:55

Að kynnast mannlífinu hér í Flórída frá sjónarhóli ferðasölufólks er svo sérkennilegt að lýsing á því með fáum orðum verður aðeins yfirborðskennd. Augljóst er að þeir sem starfa hér að ferðaþjónustu telja Flórída mestu ferðamiðstöð veraldar. Hingað streymir fólk milljónum saman allan ársins hring.
Ég sagði í fyrri færslu að ferðasölumaður hefði upplýst mig um að 55 milljónir manna kæmu til Orlando á ári. Í dag sagði annar a fjöldinn væri 62 milljónir á ári til Orlando sem væri mesta miðstöð ferðamennsku í heiminum.
Tölur um árlegan vöxt er ævintýranlegur og hvarvetna keppast menn við að setja ferðalögin í sem girnilegasta búning til að varan sé seljanlegri. Samkeppni á þessum markaði er ofurhörð.
Allt sem við augum blasir snýst um þjónustu eða frístundaiðkun af einhverju tagi. Þar sem við erum núna, Fort Lauderdale, eru til dæmis outletin svonefndu svo risavaxin að fá eru sambærileg annars staðar.
Þá eru hér íbúðahverfi þar sem ákveðið hefur verið að leyfa ekki verslanir Walmart af því að íbúarnir kæra sig ekki um að viðskiptavinir Walmart leggi leið sína í hverfið sitt, það sé fyrir þá sem vilja versla þar sem verðið er hærra.

Laugardagur 13. 02. 16 - 13.2.2016 23:55

Í dag ókum við sem leið lá frá Orlando suður til Fort Lauderdale, með stuttri viðkomu á Cape Canaveral. Þaðan skjóta Bandaríkjamenn geimförum sínum og getvitunglum. Stór mannvirki og sýningarsvæði fyrir almenning blöstu við þarna á eyðilegri Atlantshafsströndinni.

Undir kvöld á bandarískan tíma birtu bandarískir fjölmiðlar á netinu fréttir um að Antonin Scalia (79 ára) hæstaréttardómari hefði fundist látinn á heimili sínu í Suður-Texas. Hann var nýkominn úr 12 daga ferð til Asíu þar sem hann flutti fyrirlestra við háskóla í Hong Kong og Singapore. Ronald Reagan Bandaríkjaforseti skipaði Scalia hæstréttardómara fyrir um það bil 30 árum.

Scalia kom til Íslands um miðjan október 2008 og hinn 18. október 2008 skráði ég hér í dagbókina:

„Klukkan 16.00 hélt Antonin Scalia, hæstaréttardómari frá Bandaríkjunum, fyrirlestur á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands í hátíðarsal skólans í tilefni af 100 ára afmæli lagakennslu. Salurinn var þéttsetinn og gerður góður rómur að máli Scalia, enda er hann einstakur fyrirlesari.

Scalia er eindreginn talsmaður þess, að dómarar haldi sig við bókstaf laganna í dómum en fari ekki inn á svið löggjafans. Að hans mati er þróunin til þeirrar áttar og nefndi hann til marks um það bæði dóma frá Bandaríkjunum og mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg. Segir hann, að með vísan til mannréttinda telji dómarar sig geta gengið mun lengra en góðu hófi gegni í niðurstöðum sínum. Það sé ekki þeirra hlutverk að setja lög heldur kjörinna fulltrúa á þjóðþingum.“

Fyrir utan að hlusta á Scalia flytja fyrirlestur sinn efndi ég sem dómsmálaráðherra til kvöldverðar honum til heiðurs í Þjóðmenningarhúsinu. Hann er meðal eftirminnilegri gesta. Eftir Íslandsförina bauð hann þeim sem áhuga hefðu að heimsækja sig í hæstarétt Bandaríkjanna ættu þeir leið um Washington. Ég var nokkrum dögum síðar á ferð um borgina en þá gafst því miður ekki tími til að þiggja boð Scalia. Mig minnir að hópur lögfræðinga hafi gert það síðar.

 

Föstudagur 12. 02. 16 - 12.2.2016 20:45

 

Viðtal mitt við Stefán Baldursson leikstjóra á ÍNN miðvikudaginn 10. febrúar er komið á netið og má sjá það hér.

Í dag skoðuðum við aðeins einn af þeim mögnuðu görðum eða sýningar- og skemmtisvæðum í nágrenni Orlando og eiga rætur í ákvörðun Walts Disneys að láta draum sinn um slíka garða rætast hér. Við skoðuðum Eptoc-garðinn sem var opnaður árið 1982. Þar er minnst afreka mannsins á sviði tækni og vísinda auk þess sem nokkrar þjóðir hafa sýningarsvæði þar sem þær endurgera mannvirki og andrúmsloft frá eigin löndum. Norðmenn eru fulltrúar okkar Norðurlandaþjóðanna og má meðal annars sjá þarna endurgerð af stafkirkju og bryggjuhúsunum í Bergen.

Þarna er sérstakt bandarískt sýningarsvæði og í hádeginu kom þar fram fámennur kór og söng bandarísk ættjarðarljóð í um 15  mínútur. Að því búnu var 45 mínútna sýning með mikilvægum stiklum úr sögu Bandaríkjanna. Blandað var saman myndefni og framkomu þjóðkunnra Bandaríkjamanna með Benjamin Franklín og Mark Twain í aðalhlutverkum. Erfitt var í fyrstu að átta sig á hvort það væru í raun vélmenni á sviðinu sem léku þá félaga og aðra fulltrúa liðins tíma. Þarna var ekki farið dult með þjóðerniskennd eða þjóðarstolt.

Vagnstjórinn sem ók okkur úr garðinum til gististaðar átti varla nógu sterk orð til að lýsa þeirri gæfu fyrir Orlando að Walt Disney hefði valið Orange Country við Orlando sem stað fyrir garða sína.

Eitt er að hafa hugmyndaflug til að hanna þessa garða og gera þá að mest sóttu skemmtigörðum veraldar, annað að halda utan um reksturinn, allt skipulag og hreinlæti á þann einstaka hátt sem kynnast mátti í Eptoc-garðinum í dag. Það eitt að fá nasasjón af því er þess virði að heimsækja þennan einstaka stað.

Á hverju ári koma nú um 55 milljónir ferðmanna til Orlando að sögn heimamanna. Raunar virkar það af Flórída sem ég hef séð sem eitt risavaxið frístundasvæði þar sem skólabörn og eldri borgarar skemmta sér hlið við hlið.

Fimmtudagur 11. 02. 15 - 11.2.2016 20:45

Það er óþægilegt að vera á ferðalagi þegar tölvan hrynur hjá þeim sem hefur vanist því að skrifa eitthvað daglega. Þetta gerðist þó hjá mér á ferð minni hér í Flórída og kenni ég því enn um að ég skipti í Windows 10 úr Windows 7 á ferðatölvunni minni. Eftir það tók hún að hægja á sér og nú nær hún ekki að virkja forritin, er frosin án þess þó að vera frosin og hagar sér á allan hátt undarlega. Þetta verður til þess að ég tek að fikra mig frá PC og yfir á Mac, kannski nú í ferðinni. Áður þegar ég hef sagt frá vandræðum mínum með Windows hafa Makka-eigendur ekki llegið á liði sínu með hvatningarorð um að ég skuli velja mér þeirra tæki. Þetta skrifa ég á lánstölvu og mun ráðast hve miklu ég fæ áorkað við skriftir á þann veg í ferðinni.

Vegna þess að tölvan mín geymir öll grunngögn mín hef ég ekki sama aðgang að upplýsingalindum á þessari tölvu og ég hefði kosið.

Miðvikudagur 10. 02. 16 - 10.2.2016 22:15

Nú er ég í fyrsta sinn í Flórída. Flugum með Icelandair í sneisafullri vél í gær til Orlando úr frostinu. Í dag er  sól og tæplega 20° C stiga hiti.´Í morgunsólinni þótti heimamönnum hins vegar óhjákvæmilegt að klæðast vetrarfötunum sínum. Fyrir okkur sem komum úr frostinu var hins vegar ánægjulegt að geta gengið léttklæddur utan dyra.

Næstu daga ferðumst við hér og ef til vill segi ég frá einhverju sem á dagana drífur. Mér var sagt fyrir brottför að ekki þýddi að vera hér án þess að leigja bíl og það gerði ég í dag. Kaus frekar að gera það í dagsbirtu en að aka í myrkri á algjörlega ókunnum slóðum við komuna í gærkvöldi. Kaus ég frekar að fikra mig áfram í umferðinni hér í björtu en næturmyrkri þótt umstangið væri nokkurt.

Áður en ég fór utan tók upp samtal við Stefán Baldursson leikstjóra sem sýnt ér á ÍNN nú í kvöld. Ræðum við þar meðal annars hina mögnuðu sýningu á Sporvagninum Girnd í uppfærslu Stefáns í Þjóðleikhúsinu.

Lesendum þess sem ég skrifa um öryggismál meðal annars í Morgunblaðið og á vardberg.is ætti ekki að koma á óvart að bandaríska varnarmálaráðuneytið vilji búa þannig um hnúta að nýjar kafbátaleitarvélar geti notað flugskýli fyrir slíkar vélar á Keflavíkurflugvelli.

Viðbrögðin eru misjöfn eins og til dæmis þessi hjá bloggaranum Gísla Baldvinssyni sem segir:

„Endurkoma bandaríska hersins nú hefur að mínu mati annan tilgang en skyndileg umhyggja fyrir íslensku öryggi. Hér er einu peði í stórveldaskákinni ýtt fram til að auka viðsjár og spennu. Spennu sem á upphaf við Krímskaga.“

Þetta er gamalkunnur tónn: allt sem NATO gerir er til þess fallið að auka viðsjár. Uppgjafartal af þessu tagi ýtir aðeins undir yfirgang Pútíns.

Föstudaginn 5. febrúar sl. ritaði ég grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: Bandaríkjastjórn vill fjórfalda útgjöld til varnar Evrópu gegn Rússum. Nú er ljóst að endurnýjun á Keflavíkurflugvelli er hluti þess sem á að gera fyrir þetta fé. Greinina má lesa hér.

 

 

Þriðjudagur 09. 02. 16 - 9.2.2016 14:00

Ekki fer fram hjá neinum að Kári Stefánsson stendur fyrir söfnun undirskrifta til að knýja á um „endurreisn heilbrigðiskerfisins“ eins og það er orðað. Hafi eitthvert kerfi hrunið hér á undanförnum árum er það bankakerfið. Þrátt fyrir þung áföll fyrir það og samfélagskerfið má segja að nú horfi þar til réttrar áttar. Augljóst er af öllum yfirlýsingum stjórnmálamanna að forgangsraðað verður í þágu heilbrigðiskerfisins.

Á vefsíðunni andriki.is, Vef-Þjóðviljanum, er í dag fjallað um söfnun Kára eins og sjá má hér. Þar er vakin athygli á fréttum ríkisútvarpsins um söfnunina. Áhugamenn um aðferðir fréttastofunnar til að halda lífi í málum af þessu tagi hafa fyrir löngu áttað sig á að Kári eða almannatenglar á hans vegum hafa greiðan aðgang að fréttastofunni og eyrum hlustenda í gegnum hana. Stundum er reynt að réttlæta fréttirnar með því að stilla málum upp á þann veg að Kári keppi við aðra sem staðið hafa að söfnun undirskrifta málstað sínum til stuðnings.

Þar er söfnun undirskriftanna til stuðnings Reykjavíkurflugvelli jafnan nefnd til samanburðar. Fréttahaukar ríkisins láta þess hins vegar ógetið að Jón Gnarr, þáv. borgarstjóri, lét þær undirskriftir sem vind um eyru þjóta með þeim orðum að hann undraðist að ekki hefðu fleiri lagt málstaðnum lið með nafni sínu. Hafi þau ummæli þótt sjálfsögð þegar um flugvöll var að ræða eiga þau jafnvel enn betur við þegar rætt er um heilbrigðiskerfið. Fullyrða má að ekki finnist neinn sem vilji ekki að íslenska heilbrigðiskerfið sé í fremstu röð.

Í fréttum kemur fram að Kári sættir sig ekki við 60.000 nöfn heldur vill hann fá 75.000. Á ruv.is er haft eftir Kára mánudaginn 8. febrúar:

„Ég held að við þurfum töluvert meira til þess að skjóta stjórnvöldum skelk í bringu. Mér sýnist að í gegnum tíðina sé hræðsla sú tilfinning sem er líklegust til að hvetja stjórnmálamenn til dáða. Þannig að ég reikna með að við þurfum að bæta dálitlu við. Ég hugsa að 75 þúsund myndi nægja.“

Hér skal því haldið fram að ekki sé skynsamlegt að taka á málum heilbrigðisþjónustunnar í einhverju hræðslukasti heldur beri að gera það á skipulegan og ígrundaðan hátt. Fréttir af heilbrigðismálum einkennast því miður um of af því sem úrskeiðis fer eða kann að fara. Allt hið góða sem íslenska heilbrigðiskerfið skilar fellur því miður um of í skuggann. Að halda því á loft skilar að lokum betri árangri en hræðsluáróður. Hann verður fljótt innan tómur.

 

 

Mánudagur 08. 02. 16 - 8.2.2016 14:00

Kosið var til Stúdentaráðs Háskóla Íslands 2016 miðvikudaginn 3. og fimmtudaginn 4. febrúar. Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, hélt áfram sigurgöngu sinni fékk 17 fulltrúa kjörna og Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, fékk 10 fulltrúa kjörna af 27 stúdentaráðsfulltrúum. Vaka sigraði á öllum sviðum nema einu. Á

félagsvísindasviði var kjörsókn 40,19% og fékk Vaka 5 menn kjörna og Röskva 2.

menntavísindasviði var kjörsókn 33,87% og fékk Vaka 4 menn kjörna og Röskva 1. 

heilbrigðisvísindasviði var kjörsókn 52,90% og fékk Vaka 3 menn kjörna og Röskva 2. 

verkfræði- og náttúruvísindasviði var kjörsókn 52,31% fékk Vaka 3 menn kjörna og Röskva 2  

hugvísindasviði var kjörsókn 34,15% og fékk Vaka 2 menn kjörna, Röskva 3 menn kjörna.

Vegna þess að Vaka sigraði hefur lítið verið sagt frá úrslitunum í fjölmiðlum.

Enn einu sinni er ástæða til að halda gullmolum Birgittu Jónsdóttur pírataþingmanns til haga. Hún tilkynnti að morgni mánudags 8. febrúar í samtali við Óðin Jónsson á Morgunvakt rásar 1 ríkisútvarpsins að hún ætlaði enn einu sinni að bjóða sig fram til þings, það er í þriðja sinn. Rökin voru þessi:

„Ég tók ákvörðun að ef að þetta verður þannig að okkur takist að standa við það sem aðalfundur Pírata samþykkti á síðasta fundi að fara í þessa vegferð, sem við höfum verið að ræða hérna núna, að þá vil ég taka þann slag. Mig langar ekkert rosalega mikið að halda áfram bara til að vera fullkomlega heiðarleg en mér finnst líka óábyrgt að ef við erum í miðri aðgerð og í algerlega allt öðrum aðstæðum en við höfum nokkurn tíma staðið frammi fyrir að þá finnst mér óábyrgt að stökkva frá borði.“ 

Þú vilt fylgja stjórnarskrármálinu til loka? spurði Óðinn.

„Já mér finnst líka, ef að það er mjög mikið af nýju fólki, nauðsynlegt að það sé einhver sem skilur. Það hefur enginn sem ég sé, sem hefur til dæmis eitthvað verið í samskiptum eða unnið með ráðuneytunum. Þegar maður kemur með algerlega nýtt fólk sem að veit ekkert hvernig innri kerfin fúnkera að þá er hætt við að það verði ekki mjög effektift.“

Birgitta lítur á sig sem nauðsynlegan leiðtoga og leiðbeinanda í hópi óreyndra af því að hún á ekki von á að neinn frambjóðandi pírata skáki henni að reynslu og þekkingu.

Sunnudagur 07. 02. 16 - 7.2.2016 18:45

Á mbl.is segir sunnudaginn 7. febrúar að Birgitta Jónsdóttir, þingmaður pírata, hafi þann dag rætt við Björn Inga Hrafnsson í sjónvarpsþættinum Eyjunni. Þar hafi hún boðað framhald á þátttöku í stjórnmálum.

Haft er eftir Birgittu á mbl.is:

„Við höf­um alltaf haft það þannig hjá pír­öt­um að það er í lagi skipta um skoðun. Í jóla­frí­inu langaði mig ekki að halda áfram og son­ur minn langþráir að ég hafi meiri tíma fyr­ir hann. Hins veg­ar höf­um við ekki marga reynslu­bolta í Pír­öt­um sem vita hvernig stjórn­mál virka.

Stjórn­mál eru yf­ir­leitt mun ljót­ari en menn halda, þetta er mik­il valda­bar­átta á milli flokka, og á milli þeirra sem vilja stjórna flokk­un­um. Ég steig fram þegar flokk­ur­inn komst upp í 20% og lagði til ákveðna veg­ferð. Fylgið hef­ur haldið áfram að aukast og mér finnst pínu­lítið óá­byrgt að fara frá borði þá. Ef við leggj­um til stutt kjör­tíma­bil þá finnst mér ekki mik­ill mun­ur á að sitja á þingi í átta eða tíu ár.

Ég hef prófað það að vera í litl­um þing­flokki og það er flókið. En það er mik­il­vægt að halda utan um stór­an flokk, og hjálpa fólki að kom­ast inn í þetta. Þeir í hinum flokk­un­um eru ekki mikið fyr­ir að kenna manni hlut­ina.

Þetta er ekki eins og að koma á nýj­an vinnustað, held­ur er maður strax kom­inn í valda­bar­áttu. Það er kannski rangt hjá mér, en mér finnst svo­lítið óá­byrgt að leggja fram til­lög­ur til að koma í veg fyr­ir að fólk verði svikið eft­ir kosn­ing­ar. Við vilj­um að það sé þannig að það sé ákveðið fyr­ir­fram hvernig stjórn­arsátt­mál­inn verður og jafn­vel vil ég sjá fjár­lög­in líka liggja fyr­ir.

Ég sé ekki fyr­ir mér kosn­inga­banda­lag held­ur bind­andi sam­komu­lag með þeim sem vilja fara í veg­ferð með okk­ur. Við leggj­um ekki upp með að fella rík­is­stjórn­ina. Þeir sem eru nú við völd eru að sjá um það sjálf­ir.

Ef fólk vill ekki vinna að þessu með okk­ur, þá þætti mér óráð að fara að gera það sem all­ir flokk­ar gera alltaf. Þá mynd­um við frek­ar vilja vera í minni­hluta eða vera í minni­hluta­stjórn.“

Af þessu má ráða að Birgitta sér sjálfa sig sem kennara í stórum þingflokki, kannski í 2 ár, eftir kosningar þar sem ekki verði um kosningabandalag að ræða heldur verði bindandi málefnasamkomulag, helst um efni fjárlaga. Hver hoppar um borð í pírataskipið?

 

Laugardagur 06. 02. 16 - 6.2.2016 14:00

Nú er 21 ár liðið frá því að þessi síða fór inn á Internetið. Rétt er að minnast þess því að núna um helgina er UT-messan svonefnda í Hörpu í Reykjavík – hún er sögð haldin í fimmta sinn. Fyrst hafi verið efnt til hennar 2011.

Ég tel að rekja eigi rætur þessarar „messu“ aftur til ársins 1999 þegar menntamálaráðuneytið stóð í fyrsta sinn fyrir ráðstefnu sem nefnd var UT99, um fyrstu þrjú ár þess starfs má meðal annars lesa hér 

Á vefsíðunni ruv.is er föstudaginn 5. Febrúar fjallað um UT-messuna 2016 og þar segir í upphafi:

„Í þá kvartöld sem netið hefur verið við lýði, hefur það einkum haft það hlutverk að tengja saman tölvur og manneskjurnar sem nota þær. Á því er að verða breyting. Internetið er í útrás og mun innan skamms tengja saman mun fleiri hluti en menn. Þetta segir Bas Boorsma, hann starfar hjá alþjóðalega tæknifyrirtækinu Cisco og er sérfræðingur í fyrirbæri sem nefnt hefur verið Internet allra hluta. Fyrirbærinu fylgja bæði sóknarfæri og hættur.

Internet allra hluta er meginviðfangsefni UT-messunnar sem nú stendur yfir í Hörpu. Boorsma fullyrðir að Internet allra hluta sé bylting, glænýtt lag sem bætist við það Internet sem við þekkjum í dag. Á hverri klukkustund bætast 100 þúsund nýjir hlutir við þetta internet hlutanna, ekki bara prentarar og tölvur heldur ísskápar, útidyr, ljósastaurar, skólpræsikerfi og bílastæði.“

Ég staldraði við orðið kvartöld, það er 25 ár, og fékk enn einu sinni staðfestingu á að líklega eru fáar vefsíður einstaklinga sem eiga óslitinn þráð allt aftur til upphafsára þessarar samskiptabyltingar.

Að unnt sé að rekja þennan þráð hér á síðunni þakka ég samskiptum mínum við frábæra tæknimenn sem hafa jafnan kunnað að nýta sér þróunina og búið síðunni þá umgjörð að allt efnið er enn aðgengilegt. Meirihluta tímans frá 1995 hef ég verið í umsjá Hugsmiðjunnar, framúrskarandi fyrirtækis á sínu sviði og jafnframt haft fjárhagslega burði til að greiða grunnkostnaðinn sem hlýst af tæknilegri hlið úthaldsins.

Af tilvitnuninni hér að ofan má ráða að nýtt skeið í notkun internetsins sé hafið. Leiði það til jafnmikilla breytinga í samskiptum og lífi manna og orðið hafa undanfarin 25 ár er vissulega erfitt að sjá framtíðina fyrir sér.

Föstudagur 05. 02. 16 - 5.2.2016 14:00

Umrótið innan Samfylkingarinnar nær nýjum hæðum eftir því sem meira er rætt um það. Í dag segir Katrín Júlíusdóttir, varaformaður flokksins, í Fréttablaðinu að hún voni að flokkurinn þurrkist ekki út, þar svarar hún spá þingmanns flokksins.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, dró hinn 2. febrúar í efa að Samfylkingin lifði til haustsins. Vildi hún að lands­fundi flokks­ins, og þar með for­manns­kjöri, yrði flýtt og fundurinn hald­inn í maí en ekki á næsta ári. Hún sagði á Facebook 2. febrúar:

„Eft­ir Gallup­könn­un­ina í gær [Samfylkingin með 9,2% fylgi] hlýt­ur öll­um að vera ljóst að við svo búið má ekki standa leng­ur. Flokk­ur­inn mun ekki lifa til hausts­ins með þessu áfram­haldi. Ég legg til að lands­fundi og þar með for­manns­kjöri verði flýtt fram í maí. Staðan er óþolandi fyr­ir alla sem málið varðar og nú er mál að linni.“

Á mbl.is mátti lesa fimmtudaginn 4. febrúar:

„Lög Sam­fylk­ing­ar­inn­ar gera það að verk­um að ekki er mögu­legt að flýta lands­fundi flokks­ins og halda hann í vor eins og kallað hef­ur verið eft­ir. Ekki er held­ur mögu­legt að halda reglu­leg­an lands­fund á þessu ári af þeim sök­um. Þetta seg­ir Sema Erla Ser­d­ar, formaður fram­kvæmda­stjórn­ar Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.“

Sama dag fimmtudaginn 4. febrúar birtu ungir jafnarmenn ályktun þar sem sagði:

„Ung­ir jafnaðar­menn taka und­ir þá kröfu sem upp er kom­in að for­manns­kjör í Sam­fylk­ing­unni - jafnaðarmanna­flokki Íslands fari fram strax nú í vor, ekki síðar en í maí. Horf­ast verður í augu við að skila­boð Sam­fylk­ing­ar­inn­ar eru ekki að ná eyr­um kjós­enda og leita þarf allra leiða til að byggja upp trú­verðug­leika flokks­ins á ný.“

Þessar misvísandi yfirlýsingar um hvort unnt sé að skipta um formann með hraði sýna ekki annað en hve upplausnin í liðinu er algjör. Þingmaður eða forráðamenn ungra jafnaðarmanna gefa sér ekki einu sinni tíma til að kynna sér lög flokksins í óðagotinu.

Árni Páll Árnason flokksformaður sýnist ekki heldur alveg með á nótunum. Hann hefur látið eins og unnt sé að flýta landsfundi til að kjósa formann. Veit hann ekki betur eða er hann bara að gabba grasrótina?

Kristján Guy Burgess tók við framkvæmdastjórn flokksins 1. nóvember 2015. Fylgið hefur minnkað jafnt og þétt síðan, ekkert hefur heyrst frá honum hvort og hvenær er unnt að halda landsfund. Kannski er bara best að jarða flokkinn utan fundar?

Fimmtudagur 04. 02. 16 - 4.2.2016 18:00

Þáttur minn á ÍNN í gær þar sem ég ræði við Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur, grasa- og nálastungulækni, er nú á netinu eins og sjá má hér. 

Í dag flutti Berndt Körner, varaforstjóri Frontex, landamærastofnunar Evrópu, erindi á hádegisfundi Varðbergs og má lesa frásögn af fundinum hér  og hér.

Þeim sem fylgst hafa með málatilbúnaði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar frá því að húsleit var gerð hjá Baugi árið 2012 kemur ekki á óvart að deilur um form og vanhæfi setji svip á fréttir þegar Jón Ásgeir og Gestur Jónsson, lögmaður hans, birtast enn einu sinni í réttarsalnum. Eins og jafnan áður er Jón Ásgeir kynntur til sögunnar sem ofsótt fórnarlamb. Nú sækja ekki stjórnmálamenn gegn honum heldur sjálfir dómararnir – hann heimtar að Arngrímur Ísberg sem fór um hann mildum höndum í Baugsmálinu dæmi í svonefndu Aurum-máli en ekki Símon Sigvaldason.

Telur Jón Ásgeir að Símon hafi harma að hefna vegna þess að Fréttablaðið í eigu eiginkonu Jóns Ásgeirs flutti frétt­ir af fé­lag­inu Rann­sókn­um og grein­ingu ehf, en eig­in­kona Sím­on­ar á það fé­lag. Seg­ir í bók­un­ lögmanns Jóns Ásgeirs að Sím­on hafi einnig setið í stjórn þess fé­lags. „Frétt­irn­ar snér­ust um að fyr­ir­tækið hefði notið óeðli­legs aðgangs að op­in­beru fé auk þess sem ekki hefði verið rétt staðið að út­hlut­un arðs úr fé­lag­inu,“ seg­ir í bók­un­ sem Gestur lagði fram í réttinum í dag.

Þessar fréttir sem þarna eru nefndar til sögunnar voru hinar undarlegustu miðað við tilefnið og raunar eiginlega á skjön við eðlilega fréttamennsku þegar efni málsins er skoðað. Þær skyldu þó ekki hafa verið birtar til að skapa Jóni Ásgeiri þá átyllu til að amast við Símoni dómara sem birtist í dag?

Í frétt á mbl.is um kvartanir Jóns Ásgeirs segir einnig:

„Þá fer Gest­ur einnig yfir það að Jón Ásgeir hafi verið með rétt­ar­stöðu sak­born­ings í ís­lensku rétt­ar­kerfi í hálft fjór­tánda ár, eða frá því árið 2002. Seg­ir hann umræðu í þjóðfé­lag­inu hafa verið óvægna gagn­vart Jóni Ásgeiri.“

Þarna er enn alið á þeirri skoðun að það sé þjóðfélaginu en ekki Jóni Ásgeiri að kenna að hann hafi sætt rannsókn lögreglu í svo langan tíma. Líklega hefur þetta ferli lengst mest vegna sífelldra tilrauna Jóns Ásgeirs og lögmanna hans til að komast hjá efnislegri niðurstöðu um mál hans og láta þau frekar snúast um formsatriði eða vorkunnsemi með sakborningnum. Þeirri arferð er enn beitt.

 

 

Miðvikudagur 03. 02. 16 - 3.2.2016 19:00

Í dag ræddi ég við Arnbjörgu Lindu Jóhannsdóttur, grasa- og nálastungulækni, í þætti mínum á ÍNN -fumsýning kl. 20.00 á rás 20.

Eins og við var að búast er unnt að túlka það sem David Cameron, forsætisráðherra Breta, telur viðundandi grundvöll að samkomulagi um framhald aðildar Breta að ESB á margan hátt. Hafin er áróðursherferð í Bretlandi og innan ESB fyrir einhverju sem margir halda að sér niðurstaða en er aðeins rammi sem Cameron og Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, hafa kynnt opinberlega.

Með herferðinni hefur Cameron tekið frumkvæði. Í stað þess að efni málsins sé rætt velta fjölmiðlamenn fyrir sér hvort áhrifamenn innan Íhaldsflokksins feti í fótspor forsætisráðherrans eða fari eigin leið í afstöðu til þess sem greitt verður atkvæði um þegar íbúar Bretlands svara spurningunni um hvort þeir vilji vera áfram í ESB eða ekki.

Tillögur Camerons og Tusks verða á dagskrá leiðtogaráðs ESB 18. og 19. febrúar, náist samkomulag um þær þar er líklegt að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í Bretlandi í júní 2016.

Hvað gerir Boris Johnson, borgarstjóri London og þingmaður Íhaldsflokksins með seturétt í ríkisstjórn Camerons? Eða Theresa May innanríkisráðherra Breta? Um þetta er spurt.

Af breskum fjölmiðlum má ráða að aðildarsinnar séu betur skipulagðir og ákveðnari í málflutningi sínum en andstæðingar aðildar. Dugar málamiðlun Camerons og Tusks fjölmiðlum til að styðja Cameron og framhald aðildar?

Sky News birti niðurstöður könnunar á sama tíma í dag og Cameron kynnti þinginu samningsdrögin. Tveir þriðju töldu drögin slæm. Um helmingur taldi þau þess eðlis að ólíklegra væri en áður að þeir mundu styðja framhald ESB-aðildar.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, lýsti ESB-málinu sem „drama“ innan Íhaldsflokksins. Hann sagði Verkamannaflokkinn mundu styðja framhald aðildar að ESB.

Ákafi ESB-samrunasinninn Guy Verhofsdat, ESB-þingmaður frá Belgíu, sagði Breta utan evrunnar, utan Schengen-samstarfsins og mannréttindaskuldbindinga. Þeir ættu bara að fá enn einn fyrirvarann á aðild sinni til að staðfesta enn frekar tvískiptingu ESB. „Bretland án Evrópu er í sannleika sagt dvergur,“ sagði Verhofstadt, dvergur, sem gengi erinda Vladinmírs Pútíns!

Í Bretlandi segja andstæðingar Camerons að hann hafi samið eins og Chamberlain. Vísa þeir til friðkaupasamnings Nevilles Chamberlains við Adolf Hitler í München 1938 – hann naut almennrar hylli þá en er síðar talinn óhæfuverk í samskiptum ríkja

 


Þriðjudagur 02. 02. 16 - 2.2.2016 15:15

Stjórnmálaskýrendur segja einfalt að átta sig á sigri Teds Cruz í prófkjöri repúblíkana í Iowa: hann búi yfir snilligáfu sem skipuleggjandi. Nú breytast átökin í þriggja manna slag milli Cruz (45 ára), Donalds Trumps  (69 ára) og Marcs Rubios (44 ára).

Cruz fékk 27,7% atkvæða, Trump 24,3% og Rubio 23%. Takist þessum þremur að hrista alla aðra af sér eftir prófkjörið í New Hampshire þriðjudaginn 9. febrúar aukist sigurlíkur Rubios. Hann er maður ráðandi hefðarafla í flokknum, þeim er jafnvel enn verr við Cruz en Trump sem þau þó fyrirlíta.

Allur vindur virtist úr Trump mánudaginn 1. febrúar, fáir sóttu fundi sem hann hélt þann dag í Iowa og hann fipaðist þegar hann naut ekki sömu athygli og áður.

Cruz gengur til kosningabaráttunnar með meira fé í kosningasjóði sínum en aðrir í prófkjörinu og betur smurða kosningavél en keppinautarnir. Cruz hefur varið milljónum dollara til að greina áhrifahópa og leiðir til að virkja þá. Bar það góðan ávöxt í Iowa –  tengsl í grasrótinni máttu sín meira en dálæti fjölmiðla á Trump.

Langa sigurræðu sína í Iowa hóf Ted Cruz á þessum orðum:

„Í upphafi vil ég segja, dýrð sé drottni. Í kvöld sigraði grasrótin. Í kvöld sigruðu hugrakkir íhaldsmenn í Iowa og hvarvetna annars staðar meðal þessarar miklu þjóðar. Í kvöld hafa íbúar Iowa-ríkis talað. Þeir hafa sýnt að forsetaframbjóðandi repúblíkana verður ekki valinn af fjölmiðlum. Hann verður ekki valinn af ráðamönnum í Washington. Hann verður ekki valinn af hagsmunamiðlurum. Heldur verður hann valinn af hinu ótrúlega valdamikla afli, uppsprettu alls fullveldis meðal þjóðarinnar, okkur fólkinu sem myndar hana – Bandaríkjamönnum.“

Hann skírskotaði til slagorðs Ronalds Reagans Morning in America og sagði: Iowa has proclaimed to the world, morning is coming. Morning is coming.

Mjótt var á munum hjá demókrötum þar sem Hillary Clinton (68 ára) sigraði vinstrisinnan Bernie Sanders (74 ára) með 49.9% atkvæða gegn 49,6%. Sanders þakkar ungu fólki ótrúlega góðan árangur sinn, það hafi fengið nóg af hinum ráðandi öflum meðal demókrata.

Ted Cruz höfðaði mjög til Reagan-demókrata í ræðu sinni og sagði að með stuðningi þeirra og sameinuðum flokki repúblíkana að loknu flokksþingi mundi hann sigra forsetakosningarnar í nóvember. Cruz veit að Sanders dregur Clinton til vinstri og fælir þannig Reagan-demókratana í faðm repúblíkana.

 

 

Mánudagur 01. 02. 16 - 1.2.2016 18:40

Meirihluti landsdóms komst að þeirri niðurstöðu að réttmætt væri að sakfella Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, án refsingar fyrir að ekki skyldi fært í fundargerðir ríkisstjórnarinnar að háski „vofði yfir bankakerfinu og þar með heill ríkisins […] með þeim afleiðingum að ekki var um þau málefni fjallað á vettvangi ríkisstjórnarinnar,“ segir í dóminum.

Þessi furðulega niðurstaða kemur í hugann þegar rætt er um embættisfærslu í fjármálaráðuneytinu undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar sem stóð „með sorg í hjarta“ að ákærunni gegn Geir H. Haarde.

Eitt af umræðuefnunum um stjórnarhætti Steingríms J. er að fjármálaráðuneytið hafi ekki afhent alþingi öll gögn sem varða samninga stjórnvalda við kröfuhafa föllnu bankanna á árinu 2009. Ráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem segir meðal annars:

„Bent hefur verið á að tvær fundargerðir af fundum stýrinefndar um samninga við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna liggi ekki fyrir.  Það er rétt, en eins og áður hefur komið fram hafa þessar fundargerðir ekki fundist. Eftir ítrekaða leit er það niðurstaða ráðuneytisins að skýringin sé sú að láðst hafi að halda fundargerðirnar í fjarveru ritara og þær því ekki til, sem er vissulega miður.“

Hvernig ætli meirihluti landsdóms hefði tekið á málinu sem taldist brot á 17. gr. stjórnarskrárinnar ef dómurum hefði verið bent á að ekkert stæði um háskann sem vofði yfir bankakerfinu af því að það hefði bara vantað ritara á ríkisstjórnarfund?

Áður en bankarnir hrundu snerist málið um að ríkisstjórnin hefði átt að halda fund og bóka að sumir teldu að mikill háski steðjaði að bankakerfinu en aðrir teldu allar hrakspár orðum auknar.

Árið 2009 var allt annað uppi á teningnum þegar stjórnvöld fjölluðu um bankana. Allir vissu að þeir voru fallnir og sumir sáu tækifæri til að hagnast felast í leifum þeirra – um það snerust fundirnir í fjármálaráðherratíð Steingríms J. og allt pukur hans. Hann einkavæddi bankana með leynd, vildi þóknast kröfuhöfunum eins og Hollendingum og Bretum í Icesave-málinu.