9.2.2016 14:00

Þriðjudagur 09. 02. 16

Ekki fer fram hjá neinum að Kári Stefánsson stendur fyrir söfnun undirskrifta til að knýja á um „endurreisn heilbrigðiskerfisins“ eins og það er orðað. Hafi eitthvert kerfi hrunið hér á undanförnum árum er það bankakerfið. Þrátt fyrir þung áföll fyrir það og samfélagskerfið má segja að nú horfi þar til réttrar áttar. Augljóst er af öllum yfirlýsingum stjórnmálamanna að forgangsraðað verður í þágu heilbrigðiskerfisins.

Á vefsíðunni andriki.is, Vef-Þjóðviljanum, er í dag fjallað um söfnun Kára eins og sjá má hér. Þar er vakin athygli á fréttum ríkisútvarpsins um söfnunina. Áhugamenn um aðferðir fréttastofunnar til að halda lífi í málum af þessu tagi hafa fyrir löngu áttað sig á að Kári eða almannatenglar á hans vegum hafa greiðan aðgang að fréttastofunni og eyrum hlustenda í gegnum hana. Stundum er reynt að réttlæta fréttirnar með því að stilla málum upp á þann veg að Kári keppi við aðra sem staðið hafa að söfnun undirskrifta málstað sínum til stuðnings.

Þar er söfnun undirskriftanna til stuðnings Reykjavíkurflugvelli jafnan nefnd til samanburðar. Fréttahaukar ríkisins láta þess hins vegar ógetið að Jón Gnarr, þáv. borgarstjóri, lét þær undirskriftir sem vind um eyru þjóta með þeim orðum að hann undraðist að ekki hefðu fleiri lagt málstaðnum lið með nafni sínu. Hafi þau ummæli þótt sjálfsögð þegar um flugvöll var að ræða eiga þau jafnvel enn betur við þegar rætt er um heilbrigðiskerfið. Fullyrða má að ekki finnist neinn sem vilji ekki að íslenska heilbrigðiskerfið sé í fremstu röð.

Í fréttum kemur fram að Kári sættir sig ekki við 60.000 nöfn heldur vill hann fá 75.000. Á ruv.is er haft eftir Kára mánudaginn 8. febrúar:

„Ég held að við þurfum töluvert meira til þess að skjóta stjórnvöldum skelk í bringu. Mér sýnist að í gegnum tíðina sé hræðsla sú tilfinning sem er líklegust til að hvetja stjórnmálamenn til dáða. Þannig að ég reikna með að við þurfum að bæta dálitlu við. Ég hugsa að 75 þúsund myndi nægja.“

Hér skal því haldið fram að ekki sé skynsamlegt að taka á málum heilbrigðisþjónustunnar í einhverju hræðslukasti heldur beri að gera það á skipulegan og ígrundaðan hátt. Fréttir af heilbrigðismálum einkennast því miður um of af því sem úrskeiðis fer eða kann að fara. Allt hið góða sem íslenska heilbrigðiskerfið skilar fellur því miður um of í skuggann. Að halda því á loft skilar að lokum betri árangri en hræðsluáróður. Hann verður fljótt innan tómur.