Dagbók: mars 1999

Laugardagur 27.3.1999 - 27.3.1999 0:00

Klukkan 13.00 flutti ég ræðu við upphaf ráðstefnu Prenttæknistofnunar og fleiri aðila um starfsnám í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum. Klukkan 14.00 hófst síðan ráðstefna háskólanema um NATO 50 ára og stóð eins lengi og þeir höfðu salinn í Háskólabíói fyrir bíósýningu klukkan 17.00.

Föstudagur 26.3.1999 - 26.3.1999 0:00

Klukkan 14.00 setti ég ráðstefnu um almenningsbókasöfn í Þjóðarbókhlöðunni. Klukkans 15.00 var efnt til blaðamannafundar í menntamálaráðuneytinu til að kynna nýja námskrá fyrir grunnskólann. Klukkan 16.30 var ég fundarstjóri á aðalfundi SPRON. Klukkan 21.00 vorum við Rut komin í Valsheimilið til að vera við úrslitakeppnina í Gettu betur í beinni útsendingu sjónvarpsins og síðan kom það í minn hlut að afhenda sigurvegurunum úr MR verðlaun sín.

Fimmtudagur 25.3.1999 - 25.3.1999 0:00

Alþingi kom saman til síðasta fundar síns á þessu kjörtímabili og var breyting á kjördæmaskipaninni samþykkt. Í hádeginu var efnt til ríkisráðsfundar á Bessastöðum. Klukkan 15.30 hófst athöfn í Gvendarbrunnahúsinu í Heiðmörk, þar sem stærstu styrktaraðilar verkefnisins Reykjavík - menningarborg Evrópu árið 2000 rituðu undir skjöl til staðfestingar á styrkjum sínum.

Miðvikudagur 24.3.1999 - 24.3.1999 0:00

Síðdegis rituðum við Hjálmar H. Ragnasson rektor Listaháskóla Íslands og Stefán P. Eggertsson stjórnarformaður skólans undir áætlun um það, hvernig skólinn tæki að sér verkefni við kennslu í myndlist, leiklist og tónlist. Við svo búið fórum við til fundarhalda í Borgartúni og hittum fyrst kennara og fulltrúa nemenda úr Myndlista- og handíðaskólanum og greindum þeim frá framvindu mála og hvað fælist í hinni sameiginlegu áætlun okkar. Síðar hittum við síðan samskonar hópa úr Leiklistarskóla Íslands og Tónlistarskólanum í Reykjavík. Var máli okkar almennt vel tekið.

Þriðjudagur 23.3.1999 - 23.3.1999 0:00

Klukkan 20.00 var fundur á vegum Íbúasamtaka Grafarvogs í Engjaskóla og var okkur frambjóðendum í Reykjavík stefnt þangað til að skýra sjónarmið okkar og svara spurningum fundarmanna.

Sunnudagur 21.3.1999 - 21.3.1999 0:00

Klukkan 10.00 fór ég í Hallgrímskirkju og flutti þar erindi um trú og stjórnmál. Síðdegis og um kvöldð er síðan ætlan mín að sjá frumsýningar í Þjóðleikhúsinu á Sjálfstæðu fólki.

Laugardagur 20.3.1999 - 20.3.1999 0:00

Klukkan 12.00 fór ég á ráðstefnu sem Stafnbúi, félag nema í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri, efndi til í Borgartúni 6 og snerist um sjávarútvegsmálefni. Flutti ég ávarp við hádegisverð ráðstefnugesta. Klukkan 17.00 fór ég á tónleika Söngsveitarinnar Fílharmóníu, sem flutti Requiem Mozarts.

Fimmtudagur 18.3.1999 - 18.3.1999 0:00

Klukkan 10.00 var ég Hofstaðaskóla í Garðabæ með Jónmundi Guðmarssyni aðstoðarmanni mínum og Ingu Dóru Sigfúsdóttur, sem hefur verið í forystu jafnréttisnefndar á vegum menntamálaráðuneytisins. Hilmar Ingólfsson skólastjóri og samstarfsfólk hans og nemendur tóku vel á móti okkur og blaðamönnum, sem voru komnir til að fylgjast með kynningu á smáritinu Jafnrétti í skólastarfi, þar sem bent er á leiðir til að auka jafnrétti milli stráka og stelpna í skólum. Klukkan 15.00 fór ég á fund hjá umboðsmanni barna, sem kynnti bækling um einelti, byggðan á ráðstefnu umboðsmannsins um það efni síðastliðið haust.

Miðvikudagur 17.3.1999 - 17.3.1999 0:00

Ég boðaði fólk til viðtala bæði fyrir og eftir hádegi þennan miðvikudag en vegna ýmissa anna undanfarnar vikur hafði bæst nokkuð á viðtalsbeiðnalistann, sem mér hefur almennt tekist að halda bærilega stuttum allt kjörtímabilið, þannig að ég vona, að það heyri til undantekninga, að menn þurfi að bíða um of eftir að komast á minn fund.

Þriðjudagur 16.3.1999 - 16.3.1999 0:00

Klukkan 15.00 boðuðu stjórnmálafræðinemar við Háskóla Íslands fulltrúa stjórnmálaflokkanna til fundar í Háskólabíói. Logi Bergmann Eiðsson fréttamaður stjórnaði fundinum, sem stóð til 16.20 og byggðist á því, að við svöruðum spurningum fundarmanna.

Mánudagur 15.3.1999 - 15.3.1999 0:00

Klukkan 14.00 flaug ég norður á Akureyri, þar sem ég ritaði undir samkomulag við fjármálaráðherra um fjárveitingar, 414 m.kr. á næstu fjórum árum, til að byggja við aðsetur Háskólans á Akureyri á Sólborgu. Verður nú hafist handa við fyrstu nýbyggingar fyrir skólann.

Sunnudagur 14.3.1999 - 14.3.1999 0:00

Landsfundinum lauk á sjötta tímanum. Í hádeginu var ég í þætti á Bylgjunni, sem Þór Jónsson fréttamaður stjórnaði, þar sem við Finnur Ingólfsson varaformaður Framsóknarflokksins fórum yfir stöðu mála með hliðsjón af helstu fréttum síðustu viku. Var ekki mikil samúð með samfylkingunni í máli okkar og taldi Þór það raunar aðeins formsatriði, að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur störfuðu áfram saman eftir kosningar með hliðsjón af áherslum í máli okkar. Ég sagði, að málið væri ekki svona einfalt, við ættum eftir að fara í kosningarnar, þær væru annað og meira en formsatriði. Í Morgunblaðinu þennan sunnudag er langt viðtal við Svavar Gestsson sendiherra, sem segist hafa lokað skoðanaverksmiðju (!) sinni. Ég sagði í þessum útvarpsþætti alltaf fagna því, þegar slíkum verksmiðjum sósíalista væri lokað, þær hefðu ekki framleitt merkilega vöru.

Laugardagur 13.3.1999 - 13.3.1999 0:00

Fyrir utan að sitja landsfund allan daginn skrapp ég í stutta heimsókn í Perluna, þar sem KFUM og K héldu upp á 100 ára afmæli sitt.

Föstudagur 12.3.1999 - 12.3.1999 0:00

Eftir að hafa setið landsfundinn allan daginn fórum við Rut klukkan 17.00 til athafnar, sem Mál og menning stóð fyrir í tilefni af 110 ára afmæli Þórbergs Þórðarsonar og kom það í minn hlut að afhenda Pétri Gunnarssyni stílverðlaun Þórbergs Þórðarsonar.

Fimmtudagur 11.3.1999 - 11.3.1999 0:00

Alþingi frestað um 16.30. Landsfundur hefst klukkan 17.30. Klukkan 21.00 fundur um frjálsa þjóð í frjálsu landi.

Þriðjudagur 9.3.1999 - 9.3.1999 0:00

Um kvöldið var boðað til fundar í Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, þar sem framboðslistinn vegna alþingiskosninganna var ákveðinn. Þar var ákveðið að Ásta Möller skipaði 9. sætið á listanum og var mikil sátt um það. Einnig er ástæða til að geta þess, að ég verð í 2. sæti listans, en Sigurdór Sigurdórsson blaðamaður hafði skrifað nokkrar „fréttir” í Dag til að skýra lesendum sínum frá því, að um þetta sæti stæði stór deila - hvergi varð ég var við hana. Minni ég enn á þau varnaðarorð mín, að menn taki ekki mark á öllu því, sem Sigurdór Sigurdórsson festir á blað, þótt það sé gert í búningi hlutlægra frétta.

Mánudagur 8.3.1999 - 8.3.1999 0:00

Klukkan 13.00 hófst tveggja tíma fundur í Bláfjallasal útvarpshússins við Efstaleiti, þar sem talsmenn stjórnmálaflokkanna ræddu málefni Ríkisútvarpsins á fundi, sem starfsmannasamtök RÚV boðaði. Hófst fundurinn með ræðu Jóns Ásgeirs Sigurðssonar formanns samtakanna, þar sem hann lýsti andstöðu við að RÚV yrði breytt í hlutafélag eða yfirleitt að nokkrar markverðar breytingar yrðu gerðar á fyrirkomulagi á rekstri RÚV. Í ræðunni var gamalkunnugt nöldur í garð útvarpsráðs og vegna of mikilla afskipta stjórnmálamanna af stofnuninni eins og það stæði henni helst fyrir þrifum. Ég sagði eftir ræðu Jóns Ásgeirs, að mér þætti hún ákaflega gamaldags og skoðanir hans á framtíð RÚV úr sér gengnar, ættu þær að ráða fyrir RÚV væri fyrst ástæða til að hafa áhyggjur af framtíð þess miðað við alla þróun á þessu sviði. Bogi Ágústsson fréttastjóri stóð upp og lýsti því, að Jón Ásgeir talaði ekki nafni starfsmanna RÚV heldur væru þetta einkaskoðanir hans, sagði Bogi, að hann hefði stýrt hópi á vegum útvarpsstjóra, sem mælti með því, að RÚV yrði breytt í hlutafélag. Hið sama kom fram hjá Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra. Um kvöldið var ég fyrsti ræðumaður Sjálfstæðisflokksins í útvarpsumræðum frá alþingi. Í ræðu minni lagði ég áherslu á að draga skilin milli Sjálfstæðisflokksins og vinstrimennsku samfylkingarinnar. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, kvað einnig fast að orði um samfylkinguna og vinstrimennsku hennar. Leiðtogi samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, gerði kröfu um forsætisráðherrastólinn að kosningum loknum.

Laugardagur 6.3.1999 - 6.3.1999 0:00

Í Degi birtist þennan dag við mig viðtal, sem Kolbrún Bergþórsdóttir skráði. Þáði ég boð Kolbrúnar um viðtal til þess að lesendur blaðsins fengju aðra vitneskju en þá, sem birtist í skrifum Sigurdórs Sigurdórssonar blaðamanns. Hinar svokölluðu pólitísku fréttir hans eru alltaf jafnlitaðar og skringilega skrifaðar. Um spádómsgáfu hans má vísa til þess, sem segir hér að ofan um þá Þorvald Gylfason og Ágúst Einarsson. Klukkan 10.00 fór ég á ráðstefnu Kvenréttindafélags Íslands um menntun kvenna. Flutti ég þar ræðuum hlut kvenna í skólastarfi. Er meginniðurstaða mín sú, að skólakerfið stæði á brauðfótum eða væri óstarfhæft ef kvenna nyti ekki við innan þess bæði sem kennara og nemenda. Klukkan 11.30 var athöfn á lóðinni þar sem Iðnskólinn í Hafnarfirði rís, þegar ég tók þar fyrstu skóflustungu. Klukkan 16.00 fórum við Rut á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Laugardalshöll, þar sem óperan Turandot var flutt af miklum glæsibrag.

Föstudagur 5.3.1999 - 5.3.1999 0:00

Ísland er í formennsku í ráðherranefndum Norðurlandaráðs. Þess vegna kom það í minn hlut að stýra fundum í höfuðstöðvum ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn þennan dag. Klukkan 10.30 hófst fundur menningarmálaráðherranna. Klukkan 11.00 hófst sameiginlegur fundur menningarmálaráðherranna og Nordenudvalget, sem er ein af höfuðnefndum Norðurlandaráðs. Voru fulltrúar nefndarinnar og embættismenn á fundinum milli 20 og 30 manns. Klukkan 12.15 hófst athöfn, þegar http://www.saamiweb.org var opnaður, það er vefur Sama, sem gerður hefur verið af samaútvarpinu. Kom það í minn hlut að flytja ræðu við þessa athöfn fyrir hönd ráðherranefndarinnar, en öllu var sjónvarpað beint út á netið og gátu Samar alls staðar í heiminum fylgst með þessum sögulega atburði. Síðan var sameiginlegur hádegisverður en klukkan 13.30 hófst fundur menntamálaráðherranna. Þar var sérstaklega rætt um tungumál og stöðu þeirra að ósk okkar Íslendinga. Rögvaldur Ólafsson, dósent við Háskóla Íslands, flutti erindi um tungutækni og hvernig það mál horfir við frá sjónarhóli Íslendinga. Var síðan skipst á skoðunum um málið og er ljóst, að menn nálgast það frá mismunandi sjónarhorni, því að eins og kunnugt er erum við Íslendingar eina þjóðin, sem fylgjum hreintungustefnu á Norðurlöndunum. Ráðherrunum þótti til dæmis fróðlegt að heyra um samning okkar við Microsoft og að við gætum gert kröfur um málfar við þýðingu á kerfisbúnaði fyrirtækisins. Fundir menntamálaráðherranna eru að þróast á þann veg, að þar fara fram mun meiri upplýsingaskipti en áður og er mjög gagnlegt að bera saman bækur á þennan hátt, því að menntakerfin eru sífellt að verða alþjóðlegri og standa ekki undir nafni nema þau standist alþjóðlegar kröfur. Flaug heim með kvöldvélinni. Allt stóð eins og stafur á bók hjá Flugleiðum í þessari ferð.

Fimmtudagur 4.3.1999 - 4.3.1999 0:00

Flaug síðdegis til Kaupmannahafnar.

Miðvikudagur 3.3.1999 - 3.3.1999 0:00

Klukkan 14.00 var ritað undir samning við GKS hf. um sölu á Skólavörubúðinni.

Þriðjudagur 2.3.1999 - 2.3.1999 0:00

Klukkan 16.00 boðaði ég svokallaða stefnumótunarnefnd vegna námskrárgerðar til fundar í ráðuneytinu. Sigríður Anna Þórðardóttir hefur verið formaður hennar. Nefndin fór yfir álitamál vegna námskrárvinnunnar á upphafsstigum hennar og gerði tillögur til mín. Tilefni fundarins að þessu sinni var að skýra nefndinni frá stöðu mála og ljúka formlega störfum hennar, þar sem útgáfuferli námskránna er hafið. Var á fundinum staðfest hin víðtæka sátt sem er um allar meginákvarðanir í námskrárgerðinni.