8.3.1999 0:00

Mánudagur 8.3.1999

Klukkan 13.00 hófst tveggja tíma fundur í Bláfjallasal útvarpshússins við Efstaleiti, þar sem talsmenn stjórnmálaflokkanna ræddu málefni Ríkisútvarpsins á fundi, sem starfsmannasamtök RÚV boðaði. Hófst fundurinn með ræðu Jóns Ásgeirs Sigurðssonar formanns samtakanna, þar sem hann lýsti andstöðu við að RÚV yrði breytt í hlutafélag eða yfirleitt að nokkrar markverðar breytingar yrðu gerðar á fyrirkomulagi á rekstri RÚV. Í ræðunni var gamalkunnugt nöldur í garð útvarpsráðs og vegna of mikilla afskipta stjórnmálamanna af stofnuninni eins og það stæði henni helst fyrir þrifum. Ég sagði eftir ræðu Jóns Ásgeirs, að mér þætti hún ákaflega gamaldags og skoðanir hans á framtíð RÚV úr sér gengnar, ættu þær að ráða fyrir RÚV væri fyrst ástæða til að hafa áhyggjur af framtíð þess miðað við alla þróun á þessu sviði. Bogi Ágústsson fréttastjóri stóð upp og lýsti því, að Jón Ásgeir talaði ekki nafni starfsmanna RÚV heldur væru þetta einkaskoðanir hans, sagði Bogi, að hann hefði stýrt hópi á vegum útvarpsstjóra, sem mælti með því, að RÚV yrði breytt í hlutafélag. Hið sama kom fram hjá Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra. Um kvöldið var ég fyrsti ræðumaður Sjálfstæðisflokksins í útvarpsumræðum frá alþingi. Í ræðu minni lagði ég áherslu á að draga skilin milli Sjálfstæðisflokksins og vinstrimennsku samfylkingarinnar. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, kvað einnig fast að orði um samfylkinguna og vinstrimennsku hennar. Leiðtogi samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, gerði kröfu um forsætisráðherrastólinn að kosningum loknum.