Dagbók: júlí 2014

Fimmtudagur 31. 07. 14 - 31.7.2014 19:15

Fanney Birna Jónsdóttir, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, skrifar í húskarlahorn blaðsins í dag:

 „Björn Bjarnason skrifar pistil á Evrópuvaktina þar sem hann gerir stöðu umsóknar Íslands að Evrópusambandinu að umtalsefni. Hann vitnar í yfirlýsingu Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, þar sem Juncker sagði enga frekari stækkun á sambandinu fyrirsjáanlega næstu fimm árin. Björn leggur út frá  [svo!] þessu og segir að það sé í besta falli langsótt en í raun rangt að fella Ísland undir ríki í viðræðum við ESB. Hið eina sem eftir standi af umsóknarferlinu sé Evrópustofa sem beiti sér fyrir kvikmyndasýningum og tónleikum og minni helst á MÍR, Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, Sovétvinafélagið í kalda stríðinu. Björn virðist gleyma því að sendiráð ESB á Íslandi svaraði fyrirspurn Fréttablaðsins fyrr í mánuðinum þveröfugt - sagði sambandið tilbúið að hefja viðræður á ný hvenær sem Íslendingar kunna að kjósa.“

Fanney Birna lætur þess ógetið að Jean-Claude Juncker sagði að haldið yrði áfram viðræðum við umsóknarríki þótt ESB mundi ekki stækka fyrr en eftir fimm ár. Þetta sagði hann um sama leyti og fimm ár voru liðin frá því að alþingi samþykkti aðildarumsóknina en þá var ráðgert að það tæki um 18 mánuði þar til Íslendingar gætu tekið af skarið um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Allt fór þetta á annan veg. Viðræðunum við ESB var hætt í janúar 2013 án þess að þær hefðu hafist um landbúnað og sjávarútveg, helstu ágreiningsmálin. Í apríl 2013 féllu ESB-flokkarnir á prófi kjósenda, ný ríkisstjórn vill ekki viðræður við ESB.

Fanney Birna vitnar í einhver ummæli frá sendiráði ESB á Íslandi. Ástæðan fyrir að viðræðunum var hætt í janúar 2013 var að síðan í mars 2011 hafði ESB ekki afhent rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Lætur sendiráð ESB nú eins og þessi skýrsla liggi á lausu? Líklegra er að sendiráðið tali aðeins eins og það heldur að ESB-aðildarsinnar vilji að það tali. Veruleikinn er annar og er þetta ekki í fyrsta sinn sem gripið er til blekkinga gagnvart Íslendingum í ESB-málinu.

 

Miðvikudagur 30. 07. 14 - 30.7.2014 20:00

Enn meira var lagt undir við rannsókn „lekamálsins“ í dag þegar umboðsmaður alþingis ritaði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra bréf til að afla sér vitneskju um samtöl hennar við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Fylgdi umboðsmaður þar eftir skrifum í DV undir ritstjórn Reynis Traustasonar.

Þegar umboðsmaður tekur að sér að kanna mál innan stjórnsýslunnar lítur hann til allra átta. Ríkissaksóknara hefur í áranna rás ekki endilega þótt sæma að umboðsmaður legði mat á gjörðir sínar en hefur samt orðið að una því eins og aðrir. Í þessu máli hlýtur umboðsmaður að kynna sér feril rannsóknarinnar og umfang hennar ekki síður en hlut ráðherrans.

Spurning er hvernig því var lekið til DV að Hanna Birna Kristjánsdóttir hefði hagað sér á þann veg gagnvart Stefáni Eiríkssyni sem blaðið lýsti þriðjudaginn 29. júlí. Að rannsaka þann leka er áhugavert því að hann snertir rannsakendurna sjálfa – eða hvað?

Að enn einn opinberi aðilinn láti „lekamálið“ sig varða kallar enn á að almenningur sé af opinberri hálfu upplýstur um allan gang málsins, allt frá því að fyrstu ábendingu var komið til lögmannsins sem kærði og fram á þennan dag.

Þegar ríkissaksóknari fól lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að rannsaka málið var lögreglan með rannsókn þess á sínum vegum á lokastigi. Hvað olli því að ríkissaksóknari óskaði eftir sérstakri rannsókn í sínu nafni? Þeirri rannsókn er nú lokið, ríkissaksóknari dregur að skýra frá ákvörðun sem á henni er reist. Hvers vegna?

Að baki kærunni í upphafi bjó ekki aðeins umhyggja fyrir hælisleitanda heldur einnig vilji til að ala á tortryggni í garð yfirvalda sem sinna útlendingamálum og þar með innanríkisráðuneytinu og innanríkisráðherra. Bestu sönnunina um þann tilgang málsins fá menn með því að lesa um það í DV.

 

 

 

Þriðjudagur 29. 07. 14 - 29.7.2014 22:15

Eftir að hafa fylgst með Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, árum saman sem blaðamanni og grandskoðað aðferðir hans á Baugsmiðlunum í þjónustu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar er auðvelt að greina gamalkunna takta í skrifum Reynis og blaðamanna hans í „lekamálinu“ svonefnda sem þeir hafa haldið vakandi mánuðum saman. Þeir félagar fullyrða að Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hætti störfum vegna undirliggjandi hótana og ítrekaðra afskipta Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra af störfum lögreglunnar.

Þegar í ljós kemur að þessari fullyrðingu er hafnað segir Reynir Traustason við Eyjuna:

„Það er engu haggað. Það er bara orðaleikur hvort Stefán hafi hætt beinlínis út af þessu eða hvort annað hafi vegið þyngra. Það skiptir ekki máli í þessu samhengi.“

Þetta segir ritstjóri blaðsins sem snýr út úr orðum fólks til að sanna gælumál sín eða les á milli línanna til að fá efni í fréttir. Hann lærði einnig af Jóni Ásgeiri að hóta þeim málsókn sem hann vill að þegi.

Líkindin við blaðamennskuna í Baugsmálinu minnka ekki við að Illugi Jökulsson tekur að sér að sannfæra lesendur sína um að Reynir og hans menn hafi rétt fyrir sér með getsökum sínum.

Þeir félagar á DV taka sér einnig fyrir hendur að gera tortyggilegt að innanríkisráðherra skipaði Sigríði Björk Guðjónsdóttur til að taka við af Stefáni á höfuðborgarsvæðinu. Þeir láta í veðri vaka að ég sé á bakvið það af því að ég skipaði hana lögreglustjóra á Suðurnesjum þegar Jóhann Benediktsson ákvað að sækja ekki um stöðuna eftir að ég auglýsti hana við gjörbreytingu á embættinu árið 2008.

Það er ekkert lát á samsæriskenningunum hjá Reyni Traustasyni, nú frekar en fyrri daginn.

Mánudagur 28. 07. 14 - 28.7.2014 21:40

Stjórnmálabaráttan liggur í láginni. Þeim mun meiri athygli beinist að köldu stríði Morgunblaðsins  og ríkisútvarpsins. Raunar er sérkennilegt að slíkt stríð skuli háð. Annars vegar er dagblað í einkaeign þar sem hluthafar eiga síðasta orð um stjórnendur, stefnu og markmið hins vegar er hlutafélag í ríkiseigu sem gengur að nefskatti vísum og hefur lögbundnar skyldur.

Árum saman hafa menn á þessum fjölmiðlum nálgast viðfangsefni fréttamiðlunar hver með sínum hætti. Bilið hefur hins vegar aukist hin síðari ár vegna þess að pólitísku rétttrúnaður hefur náð undirtökunum á ríkisútvarpinu í fréttum og þáttum um málefni líðandi stundar og menningarmál. Fréttir ríkisútvarpsins minna æ oftar á fundargerð neytenda- eða félagsmálasamtaka. Viðskiptafréttir eiga ekki upp á pallborðið í Efstaleiti, viðmótið í garð útgerðamanna er kuldalegt og oft gætir tortryggni í garð þeirra og annarra atvinnurekenda.

Nýjasta atvikið í köldu stríði miðlanna tveggja felst í viðleitni ríkisútvarpsins til að breyta orðinu múlatti í skammaryrði. Það var notaði innan sviga í Reykjavíkurbréfi í Morgunblaðinu laugardaginn 26. júlí til að skýra fyrir lesendum uppruna Baracks Obama Bandaríkjaforseta.

Sé flett í orðabók er ekkert sem bendir til að í því felist niðurlæging að nota orðið múlatti hvorki um Bandaríkjaforseta né nokkurn annan mann. Ríkisútvarpið greip til sama ráðs og oft áður að kalla á prófessor sér til aðstoðar en innan háskóla ræður víða pólitískur rétttrúnaður. Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, sagði hugtakið múlatti almennt ekki notað, sér þætti það niðrandi:

„Þegar ég sá þetta hugtak notað nú um helgina, þá fannst mér svolítið eins og ég væri að sjá draug úr fortíðinni. Og þetta hugtak, það gengur út frá þeirri hugmynd að við séum með tvo alveg hreina kynþætti, sem síðan blandast og þá verður úr manneskja sem kallast múlatti.“

Hugtakið sé reist á vafasamri hugmynd um að mannkyn flokkist í aðskilda kynþætti: „að við getum flokkað margbreytileikann niður í kynþætti - svartan og hvítan. Og einhvers konar blöndu af þessum tveimur kynþáttum,“ sagði prófessorinn í hádegisfréttum mánudaginn 28. júlí.

 

 

Sunnudagur 27. 07. 14 - 27.7.2014 22:30

Reykholtshátíðinni lauk í dag með messu og tónleikum. Hátíðin heppnaðist vel og ánægjulegt var að Olemic Thommassen, forseti norska stórþingsins, og Einar K. Guðfinnsson, forseti alþingis, skyldu taka þátt í málþingi Snorrastofu innan ramma hátíðarinnar. Til málþingsins var efnt til að minnast áhrifa frá Snorra Sturlusyni á stjórnarskrá Noregs frá 1814. Stórþingsforsetinn er áhugamaður um norræna samvinnu og gerir sér glögga grein fyrir gildi hins sameiginlega menningararfs fyrir hana.

Í kvöld var sjónvarpsþáttur um Brynju Benediktsdóttur (1938 til 2008), leikstjóra og leikkonu. Var meðal annars drepið á deilurnar um breytinguna á sal Þjóðleikhússins undir lok níunda áratugarins. Ólíklegt er að nokkrum dytti í hug að bylta salnum á þann hátt nú á tímum. Brynja var meðal reyndra leikara sem gagnrýndu þessa aðför að salnum. Þeir voru í minnihluta og ráð þeirra því miður höfð að engu.

Laugardagur 26. 07. 14 - 26.7.2014 19:00

Í dag flutti ég ræðu við upphaf athafnar í Snorrastofu í Reykholti í tilefni af 200 ára afmæli norsku stjórnarskrárinnar, sjá hér. Málþingið um Snorra Sturluson og norsku stjórnarskrána frá 1814 var vel heppnað með þátttöku Olemics Thommessens, forseta Stórþings Noregs, og Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis Íslendinga.

Mikið er enn órannsakað vilji menn kynna sér áhrif Snorra Sturlusonar á heimsmenninguna. Hinn mikli áhugi Norðmanna og náin tengsl sem þróast hafa við þá vegna Snorra eru aðeins vísbending um hvernig nýta má menningarafrekin í Reykholti í tíð hans til að styrkja ímynd Íslands og íslenskrar menningar á heimsvísu.

Föstudagur 25. 07. 14 - 25.7.2014 23:10

Reykholtshátið hófst í kvöld með tónleikum í Reykholtskirkju.

Í dag var Vilhjálmur Hjálmarsson jarðsunginn. Hann átt skammt í að verða 100 ára þegar andaðist. Vilhjálmur er lifði lengst af ráðherrunum í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar sem sat 1974 til 1978, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eins og sú sem nú situr. Á þessum árum starfaði ég í forsætisráðuneytinu og ritaði með öðrum störfum fundargerðir ríkisstjórnarinnar.

Birta er yfir minningunni um Vilhjálm enda var hann velviljaður maður sem vildi allan vanda leysa á friðsaman hátt.

Það urðu nokkur viðbrigði fyrir gesti og starfsmenn menntamálaráðuneytisins að fá mann í ráðherrastöðu sem bauð aðeins kaffi og kökur í síðdegisboðum í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í stað létts víns og/eða sterkra drykkja eins og tíðkuðust almennt í slíkum veislum.

Ráðherraboð af þessu tagi voru miklu algengari þá en nú og oft fylgdi töluverður þrýstingur á ráðherra að halda þau, einkum menntamálaráðherra vegna alls þess fjölda stofnana og félaga sem falla undir verksvið ráðuneytisins. Fyrir tíð bjórsins og allra kránna voru drykkjusiðir aðrir en nú og það þótti einfalda margt að ríkið sæi um vínveitingarnar. Kostnaður ríkisins var minni við að bjóða áfengi en kaffi enda fengu ráðuneyti varning ÁTVR á gjafverði. Á þessum árum lágu sígarettur og vindlar á öllum borðum – menn reyktu í veislum og á ríkisstjórnarfundum.

Þrýstingur á veislur í boði menntamálaráðherra minnkaði í tíð Vilhjálms.  

 

 

Fimmtudagur 24. 07. 14 - 24.7.2014 22:50

Sumarhiti hefur verið svo mikill í Kaupmannahöfn að stjórnendur dýragarðsins pöntuðu hálft tonn af ís frá Grænlandi til að kæla ísbirnina tvo í vörslu þeirra. Birnirnir fögnuðu þegar ísnum var kastað í tjörn í gryfju þeirra miðvikudaginn 23. júlí. Ekki minnkaði gleði dýranna þegar þeir fengu einnig frosinn fisk.

Fréttin um þetta minnir á góðviðrið í nágrannalöndum okkar. Hitinn í Osló er um 30 gráður. Þar eru allir á varðbergi vegna viðvörunar um hættu á hryðjuverkaárás. Óttast er að islamistar frá Noregi sem tekið hafa þátt í borgarastríðinu í Sýrlandi hafi engan hemil á grimmd sinni við heimkomu.

Kristið fólk í borginni Mósul sætir ofsóknum eftir að islamistar frá Sýrlandi lögðu borgina undir sig og stofnuðu nýtt ríki sem heitir á arabísku Da'ech, Islamskt ríki. Fréttir herma að ekki sé nein upplausn í hinu nýja ríki, sem teygir sig yfir hluta Sýrlands og Íraks, heldur gangi valhafar og fulltrúar þeirra skipulega til verks. Eftir valdatökuna hafi þeir beitt sér fyrst gegn fulltrúum og hermönnum fyrrverandi valdhafa. Hinn 16. júlí hafi þeir síðan snúið sér að hinum kristnu.

Hús kristinna eru merkt með bókstafnum N sem stendur fyrir nassarah en orðið er notað um kristna í Kóraninum. Sólarhring eftir að húsin höfðu verði merkt var ritað á þau: „Eign Islamska ríkisins.“ Við svo búið voru kristnum settir úrslitakostir. Fyrir 19. júlí urðu þeir að ákveða hvort þeir köstuðu trú sinni, gerðust múslímar og greiddu sérstakan skatt eða hypjuðu sig á brott. Veldu þeir hvorugan kostinn beið þeirra að sverðið.

Þeir sem ákváðu að flýja fengu ekki að halda neinu öðru en fötunum sem þeir klæddust. Í Le Monde segir á undanförnum tíu árum hafi um 400.000 kristnir flúið frá Írak.

Miðvikudagur 23. 07. 14 - 23.7.2014 23:55

Árið 1967 þegar ég varð fyrst ráðinn sem blaðamaður á Morgunblaðið var sex daga stríðið háð (5. til 10. júní) milli Ísraela og nágranna þeirra. Þá urðu margir á meginlandi Evrópu hræddir um að ný heimsstyrjöld kynni að hefjast. Rúm 20 ár voru liðin frá lyktum síðari heimsstyrjaldarinnar og vöruskortinum sem henni fylgdi. Fólk tók að hamstra nauðsynjavörur til að vera við öllu búið.

Í tæpa hálfa öld hef ég fylgst náið með gangi alþjóðamála og ekki síst öryggismála. Margt hef ég leitast við að kynna mig til nokkurrar hlítar. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem reglulega kemur til átaka er jafnsorglegt og illskiljanlegt nú og fyrir hálfri öld. Ekki síst miðað við allan tímann sem varið hefur verið til friðarviðræðna.

Það sem helst hefur breyst er afstaða almennings og stjórnvalda á Vesturlöndum í garð Ísraela. Þeir eru úthrópaðir og sakaðir um að beita ofurefli gegn almennum borgurum og látið er eins og hermenn Hamas-samtakanna beiti leikfangavopnum svo að vitnað sé í kynni í tónlistarþætti í ríkisútvarpinu í dag – meira að segja í slíkum þáttum nota menn málfrelsið til árása á Ísraela.

Beita verður öllum ráðum til að stöðva átökin. Að samið verði um frið er þó ekki í augsýn nú frekar en fyrri daginn. Það er sagður markverður árangur fyrir Hamas að flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum og annars staðar telja Ben Gurion-flugvöll við Tel Aviv of hættulegan fyrir millilandaflugvélar. Við það skapast annars konar þrýstingur á Ísraelsstjórn en áður. Lokun vallarins sýnir að Hamas ræður yfir öðru en leikfangavopnum.

Í átökunum nú hafa Ísraelar fundið mikil göng og bækistöðvar Hamas undir yfirborði jarðar. Þar hafast liðsmenn samtakanna við þegar Ísraelar gera árásir á berskjaldaða almenna borgara ofan jarðar. Um göngin má laumast inn í Ísrael, meðal annars til mannrána. Fyrir einn ísraelskan hermann er unnt að semja um frelsi fyrir hundruð ef ekki þúsund Palestínumenn í haldi Ísraela.

 

 

 

 

Þriðjudagur 22. 07. 14 - 22.7.2014 18:50

Í grein í Fréttablaðinu í dag tekur ESB-aðildarsinni sér fyrir hendur að rægja EES-samninginn. Að þetta gerist kemur ekki á óvart.  ESB-aðildarsinnar vilja veg EES-samningsins sem minnstan af því að þeir telja hann þröskuld á leið Íslands inn í ESB.

Þeir gleyma þeirri staðreynd að enginn meirihluti var fyrir aðild að ESB þegar Íslandi bauðst hún sem EFTA-ríki. Hefði verið þrýst á aðild að ESB hefði EES-samningurinn ekki verið gerður. Málið er ekki flóknara en það.

Ég skrifaði um áróðurinn gegn EES-samningnum á Evrópuvaktina í dag eins og lesa má hér. Engu er líkara en ESB-aðildarsinnar telji sig geta rakkað EES-samninginn niður af því að engum hér á landi detti í hug að rifta honum. Þessi afstaða er reist á misskilningi eins og svo margt hjá aðildarsinnum. Að sjálfsögðu kann stöðugur neikvæður áróður þeirra að grafa svo undan samningnum að krafa um uppsögn hans verði að pólitísku umræðuefni.

ESB-aðildarsinnar, gagnrýnendur EES-samningsins úr þeirri átt, verða að svara hve langt þeir vilja ganga gegn þessum samstarfssamningi Íslendinga við ESB. Leggja þeir til að EES-samningnum verði rift? Telja þeir með öllu vonlaust að unnt verði að draga úr lýðræðishallanum vegna samningsins?

Mánudagur 21. 07. 14 - 21.7.2014 21:00

Atburðir gerast sem gjörbreyta þróun mála eða afstöðu fólks. Að Rússavinir og aðskilnaðarsinnar í Úkraínu skuli hafa skotið niður farþegaþotu frá Malasíu fimmtudaginn 17. júlí með tæplega 300 manns innanborðs er slíkur atburður. Ekki bætir úr skák að aðskilnaðarsinnarnir sýndu upphaflega tregðu til að hleypa hlutlausum, alþjóðlegum rannsóknarmönnum á vettvang.

Vladimír Pútin Rússlandsforseti situr uppi með endanlega skömm vegna þessa atburðar. Hann hefur leikið mörgum skjöldum vegna þróunar mála í Úkraínu. Hann lék leiki og lét sem rússneski herinn héldi sig frá átökum við Úkraínuher. Pútín sá hins vegar aðskilnaðarsinnum fyrir vopnum og þar á meðal skotflauginni sem send var á loft til að granda flugvél Kænugarðsmanna en lenti á þotunni á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur.

Án hvatningar og að minnsta kosti óbeins stuðnings frá Pútín berjast aðskilnaðarsinnar ekki við hermenn Kænugarðs. Rússlandsforseti er ábyrgðarmaður aðgerða aðskilnaðarsinna . Á meðan hann skiptar þeim ekki að leggja niður vopn berjast þeir áfram og skömm Pútíns vex.

Rúmum sólarhring áður en flugvélin fórst gerðist annar atburður sem markar þáttaskil. Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynnti þriðjudaginn 15. júlí stefu sína til ársins 2019 og þar á meðal að ESB stækkaði ekki á þeim tíma þótt rætt yrði áfram við ríki sem hefðu átt í aðlögunarviðræðum við ESB.

Viðræðum fulltrúa Íslands og ESB var hætt í janúar 2013 og haustið 2013 afmunstraði utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson viðræðunefnd Íslands og einstaka viðræðuhópa. Íslendingar eiga ekki í neinum viðræðum við ESB. Það verður því ekki rætt við þá næstu fimm árin.

Ný framkvæmdastjórn ESB tekur við í Brussel 31. október 2014. Vikurnar þangað til á ríkisstjórn Íslands að nota til að móta skýra afstöðu um lyktir stöðu Íslands sem umsóknarríkis sem kynnt verði fyrir nýrri framkvæmdastjórn ESB undir forsæti Junckers. Engin rök eru fyrir að skipa sess umsóknarríkis án viðræðna við ESB. Slík staða er í raun svo fráleit að óþarft ætti að vera að deila um að afmá hana.

Á fimm árum mun ESB breytast. Vilji Íslendingar nálgast það í breyttri mynd ber að gera það á grundvelli nýrrar umsóknar sem samþykkt yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en gengið yrði til viðræðna við ráðamenn í Brussel.

 

 

Sunnudagur 20. 07. 14 - 20.7.2014 22:10

Þokan var svo svört á Holtavörðuheiðinni í dag að undrun vekur að þar skuli ekki hafa orðið óhapp í umferðinni. Allir hafa sýnt nauðsynlega varkárni og komist leiðar sinnar.

Í Norðurárdalnum sýndi mælirinn í bílnum um 23 stiga hita. Það má því segja að góða veðrið hafi fylgt okkur allt frá Djúpavogi til Reykjavíkur.

Laugardagur 19. 07. 14 - 19.7.2014 23:55

Ókum um Dalvík þar sem var flóamarkaður og um Ólafsfjörð til Siglufjarðar þar sem mikið hefur verið gert fyrir ferðamenn og enn er unnið að framkvæmdum af stórhug.

Þjóðlagasetur séra Bjarna Þorsteinssonar minnir á hið ómetanlega starf  hans í þágu tónlistar á Íslandi en einnig á hve miklu hann skipti fyrir þróun byggðar í Siglufirði.

Héðinsfjarðargöng eru mikil samgöngubót og í samanburði við gömlu göngin milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar sýna þau framfarir og breyttar kröfur í vegagerð. Jarðsigið í veginum fyrir vestan Siglufjörð hlýtur að vera vegagerðarmönnum áhyggjuefni ekki síður en ökumönnum.

Föstudagur 18. 07. 14 - 18.7.2014 22:50

Við kvöddum hið ágæta gistiheimili Lyngholt í Þórshöfn í sól og blíðu í morgun og ókum um Raufarhöfn út á Melrakkasléttu. Sjá hér.

Skammt fyrir ofan Raufarhöfn rís Heimskautagerði í anda norrænnar goðafræði. Klettarnir sem hoggnir eru í gerðið eru margir risavaxnir. Verkinu er ekki lokið en fullbúið verður það eitt af undrunum sem rekja má til Snorra Sturlusonar. Sjá hér

Víða varð að aka varlega um sléttuna til að drepa ekki lítt fleyga kríuunga sem stóðu á veginum. Þessu höfðum við áður kynnst við Höfn í Hornafirði og á leiðinni út á Langanes. Gripu ungarnir ekki nægilega fjótt við sér kom mamman á vettvang og rak þá af stað.

Við skoðuðum Dettifoss að austanverðu en hinar hefðbundnu myndir af honum eru teknar úr þeirri átt. Vegurinn austan við fossinn er sumstaðar grófur en greiðfarinn. Kemur á óvart að engar leiðbeiningar eru um hvert vegurinn liggur þegar komið er frá fossinum. Vegurinn að vestanverðu er bundinn slitlagi og mátti sjá hópa ferðamanna bæði austan og vestan við fossinn.

Vegamerkingar (eða skortur á þeim) á þessum slóðum komu á óvart. Í stað þess að nefna 30 km hraða var á skilti bent á 35 km hraða og á öðru á 45 km hraða. Víða er viðvörun með 200 m fyrirvara um að hestar og menn kunni að verða í vegi manns. Á einu skilti er talað um 240 m. Hvað veldur?

Það kom skúr þegar við gengum um bryggjuna í Húsavík þar sem fólk beið í röðum eftir að komast í hvalaskoðunarferðir. Rigningin jókst eftir því sem nær dró Akureyri. Gufustrókurinn af heita vatninu úr Vaðlaheiðargöngum fer ekki fram hjá neinum og ekki heldur hraukurinn risastóri með efni í göngunum.

Fimmtudagur 17. 07. 14 - 17.7.2014 22:15

Það fór vel um okkur í gistiheimili Ólu í Seyðisfirði. Þegar við ókum upp Fjarðarheiðina í blíðviðrinu í morgun vorum við í röð með bílum úr ferjunni Norrænu. Margir stöðvuðu við foss á leiðinni til að taka myndir, sumir við ísilagða tjörn efst á heiðinni og enn aðrir til að virða fyrir sér fegurðina á Héraði og til Snæfells þegar komið var að hringsjánni.

Við fórum að Skriðuklaustri. Þar hefur ný vídd komið til sögunnar með klausturrannsóknunum. Einstaklega vel hefur verið gengið frá rannsóknarsvæðinu og reistur hefur verið pallur til að auðvelda gestum að fá sýn yfir það auk upplýsinga sem er að finna í húsi Gunnar. Allt er þarna með miklum myndarbrag.

Við litum inn í Snæfellsstofu, nýbyggingu á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs, skammt frá Skriðuklaustri. Þar er vítt til veggja til miðlunar á fróðleik um náttúru og dýralíf. Fjórar stofur eru á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs, auk þessarar í Höfn í Hornafirði, Skaftafelli og Ásbyrgi.

Vegurinn yfir Hellisheiði eystri, milli Héraðs og Vopnafjarðar, er brattur og hlykkjóttur en útsýni er einstök eins og sjá má hér.

Skammt fyrir utan Þórshöfn hefur gamla steinhúsið á Sauðanesi verið endurreist og þar er minjasafn. Þaðan er um 40 mínútna akstur, rúma 30 km út á Langanes, að útsýnispallinum sem hefur verið reistur á bjargi út yfir sjóinn við Stóra Karl. Þetta gefur heimsókn á þessar slóðir nýja vídd í orðsins fyllstu merkingu, sjá hér.

Þokuslæðingur barst inn á landið og sáum við ekki Fontinn yst á Langanesi. Á leiðinni milli Bakkafjarðar og Þórshafnar lagði einnig þokustreng inn land þegar við fórum fram hjá Djúpalæk – annars hefur sólin skinið á heiði í allan dag.

Miðvikudagur 16. 07. 14 - 16.7.2014 23:55

Veðurblíðan í Seyðisfirði var einstök í dag.

Í kvöld léku Rut og Richard Simm píanóleikari í sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar í Seyðisfirði. Þetta er merkilegt menningarframtak sem stutt er af ýmsum aðilum.

Kvöldið áður en ferjan Norræna kemur til landsins og leggur úr höfn að nýju er efnt til tónleika fyrir heimamenn og erlenda ferðamenn sem setja mikinn svip á bæinn.

Í dag eru fimm ár síðan alþingi samþykkti að sækja um aðild að ESB. Nú hafa Brusselmenn jarðað umsóknina eins og ég lýsi hér.

Þriðjudagur 15. 07. 14 - 15.7.2014 19:00

Gistiheimilið Klif í Djúpavogi reyndist okkur vel. Eftir Austfjarðaþokuna á annesjum á leiðinni frá Höfn í Hornafirði í gær skein nú sól í heiði þegar við skoðuðum Löngubúð þar sem er Ráðherrastofa til minningar um Eystein Jónsson og listaverk eftir Ríkarð Jónsson en báðir eiga þeir rætur frá þessum slóðum.

Í Gleðivík við Bræðsluna skammt utan við Djúpavog eru marmaraegg eftir Sigurð Guðmundsson. Þau eru nokkrir tugir og sniðin eftir eggjum fugla á svæðinu, fuglalífið er fjölbreytt og stærsta ekki er frá lómi. Sjá hér 

Í Bræðslunni var á dögunum opnuð sýningin Rúllandi snjóboltinn 5. Þetta er alþjóðleg sýning með þátttöku 33 listamanna frá Evrópu og Kína. Kínversk-íslenska menningarmiðstöðin, Djúpavogi og Kínversk-evrópska menningarmiðstöðin, Xiamen standa að sýningunni auk Djúpavogs (sjá www.ceac99.org). Sýningin er opin daglega 11.00 til 16.00 til 15. ágúst. Aðgangur er ókeypis. Þeir sem eiga leið um svæðið eru hvattir til að skoða sýninguna. Raunar ætti hún að verða tilefni til að bregða sér úr sunnlensku rigningunni til að ná sér í dálítið af austfirskri sól í leiðinni.

Skammt utan við Djúpavog þegar ekið er í norður er Teigarhorn, þar sem skoða má einstakt safn með nokkrum tegundum geislasteina (zeolíta). Þeir eru fágætir í heiminum. Þarna er einnig Weywadt-hús (1881) sem Þjóðminjasafn lét gera upp að utan árið 2013. Þar bjó meðal annarra Nikoline Wywadt, fyrsti kvenljósmyndari landsins.

Fyrir áhugamenn um endurreisn gamalla húsa er kjörið að fara til Fáskrúðsfjarðar og sjá hve vel og fagmannlega Minjavernd hefur staðið að endurbyggingu gamla franska spítalans, sem nú er Fosshótel, og læknishússins, þar sem nú er vel heppnað safn um franska sjómenn við Íslandsstrendur. Talið er að allt að 4.000 þeirra hafi týnt lífi.

Spítalinn og læknishúsið eru tengd með göngum og þar er eins og gengið sé um borð í franska skútu. Allt er þetta einstaklega haganlega gert. Þá hafa fleiri hús tengd frönsku sjómönnunum verið endurbyggð. Fáskrúðsfjörður er vinabær franska bæjarins Gravelines við Ermarsund, skammt fyrir sunnan Dunkerque. Þegar ekið er inn í þorpið blaktir franski fáninn við hún

Vegagerðin er tekin til við að bora rúmlega 7 km löng göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og eiga þau að koma til sögunnar í september 2017. Að aka Oddskarðið í sól og blíðu eins og í dag er skemmtileg útsýnisferð. Ég á aðra minningu úr vetrarferðum. Að þessum farartálma verður rutt úr vegi mun setja nýjan svip á mannlífið í Fjarðabyggð ekki síður en endurreisn frönsku húsanna í Fáskrúðsfirði.

Mánudagur 14. 07. 14 - 14.7.2014 19:10

Ókum í dag úr Fljótshlíðinni til Djúpavogs, um 450 km. Ferðaveður var gott, logn alla leiðina. Á stöku stað lá leiðin í gegnum þéttar skúrir. Mikið var af ferðamönnum. Umferðin var greið.

Snyrtimennska blasti við á Kirkjubæjarklaustri og Höfn í Hornafirði. Líklega vakti hún meiri athygli en ella vegna andstæðunnar við hirðuleysið á grænum svæðum í Reykjavík.

Í Kaffi Horninu á Höfn er te borið fram á þann hátt að til fyrirmyndar er. Telauf eru sett í könnur og nokkrar tegundir í boði. Þetta stingur í stúf við tepokamenninguna sem ræður ríkjum á veitingastöðum landsins.

Í Þvottárskriðum var þokuslæðingur sem gerði stórbrotið landslag enn dulúðugra. Skyldi takast að markaðssetja Austfjarðaþokuna eins og norðurljósin?

Áður en við komum á Skeiðarársand hlustuðum við í útvarpinu á upprifjun frá því sem gerðist þar þennan dag fyrir réttum 40 árum þegar hringvegurinn var opnaður með nýjum brúm. Að baki því var meðal annars þjóðarátak með söfnun fjár til þessa einstaka verkefnis.

Sunnudagur 13. 07. 14 - 13.7.2014 18:50

Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og dálkahöfundur í Fréttablaðinu, segir á Facebook-síðu sinni í dag að samstarfsmenn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors við Háskóla Íslands, hafi lekið efni sálfræðiskýrslna, þar sem þeir sjálfir kvarta undan honum, í fjölmiðla“.

Undanfarið hafa blaðamenn DV undir ritstjórn Reynis Traustasonar farið hamförum yfir því að til fjölmiðla hafi verið lekið minnisblaði varðandi nafngreindan hælisleitanda. „Lekamálið“ hefur mánuðum saman verið til rannsóknar hjá lögreglu að ósk saksóknara. Hneykslunarfréttir DV vegna „lekamálsins“ eru fleiri en tölu verður á komið og krafist er aðgerða gegn þeim sem taldir eru bera ábyrgð á lekanum.

Eftir að „sálfræðiskýrslunni“ var lekið úr Háskóla Íslands hefur DV birt efni úr henni án þess að nokkur orð hafi fallið um að rannsaka beri hver hafi staðið að lekanum eða óeðlilegt sé að niðurstöðum sé lekið úr sálfræðiskýrslu. Því má velta fyrir sér hvort sé alvarlegra að leka minnisblaði um stöðu máls í ráðuneyti eða skýrslu með niðurstöðum sálfræðings. Á dv.is sagði föstudaginn 11. júlí:

„Starfsmönnum stjórnmálafræðideildar var boðið í viðtal við Einar Gylfa Jónsson sálfræðing og mikill meirihluti þeirra kvartaði undan yfirgangi af hálfu Hannesar. Í niðurstöðum skýrslunnar er staðhæft að yfirstjórn háskólans beri lagaleg skylda til að bregðast við framkomu prófessorsins, enda sé ástandið í stjórnmálafræðideild óviðunandi.“

Persónulegri geta ávirðingar sem raktar eru til trúnaðarskýrslu nafngreinds sálfræðings varla verið og þar að auki er sagt að sálfræðingurinn hafi tekið sig til og dregið lögfræðilega ályktun um skyldur yfirstjórnar Háskóla Íslands af rannóknum sínum.

Það leynist ekki lesanda skrifanna undir hatti ritstjóra DV að með jafnmikilli velþóknun er fjallað um lekann úr sálfræðiskýrslunni úr Háskóla Íslands og fyrirlitningu í garð þeirra sem blaðið telur að lekið hafi minnisblaðinu um hælisleitandann.

Illt er að tala tungum tveim og mæla sitt með hvorri.

  

Laugardagur 12. 07. 14 - 12.7.2014 22:15

Fyrir þá sem fylgjast með stjórnmálafréttum frá Frakklandi með lestri franskra blaða er forvitnilegt að sjá hve þær afbakast oft í enskum og þá einnig íslenskum miðlum þótt fréttirnar séu reistar á upplýsingum frá frönsku fréttastofunni AFP. Hér skal nefnd frétt á mbl.is í dag af frétt sem birtist í Le Monde þar sem birt eru afrit af símtölum Nicolas Sarkozys og Thierrys Herzogs, lögmanns hans, um að Sarkozy tali máli Gilberts Aziberts, hæstaréttardómara í Frakklandi, sem er að komast á eftirlaun en vill fá bitling hjá stjórnvöldum í Monakó. Sarkozy lofar að ræða málið við Albert prins af Mónakó í ferð sinni þangað undir lok febrúar 2014 en segist síðan ekki hafa gert það. Azibert dómari ætlar hins vegar að reka erindi fyrir Sarkozy í hæstarétti, tryggja friðhelgi dagbóka hans. Hvorugt gekk eftir, Azibert fékk ekki bitlinginn og dagbækur Sarkozys eru aðgengilegar til rannsóknar.

Sarkozy telur að um pólitískar ofsóknir sé að ræða, sósíalistar vilji hindra framboð sitt til forseta árið 2017. Hann hafði boðað ákvörðun sína um það efni í lok ágúst eða byrjun september.

Á mbl.is er sagt frá þessu á þennan hátt að Sarkozy hafi ætlað að ræða stöðuhækkun fyrir Azibert. Hann ætlaði ræða eftirlaunabitling í Monakó fyrir Azibert, hæstaréttardómara í Frakklandi.

Þá segir mbl.is að Sarkozy sé „til rann­sókn­ar í tengls­um við spill­ing­ar­mál“. Hann er þó ekki til rannsóknar í öðru máli en þessu hleranamáli sem rak á fjörur lögreglu fyrir tilviljun við rannsókn máls sem er úr sögunni.

Hér má lesa frásögn á Evrópuvaktinni um þetta mál.

 

Föstudagur 11. 07. 14 - 11.7.2014 21:03

Ragnar Þór Pétursson kennari skrifar reglulega á vefsíðuna Eyjuna. Í pistli frá miðvikudeginum 9. júlí segir hann í lokaorðum:

„Á mínum „myrkustu“ stundum hlakka ég til þess tíma þegar kaldastríðskynslóðin er komin undir græna torfu. Ég vona bara að hún verði ekki búin að eyðileggja of mikið þegar að því kemur.“

Það er köld kveðja til heillar kynslóðar að óska þess að hún hverfi sem fyrst af yfirborði jarðar. Sé þetta til marks um bætta „umræðumenningu“ í landinu er ástæðulaust að gefa framlaginu háa einkunn þvert á móti er þetta forkastanleg afstaða í garð annars fólks. Má sannarlega segja að menn velji sér mismunandi leiðir til að verða sér til skammar.

Í dag skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina þar sem ég rýndi í „umræðumenninguna“ í tengslum við valið á seðlabankastjóra. Hún fær ekki háa einkunn hjá mér. Ef þetta er til marks um að rætt sé um málin af meira viti núna en á tímum kalda stríðsins er ljóst að þeir sem það segja vita ekki neitt frekar en þeir sem ég nefni til sögunnar í pistli mínum.

Fimmtudagur 10. 07. 14 - 10.7.2014 18:30

Í nóvember árið 2007 flutti ég fyrirlestur í Belfer Center í John F. Kennedy School of Government við Harvard háskóla. Þar sagði ég frá flutningi á gasi frá Hammerfest í Noregi til Cove Point í Maryland í Bandaríkjunum og skipin sigldu nálægt Íslandi á leið sinni. Þetta hefði áhrif á störf Landhelgisgæslu Íslands. Í fyrstu ferð slíks skips hefði veðrið verið svo vont við strendur Noregs að hafnsögumaðurinn hefði ekki komist í land fyrr en á Íslandi þegar þyrla gæslunnar sótti hann.

Nú hefur niðurbrot á sandsteini eða flögusteini í jörðu í Bandaríkjunum gefið af sér svo mikið gas að hafnarmannvirkjunum í Cove Point hefur verið breytt svo að þaðan sé unnt að flytja út gas frá Bandaríkjunum. Enginn sá þetta fyrir árið 2007.

Eins og menn sjá á því sem ég sagði í Harvard í nóvember 2007 er alrangt sem fram kom í grein eftir Kristján Guy Burgess, fyrrv. aðstoðarmanni Össurar Skarphéðinssonar, í grein í Kjarnanum að fyrst með Össuri hafi íslenskir stjórnmálamenn tekið að ræða norðurslóðamál í Bandaríkjunum eða við bandaríska stjórnmálamenn.

Eftir að ég vék að þessari einkennilegu grein eftir aðstoðarmanninn fyrrverandi hefur mér verið sagt að hann sé orðinn fulltrúi NATO hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Frá þessu hefur ekki verið skýrt opinberlega en líklegt er að íslenskir skattgreiðendur standi undir kostnaði við þessa stöðu í nafni NATO.

Fréttir herma að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafi að morgni miðvikudags 9. júlí boðað fulltrúa hóps 23 ríkja til morgunverðarfundar um landgræðslumál hjá Sameinuðu þjóðunum, til hópsins var stofnað á síðasta ári af Íslandi og Namibíu. „Leggur Ísland ríka áherslu á að markmið í landgræðslumálum verði meðal nýrra þróunarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Gunnar Bragi á fundinum.

Utanríkisráðuneytinu er greinilega ekkert óviðkomandi úr því að ráðherra utanríkismála er tekinn til við að ræða landgræðslumál. Nýskipan í stjórnarráðinu hefur greinilega leitt til þess að hin eðlilega verkaskipting milli ráðuneyta eftir málaflokkum er úr sögunni.

 

Miðvikudagur 09. 07. 14 - 9.7.2014 22:50

Öðru hverju má lesa fréttir um það sem nefnt er wi-fi-phobia á erlendum tungum, það er óþol fyrir nettengingu og bylgjum sem henni fylgja. Nýlega var mér sagt frá einstaklingi sem gat ekki sofið í sumargististað án þess að lokað væri á nettengingu að næturlagi. Þetta skapaði öðrum gestum að sjálfsögðu vandræði. Aðrir sofa ekki almennilega nema unnt sé að tengjast netinu í náttstað. Þessi hópur er fjölmennari en hinn sem vill að netið sé aftengt.

Vegna viðskipta og þjónustu við ferðamenn er lykilatriði fyrir þróun ferðaiðnaðarins um land allt að sem best sé hugað að ljósleiðaratengingu. Ljósleiðari var lagður umhverfis landið á níunda áratugnum þegar NATO endurgerði ratsjárkerfið sem nær til Bolafjalls við Bolungarvík og austur til Gunnólfsvíkurfjalls skammt frá Bakkafirði,  að Stokksnesi við Hornafjörð og í móðurstöð á Keflavíkurflugvelli. Kostnaður við tengjast þessum ljósleiðarahring er mikill og hærri en ætla mætti í fyrstu. Eitt öflugasta skrefið til að auka á jafnræði fyrirtækja um land allt er skapa jafnan aðgang að netinu.

Það er grátbroslegt að fylgjast með tilraunum fjölmiðlamanna og álitsgjafa til að gera skipan valnefndar vegna skipunar í embætti seðlabankastjóra tortryggilega. Erfitt er að sjá hvaða tilgangi fréttir um þetta þjóna. Það er ekki nokkur leið að færa rök fyrir þeirri skoðun að þeir þrír einstaklingar sem sitja í nefndinni hafi ekki burði til að segja hvaða umsækjendur eru hæfir til að gegna stöðunni. Að halda því fram að hagfræðimenntað fólk sé betur til þess fært en þeir sem þarna koma við sögu þjónar annarlegum tilgangi.

Þriðjudagur 08. 07. 14 - 8.7.2014 19:15

Samtal mitt við Tómas H. Heiðar, nýkjörinn hafréttardómara, á ÍNN hinn 2. júlí er komið á netið og má sjá þér.

Vegna athugana varðandi utanríkismál rakst ég á neðangreint af tilviljun í netblaðinu Kjarnanum frá 7. nóvember 2013. Þar kemur fram að Kristján Guy Burgess, fyrrverandi aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, riti greinaflokk um utanríkismál í blaðið. Á einum stað segir:

„En þegar ráðamenn meta strategíska stöðu rangt er ekki von á góðu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar mistókst illilega að vinna með landafræðina í samningunum við Bandaríkjamenn sem lauk með brotthvarfi varnarliðsins árið 2006. Sambandinu við Bandaríkin var klúðrað með röngu stöðumati, misheppnaðri strategíu um hverju ná skyldi fram, og samningatækni þar sem hurðum var skellt fremur en að leita að sameiginlegri lendingu við Bandaríkjastjórn sem virtist einbeitt í sínum ásetningi að draga saman seglin á Íslandi og nýta herafla sinn annars staðar. Þegar Keflavíkurstöðinni var lokað töluðu áhrifamenn í  Sjálfstæðisflokknum meira að segja um að slíta ætti varnarsamningnum.

Vegna áhugaleysis og vantrúar forystu Sjálfstæðisflokksins á áhrif loftslagsbreytinga og hvernig þær myndu leiða til gjörbreyttrar umræðu um stöðu norðurslóða var ekki leitast við að þróa samvinnu áfram til sameiginlegra verkefna, heldur haldið dauðahaldi í horfna stöðu Kalda stríðsins. Þegar forseti Íslands hóf að vekja athygli á hættunum sem sköpuðust af loftslagsbreytingum á norðurslóðum kallaði forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins það að hann væri að mála skrattann á vegginn og skrattinn væri óskemmtilegt veggskraut. Þetta varð meðal annars til þess að ekkert hafði verið unnið með hugmyndir um sérstaka sameiginlega miðstöð fyrir leit og björgun á norðurhöfum fyrr en Össur Skarphéðinsson tók þær upp á utanríkisráðherrafundi við  Hillary Clinton í Washington vorið 2010. Báðar þjóðir ættu að hafa mikinn hag af slíkri miðstöð.“

Af því sem ég þekki til mála á þeim tíma í samskiptum Íslendinga og Bandaríkjamanna sem þarna er lýst dreg ég þá ályktun að Kristján Guy Burgess hafi ekki hundsvit á því sem hann segir í þessum orðum eða kjósi að fara vísvitandi með rangt mál. Skyldi hann hafa tekið að sér að fegra ráðherratíð Össurar með rangfærslum?

Tíminn hefur leitt í ljós að hið strategíska mat Bandaríkjastjórnar varðandi aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli var rangt. Margoft hafði verið rætt um leit og björgun við bandarísk stjórnvöld og breytingar á norðurslóðum. Það var meðal annars gerður sérstakur samningur við bandarísku strandgæsluna. Þótt Össur hafi rætt við Hillary skilaði það engu nýju.

Mánudagur 07. 07. 14 - 7.7.2014 22:50

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur samið við fjármálaráðuneytið um rannsóknarverk­efni þar sem metn­ir verða er­lend­ir áhrifaþætt­ir banka­hruns­ins haustið 2008. Miðað er við að verkefninu ljúki sum­arið 2015 og það kosti 10 milljónir króna. Dr. Hann­es Hólm­steinn Giss­ur­ar­son pró­fess­or hef­ur um­sjón með verk­inu sem skipt­ist í fjóra meg­in­hluta:

  • Rann­sókn á for­send­um banda­ríska seðlabank­ans fyr­ir gjald­eyr­is­skipta­samn­ing­um og neit­un á slík­um samn­ing­um.
  • Rann­sókn á for­send­um breska fjár­mála­eft­ir­lits­ins fyr­ir lok­un sumra banka í fjár­málakrepp­unni 2007–2008 og björg­un annarra.
  • Rann­sókn á for­send­um bresku rík­is­stjórn­ar­inn­ar fyr­ir því að nota lög gegn hryðju­verk­um til að loka ís­lensk­um banka.
  • Mat á tjóni ís­lenskra banka og fyr­ir­tækja á skyndisölu ým­issa eigna, sem knú­in var fram með ákvörðunum er­lendra stjórn­valda eða fyr­ir­tækja.

Uppnám hefur orðið meðal álitsgjafa vinstri elítunnar eftir að frétt birtist um þetta. Undanfarið hafa þeir verið milli vonar og ótta um örlög Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Telja þeir hættu á að maður með aðrar skoðanir en þeir verði seðlabankastjóri og því sé voðinn vís. Álagið á álitsgjafana náði suðumarki þegar þeir lásu um samninginn við Félagsvísindastofnun HÍ og að þar kæmi Hannes Hólmsteinn við sögu.

Eitt er víst varðandi þessa rannsókn að Hannes Hólmsteinn og samstarfsmenn hans munu ljúka henni og skila skýrslu um þennan þátt hrunsins. Hannes hefur þegar rætt við Alistair Darling sem var fjármálaráðherra Breta á þessum örlagatíma í sögu samskipta þjóðanna.

Því hefur verið haldið fram að ákveðið hafi verið með leynd á æðstu stöðum í hinum alþjóðlega fjármálaheimi að hringt skyldi viðvörunarbjöllum á þann veg að heyrðist um víða veröld síðsumars og haustið 2008 með því að „fórna“ einum banka og einu ríki: Lehman brothers hafi verið bankinn og Ísland ríkið. Mun rannsóknin á vegum félagsvísindastofnunar sanna þessa kenningu eða verður henni hafnað?

Að upplýsa þennan þátt hrunsins er ekki síður mikilvægt en annað. Æskilegt væri að þessi rannsókn teygðist inn á samskipti ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við hina erlendu kröfuhafa. Eftir að bankakerfið hrundi á Íslandi komu neyðarlögin þeim í opna skjöldu. Skömmu eftir að Steingrímur J. Sigfússon varð fjármálaráðherra var tekin upp friðþægingarstefna á hans ábyrgð gegn kröfuhöfunum. Hvers vegna hvarf Steingrímur J. frá ákvæðum neyðarlaganna til að verða við óskum kröfuhafa? Voru uppi nýjar hótanir frá útlöndum?

 

 

Sunnudagur 06. 07. 14 - 6.7.2014 22:10

Samfelld röð bíla var frá Hellu til Reykjavíkur eftir klukkan 16.00 í dag þegar gestir streymdu af landsmóti hestamanna samhliða þeim sem héldu í áttina að höfuðborgarsvæðinu að lokinni helgardvöl á Suðurlandi. Mannfjöldinn í Fljótshlíðinni er svo mikill um hverja helgi að jafnast á við útihátíð.

Umferðin gekk vel en var hæg þegar ekið var að austan inn í Selfoss og út úr bænum yfir Ölfusábrúna að vestan. Logn var undir Ingólfsfjalli og á Hellisheiði svo að ekki var hætta á að kerrur eða hjólhýsi fykju. Mikið rigndi hins vegar á heiðinni en það birti þegar ekið var inn í þéttbýlið.

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir í pistli á Eyjunni:

„Már [Guðmundsson seðlabankastjóri] gaf reyndar á sér nokkurn höggstað með málaferlum sínum gegn bankanum vegna launakjara sinna og annars sem því hefur fylgt. Það er þó spurning hvort sú yfirsjón eigi að vega meira en augljós fagleg hæfni hans á starfssviðinu.“

Í þessum orðum birtist óvenjuleg mildi prófessorsins sem fer hamförum í dómum gegn einstaklingum án þess að þeir hafi gefið á „sér nokkurn höggstað“ annan en þann að vera annarrar pólitískrar skoðunar en prófessorinn. Stefán segist ekki vera í neinum flokki og hefur þegið bitlinga bæði af Jóhönnu Sigurðardóttur (Samfylkingu) og Eyglóu Harðardóttur (Framsóknaflokki). Hann finnur jafnan einhverja sjálfstæðismenn til að áfellast og þeim mun frekar ef hann telur þá hafa tengsl við Davíð Oddsson.

Már Guðmundsson hefur leitt í ljós undanfarin fimm ár að „augljós fagleg … hæfni á starfssviðinu“ jafngildir ekki hæfni til að auka traust í garð seðlabankans eða trúverðugleika hans. Einmitt þess vegna var embætti seðlabankastjóra auglýst í stað þess að Már sæti áfram á friðarstóli.

Laugardagur 05. 07. 14 - 5.7.2014 23:55

Fyrir áhugamenn um frönsk stjórnmál er ævintýranlegur tími núna þegar allt er á öðrum endanum vegna ásakana á hendur Nicolas Sarkozy, fyrrv. Frakklandsforseta. Þær eru einsdæmi í sögu V. franska lýðveldisins sem Charles de Gaulle, hershöfðingi og fyrsti forseti þess, kom á áfót 1958. Margt hefur á daga forseta V. lýðveldisins drifið en enginn þeirra hefur verið settur í gæsluvarðhald eins og Sarkozy sem hefur nú stöðu grunaðs manns en segir rannsóknardómarana stunda pólitískar ofsóknir.,

Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sýna að 65% Frakka vilja Sarkozy ekki aftur sem forseta þótt 70% telji líklegt að hann bjóði sig fram að nýju. 

Fréttir í blöðum og fjölmiðlum utan Frakklands um tilefni rannsóknarinnar á Sarkozy eru ruglingslegar svo að ekki sé meira sagt. Það er hvorki á allra færi að átta sig í myrkviðum franska stjórnmála- og réttarkerfisins né að hafa sýn yfir öll sakamálin sem tengjast Sarkozy á einn eða annan hátt.

Sarkozy er laus allra mála vegna ásakana um að hafa þegið ólögmætan kosningastyrk frá Lilian Bettencourt, auðugustu konu Frakklands. Hann er ekki lengur til rannsóknar vegna ásakana um kosningastyrk til hans frá Muammar Gaddafi, einræðisherra í Líbíu. Við rannsókn á Gaddafi-málinu komst lögreglan hins vegar að því fyrir tilviljun við hlustun á hleruðum símtölum að Sarkozy og lögfræðingur hans virtust í leynisamskiptum við hæstaréttardómara sem var að fara á eftirlaun en vildi fá vellaunaðan bitling í Mónakó.

Lögfræðingur Sarkozys bað hæstaréttardómarann að sjá til þess að dagbækur Sarkozys sem voru gerðar upptækar í Gaddafi-málinu féllu ekki í hendur þeirra sem rannsökuðu hvernig Bernard Tapie, kaupsýslumaður og stjórnmálamaður, samdi við ríkið um uppgjör í mörg hundruð milljóna evru skuldamáli. Grunur er um að hann hafi notið ólöglegrar pólitískrar fyrirgreiðslu undir forystu Sarkozys. Lögfræðingnum varð ekki að ósk sinni, hæstaréttardómarinn fékki ekki bitlinginn í Mónakó.

Helstu stuðningsmenn Sarkozys efast ekki um að hann sé ofsóttur til að hindra að hann bjóði sig fram til forseta 2017. Fremsti málsvari forsetans fyrrverandi er Brice Hortefeux. Hann var vara-innanríkisráðherra Sarkozys 26. apríl 2006 þegar við Tómas Ingi Olrich, þáv. sendiherra, hittum hann í skrifstofu hans í París. Fundurinn er okkur öllum ógleymanlegur því að starfsmenn ráðuneytisins höfðu ruglast á norska og íslenska fánanum sem átti að vera að baki okkar við myndatöku.

Föstudagur 04. 07. 14 - 4.7.2014 20:50

Í franska blaðinu Le Figaro er í dag rætt við Didier Rebut, prófessor í refsirétti. Hann segir að ávallt sé unnt að skjóta máli til hæstaréttar hafi menn rökstuddan grun um að dómarar séu ekki óhlutdrægir og vísar þar til gagnrýni Nicolas Sarkozys á rannsóknardómarana í máli hans. Það sé hins vegar sjaldgæft að hæstiréttur fallist á ósk um að mál sé tekið upp að nýju vegna slíkra atvika vegna þess að „samtryggingarkerfi“ refléxe corporatiste ríki meðal dómara. Í því sambandi beri hins vegar að líta til þess að Evrópudómstóllinn hafi markað skýr fordæmi. Hann vilji að þess sé gætt að enginn þurfi að efast um óhlutdrægni dómarans: „Réttlætið á að ná fram að ganga en það á einnig að virðast hafa náð fram að ganga.“ Prófessorinn segir: „Það er því ekki nauðsynlegt að setja mælitæki í höfuð dómarans, það eitt dugar að menn beri ekki traust til þess að hann hafi verið óhlutdrægur.“

Refléxe corporatiste er hér íslenskað með orðinu „samtryggingarkerfi“. Orðið nær ekki alveg því sem sagt er með orðinu refléxe sem lýsir ósjálfráðum viðbrögðum – korporatisma má líkja við samtryggingu. 

Frétt í Morgunblaðinu í dag um hvernig ríkisendurskoðun stóð að athugun á töku ákvörðunar um að Seðlabanki Íslands greiddi lögmannskostnað Más Guðmundssonar seðlabankastjóra vegna launadeilu hans við bankann ýtir undir þá skoðun að niðurstaðan í skýrslu ríkisendurskoðunar kunni að mótast af refléxe corporatiste.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hélt í dag áfram að skýra fyrir hlustendum og áhorfendum hvaða hælisleitandi hefði verið „eftirlýstur“ á vefsíðu innanríkisráðuneytisins hinn 18. júní. Nú er ljóst að það var ekki skjólstæðingur Katrínar Oddsdóttur lögfræðings sem sagt var frá í ríkisútvarpinu í gær (og einnig hér á síðunni). Heldur einhvers annars lögfræðings og sá hælisleitandi var í raun ekki eftirlýstur, hefur þetta orð verið afmáð af vefsíðu ráðuneytisins. Hljóta allir að fagna að botn sé kominn í málið eftir þrotlausa rannsóknarblaðamennsku fréttastofunnar, aðstoð tveggja lögfræðinga og viðbrögð ráðuneytisins.

 

 

Fimmtudagur 03. 07. 14 - 3.7.2014 19:00

Í dag skrifaði ég nokkur minningarorð um góðan vin, Kenneth East, í Morgunblaðið og má lesa þau hér.

Hér hefur verið vakið máls á kvörtunum Ragnars Aðalsteinssonar hrl. vegna nýrra ákvæða í lögum sem hann telur verða til þess að lögfræðingar hælisleitenda missi spón úr aski sínum vegna samnings innanríkisráðuneytisins við Rauða kross Íslands. Telur Ragnar að hagræðing á þessu sviði skerði mannréttindi hælisleitenda.

Þegar um þetta var fjallað var komist svo að orði að lögfræðingar hælisleitenda störfuðu oft eins og almannatenglar sem ættu greiðan aðgang að fréttastofu ríkisútvarpsins. Réttmæti þessarar staðhæfingar sannaðist í dag þegar helsta frétt ríkisútvarpsins klukkan 18.00 var að Katrín Oddsdóttir, lögmaður hælisleitandans Evelyn Glory Joseph, segði það mjög alvarlegt, að innanríkisráðuneytið héldi því ranglega fram að hælisleitandinn væri sakborningur á flótta undan réttvísinni. Á þann veg túlkaði lögmaðurinn orðið „eftirlýst“ á vefsíðu ráðuneytsins hinn 18. júní. Mögulegt væri að höfða meiðyrðamál vegna slíkra ummæla. Boðaði fréttastofan frekari umræðu um málið í fréttatíma sjónvarps ríkisins klukkan 19.00 þennan sama dag.

Fréttastofan hefur áður flutt fréttir af skjólstæðingum Katrínar Oddsdóttur sem fyrst varð þjóðkunn vegna róttækrar ræðu gegn íslensku stjórnskipulagi á Austurvelli í atburðunum haustið 2008. Katrín starfar nú á lögfræðistofu með Ragnari Aðalsteinssyni.

Lét fréttastofa ríkisútvarpsins þess getið í framhjáhlaupi í dag að lögregla hefði „síðustu mánuði rannsakað meint brot á þagnarskyldu hjá innanríkisráðuneytinu“. Grunur léki á að starfsmaður ráðuneytisins hefði  „lekið til fjölmiðla minnisblaði sem tekið var saman um hælisleitandann Tony Omos, í þeim tilgangi að sverta mannorð hans“.

Yfirbragð fréttar ríkisútvarpsins er að mannorðsmorð á hælisleitendum séu stunduð að undirlagi innanríkisráðuneytisins. Hinir einu sem standi gegn óhæfuverkunum séu hugdjarfir lögfræðingar, heimildarmenn fréttastofunnar.

Í dag er 3. júlí. Ráðuneytið birti ranglega orðið „eftirlýst“ hinn 18. júní. Hvers vegna hefur þetta mál Evelyn Glory Joseph legið rúmar tvær vikur í þagnargildi? Hvers vegna verður það nú aðalfrétt ríkisútvarpsins?

 

Miðvikudagur 02. 07. 14 - 2.7.2014 19:32

Í dag ræddi ég við Tómas H. Heiðar, nýkjörinn dómara við Hafréttardómstól Sameinuðu þjóðanna í Hamborg, í þætti mínum á ÍNN  og má sjá samtal okkar klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Þar kemur margt fram sem varðar brýna þjóðarhagsmuni og árétting á nauðsyn þess að fast sé staðið að skýrum sjónarmiðum í viðræðum við aðrar þjóðir og ekki síst við Evrópusambandið um rétt okkar í krafti hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ekki sé forsvaranlegt að nálgast málið á þann veg að niðurstaðan ráðist af samningi sem nauðsynlegt sé að fá til að þjóðin geti sagt af eða á um hann.

Á ruv.is má lesa í dag:

„Sigrún [Magnúsdóttir, þingflokksformaður framsóknar] segist [...] vilja segja að hún „sakni fjölmiðils sem skilji Framsóknarfólk og stefnu þeirra.“ „Mér finnst alltaf vera mjög tortryggt allt sem Framsóknarmenn leggja til og tala um og snúið út úr því á alla enda og kanta. Við vitum náttúrlega að Fréttablaðið er mest fyrir Samfylkinguna og Bjarta framtíð. Það væri gott fyrir okkur Framsóknarmenn að eiga okkar Fréttablað. Ég bara svona nefni þetta.“ 

Ekki skal gert lítið úr þörfinni fyrir blað sem skilur framsóknarfólk. Síðast var það misskilið þegar lóð undir mosku var til umræðu fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Misskilningurinn tryggði flokknum tvo borgarfulltrúa eftir baráttu í örskamman tíma. Sumir kynnu að álíta að skilningur á framsóknarfólki dragi úr fylgi við flokk þess.

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar reglulega greinar um stjórnmál í Morgunblaðið. Allar eru þær vel ígrundaðar og rökfastar eins og sú sem birtist í blaðinu í dag og má lesa hér.

Þriðjudagur 01. 07. 14 - 1.7.2014 21:10

Miðað við allt sem sagt hefur verið um breytingar á stjórnarráðinu og stjórnsýslunni eftir árið 2008 er með ólíkindum að núverandi staða hafi myndast vegna ákvörðunar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að flytja Fiskistofu til Akureyrar.

Sé rétt munað var gengið til breytinga á stjórnarráðinu og til samþykktar nýrra laga um þau í þeim tilgangi að auka samráð og auðvelda almenningi að koma að sjónarmiðum áður en ákvarðanir væru teknar. Miðað við það sem þá var sagt hefði mátt ætla að allir venjulegir, stjórnsýslulegir varnaglar hefðu verið slegnir til að tryggja framúrskarandi stjórnsýslu til frambúðar.

Fréttir af ákvörðuninni herma að hún hafi verið tekin í stjórnsýslulegu tómarúmi og án þess að kannað væri til hlítar hvort lög heimiliðu hana. Við hina lítt ígrunduðu breytingu á stjórnarráðslögunum voru felld á brott ákvæði fyrri laga sem veittu ráðherra heimild sem hefði tekið af tvímæli við aðstæður eins og nú eru vegna Fiskistofu.

Þetta er þó aðeins önnur hlið máls hin er pólitísk, ákvarðanir stjórnmálamanna eru þó marklausar gæti þeir ekki lögboðinna reglna. Ákvörðun um flutning ríkisstofnunar frá Hafnarfirði tekur enginn nema í samvinnu við forsætisráðherra. Ráðuneyti hans hefur verið eflt til íhlutunar í málefni annarra ráðuneyta til að tryggja hollustu við góða stjórnsýsluhætti.

 

Hvaða skoðun sem menn hafa á flutningi Fiskistofu nær hann ekki fram að ganga nema löglega sé staðið að ákvörðun um hann. Var það gert? Hvað segja sérfræðingarnir í stjórnarráðinu sjálfu? Þeir sem smíðuðu hinar nýju reglur eftir 2008.