7.7.2014 22:50

Mánudagur 07. 07. 14

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur samið við fjármálaráðuneytið um rannsóknarverk­efni þar sem metn­ir verða er­lend­ir áhrifaþætt­ir banka­hruns­ins haustið 2008. Miðað er við að verkefninu ljúki sum­arið 2015 og það kosti 10 milljónir króna. Dr. Hann­es Hólm­steinn Giss­ur­ar­son pró­fess­or hef­ur um­sjón með verk­inu sem skipt­ist í fjóra meg­in­hluta:

  • Rann­sókn á for­send­um banda­ríska seðlabank­ans fyr­ir gjald­eyr­is­skipta­samn­ing­um og neit­un á slík­um samn­ing­um.
  • Rann­sókn á for­send­um breska fjár­mála­eft­ir­lits­ins fyr­ir lok­un sumra banka í fjár­málakrepp­unni 2007–2008 og björg­un annarra.
  • Rann­sókn á for­send­um bresku rík­is­stjórn­ar­inn­ar fyr­ir því að nota lög gegn hryðju­verk­um til að loka ís­lensk­um banka.
  • Mat á tjóni ís­lenskra banka og fyr­ir­tækja á skyndisölu ým­issa eigna, sem knú­in var fram með ákvörðunum er­lendra stjórn­valda eða fyr­ir­tækja.

Uppnám hefur orðið meðal álitsgjafa vinstri elítunnar eftir að frétt birtist um þetta. Undanfarið hafa þeir verið milli vonar og ótta um örlög Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Telja þeir hættu á að maður með aðrar skoðanir en þeir verði seðlabankastjóri og því sé voðinn vís. Álagið á álitsgjafana náði suðumarki þegar þeir lásu um samninginn við Félagsvísindastofnun HÍ og að þar kæmi Hannes Hólmsteinn við sögu.

Eitt er víst varðandi þessa rannsókn að Hannes Hólmsteinn og samstarfsmenn hans munu ljúka henni og skila skýrslu um þennan þátt hrunsins. Hannes hefur þegar rætt við Alistair Darling sem var fjármálaráðherra Breta á þessum örlagatíma í sögu samskipta þjóðanna.

Því hefur verið haldið fram að ákveðið hafi verið með leynd á æðstu stöðum í hinum alþjóðlega fjármálaheimi að hringt skyldi viðvörunarbjöllum á þann veg að heyrðist um víða veröld síðsumars og haustið 2008 með því að „fórna“ einum banka og einu ríki: Lehman brothers hafi verið bankinn og Ísland ríkið. Mun rannsóknin á vegum félagsvísindastofnunar sanna þessa kenningu eða verður henni hafnað?

Að upplýsa þennan þátt hrunsins er ekki síður mikilvægt en annað. Æskilegt væri að þessi rannsókn teygðist inn á samskipti ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við hina erlendu kröfuhafa. Eftir að bankakerfið hrundi á Íslandi komu neyðarlögin þeim í opna skjöldu. Skömmu eftir að Steingrímur J. Sigfússon varð fjármálaráðherra var tekin upp friðþægingarstefna á hans ábyrgð gegn kröfuhöfunum. Hvers vegna hvarf Steingrímur J. frá ákvæðum neyðarlaganna til að verða við óskum kröfuhafa? Voru uppi nýjar hótanir frá útlöndum?