Dagbók: september 2000

Laugardagur 30.9.2000 - 30.9.2000 0:00

Klukkan 10.30 var ég í Ráðherrabústaðnum til að skrifa undir samning um vísindamál við Bandaríkin en Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gerði það fyrir þeirra hönd og við Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra fyrir Íslands hönd. Síðan var hádegisverður í Þjóðmenningarhúsinu í boði Halldórs til heiðurs Albright. Hún er mjög viðræðugóð og var greinilega mjög ánægð með að heimsækja Ísland, og hún sagði í ræðu, að vinir sínir öfunduðu sig af að vera hér, enda væri Ísland „in“ í Bandaríkjunum og talið meðal „the hottest places in the world today“. Síðdegis flaug ég síðan til Ísafjarðar, þar sem ég tók þátt í hátíð vegna 30 ára afmælis skólans. Var ánægjulegt að gleðjast með Ísfirðingum af þessu tilefni. Kom heim aftur um 20.30.

Föstudagur 29.9.2000 - 29.9.2000 0:00

Heimsótti síðdegis Rannsóknastofnun um uppeldis- og menntamál. Um kvöldið fórum við Rut og sáum sýningu á leikritinu Horfðu reiður um öxl á Litla sviði Þjóðleikhússins. Ég sá leikritið þegar það var sýnt hér 1958 - 1961. Það stenst vel tímans tönn.

Fimmtudagur 28.9.2000 - 28.9.2000 0:00

Fór síðdegis að Flúðum, þar sem ég ávarpaði haustþing kennara á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum og tók þátt í pallborðsumræðum. Sat síðan kaffifund með Félagi skólastjóra.

Mánudagur 25.9.2000 - 25.9.2000 0:00

Þær gleðilegu fréttir bárust að Vala Flosadóttir hefði unnið bronsið í stangastökki á Ólympíuleikunum í Sydney. Ég horfði á keppnina um morgunin með starfsfólki menntamálaráðuneytisins. Var síðan í sambandi við Stefán Konráðsson, aðalfararstjóra íþróttamannanna í Sydney. Hann flutti Völu kveðju mína. Ræddi við sjónvarps-, útvarps- og blaðamenn og um kvöldið var ég í sjónvarpsþætti með Loga Bergmann og Einari Vilhjálmssyni spjótkastara, þar sem við ræddum um afrek Völu og leikana.

Sunnudagur 24.9.2000 - 24.9.2000 0:00

Við Rut flugum til Egilsstaða klukkan 8 um morguninn í einstaklega fallegu veðri og sá yfir landið allt. Var óvenjulegt fyrir okkur að fara um skóginn í hinum fögru haustlitum. Fyrir hádegi skruppum við niður á Seyðsifjörð en rétt fyrir klukkan 14.00 vorum við á Eskifirði, þar sem við tókum þátt í því, þegar glæsileg kirkju- og menningarmiðstöð staðarins var vígð. Flugum síðan heim klukkan 20.30 um kvöldið.

Laugardagur 23.9.2000 - 23.9.2000 0:00

Klukkan 15.00 opnaði ég sýningu Karólínu Lárusdóttur í Gerðarsafni, þar sem segja má, að færri hafi komist að en vildu.

Föstudagur 22.9.2000 - 22.9.2000 0:00

Klukkan 14.00 var ég í Háskólanum í Reykjavík og flutti ávarp við upphaf ráðstefnu um rafræn viðskipti.

Fimmtudagur 21.9.2000 - 21.9.2000 0:00

Klukkan 10.15 var ég Þjóðmenningarhúsinu og flutti þar ávarp í Farskóla safnamanna.

Sunnudagur 10.9.2000 - 10.9.2000 0:00

setti fimmtu alþjóðlegu bókmenntahátíðina í Reykjavík í Norræna húsinu. Hafði mjög gaman að því að hitta Günter Grass Nóbelsverðlaunahafa. Sannfærðist ég þar um, að fjölmiðlar draga ekki alltaf upp rétta mynd af frægu fólki. Hann er greinilega í hópi þeirra útlendinga, sem fá mikinn áhuga á Íslandi við fyrstu kynni. Ræðan sem hann flutti á setningarhátíðinni sýndi að hann hafði þegar myndað sér skýra mynd af Íslandi í huga sínum. Í Göthe Zentrum á föstudagskvöld sagðist hann ekki síður líta á sig sem myndlistarmann en rithöfund og hann hreyfst mjög af birtinu hér og sagðist gjarnan vilja koma með vatnslitamyndabúnaðinn sinn. Í Norræna húsinu sagði hann, að ósýnilegir íbúar Íslands hlytu að vera hluti skýringarinnar á því, að Íslendingar væru svona mikil bókmenntaþjóð.

Sunnudagur 9.9.2000 - 9.9.2000 0:00

Opnaði símenntunarfræðsluhátíð í Kringlunni klukkan 10.00.

Föstudagur 8.9.2000 - 8.9.2000 0:00

Klukkan 14.00 setti ég ráðstefnu um Sókrates-áætlunina í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Klukkan 15.00 var háskólahátíð og var ég meðal ræðumanna.

Fimmtudagur 7.9.2000 - 7.9.2000 0:00

Fór klukkan 19.30 á frumsýningu á Íslenska draumnum og hafði mjög gaman að þessari nýju íslensku kvikmynd.

Miðvikudagur 6.9.2000 - 6.9.2000 0:00

Klukkan 15.00 var ég í Selásskóla og tók þátt í að opna Skólatorg á vegum Tæknivals og Skýrr. Klukkan 17.15 hófst fundur um símenntunarmál í Borgarnesi, þar sem konur á Sívit-tölvunámskeiði skýrðu frá námi sínu.

Þriðjudagur 5.9.2000 - 5.9.2000 0:00

Klukkan 14.00 tók ég þátt í ráðstefnu um símenntun á Suðurnesjum í Svartsengi, flutti ávarp og sat í pallborði.

Mánudagur 4.9.2000 - 4.9.2000 0:00

Flaug klukkan 8.30 til Akureyrar, þar sem ég setti viku símenntunar klukkan 11.00 á blaðamannafundi í Fiðlaranum. Ókum síðan til Húsavíkur, þar sem ég afhenti skólaliðum og fleirum námskírteini við hátíðlega athöfn í hús verkalýðsfélagsins klukkan 14.00. Á leiðinni til Akureyrar skoðuðum við bílasafnið að Ystafelli og á Akureyri skoðuðum við Minjasafnið áður vélin fór í loftið klukkan 18.10.

Sunnudagur 3.9.2000 - 3.9.2000 0:00

Klukkan 20.00 fórum við á tónleika í Hallgrímskirkju, þar sem Hörður Áskelsson lék á Klais-orgelið.

Laugardagur 2.9.2000 - 2.9.2000 0:00

Flugum frá Helsinki um Stokkhólm til Íslands. Fór á landsleik Íslands og Danmerkur í knattspyrnu klukkan 18.00, því miður unnu Danir, 2:1.

Föstudagur 1.9.2000 - 1.9.2000 0:00

Fórum um hádegisbilið með bát til Tallinn í Eistlandi, hitti eistneska menningarmálaráðherrann, sótti tónleika Radda Evrópu, sigldum til Helsinki um kvöldið og vorum þar um miðnætti.