Dagbók: ágúst 2002

Laugardagur 31.8.2002 - 31.8.2002 0:00

Ég notaði tímann til að skoða Vasa-safnið, sem er einstaklega vel gert í kringum Vasa-skipið og fór einnig í Nordiska Museet, sem sýnir allt annað en nafnið gefur til kynna, það er sænska hönnun og muni úr daglegu lífi Svía en ekki neitt er tengist víkingum!

Föstudagur 30.8.2002 - 30.8.2002 0:00

Fundahöld með fulltrúa í Bromma-hverfi í Stokkhólmi fram yfir hádegi en síðan frí.

Fimmtudagur 29.8.2002 - 29.8.2002 0:00

Vorum allan daginn á fundum í ráðhúsinu í Stokkhólmi og síðan í einum bæjarhluta þar með fulltrúum úr hverfisráði.

Miðvikudagur 28.8.2002 - 28.8.2002 0:00

Vorum á fundum í ráðhúsinu í Kaupmannahöfn fram eftir degi og tókum kvöldmatarflug til Stokkhólms.

Þriðjudagur 27.8.2002 - 27.8.2002 0:00

Sátum fundi fram yfir hádegi með fulltrúum í bæjarstjórn Bergen og héldum síðan til Kaupmannahafnar með millilendingu í Ósló. Vorum komin nógu snemma til Kaupmannahafnar til að ég gat fengið mér kvöldgöngu og matarbita í Tívólí í góða veðrinu.

Mánudagur 26.8.2002 - 26.8.2002 0:00

Eftir fundi í ráðhúsinu í Ósló og síðan í einu hverfi borgarinnar flugum við um kvöldmatarleytið til Bergen.

Sunnudagur 25.8.2002 - 25.8.2002 0:00

Klukkan 07.35 flaug ég frá Keflavík til Ósló ásamt borgarfulltrúunum Árna Þór Sigurðsson og Degi B. Eggertssyni. Þar hittum við Regínu Ástvaldsdóttur starfsmann stjórnkerfisnefndar Reykjavíkurborgar, en nefndin var að hefja vikuferð um borgir á Norðurlöndum til að kynna sér hverfavæðingu þeirra. Veðrið var einstaklega gott í Ósló og raunar alls staðar þar sem við komum alla vikuna, meira en 20 stiga hiti og sólskin.

Föstudagur 23.8.2002 - 23.8.2002 0:00

Klukkan 10.00 hófst stjórnarfundur í Orkuveitu Reykjavíkur í húsakynnum hennar á Akranesi. Um hádegisbilið bauð bæjarstjórn Akraness stjórninni til málsverðar og síðan var ekið að Deildartungu og að Andakílsárvirkjun og skoðuð mannvirki þar. Þá lá leiðin á Nesjavelli og þaðan með Soginu og til Reykjavíkur um Hellisheiði. Ætlunin var að skoða mannvirki og virkjunarstaði OR á þessum slóðum en fallið frá því vegna leiðinlegs veðurs.

Föstudagur 16.8.2002 - 16.8.2002 0:00

Eftir fundarhöld síðdegis 15. ágúst fórum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins í kynnisferð um Stykkishólm að morgni þessa dags og síðan í siglingu út á Breiðafjörð og var það í senn fróðleg og skemmtileg ferð. Síðan ákváðum við Rut að skoða okkur um á Snæfellsnesi og gefa okkur góðan tíma á leiðinni til Reykjavíkur. Ókum við fyrir Snæfellsnes og fengum okkur síðdegiskaffi í Fjöruhúsinu á Hellnum, sem er einstakt veitingahús. Þar hitti ég mann, sem minntist þess, að líklega árið 1934 hefði hann hitt Benedikt Sveinsson, afa minn, og Guðrúnu Pétursdóttur, ömmu mína, á göngu á þessum slóðum á leið til Hólahóla og Dritvikur, en afi minn átti þær jarðir, sem nú eru hluti af þjóðgarðinum. Hann minntist þess einnig, að hann var í hópi unglinga, að Anton Björnsson, móðurbróður minn, 22 ára, skyldi koma að Arnarstapa og kenna heimafólki leikfimi eða fimleika, en vikurflutningaskipið Hilmir sökk á leiðinni, án þess að nokkru sinni hafi fengist viðhlítandi skýring á því, sem gerðist - ef til vill grandaði tundurdufl skipinu, en þetta var í síðari heimsstyrjöldinni.

Fimmtudagur 15.8.2002 - 15.8.2002 0:00

Við fórum af stað til Stykkishólms snemma morguns en klukkan 09.30 hófst þar fundur þingflokks sjálfstæðismanna með kynnisferð í Grundarfjörð og í Snæfellsbæ, en í öllum þessum sveitarfélögum á Snæfellsnesi hafa sjálfstæðismenn forystu í sveitarstjórnarmálum. Raunar fengum við hæsta hlutfall í kosningunum í vor í Snæfellsbæ um 61%. Var ánægjulegt að kynnast krafti og bjartsýni foruystumanna byggðarlaganna.

Mánudagur 12.8.2002 - 12.8.2002 0:00

Klukkan 17.00 átti stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) að hefjast að Grand hótel, en það tafðist um rúmar 30 mínútur, að hann yrði settur vegna þess hve margir komu til fundarins (545) og alla þurfti að skrá og afhenda kjörseðla. Mér var falin stjórn fundarins og stóðu umræður fram yfir kl. 20.00 án nokkurra vandræða. Ljóst er að SPRON verður ekki breytt í hlutafélag á næstunni og það á eftir að koma í ljós, hvernig félag starfsmanna ætlar að standa að því að framkvæma tilboð sitt um kaup á stofnfjárbréfum.

Fimmtudagur 8.8.2002 - 8.8.2002 0:00

Frá klukkan 09.00 til 17.00 var ég á kynningarfundi hjá Orkuveitu Reykjavíkur í svonefndu stöðvarstjórahúsi í Elliðaárdal. Var okkur nýjum stjórnrmönnum gefinn kostur á að kynnast öllum meginþáttum í starfsemi þessa stóra fyrirtækis.

Laugardagur 3.8.2002 - 3.8.2002 0:00

Ók úr Fljótshlíðinni í Skálholt og var þar klukkan 14.00 og hlustaði á Orra Vétsteinsson lýsa fornleifagrefrtinum. Sótti síðan tónleika Bach-sveitarinnar með Jaap Schröder í Skálholtskirkju klukkan 15.00 og 17.00 og drakk miðaldarkaffi á milli og snæddi síðan kvöldverð með tónlistarfólkinu áður en ég ók aftur í Fljótshlíðina, en Rut var áfram með Bach-sveitinni fram í næstu viku.