Dagbók: október 2010

Sunnudagur 31. 10. 10. - 31.10.2010

Á Evrópuvaktinni er í dag birt frétt um hvernig fréttastofur RÚV og Stöðvar 2 tóku hvor um sig Heimssýn fyrir í frásögnum í því skyni að gefa til kynna að ekki væri þar allt sem sýndist.

Ég velti fyrir mér hvort tímasetningin hafi verið tilviljun eða spunamenn ESB-aðildarsinna hafi ýtt fréttunum af stað.  Hafi svo verið ber það þess merki að þeir telji málstað sinn eiga undir högg að sækja.

Laugardagur 30. 10. 10. - 30.10.2010

Ég skrifaði í dag leiðara á evropuvaktin.is, þar sem ég velti því fyrir mér, hvort einhverjum detti í raun og veru í hug, að Íslendingar vilji afsala landi sínu stöðu strandríkis að alþjóðalögum með aðild að Evrópusambandinu. Augljóst er af deilunum um veiðikvóta á makríl, að réttarstaða strandríkis ræður úrslitum um áhrif á ákvarðanir um skiptingu kvótans. Varla dettur nokkrum stjórnmála- eða embættismanni í hug, að unnt verði að semja um undanþágu á þann veg, að Ísland njóti réttarstöðu strandríkis eftir ESB-aðild?

Tryggvi Gíslason, fyrrverandi skólameistari og núverandi frambjóðandi til stjórnlagaþings, segir einhvers staðar í kynningu á framboði sínu að ég sé á móti því að fleiri en stjórnmálamenn eða einhver elíta komi að tillögugerð um nýja stjórnarskrá. Ég sé þess vegna andvígur stjórnlagaþingi. Ég veit ekki hvaðan Tryggvi hefur fengið þessa flugu í höfuðið. Mér finnst sjálfsagt að sem flestir láti ljós sitt skína um efni stjórnarskrárinnar. Henni þarf að breyta, til dæmis 26. gr. hennar um málskotsrétt forseta Íslands.

Að 523 bjóði sig fram til stjórnlagaþings sýnir mikinn áhuga á málinu. Að sjálfsögðu er ekki útilokað að á stjórnlagaþinginu verði samstaða um svo snilldarlega gerð af stjórnarskrá, að frumvarp um hana sigli hraðbyri fyrir alþingi og þaðan til þjóðarinnar í þingkosningum.

Árið 2001 boðaði R-listinn til almennrar atkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Látið var mikið með atkvæðagreiðsluna. Hún markaði tímamót stjórnarháttum í Reykjavík og varðandi flugvöllinn. Nú tæpum áratug síðar blasir við öllum, að atkvæðagreiðslan var í raun marklaus, af því að engin pólitísk forysta var í borgarstjórn til að fylgja henni eftir.  Aðdragandi að stjórnlagaþingi er á þann veg og hlutverk þess eðlis að líklega verður árangur með því að halda sambærilegur við árangurinn af atkvæðagreiðslunni um Reykjavíkurflugvöll.

Ég hitti frambjóðanda í morgun sem sagði mér fjögurra stafa númerið sem ég ætti að skrifa, ef ég vildi kjósa hann. Tillaga kom fram um að hann fengi sér svartan bol og léti skrá númerið á hann, síðan léti hann taka af sér mynd þar sem horfði í myndavélina og sneri sér síðan og léti taka af sér vangamynd.

Föstudagur 29. 10. 10. - 29.10.2010

Ég hef fengið nokkrar athugasemdir vegna þess sem ég sagði hér á síðunni í gær um kommurnar. Eru greinilega skiptar skoðanir meðal lesenda minna um ágæti þess að nota kommur. Á sínum tíma átti ég hlut að því að Árni Böðvarsson gaf út bók með ýmsum góðum ritreglum og ábendingum. Fletti ég upp í henni mér til glöggvunar. Þar segir Árni ekki mikið um kommur. Hann leggur þó til að spara þær frekar en hitt. Reglur um kommusetningu hafi fyrst verið settar í menntamálaráðherratíð Magnúsar Torfa Ólafssonar á fyrstu árum áttunda áratugarins. Þær eru því yngri en svo að ég hafi kynnst þeim í skóla.

Einn þeirra sem skrifaði mér eftir færslurnar í gær sagðist hafa notið leiðsagnar frábærs kennara í setningafræði. Sá hefði hamrað hana inn í hug nemandans. Hann hefði meðal annars kennt rökræna kommusetningu, t.d. í dagsetningum. Að skrifa fimmtudagurinn, 28.10.2010, væri setningafræðilega þannig, að vikudagurinn væri frumlag, en dagsetningin viðurlag.




Fimmtudagur 28. 10. 10. - 28.10.2010

Í dag hitti ég glöggan lesanda síðu minnar, sem benti mér á, að ég ætti ekki að hafa kommu á milli dags og dagsetningar í fyrirsögn hér í dagbókinni. Komman benti til enskra áhrifa. Sleppi ég henni í tilefni dagsins. Þá taldi hann einnig rangt, að sett væri komma í texta eins og þennan: fimmtudaginn 28. október, 2010. Þarna væri rétt að hafa fimmtudaginn 28. október 2010. Ég veit ekki, hvaðan ég hef fengið þessar kommur, en eins og þessi lesandi minnti mig á værum við báðir á móti kommum!

Fór í kvöld á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þegar Þórunn Marínósdóttir lék á glæsilegan hátt einleik á víólu í konsert eftir Bela Bartok. Þá var Guðný Guðmundsdóttir, konsertmeistari, kvödd eftir 36 ára farsælt starf.

Miðvikudagur, 27. 10. 10. - 27.10.2010

Sveinn Einarsson flutti erindi um Guðmund Kamban í Rotaryklúbbnum í dag og sagði okkur frá því, þegar hann var skotinn á pensjónati í Kaupmannahöfn á friðardeginum í Kaupmannahöfn í maí 1945 vegna grunsemda um, að hann hefði verið „stikker“ eða uppljóstrari fyrir nasista á stríðsárunum og sagt þeim frá dönskum andspyrnumönnum. Sveinn taldi af og frá, að Kamban hefði gegnt slíku hlutverki. Hann hefði verið tekinn af lífi að ósekju og án dóms og laga.

Sveinn er rita bók um Kamban og tekst væntanlega að svara spurningum um líf hans og dauðdaga á þann hátt, að skýrist betur en áður hefur verið gert.

Þriðjudagur, 26. 10. 10. - 26.10.2010

Skrifaði í dag pistil á síðuna mína um deilur innan ESB um refsiaðgerðir gegn ríkjum, sem skorti aga við stjórn fjármála sinna. Undir þennan aga þurfum við að ganga, ef samþykkt er að ganga í ESB. Íslendingar yrðu skyldir til að undirgangast allar breytingar á Lissabon-sáttmálanum og hann sjálfan möglunarlaust við aðild að ESB. Svo segja menn, að aðild auki fullveldi okkar og svigrúm til sjálfstæðra ákvarðana. Ef eitthvað er tóm vitleysa er það þetta.

Össur Skarphéðinsson segir, að aðild að ESB muni stórauka fjárfestingar frá ESB-ríkjum hér á landi. Hann hefur ekkert fyrir sér í því efni. Allar mikilvægustu fjárfestingar hér hafa verið frá Sviss, utan ESB, Bandaríkjunum og Kanada. Evrópsk fyrirtæki eiga auðveldara með að fjárfesta hér en þessi fyrirtæki. Þau hafa hins vegar ekki sýnt því áhuga fyrir utan norska Elkem, sem á járnblendiverksmiðjuna.

Þessi ummæli Össurar byggjast á sömu óskhyggju og þeirri, að Samfylkingin eigi aðeins viðhlæjendur innan Orkuveitu Reykjavíkur eftir fjöldauppsagnir þar. Hafa evrópskir fjárfestar áhuga  á að nýta sér orku frá orkuveitunni? Þeir þora að minnsta kosti ekki að gefa sig fram, eftir að ríkisstjórnin hefur látið hvern hóp lögfræðinga eftir annan leita að leiðum til að halda „skúffu-fyrirtæki“ frá því að fjárfesta í Straumsvík.

Hver er atvinnustefna ASÍ og ríkisstjórnarinnar? Ekkert svar er til við því. Hið einkennilega er, að stjórnendum Reykjavikurborgar úr Besta flokknum og Samfylkingu er líka alveg sama.

Mánudagur, 25. 10. 10. - 25.10.2010

Í dag var sagt frá því í fréttatíma RÚV eins og um stórfrétt væri að ræða, að Össur Skarphéðinsson hefði sagt frá því í morgunþætti á rás 2, að skjöl í utanríkisráðuneytinu sýndu, að rætt hefði verið við íslenska embættismenn um stríðsaðgerðir í Írak, áður en þær hófust í mars 2003. Spyrja má: Hver er fréttin? Að til séu skjöl um þessar viðræður? Varla hefur einhver haldið, að bandarískir eða breskir eða jafnvel franskir embættismenn hér á landi eða annars staðar hefðu ekki rætt við embættismenn í íslensku utanríkisþjónustunni um þetta pólitíska álitaefni?

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, sagði á RÚV síðar í dag, að hann mundi beita sér fyrir rannsókn á þessum gögnum. 

Fyrir innrásina í Írak var látið í verði vaka, að þar væri að finna kjarnorkuvopn og efnavopn. Leyniþjónustumenn voru bornir fyrir þessu. Síðar hefur komið í ljós, að hættan af slíkum vopnum í höndum Saddams Husseins var orðum aukin, þótt vitað væri, að hann hefði beitt efnavopnum.

Séu einhver gögn til hér á landi, sem geti varpað ljósi á þessar umræður í aðdraganda stríðsins, ber að fagna birtingu þeirra.

Ég var utan ríkisstjórnar fram að kosningum vorið 2003 en sat þá í utanríkismálanefnd alþingis og minnist þess, að þar kom Íraksmálið til umræðu og gerð var grein fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar. Skyldu gögnin varpa öðru ljósi á stöðu Íslands en grein var frá í utanríkismálanefnd?

Um leið og gögn utanríkisráðuneytisins eru skoðuð, ætti utanríkismálanefnd alþingi að beita sér fyrir því, að tekið sé saman í skýrslu, hvað íslenskir stjórnmálamenn sögðu í fjölmiðlum um Íraksstríðið í aðdraganda þess og fram að þingkosningum í maí 2003.


Sunnudagur, 24. 10. 10. - 24.10.2010

Qi gong kyrrðardögunum lauk um hádegi í dag í Skálholti. Klukkan 14.00 vorum við Gunnar Eyjólfsson í Skálholtsdómkirkju, þegar sr. Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup, vígði Kristin Ólason, rektor Skálholtsskóla, til prests. Kirkjan var þéttsetin við hina hátíðlegu athöfn.


Laugardagur, 23. 10. 10. - 23.10.2010

Veðrið var fallegt í Skálholti fyrsta vetrardag. Það sást inn á Langjökul og til Eyjafjallajökuls þegar við fengum okkur hressingargöngu við qi gong iðkunina. Aðeins ísskán var á pollum.

Föstudagur, 22. 10. 10. - 22.10.2010

Um hádegisbilið var ég við Grand hotel, þar sem Slysavarnafélagið Landsbjörg tók formlega í notkun nýjan svæðisstjórnarbíl á svæði 1. Bíllinn nefnist Björninn og sögðu björgunarsveitarmenn mér, að það væri í höfuðið á mér. Þótti mér það mikill og óvæntur heiður. Hann má rekja til þess, að skömmu áður en ég lét af embætti dómsmálaráðherra sneru forystumenn björgunarsveita sér til mín og sögðu einstakt færi gefast til að kaupa bíl til að gegna hlutverki stjórnstöðvar á hjólum. Ákvað ég að hluta af ráðstöfunarfé dómsmálaráðherra skyldi varið til að gera sveitunum kleift að eignast farkostinn. Af mikilli alúð, fórnfýsi og útsjónarsemi björgunarsveitarmanna hefur bílnum nú verið breytt í hátæknimiðstöð á sviði leitar, björgunar og fjarskipta. Ég óska þeim, sem að þessu verki hafa komið til hamingju með árangurinn og velfarnaðar í mikilvægum störfum þeirra.

Síðdegis ókum við Gunnar Eyjólfsson í Skálholt, þar sem við verðum með qi gong kyrrðardaga fram á sunnudag.


Fimmtudagur, 21. 10. 10. - 21.10.2010

Umræðurnar um að halda kristilegu efni utan leikskóla og grunnskóla sýna, að yfirvöld menntamála í Reykjavík hafa ekki hugmynd um valdsvið sitt. Vilji þau ýta þessu efni út úr skólunum, verða þau að njóta stuðnings menntamálaráðherra, sem skrifar undir námskrár eins og reglugerðir. Það ver að fara eftir því, sem í þeim stendur við kennslu, bæði leikskólum og grunnskólum hafa verið settar námskrár.

Haldi mannréttindaráð Reykjavíkurborgar, að það geti með einhliða ákvörðun sinni gengið gegn námskrám eða hlutast til um innra starf í skólum, sýnir það annað hvort ótrúlegan hroka eða dæmalausa vanþekkingu. Af umræðunum virðist ljóst, að um sé að ræða sambland af þessu tvennu á bakvið málatilbúnaðinn hjá fulltrúum Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við fjárveitingar úr menntamálaráðuneytinu til tveggja skóla, Keilis á Keflavíkurflugvelli, og Hraðbrautar. Í DV hefur þessum athugasemdum verið breytt í árásir á Ólaf H. Johnson, stjórnanda og eiganda Hraðbrautar.  Skólinn tekur við fé, sem ráðuneytið veitir samkvæmt samningi, eftirlitsskylda með framkvæmd samningsins hvílir á menntamálaráðuneytinu, sem jafnframt gefur grænt ljós á greiðslur úr ríkissjóði.

Ekki er grunlaust um, að andstæðingar einkarekstrar í stjórnaflokkunum ætli að nota niðurstöðu ríkisendurskoðunar til að bregða fæti fyrir Hraðbrautina. Ætti þá ekki líka að loka menntamálaráðuneytinu?

Miðvikudagur, 20. 10. 10 - 20.10.2010

Í dag ræddi ég við Ara Kristin Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík (HR), í þætti mínum á ÍNN. Ræddum við málefni skólans og háskólastigsins almennt. Eftir þáttinn er ég enn sannfærðari en áður um óréttmæti þess, sem Guðmundur Andri Thorsson sagði í Fréttablaðinu á dögunum, þegar hann talaði um Háskólann í Reykjavík sem „svokallaðan“ háskóla og fór háðulegum orðum um 3.000 nemendur skólans og rúmlega 500 starfsmenn.

Í dag birtist grein í Fréttablaðinu eftir Ingu Dóru Sigfúsdóttur, sem starfaði við HR en hætti þar, þegar lýðheilsudeild var aflögð vegna sparnaðar. Grein sína ritar Inga Dóra til að mótmæla því, að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherr, hafi sagt rangt frá samtali þeirra, þegar Inga Dóra heimsótti Katrínu í ráðuneytinu.

Eitt er, að ráðherra segi opinberlega frá því, sem fram fer á fundi hans með einstaklingi í viðtalsheimsókn, annað að ráðherrann hafi rangt eftir viðmælanda sínum. Ég veit ekki, hve mörg hundruð manna hittu mig í almennum viðtalstíma sem menntamálaráðherra. Að ég segði frá komu þeirra opinberlega, nafngreindi og vitnaði í orð þeirra kom mér aldrei til hugar.

Þriðjudagur, 19. 10. 10. - 19.10.2010

Í dag sat ég málþing nefndar um endurskoðun laga um stjórnarráðið, sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík. Ég skrifaði stuttan pistil um það, sem lesa má hér. Ég  sannfærðist ekki um það á málþinginu, að ástæða væri til að stækka ráðuneyti eða breyta starfsháttum ríkisstjórnarinnar. Hins vegar þarf að styrkja innviði stjórnarráðsins og tryggja starfsfólki þar skýran starfsramma til stefnumótunar og eftirlits.

Þá sá ég kvikmyndina The Social Network um upphaf fésbókarinnar. Sagan er ótrúleg. Hún er þó færð í stílinn í myndinni, því að fésbókin varð ekki til af þörf höfundar hennar til að ná sér niðri á stúlku, sem vildi ekkert með hann hafa.

Mánudagur, 18. 10. 10. - 18.10.2010

Í dag var sólbjart í Fljótshlíðinni og Eyjafjallajökull blasti við hvítur að nýju.Eyjafallajökull 18. okt. 2010  Öskulagið er falið undir nýrri snjófölinni. Myndina tók ég um hádegisbil.

Á Evrópuvaktinni má lesa frétt af umræðum á alþingi í dag vegna fyrirspurnar Ragnheiðar Elínar Árnadóttur til Össurar Skarphéðinssonar vegna grunnstefnu NATO og leiðtogafundar bandalagsins í Lissabon í nóvember. Þar kemur fram allt önnur stefna hjá Össuri en vinstri-grænir boða og fólst meðal annars í þeirri yfirlýsingu Ögmundar Jónassonar, að efna skyldi til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að NATO. Össur lýsir sig eindreginn stuðningsmann NATO-aðildar og sameiginlegrar varnarstefnu NATO. Hún sé ástæða þess, að Ísland sé í bandalaginu.

Sunnudagur, 17. 10. 10. - 17.10.2010

Á mbl.is birtist í dag:

„Embætti ríkislögreglu­stjóra verður gert að hreinni stjórnsýslu­stofnun, gangi hugmyndir stjórnvalda eftir. Efnahagsbrota­deild verður þá sameinuð sérstökum saksóknara og sérsveitin flutt til lög­reglunnar á höfuðborgar­svæðinu. Frá þessu var greint í hádegisfréttum RÚV.“

Í fréttum RÚV var rætt við Ögmund Jónasson, dómsmálaráðherra, og sagði, að málið væri í skoðun í ráðuneytinu. Ef fréttamaður RÚV eða blaðamaður mbl.is hefðu skoðað málið og sett í samhengi, blasti við, að ekkert nýtt væri í þessari frétt. Þetta hefur allt komið fram áður.

Að skipta landinu í sex lögregluumdæmi kom til athugunar fyrir fimm árum. Ákveðið var að slá því á frest, þar til lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu hefðu verið sameinuð. Vinna við verkefnið hófst hins vegar strax á árinu 2007 og tillögur lágu fyrir árið 2008. Hlutverk embættis ríkislögreglustjóra hefur frá upphafi verið að að sinna stjórnsýsluverkefnum, sem flutt voru frá dómsmálaráðuneytinu til þess. Vegna smæðar lögregluembætta færðust lögregluverkefni á hendur ríkislögreglustjóra. Ef einstök lögregluembætti styrkjast með stækkun, geta þau tekið að sér ný verkefni.

Við þessa uppstokkun er óhjákvæmilegt að hafa að leiðarljósi, að sérsveit lögreglunnar verði ekki eyðilögð sem sérstæð eining, sem sé ávallt til taks til að sinna sérstökum verkefnum. Nú þegar eru sérsveitarmenn í Reykjavík, á Suðurnesjum og Akureyri. Menn með þjálfun sérsveitarmanna starfa einnig í einstökum lögregluliðum. Þá verði áfram lögð áhersla á greiningarvinnu með forvirkar rannsóknarheimildir að markmiði. Loks verði lögð rækt við öflugt alþjóðasamstarf lögreglu.


Laugardagur, 16. 10. 10. - 16.10.2010

Nú eru tvær vikur liðnar frá þingsetningu undir eggjakasti og nk. mánudag frá því að Jóhanna flutti stefnuræðu sína undir tunnuslætti á Austurvelli. Eftir ræðuna sagði Jóhanna í sjónvarpsviðtali, að hún ætlaði að kalla stjórnarandstöðuna til viðræðna og samstarfs. Síðan hefur mikið verið talað á mörgum fundum, án þess að nokkuð hafi gerst. Sagt er, að nú um helgina sitji sérfræðingar yfir einhverjum dæmum.

Ríkisstjórnin hefur setið við völd síðan 1. febrúar, 2009. Þegar Jóhanna settist í embætti forsætisráðherra sagðist hún ætla að láta hendur standa fram úr ermum. Það yrðu þáttaskil frá aðgerðaleysi til athafna. Forgangsraðað í þágu heimilanna, slegin yrði skjaldborg um heimilin. Nú er 16. október, 2010, og Jóhanna er að láta reikna fyrir sig. Hún hefur meira að segja fengið efnahagsráðgjafa í stjórnarráðshúsið, þótt hún hafi kastað efnahagsstjórninni frá sér og tekið jafnréttismál í staðin.

Innan ríkisstjórnarinnar er augljós ágreiningur um leiðir. Hann er í ráðherraliði vinstri-grænna, Steingrímur J. og Ögmundur Jónasson eru á öndverðum meiði. Þeir tala hvor gegn öðrum, á meðan Jóhanna lætur reikna. Innganga Ögmundar í ríkisstjórnina hefur gert hana óstarfhæfari en áður og er þá mikið sagt.


Föstudagur, 15. 10. 10. - 15.10.2010

Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, forstjóri Dagsbrúnar og útsendari Baugsmanna við stofnun fríblaða í Kaupmannahöfn og Boston  og að auki við kaup á prentsmiðju í Bretlandi, er tekinn til við að skrifa um, hvernig Íslendingar eigi að haga fjárfestingu í íbúðarhúsnæði.  Rétt er að geta þess, að blöðin í Kaupmannahöfn og Boston auk prentsmiðjunnar í Bretlandi skiluðu Baugsmönnum ekki öðru en skuldum.

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins birtist á dögunum heilsíðu grein eftir Gunnar Smára um húsnæðismál. Gerð var athugasemd við hana í leiðara blaðsins. Í dag skrifar Gunnar Smári þar skammargrein um Davíð Oddsson auk þess að víkja óvildarorðum að mér og einhverjum fleirum. Til marks um, hve málefnalegur Gunnar Smári er, má vitna í þessi orð hans um Davíð „hef ég talið það blessun í lífi mínu að Davíð Oddsson hafi heiðrað mig með óvinskap sínum og óvild. Þótt ónot hans geti verið hvimleið sýnist mér vinskapur hans banvænn.“

Gunnar Smári nefnir engin dæmi um, hvar Davíð hafi vikið að honum af óvild. Hann gerði það ekki í leiðaranum, sem Gunnar Smári mótmælir af þessum ofsa. Um hitt eru fjölmörg dæmi frá síðustu árum, að Gunnar Smári hafi hallmælt Davíð og embættisverkum hans. Þegar rætt var um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði síðla árs 2003 og Davíð efaðist um, að hinir ný-einkavæddu bankar væru reknir af nógu mikill forsjálni, ritaði Gunnar Smári grein um, að kannski ætti hann bara að flýja til Norður-Kóreu. Skyldu Baugsmenn nú vilja, að hann hefði látið verða af því í stað þess að stofna til vináttu við þá?



Fimmtudagur, 14. 10. 10. - 14.10.2010

Hneykslan fréttastofu RÚV á því, að Bjarni Harðarson hafi verið ráðinn upplýsingafulltrúi í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er langt úr hófi. Minnt er á ávirðingar, sem urðu til þess, að hann sagði af sér þingmennsku auk þess sem hamrað er á því, að hann hafi skipt um stjórnmálaflokk. Hvorugt skiptir máli varðandi hæfni hans til að sinna upplýsingamálum fyrir Jón Bjarnason.  Það er ekki á hverjum degi, sem fréttastofan tekur sér fyrir hendur að birta kafla úr ævisögu þeirra, sem valdir eru til opinberra starfa.  Yfirleitt er það ekki gert, nema fréttastofunni sé í nöp við þann, sem hlut á að máli. Merkilegt er, að fréttastofan skuli ekki geta þess, að Bjarni er einarður andstæðingur þess, að Ísland verði aðili að ESB.

Líklegt er, að andstaða Bjarna við ESB sé meginástæðan fyrir því, að fréttastofa RÚV tekur hann fyrir á þann veg, sem hefur verið gert. Fréttamönnum RÚV, sem hallir eru undir ESB-aðild, finnst óþægilegt, að þurfa að leita frétta hjá manni með skoðanir Bjarna á ESB. Mest mun einmitt reyna á framgang mála á verksviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Gagnrýnin á ráðningu Bjarna í fréttatímum RÚV dregur ekki aðeins athygli að ESB-skoðunum Bjarna heldur einnig vaxandi spennu í samskiptum samfylkingarfólks og vinstri-grænna. Gagnrýnin á ráðningu Bjarna er til marks um, að þolinmæði af hálfu Samfylkingarinnar er að minnka. Brugðið er sterkara ljósi en áður á mál, sem eru til þess fallin að breikka bilið milli flokkana og auðvelda stjórnarandstæðingum innan Samfylkingarinnar að skýra afstöðu sína.


Miðvikudagur, 13. 10. 10. - 13.10.2010

Fyrsti námumaðurinn af í San Jose námunni við Capio í Chile náðist upp á fjórða tímanum sl. nótt. Hefur verið með ólíkindum að fylgjast með þessu björgunarafreki í beinum sjónvarpssendingum.

Hér má sjá þátt minn á ÍNN frá 6. október, þegar ég ræddi við Eið Guðnason, fyrrv. sendiherra og ráðherra. Samtal okkar snerist um stjórnmál og fjölmiðla.

Pál Dunay flutti fyrirlestur í ráðstefnusal Þjóðminjasafns í hádeginu á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um stöðu mála í Kyrgyzu, það er fyrrverandi lýðveldi Sovétríkjanna, sjálfstæðu ríki milli Kína, Kasakstan, Usbekistan og Tajkistan. Stjórnmálaástandið einkennist af upplausn eftir stjórnarbyltingu fyrr á árinu og kosningar sl. sunnudag. 

Dunay taldi ekki miklar líkur á því að staða mála breyttist skjótt til hins betra í Kyrgyzu. Mátti helst skilja hann á þann veg, að enginn sæi neina leið út úr vanda þjóðarinnar.

Þegar hugað er að því að Kyrgyza á aðild að Öryggisstofnun Evrópu (ÖSE), sem hefur meðal annars það verkefni að vinna að framgangi mannréttinda í aðildarlöndunum, verður ekki unnt að álykta annað, eftir að hafa hlustað á Dunay, en ÖSE sé gjörsamlega máttvana sem stofnun.

Síðdegis þáði ég boð um að hitta Evu Joly í móttöku á hennar vegum í Norræna húsinu og kveðja hana,  þar sem hún lætur nú af störfum sem ráðgjafi sérstaks saksóknara. Eva Joly ætlar að helga sig baráttunni sem forsetaframbjóðandi umhverfissina í kosningunum í Frakklandi árið 2012. Ólíklegt er, að hún nái kjöri í embættið, þar sem fylgi græningja hefur verið um 5% í frönskum forsetakosningum. Eva joly á vafalaust eftir að auka fylgið, því að hún er þjóðkunn í Frakklandi og nær að láta rödd sína heyrast í stærstu fjölmiðlum.

Jón Þórisson, arkitekt, sem að sögn Joly hefur verið augu hennar og eyru sagði í ræðu í kveðjuhófinu, að ákveðið hefði verið að koma á fót fjölþjóðlegri Stofnun Evu Joly til að vinna að rannsóknum á sviði þjóðfélagsmála.

Þriðjudagur, 12. 10. 10. - 12.10.2010

Á þessari stundu er BBC World með beina sendingu frá koparnámunni í  Copiapo í norðurhluta Chile, þar sem búist er við því að á hverri stundu, að hafist verði handa við að hífa hinn fyrsta af námumönnunum 33 620 metra upp í námunni, sem hrundi 5. ágúst, 22. ágúst var staðfest, að þeir væru allir á lífi. Þeir höfðu þá verið í 17 daga án matar og sambands við umheiminn. Hinn 17. september hófust björgunaraðgerðir með þeim bor, sem náði fyrstur til mannanna. Var jafnvel búist við, að það tæki allt fram að jólum að bora niður til mannanna.

Sterkustu námumennirnir verða dregnir upp fyrst, því að þeir eru taldir best til þess fallnir að bregðast rétt við, ef nauðsynlegt er að grípa til einhverra neyðarráðstafana vegna bilunar þegar reynir á tæknina í fyrstu atrennu. Áður en mönnunum verður lyft upp, fara hjálparmenn niður í námina til að búa þá, sem þar eru, undir ferðina upp holuna, sem er rétt 54 cm að ummáli og 4 m langt.


Mánudagur, 11. 10. 10. - 11.10.2010

Með ólíkindum er, að enginn fjölmiðill skuli fylgja eftir fréttinni um að Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, hafi kallað Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara, á teppið til að skamma hann að ósk feminista í röðum vinstri-grænna og krefjast af honum skýrslu um embættisfærslu hans og ummæli. Þetta er einstakt atvik í íslenskri réttarsögu. Ég hef velt fyrir mér, hvernig fjölmiðlamenn hefðu hundelt mig, hefði mér dottið í hug að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir ríkissaksóknara á þennan veg.

Mér sýnist á öllu, að óhjákvæmilegt sé að huga að nýjum farsíma til að nýta sér allt, sem er í boði á því sviði. Orðið farsími nær engan veginn yfir allt það, sem í boði er í hinum nýju fjarskipta- og tölvutækjum. Einn stoltur eigandi sýndi mér á dögunum, að með smáforriti frá Google mætti setja stjörnukort í tækið og jafnan látið það vísa sér leið til stjarnanna.

Ég sá í BBC World í kvöld, að Stephen Fry, leikari, sjónvarpsmaður, rithöfundur og margt annað tók að sér að kynna nýjan farsíma frá Microsoft á blaðamannafundi í London. Honum er ætlað að keppa við síma frá Apple, Google og BlackBerry. Þeir sögðu á BBC, að það væri stórt skref fyrir Stephen Fry að stíga fram á þessum blaðamannafundi, þar sem hann hefði til þessa verið þekktur fyrir aðdáun sína á Apple. Ég heyrði hins vegar ekki betur en menn teldu erfitt fyrir Microsoft að brúa bilið gagnvart þeim, sem þegar hafa kynnt hinn nýja búnað.

Sunnudagur, 10. 10. 10. - 10.10.2010

Fréttir af ríkisstjórnarsamstarfinu verða sífellt furðulegri. Uppákomur í kringum nýja ráðherrann, Ögmund Jónasson, sem átti að tryggja, að meirihluti yrði fyrir fjárlagafrumvarpinu, eru undarlegastar. Hann hefur greinilega ruglað Jóhönnu Sigurðardóttur í ríminu með því að gerast róttækastur ráðherra í stuðningi við hugmyndir um niðurfærslu lána. Jóhanna þolir slík yfirboð ekki og hefur því slegist í lið með Ögmundi í óþökk Steingríms J. Sigfússonar.

Sagt er frá því á dv.is 10. október, að Ögmundur hafi kallað Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara, fyrir sig og krafið hann svara vegna ummæla Valtýs í DV, sem setti feminista innan raða vinstri-grænna úr skorðum. Mislíkar Ögmundi svo við orð Valtýs, að hann segist íhuga að skipa nýjan saksóknara vegna kynferðisbrota, sem á væntanlega að endurspegla skoðanir Ögmundar á því, hvernig eigi að ákæra í slíkum málum.

Ég trúði varla mínum eigin augum, þegar ég las þetta. Slík afskipti ráðherra af störfum ríkissaksóknara tel ég algjörlega á skjön við góða stjórnsýslu og raunar landslög. Fáum við næst fréttir af því, að Ögmundur kalli dómara fyrir sig, af því að hann sættir sig ekki við dómsorð hans?

Laugardagur, 09. 10. 10. - 9.10.2010

Klukkan 17.00 var ég í Kringlubíói og horfði á Rínargullið, fyrsta hluta Hrings Niflungans eftir Richard Wagner, beina sendingu frá Metropolitan í New York, en þar hófst sýningin klukkan 13.00 að staðartíma. Ég hef aldrei fyrr horft á óperu á þennan veg. Var einstaklega vel staðið að sýningunni.

Robert Lepage er höfundur sviðsetningarinnar, James Levine er hljómsveitarstjóri og Bryn Terfel er í hlutverki Óðins. Áhorfendur í New York tóku sýningunni af miklum fögnuði, þó var púað á Richard Croft, sem söng hlutverk Loka. Líklegt er, að hann hafði ekki þótt leika nógu vel.

Sagan er einstaklega vel sögð í uppfærslunni. Óðinn er einkennilegur karakter hjá Wagner. Í Rínargullinu er hann kynntur til sögunnar á þann veg, að hann eigi erfitt með að gera upp hug sinn, standi ekki við gerðan samning og þurfi aðra sér til hjálpar í stóru og smáu.

Sviðsmyndin byggist á tækniundri „vélinni“, sem Lepage og samstarfsfólk hans hannaði. Hana á að nota í öllum fjórum óperum Hringsins, en Metropolitan ætlar að ljúka uppsetningu þeirra vorið 2012.

Þetta er fimmta starfsárið, sem Metropolitan gerir fólki um heim allan kleift að fylgjast með sýningum í beinni HD-sendingu.

Föstudagur, 08. 10. 10. - 8.10.2010

Morgunblaðið

birti miðvikudaginn 6. október viðtal við Hörð Torfason, tónlistarmann, í tilefni af mótmælum á Austurvelli mánudaginn 4. október. Hörður efndi til mótmælafunda á Austurvelli veturinn 2008/09. Hann sagði meðal annars í stuttu viðtalinu:

„Það er alveg greinilegt að þessu er ekki stjórnað, andstætt búsáhaldabyltingunni, því henni var miklu meira stjórnað á bak við tjöldin.“

Búsáhaldabyltingunni var stjórnað á bak við tjöldin. Undarlegt er, að nú á tímum gegnsæis um allt og alla, skuli enginn spyrja Hörð frekar út í þetta mál. Hverjir voru það, sem stóðu að baki búsáhaldabyltingunni? Hvers vegna erum við ekki upplýst um það?

Einkennilegt er, að hlusta á Spegilinn í RÚV, þar sem rætt er um millidómstig, eins og umræður um það séu nýmæli. Ég ýtti skipulegri vinnu af stað til að undirbúa slíkt dómstig og það liggja fyrir tillögur um, hvernig unnt er að standa að þessu máli.

Starfsmenn RÚV virka stundum við fréttaflutning eins og þeir leggi ekkert á sig til að afla sjálfstæðra upplýsinga og setja mál í samhengi. Síðdegis í dag birtist á vefsíðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins svarbréf Jóns Bjarnasonar og Össurar Skarphéðinssonar við bréfi þriggja framkvæmdastjóra ESB vegna makríldeilunnar. Samt var sagt frá málinu þannig í fréttum klukkan 18.00 eins og bréfinu frá Brussel væri ósvarað. Hér má lesa frétt um þessi bréfaskipti.

Fimmtudagur, 07. 10. 10. - 7.10.2010

Var klukkan 17.00 í útvarpi Sögu í þættinum Nei og já um ESB og ræddi við Frosta Sigurjónsson. umsjónarmann þáttarins, í 60 mínútur um stöðuna í aðlögunarviðræðum Íslendinga við ESB.

Ég vakti meðal annars athygli á því, að Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði hafnað því að taka þátt í afgreiðslu ályktunar á sameiginlegum fundi þingmanna frá ESB-þinginu og alþingi. Hér má sjá frétt um það.

Einkennilegt er, að Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, skuli hafa komið að því að semja hina sameiginlegu ályktun og samþykkt hana í ljósi þess, að hann stóð einnig að því að semja álit meirihluta utanríkismálanefndar frá því fyrir ári. Samkvæmt henni skyldu viðræðumenn af Íslands hálfu gæta ákveðinna skilyrða, sem ekki eru höfð í heiðri í hinni sameiginlegu ályktun þingmannanna.

Miðvikudagur, 06. 10. 10. - 6.10.2010

Í dag ræddi ég við Eið Guðnason, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um stjórnmálaástandið en einkum um fjölmiðla, enda heldur Eiður úti vefsíðu um efnistök þeirra og málfar. Síðan hefur vakið verðskuldaða athygli, enda er Eiður ómyrkur í máli, ef svo ber undir.

Steingrímur J. Sigfússon var í Kastljósi sjónvarpsins í kvöld. Hann er hættur að bölsótast í garð sjálfstæðismanna. Furðulegt er að heyra hann tala á þann veg, að nú sé ekki um annað að ræða í stjórnmálum en taka höndum saman við stjórnarandstöðuna. Að honum skuli detta í hug, að sjálfstæðismenn séu ginnkeyptir fyrir samstarfi við Jóhönnu og Steingrím J. eftir það, sem á undan er gengið, staðfestir aðeins enn og aftur, hve ósýnt Steingrími J. er um að horfast í augu við hluti, eins og þeir eru. Hann virðist halda, að stjórnmál snúist um að slá um sig með mælsku og sjálfshóli.


Þriðjudagur, 05.10.10. - 5.10.2010

Eins og við var að búast, talaði Jóhanna Sigurðardóttir um fund með stjórnarandstöðunni í sjónvarpinu í gærkvöldi í von um, að það fleytti stjórnmálaumræðum í gegnum daginn í dag í fjölmiðlum. Hún vissi, sem var, að fréttamenn myndu beina athygli sinni að þessu fyrst og síðast í dag. Fundurinn varð auðvitað ekki til neins, því að ríkisstjórnin er ekki til þess búin að hlusta á neinar aðrar „lausnir“ en sínar eigin - hin hreinræktaða vinstri stjórn, sú fyrsta í Íslandssögunni, getur ekki látið sjónarmið annarra menga stefnu sína.

Þegar ég sat í ríkisstjórn með Jóhönnu og harðnaði á dalnum, reyndi óhjákvæmilega meira á félagsleg úrræði á verksviði hennar sem félagsmálaráðherra heldur en málefni dómsmálaráðherra. Þó var eitt mál, sem snerti gjaldþrotaskiptalögin og var á mínu verksviði. Í minni tíð kallaðist það skuldaaðlögun og fól ég sérfræðingum að huga að lagabreytingum í því skyni.

Þetta var úrræði til að koma til móts við þá, sem skulduðu mikið.  Samfylkingunni var það kært. Björgvin G. Sigurðsson tók að gefa sverar yfirlýsingar um þetta efni, þegar hann varð viðskiptaráðherra, þar til hann áttaði sig á því, að það féll ekki undir verksvið viðskiptaráðuneytisins.

Þunginn í málinu jókst eftir fall bankanna og brást varla, að Jóhanna beindi orðum að mér um það, þegar rætt var um aðgerðir vegna hrunsins. Ég sagði, að nauðsynlegt væri að vanda hvert skref í þessu efni. Bætti ég því gjarnan við, að til væru aðrar og betri leiðir til að koma til móts við skuldara en þessi og ríkinu væri hæg heimatökin, eftir að allir bankar væru komnir í þess eigu. Bankarnir gætu breytt kjörum á lánum sínum.

Jóhanna hlustaði ekki á neitt slíkt. Frumvarp um skuldaaðlögun var tilbúið um áramót 2008/2009, ný ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu tók við 1. februar. Frumvarpið í dómsmálaráðuneytinu var flutt með þeirri breytingu, að talað var um greiðsluaðlögun í stað skuldaaðlögunar. Minnist ég þess, að þeir Árni Páll Árnason og Mörður Árnason fluttu barnalegar grobbræður um málið á þingi upptendraðir af eigin lofi um Jóhönnu. Þetta væri allt henni að þakka.

Frumvarpið varð að lögum og hefur framkvæmd þeirra síðan verið sífelldur höfuðverkur og virðist það frekar hafa kynnt undir reiði skuldara en hitt. Frá upphafi var augljóst, að kerfislausn af þessu tagi með aðstoð tilsjónarmanns og að tilstuðlan dómara dygði fáum.  Reynslan hefur sagt mér, að kvartanir Jóhönnu yfir því að frumvarp kæmi ekki frá mér voru í ætt við þá áráttu hennar að benda á eitthvað annað eða einhvern annan í stað þess að sinna því, sem hún hefur sjálf á valdi sínu.


Mánudagur, 04. 10. 10. - 4.10.2010

Dapurlegt er að verða vitni að því í sjónvarpi, hvernig ástandið er innan alþingis og á Austurvelli. Þegar þetta er skrifað er Þór Saari að flytja ræðu. Hann talar í sama dúr og og alla tíð, niður til samstarfsmanna sinna á þingi, en hann lítur greinilega þannig á, að hann sé meiri og betri en þeir. Þá ræðst hann á forseta þingsins fyrir, að settur ríkissaksóknari hafi ákveðið að ákæra níumenninga, sem réðust á þingið í desember 2008. Taldi hann þeirra bíða lífstíðardóm. Sýndi þess vel, hve lítt honum getur verið annt um sannleikann, þingmanninum.

Mikill munur var á málflutningi Jóhönnu Sigurðardóttur annars vegar og Bjarna Benediktssonar hins vegar.

Jóhanna áttar sig greinilega á því, að hennar tími er liðinn. Hún er að búa sig undir að finna útleið, að minnsta kosti fyrir sjálfa sig ef ekki ríkisstjórnina. Hafi tími Jóhönnu í íslenskum stjórnmálum verið fyrri hluta árs 2009, biðst hún nú vægðar með því að lýsa vilja til samstarfs við alla. 

Bjarni lagði áherslu á að skýra allt annars konar stefnu og tök á landsmálum en fylgt hefur verið af ríkisstjórninni. Hann bendir á, að ríkisstjórnin bjóði kerfislausnir með því að benda á opinbera sýslunarmenn eins og nú umboðsmann skuldara í stað þess að skapa hinar almennu aðstæður, sem gera fólki kleift að vinna sig úr út vandanum.

Þá markaði tímamót í stjórnmálaumræðum, að Steingrímur J. sagðist ætla að tala um annað en stjórnarandstöðuna, hann sér með öðrum orðum ekki lengur hag af því að flytja skammir um Sjálfstæðisflokkinn.

Tímabært var fyrir lögregluna að setja upp grindur til mannfjöldastjórnurnar umhverfis alþingishúsið. Með slíkum ráðstöfunum er dregið úr líkum á líkamstjóni vegna átaka.


Sunnudagur, 03.10.10. - 3.10.2010

Fögur litadýrð á Þingvöllum í haustblíðunni. Hitinn óvenjumikill eftir árstíma. Margt fólk var á ferð í þjóðgarðinum og naut dagsins.

Fréttir herma, að Bandaríkjastjórn hafi sent frá sér alvarlegustu hryðjaverkaviðvörun síðan 2001. Hún byggist á mati CIA og annarra eftirlitsaðila í Bandaríkjunum. Hættan er einkum talin steðja að ferðamönnum í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Breska utanríkisráðuneytið hefur varað Breta í Þýskalandi og Frakklandi við hættunni. Sænska öryggislögreglan Säpo hefur hækkað hættustigið í Svíþjóð.

Íslensk lögregluyfirvöld glíma við þann vanda í tilvikum sem þessum, að hér heimila lög yfirvöldum ekki að stunda forvirkar rannsóknir. Þá eru ekki heldur íslensk lög um meðferð upplýsinga frá erlendum leyniþjónustum.

Ragna Árnadóttir setti sem dómsmálaráðherra á fót nefnd til að huga að forvirkum rannsóknarheimildum. Eitt hið fyrsta, sem Ögmundur Jónasson gerði var að kippa grundvelli undan starfi nefndarinnar með því að lýsa andstöðu sinni við slíkan viðbúnað.

Ábyrgð þeirra stjórnmálamanna er mikil, sem standa í vegi fyrir því, að til þessara mála sé litið fordómalaust og þörf fyrir öryggisráðstafanir metin af raunsæi. Að sitja með hendur í skauti kynni að leiða til ákæru fyrir landsdómi - eða hvað?


Laugardagur, 02. 10. 10. - 2.10.2010

Síðdegis fór ég í Kjarvalsstaði, þar sem Pétur Ármannsson flutti fróðlegan fyrirlestur um Jón Haraldsson, arkitekt. Fyrirlestrasalurinn var þéttsetinn. Þar mátti sjá lampa, sem Jón hannaði fyrir íslenskan veitingastað við Regent Street í London á sjöunda áratugnum. Eyjólfur Pálsson í Epal hafði búið þá undir smíði samkvæmt teikningum Jóns. Að loknum fyrirlestri Péturs sögðu fjórir menn frá persónulegum kynnum sínum af Jóni.

Eitt þeirra húsa, sem Pétur lýsti var byggingin milli Gamla Garðs og Þjóðminjasafns, sem kennd er við Félagsstofnun stúdenta. Ég var í stjórn stofnunarinnar, þegar húsið var reist og kynntist Jóni í tengslum við það. Þótti mér fróðlegt að heyra, hve húsið er mikilvægur í liður í þróunarsögu Jóns sem arkitekts. Þeim mun leiðinlegra var að heyra lýsingu Péturs á því, hve litla virðingu húsinu hefur verið sýnd. Taldi hann brýnt að friða að minnsta kosti anddyri þess og fleiri höfundareinkenni Jóns, sem enn mætti varðveita.


Föstudagur, 01. 10. 10. - 1.10.2010

Aðförin að þingsetningarathöfninni í dag var sorgleg. Þegar svo er komið, er augljóst að friðsamlegir samskiptahættir eru úr sögunni.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tekst ekki að endurvekja þá.

Lögregla átti engan annan kost en að beina forseta, biskupi og öðrum bakdyramegin inn í þingshúsið eftir messuna í Dómkirkjunni. Hitt er annað mál, að lögregla verður að eignast hreyfanlegar grindur, eins og hvarvetna eru notaðar við mannfjöldastjórnun. Þær draga úr hættu á átökum milli lögreglu og aðgerðasinna og minnkar líkur á, að lögregla þurfi að beita  gasi eða öðrum slíkum meðölum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti ræðu á fjölsóttum fundi í Valhöll. Þar ræddi hann stjórnmálaástandið og aðförina að Geir H. Haarde með því að stefna honum fyrir landsdóm. Taldi Bjarni það enn eitt merkið um vinstra-ofstækið við landstjórnina. Máli Bjarna var vel tekið.

Ríkisstjórnin hefur enga burði til að takast á við stöðu þjóðmála. Hún sér enga aðra kosti en hækka skatta og leggja stein í götu þeirra, sem vilja hefja stórhuga framkvæmdir.