9.10.2010

Laugardagur, 09. 10. 10.

Klukkan 17.00 var ég í Kringlubíói og horfði á Rínargullið, fyrsta hluta Hrings Niflungans eftir Richard Wagner, beina sendingu frá Metropolitan í New York, en þar hófst sýningin klukkan 13.00 að staðartíma. Ég hef aldrei fyrr horft á óperu á þennan veg. Var einstaklega vel staðið að sýningunni.

Robert Lepage er höfundur sviðsetningarinnar, James Levine er hljómsveitarstjóri og Bryn Terfel er í hlutverki Óðins. Áhorfendur í New York tóku sýningunni af miklum fögnuði, þó var púað á Richard Croft, sem söng hlutverk Loka. Líklegt er, að hann hafði ekki þótt leika nógu vel.

Sagan er einstaklega vel sögð í uppfærslunni. Óðinn er einkennilegur karakter hjá Wagner. Í Rínargullinu er hann kynntur til sögunnar á þann veg, að hann eigi erfitt með að gera upp hug sinn, standi ekki við gerðan samning og þurfi aðra sér til hjálpar í stóru og smáu.

Sviðsmyndin byggist á tækniundri „vélinni“, sem Lepage og samstarfsfólk hans hannaði. Hana á að nota í öllum fjórum óperum Hringsins, en Metropolitan ætlar að ljúka uppsetningu þeirra vorið 2012.

Þetta er fimmta starfsárið, sem Metropolitan gerir fólki um heim allan kleift að fylgjast með sýningum í beinni HD-sendingu.