Dagbók: mars 2009

Þriðjudagur, 31. 03. 09. - 31.3.2009

Sérnefnd um stjórnarskrármál kom saman til fundar í kvöld. Ég heyrði í fréttum í morgun, að ætlunin væri að ljúka störfum nefndarinnar í kvöld og taka málið úr nefnd, eins og sagt er, það er leggja það fyrir þingið til annarrar umræðu. Mér þótti merkilegt, að ég heyrði þetta sem nefndarmaður í útvarpsfréttum.  Ég áttaði mig síðan á því, að auðvitað væri þetta í samræmi við hin dæmalausu vinnubrögð í málinu frá upphafi, en málsmeðferðin hefur sætt mikill gagnrýni umsagnaraðila, enda er hún forkastanleg, þegar fjallað er um breytingu á stjórnarskránni.

Venja er, að leitað sé sátta meðal stjórnmálaflokka, áður en frumvarp um breytingu á stjórnarskránni er lagt fyrir þing. Á undirbúningsstigi málsins er tekist á um álitamál milli flokka og leitað samkomulags. Sú leið var ekki farin núna heldur mætti ætla, að það sé sérstakt markmið, einkum framsóknarmanna, að agnúast sérstaklega út í Sjálfstæðisflokkinn í tengslum við frumvarpið. Við sjálfstæðismenn leggjum til, að haldi menn fast í kröfuna um stjórnlagaþing, verði það ráðgefandi en stjórnarskrárvaldið sé ekki tekið af alþingi.

Stjórnarskrármálið var ekki tekið úr nefnd í kvöld enda engin efni til þess.

Síðdegis kynnti ríkisstjórnin frumvarp um hert gjaldeyrishöft, sem hún segir flutt til að stoppa upp í glufur. Við sjálfstæðismenn samþykktum afbrigði, svo að málið kæmist á dagskrá. Hafði það nokkurn aðdraganda og var þingfundi frestað hvað eftir annað, á meðan stjórnarliðið leitaði leiða til að málið fengi skjóta afgreiðslu. Yrði það ekki að lögum, myndi gjaldeyrismarkaði verða lokað á morgun.

Hér skal ekki gert lítið úr nauðsyn þess að loka glufum í gjaldeyrislöggjöfinni. Hitt er síðan staðreynd, að höft af hverjum toga, sem þau eru, kalla á meira eftirlit og strangari reglur og síðan eftirlitsstofnun. Ætli við sitjum ekki bráðlega uppi með gjaldeyriseftirlit að nýju?

Á bak við þessa hertu löggjöf býr því miður sú staðreynd, að ríkisstjórninni hefur mistekist að viðhalda því trausti í gjaldeyrismálum, sem þó hafði tekist að skapa. Hin nýja yfirstjórn seðlabankans ræður ekki heldur nægilega vel við þau mál á þessu sviði, sem undir hana falla.

Mánudagur, 30. 03. 09. - 30.3.2009

Sérnefnd um stjórnarskrármál kom saman til fundar klukkan 08.30. Við sjálfstæðismenn í nefndinni teljum vinnubrögðin þar fyrir neðan allar hellur. Öllum er ljóst, hve sú meginregla er mikils virði, að sæmileg sátt sé milli stjórnmálaflokka um breytingu á stjórnarskránni, en það viðhorf hefur ekki enn náð til meirihlutans í sérnefndinni, því miður.

Tveir nýir flokksformenn voru kjörnir um helgina, Bjarni Benediktsson í Sjálfstæðisflokki og Jóhanna Sigurðardóttir í Samfylkingu. Athygli vakti, að Guðbjartur Hannesson, forseti alþingis, sem talar jafnan um sig sem hæstvirtan forseta, þegar hann flytur mál af forsetastóli, sá ekki ástæðu til að óska þingmönnunum til hamingju með hið nýja og mikla traust, sem þeim hefur verið sýnt. Sturla Böðvarsson, þáverandi forseti alþingis, óskaði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni heilla hinn 20. janúar, þótt Sigmundur Davíð sæti ekki á þingi.

Guðbjartur gleymdi ekki aðeins sjálfsögðum heillaóskum heldur virtist hann ekki vita, að þennan dag fyrir 60 árum samþykkti alþingi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og ráðist var á það af æstum múg frá Austurvelli auk þess sem hvítliðar gengu til liðs við lögregluna til varnar alþingishúsinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, minntist dagsins í stuttri ræðu í tilefni dagsins.

Klukkan 17.00 kom fámennur hópur NATO-andstæðinga saman við styttu Jóns Sigurðarsonar á Austurvelli til að minnast aðfararinnar að alþingi með einhverjum gjörningi.IMG00040-20090330-1707

Þessa mynd tók ég úr glugga þinghússins af hópnum við styttu Jóns Sigurðssonar en nýtt kerfi frá Hugsmiðjunni auðveldar mér að setja myndir hér á síðuna. Kannski á ég eftir að gera meira af því að myndskreyta.

 

 

 

Sunnudagur, 29. 03. 09. - 29.3.2009 19:02

Rúmlega klukkan 10.00 hófst landsfundur sjálfstæðismanna að nýju og tók ég til máls í umræðum um réttarfars- og stjórnskipunarmál. Umræður voru miklar og hugmyndir eða tillögur um breytingar á ályktuninni á þann veg, að ákveðið var að málefnanefnd fundarins kæmi að nýju saman undir forystu Elísabetar Ólafsdóttur og Kristínar Edwald. Tókst þar gott samkomulag um texta, sem samþykktur var óbreyttur á landsfundinum á sjötta tímanum.

Klukkan 15.00 var formannskjör og tóku 1705 þátt í því. Bjarni Benediktsson fékk tæp 60% atkvæða og Kristján Þór Júlíusson tæp 40%. Má segja, að þetta hafi verið óskaniðurstaða miðað við jafnvægi milli frambjóðenda og Kristján Þór sagðist glaður munstra sig í áhöfn Bjarna.

Að lokinni talningu í formannskjöri var gengið til varaformannskjörs og þar hlaut Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir glæsilegt endurkjör með um 80% atkvæða.

Kynslóðaskipti hafa nú orðið í Sjálfstæðisflokknum. Kynslóð, sem náði undirtökum innan flokksins árið 1983, með formannskjöri Þorsteins Pálssonar, er að afhenda nýrri kynslóð keflið og er það vel komið í höndum þeirra Bjarna og Þorgerðar Katrínar. Þá verður einnig mikil breyting í þingliði flokksins, þegar litið er til breytinga, sem eru að verða á þingflokknum, en við, sem náðum kjöri með Davíð Oddssyni 1991, erum flestir að hverfa af þingi.

Ungt fólk skipar nú öll forystusæti Sjálfstæðisflokksins, hvort sem er á alþingi eða í borgarstjórn Reykjavíkur. Engan þarf kannski að undra, að Jóhanna Sigurðardóttir, sem setið hefur rúm 30 ár á þingi og telur sér til ágætis, að hún geti gegnt formennsku í Samfylkingunni í mörg ár, af því að amma hennar náði 100 ára aldri, skuli frekar vilja samstarf við Steingrím J. Sigfússon, sem setið hefur 25 ár á þingi, en stofna til samstarfs við ungt og dugmikið fólk í Sjálfstæðisflokknum.

Þótti mér ekki stórmannlegt af Jóhönnu að ljúka ræðu sinni á landsfundi Samfylkingarinnar með heitingum í garð Sjálfstæðisflokksins. Á hinn bóginn var það í góðu samræmi við tóninn, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gaf í upphafi landsfundarins, en um hana fjallaði ég í grein á www.amx.is 28. mars en hana má lesa hér.

Ræða Davíðs Oddssonar á landsfundinum í gær hefur vakið miklar umræður og margt verið um hana sagt. Vitlausastar hafa þó verið fullyrðingar um, að hann hafi líkt sjálfum sér við Jesú Krist og er sorglegt, að fréttamenn hafi lagt út af orðum hans á þann veg. Máni Atlason, laganemi, brýtur þennan kafla í ræðu Davíð vel til mergjar á vefsíðu sinni eins og hér má lesa.

Laugardagur, 28. 03. 09. - 28.3.2009 20:24

Landsfundur hófst klukkan 11.00 og þá kynnti Bjarni Benediktsson tillögu að stjórnmálaályktun. Þá gaf Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri flokksins, skýrslu um starfsemi hans. Ég tók til máls undir þeim lið og kynnti hugmynd um að stofna sérstakt félag innan Sjálfstæðisflokksins um utanríkismál, en heimilt er að stofna slík félög um einstök málefni samkvæmt skipulagsreglunum.

Í hádegi bauð Bjarni Benediktsson, formannsframbjóðandi, upp á snarl í Þróttarheimilinu skammt frá Laugardalshöllinn og komu þangað fleiri en húsrúm leyfði.

Klukkan 14.00 flutti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir framboðsræðu til varaformanns. Loftur Alice Þorsteinsson gefur einnig kost á sér og séra Halldór Gunnarsson í Holti.

Klukkan 15.00 flutti Bjarni Benediktsson framboðsræðu til formanns og síðan Kristján Þór Júlíusson.

Klukkan 16.00 flutti Davíð Oddsson ræðu. Hér má sjá ræðu Davíðs.

Fyrir utan þessar stórræður voru umræður um ályktanir málefnanefnda.

Salurinn var þéttsetinn allan daginn fram yfir ræðurnar og var góður rómur gerður að ræðumönnum.

Föstudagur, 27. 03. 09. - 27.3.2009 21:11

Landsfundurinn hófst klukkan 09.00 í morgun á umræðum um Evrópumál. Lögð var fram tillaga Evrópunefndar í nýjum búningi eftir tillögur um efni hennar á fundi um málið kvöldið áður.

Ég var meðal fyrstu ræðumanna í umræðunni og hvatti til þess, að tillagan yrði samþykkt, enda væri þar tekið af skarið um, að hagmunum Íslands væri áfram best borgið utan Evrópusambandsins auk þess væri að finna ákvæði í tillögunni um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, ef tekin yrði ákvörðun á alþingi um að sækja um aðild. Yrðu þá fyrst greidd atkvæði um efni umsóknar, áður en hún yrði send til ráðherraráðs sambandsins og síðan um aðildarkjör, ef svo bæri undir að lokinni meðferð á umsókninni í viðræðum við ESB. Í ályktuninni er einnig að finna ákvæði um viðræður við ESB um aðild eða gjaldmiðilssamstarf sérstaklega. Þetta tvennt þurfi ekki að fara saman.

Umræður voru miklar og komu fram breytingartillögur um, að ályktað yrði um það eitt að hafna aðild eða það eitt að ganga til aðildarviðræðna. Voru þessar tillögur bornar upp sérstaklega en kolfelldar og tillaga Evrópunefndarinnar samþykkt af öllum þorra fundarmanna og hvatti ég eindregið til þess, enda væri hún best til þess fallin að sætta ólík sjónarmið í flokknum. Málsvarar ESB-aðildar sættu sig vel við þessa niðurtstöðu og þess vegna er einkennilegt að sjá aðildarsinna í öðrum flokkum gera lítið úr henni. Sannar það aðeins, að þeim finnst það þjóna málstað sínum best að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn sýknt og heilagt og helst með innantómum slagorðaflaumi.

Umræðum um tillöguna lauk fyrir hádegi og strax á fundi klukkan 13.30 var hún tekin til lokaafgreiðlsu. Við svo búið var tekið til við að ræða tillögu endurreisnarnefndar flokksins, sem starfaði undir formennsku Vilhjálms Egilssonar. Voru umræður stuttar og tillagan samþykkt samhljóða.

Tókst þannig vel til við afgreiðslu þessara tveggja stórmála og á þann veg, að um niðurstöðu þeirra ríkti sátt og eindrægni.

Fimmtudagur, 26. 03. 09 - 26.3.2009 20:16

38. landsfundur Sjálfstæðisflokksins var settur klukkan 17.30 í Laugardalshöllinni og voru um 2000 manns við setninguna, en aldrei hafa fleiri verið skráðir til fundarsetu um 1900 manns.

Í upphafi fundar flutti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður flokksins, ávarp og kynnti mynd, sem sýndi brot úr 80 ára sögu flokksins.

Geir H. Haarde, formaður flokksins, flutti yfirgripsmikla setningarræðu, þar sem hann rakti þróun stjórnmála síðan 2007 og þó sérstaklega aðdraganda bankahrunsins og afleiðingar þess. Var ræðunni vel tekið af fundarmönnum, sem risu úr sætum og hylltu Geir með langvinnu lófataki.

Egill Helgason, aðildarsinni í Evrópumálum, fer mikinn vegna þess að gerð er tillaga um tvöfalda atkvæðagreiðslu vegna ESB-aðildar í drögum að ályktun Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál og segir þá leið aldrei hafa verið valda, en hún sé til marks um pólitískt hugleysi. Egill gefur sér, að enginn viti um hvað yrði kosið í fyrri atkvæðagreiðslunni. Þetta sannar mér aðeins, að Egill talar enn á ný um mál og myndar sér skoðun án þess að kynna málavöxtu. Auðvitað verður alþingi að hafa tekið ákvörðun um, að sótt skuli um aðild og komast að niðurstöðu um aðildarskilmála, áður en þeir eru lagðir fyrir þjóðina. Sérstaða Íslands er, að engin þjóð afsalar jafnmiklum auðlindum í yfirráð Brusselvaldsins með aðild að ESB og hin íslenska.

Klukkan 20.30 til 23.00 var rætt um Evrópumál í sérstökum starfshópi á landsfundinum undir formennsku þeirra Kristjáns Þórs Júlíussonar, alþingismanns, og Árna Sigfússonar, bæjarstjóra. Fjölmargar ræður voru fluttar og endurspegluðu þær þá meirihlutaskoðun meðal sjálfstæðismanna, að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu.

Miðvikudagur, 25. 03. 09. - 25.3.2009 22:37

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, kvaddi sér hljóðs í upphafi þingfundar í dag og kvaddi þingheim eftir 22 ára setu á alþingi. Klukkan 16.00 sat hann þingflokksfund okkar sjálfstæðismanna í síðasta sinn.

Fyrir hádegi var fundur í sérnefnd alþingis um stjórnarskrármál. Komu gestir á fundinn og skýrðu viðhorf sín til breytinga á stjórnarskránni. Í stuttu máli er enginn umsagnaraðili að fullu ánægður með allt, sem í frumvarpinu segir, þótt gagnrýni sé misþung á metunum. Almennt viðhorf er, að alltof hratt sé farið fram í málinu og standa þurfi á annan og vandaðri hátt að framlagningu og vinnu við mál af þessum toga.

Þriðjudagur, 24. 03. 09. - 24.3.2009 18:38

Fyrirlestrasalurinn var þéttsetinn í Háskólanum í Reykjavík, þar sem við Þorsteinn Pálsson, fyrrv. ráðherra, vorum frummælendur um Evrópumál í hádeginu. Að loknum framsöguræðum, hér er mín, svöruðum við spurningum.

Fundurinn staðfesti, sem fram hefur komið innan Sjálfstæðisflokksins undanfarna mánuði, að umræður um Evrópumál milli sjálfstæðismanna eru líklegri til að vera málefnalegar en til dæmis opinberar umræður milli sjálfstæðismanna og samfylkingarmanna. Hvers vegna? Jú, vegna þess að innan Samfylkingarinnar hafa menn tileinkað sér þann stíl í Evrópuumræðum, að telja sig hafa efni á því að fara í meting við þá, sem þeim eru ekki sammála, og láta eins og þeir hafi höndlað eitthvað í málinu, sem sé betra en það, sem aðrir hafa.

Einkennilegar umræður voru í upphafi þingfundar, þegar tekist var á um, hve fundir skyldu standa lengi á alþingi í dag. Við sjálfstæðismenn töldum ónauðsynlegt að þingfundur stæði lengur en til miðnættis en stjórnarflokkarnir vildu sitja fram á nótt yfir dagskrá, sem snerist lítt um hin brýnu mál heimila og fyrirtækja. Ég tók þátt í umræðum um tvö frumvörp dóms- og kirkjumálaráðherra, um heimild til gjaldtöku vegna íslenskuprófa þeirra, sem sækja um ríkisborgararétt, og um sérstakan saksóknara. Ánægjuleg er sú samstaða, sem er á þingi um hinn sérstaka saksóknara, heimildir hans og starfsmannafjölda.

Kammersveit Reykjavíkur flutti tónlist eftir tékknesk tónskáld í Listasafni Íslands klukkan 20.00. Selma Guðmundsdóttir lék einleik á píanó, Daði Kolbeinsson óbó, Þórunn Marínósdóttir á víólu og Rut Ingólfsdóttir á fiðlu.

Mánudagur, 23. 03. 09. - 23.3.2009 21:56

Var í hádeginu í stofu 101 í Odda Háskóla Íslands ásamt fulltrúum annarra flokka til að ræða um Evrópumál, öryggis- og varnarmál undir fundarstjórn Ólafs Þ. Harðarsonar.

Spurt var, hvernig vinstri-græn og Samfylking gætu starfað saman í ríkisstjórn með jafnólíka stefnu í Evrópumálum. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri-grænna, sagði nær að hugsa um annað en Evrópumál, þau væru ekki forgangsmál. Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar og frambjóðandi til varaformanns, sagði gagnlegt fyrir umræður og grósku í Evrópumálum, að flokkar með ólíkar skoðanir á þeim sætu saman í ríkisstjórn. Öðru vísi mér áður brá!

Valgerður Sverrisdóttir var hin eina, sem hélt fram nauðsyn varnarmálastofnunar. Árni Páll taldi, að sameina ætti hana og landhelgisgæslu. Aðrir sáu ekki þörf fyrir stofnunina. Í raun er furðulegt að halda því fram, að það þurfi borgaralega stofnun á vegum utanríkisráðuneytis til að sjá um hernaðarleg tengsl við NATO, eins og NATO sé ekki sama, hvar þessi borgaralega stofnun er innan íslenska stjórnkerfisins. Hvergi í heiminum heldur utanríkisráðuneyti dauðahaldi í verkefni af þessu tagi - stjórnarerindrekar láta sér almennt nægja, að sinna pólitískum úrlausnarefnum á sviði utanríkis- og öryggismála. Hér telja þeir rekstur ratsjárkerfis ekki þrífast, nema undir eigin handarjaðri.

Sunnudagur, 22. 03. 09. - 22.3.2009 21:30

Erfitt er að átta sig á því, hvað er fréttnæmt við að vinstri-grænir álykta á þann veg, að þeir vilji ekki starfa með sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn. Hafa þeir nokkru sinni viljað það í 10 ár? Ég veit ekki til þess. Þeir hafa ekki heldur viljað starfa með Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn Reykjavíkur.

Hver er fréttin? Jú, að landsfundurinn treysti forystumönnum sínum ekki til þess að halda áfram á sömu braut og vildi binda hendur þeirra með sérstakri flokkssamþykkt. Auðvitað koma stjórnmálafréttaritarar ekki auga á eina fréttapunktinn.

Einar K. Guðfinnsson, góður samstarfsmaður og samþingmaður síðan 1991, lenti í öðru sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í norðvesturkjördæmi. Ásbjörn Óttarsson, forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar, hlaut fyrsta sæti. Hann er mikill baráttumaður. Megi þeim og meðframbjóðendum þeirra vegna vel.

Nú stefnir örugglega í formannskjör í Sjálfstæðisflokknum á landsfundinum eftir viku, því að Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður, lýsti yfir framboði sínu í dag, en Bjarni Benediktsson hafði gert það 31. janúar. þetta verður ekki uppklappskjör  fyrir formann eins og hjá vinstri-grænum og Samfylkingu.

Skilja má niðurstöðu landsfundar vinstri-grænna þannig, að Steingrímur J. hafi verið endurkjörinn formaður, af því að hann væri örugglega að hætta formennsku bráðum. Jóhanna Sigurðardóttir tekur að sér tímabundna formennsku í Samfylkingunni, af því að innviðir flokksins þola ekki alvöru formannskjör.

Laugardagur, 21. 03. 09. - 21.3.2009 20:59

Gettu betur, er einn vinsælasti sjónvarpsþátturinn og er nú sýndur á laugardagskvöldum með Evu Maríu Jónsdóttur sem spyrjanda og Davíð Þór Jónsson sem dómara. Ég minnist þess, að í tíð minni sem menntamálaráðherra höfðu fulltrúar framhaldsskólanema samband við mig til að létta af sér ótta við, að sjónvarpið léti þáttinn niður falla.

Með nokkrum ólíkindum er, hvernig talað er til Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, á bloggsíðum. Einkennilegast er, þegar látið er að því liggja, að hann hafi ekki burði til að sinna embætti sínu, af því að hann hafi verið sýslumaður á Akranesi. Þessi hofmóður í garð embættismanna utan 101 Reykjavík hefur teygt sig út fyrir landsteinana, meðal annars í frásagnir af því, að Eva Joly ætli að leggja Ólafi Þór og öðrum íslenskum embættismönnum lið.

Í störfum sínum hefur Ólafur Þór sýnt, að hann skorast ekki undan því að takast á við erfið verkefni. Öllum má hins vegar gera ókleift að takast á við það, sem við þeim blasir, ef ómaklega er grafið undan trausti. 

Eitt er að fá hæfa menn til að starfa við opinber embætti utan höfuðborgarsvæðisins, annað að látið sé að því liggja, að þeir, sem taka að sér slík embætti og sinna þeim af alúð, séu ekki færir til að sinna öðrum störfum, ef þeir fullnægja öllum kröfum lögum samkvæmt.

 

Föstudagur, 20. 03. 09. - 20.3.2009 20:57

Sérnefnd um stjórnarskrármál sat á fundi frá 08.30 til 14.15 í dag og fékk til sín sérfróða gesti. Eftir því sem fleiri koma á fund nefndarinnar, þeim mun fleiri spurningar vakna um það, hvers vegna í ósköpunum flokkarnir að baki ríkisstjórninni ákveða að stofna til umræðna um þessi álitamál núna.

Ég ítreka þá skoðun mína, að eina atriði þessara tillagna, sem eðlilegt er að afgreiða núna, snýst um aðferðina við að breyta stjórnarskránni, það er flytja valdið að hluta í hendur þjóðarinnar beint með því, að skylt verði að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar. Sé þessi breyting gerð, kemur hún á móts við hugmyndina um stjórnlagaþing.

Til að fleiri komi að gerð stjórnarskrárinnar en þingmenn er eðlilegt að skipa eða kjósa þinginu ráðgjafarnefnd um breytingar á stjórnarskrá, nefnd, sem yrði falið að semja tillögur og kynna á fundum um land allt, áður en þær yrðu lagðar fyrir alþingi til samþykktar eða synjunar. Með slíkri skipan yrði komið til móts við hugmyndina um stjórnlagaþing og siglt fram hjá hinum óheyrilega kostnaði, sem slíku þingi fylgir.

Ég gekk til starfa í sérnefndinni með opnum huga og án þess að hafa myndað mér ígrundaða skoðun fyrir fram um einstakar greinar frumvarpsins. Eftir að hafa rætt frumvarpið í fjóra daga í þessari viku og hlustað á sjónarmið gesta sérnefndarinnar, er ég sannfærður um, að samþykkt þessa frumvarps mundi aðeins gera illt verra. Þá tek ég undir með Tryggva Gíslasyni, fyrrverandi skólameistara MA, þegar hann segir í bréfi til okkar þingmanna, að það hafi verið mistök að leita ekki sátta við Sjálfstæðisflokkinn, áður en frumvarpið var lagt fram á alþingi. Það er með öllu ófært að afgreiða mál af þessu tagi í ósátt á alþingi.

Úr því að ríkisstjórnin undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur hafði ekki rænu á að vinna þetta mál í samræmi við hefðir um breytingu á stjórnarskránni, reynir meira en ella á Valgerði Sverrisdóttur, formann sérnefndarinnar. Henni ber að leita sátta í nefnd sinni.

Fimmtudagur 19. 03. 09. - 19.3.2009 21:56

Í dag féll héraðsdómur í fíkniefnamáli, sem er sögulegur vegna aðferða lögreglu við að færa sönnur fyrir réttmæti ákæru sinnar. Sakfelling byggðist á öflugri rannsóknarvinnu lögreglu, það er nákvæmri rannsókn á símagögnum og samkeyrslu þeirra á grundvelli sérþekkingar starfsmanna upplýsinga- og áætlanadeildar embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá skipti tækni við yfirheyrslur og tækjabúnaður í hljóð og mynd miklu.  Málinu hefur verið áfrýjað til hæstaréttar og mun niðurstaða hans skipta miklu um tæknilega framvindu við uppljóstrun mála og sönnunarfærslu.

Fréttir af því, að fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi fundið kannabisplöntur í ræktun í stóru iðnaðarhúsnæði á melunum við rætur Esju, sýna, hve bíræfnir fíkniefnasalar eru orðnir í landinu. Lögregla beitir einnig nýjum úrræðum á þessu sviði.

Um leið og lögreglu er óskað til hamingju með þennan árangur, skal áréttuð nauðsyn þess að skipulagi, þjálfun og tækjabúnaði sé hagað á þann veg, að metnaður einstakra lögreglumanna og alls liðsins fái notið sín sem best.

Skýrt var frá því undir kvöld, að Jóhanna Sigurðardóttir hefði ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Samfylkingunni og brugðist þannig við fjölda áskoranna.

Vorhefti tímaritsins Þjóðmála er nú til sölu í bókaverslunum auk þess, sem unnt er að kaupa það í net-bókaversluninni á www.andriki.is Þá má gerast áskrifandi með því að senda bréf á nb@simnet.is - ársáskrift (4. hefti) er 4.500 krónur, ef greitt er með kreditkorti annars 4.750 kr. Með þessu hefti hefst fimmti árangur tímaritsins, sem Jakob F. Ásgeirsson ritstýrir. Ég hvet lesendur síðu minnar til að gerast áskrifendur að þessu ágæta tímariti.

 

Miðvikudagur, 18. 03. 09. - 18.3.2009 21:12

Sérnefnd um stjórnarskrármál kom saman til fundar klukkan 18.00 í dag og var sérstaklega rætt um 1. gr. frv. um breytingu á stjórnarskránni, en það snýst um þjóðareign á náttúruauðlindum og umhverfisrétt. Af viðræðum við gesti nefndarinnar dreg þá ályktun, að mjög óvarlegt sé að samþykkja ákvæðið í þeim búningi, sem þar er. Gestir kvarta auk þess undan þeim hraða, sem er á afgreiðslu málsins, enda er með öllu ástæðulaust að ætla að ljúka á einni viku eða tveimur umræðum um mál, sem skapar útgerð og þar með fiskvinnslu réttaróvissu. Að veikja grundvöll sjávarútvegsins getur varla samrýmst yfirlýstu markmiði ríkisstjórnarinnar, að bæta hag heimila og fyrirtækja - eða hvað?

Í kvöldfréttum ríkisútvarpsins sagði meðal annars:

„Fresta þurfti fundi alþingis í hádeginu svo hægt væri að smala nægilega mörgum þingmönnum í þingsal til atkvæðagreiðslu. Meðal mála sem rædd voru á alþingi í dag var efling kræklingaræktar og ferðaþjónusta á Melrakkasléttu. Rúm vika er til áætlaðra þingloka. .....

Við upphaf þingfundar í dag voru fáir í þingsal, svo fáir að forseti Alþingis þurfti að fresta fundi svo hægt væri að smala í þingsal vegna atkvæðagreiðslu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það gerist. “

Ég var í þingsalnum, þegar forseti varð að blása af fund vegna fámennis við atkvæðagreiðslu. Það er fyrst og síðast hlutverk þingflokksformanna stjórnarflokkanna, Lúðvíks Bergvinssonar, Samfylkingu, og Jóns Bjarnasonar, vinstri-grænum, að sjá til þess, að nógu margir þingmenn séu í salnum til að afgreiða mál. Mannfæð skrifast á skipulagsleysi við þinghaldið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.

Stjórnarflokkunum ferst ekki að gagnrýna okkur sjálfstæðismenn fyrir að taka til máls á þingi, á meðan þeir geta ekki séð til þess, að mál séu afgreidd vegna skorts á þingmönnum við atkvæðagreiðslu.

Þriðjudagur, 17. 03. 09. - 17.3.2009 9:39

Annar fundur sérnefndar um breytingu á stjórnarskránni var haldinn klukkan 10.00 í morgun og þangað komu lögfróðir menn úr ýmsum áttum og gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum. Hér verða þau ekki rakin. Umræðurnar um frumvarpið fara óhjákvæmilega út og suður, því að í því er hrúgað saman ólíkum viðfangsefnum og áhugasvið viðmælanda mismunandi.

Á bloggsíðunum sýnist mér menn hafa mestan áhuga á stjórnlagaþinginu, eða því, sem Illugi Jökulsson nefnir „óháð Alþingi“ en nafngift af því tagi sýnir best út í hvaða ógöngur menn rata í þessum umræðum. Óháð Alþingi? Hvað er það? Halda menn, að engin stjórnmálaviðhorf komi við sögu, ef farið verður inn á þá braut að kjósa sérstakt stjórnlagaþing?

Hugmyndin í frumvarpsdrögunum er þannig, að búast má við mörg hundruð nöfnum á framboðslistum til þingsins. Hvergi er þess krafist, að þeir, sem bjóði sig fram séu óháðir, þótt þeir megi ekki sitja á alþingi heldur aðeins hinu „óháða Alþingi.“ Eru fyrrverandi þingmenn nægilega „óháðir“ til að geta boðið sig fram? Mega þeir ekki eins og aðrir safna nöfnum 50 einstaklinga á bakvið sig til að komast á framboðslistann? Hver er svo barnalegur að halda, að stjórnmálaflokkar hafi ekki afskipti af vali manna á stjórnlagaþing?

Grátbroslegt er að lesa yfirlýsingar um, að ekki megi ræða kostnað vegna stjórnlagaþings. Þegar fjármálaráðuneyti telur, að þingið kosti 1700 til 2100 milljónir króna, er skellt í góm og spurt: Hvað með það? Er unnt að verðleggja lýðræðið? Þannig var líka talað um útrásina á sínum tíma: Hvað, forsetinn, á hann ekki að leggja þeim lið, sem eru að auka auð og virðingu þjóðarinnar um heim allan? Heldurðu kannski, að hann eigi bara að sýna fornmuni í kjallara Bessastaða?

Svo segir Valgerður Sverrisdóttir, nefndarformaður, að sérnefndin eigi að snúa sér að því að lækka kostnað við stjórnlagaþingið, en nefndin er kjörin til ræða breytingar á stjórnarskránni, áður en stjórnlagaþingið kemur saman. Lög um stjórnlagaþingið verða ekki samþykkt fyrr en eftir kosningar samkvæmt frumvarpinu, sem Valgerður er að reyna að leiða til lykta.

Nú fá þingmenn hóp-tölvupóst um, þar sem krafist er, að ráðnir verði erlendir sérfræðingar til að leiða rannsókn á bankahruninu, að bankaleynd verði aflétt strax og að frumvarp um stórauknar heimildir rannsakenda verði lagt fram hið fyrsta, bæði svo hægt sé að hefja rannsóknina, og svo sjáist,  hvaða þingmenn vilja alvöru rannsókn og hverjir vilja enga rannsókn, þetta sé mikilvægt að vita fyrir kosningar.

 

Lesa meira

Mánudagur, 16. 03. 09. - 16.3.2009 21:11

Fyrsti fundur sérnefndar um stjórnarskrármál undir formennsku Valgerðar Sverrisdóttur var haldinn klukkan 10.15 og kom þangað ráðgjafanefndin, sem samdi frumvarpið um breytingu á stjórnarskránni og um stjórnlagaþingið og fór yfir efni frumvarpanna. Þá var lagt fram kostnaðarmat fjármálaráðuneytis vegna stjórnlagaþings og er talið, að það kosti á bilinu 1700 til 2100 milljónir króna að efna til þingsins.

Ég sé, að framsóknarmenn eru farnir að kveinka sér undan þessum háu tölum og segjast hafa lagt fram tillögur um stjórnlagaþing, sem hefði átt að kosta 300 m.kr. en samstarfsmenn þeirra um ríkisstjórnina hafi heimtað höfundarrétt og gert þetta allt miklu dýrara. Um þetta á sem sagt að ræða í þessari sérnefnd nú síðustu daga þingsins og það á mikilli hraðferð, ef ég skil það rétt, vegna þess að um stjórnarskrármálin hafi verið rætt svo lengi áður! Vinnubrögðin eru dæmalaus, hvernig sem á þau er litið.

Ég frétti af því, að Siv Friðleifsdóttir. þingmaður Framsóknarflokksins, hefði reitt Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, til reiði í einhverjum útvarpsþætti með því að vitna til orða minna í þingræðu hinn 11. mars sl. um, að Björgvin hefði sem viðskiptaráðherra lagst gegn tillögum mínum um víðtækar rannsóknarheimildir sérstaks saksóknara. Þar þykir mér lítið leggjast fyrir kappann.

Hér má sjá ræður mínar um þetta mál á þingi 11. mars sl. Þar kemur ekki aðeins fram, að Björgvin hafi lagst gegn víðtækum heimildum heldur einnig, að Jóhanna Sigurðardóttir taldi, að ekki mætti verja of miklum fjármunum til embættisins. Það var einkenni Jóhönnu að rýna nákvæmlega í kostnaðarmat allra frumvarpa. Mátti helst skilja athugasemdir hennar á þann veg, að hún teldi fjármunina betur komna í einhver verkefni á vegum eigin ráðuneytis en annarra. Á rúmlega 12 ára ráðherraferli kynntist ég þessari afstöðu aðeins hjá henni.

 

Sunnudagur, 15. 03. 09. - 15.3.2009 6:56

Prókjörshelgin mikla er að renna sitt skeið. Sjálfstæðismenn í suðurkjördæmi kusu Ragnheiði Elínu Árnadóttur í fyrsta sæti á lista sínum og er það sögulegur árangur hjá henni, því að aðeins eru fáeinar vikur síðan hún ákvað að leita eftir þessu sæti og flytja sig úr suðvesturkjördæmi. Kristján Þór Júlíusson hlaut öruggt endurkjör í fyrsta sæti hjá sjálfstæðismönnum í norðausturkjördæmi en nýliðinn Tryggvi Þór Herbertsson hlaut annað sæti.

Heimir Már Pétursson flutti enn eina samfylkingarfréttina á Stöð 2 um, að Jóhanna Sigurðardóttir mundi segja frá því innan skamms, að hún yrði næsti formaður Samfylkingarinnar. Hún hefði fengið áskorun með nöfnum 150 þungavigtarmanna í flokknum sl. föstudag. Þetta er að gerast í bakherbergjum flokks, sem lætur eins og hann og aðeins hann vilji bregðast við kröfum fólksins með auknu lýðræði.

Jón Baldvin Hannibalsson sagði á sínum tíma, að hann ætlaði að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar, ef Jóhanna tæki formennskuna ekki að sér. Útreið Jóns Baldvins í Reykjavíkurprófkjörinu, þar sem hann vermdi eitt af neðstu sætunum, breytir honum í pappírstígrisdýr í hugsanlegum formannsslag. Sú staðreynd dregur líklega ekki úr ótta elítunnar innan Samfylkingarinnar við formannskjör.

Samkvæmt fréttum Stöðvar 2 er deilt um úrslit hjá Samfylkingunni í suðvesturkjördæmi, þar sem 150 utankjörstaðaatkvæðum var hafnað af kjörstjórn en krafa er um, að þau verði tekin gild og talin. Árni Páll Árnason, lýstur sigurvegari í prófkjörinu, vill varla, að óvissa ríki um umboð hans og hlýtur að samþykkja endurtalningu með öllum atkvæðum.

Árni Páll fer hins vegar ekki að neinum almennum leikreglum eins og sannaðist á þeim orðum, sem hann flutti meðal samfylkingarfólks í kjördæmi sínu að prófkjöri loknu, þegar hann hóf árásir á Sjálfstæðisflokkinn og mótframbjóðendur sína í honum með þeim orðum, að þar væri „sama stefnuleysið í nýjum pakkningum“.  Er undarlegt, að sjónvarp ríkisins sendi slíkan óhróður frá sér, án þess að gefa þeim færi á að svara, sem að er veist. Hitt er ekki síður sérkennilegt, að sjónvarpið segi frá úrslitum í prófkjöri sjálfstæðismanna í upphafi frétta með borða, þar sem á stendur: Lítillækkandi undir myndum af frambjóðendum. Sé þetta ekki lituð fréttamennska, er erfitt að finna hana.

 

Lesa meira

Laugardagur, 14. 03. 09. - 14.3.2009 20:37

Ný samhent forysta fæðist í Sjálfstæðisflokknum í kvöld, þegar þeir ná kosningu í fyrsta sæti í suðvesturkjördæmi og Reykjavík Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson. Stökkið hefur verið tekið frá kynslóð okkar, sem náðum kjöri 1991 og þar áður, til nýrrar kynslóðar. Þá koma þau sterk til leiks Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Pétur H. Blöndal. Ólöf Nordal býður sig fram í fyrsta sinn í Reykjavík og nær góðu sæti á listanum. Óli Björn Kárason sækist í fyrsta sinn eftir kjöri og flýgur að því er virðist baráttulaust í fimmta sæti í suðvesturkjördæmi, glæsilegur árangur. Almennt getur þingflokkurinn vel við unað, þótt sætin séu ekki endilega þau, sem að var stefnt. Ég færi frambjóðendum og flokknum heillaóskir.

Úrslitin í Samfylkingunni sýna minni samheldni en í Sjálfstæðisflokknum, þegar litið er til þess, að tveir ráðherrar rúlla niður listana, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir í Reykjavík og Þórunn Sveinbjarnardóttir í suðvesturkjördæmi. Úrslitin fóru eftir pöntun flokksforystunnar í Reykjavík, Jóhanna og Össur í efstu sætunum en Össur með mun færri atkvæði en Jóhanna. Mörður Árnason er varla í augsýn og á líklega ekki eftir að lífga upp á þingstörf með léttleika sínum og jákvæðum athugasemdum á næsta kjörtímabili.

Árni Páll Árnason sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi. Þar hafði verið talið, að með því einu að bjóða sig fram mundi Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sigra, hann varð hins vegar í þriðja sæti á eftir Árna Páli og Katrínu Júlíusdóttur. Líklegt er, að engum detti lengur í hug, að Lúðvík sækist eftir formennsku í Samfylkingunni. Víst má hins vegar telja, að nú hugi Árni Páll að því að bjóða sig fram til formennsku en fyrir prófkjörið hafði hann boðið sig fram sem varaformann.

Hafi úrslit prófkjaranna í dag innsiglað framvindu formannsmála í Sjálfstæðisflokknum hafa þau galopnað formannsmálin í Samfylkingunni. Líklegast, að nú verði meira kapp lagt á það en áður, að knýja Jóhönnu Sigurðardóttur til að axla formennskuna til tveggja ára. Sættir Árni Páll sig við það?

Föstudagur, 13. 03. 09. - 13.3.2009 17:24

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra boðaði til þingkosninga 25. apríl og rauf þing frá og með þeim degi og telur sig með því koma í veg fyrir, að lögmæti ákvarðana alþingis næstu daga sé dregið í efa.

Þegar stjórnarskránni var breytt 1991 og ákveðið, að þing sæti áfram þrátt fyrir þingrof, gerði nefndin, sem fjallaði um frumvarpið, ráð fyrir því, að eftir þingrof, það er boðun kosninga, ætti alþingi aðeins að fjalla um brýn úrlausnarefni, sem sátt væri um meðal þingmanna. Nú er skautað fram hjá vandanum vegna þingrofs með því að rjúfa ekki þing fyrr en á kjördegi. Það má því segja, að í dag hafi verið boðað til kosninga. Í Danmörku leiðir slík boðun til þess, að þingmenn hefja kosningabaráttu tafarlaust og hverfa úr þingsalnum.

Hér er sagt, að ástandið sé svo óvisst, að þingið verði að halda áfram störfum. Þeir, sem þannig tala hafa aðeins fengið eitt frumvarp um hag heimila samþykkt sem lög síðan ríkisstjórnin kom til starfa 1. febrúar. Einum þingdegi var kastað á glæ, af því að ekki fékkst nefndarálit á seðlabankafrumvarpi. Ólokið er afgreiðslu ágreiningsmála um breytingu á kosningalögum og stjórnarskránni, sem sem snerta hag heimila og fyrirtækja ekki á nokkurn hátt. Bæði málin kalla vafalaust á langar umræður en er haldið til streitu af ríkisstjórninni.

Ágreiningur er innan ríkisstjórnarflokkanna um frumvarp til laga vegna álvers í Helguvík en samþykkt þess leggur grunn að mörg hundruð ef ekki þúsund nýjum störfum og snertir mjög hag heimila og fyrirtækja. Óvissa er um, hvort ríkisstjórnin kemur þessu máli í gegnum nefndir þings.

Fórum klukkan 18.00 í hóf laganema Háskólans í Reykjavík (HR) í Valsheimilinu og þar flutti ég hátíðarávarp. Síðan fórum við á árshátíð HR í Fífunni í Kópavogi.

Fimmtudagur, 12. 03. 09. - 12.3.2009 21:05

Þeir ættu að biðja okkur sjálfstæðismenn afsökunar, sem réðust á okkur í upphafi vikunnar fyri að tefja störf alþingis með málþófi. Við nýttum rétt okkar til að tala í málum, sem nauðsynlegt er að skýra og reifa. Sérstaklega þótti mér Morgunblaðið verða sér til skammar með því að fara út í foraðið með Merði Árnasyni.

Heimir Már, fréttamaður á Stöð 2, var að segja fréttir af þingi í kvöld og hélt þar fram, að við sjálfstæðismenn hefðum rætt stjórnarskrármál fyrir auðum sal fram til klukkan 23.00 í gærkvöldi. Þetta er gjörsamlega úr lausu lofti gripið. Þingstörf í gærkvöldi snerust um allt annað, því að stjórnarskrárumræðunum lauk klukkan 16.00 í gær samkvæmt samkomulagi um það, hvernig þeim skyldi háttað. Í gærkvöldi var tveimur málum, þar sem ég er fyrsti flutningsmaður, vísað umræðulaust til þingnefnda - ég flutti ekki einu sinni framsöguræðu og greiddi þannig fyrir þingstörfum.

Ríkisstjórninni og framsóknarmönnum er fullljóst, að við munum beita því afli, sem við höfum til að koma í veg fyrir afgreiðslu á frumvarpinu um breytingu á stjórnarskránni í þeirri mynd, sem það er nú. Þeim er einnig ljóst, að við erum tilbúnir til að semja um málið á þann veg, að ákvæðið um það, hvernig stjórnarskránni verði breytt í framtíðinni nái fram að ganga. Þetta er sanngjörn lausn og með henni er unnt að ljúka öllum málum á þingi á skömmum tíma okkar vegna.

Líklega er borin von, að þeir, sem standa að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur átti sig á skynsemi þess, að ljúka þingi sem fyrst, eftir að það hefur verið rofið, eins og gert verður á morgun. Að halda þingi áfram, eftir að það er rofið, er þverstæða og óskiljanlegt, að Jóhanna Sigurðardóttir tali eins og ekkert sé eðlilegra. Þegar stjórnarskránni var breytt 1991 og ákveðið að umboð þingmanna rynni ekki út við þingrof, var það gert til að koma í veg fyrir, að forsætisráðherra, sem hefði ekki meirihluta þings að baki sér gæti rofið þing, en það gerðist 1974.

Í Danmörku en þangað sækjum við fyrirmynd í stjórnskipunarmálum hverfa þingmenn snarlega á brott, þegar forsætisráðherra hefur boðað til kosninga eins og felst í ákvörðun um þingrof. Þar hefur þing víst einu sinni komið saman, eftir að hafa verið rofið, það var til að efna til málamyndaumræðna vegna stefnuræðu forsætisráðherra en um tímasetningu hennar gilda stjórnarskrárákvæði í Danmörku.

Losaraleg túlkun á ýmsum grunnreglum stjórnskipunarinnar við myndun og síðan í störfum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur vekur efasemdir um, að forsætisráðherrann átti sig á ábyrgð sinni. Hitt kemur ekki á óvart, að hún hafi ráð um eðlilega varúð að engu eða láti stjórnarskrána ekki njóti vafans, sem var þó höfuðmál hennar og Steingríms J. Sigfússonar í stjórnarandstöðu. Nú er allt sagt leyfilegt, af því að fólkið heimti það!

Miðvikudagur, 11. 03. 09. - 11.3.2009 17:56

Utanríkismálanefnd alþingis kom saman klukkan 10.15 í morgun. Dr. Valur Ingimundarson prófessor kom á fund hennar og gerði grein fyrir skýrslu hættumatsnefndar, sem hóf störf í nóvember 2007 og hefur nú lagt mat á hættur, sem kunna að steðja að Íslendingum og Íslandi.

Álitið er ítarlegt, um 150 blaðsíður, og leggur grunn að málefnalegum umræðum um stöðu Íslands og úrræðum til að tryggja öryggi landsmanna sem best.

Þingfundur hófst klukkan 12.00 á umræðum um störf þingsins en undir þeim lið geta þingmenn rætt hvaðeina, sem þeim liggur á hjarta þann daginn. Ég undrast, hve samfylkingarþingmönnum er ESB-aðild ofarlega í huga í ljósi þess, að þeir eru í samstarfi við vinstri-græna og leggja fram tillögu um breytingu á stjórnarskránni, án þess að þar sé tekið á því álitaefni, hvernig henni skuli breytt, ákveði Íslendingar að ganga í sambandið.

Klukkan rúmlega 14.00 hófst lokaþáttur fyrstu umræðu um breytingar á stjórnarskránni. Upphaf fundar tafðist, vegna þess að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var ekki í þinghúsinu, en hún er fyrsti flutningsmaður málsins. Umræðunum lauk rétt um klukkan 16.00.

Í greinargerð með frumvarpinu eru vangaveltur um, að ákvæði þess um náttúruauðlindir sem þjóðareign auðveldi varðstöðu gagnvart yfirráðakröfum Evrópusambandsins, ef í það yrði gengið. Ég dreg í efa, að þessi ályktun um efni greinarinnar standist og í ræðu minni spurði ég vinstri-græna, hvort þeir væru sammála textanum í greinargerðinni. Atli Gíslason svaraði því neitandi fyrir þeirra hönd.

Í máli okkar sjálfstæðismanna kom fram, að við gætum fellt okkur við tillöguna í 2. gr. frv. um breytingu á 79. gr. stjórnarskrárinnar í þá veru, að samþykkt alþingis um breytingu á stjórnarskránni skuli borin undir þjóðina í sérstakri atkvæðagreiðlsu og ekki taka gildi, nema hún sé samþykkt í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að mínu áliti yrðu það farsælar lyktir þessara umræðna um breytingu á stjórnarskránni, að slík breyting næði fram að ganga og annað yrði látið bíða að sinni. Fallist stjórnarsinnar ekki á málamiðlun af þessu tagi er líklegt, að stjórnarskrármálið þvælist fyrir þingstörfum, þar til þeim verður að ljúka vegna kosninganna 25. apríl og engu takist að hnika í stjórnarskránni.

Fráleitt er að saka okkur sjálfstæðismenn um að tefja fyrir þingstörfum, þegar við lýsum skoðun okkar á breytingum á stjórnarskránni. Stjórnarflokkarnir og stuðningsflokkar þeirra ákveða að leggja þetta mál fram á lokadögum þings og verða að sætta sig við, að um það sé rætt.

Ég tek hjartanlega undir það, sem segir á amx.is í dag um skrif staksteinahöfundar Morgunblaðsins um þingstörfin - þessi skrif eru á of lágu plani fyrir blaðið.

Þriðjudagur, 10. 03. 09. - 10.3.2009 19:51

Umræður á alþingi snúast nú um frumvarp til breytinga á stjórnarskránni. Þetta er skrýtið frumvarp, því að gert er ráð fyrir að breyta stjórnarskránni en boða jafnframt til stjórnlagaþings til að breyta henni aftur. Kostnaður við stjórnlagaþing er talinn geta numið allt að 1,5 milljarði króna.

Í ræðu minni um málið í dag sagði ég undarlegt, að hlusta á þingmenn, sem hefðu árum saman kvartað undan áhrifaleysi alþingis, leggja nú fram tillögu um að færa frá þinginu stjórnarskrárvaldið til sérstaks stjórnlagaþings. Miklu nær væri að halda þessu valdi hjá alþingi en efna síðan til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingu, sem þingið samþykkti.

Þá væri fráleitt að gera því skóna í greinargerð með frumvarpinu, að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum tryggði eitthvað gagnvart Evrópusambandinu. Hitt væri síðan enn til marks um tvískinnung Samfylkingarinnar, að í þessum tillögum væri ekki að finna ákvæði, sem heimilaði aðild að Evrópusambandinu, en án breytinga í þá átt þýddi ekki að tala um aðild.

Furðulegt er að hlusta á ásakanir í garð okkar sjálfstæðismanna um málþóf, vegna þess að við ræddum frumvarp um úttekt á séreignasparnaði á þingi fram á kvöld í gær.

Ég sé, að áhugamenn um síðuna mína hafa leitað logandi ljósi að því, sem ég hef sagt um málþóf undanfarin 14 ár. Eftirtekjan er frekar rýr, eins og sjá má hér. Fráleitt er, að nokkur þingmaður sé andvígur málþófi. Við sjálfstæðismenn höfum ekki beitt málþófi á þessu þingi og ekki tekið neitt mál í gislingu eins og gjarnan er gert með því að beita þessari aðferð. Í þingflokki okkar eru 26 þingmenn og vilji margir tala í einhverju máli tekur það vissulega sinn tíma. Við búum ekki við skert málfrelsi. Að líta þannig á, að aðeins andstæðingar í stjórnmálum megi nýta sér rétt til andsvars, stenst ekki gagnrýni. Engum dytti í hug að setja ákvæði um slíkt í þingsköp.

Ríkisútvarpið heldur úti tveimur fréttamönnum til að segja frá því, sem gerist á alþingi. Fréttir um, að við sjálfstæðismenn séum með málþóf, endurspegla líklega, að fréttamennirnir telja sig ekki hafa frá neinu að segja, þegar við sjálfstæðismenn tölum, því að frásagnir þeirra byggjast ekki á því, hvað er fréttnæmt, heldur hverjir tala.

Mánudagur, 09. 03. 09. - 9.3.2009 22:45

Klukkan 18.00 var ég í Grafarvogskirkju og las 9. passíusálm.

Þetta skrifa ég á alþingi, þar sem enn er fundað klukkan 22.30 en til umræðu hefur verið frumvarp til laga, sem snýst um heimild manna til að nýta séreignasparnað sinn. Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, dró breytingartillögu sína við frumvarpið til baka til 3. umræðu og hefur hún farið fram undanfarnar klukkustundir, þar sem einkum við sjálfstæðismenn höfum rætt málið og velt fyrir okkur þeim kostum, sem fyrir hendi eru.

Fyrir um það bil klukkustund fóru stjórnarsinnar að ókyrrast vegna þessara umræðna og var það einkum Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sem fór með nokkru óðagoti um þingsalinn. Þá kom Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri grænna, á vettvang og flutti dæmalausa hávaðaræðu yfir okkur sjálfstæðismönnum og sakaði okkur um ómálefnaleg vinnubrögð og málþóf.

Stjórnarsinnar fóru þó yfir strikið í málflutningi sínum, þegar Grétar Mar Jónsson, þingmaður frjálslynda hóf umræður um fundarstjórn forseta. Lét Grétar eins og hann hefði fylgst með umræðum um málið en málflutningur hans bar þess glögg merki að svo hafði ekki verið. Væri gefið út sérprent með ræðum Grétars Mars myndu margir klóra sér í höfðinu og undrast.

Þetta upphlaup stjórnarsinna tafði umræður um séreignasparnaðinn og ráðstöfun hans í rúmar 30 mínútur.

Forseti þingsins ákvað að halda umræðum áfram og sagði, að það yrði eitthvað fram í nóttina, eins og það var orðað.

ps. þegar ég sá, að ég hafði kennt stjórnarsinna við stjórnarandstöðu leiðrétti ég textann hér að ofan. Ástæðan fyrir þessari misritun hefur verið hughrifin af því að verða vitni að ofsanum, sem er frekar einkenni stjórnarandstöðu en stjórnarsinna.

Sunnudagur, 08. 03. 09. - 8.3.2009 19:15

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir boðaði skyndilega til blaðamannafundar í dag og sagðist vera hætt afskiptum af stjórnmálum að svo stöddu vegna heilsubrests. Að sjálfsögðu ber Ingibjörgu Sólrúnu að setja heilsu sína í fyrsta sæti og óska ég henni góðs bata.

Eftir þrjár vikur gengur Samfylkingin til landsþings, þar sem nýr formaður verður kjörinn. Í dag tala hugsanlegir frambjóðendur óljósum orðum um áform sín en Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson segjast ekki ætla að gefa kost á sér.

Þrátt fyrir yfirlýsingu Jóhönnu er látið eins og lagt verði svo hart að henni að gefa kost á sér til formanns, að hún geti annað en látið undan þrýstingnum, enda muni allir máttarstólpar flokksins beita honum. Að telja vinnubrögð af þessu tagi sjálfsögð í stað þess að ganga hreinlega til formannskosninga, sýnir, hve innviðir Samfylkingarinnar eru veikir og hve mikill ótti ríkir þar innan dyra við að upp úr sjóði milli stríðandi fylkinga.

Þessi þörf fyrir foringjaræði er í senn arfur frá sósíalistaflokknum og arftaka hans Alþýðubandalaginu og frá Alþýðuflokknum. Flokkarnir hafa klofnað út og suður í áranna rás og vilja foringjarnir frekar nota plástra en að sárin opnist.  Jóhanna átti þátt í einum klofningi með því að stofna Þjóðvaka árið 1994. Síðan vita samherjar hennar, að hún er til alls vís, fái hún ekki sitt fram. Óðagotið á ríkisstjórn Jóhönnu endurspeglar pólitískt skapferli hennar. Þar eiga helst allir hlutir að gerast í gær.

Sumarið 1994 tókst með lagni að halda Jóhönnu í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fram yfir 50 ára lýðveldishátíðina á Þingvöllum, þrátt fyrir ágreining hennar við Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson, ráðherra Alþýðuflokksins. Nú gengst Jón Baldvin upp í því að mana Jóhönnu til að taka að sér formennsku í Samfylkingunni. Að öðrum kosti segist hann tilbúinn til að taka flokkinn á eigin herðar, flokkinn, sem ekki var unnt að stofna, fyrr en Jón Baldvin hætti beinni þátttöku í stjórnmálum, þótt hann væri alltaf með sameiningu vinstri manna á vörunum.

Laugardagur, 07. 03. 09. - 7.3.2009 22:32

Björgvin G. Sigurðsson sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi og segist ekki sist þakka það, að hann sagði af sér embætti viðskiptaráðherra að morgni sunnudagsins 25. janúar. Það var sama dag og þau Ingibjörg Sólrún og Össur settu Geir H. Haarde þann kost, að hann yrði að hætta sem forsætisráðherra til að Samfylkingin yrði áfram í ríkisstjórn. Geir baðst lausnar daginn eftir og ríkisstjórnin lét af störfum sunnudaginn 1. febrúar og Björgvin G. með okkur hinum, af þvi að ekki var unnt að verða við ósk hans um afsögn.

Kristján Möller, samgönguráðherra, sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar i norðausturkjördæmi. Jóhanna Sgurðardóttir forsætisráðherra verður í fyrsta sæti Samfylkingar i Reykjavík, Ingibjörg Sólrún í öðru og Össur í þriðja.

Þetta kallast endurnýjun innan Samfylkingarinnar og á álíka mikið erindi sem svar við bankahruninu og breyting á kosningalögum og stjórnarskrá, sem ég ræði í pistli mínum í dag.

Hafi utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir rætt við utanríkisráðherra annarra landa um Icesave-málið og haldið fram málstað þjóðarinnar skuldar hún ríkisstjórn, utanríkismálanefnd og þjóðinni allri skýrslu um það. Ég fjallaði um Icesave-málið í grein á amx.is í vikunni.

Föstudagur, 06. 03. 09. - 6.3.2009 19:56

Björg Eva Erlendsdóttir, ritstjóri Smugunnar, málgagns vinstri-grænna, var holl stefnu Smugunnar gegn lögreglu í Kastljósi kvöldsins, þegar hún gagnrýndi aðgerðir til að koma í veg fyrir, að hingað kæmu fulltrúar Hell's Angels til að samfagna með Fáfni, stuðningsklúbbi Vítisenglanna.

Þrátt fyrir skrif Smugunnar og gagnrýni annarra á lögreglu vegna varðstöðu hennar um alþingi og stjórnarráðið mælist traust til hennar meðal þjóðarinnar 79%, aðeins Háskóli Íslands mælist með meira traust, 80%. Ég óska lögreglumönnum til hamingju með þessa niðurstöðu.

Viðbúnaður lögreglu síðustu mánuði fyrir jól og síðan átök vegna mótmæla eftir jól hafa leitt til óvæntra útgjalda. Má ætla, að embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þurfi að fá um 150 m. kr. aukafjárveitingu til að halda í horfinu. Þá þarf að fjárfesta í nýjum búnaði fyrir lögreglu eftir átökin í janúar og er þar vafalaust um nokkra tugi milljóna króna að ræða.

Fréttir berast af því, að landhelgisgæsla sé að draga saman seglin til að mæta auknum kostnaði vegna gengislækkunar.

Á sama tíma og grunnstofnanir ríkisins og öryggis til lands og sjávar búa við of þröngan fjárhagsramma flytur Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra framsöguræðu á þingi fyrir frumvarpi um stjórnlagaþing, sem mun  líklega kosta allt að einum og hálfum milljarði króna að halda.

Þessa forgangsröðun við ákvörðun opinberra útgjalda má rekja beint til myndunar minnihlutastjórnar Jóhönnu, því að ákvörðun framsóknarmanna um að verja stjórnina vantrausti var þessu verði keypt. Framsóknarmenn kasta fram einhverjum hugdettum og setja á þær það verð, að aðrir skuli taka að sér að hrinda þeim í framkvæmd til að kaupa stuðning þeirra. 

Fimmtudagur, 05. 03. 09. - 5.3.2009 10:16

Var í kvöld í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins og ræddi um stjórnskipun og stjórnsýslu.

Fyrr í dag flutti ég ræðu á þingi um frumvarp til breytinga á kosningalögum til að tryggja þar rétt til persónukjörs. Ég taldi frumvarpið vanbúið, þar sem ekki hefði verið unnið að undirbúningi þess í nægu samráði stjórnmálaflokka. Fráleitt vært, að þetta frumvarp breytti einhverju um úrræði til að takast á við bankahrunið. Þá væri einnig fráleitt að líta á það, sem vopn gegn flokksræði. Það auðveldaði hins vegar áróður með og gegn einstökum frambjóðendum og hefði ég kynnst því fyrir síðustu kosningar, þegar forystumaður viðskiptaveldis hefði beitt fé sínu til að auglýsa gegn mér daginn fyrir kjördag og hvatt til að strikað yrði yfir nafn mitt. Þessi breyting ýtti undir að slíkum aðferðum yrði breytt og gæti leitt til þess, að frambjóðendur yrðu hræddir við auðjöfra eða þrýstihópa. Hvort það væri rétta úrræðið vegna bankahrunsins að ýta undir slíkt?

Í hádeginu var ég í Dugguvogi 23, þar sem við nokkrir vinir Grétu Ingþórsdóttur komum saman í tilefni af því, að hún var að búa sig undir að opna formlega kosningaskrifstofu sína í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. Gerðum við nokkrar qi gong æfingar til að hækka orkustigið!

Í gærkvöldi flutti sjónvarp ríkisins sem fyrstu frétt að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefði sætt niðurskurði á undanförnum árum  og var gefið til kynna, að hún væri illa stödd. Í kvöld andmælti Ragna Árnadóttir, dóms - og kirkjumálaráðherra, efni þessarar fréttar, enda á hún ekki við rök að styðjast.

Hallgrímur Indriðason, fréttamaður á sjónvarpinu, hafði samband við mig í morgun og vildi ræða um efnahagsbrotadeildina og þessa frétt sjónvarpsins. Ég sá ekki ástæðu til að veita viðtal, en sendi Hallgrími þetta svar í tölvupósti:

Lesa meira

Miðvikudagur, 04. 03. 09. - 4.3.2009 11:29

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, bloggar mikið, oft á dag stundum. Hann var nýlega í Peking og komst þá að því, að hann gat ekki sent frá sér sitt daglega blogg, vegna þess að kínversk yfirvöld hafa lokað fyrir slíkt. Hér má sjá, hvernig sagt er frá þessu á síðu Bildts og eftir heimkomu frá Kína hefur hann áréttað, að slíkt blogg-bann er í gildi.

Ég var í Kína um mánaðamótin júní/júlí 2004 eins og sjá má hér á síðunni. Þá gat ég hindrunarlaust sent efni á síðuna mína og sannreyndi í sérkennilegum samskiptum við blaðamann Fréttablaðsins, að færslur fóru jafnharðan inn á síðuna. Reynsla Bildts segir mér, að kínversk yfirvöld hafi hert ritskoðunartökin á blogginu.

Ég hef haldið því fram og fært fyrir því rök, að óheppilegt og óvarlegt sé að standa þannig að skipun eða ráðningu í starf seðlabankastjóra, að óvissa vakni um lögmæti þess, sem hann tekur sér fyrir hendur, til dæmis að ákveða að hér skuli gilda gjaldeyrishöft fram á næsta haust. Hér er um lögfræðilegt álitamál að ræða og dómstólar eiga síðasta orð um þau.

Ég sé, að Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, fastagestur í Spegli RÚV og víðar, fer hörðum orðum um Steinunni Sigurðardóttur, rithöfund, í Fréttablaðinu í dag fyrir að hafa gagnrýnt, að Norðmaður skyldi settur í embætti seðlabankastjóra. Reiði Þórólfs byggist á því, að hann hafi í útvarpsviðtali mælt með „að kallaðir yrðu til erlendir sérfræðingar til að manna lykilstöður í íslensku fjármálalífi.“ Þykir honum mikil býsn, að einhver dragi réttmæti þessa í efa.

Málsvarar hins erlenda seðlabankastjóra hafa fundið sér til málsbóta, að Þorsteinn Pálsson hafi á sínum tíma sett erlendan mann, sem var að bíða eftir afgreiðslu á beiðni sinni um ríkisborgararétt, sóknarprest austur á landi.  Af því tilefni segir Þórólfur:

„Nú efast annar fyrrverandi kirkjumálaráðherra, Björn Bjarnason, um gildi ákvarðana núverandi seðlabankastjóra. Ætli hann vilji ógilda giftingar og greftranir austur á landi í leiðinni?“

Byggi Þórólfur ályktanir sínar um hagfræðileg mál á jafnvitlausum grunni og þessa spurningu til mín, gef ég ekki mikið fyrir þær, og skil enn síður en áður, hvers vegna stöðugt er leitað álits hans. Aðeins dómstólar geta sagt um það, hvort embættisathafnir prestsins hafi verið lögmætar eða ekki. Á það kynni að reyna í skilnaðarmáli og með öllu óþarft að hafa slíkt í oflætislegum flimtingum.

Þriðjudagur, 03. 03. 09. - 3.3.2009 22:12

Í síðustu viku flutti ég ásamt 15 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins frumvarp til breytinga á lögum í því skyni að banna fjármálafyrirtækjum að neita að veita eigendum hlutdeildarskírteina í fjárfestingarsjóðum upplýsingar, en slík synjun getur leitt til þess, að eigendunum sé gert ókleift að leiða fram nauðsynlegar sannanir til að gæta réttar síns gagnvart fjármálafyrirtækinu. Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir að með vísan til þagnarskyldu eða bankaleyndar sé gengið gegn eðlilegum rétti einstaklings til að gæta réttar síns.

Ekki hefur reynt á það fyrir íslenskum dómstólum hvort réttur viðskiptamanns til upplýsinga um meðferð á fjármunum hans sé ríkari en þagnarskylda og bankaleynd. Fyrir því hafa verið færð rök að ákvæðum um þagnarskyldu sé fyrst og fremst ætlað að tryggja hagsmuni viðskiptavina fjármálastofnana, sbr. t.d. sératkvæði í dómi Hæstaréttar í máli nr. 59/ 2006.

Þótt niðurstaða íslenskra dómstóla yrði sú að réttur einstaklings til upplýsinga verði viðurkenndur, yrði látið á það reyna, þykir eðlilegt að löggjafinn taki af öll tvímæli í þessu efni. Með því vinnst tvennt: réttaróvissu er eytt og þar með einnig nauðsyn þess að stofna sérstaklega til málaferla til að fá úr henni skorið. Loks er enginn vafi á því að samþykkt frumvarpsins yki aðhald og eftirlit með fjármálastofnunum.

Óskarsverðlaunamyndin um Mombai-drenginn, sem vann milljón, stendur vel fyrir sínu.

Mánudagur, 02. 03. .09. - 2.3.2009 20:51

Ótrúlegt var að heyra Jóhönnu Sigurðardóttur lýsa yfir því á alþingi í dag, að engu máli skipti, þótt þing yrði rofið, samt skyldi það sitja áfram að störfum, af því að hún þyrfti að koma svo mörgum málum í gegn og hefði aðeins fengið eitt afgreitt sem lög síðan hún varð forsætisráðherra.

Þessi framganga öll er svo yfirgengileg og úr takti við allt, sem tíðkast hefur í samskiptum þings og ríkisstjórnar, að ekkert orð Jóhönnu, Steingríms J. Sigfússonar eða Ögmundar Jónassonar í stjórnarandstöðu um nauðsyn þess, að ráðherrar sýndu alþingi virðingu, dugar til að lýsa óvirðingunni, sem þinginu er sýnd, þegar gefið er til kynna, að þingmenn eigi bara sætta sig við ráðherraduttlungana og seinagang þeirra við að ganga frá málum til framlagningar á þingi.

Það er í góðu samræmi við umsnúninginn í afstöðu þessa fólks til þingsins, að álitsgjafinn staðfasti, Egill Helgason, tekur undir með Jóhönnu, þegar hún lætur eins og þingmenn séu ekkert ofgóðir til að hlýða sér.

Nú kann einhver spekingurinn að segja, að ég hefði ekki skrifað á þennan veg, ef ég sæti í ríkisstjórn. Þessu svara ég einfaldlega á þann veg, að sæti ég undir forystu forsætisráðherra, sem sinnti embættisskyldum sínum eins og Jóhanna Sigurðardóttir gerir, mundi ég leggjast gegn því, að staðið yrði að málum á þann veg, sem hún boðar og vinna þeirri skoðun fylgis innan míns flokks.

Orðspor þjóðarinnar er að engu haft með því að ráða Norðmann sem seðlabankastjóra gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Lagt er á ráðin með forsætisráðherra Noregs um hvernig ríkisstjórn eigi að vera hér að kosningum loknum og hann blandar sér í íslensk innanríkismál með yfirlýsingum um rauðgræna stjórn að sinni fyrirmynd og fer síðan í heimsókn í Seðlabanka Íslands til einkafundar við landa sinn, hinn setta seðlabankastjóra.

Hvernig væri að sýna ríkisstjórninni kvikmyndina um Lénharð fógeta? Eða benda henni á nýútkomna ævisögu, sem heitir Amtmaðurinn á einbúasetrinu og snýst að öðrum þræði um aldalanga baráttu Íslendinga fyrir því, að æðstu embættismenn þjóðarinnar séu íslenskir.

Sunnudagur, 01. 03. 09. - 1.3.2009 17:18

Qi gong dögunum í Skálholti lauk með messu kl. 11.00, þar sem séra Egill Hallgrímsson, sóknarprestur, prédikaði og síðan hádegisverði. Við svo búið kvöddum við Kristinn Ólason, rektor Skálholtsskóla, sem skapaði okkur hina bestu aðstöðu.

Síðdegis heimsótti ég Sigurð Kára Kristjánsson, alþingismanna, sem opnaði prófkjörsskrifstofu í Skeifunni að viðstöddu miklu fjölmenni. Hann keppir að því að ná 2. til 3. sæti á lista okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík

Mér þykir skörin vera farin að færast upp í bekkinn, þegar ráðherrar og launaðir ráðgjafar þeirra í stjórnlagafræðum láta eins og ekki þurfi neitt að huga að stjórnarskrá og stjórnskipunarreglum, þegar erlendur ríkisborgari er settur sem seðlabankastjóri til bráðabirgða.

Öðru vísi mér áður brá. Jóhanna Sigurðardóttir hefur árum saman hefur flutt alls kyns stjórnlagatillögur á alþingi. Hún hefur á þeirri stundu, sem hún sat við að semja allt það tillöguflóð, örugglega ekki haft hugmyndaflug til að ímynda sér, að nokkrum forsætisráðherra dytti í hug að stíga þau stjórnsýslulegu og stjórnskipulegu óheillaskref, sem hún hefur stigið á stuttum ferli sínum í forsætisráðuneytinu.

Samkvæmt stjórnarskránni skulu íslenskir ríkisborgarar skipa íslensk embætti. Að þetta vefjist fyrir einhverjum er í raun ótrúlegt. Hitt er síðan með ólíkindum, að sú áhætta skuli tekin að ganga gegn þessu ákvæði, þegar seðlabankastjóri á í hlut. Við það vakna spurningar um, hvort ákvarðanir seðlabankastjórans kunni að verða taldar ógildanlegar. Er það brýnast nú að kalla slíka óvissu yfir íslenskt fjármálakerfi?

Það er til marks um þá stjórnarfarslegu firringu, sem ríkir, að í leiðara Morgunblaðsins laugardaginn 28. febrúar um setningu Norðmanns í embætti seðlabankastjóra skuli standa:

„Stjórnarandstaðan á Alþingi leggst vonandi ekki í fleiri lagakróka til að vefengja að rétt hafi verið að ráðningu hins nýja seðlabankastjóra staðið.“

Þetta snertir ekkert stjórnarandstöðuna á þingi. Málið snýr að lögmæti ákvarðana seðlabankastjóra, sem starfar við þessar aðstæður. Dómstólar eiga síðasta orð um lögmætið, hvorki ríkisstjórn, alþingi né sjálfur ritstjóri Morgunblaðsins.

Á fráfarandi seðlabankastjóra hefur verið pundað endalausum spurningum undanfarna mánuði vegna atvika í tengslum við bankahrunið. Fjölmiðlamenn hafa síður en svo sætt sig við svörin og jafnað viljað vita meira. Nú bregður svo við, að settur seðlabankastjóri segist ekki muna, hvenær hann var beðinn um að taka við embættinu við þessar sérkennilegu aðstæður - og enginn fjölmiðlamaður segir neitt. Forverarnir báru aldrei við minnisleysi - þeir hefðu betur gert það til að stöðva spurningaflóðið.