15.3.2009 6:56

Sunnudagur, 15. 03. 09.

Prókjörshelgin mikla er að renna sitt skeið. Sjálfstæðismenn í suðurkjördæmi kusu Ragnheiði Elínu Árnadóttur í fyrsta sæti á lista sínum og er það sögulegur árangur hjá henni, því að aðeins eru fáeinar vikur síðan hún ákvað að leita eftir þessu sæti og flytja sig úr suðvesturkjördæmi. Kristján Þór Júlíusson hlaut öruggt endurkjör í fyrsta sæti hjá sjálfstæðismönnum í norðausturkjördæmi en nýliðinn Tryggvi Þór Herbertsson hlaut annað sæti.

Heimir Már Pétursson flutti enn eina samfylkingarfréttina á Stöð 2 um, að Jóhanna Sigurðardóttir mundi segja frá því innan skamms, að hún yrði næsti formaður Samfylkingarinnar. Hún hefði fengið áskorun með nöfnum 150 þungavigtarmanna í flokknum sl. föstudag. Þetta er að gerast í bakherbergjum flokks, sem lætur eins og hann og aðeins hann vilji bregðast við kröfum fólksins með auknu lýðræði.

Jón Baldvin Hannibalsson sagði á sínum tíma, að hann ætlaði að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar, ef Jóhanna tæki formennskuna ekki að sér. Útreið Jóns Baldvins í Reykjavíkurprófkjörinu, þar sem hann vermdi eitt af neðstu sætunum, breytir honum í pappírstígrisdýr í hugsanlegum formannsslag. Sú staðreynd dregur líklega ekki úr ótta elítunnar innan Samfylkingarinnar við formannskjör.

Samkvæmt fréttum Stöðvar 2 er deilt um úrslit hjá Samfylkingunni í suðvesturkjördæmi, þar sem 150 utankjörstaðaatkvæðum var hafnað af kjörstjórn en krafa er um, að þau verði tekin gild og talin. Árni Páll Árnason, lýstur sigurvegari í prófkjörinu, vill varla, að óvissa ríki um umboð hans og hlýtur að samþykkja endurtalningu með öllum atkvæðum.

Árni Páll fer hins vegar ekki að neinum almennum leikreglum eins og sannaðist á þeim orðum, sem hann flutti meðal samfylkingarfólks í kjördæmi sínu að prófkjöri loknu, þegar hann hóf árásir á Sjálfstæðisflokkinn og mótframbjóðendur sína í honum með þeim orðum, að þar væri „sama stefnuleysið í nýjum pakkningum“.  Er undarlegt, að sjónvarp ríkisins sendi slíkan óhróður frá sér, án þess að gefa þeim færi á að svara, sem að er veist. Hitt er ekki síður sérkennilegt, að sjónvarpið segi frá úrslitum í prófkjöri sjálfstæðismanna í upphafi frétta með borða, þar sem á stendur: Lítillækkandi undir myndum af frambjóðendum. Sé þetta ekki lituð fréttamennska, er erfitt að finna hana.

 

Sjónvarpið sagði frá talningu atkvæða í prófkjöri framsóknarmanna í norðausturkjördæmi. Keppnin um fyrsta sæti stóð á milli þingmannanna Birkis Jóns Jónssonar og Höskuldar Þórhallssonar. Þegar ekki var unnt að birta úrslitin, fullyrti fréttaritari sjónvarpsins á Egilsstöðum, þar sem hundruð framsóknarmanna voru, að Höskuldur Þórhallsson hefði sigrað og sæti í fyrsta sæti, óvissa væri um annað. Að lokinni talningu sat Birkir Jón í fyrsta sætinu en Höskuldur í öðru. Á flokksþingi framsóknarmanna var Höskuldur formaður í fimm mínútur vegna mistaka formanns kjörnefndar, sem sagði af sér. Höskuldur hlaut ranglega efsta sætið í sjónvarpinu, án þess að nokkur segði af sér.

Ég sé á amx.is ,að Egill Helgason hefur vikið ranglega að mér í Silfri Egils 15. mars, þegar hann fullyrti, að ég hefði sett þá Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara, og Boga Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknara, til einhverra rannsókna vegna bankahrunsins. Þetta er úr lausu lofti gripið og til marks um dæmalausa ónákvæmni eða sleggjudóma. Ég velti fyrir mér, hvort Egill leiðrétti þessi orð sín í næsta þætti eða láti áhorfendur sína sitja eftir með þá ranghugmynd, sem orð hans kunna að vekja.