Dagbók: júlí 2002
Laugardagur 20.7.2002
Klukkan 15.00 fórum við Rut að Skógum undir Eyjafjöllum og vorum við athöfn, þegar samgönguminjasafn var opnað þar. Ég hef fylgst með þróun hugmyndarinnar um safnið frá upphafi og kom að henni sem menntamálaráðherra, eftir að Árni Johnsen alþingismaður hafði kynnt mér hana, en hann ýtti mjög á málið, eins og fram kom í máli Þórðar Tómassonar safnvarðar við athöfnina. Síðast vorum við Rut þarna 15. ágúst 2001, sam daginn og ríkisendurskoðun sendi frá sér skýrslu um mál Árna Johnsens, en um þær mundir var í fjölmiðlum reynt að gera þessar framkvæmdir að Skógum tortryggilegar vegna þess eins að Árni hafði lagt þeim öflugt lið. Er nú um ár liðið frá því að það gjörningaveður gekk yfir.
Miðvikudagur 17.7.2002
Fór í hádeginu í Háskólabíó, þar sem Apple-umboðið stórð fyrir beinni útsendingu frá setningarræðu Steve Jobs á Macworld í Jacob Javits Center í New York. Boðaðar voru nýjúngar fyrir Makka-notendur.
Þriðjudagur 16.7.2002
Fundur í borgarráði kl. 12.00. R-listinn samþykkir að kaupa húseignir Jóns Ólafssonar við Laugaveg fyrir 140 milljónir króna - við sjálfstæðismenn lýsum andstöðu við gjörninginn, þar sem hann sé ekki nauðsynlegur vegna skipulags eða til að gæta hagsmuna Reykvíkinga.
Föstudagur 12.7.2002
Fundur í borgarráði klukkan 09.00 - ekki haldinn á venjulegum tíma á þriðjudegi vegna heimsóknar varaborgarstjóra Moskvu.
Sunnudagur 2.7.2002
Klukkan 09.00 sat ég fyrsta fund minn í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Borgarráðsfundur kl. 12.00
Mánudagur 1.7.2002
Klukkan 15.00 var skýrt frá niðurstöðu í samkeppni um listaverk í nýjar höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur við athöfn í Perlunni. Klukkan 16.30 var ég hjá Gagarín í Kópavogi til að kynnast tillögum um margmiðlunarefni fyrir fræðslumiðstöðina á Hakinu við Almannagjá.