Dagbók: ágúst 2003
Sunnudagur, 31. 08. 03.
Um hádegisbilið héldum við Gunnar Eyjólfsson akandi frá Lónkoti og fórum yfir Þverárfjall á leiðinni til Reykjavíkur en þá leið hafði ég aldrei áður farið.
Laugardagur, 30. 08. 03.
Ók snemma morguns af stað norður í Lónkot í Skagafirði til að hitta félaga mína við qi gong iðkun.
Föstudagur, 29. 08. 03.
Komum heim frá Vilnius um kvöldið en höfðum fyrr um daginn farið þar í skoðunarferð til að sjá merki um grimmdarverk frá Sovéttímanum.
Þriðjudagur, 26. 08. 03.
Við Rut héldum síðdegis með Icelandair til Kaupmannahafnar og þaðan áfram með Air Lithaen til Vilníus, höfuðborgar Litháens.
Laugardagur, 23. 08. 03.
Klukkan 10.30 var ég á Garðatorgi í Garðabæ og flutti ávarp við upphaf átaks Garðabæjardeildar Rauða krossins og sveitarfélagsins til að efla öryggi íbúanna í heimahúsum og frítíma sínum. Hefur slíkt átak ekki verið skipulagt áður.
Föstudagur, 22. 08. 03.
Síðdegis skrapp ég upp að Hrísbrú í Mosfellsdal, þar sem Jesse Byock bauð mér að skoða formleifagröft og rannsóknir, sem hann stjórnar. Lofa þær mjög góðu og vinnur öflugur hópur vísindamanna að verkinu.
Fimmtudagur, 21. 08. 03.
Var klukkan 10.45 á Selfossi og flutti setningarræðu á ráðstefnu Nordisk Adminastrivt Forum.
Klukkan 17.00 var ég í Reykjavíkurakademíunni og opnaði vefritið Glíman, sem fjallar um kristilegt efni og er vistað á Kistan.is.
Miðvikudagur 20. 08. 03.
Klukkan 13.30 fór ég í heimsókn til lögreglunnar í Reykjavík, efndi til fundar með yfirmönnum, skoðaði einstakar deildir og ávarpaði lögreglumenn á setustofu þeirra, þar sem boðið var kaffi og kökur.
Klukkan 19.00 var ég í þættinum Ísland í dag og sat fyrir svörum hjá Árna Snævar vegna skipunar Ólafs Barkar Þorvaldssonar sem dómara í hæstarétt, sem ákveðin var daginn áður.
Þriðjudagur, 19. 08. 03.
Á ríkisstjórnarfundi kynnti ég tillögu mína um, að Ólafur Börkur Þorvaldsson yrði dómari í hæstarétti.
Mánudagur, 18. 08. 03.
Klukkan 09.30 hófst heimsókn mín til Fangelsismálastofnunar með skoðunarferð um fangelsið í Kópavogi, svonefnt Kvennafangelsi, sem hýsir bæði konur og karla. Þaðan var haldið í hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Þá var efnt til fundar í höfuðstöðvum stofnunarinnar við Borgartún. Eftir hádegi ókum við að Litla hrauni og vorum þar um tvær klukkustundir og átti ég meðal annars fund með fulltrúum trúnaðarráðs fanga.
Miðvikudagur, 13. 08. 03.
Fyrir hádegi skoðuðum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrirtæki á Selfossi í miklu blíðskaparveðri, fórum fyrst í Mjólkurbú Flóamanna, þaðan tl Guðmundar Tyrfingssonar, þá í fyrirtækið BES, sem framleiðir efni í plastflöskur og loks til SGhúsa, þar sem menn sérhæfa sig í smíði flytjanlegra timburhúsa. Vorum við margs vísari, þegar við kvöddum Selfoss og héldum til einstaka veitingastaðar Hafið bláa við Ölfursárósa og fengum fiskisúpu auk þess að heilsa upp á Hannes, eiganda staðarins, sem var með sínu fólki að tína söl á rifi fyrir framan glugga veitingastaðarins.
Þriðjudagur, 12. 08. 03.
Klukkan 15.00 hófst þingflokksfundur sjálfstæðismanna í Hótel Selfossi, þar sem rætt var um stjórnmálaviðhorf og málefni komandi þings fram að kvöldmat, sem síðan var snæddur sameiginlega og bættust þá fulltrúar heimanna í hópinn.
Laugardagur, 02. 08. 03.
Síðdegis skrapp ég á flugvöllinn við Múlakot og fylgdist með hátíðinni þar, en fjöldi manna var þar með vélar af ólíkum tegundum og léku sumar listir sínar í háloftunum en aðrir stukku úr fallhlíf.
Fór klukkan 19.00 á samkomu í Kirkjulækjarkoti hjá hvítasunnufólkinu, nágrönnum mínum í Fljótshlíðinni, og naut þess vel að verja kvöldinu með þúsundum manna á góðri kristilegri samkomu, þar sem ég hlaut sérstaka blessun ásamt þeim Drífu Hjartardóttur alþingismanni og Ísólfi Gylfa Pálmasyni, fyrrverandi alþingismann.