Dagbók: janúar 2003
Föstudagur 31. 01. 03
Fór rúmlega 09.00 í viðtal hjá Sigurði G. Tómassyni á útvarpi Sögu og ræddum við saman til klukkan 10.00. Klukkan rúmlega 15.00 héldum við í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna austur að Geysi, þar sem við efndum til fundar um störf okkar og stefnu. Við hófum fundi um klukkan 17.00. Það var töluverð hálka á leiðinni austur og var gott að vera í góðum höndum hjá Gunnar Guðmundssyni hjá Guðmundi Jónassyni.
Fimmtudagur 30. 01. 03
Klukkan 14.00 hófst síðasti fundur í borgarstjórn Reykjavíkur með Ingibjörgu Sólrúnu sem borgarstjóra. Flutti ég kveðjuræðu fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna og birtist hún með ræðum og greinum hér á síðunni.
Miðvikudagur 29. 01. 03
Klukkan 15.00 boðuðum við borgarfulltrúar sjálfstæðismanna til blaðamannafundar og kynntum skuldaþróun og skuldastöðu Reykjavíkurborgar í tilefni af því, að Ingibjörg Sólrún er að hætta sem borgarstjóri. Skuldir Reykjavíkurborgar hafa hækkað um 1100% síðustu 10 ár á sama tíma og skuldir ríkisins hafa lækkað um 13%.
Þriðjudagur 28. 01. 03
Síðasti fundur borgarráðs með Ingibjörgu Sólrúnu sem borgarstjóra var haldinn í hádeginu.
Klukkan 15.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu og ritaði undir umsókn fyrir Þingvelli á heimsminjaskrá UNESCO með Davíð Oddssyni.
Laugardagur 25. 01. 03
Klukkan 13.15 var aðalfundur Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Þar voru einnig samþykktir samhljóða framboðslistar flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum í vor.
Föstudagur 24. 01. 03
Rut kom heim af sjúkarhúsinu síðdegis. Henni fer fram með hverjum deginum en verður rúmliggjandi áfram hér heima.
Fimmtudagur 23. 01.03
Fór með Hrafni Þórissyni, mági mínum, í Viðskiptaháskólann Bifröst. Skoðaði nýbyggingar með Runólfi Ágústssyni rektor og Stefáni Kalmanssyni. Er ótrúlegt að sjá, hve mikil gróska er í skólanum.
Flutti erindi fyrir nemendur og kennara um Ísland, Evrópu og hnattvæðinguna og svaraði síðan fyrirspurnum.
Þriðjudagur 21. 01. 03
Alþingi kom saman kl. 13. 30 að nýju eftir jólaleyfi. Ég gat ekki verið upphaf þess vegna fundar í borgarráði, sem var óvenjulega langur.
Mánudagur 20. 01.03
Læknar sögðu Rut ekki hafa brotnað heldur brákast og hún yrði að liggja og síðan taka eitt skref í einu á bataveginum.
Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman til fyrsta fundar eftir jólaleyfi klukkan 13.30.
Sunnudagur 19. 01. 03
Ljóst er að frekari rannsókna er þörf til að fá úr því skorið, hvort Rut hefur brotnað við fallið í gær. Hún verður því áfram á bæklunardeildinni.
Klukkan 15.00 fór ég í Kaffitímann hjá Kristjáni Þorvaldssyni á Rás 2 og ræddum við um stjórnmálaástandið, R-listann, borgarstjórninni, Kolkrabbann, fjölmiðla og ævisögur.
Laugardagur 18. 01. 03
Við Rut fórum á tónleika Hamrahlíðarkórsins í Háteigskirkju. Á leiðinni heim um sjöleytið ætlaði Rut að skreppa inn í Nóatún í Austurveri og þá vildi ekki betur til, þegar hún fór út úr bílnum en kápa hennar festist í hurðinni og hún datt, þegar ég tók af stað. Skipti engum togum, að hún gat ekki risið á fætur og hringdi nærstödd kona í neyðarlínuna og ég bað sjúkrabíl að koma á staðinn. Við fengum aðstoð þeirra, sem þarna voru á ferð og er ég mjög þakklátur fyrir þá vinsemd, sem margir sýndu meðal annars með því að lána teppi eða jakka til að leggja ofan á hana eða undir. Áður en sjúkrabíllinn kom á vettvang bar að bráðatækni, held ég að heitið sé, en þeir eru sérfróðir um viðbrögð á slysstað. Hann var með búnað í bíl sínum og bjó betur um Rut, en við hin þorðum ekki að hreyfa hana, ef hún skyldi illa brotin en hún kvartaði um mikinn sársauka í mjöðminni.Þegar sjúkrabíllinn kom, tóku þeir hana vönum höndum og síðan var farið á Slysavarðstofuna, skammt frá. Þar var brugðist við með skjótum hætti og röntgenmynd sýndi ekki brot heldur hefði bein brákast, en jafnframt var talið, að frekari rannsóknar væri þörf. Var Rut því lögð inn á bæklunardeildina á Landsspítalanum í Fossvogi.
Fimmtudagur 16. 01. 03
Klukkan 14.00 hófst borgarstjórnarfundur og þar var ábyrgðin vegna Kárahnjúkavirkjunar aðalmálið. Nokkur hópur andstæðinga var við Ráðhúsið og á pöllum fundarsalarins. Var hópurinn með lófatak fyrir þá, sem hann studdi, púaði á borgarstjóra, þegar hann sagðist styðja ábyrgðina og gerði einhver hróp að mér.
Fyrir utan var hlaðin Ingibjargardys til háðungar við borgarstjóra. Fáni borgarinnar var dreginn í hálfa stöng og síðan fjarlægður af starfsmönnum ráðhússins, íslenski fáninn blakti ekki við hún eins og venja er, þegar borgarstjórn kemur saman til fundar.
Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, sýndi minni myndugleika gagnvart pallagestum en Steinunn Valdís Óskarsdóttir varaforseti, sem hótaði að láta ryðja pallana. ef ekki væri farið með friði.
Fundurinn stóð fram undir klukkan 20.00. Ábyrgðin var samþykkt með sex atkvæðum okkar sjálfstæðismanna, tvemur atkvæðum framsóknarmanna og atkvæði Ingibjargar Sólrúnar.
Miðvikudagur 15. 01. 03
Klukkan 14.30 var efnt til fundar með borgarfulltrúum og fulltrúum frá Landsvirkjun ásamt þeim Þorsteini Siglaugssyni og Þórólfi Matthíassyni, sem hafa haft uppi efasemdir um arðsemi af Kárahnjúkavirkjun. Eftir fundinn var boðað til borgarráðsfundar og þar var ákveðið að veita ábyrgðarmálinu vegna Kárahnjúkavirkjunar til borgarstjórnar. Gerði borgarstjóri tillögu um, að ábyrgðin yrði veitt.
Þriðjudagur 14. 01. 03
Ókum í bæinn snemma um morguninn. Klukkan 12.00 var borgarráðsfundur og þar lögðum við sjálfstæðismenn fram bókun um að við styddum ábyrgð á láni Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Á fundinum kom fram, að R-listinn var margklofinn í málinu en mér þótti undarlegast, að borgarstjóri skýrði ekki frá afstöðu sinni á fundinum. Eftir hann sagðist hún mundi styðja ábyrgðina.
Sunnudagur 12. 01. 03
Nú hefur hélað aðeins hér í Fljótshlíðinni og birt í einstakri veðurstillu. Fór og sinnti aðkomuhrossum, sem höfðu farið út fyrir rafmagnsgirðingu og inn á túnið. Síðdegis ætluðu Kjartan Gunnarsson og Sigríður Snævarr að heimsækja okkur. Vildi ekki betur til, þegar þau áttu um fimm mínútur ófarnar til okkar en bíllinn fór út af í lúmskri snögghálku fyrir neðan Breiðabólstað. Bíllinn gjöreyðilagðist, þau voru flutt með sjúkrabíl í bæinn, Sigríður brákaðist en annars var það fyrir Guðs mildi, að þau skyldu ekki stórslasast. Er í raun með ólíkindum, að bíllinn skyldi ekki leggjast saman velturnar. Lögreglan sagði mér, að þessi kafli á veginum væri slysagildra og er skrýtið, að ekki skuli vera þarna sérstök hættumerki.
Laugardagur 11. 01. 03
Blíðan heldur áfram í Fljósthlíðinni. Það birtir að vísu ekki mikið vegna rigningar.
Varð undrandi að hlusta á fréttir hljóðvarps ríkisins um væntanlega afstöðu okkar sjálfstæðismanna til ábyrgðar fyrir Landsvirkjun. Um málið er rætt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem veit auðvitað ekkert um málið. Þá er komist þannig að orði í kvöldfréttum, að hugsanlega kunni einhverjir sjálfstæðismenn, að "draga lappirnar" í málinu, sem auðvitað er R-listans að leiða í gegnum borgarstjórn.
Fimmtudagur 10. 01. 03
Við Rut ákváðum að vera nokkra daga að Kvoslæk í Fljótshlíðinni. Er veðurlagðið einstakt og segja bændur hér, að tún hafi frekar grænkað en hitt síðustu daga. Kýr voru utan dyra hér fyrir vestan okkur.
Miðvikudagur 08. 01. 03
Klukkan 17.00 hittumst við í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna á reglulegum fundi og ræddum ítarlega um afstöðu okkar til væntanlegra tilmæla frá Landsvirkjun um ábyrgð borgarsjóðs á lántöku vegna Kárahnjúkavirkjunar.
Að loknum fundinum með borgarfulltrúunum fór ég á þingflokksfund, þar sem meðal annars var verið að kveðja Vilhjálm Egilsson, sem hefur sagt af sér þingmennsku og mun taka við starfi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington. Það hefur verið mjög ánægjulegt að starfa með Vilhjálmi á þingi síðan 1991 og hefur hann verið einstakur formaður í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins.
Þriðjudagur 07. 01. 03
Klukkan 12.00 var fundur í borgarráði, þar sem Sigurður Snævarr borgarhagfræðingur gerði grein fyrir niðurstöðu svonefndrar eigendanefndar, sem var sett á laggirnar til að meta arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Var niðurstaða nefndarinnar, að áætlanir Landsvirkjunar um 11% arðsemi væru vel úr garði gerðar.
Fimmtudagur 02. 01. 03
Klukkan 17.00 hófst fundur í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar voru ekki miklar umræður, enda greinilegt, að R-listamenn vilja sem minnstar umræður um atburði síðustu daga, sem leiddu til afsagnar Ingibjargar Sólrúnar. Lauk fundinum um klukkan 18.00