Laugardagur 18. 01. 03
Við Rut fórum á tónleika Hamrahlíðarkórsins í Háteigskirkju. Á leiðinni heim um sjöleytið ætlaði Rut að skreppa inn í Nóatún í Austurveri og þá vildi ekki betur til, þegar hún fór út úr bílnum en kápa hennar festist í hurðinni og hún datt, þegar ég tók af stað. Skipti engum togum, að hún gat ekki risið á fætur og hringdi nærstödd kona í neyðarlínuna og ég bað sjúkrabíl að koma á staðinn. Við fengum aðstoð þeirra, sem þarna voru á ferð og er ég mjög þakklátur fyrir þá vinsemd, sem margir sýndu meðal annars með því að lána teppi eða jakka til að leggja ofan á hana eða undir. Áður en sjúkrabíllinn kom á vettvang bar að bráðatækni, held ég að heitið sé, en þeir eru sérfróðir um viðbrögð á slysstað. Hann var með búnað í bíl sínum og bjó betur um Rut, en við hin þorðum ekki að hreyfa hana, ef hún skyldi illa brotin en hún kvartaði um mikinn sársauka í mjöðminni.Þegar sjúkrabíllinn kom, tóku þeir hana vönum höndum og síðan var farið á Slysavarðstofuna, skammt frá. Þar var brugðist við með skjótum hætti og röntgenmynd sýndi ekki brot heldur hefði bein brákast, en jafnframt var talið, að frekari rannsóknar væri þörf. Var Rut því lögð inn á bæklunardeildina á Landsspítalanum í Fossvogi.