Dagbók: október 2015
Laugardagur 31. 10. 15
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri vefritsins Kjarnans, leitast í leiðara í dag við að draga úr ótta þeirra sem hræðast örlög ríkisútvarpsins eftir birtingu svartrar skýrslu um hið opinbera hlutafélag. Hann segir að það muni lifa fram yfir kosningar 2017 og gefur til kynna að eftir það vænkist hagurinn með vinsamlegri stjórnmálamönnum.
Við núverandi aðstæður getur ríkisútvarpið ekki haft vinsamlegri ráðherra yfir sér en Illuga Gunnarsson sem hefur lofað að verja það og jafnvel auka skatttekjur þess. Erfitt er að sjá hvers meira ríkisútvarpið getur vænst af mennta- og menningarmálaráðherra.
Ríkisútvarpinu hefur mistekist að sannfæra þá sem fjalla um fjármál þess á alþingi að þörf sé á að beina auknu fé til þess og nægir í því efni að vísa til orða Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, varaformanns fjárlaganefndar.
Vigdís er þingmaður Framsóknarflokksins. Afstaða hennar til ríkisútvarpsins er allt önnur en framsóknarmannanna sem sátu í ríkisstjórn með mér frá 1995 til 2007. Þingmenn almennt tala á allt annan veg um hið opinbera hlutafélag nú en gert var um stofnunina ríkisútvarpið á árum áður. Það mun halda áfram að fjara undan þessu ríkisfyrirtæki vegna tæknilegra breytinga og vegna andrúmsins sem stjórnendur þess og starfsmenn hafa skapað í kringum það. Þeir sem helst láta í sér heyra til varnar félaginu er fólk sem á beinna og óbeinna hagsmuna að gæta.
Í leiðara Kjarnans segir Þórður Snær:
„RÚV þarf að fá skilgreint hlutverk, skilgreinda tekjustofna og óhæði frá auglýsingamarkaði. Þetta hlutverk og þessir tekjustofnar þurfa að vera skýrt skilgreindir í lögum og í kjölfarið eiga stjórnmálamenn ekki að skipta sér með neinum hætti að fyrirtækinu, svo lengi sem það heldur sér innan skilgreindra kostnaðarmarka. Það á að fá frið til að móta langtímastefnu um að sinna öflugri dagskrárgerð, menningarhlutverki og fréttaþjónustu.“
Í þessum orðum er reist á goðsögninni um að stjórnendur og starfsmenn ríkisútvarpsins hafi aldrei fengið nóg af peningum eða nægilegt svigrúm til að vinna vinnuna sína, þeir hafi í raun ekki heldur vitað til hvers væri ætlast af þeim. Hvílík firra! Nær er að halda því fram að í skjóli gerviröksemda af þessu tagi hafi mistekist að flytja ríkisútvarpið inn í nútímann og laga það að samþykktum fjárhagsramma.
Föstudagur 30. 10. 15
Í breskum fjölmiðlum er hæðst að því að David Cameron forsætisráðherra hafi komið til Íslands til að reyna að búa til önd úr sex legó-kubbum, sjá hér.
Að gert hafi verið svona mikið veður út af þessum kubbum á fundi forsætisráðherra Bretlands, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna setur fundinn í einkennilegt ljós víðar en í Bretlandi. Ástæðulaust er að gleyma því að David Cameron lagði af mikilli alvöru til að stofnað yrði til árlegs málþings forystumanna þessara ríkja. Hann vildi með því breyta áherslum í umræðum um stjórnmál og úrlausn þjóðfélagsmála í Bretlandi. Að þessi viðleitni verði að aðhlátursefni vegna þess hvernig haldið var á málum hér á landi kann að kippa stoðum undan þessum málþingum.
Í Velvakanda Morgunblaðsins í morgun skrifaði Hans:
„Ég hef tekið eftir því í sjónvarpi og blöðum að klæðnaður á alþjóðafundum er stundum samræmdur eins og á G-8 eða G-20 fundum. Þar eru leiðtogar klæddir í skokk eða blómaflúraðar síðar skyrtur. Hálfhallærislegt, en þar sem byrjað var á þessari vitleysu komast menn ekki út úr því. Á fundinum á Grand Hotel þar sem Cameron forsætisráðherra var heiðursgestur var öllum gert að vera í stíl íslensku útrásarskuldakónganna, bindislausir og krumpaðir. Þar sem móðir mín var dönsk þótti mér vænt um að sjá að danski forsætisráðherrann lét ekki hafa sig í þetta. Getur einn af upplýsingafulltrúum forsætisráðuneytisins upplýst mig og aðra um hver sér um niðursnobbdeildina í ráðuneytinu. Hvert verður næsta skref? Allir á bolnum?“
Spurningar sem þessar eiga rétt á sér úr því að þeir sem að málþinginu stóðu sáu ástæðu til að vekja máls á eigin klæðaburði og segja frá leiknum með legó-kubbana. Áttuðu þeir sig ekki á að þeir drógu athygli að algjörum aukaatriðum með þessu? Eða var það kannski tilgangurinn af því að ekki var frá neinu öðru að segja?
Fimmtudagur 29. 10. 15
Samtal mitt við Trausta Valsson prófessor á ÍNN í gær er komið á netið og má sjá það hér.
Nú hefur skýrsla starfshóps um ríkisútvarpið, stöðu þess og rekstur, loks verið birt opinbrelega. Á ruv.is birtist útskrift á viðtali við Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, um skýrsluna og lýkur því á þann veg að Illugi er spurður hvernig hann hafi greitt atkvæði á landsfundi sjálfstæðismanna um sölu á ríkisútvarpinu. Hann svarar:
„Það var reyndar þannig að í mennta- og menningarmálanefndinni var tekist á um þetta mál þar sem niðurstaðan varð nú nokkuð önnur. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að selja Ríkisútvarpið. Ég sé ekki alveg hvernig menn ættu að standa að því. En niðurstaðan sem ég síðan studdi var að menn skyldu þá skoða þetta rekstrarform, ohf., og ég held að það sé alveg tímabær umræða.“
Ráðherrann vísar í orðum sínum í niðurlagsorð ályktunar landsfundarins um tillögu frá allsherjar- og menntamálanefnd þar sem segir m.a.:
„Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd. […] Mikilvægt er að varðveita menningararf þann sem Ríkisútvarpið ohf. hefur umsjón með og gera efni í eigu stofnunarinnar aðgengilegt almenningi.“
Í ályktun frá fjárlaganefnd sem landsfundurinn samþykkti segir:
„Sjálfstæðisflokkurinn telur að selja eigi ákveðnar ríkiseignir s.s. eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, rekstur flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og annan verslunarrekstur Isavia sem og RÚV.“
Landsfundurinn var þannig tvíátta í afstöðunni til ríkisútvarpsins sem ríkisfyrirtækis. Nú hefur ráðherra stofnunarinnar ákveðið að verja hana sem ríkiseign en hugsanlega í breyttu formi.
Í ályktuninni um fjármál ríkisins er áréttuð hin klassíska stefna sjálfstæðismanna að ríkið eigi að halda sig frá fyrirtækjarekstri. Hér hefur margoft verið hvatt til sölu á rekstri á Keflavíkurflugvelli. Á hinn bóginn hef ég ekki andmælt ríkisrekstri á útvarpi.
Ég greiddi hins vegar atkvæði með tillögu fjárlaganefndar landsfundarins. Miðað við tækniþróun er nærtækast að opinberum fjármunum sé varið til að styðja metnaðarfullar einkareknar efnisveitur. Um heim allan sýna stuðla þær að grósku. Hið sama gildir hér. Síminn stendur til dæmis að beinum sjónvarpssendingum frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur hannað rými vegna þess á aðalsíðu sinni. Um árabil hefur ríkisútvarpinu staðið þetta efni til boða án þess að sýna því áhuga.
Miðvikudagur 28. 10. 15
Í dag ræði ég við Trausta Valsson, prófessor í skipulagsfræðum við Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Trausti lætur af störfum nú um áramótin og skrifaði hann af því tilefni bókina Mótun framtíðar. Áður hefur hann sent frá sér 13 bækur. Skoðanir Trausta eru margar ögrandi og hann dregur ekkert undan í gagnrýni sinni. Er fengur að því að hann skuli hafa tekið saman þessa frásögn af eigin lífshlaupi nú við hin formlegu starfslok.
Þátturinn verður sýndur kl. 20.00 í kvöld á rás ÍNN nr. 20 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.
Leiðin úr höftunum verið kynnt sjá hér Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um stöðugleikaleið úr höftum hefur meðal annars þetta í för með sér að mati Seðlabanka Íslands:
„Hrein skuldastaða Íslands batnar verulega í kjölfar uppgjörs á grundvelli stöðugleikaskilyrða. Hreinar erlendar skuldir lækka um 3.740 ma.kr. og undirliggjandi erlend staða batnar um 360 ma.kr. beint vegna slitanna en þegar tekið er tillit til annarra þátta og vaxtar nafnvirðis landsframleiðslu er gert ráð fyrir að skuldastaðan fari úr tæplega þriðjungi af landsframleiðslu á þessu ári niður fyrir 10% í lok næsta árs. Þá er ekki búið að taka með í reikninginn lækkun skuldastöðunnar sem mun verða vegna fyrirhugaðs útboðs aflandskróna en ekki er hægt nú að segja til um hversu mikil hún verður. Jafn hagstæð skuldastaða gagnvart útlöndum hefur ekki þekkst í áratugi.“
Sé þetta rétt er árangurinn glæsilegur. Vert er að minnast þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hreyfði ekkert við höftunum – Jóhanna vildi nota þau til að komast í ESB og Steingrímur J. til að hlutast til um viðskipta- og atvinnulífið. Hve illa þau héldu á málum þjóðarinnar verður sífellt skýrara.
Í morgun sömdu ríkisstarfsmenn, sjúkraliðar og lögreglumenn til langs tíma og sögðust talsmenn þeirra hafa náð sínu fram. Samningar tókust ekki fyrr en ríkissáttasemjari hélt viðræðuaðilum á fundi hjá sér fram til klukkan 05.00.
Efnahagshorfur þjóðarinnar hafa skýrst í dag. Spekingar munu fjalla um þær og líklega sjá miklar hættur eins og venjulega. Eitt hættumerki þekki ég: Krónan hefur styrkst, flugfargjöld eru hins vegar lág til og frá landinu. Ferðamenn koma í hópum til landsins en versla minna en áður vegna hærra verðlags. Kvartanir undan verðlaginu vaxa og orðsporið versnar.
Þriðjudagur 27. 10. 15
Heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði skrifuðu í dag undir nýtt samningalíkan sem gerir ráð fyrir að svigrúm launabreytinga verði skilgreint út frá samkeppnisstöðu gagnvart helstu viðskiptalöndum og munu samningar við útflutningsfyrirtæki móta svigrúm til launabreytinganna. Þá verður jöfnun í lífeyrisréttindum á almenna og opinbera vinnumarkaðinum, en á móti verður opinberum starfsmönnum tryggð hlutdeild í launaskriði á almennum vinnumarkaði. Þá verða kjarasamningar miðaðir við að auka kaupmátt á grundvelli stöðugs gengis.
Hér er um stórmerkt samkomulag að ræða sem vonandi verður til að rjúfa vítahring launahækkana, gengislækkana og verðbólgu í efnahagslífi okkar. Markmiðið er að laga lausn kjaradeilna hér að fordæmi nágrannalanda sem hafa fyrir löngu tekið upp skipulegri og árangursríkari vinnubrögð en hér hafa tíðkast. Kennarasambandið og BHM standa utan þessa samkomulags. Fyrrverandi þingmaður og framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar er formaður BHM.
Í ljósi þessa samkomulags verður enn undanlegra en áður að ekki sé fallið frá verkfallsaðgerðum vegna kjaraviðræðna ríkisins við sjúkraliða, ríkisstarfsmenn og lögreglumenn.
Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir:
„Komið er á daginn að einhver óskaði sérstaklega eftir því að tölvupóstar yfirmanna í Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu yrðu eyðilagðir og einnig afrit slíkra pósta. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að ein af ástæðum þess gjörnings hafi verið málatilbúnaður fyrir Landsdómi. Af hverju í ósköpunum er þetta mál ekki rannsakað? Hvaða menn áttu þarna í hlut, hverjir þrýstu á og hverjir tóku endanlega ákvörðun um að eyða tölvupóstunum.“
Í ljósi írafársins sem varð vegna leka á minnisblaði úr innanríkisráðuneytinu vegna hælismáls Tonys Omos er sérkennilegt eigi ekki að kanna til hlítar málið sem nefnt er í leiðaranum. Þar segir einnig:
„Í lekamálinu svokallaða voru mistökin sennilega sú að „leka“ upplýsingum í stað þess að birta þær einfaldlega opinberlega. Þeir, sem upplýsingarnar snertu, háðu slag sinn við ráðuneytið og stofnanir þess opinberlega og lögfræðingar þeirra sem í hlut áttu voru með ótrúlega liðugan aðgang t.d. að fréttastofu ríkisins.
Skjólstæðingar lögfræðinganna höfðu hins vegar mörgu að leyna sem stórlega myndi veikja þeirra málstað ef upplýst yrði um.“
Undir þessi orð er tekið. Yfirvöld ættu að birta almenningi frásögn af því sem upplýst hefur verið með opinberum rannsóknum um Tony Omos og um það hvar hann dvelst nú.
Mánudagur 26. 10. 15
Það er næsta óskiljanlegt að stofnað sé til verkfalla á þessu stigi kjaraviðræðna samninganefnda SFR stéttarfélags, sjúkraliða og lögreglumanna. Dögum saman hefur legið fyrir að samkomulag um meginþátt deilunnar, launahækkanir. Tíminn hjá sáttasemjara ríkisins er hins vegar notaður til að ræða alls kyns útfærsluatriði sem að sjálfsögðu á að leysa án þess að slíkar viðræður um smáaletrið bitni á sjúklingum eða öðrum sem eru háðir þjónustu verkfallsmanna.
Í fjölmiðlum í dag segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR stéttarfélags, að unnið sé hörðum höndum að því að ná samningum fyrir næsta allsherjarverkfall sem skellur að óbreyttu á næsta fimmtudag. Hann deilir við ríkið um hvernig raða á niður launahækkunum en ekki hvað þær skuli verða miklar en segir í fjölmiðlum á visir.is „vonbrigði að ekki hafi náðst samkomulag um launaliðinn um helgina, líkt og stefnt hafði verið að“.
Landsfundur VG var haldinn um helgina. Þar var tekist á um varaformann og hafði Björn Valur Gíslason varaþingmaður betur í átökum við Sóleyju Björk Stefánsdóttur, bæjarstjórnarfulltrúa VG á Akureyri. Alls greiddu 156 atkvæði. 93 atkvæði féllu í hlut Björns Vals og 50 atkvæði í hlut Sóleyjar.
Samhliða því sem landsfundarfulltrúar höfnuðu konu í þetta trúnaðarstarf samþykktu þeir hástemmda yfirlýsingu um Kvenfrelsisbyltingar. Fundurinn
„[V]ill þakka öllum þeim hugrökku og sterku konum sem tekið hafa þátt í byltingum undanfarins árs með því að sýna stuðning sinn og leggja sögur sínar og reynslu á vogarskálarnar í von um réttlátara samfélag. Jafnframt vill hreyfingin viðurkenna að byltingarnar sýna að krafan um kvenfrelsi verður sífellt háværari og taka undir hana. Femínisminn gengur í gegnum endurnýjun lífdaga.
Feðraveldið leitar sífellt nýrra leiða til að viðhalda sér og úrsérgengnum gildum sínum. Hefur það nú fundið nýtt vopn, internetið, þar sem það birtist meðal annars í formi stafræns kynferðisofbeldis. Femínisminn hefur svarað þessari ógn með netbyltingum.
Vinstri græn fagna mjög hugrekkinu og samstöðunni sem myndast hefur í kjölfar byltinganna. Væntir hreyfingin þess að þessi samstaða muni einn daginn útrýma klámvæðingu, kynferðisofbeldi og kvennakúgun feðraveldisins í öllum sínum myndum. Hreyfingin mun styðja allar þær konur sem neita að láta kúga sig af feðraveldinu.
Áfram konur! Fokk feðraveldið! Lifi byltingin!“
Á vefsíðu VG kemur ekki fram hvort þetta var samþykkt áður eða eftir að „feðraveldi“ flokksins hafnaði Sóleyju Björk.
Sunnudagur 25. 10. 15
Í dag lauk 42. landsfundi Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður. Hann hlaut 753 atkvæði, eða 96% gildra atkvæða. Alls greiddu 799 atkvæði. Ólöf Nordal var kjörin varaformaður með 771 atkvæði af 816, 96,7%. Loks var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir kjörin ritari flokksins með 668 atkvæði af 783, 91%.
Þessar tölur sýna mikinn einhug um forystu flokksins. Þetta er í fjórða sinn sem Bjarni er kosinn formaður frá 2009 þegar hann hlaut 58% stuðning. Árin 2011 og 2013 ríkti ekki einhugur um hann í formannskjöri en niðurstaðan nú sýnir að hann hefur áunnið sér óskorað traust flokksmanna og hefur öflugasta umboð flokksformanns í landinu vegna þess hve margir standa að baki kjöri hans.
Ólöf Nordal snýr aftur í sæti varaformanns eftir rúmlega tveggja ára fjarvist. Hún sagðist orðlaus yfir eindregnum stuðningi við sig í þakkarræðu. Áslaug Arna er 24 ára nýliði í æðstu stjórn Sjálfstæðisflokksins. Ungir sjálfstæðismenn létu verulega að sér kveða á landsfundinum og höfðu erindi sem erfiði þegar litið er til kosninga og ályktana. Þeim var sýnt mikið traust á fundinum og er ekki að efa að þeir standa undir því þegar á reynir utan fundarins.
Ný fundarsköp voru „prufukeyrð“ á þessum landsfundi. Þau reyndust að mörgu leyti vel og tókst á markvissan hátt að beina athygli fundarins að efnum sem kölluðu á sérstakar umræður. Síðdegis í dag var aðeins ályktun allsherjar- og menntamálanefndar óafgreidd auk stjórnmálaályktunar og breytinga á skipulagsreglum. Þá var eins og botninn dytti úr afgreiðslu mála og fundarmenn máttu sitja lengi aðgerðalausir án þess að fundarstjóri upplýsti um framvindu mála. Bilun í tölvukerfi olli greinilega vandræðum en fundurinn var pappírslaus og skipti því miklu að geta brugðið textum á skjái í salnum. Minnti biðin dálítið á setu á flugstöð þar sem ekki er skýrt frá ástæðu tafar á brottför.
Eftir að formaður, varaformaður og ritari höfðu verið kjörin hvarf ég af fundi enda var í dagskrá hans gert ráð fyrir fundarlokum um klukkan 16.00. Þegar þetta er skrifað rúmlega 18.00 segir í fréttum að fundinum sé enn ólokið. Megi rekja þetta til hinna nýju fundarskapa eða skorts á pappír við afgreiðslu mála hljóta menn að læra af reynslunni. Hinn góði og málefnalegi landsfundur dróst einfaldlega um of á langinn.
ps. Fundinum lauk ekki fyrr en rúmlega 19.00.
Laugardagur 24. 10. 15
Hið óvænta á landsfundi okkar sjálfstæðismanna í dag var að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, laganemi og fyrrverandi formaður Heimdallar, bauð sig fram sem ritari flokksins. Hún flutti mjög öfluga framboðsræðu á fundinum og hvatti landsfundarfulltrúa til að sýna stuðning sinn við aukin áhrif ungs fólks í verki með því að kjósa sig.
Flokksráð sjálfstæðismanna ákvað milli landsfunda að breyta embætti annars varaformanns í embætti ritara og var Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður kjörinn í hið nýja embætti á flokksráðsfundi. Það hefur því aldrei verið kosið til embættis ritara á landsfundi. Verður það gert í fyrsta sinn á morgun.
Bjarni Benediktsson er eini frambjóðandi til formanns og Ólöf Nordal til varaformanns. Allt þar til kom að framboðsræðu ritara hafði farið hljótt um framboð Áslaugar Örnu en framganga hennar er í anda hinnar miklu sóknar sem einkennt hefur störf ungra sjálfstæðismanna á landsfundinum.
Það kom í minn hlut að hafa framsögu fyrir tillögu utanríkismálanefndar flokksins. Mikil og góð sátt náðist um ályktunina í starfshópi landsfundarins um utanríkismál. Þó var flutt breytingartillaga á fundinum sjálfum sem endurspeglaði viðhorf þeirra sem telja að ekki hafi nægilega tryggilega verið gengið frá afturköllun ESB-umsóknarinnar.
Breytingartillagan var kolfelld og meðal þeirra sem töluðu gegn henni var Bjarni Benediktsson. Taldi hann engan vafa ríkja um afturköllunina, forsætisráðherra og utanríkisráðherra hefðu kynnt hana fyrir ráðamönnum ESB í Brussel sl. sumar. Tillagan sem var samþykkt um þetta mál er á þennan veg:
„Sjálfstæðisflokkurinn áréttar að hagmunir Íslands séu best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins og því að aðildarviðræðum við ESB hafi verið hætt. Mikilvægt er að tryggt verði að aðildarviðræður verði ekki teknar upp að nýju án þess að þjóðin verði spurð hvort hún óski eftir aðild að Evrópusambandinu.“
Athyglisvert er að enginn mælti fyrir efni breytingartillögunnar á fundinum, hún var aðeins lögð fram skriflega. Hinn samþykkti texti tekur mið af því sem landsfundur samþykkti árið 2013 og staðfestir að stefna flokksins sem þá var mótuð hefur náð fram að ganga.
Töluvert var rætt um hvort fella ætti niður orðin „við Hringbraut“ í ályktun um nýjan Landspítala. Meirihluti fundarmanna hafnaði niðurfellingu þessara orða.
ps. Að kvöldi laugardags dró Guðlaugur Þór sig í hlé.
Föstudagur 23. 10. 15
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti efnismikla setningarræðu á 42. landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll í dag. Hann kom víða við en kjarni máls hans var að á rúmum tveimur árum kjörtímabilsins hefði tekist auka hagsæld þjóðarinnar og nú yrði að tryggja með sáttargjörð á vinnumarkaði að árangurinn yrði ekki eyðilagður á báli verðbólgunnar. Taldi hann að með góðum vilja mætti stíga markvert skref í þá átt á næstunni.
Hann sagði að við komu sína í fjármálaráðuneytið vorið 2013 hefði blasað við sér úrræðaleysi þegar litið var til afnáms haftanna. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. hefði ekki haft neina áætlun um það enda Samfylkingin sagt að aðild að ESB væri forsenda þess að höftin hyrfu en VG verið á öndverðri skoðun. Ný ríkisstjórn hefði sett slitabúum bankann afarkosti og árangur þess væri að koma í ljós – ekki væri um neina samninga við slitabúin að ræða heldur gæslu íslenskra hagsmuna. Þessi stefna hefði borið árangur.
Nú stendur ríkisstjórnin frammi fyrir ráðstöfun á tveimur ríkisbönkum Landsbanka Íslands og Íslandsbanka. Bjarni sagði meðal annars af því tilefni:
„Mér finnst höfuðmáli skipta að eignaraðildin verði, þegar upp er staðið, dreifð. Einföld leið til að ná því markmiði og styðja við skráningu banka er að gera alla eigendur að milliliðalausum eigendum, alla landsmenn að milliliðalausum eigendum í bönkunum. Ég er að tala um það að ríkið einfaldlega taki tiltekinn hlut, fimm prósent, og einfaldlega afhendi hann landsmönnum. Með því væru komnir um 300 þúsund hluthafar í bankana og á Íslandi verður eignaraðildin ekki mikið dreifðari. Það væri jú bara að tilteknum hlut og ég ætla ekki að útiloka að það myndi þurfa að setja kvaðir á framsal slíkra eignarhluta í einhvern tíma ef efnahagsaðstæður eru með þeim hætti að menn hafa áhyggjur af eftirspurninni í hagkerfinu.“
Þessi stefna sem þarna er boðuð er í hróplegri andstöðu við þá ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar þegar hann var fjármálaráðherra að einkavæða Arion-banka og Íslandsbanka með leynd og afhenda hann nafnlausum kröfuhöfum.
Góður rómur var gerður að ræðu Bjarna og tóku fundarmenn oft undir orð hans með lófataki.
Fimmtudagur 22. 10. 15
Samtal mitt við Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN er komið á netið og má sjá hann hér.
Hillary Clinton, fyrrv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna og væntanlegur forsetaframbjóðandi demókrata, kom fyrir sérnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um árásina á ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í Benghazi í Líbíu 11. september 2012. Demókratar saka meirihluta repúblíkana í fulltrúadeildinni um að stofna sérnefndina til þess eins að koma höggi á Clinton. Yfirheyrslurnar hófust á yfirlýsingum repúblíkanans, formanns nefndarinnar, og oddvita demókrata í nefndinni um eðli nefndarsamstarfsins. Markmið demókrata er að gera nefndarstarfið tortryggilegt. Það sé hluti af pólitískum ofsóknum gegn öflugasta frambjóðanda sínum. Hvað sem þeim flokkspólitísku deilum líður er Hillary Clinton skylt að svara spurningum nefndarmanna.
Í gæt tilkynnti Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, að hann mundi ekki keppa við Hillary Clinton í prófkjöri demókrata. Hann flutti 13 mínútna ræðu í Rósagarði Hvíta hússins með Barack Obama forseta við hlið sér. Fréttaskýrendur eru þeirrar skoðunar að ræðan hafi í raun verið framboðsræða þótt Biden segðist ekki bjóða sig fram, hann þyrfti lengri tíma til að jafna sig eftir andlát sonar síns.
Í The New York Times segir að Biden hafi allt til síðustu stundar haft áform um framboð í því skyni að standa vörð um arfleifð Obama, eins og það er orðað. Hann hafi hins vegar skort fé í kosningasjóð sinn, hann hefði orðið að verja miklum tíma til að safna fé en áhugi hans á pólitískri fjáröflun sé lítill. Þá er bent á að í ræðu sinni hafi Biden beint spjóti sínu að Hillary Clinton án þess að nefna hana á nafn. Í blaðinu segir:
„Hr. Biden virtist einnig finna að frú Clinton fyrir að hafa tekið til við það nýlega að draga skil á milli sín og arfleifðar Obama, eins og hún hefur gert varðandi alþjóðaviðskipti, Sýrland, olíuborun á norðurslóðum og önnur mál. „Demókratar eiga ekki aðeins að verja þessa arfleifð og varðveita þessa arfleifð þeir eiga að bjóða sig fram í anda þessarar arfleifðar,“ sagði Biden.“
Hillary Clinton situr heilan dag fyrir svörum hjá sérnefndinni um Benghazi – yfirheyrslunni er ekki lokið þegar þetta er skrifað. Enginn vafi er á að þetta samtal nefndarmanna við Hillary Clinton verður grandskoðað til að finna veikan punkt í málflutningi hennar. Hvort sá punktur finnst kemur í ljós en öllum er ljóst að frambjóðandinn er í essinu sínu við aðstæður sem þessar.
Miðvikudagur 21. 10. 15
Í dag ræddi ég á ÍNN við Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, í tilefni af 42. landsfundi flokksins sem hefst föstudaginn. Nefndarfundir verða frá kl. 10.00 á föstudagsmorgni en klukkan 16.30 flytur Bjarni Benediktsson flokksformaður setningarræðu sína. Samtal mitt við Þórð verður frumsýnt kl. 20.00 í kvöld á rás 20 og síðan sýnt á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.
Í dag birti MMR niðurstöðu skoðanakönnunar sem sýndi að fylgi flokksins hefði minnkað um 3 stig frá síðustu könnun MMR, fylgið er nú tæp 22%. Umræður um flokkinn hafa verið neikvæðar undanfarið, einkum vegna stöðu Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra. Þrátt fyrir birtingu gagna um persónuleg fjármál sín býr Illugi enn við mikinn andróður. Bjarni Benediktsson sagði réttilega að í Kína hefði Illugi ekki gert annað en aðrir ráðherrar hefðu gert í ferð með stjórnendum fyrirtækja. Áherslan í hinum neikvæðu umræðum er þó á öðrum þáttum.
Sjálfstæðisflokkurinn nær sér ekki á strik nema hann styrki stöðu sína í Reykjavík og meðal ungs fólks.
Í gærkvöldi, þriðjudaginn 20. október, urðu stjórnarskipti í Verði, fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður var kjörin formaður. Fráfarandi formaður, Óttarr Guðlaugsson, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Auk Kristínar voru Rúna Malmquist, Matthildur Skúladóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Theodór Bender, Sigurður Helgi Birgisson, Gísli Kr. Björnsson og Kristján Erlendsson kjörin í stjórn Varðar.
Í samtali okkar Þórðar kemur fram að öflugur hópur ungs fólks vinni ötullega að málefnalegri þátttöku í landsfundinum. Verður spennandi að sjá hverju þetta ágæta fólk fær áorkað á fundinum.
Þetta tvennt: stjórnaskipti í Verði og virk þátttaka ungs fólks í starfi landsfundarins kann að verða kveikjan að nýrri sókn Sjálfstæðisflokksins á hann veikustu sviðum.
Þriðjudagur 20. 10. 15
Justin Trudeau verður næsti forsætisráðherra Kanada. Hann var þriggja ára þegar ég var í fylgdarliði Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra í Ottawa og við snæddum hádegisverð hjá Pierre Elliott Trudeau, föður Justins, í opinberum forsætisráðherrabústað Kanada 27. janúar 1975. Undir málsverðinum birtust tveir litlir, léttklæddir drengir í dyragættinni, Justin, f. 25. desember 1971, og Alexander, f. 25. desember 1973. Þeir vildu hafa tal af föður sínum sem skrapp fram og sinnti þeim. Kannski voru þeir að búa sig undir hádegislúr hjá barnfóstrunni, móðir þeirra Margaret efndi á sama tíma til hádegisverðar fyrir Ernu Finnsdóttur forsætisráðherrafrú og Unni Kröyer sendiherrafrú.
Við Íslendingarnir vorum af heimleið frá ársþingi Þjóðræknisfélagsins í Winnipeg þar sem Geir talaði ásamt Haraldi Kröyer, sendiherra í Washington. Báðir fluttu þeir Geir góðar ræður yfir Vestur-Íslendingum en ræða Haraldar er þó eftirminnilegri því að í henni miðri tók hann að kveða rímur við góðar undirtektir.
Pierre Elliott Trudeau er einn hinna miklu leiðtoga Frjálslynda flokksins í Kanada við hlið Lesters B. Pearsons, forvera hans, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1957 fyrir að skipuleggja friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna og stilla til friðar við Súez-skurð. Trudeau varð 15. forsætisráðherra Kanada 1968 til 1979 og aftur 1980 til 1984. Hann kom hingað til lands 7. maí 1977 og fór þá meðal annars með Geir Hallgrímssyni til Þingvalla. Trudeau er eftirminnilegur maður og fór vel á með honum og Geir.
Justin Trudeau vann góðan sigur í þingkosningunum, hinum fyrstu sem hann leiðir fyrir Frjálslynda flokkinn, dæmigerðan miðflokk. Flokkurinn jók þingmannafjölda sinn úr 34 í 184 eða um 150 þingmenn en alls sitja nú 338 menn á þingi Kanada svo að meirihlutinn að baki Trudeau er öruggur. Hann er kennari að mennt en var kosinn á þing 2008 og að nýju 2011. Flokksformaður var hann kjörinn með glæsibrag árið 2013.
Kosningabaráttan var óvenju löng að þessu sinni í Kanada og er talið að Stephen Harper, forsætisráðherra Íhaldsmanna síðan 2006, hafi ákveðið þennan langa aðdraganda að kjördegi til að afhjúpa reynsluleysi Trudeaus. Sú baráttuaðferð misheppnaðist herfilega, reyndust klókindi sem komu Harper í koll. Hann hefur þegar sagt af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins.
Mánudagur 19. 10. 15
Áhorf á fréttatíma Stöðvar 2 og ríkissjónvarpsins er nú nánast hið sama. Um 20% á aldrinum 12 til 80 ára horfa á fréttir á hvorri stöð. Þetta sýna mælingar Gallup. Áhorf ríkisfréttanna hefur minnkað jafnt og þétt undanfarin ár. Í september 2008 horfðu að meðaltali 27,8 prósent landsmanna í aldurshópnum 12 til 80 ára á meðalmínútu af fréttum ríkissjónvarpsins. Í ár er þessi tala 20.4%. Áhorfið hefur minnkað um rúm 7 prósentustig á sjö árum. Í september 2008 horfðu 21,9% landsmanna í aldurshópnum 12 til 80 ára á fréttatíma Stöðvar 2. Í ár er þessi tala 20,04%. Uppsafnað áhorf á fréttir ríkisútvarpsins er nú 25,46% að meðaltali en á fréttir Stöðvar 2 er það 24,8% Frá þessu er sagt á Kjarnanum í dag, mánudag 19. október.
Spurning er hvort það sé sami fimmtungur landsmanna sem hefur áhuga á sjónvarpsfréttum en 80% láti þær almennt fram hjá sér fara.
Taki ég mið af eigin áhorfi mælist það hjá hvorugri stöðinni, það heyrir til undantekninga að ég horfi á innlendar sjónvarpsfréttir. Efnisvalið og efnistökin ráða þar mestu. Helst fylgist ég með ríkisfréttunum en slekk æ oftar á viðtækinu. Raunverulegar fréttir víkja í vaxandi mæli fyrir getgátum um hvað kunni að gerast. Þetta eru ekki fréttir eða skýringar á einhverju sem hefur gerst heldur frásagnir í viðtengingarhætti af einhverju sem kann að verða. Þetta er sérkennileg þróun sem skýrist ef til vill af því að fréttamönnum finnst auðveldara að segja frá einhverju sem kannski gerist en að brjóta það til mergjar sem hefur gerst.
Einfalda skýringin á þessum litla áhuga á sjónvarpsfréttum er að leiðirnar til fréttaöflunar hafa tekið stakkaskiptum með nýrri tækni. Þessi skýring er að sjálfsögðu rétt. Aðgengi að erlendum fréttamiðlum er meira en nokkru sinni. Samanburður á efnistökum fréttamanna þar og hér á landi er innlendu stöðvunum mjög í óhag svo að ekki sé minnst á tæknilega þáttinn.
Hér á landi hafa fréttastöðvarnar flutt sig í mjög ríkum mæli inn á svið félags- og neytendamála með kröfugerð á hendur opinberum aðilum. Ríkissjónvarpið leitast við að lífga upp á fréttatímann með beinum útsendingum þótt viðfangsefnið gefi alls ekki tilefni til slíkra útsendinga sem dregur því úr gildi þeirra. Ekkert af þessu kallar á nýja áhorfendur eins og tölurnar sýna.
Sunnudagur 18. 10. 15
Í dag efndu Rut og Richard Simm píanóleikari til tónleika í Hlöðunni að Kvoslæk. Þau fluttu verk eftir Mozart, Bach og Brahms. Tónleikarnir voru vel sóttir í góðu haustverði.
Umræður um stöðu flóttamanna hér á landi taka á sig einkennilegar myndir. Lögmætar ákvarðanir eru teknar í hverju málinu eftir öðru. Þegar niðurstöður um brottvísanir eru kynntar er þess krafist að þeim sé ekki hrundið í framkvæmd. Hvar setja menn mörkin ef þeir hverfa frá reglunni um að allir séu jafnir fyrir lögunum? Ræðst framkvæmd hennar af málaflokkum?
Kosið var til þings í Sviss í dag. Þegar helmingur atkvæða hafði verið talinn stefndi í stórsigur fyrir Lýðflokk Sviss (SVP), hægri flokk landsins. Spáð er að þingmönnum hans fjölgi um 11 í 64 þingmenn. Flokkurinn hefur aldrei fengið fleiri þingmenn, árið 2007 náði hann bestum árangri til þessa með 62 þingmenn. Líkur eru á að fjórir flokkar hægra megin við miðju fái hreinan meirihluta á þingi, 101 þingmann af 200.
Eitt helsta baráttumál SVP er að útlendingalög séu ströng og staðið sé gegn ólöglegum innflytjendum. Meðal þeirra sem náð hafa kjöri er Magdalena Martullo-Blocher. Hún er dóttir Christophs Blochers, eins af forystumönnum SVP. Honum er gjarnan lýst sem umdeildasta stjórnmálamanni Sviss. Hann var dómsmálaráðherra árin 2004 til 2007 áður en honum var ýtt til hliðar þar sem hann þótti of harður í horn að taka.
Ég hitti Blocher á Schengen-ráðherrafundum. Hann vildi ekki stjórna þeim og var það ein af ástæðunum fyrir að samið var um aukinn rétt Schengen-ríkja utan ESB samhliða því sem þau féllu frá fundarstjórn á ráðherrafundum í blönduðu nefndinni (Mixed Committee). Minnist ég morgunverðarfundar um þetta með Blocher í sendiráði Sviss skammt frá gömlu Luxemborgar-brautarstöðinni í Brussel. Þar bar hann ekki með sér að forðast málefnalega niðurstöðu í samvinnu við aðra.
Laugardagur 17. 10. 15
Á mbl.is segir í dag:
„Isavia ætlar ekki að skila gögnum til Kaffitárs um forval á leigurými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þrátt fyrir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi gert félaginu að skila gögnunum. Þetta sagði Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.
Dómsmál Kaffitárs gegn Isavia var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Isavia fékk frest til mánaðarmóta til að skila greinargerð.
„Það sem er verið að biðja um núna eru ekki upplýsingar um hvernig Isavia vinnur,“ sagði Björn Óli. „Það er verið að biðja um upplýsingar hvernig þessi fyrirtæki sem tóku þátt í þessu útboði vinna, það eru miklu meiri upplýsingar um fyrirtæki heldur en þau eðlilega myndu gefa.“
Hann sagði að Isavia ætlaði ekki að afhenda gögnin og þannig halda trúnaði við fyrirtækin sem tóku þátt í útboðinu.“
Leyndarhyggjan sem einkennir störf Isavia er ekki traustvekjandi. Úrskurðarnefndin sem Isavia treystir ekki til að komast að réttri niðurstöðu er sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd. „Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir og verður ekki skotið annað innan stjórnsýslunnar. Þeir hafa því jafnframt fordæmisgildi fyrir önnur stjórnvöld og stuðla þannig að auknu samræmi í framkvæmd upplýsingalaganna,“ segir á vefsíðu nefndarinnar. Tveir nefndarmenn og varamenn þeirra skulu uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar en hinn varaformaður.
Úrskurðarnefndin hefur tvisvar sinnum fjallað um beiðni Kaffitárs um umbeðnar upplýsingar og í báðum tilvikum hafnað kröfum Isavia í ítarlegum og vel rökstuddum úrskurðum. Síðustu ummæli Björns Óla um eðli upplýsinganna sem um er beðið bera merki um að forráðamenn Isavia fara úr einu víginu í annað í málflutningi sínum. Þeir gera jafnframt allt í þeirra valdi til að draga að afhenda hin umbeðnu gögn. Að gera því skóna að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ekki tekið mið af lögmætum hagsmunum í úrskurðum sínum ber vott um mikla þrákelkni.
Þetta málavafstur hins opinbera hlutafélags er enn ein staðfestingin á því að ohf-væðingin hefur misheppnast. Að fyrirtæki á borð við Isavia hafi á hendi stjórn tug milljarða framkvæmda á Keflavíkurflugvelli er ekki traustvekjandi. Undarlegt er að stjórnvöld hafi ekki á dagskrá að umbylta starfseminni á flugvellinum og treysta einkaaðilum í ríkara mæli fyrir honum.
Föstudagur 16. 10. 15
Jóhanna síðasta orrustan kvikmynd Björns Brynjólfs Björnssonar var frumsýnd fimmtudaginn 15. október Urðarköttur skrifar um hana í Kvennablaðið föstudaginn 16. október (sjá hér ). Í umsögninni segir meðal annars:
„Hvort sem Jóhönnu líkar betur eða verr dregur kvikmynd Björns Brynjólfs upp allt annað en flatterandi mynd af henni sem forsætisráðherra. Hún virðist vera ákaflega mistækur verkstjóri, meira og minna ófær um að miðla sýn sinni til annarra, hafa afar takmarkaða stjórn á framvindu mála og einangrast mjög auðveldlega. Hún er dul og lokuð og á erfitt með að finna tilfinningum sínum farveg. Ræður hennar verða lítið annað en reiðilestrar, utan þær sem eru stofnanalegt þus. Leiftrandi er frú Jóhanna ekki, nema kannski að innan.“
Urðarköttur segir einnig í Kvennablaðinu föstudaginn 16. okróber:
„Í myndinni er hann [Árni Páll Árnason] hégómlegur, undirförull og yfirborðskenndur, en ekki síst hreinlega lélegur stjórnmálamaður. Á örfáum dögum tekst honum að brotlenda því erfiða kjörtimabili sem Jóhönnu Sigurðardóttur dreymdi um að yrði sitt glæsilega spjald í sögunni.“
Af frásögnum um myndina um Jóhönnu má ráða að tilgangur hennar sé öðrum þræði að hefna harma Jóhönnu á Árna Páli fyrir að hafa ekki sömu skoðun og Jóhanna á stjórnarskrármálinu – kannski er orðið „skoðun“ ekki rétt því að enginn veit með vissu hverju Jóhanna vildi í raun breyta í stjórnarskránni, hún vildi að því er virðist helst að ný stjórnarskrá tengdist nafni sínu á spjöldum sögunnar. Þetta mistókst hrapallega, sagan mun geyma tilraunir hennar til stjórnarskrárbreytinga sem víti til varnaðar.
Árni Páll Árnason snerist til varnar á Morgunvakt rásar 1 föstudaginn 16. október og á ruv.is er haft eftir honum:
„Mér finnst á köflum hafa gætt í umræðum um þetta mál á síðustu misserum einhverrar rétttrúnaðarherferðar - að annað hvort skrifir þú upp á heilan pakka gagnrýnislaust eða þú ert svikari, þjóðníðingur eða handbendi ráðandi afla. Þetta er bara óboðleg umræða.“
Á ruv.is segir einnig:
„Árni Páll segir komið nóg af þessari orðræðu. Ekki sé hægt að leiða umræðuna áfram á forsendum „maóískrar“ rétttrúnaðar-orðræðu. „Þar sem sumir eru góðir og aðrir vondir.““
Líklega liggur nú ljóst fyrir hver undirbjó með leynd formannsframboð Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur gegn Árni Páli á landsfundi Samfylkingarinnar.
Fimmtudagur 15. 10. 15
Samtal mitt á ÍNN við Höskuld Þráinsson prófessor er komið á netið og má sjá það hér.
Þess er minnst í dag að 40 ár eru frá því að ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar færði efnahagslögsöguna í 200 sjómílur. Ég var þá skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og gegndi stundum störfum sem ritari ríkisstjórnarinnar. Þá vann ég náið með embættismönnum utanríkisráðuneytisins og ævilöng vinátta skapaðist milli mín og Kenneths Easts, sendiherra Breta, sem hvarf um tíma úr landi fyrri hluta árs 1996 þegar ríkisstjórnin sleit stjórnmálasambandi við Breta.
Skömmu fyrir stjórnmálaslitin fór ég með Geir og fulltrúum stjórnarflokkanna, þingmönnunum Guðmundi H. Garðarssyni (Sjálfstæðisflokki) og Þórarni Þórarinssyni (Framsóknarflokki), til London til viðræðna við Harold Wilson, forsætisráðherra Breta. Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, var einnig í London og sendi fréttir til blaðsins.
Allt gerðist þetta 20 árum áður en ég tók að færa dagbók hér á netinu, raunar áður en tölvur komu til sögunnar innan stjórnarráðsins. Má velta fyrir sér heiftinni á samfélagsmiðlunum á þessum átakatímum. Það var til dæmis fundið Geir til ámælis að hann sagðist líta hættulegt atvik á miðunum „alvarlegum augum“ var hann sakaður um að kveða ekki nógu fast að orði um ósvinnu Breta.
Von er á David Cameron, forsætisráðherra Breta, til landsins síðar í mánuðinum. Af því tilefni hefur verið sagt að hingað hafi ekki komið breskur forsætisráðherra frá því að Sir Winston Churchill sótti landið heim 12. ágúst 1941. Þetta er ekki rétt.
Hinn 25. september 1960 hafði Harold Macmillan forsætisráðherra viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og ræddi þáverandi landhelgisdeilu við Ólaf Thors forsætisráðherra. Hér má lesa um fund þeirra.
Sunnudaginn 9. febrúar 1964 kom Sir Alec Douglas Home, forsætisráðherra Bretlands, til Keflavíkurflugvallar á leið vestur um haf „og var í fylgd með honum hið fríðasta föruneyti“ seagði á forsíðu Morgunblaðsins, þar á meðal Richard Butler, utanríkisráðherra Bretlands. Meðan ráðherrarnir stöldruðu við á Keflavíkurflugvelli, ræddu þeir við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og Guðmund í. Guðmundsson utanríkisráðherra en auk þess áttu þeir stuttan fund með blaðamönnum. Ég man vel eftir þessu því að ég ók með föður mínum suður á flugvöll. Hittust ráðherrarnir í setustofu á efri hæð flugstöðvarbyggingarinnar inni á varnarsvæðinu. Um þennan atburð má lesa hér.
Miðvikudagur 14. 10. 15
Í dag ræddi ég við Höskuld Þráinsson prófessor í þætti mínum á ÍNN sem verður frumsýndur kl. 20.00 í kvöld á rás 20.
Fyrir rúmum tveimur áratugum tókst að sannfæra ríkisstjórnina og alla alþingismenn nema tvo um að best væri að segja sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og ganga í eitthvað sem hét og heitir kannski enn NAMMCO, þá mætti hefja löglegar hvalveiðar. Þetta reyndist hin argasta vitleysa og var gengið í hvalveiðiráðið að nýju til að hefja löglegar veiðar á hvölum.
Þessi illa ígrundað hrakför kemur í hugann þegar birtast greinar um að besta leiðin til að efla borgaralegt öryggi á Íslandi sé að segja skilið við Schengen-samstarfið. Baldur Ágústsson, fyrrv. forsetaframbjóðandi, skrifar í þessa veru í Morgunblaðið í dag.
Hann nefnir samstarf íslenskrar lögreglu við Interpol sem er gott og á gömlum grunni, það kemur hins vegar alls ekki í stað fyrir hið nána samstarf sem er við Europol, Evrópulögregluna, og er reist á Schengen-aðildinni. Þá segir Baldur:
„Athyglisvert er að Bretland - sem er ekki er aðili að [Schengen-]samningnum fékk og hefur full afnot af gagnagrunninum.“
Baldur sleppir því að Bretar eru aðilar að ESB og sömdu um hluta aðild að Schengen árið 1999 og sem slíkir eiga þeir aðild að Europol. Það var þó ekki fyrr en í byrjun þessa árs (2015) að leiðtogaráð ESB samþykkti aðild Breta að megingagnagrunni Schengen-samstarfsins (SISII). Að líkja stöðu Íslendinga gagnvart ESB við stöðu Breta jaðrar við tilraun til blekkingar en er vafalaust reist á vanþekkingu.
Vandinn hér á landi er ekki Schengen-aðildin heldur að lögregla hefur ekki fengið fjárhagslegt svigrúm til að nýta sér kosti henar til hlítar,
Halldór Jónsson, verkfræðingur og bloggari, er eindreginn andstæðingur Schengen-aðildarinnar. Hann segir ólíðandi að Schengen-sjónarmið mín og Halldórs heitins Ásgrímssonar séu höfð „að slíkum lögum að ekki megi ræða eða draga í efa þessa gjörð sem þeir áttu mestan þátt í að koma á“.
Ég var menntamálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem vann að Schengen-aðildinni en átti ekki beinan hlut málinu, hafði vissar efasemdir. Þær hafa horfið við kynni mín af gildi samstarfsins. Að eigna mér aðildina sannar aðeins hve yfirborðslegur þessi málatilbúnaður Halldórs Jónssonar er. Þeir Baldur ættu að finna sér verðugra baráttumál.
Þriðjudagur 13. 10. 15
Látið er eins og það snerti ekki fjárhag ríkisins að hefja eigi framkvæmdir til að unnt verði að taka á móti 25 milljónum farþega á Keflavíkurflugvelli árið 2040. Kostnaður vegna þessa nemur mörgum tugum milljarða. „Ekki er gert ráð fyrir að ríkið þurfi að leggja fjármuni til framkvæmdanna,“ sagði fréttastofa ríkisútvarpsins. Hún lét þess að ríkið á allt á öll mannvirki á Keflavíkurflugvelli og annast auk þess rekstur þeirra. Stóra viðfangsefnið er auðvitað að ákveða hvort það sé hagskvæmast fyrir ríkið og þjóðarbúið að þetta sé allt á hendi ríkisins. Hvergi í heiminum hefur ríkið reynst betri rekstrar- eða framkvæmdaaðili en einstaklingar eða fyrirtæki þeirra. Er Keflavíkurflugvöllur undantekningin sem sannar regluna?
Árið 2007 fóru 2,5 milljón farþega um Keflavíkurflugvöll, árið 2014 voru þeir 3,8 milljónir. Þeim fjölgaði um 1,3 milljón á sjö árum, eða um 200 þúsund á ári, 8%. Aukningin síðustu tvö ár hefur reyndar verið gríðarleg. Ástæðulaust er þó að gleyma því að árið 2010 fækkaði farþegum á vellinum niður í rúma milljón.
Um Kastrup við Kaupmannahöfn fara 25 milljón farþegar, Arlanda við Stokkhólm um 22 milljón farþegar og Landvettern við Gautaborg 5 milljónir svo að dæmi séu tekin. Nú ætlar Isavia sér að vera með 25 milljón farþega á Keflavíkurflugvelli eftir 25 ár og vinna eftir því plani. Hver eru rökin?
Á Norðurlöndum fjölgar farþegum á flugvöllum að meðaltali um 3-4% á ári. Yrði þróunin sambærileg á Keflavíkurflugvelli yrði fjöldinn um 8,5 milljónir eftir 25 ár – útreikningar Isavia virðast gera ráð fyrir 8 til 10% vexti farþegafjölda til frambúðar.
Margar hliðar eru á vexti á borð við þann sem felst í þessum spám Isavia. Hvernig verður öryggismálum háttað? Augljóst er að allt öryggiseftirlit á Keflavíkurflugvelli er að sligast undan hinu gífurlega álagi þegar rúmlega milljón ferðamenn koma til landsins og að auki fara þrjár til fjórar milljónir sem „gegnumfarþegar“ um völlinn.
Isavia hefur glatað trúverðugleika vegna leyndarhyggjunnar. Tölur um fjölgun farþega umfram allt sem venjulegt er í nágrannalöndunum þarf að rökstyðja og ekki láta eins og það skipti fjárhag ríkisins engu þegar ríkisfyrirtæki ræðst tug milljarða fjárfestingu.
Þriðjudagur 20. 10. 15
Justin Trudeau verður næsti forsætisráðherra Kanada. Hann var þriggja ára þegar ég var í fylgdarliði Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra í Ottawa og við snæddum hádegisverð hjá Pierre Elliott Trudeau, föður Justins, í opinberum forsætisráðherrabústað Kanada 27. janúar 1975. Undir málsverðinum birtust tveir litlir, léttklæddir drengir í dyragættinni, Justin, f. 25. desember 1971, og Alexander, f. 25. desember 1973. Þeir vildu hafa tal af föður sínum sem skrapp fram og sinnti þeim. Kannski voru þeir að búa sig undir hádegislúr hjá barnfóstrunni, móðir þeirra Margaret efndi á sama tíma til hádegisverðar fyrir Ernu Finnsdóttur forsætisráðherrafrú og Unni Kröyer sendiherrafrú.
Við Íslendingarnir vorum af heimleið frá ársþingi Þjóðræknisfélagsins í Winnipeg þar sem Geir talaði ásamt Haraldi Kröyer, sendiherra í Washington. Báðir fluttu þeir Geir góðar ræður yfir Vestur-Íslendingum en ræða Haraldar er þó eftirminnilegri því að í henni miðri tók hann að kveða rímur við góðar undirtektir.
Pierre Elliott Trudeau er einn hinna miklu leiðtoga Frjálslynda flokksins í Kanada við hlið Lesters B. Pearsons, forvera hans, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1957 fyrir að skipuleggja friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna og stilla til friðar við Súez-skurð. Trudeau varð 15. forsætisráðherra Kanada 1968 til 1979 og aftur 1980 til 1984. Hann kom hingað til lands 7. maí 1977 og fór þá meðal annars með Geir Hallgrímssyni til Þingvalla. Trudeau er eftirminnilegur maður og fór vel á með honum og Geir.
Justin Trudeau vann góðan sigur í þingkosningunum, hinum fyrstu sem hann leiðir fyrir Frjálslynda flokkinn, dæmigerðan miðflokk. Flokkurinn jók þingmannafjölda sinn úr 34 í 184 eða um 150 þingmenn en alls sitja nú 338 menn á þingi Kanada svo að meirihlutinn að baki Trudeau er öruggur. Hann er kennari að mennt en var kosinn á þing 2008 og að nýju 2011. Flokksformaður var hann kjörinn með glæsibrag árið 2013.
Kosningabaráttan var óvenju löng að þessu sinni í Kanada og er talið að Stephen Harper, forsætisráðherra Íhaldsmanna síðan 2006, hafi ákveðið þennan langa aðdraganda að kjördegi til að afhjúpa reynsluleysi Trudeaus. Sú baráttuaðferð misheppnaðist herfilega, reyndust klókindi sem komu Harper í koll. Hann hefur þegar sagt af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins.
Mánudagur 12. 10. 15
Nýtt hefti Þjóðmála kemur út um þessar mundir, haustheftið 2015. Við þetta verða þau tímamót að Jakob F. Ásgeirsson, stofnandi Þjóðmála, lætur af ritstjórn. Óli Björn Kárason tekur við tímaritinu af Jakobi.
Við Jakob höfum verið samstarfsmenn við Þjóðmál í 10 ár, megi ég orða það svo. Ég hef skrifað í öll heftin sem Jakob ritstýrði. Fastur dálkur minn heitir Af vettvangi stjórnmálanna. Auk þess hef ég skrifað umsagnir um bækur.
Jakob hélt Þjóðmálum úti af forsjálni, umhyggju og metnaði.
Óli Björn hefur mikla reynslu af blaðamennsku og skrifar nú reglulega greinar í Morgunblaðið. Þær eru með því athyglisverðasta sem birtist í fjölmiðlum um stjórnmál á líðandi stundu.
Sunnudagur 11. 10. 15
Á vefsíðunni Kjarnanum segir í dag:
„Ólafur Ragnar segir [á Bylgjunni] að hann muni ræða það við eiginkonu sína og dætur hvort hann eigi að bjóða sig fram á ný [til forseta] og að sú ákvörðun verði kynnt í nýársávarpi hans. Ástæðan fyrir því hann ákvað að bjóða sig aftur fram árið 2012 hafi verið vegna óska fjölda fólks um að gera það. „Þá var þjóðin að heyja margar örlagaglímur á mörgum sviðum. Þessum glímum er að mörgu leyti lokið. Ég hef aldrei talið mig ómissandi og ef ég tek þá ákvörðun um að hætta vona ég að því verði sýndur fullur skilningur.““
Ólafur Ragnar styðst við allt annað bakland eftir að hafa verið forseti í tæp 20 ár en þegar hann var kjörinn. Vilji hann gleðja upphaflega stuðningsmenn sína í upphafi árs 2016 tilkynnir hann að sumarið 2016 hverfi hann frá Bessastöðum. Vilji hann gleðja þá sem stöðu að baki honum árið 2012 situr hann áfram. Ólíklegt er að nokkur „alvöru“ frambjóðandi taki við hann slaginn ákveði Ólafur Ragnar að sitja áfram.
Skynsamlegast er að sem lengst ríki friður um forsetaembættið. Líklegt er að Ólafur Ragnar hafi nú þegar skapað allan þann ófrið um embættið sem er á hans færi. Hann sitji því á friðarstóli og njóti efri áranna á Bessastöðum til 2020, velji hann þann kost.
Á visir.is er vitnað í sama samtal og sagt:
„„Okkur er að takast að gera Ísland að Sviss Norðurslóða,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson forseti um mikilvægi Arctic Circle ráðstefnunnar fyrir Ísland. Með ráðstefnunni hafi tekist að gera Ísland að umræðuvettvangi um málefni Norðurslóða.“
Í þessum orðum vísar Ólafur Ragnar vafalaust til World Economic Forum og hinna árlegu funda í svissneska fjallabænum Davos. Langt er í land að umræður um Norður-Íshafið skírskoti til jafnmargra þjóða og fundirnir í Davos en hingað kemur líklega breiðari hópur fólks en til Davos. Spyrja má hvort áhugi á umræðum um norðurslóðir minnki hægi á umsvifum þar eins og gerst hefur undanfarin misseri. Íslandi, aðila að NATO með varnarsamning við Bandaríkin, verður þó seint líkt við Sviss í umræðum um alþjóðastjórnmál.
Laugardagur 10. 10. 15
Gerð hefur verið heimildarmynd um síðasta mánuð Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra. Stikla til kynningar á myndinni hefur að sögn að geyma gagnrýni Jóhönnu á eftirmann hennar á formannsstóli Samfylkingarinnar, Árna Pál Árnason. Kennir hún honum um að hafa komið í veg fyrir að stjórnarskrármálið hlyti afgreiðslu á þingi fyrir kosningar 2013. Þá mun Jóhanna einnig skella skuld á þingflokk samstarfsmanna sinna í VG.
Ögmundur Jónasson sat í ríkisstjórn Jóhönnu og vísar ummælum hennar um VG til föðurhúsanna, henni væri nær að líta í eigin barm. Verkstjórn hennar hafi brugðist. Árás hennar á Árna Pál sé ómakleg,
Í raun hefði verið stílbrot hjá Jóhönnu að skella ekki skuldinni á aðra í stjórnarskrármálinu. Frá upphafi ferils síns sem forsætisráðherra hélt hún hins vegar svo klunnalega og frekjulega á málinu að það hlaut að fara illa. Frá 1. febrúar til kosninga vorið 2009 hafði Jóhanna framsóknarmenn í stjórnarskrárliðinu með sér. Gekk Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, erinda Jóhönnu sem formaður þingnefndar um málið. Öll málsmeðferðin var á þann veg að hún bar dauðann í sér.
Stjórnarskrármálið var aðeins eitt af hjartans málum Jóhönnu sem forsætisráðherra. Hún ætlaði einnig að umbylta sjávarútvegsmálunum og kippa löppunum undan kvótakerfinu. Loks átti að semja um aðild að ESB á hennar vakt. Allt rann þetta út í sandinn. Hverjum skyldi hún kenna um það í heimildarmyndinni?
Í þætti Gísla Marteins Baldurssonar, Vikunni, sem var frumsýndur föstudaginn 2. október 2015 var birt niðurstaða í skoðanakönnun þar sem spurt var: „Hver af eftirtöldum forsætisráðherrum telur þú að hafi staðið sig best í embætti?“ Flestir, 43,1%, töldu Jóhönnu hafa staðið sig best. Það er ekki öll vitleysan eins!
Kjarninn segir frá því í dag að SkjárEinn hafi frumsýnt þáttinn Voice Ísland sama kvöldið og þáttur Gísla Marteins var frumsýndur. Gallup hafi mælt meðaláhorf á Voice Ísland hjá Íslendingum á aldrinum 12 til 80 ára 20,1 prósent og uppsafnað áhorf 28,7 prósent. Þáttur Gísla Marteins hafi ekki komist inn á topp tíu lista fyrstu vikuna sem hann var í loftinu, sem þýði að meðaláhorf á hann hafi að minnsta kosti verið minna en á breska þáttinn Poldark, sem var með 18,7 prósent meðaláhorf og 26,8 prósent uppsafnað áhorf.
Föstudagur 09. 10. 15
Sorglegt er að ekki takist að finna sameiginlegan flöt í kjaraviðræðum ríkisins og lögreglumanna. Áður hefur harka hlaupið í samningaviðræður lögreglumanna en að lokum hefur að sjálfsögðu fundist lausn sem reist er á samkomulagi þótt hvorugur aðili sé kannski ekki að fullu sáttur við hana. Brýnt er að finna sem fyrst leið til slíkrar niðurstöðu nú og verða báðir aðilar að leggja sig fram í leit að henni og spara stóru orðin og aðgerðagleðina.
„Meðan ég hef enn gaman af stjórnmálum þá ætla ég mér að vera í þeim. Daginn sem mér fer að finnast þetta leiðinlegt eða einhver byrði þá held ég að ég myndi skjótt skipta um starfsvettvang. Þá er til nóg af öðru fólki til að vinna þessa vinnu,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra í upphafi viðtals sem Fréttablaðið birtir í dag. Beint tilefni þess nú er að Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, skrifaði grein í Fréttablaðið á miðvikudag þar sem hann sagði pólitíska spillingu ekki verða augljósari en í máli Illuga tengdu fyrirtækinu Orku Energy.
Ólíklegt er að Illuga þyki gaman af stjórnmálum þegar vegið er að honum á þann hátt sem nú er gert. Honum finnst þau þó ekki nógu leiðinleg til að hann ætli að hætta. Í viðtalinu segir hann:
„Það sem hefur breyst í stjórnmálum frá því sem áður var er að líftími fólks í stjórnmálum er styttri heldur en var hér á tímum Bjarna Ben, Ólafs Thors og þessara manna. Fjarlægð þeirra frá kjósendum, umræðunni og öllu slíku var miklu meiri. Fjölmiðlun var fábreyttari og alls ekki jafn aðgangshörð og hún er í dag. Flokksblöðin voru að rífast, en þessir menn voru ekki á sjónvarpsskjáum landsmanna á hverju kvöldi og svo framvegis. Þeir gátu setið lengur.“
Það sem Illugi segir um „fjarlægð“ föður míns og Ólafs Thors „frá kjósendum“ er reist á algjörri vanþekkingu á stjórnmálabaráttu þess tíma og að láta eins og þeir hafi setið á einhverjum friðarstóli vegna þess að fjölmiðlun hafi „alls ekki“ verið „jafn aðgangshörð“ og nú er hrein ímyndun. Að hugga sig við að vegna þessa hafi þessir stjórnmálamenn getað „setið lengur“ er því einskis virði. Þess eru að auki mörg dæmi að stjórnmálamenn hafi setið lengi þrátt fyrir sjónvarpið.
Fimmtudagur 08. 10. 15
Viðtal mitt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem birtist á ÍNN miðvikudaginn 7. október er komið á netið og má sjá það hér.
Í dag efndi Varðberg til hádegisfundar í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns þar sem Lech Mastalerz, forstöðumaður sendiráðs Póllands, flutti erindi um Pólverja andspænis áreitni Rússa. Það var fróðlegt að heyra sjónarmið hins pólska stjórnarerindreka en ræðu hans má lesa hér.
Augljóst er að áhyggjur þeirra sem búa í nágrenni við rússnesku hólmlenduna Kaliningrad fyrir botni Eystrasalts á mörkum Póllands og Litháens eru miklar. Rökin sem Mastalerz flutti fyrir nauðsyn þess að Bandaríkjamenn og NATO efldu viðbúnað sinn í þessum löndum voru sannfærandi.
Innlimun Rússa á Krímskaga var ekki aðeins reiðarslag fyrir Úkraínumenn heldur allar nágrannaþjóðir þeirra. Af orðum Mastalerz mátti ráða að hann teldi hernað Rússa í Sýrlandi að nokkru þjóna þeim tilgangi að rússneski herinn reyndi vopn sín. Rússnesk stjórnvöld þyrðu ekki að láta fullkomin vopn í hendur á aðskilnaðarsinnum eða hermönnum sínum í austurhluta Úkraínu eftir að farþegavél Malaysia Airlines var skotin niður í fyrra. Þá taldi hann Rússa ekki hafa burði til að heyja tvö stríð samtímis og þess vegna minnkaði spennan í Úkraínu.
Ég sagði á fundinum að lýsing Mastalerz á stöðunni í Póllandi sýndi að full ástæða væri til árvekni í austurhluta Evrópu. Þriðjudaginn 6. október hefði yfirmaður Miðjarðarhafsflota NATO sagt á fundi í Washington að Rússar hefðu reist stálboga sem næði frá Norður-Íshafi til Miðjarðarhafs, sjá hér. Lýsti ég undrun hve mikils andvaraleysis gætti um þjóðaröryggismál hér á landi. Við ættum ekki síður en Pólverjar að ræða þessi mál af alvöru.
Miðvikudagur 07. 10. 15
Í kvöld ræði ég við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Vegna þess að Bjarni var á leið til útlanda í gær á fund Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var samtal okkar tekið upp um hádegisbil í gær. Það verður frumsýnt kl. 20.00 í kvöld á rás 20 og síðan sýnt á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Á tímaflakki Símans má sjá samtalið hvenær sem er eftir kl. 20.00.
Mikil harka er hlaupin í forystu- og félagsmenn þriggja félaga sem enn eiga ósamið við ríkið, sjúkraliða, SFR-fólk og lögreglumenn. Vegna deilu þessara félaga sem eru í BSRB er sagt að slitnað hafi upp úr svonefndum SALEK-viðræðum um breytta skipan kjaraviðræðna. Markmið þeirra viðræðna er að stöðva svokallað „höfrungahlaup“ í kjaraviðræðum eins og Bjarni orðar það í samtali okkar en ég kalla vítahring.
Ég geri mér ekki grein fyrir hvort þessi þrjú félög eru síðust í „höfrungahlaupinu“, það er hvort þau vilji hoppa yfir öll félögin sem samið hafa á undan þeim eða hlotið niðurstöðu í gerðardómi – markmiðið sé á lokasprettinum að ná betri samningum en aðrir hafi gert.
Áratuga reynsla er af þessari aðferð sem enn er beitt í kjaraviðræðum og einnig afleiðingum hennar: hraði verðbólguhjólsins eykst og eyðileggur allan ávinning eldri kjarasamninga. Forsendur þeirra eru sagðar brostnar og hlaupið hefst að nýju.
Skiljanlegt er að þeir sem hafa leitt þennan leik árum, ef ekki áratugum saman, hafi fengið nóg af honum og leiti annarra úrræða en SALEK-markmiðin taka mið af reynslu Norðurlandaþjóðanna.
Af samtölum við mann sem hefur mikla reynslu af kjaraviðræðum strönduðu SALEK-viðræðurnar ekki endilega á óleystri deilu þriggja BSRB-félaga heldur á ágreiningi um lífeyrismál sem rekja má til þess þegar Ögmundur Jónasson, þáv. formaður BSRB, knúði í gegn sérréttindi fyrir BSRB-menn í lífeyrismálum sem þeir vilja ekki sleppa. Það sé með öðrum orðum um skýra sérhagsmunagæslu af hálfu BSRB að ræða og hún valdi því að ekki náist samkomulag um vinnubrögð í kjaramálum sem almennt eru talin til bóta og mundu valda löngu tímabærum þáttaskilum.
Upphrópanastíllinn í kjarabaráttunni og nú síðast hvers kyns hótanir ekki síst gegn starfsemi Landspítalans varpa skugga á samfélagið – að allt stuðli þetta síðan að eyðileggingu á kaupmætti launa staðfestir aðeins furðulegheitin.
Þriðjudagur 06. 10. 15
Þegar gjaldeyrishöftin voru sett haustið 2010 var hugsunin að baki þeim að þau yrðu við lýði í 10 mánuði eða svo. Í febrúar 2009 settist ný ríkisstjórn að völdum og sat fram á vor 2013. Ráðherrar hennar sögðu ekki unnt að afnema höftin nema með því að ganga í ESB þótt annar stjórnarflokkanna væri andvígur ESB-aðild.
Höftin lifðu enn góðu lífi þegar stjórnin hvarf frá völdum eftir afhroð í kosningum. Ný ríkisstjórn tók haftamálin nýjum tökum og nú hefur fundist leið til að aflétta þeim þótt brottfarardagur haftanna hafi ekki verið kynntur.
Seðlabanka Íslands var falin framkvæmd haftanna. Það verk hefur ekki orðið til þess að auka veg bankans. Fyrir ráði hans liggur nú bréf frá risafyrirtækinu Samherja en Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri fyrirtækisins, hefur farið hörðum orðum um stjórnsýslu og stjórnarhætti í bankanum við framkvæmd gjaldeyrishaftanna sem fólst meðal annars í kæru bankans til sérstaks saksóknara. Hann grandskoðaði mál Samherja en féll frá ákæru.
Í dag 6. október birtist frétt í Morgunblaðinu um bréf umboðsmanns alþingis vegna kvörtunar Heiðars Guðjónssonar fjárfestis í framhaldi af því að seðlabankinn brá fæti fyrir kaup hans á hlut í Sjóvá. Heiðar kvartaði til umboðsmanns 23. nóvember 2010 og fær nú tæpum fimm árum síðar bréf frá umboðsmanni þar sem fram kemur að á þessum árum hafi hann fengið fleiri ábendingar og kvartanir sem tengjast verklagi seðlabankans við framkvæmd gjaldeyrishaftanna.
Samhliða bréfinu til Heiðars sendir umboðsmaður bréf til efnahags- og fjármálaráðherra og fleiri aðila þar sem hann veltir upp álitaefnum og óskar viðbragða viðtakenda snemma árs 2016. Af álitaefnunum má ráða að verulegir vankantar hafa verið á stjórnsýslu og framkvæmd gjaldeyrishaftanna hjá seðlabankanum.
Umboðsmaður hefur ekki sagt lokaorð sitt í málinu og langar útlistanir hans snúast eins og oft áður um afsakanir á hve lengi hann hefur setið með málið í fanginu. Í skýrslum umboðsmanns til alþingis er oft fundið að hve lengi stofnanir og ráðuneyti séu að bregðast við tilmælum umboðsmanns. Agavald umboðsmanns í þessu efni dofnar til mikilla muna þegar lesnar eru lýsingar hans sjálfs á eigin vanda við að afgreiða mál. Hann tilkynnir Heiðari Guðjónssyni þó í lok bréfs til lögmanns hans að bréfið frá 23. nóvember 2010 muni ekki „koma til frekari athugunar“.
Mánudagur 05. 10. 15
Í dómi hæstaréttar frá 1. október í máli hælisleitanda frá Gana sagði:
„Af gögnum málsins verður ráðið að ítölsk yfirvöld muni veita áfrýjanda [hælisleitandanum] þá vernd, sem áskilin er í alþjóðlegum skuldbindingum Ítalíu á sviði mannréttinda, þar á meðal samkvæmt reglunni um „non-refoulement“, sem öll ríki Evrópusambandsins eru bundin af, verði áfrýjandi sendur aftur til landsins. Þá verður ekki talið að slíkir gallar séu á málsmeðferð og skilyrðum til móttöku hælisleitenda á Ítalíu að talið verði að þar í landi sé fyrir hendi kerfislægur galli, sem leiði til þess að áfrýjandi standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta þar ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Af þeim sökum stóðu ákvæði 45. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga því ekki í vegi að íslenskum stjórnvöldum væri með vísan til 46. gr. a. laganna heimilt að synja fyrir að taka umsókn áfrýjanda til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 3. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. dóm Hæstaréttar 17. desember 2013 í máli nr. 445/2013. Sjá einnig til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 30. júní 2015 í máli A.S. gegn Sviss.“
Hæstiréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms um að réttmætt sé að vísa umræddum hælisleitanda úr landi. Á alþingi í dag sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra:
„Ég hef vegna þessa máls [ganverska hælisleitandans] sagt að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að fara yfir þessa hluti eins og við höfum verið að gera fram til þessa og passa okkur á því að við steypum fólki ekki í óöruggt umhverfi innan landa sem menn eru ekki öruggir um að séu í lagi. Ég hef þess vegna óskað eftir því við Útlendingastofnun að hún bíði með að vísa þessum hælisleitendum á brott til Ítalíu þar til búið er að leggja almennilegt mat á það hvernig þetta er núna á grundvelli Schengen-ríkjanna og þá sérstaklega í samhengi við fund sem ég sæki á þeim vettvangi í þessari viku.“
Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem vísað er til Ítalíu standi ekki „frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta þar ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð“. Nú í vikunni ætlar Ólöf Nordal sjálf að kynna sér stöðuna á Ítalíu í tengslum við Schengen-ráðherrafund sem hún sækir. Vandaðri verður málsmeðferðin ekki. Endanleg niðurstaða mun fást, að um hana verði sátt er ólíklegt.
Sunnudagur 04. 10. 15
Augljóst er af því sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir í viðtalinu við mig á ÍNN að hún vill að dómsmálaráðuneytið verði endurreist. Hún áttar sig á mikilvægi þess að ráðuneyti þriðju stoðar ríkisvaldsins sé sjálfstæð heild innan stjórnarráðsins. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er sömu skoðunar og Ólöf.
Ekkert gerist hins vegar í málinu nema Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra taki af skarið um það. Er hann andvígur þessari nauðsynlegu breytingu?
Í kvöld var sérstakur þáttur í sjónvarpsstöðinni BBC World um Ragnar Axelsson, RAX, ljósmyndara á Morgunblaðinu. Var sagt frá störfum hans og sýndar fjölmargar ljósmyndir teknar af honum. Þátturinn sýndi enn hve myndir RAX hafa vakið mikla alþjóðlega athygli.
Laugardagur 03. 10. 15
Í dag var þess minnst við hátíðlega athöfn í Snorrastofu í Reykholti í Borgarfirði að 20 ár voru hinn 23. september frá því að ritað var undir stofnskrá stofunnar. Ég flutti ræðu af þessu tilefni sem lesa má hér.
Föstudagur 02. 10. 15
Hinn 29. september var sagt frá því í sjónvarpsfréttum að Reykjavíkurborg, sem glímir við mikinn fjárhagsvanda, hefði selt lóð á Valssvæðinu við Hringbrautina undir risahótel á 40.000 kr. fm. Af þessu tilefni sagði Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og flugvallarvina, á Pressunni 30. september
„Forsaga málsins er sú að 2. apríl 2008 gerði Framkvæmda- og eignasvið borgarinnar samning við S10 ehf. um kaup S10 ehf. á byggingarrétti á lóð við Njarðargötu. Borgarráð staðfesti ekki samninginn með vísan til þess að ótímabært væri að úthluta byggingarrétti á lóðinni þar sem óvissa væri uppi um framtíðarskipulag svæðisins og framtíðarnotkun þess og lóðarinnar.
Í kjölfarið höfðaði S8 ehf., sem var í eigu sama aðila og S10 ehf., mál á hendur Reykjavíkurborg til að láta reyna á afgreiðslu borgarráðs í málinu. Þeim málaferlum lauk með dómsátt sem var gerð milli aðila hinn 8. desember 2008. Samkvæmt dómsáttinni er gert ráð fyrir að félaginu verði „……..úthlutað og seldur byggingarréttur á aðliggjandi svæði þegar endurskoðun gildandi deiliskipulags samhliða vinnu við framtíðarskipulag allrar Vatnsmýrarinnar liggur fyrir eða fyrr, ef ljóst verður hvort fyrirliggjandi hugmyndir stefnanda um uppbyggingu samræmist heildarendurskoðun svæðisins.“ Þá kemur fram í dómsáttinni að forgangsrétturinn að úthlutun lóðarinnar skuli gilda í fimm ár frá dagsetningu dómsáttarinnar. Borgarráð hafði í tvígang framlengt dómsáttina vegna tafa á skipulagsvinnunni.
Í sumar óskaði skrifstofa eigna- og atvinnuþróunar eftir heimild borgarráðs til að ganga til samninga við S8 ehf. um lóð, sem merkt er H á Hlíðarendasvæði í stað lóðarinnar, sem dómsáttin nær til, „svo ná megi markmiðum þeim sem sett eru fram í rammaskipulagi fyrir svæði Háskóla Íslands og Vísindagarða.“
Á fundi borgarráðs 13. ágúst sl. var lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. ágúst 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta S8 ehf. umræddri lóð þ.e. 6.594 fermetra lóð við Hlíðarenda merkt H.
Var það samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina Guðfinnu Jóh. Guðmundsdóttur og borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks Halldóri Halldórssyni. Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Áslaug Friðriksdóttir sat hjá við atkvæðagreiðsluna.“
Andstaða Guðfinnu og Halldórs var vegna þess að hótelið er í fluglínu – en er ekki ástæða til að huga að öðru vegna þessara einkennilegu viðskipta?
Fimmtudagur 01. 10. 15
Í morgun klukkan 07.30 til 08.00 hóf ég að leiða hugleiðslu hjá Tveimur heimum sjá nánar hér. Verða hugleiðslutímarnir tvisvar í viku á þessum tíma, þriðjudögum og fimmtudögum. Þátttakan var góð. Á vefsíðu Tveggja heima er unnt að nálgast upplýsingar um starfsemina og skráningu, þar segir einnig:
„Björn Bjarnason leiðir hugleiðslu sem er reist á grunni qi gong. Læknisfræðilegar rannsóknir sýna að hvíld hugans í hugleiðslu hefur mun meiri áhrif en áður var talið. Aðferðir við hugleiðslu eru margar, markmiðið er þó ávallt hið sama: að skapa hugarró til að njóta betur alls þess sem gert er og gerist – að átta sig á að fortíðin er liðin og verður ekki breytt en framtíðin óráðin og verður ekki stjórnað. Hjá Birni er um að ræða tæplega 30 mínútna hugleiðslutíma án annarra umbúða en kröfunnar um kyrrð og einbeitingu. Björn er formaður Aflsins, félags qi gong iðkenda. Hann er einn höfunda bókarinnar Gunnarsæfingarnar þar sem kynnast má grunnþáttum qi gong.“
Og ég segi á síðunni:
„Nú eru rúm 25 ár frá því að ég kynntist hugleiðslu á námskeiði sem ég sótti í franskri sveitarsælu. Snemma morguns áður en hitinn magnaðist sátum við í ilmi reykelsis í litlu uppgerðu útihúsi og hugleiddum undir lestri texta sem vakti jákvæðar tilfinningar. Síðar lærði ég hugleiðslu undir stjórn Gunnars Eyjólfssonar, leikara og qi gong meistara. Tók ég ásamt öðrum við af honum að leiða hugleiðsluhóp hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Eftir því sem ég hef kynnst hugleiðslu meira legg ég meiri áherslu á að nálgast hana umbúðalaust í þögn innan ákveðins tímaramma. Um hugleiðslu gildir hið sama og önnur mannanna verk: æfingin skapar meistarann. Hugleiðslutímar eru til þess að þátttakendur gefi sér og huga sínum tíma og njóti hans.“
Síðdegis leit ég inn í Epal þar sem fagnað var 40 ára afmæli fyrirtækisins.