9.10.2015 18:45

Föstudagur 09. 10. 15

Sorglegt er að ekki takist að finna sameiginlegan flöt í kjaraviðræðum ríkisins og lögreglumanna. Áður hefur harka hlaupið í samningaviðræður lögreglumanna en að lokum hefur að sjálfsögðu fundist lausn sem reist er á samkomulagi þótt hvorugur aðili sé kannski ekki að fullu sáttur við hana. Brýnt er að finna sem fyrst leið til slíkrar niðurstöðu nú og verða báðir aðilar að leggja sig fram í leit að henni og spara stóru orðin og aðgerðagleðina.

„Meðan ég hef enn gaman af stjórnmálum þá ætla ég mér að vera í þeim. Daginn sem mér fer að finnast þetta leiðinlegt eða einhver byrði þá held ég að ég myndi skjótt skipta um starfsvettvang. Þá er til nóg af öðru fólki til að vinna þessa vinnu,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra í upphafi viðtals sem Fréttablaðið birtir í dag. Beint tilefni þess nú er að Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, skrifaði grein í Fréttablaðið á miðvikudag þar sem hann sagði pólitíska spillingu ekki verða augljósari en í máli Illuga tengdu fyrirtækinu Orku Energy.

Ólíklegt er að Illuga þyki gaman af stjórnmálum þegar vegið er að honum á þann hátt sem nú er gert. Honum finnst þau þó ekki nógu leiðinleg til að hann ætli að hætta. Í viðtalinu segir hann:

„Það sem hefur breyst í stjórnmálum frá því sem áður var er að líftími fólks í stjórnmálum er styttri heldur en var hér á tímum Bjarna Ben, Ólafs Thors og þessara manna. Fjarlægð þeirra frá kjósendum, umræðunni og öllu slíku var miklu meiri. Fjölmiðlun var fábreyttari og alls ekki jafn aðgangshörð og hún er í dag. Flokksblöðin voru að rífast, en þessir menn voru ekki á sjónvarpsskjáum landsmanna á hverju kvöldi og svo framvegis. Þeir gátu setið lengur.“

Það sem Illugi segir um „fjarlægð“ föður míns og Ólafs Thors „frá kjósendum“ er reist á algjörri vanþekkingu á stjórnmálabaráttu þess tíma og að láta eins og þeir hafi setið á einhverjum friðarstóli vegna þess að fjölmiðlun hafi „alls ekki“ verið „jafn aðgangshörð“ og nú er hrein ímyndun. Að hugga sig við að vegna þessa hafi þessir stjórnmálamenn getað „setið lengur“ er því einskis virði. Þess eru að auki mörg dæmi að stjórnmálamenn hafi setið lengi þrátt fyrir sjónvarpið.