Dagbók: september 2016

Föstudagur 30. 09. 16 - 30.9.2016 17:45

Að kvöldi miðvikudags 28. september efndu Félag eldri bogara og Grái herinn til baráttufundar í Háskólabíói sem var þéttsetið. Guðmundur Björn Þorbjörnsson var á fundinum fyrir fréttastofu ríkisútvarpsins. Frétt hans klukkan 22.00 hófst á þessum orðum:

„Óp og köll voru gerð að formanni Sjálfstæðisflokksins á fundi baráttuhóps eftirlaunafólks í Háskólabíói í kvöld. Liðsmaður Gráa hersins segir baráttuna fyrir bættum kjörum eldri borgara rammpólitíska.“

Flutt var sýnishorn af því hvernig fundarmenn tóku fjármálaráðherra og heyrðist  baul í nokkrar sekúndur. Annaðhvort lét fréttastofan undir höfuð leggjast að flytja það sem fréttamaðurinn kallaði „óp og köll“ eða hann ákvað að flytja „rammpólitíska“ frétt til að gera á hlut fjármálaráðherra eða til að láta hlustendur halda að eldri borgarar hefðu misst stjórn á sér á fundinum.

Í gær var sagt frá því hér að umboðsmaður alþingis hefði skrifað  7930 orða álit vegna kvörtunar fanga yfir að hafa verið kallaður „asni“ af fangelsisstarfsmanni. Um 8000 orð fylla fjórar þéttskrifaðar síður í Morgunblaðinu. Umboðsmaður alþingis dregur ekki af sér þegar honum berst erindi af þessu tagi. Hvenær kemur að því að orðlag í fréttum ríkisútvarpsins verður borið undir umboðsmann alþingis?

Á leiðinni austur í Fljótshlíð síðdegis í dag var ekki traustvekjandi að hlusta á fréttamann ríkisútvarpsins segja í beinni útsendingu frá niðurstöðu fundar vísindamanna og viðbragðsaðila í stjórnstöðinni í Skógarhlíð. Þau rök eru gjarnan notuð til stuðnings tilvist ríkisútvarpsins að það hafi hlutverki að gegna í almannavarnakerfi þjóðarinnar. Þegar það kerfi er virkjað á einn eða annan hátt eins og gert hefur verið nú vegna vaxandi jarðhræringa í Mýrdalsjökli skiptir miklu að starfsmenn ríkisútvarpsins gangi fram af sömu varúð og ábyrgðarkennd og aðrir opinberir aðilar. Það var ekki gert í fréttunum klukkan 16.00. Fréttamaðurinn hafði ekkert vald á efninu og hlustandinn var litlu nær um stöðu mála.

Fimmtudagur 29. 09. 16 - 29.9.2016 13:30

Samtal mitt við Hildi Sverrisdóttur, borgarfulltrúa og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, er komið á netið og má sjá það hér

Á vefsíðu Andríkis, Vef-Þjóðviljanum, birtist 27. september mynd af níu körlum þeir eru: Jónas Kristjánsson, fyrrv. ritstjóri, Gunnar Smári Egilsson ritstjóri, Illugi Jökulsson rithöfundur, Egill Helgason útvarpsmaður, Þorvaldur Gylfason prófessor, Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, Hallgrímur Helgason rithöfundur og Stefán Ólafsson prófessor. Pistill fyrir neðan þessar andlitsmyndir hefst á þessum orðum:

„Hópur svonefndra álitsgjafa og pistlahöfunda hefur í áratugi reynt að telja Íslendingum trú um að lýðveldið Ísland sé aumt framtak, nánast allt sem gert er hér á landi beri vott um heimsku landsmanna, stjórnarskráin sé ónýt, níðst sé á náttúrunni, auðlindum sé rænt, ójöfnuður sé agalegur, kynjamisrétti ógurlegt, stjórnmálastéttin sé gjörspillt og þeir sem kjósi hana til valda séu fábjánar, allt sé betra í útlöndum, ekki sé því um annað að ræða en ganga í Evrópusambandið eða gera Ísland að útnárafylki í Noregi.“

Framhald pistils Andríkis má lesa hér.

„A, fangi í fangelsinu Litla-Hrauni, leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir framkomu X, starfsmanns fangelsisins, í sinn garð og viðbrögðum stjórnvalda við kvörtunum hans vegna þeirrar framkomu. Af gögnum málsins varð ráðið að X hefði sagt A vera „helvítis“ eða „andskotans“ „asna“. Jafnframt hefði því fylgt að A ætti að „snauta áfram“ eða „snáfa sér í burtu“. Í samtali milli þeirra, skömmu eftir að A leitaði til forstöðumanns fangelsisins vegna málsins, endurtók X ummæli sín með óbeinum hætti og þá í viðurvist annars fanga,“ þannig hefst 22 bls. (7930 orða) langt álit umboðsmanns alþingis vegna kvörtunar fangans A.

Í lok álitsins segir:

„Í þessu máli leitaði fangi til yfirstjórnar fangelsisins Litla-Hrauni, fangelsismálastofnunar og innanríkisráðuneytisins og kvartaði m.a. yfir því að [starfsmaður] við fangelsið hefði í samtali þeirra sagt hann vera „asna“ en aðilum ber ekki saman um hvort með hafi fylgt orðið „helvítis“ eða „andskotans“. Með fylgdi líka að fanginn ætti að „snauta áfram“ eða „snáfa sér í burtu“. Ekki verður séð að í umfjöllun framangreindra yfirvalda, að því leyti sem hún beindist að A, hafi birst skýr afstaða til þess hvort háttsemi [starfsmannsins] eða ummæli hans hefðu verið í samræmi við þær lagareglur og starfshætti sem starfsmanni fangelsisins hefði borið að fylgja.“

Umboðsmaður telur stjórnsýsluhætti ekki hafa verið nægilega vandaða og vill að yfirvöldin taki málið upp að nýju.

 

 

Miðvikudagur 28. 09. 16 - 28.9.2016 16:30

Í dag ræddi ég við Hildi Sverrisdóttur, borgarfulltrúa og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins til alþingis í Reykjavík suður, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn fer fyrstmí loftið kl. 20.00 kvöld.

Fjölþjóðlegur hópur rannsakenda birti í dag þá niðurstöðu að MH17 Boeing 777 farþegavélin á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur í Malasíu 17. júlí 2014 hafi verið skotin niður yfir austurhluta Úkraínu með BUK-skotflaug á hreyfanlegum skotpalli sem ekið var frá Rússlandi inn á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna í Úkraínu og þaðan aftur til Rússlands eftir árásina sem varð 298 manns að bana.

Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöðu í sakamálarannsókn í Hollandi. Stjórnvöld í Moskvu neita því staðfastlega að aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum eigi hér hlut að máli. Rússar segjast hafa undir höndum ratsjárgögn sem staðfesti þessa fullyrðingu sína. Bráðabirgðaniðurstaðan sem nú hefur verið kynnt af saksóknara í Hollandi er samhljóða niðurstöðu tæknilegrar rannsóknar sem kynnt var í Hollandi í október 2015.

Þessar fréttir berast á sama tíma og Rússar neita að kannast við ábyrgð sína á árásum á birgðalestir og sjúkrahús í Aleppo í Sýrlandi og fulltrúar þeirra hér á landi bregðast dólgslega við fréttum um háskaflug rússneskra hervéla á flugleiðum farþegavéla til og frá Íslandi.

Erfitt er að átta sig á hvað fyrir rússneskum yfirvöldum vakir með þessari hryssingslegu framkomu, hvað þau telji sig hafa upp úr henni. Vegur þeirra vex ekki almennt á alþjóðavettvangi með henni en ef til vill er þeim sama um það og vilja einmitt sýna að þau fari sínu fram á eigin forsendum en ekki annarra.

Eitt er hvernig Pútín og félagar telja sér sæma að ganga fram gagnvart öðrum hitt er hvernig stuðningsmenn hans hér og annars staðar reyna að bera blak af honum.

Alexeij Shadiskij, ráðunautur í rússneska sendiráðinu í Reykjavík, sagði að menn reyndu að vekja Rússagrýluna til lífs með frásögnum af háskaflugi rússnesku hervélanna 22. september. Ummæli hans og annarra rússneskra embættismanna vegna atviksins sýna að þeir eru einfærir um að blása lífi í grýlu og þurfa ekki aðstoð annarra til þess.

 

 

Þriðjudagur 27. 09. 16 - 27.9.2016 15:00

Þrisvar sinnum munu þau etja kappi saman í sjónvarpi fram að forsetakosningunum 8. nóvember, Hillary Clinton og Donald Trump. Þegar horft er á fyrstu kappræður þeirra í dag, daginn eftir að þær fóru fram og eftir að hafa heyrt og lesið að Hillary sé sigurvegari fyrstu lotunnar er ekki unnt annað en að fallast á það mat sé rétt.

Hillary hélt sig við málefni og rökstuddi vel allar árásirnar sem hún gerði á Trump. Þær drógu vel fram hve mikill gerviheimur hefur verið reistur í kringum hann, heimur sem honum líkar og hann hampar öllum öðrum til fyrirmyndar. Það er sama hvar borið er niður hvergi er allt sem sýnist þegar Trump á í hlut. Hjá honum er allt í meira en himnalagi, loksins bjóðist bandarísku þjóðinni að velja hann sér til leiðsagnar og velsældar án þess að flækjast í skuldbindingum gagnvart öðrum þjóðum.

Trump tókst ekki að slá Hillary út af laginu þótt hann reyndi það með ýmsum ráðum. Þegar í ljós kom að meirihluti áhorfenda taldi Hillary hafa sigrað fyrstu lotuna gagnrýndu Trump og hans menn stjórnanda umræðnanna, Lester Holt frá NBC-sjónvarpsstöðinni, fyrir að hafa hlíft Hillary, ekki lagt fyrir hana erfiðar spurningar enda væri hann langt til vinstri sagði Trump að viðræðunum loknum.

Trump hélt aftur af sér þegar litið er til þess hvernig hann hefur ausið úr skálum reiði sinnar yfir þá sem veittu honum andstöðu í forkosningunum meðal repúblíkana eða Hillary að henni fjarverandi. Að þessu sinni missti hann ekki stjórn á sér á sama hátt og sjá hefur mátt oftar en einu sinni. Hann skorti öryggi og málefnalega festu Hillary.

Sumt af því sem Hillary sagði um Trump er þess eðlis að með ólíkindum er hve langt hann hefur náð og að hann telji sér til tekna sumt af því sem hún sagði, ekki síst varðandi fjármál hans og hve oft hann hefði komist hjá að greiða alríkisskatta.

Kappræðurnar drógu að sér mikla athygli langt út fyrir Bandaríkin því að víða um lönd vildu menn sjá milliliðalaust fordóma sína í garð Trumps rætast á sjónvarpsskjánum. Það gerðist.

 

Mánudagur 26. 09. 16 - 26.9.2016 15:00

Morgunblaðið birtir í dag forsíðufrétt um að rússneskar sprengjuþotur á leið suður N-Atlantshaf hafi án allra tilkynninga eða ratsjármerkja flogið nálægt og undir flugvél Icelandair á leið frá Keflavík til Stokkhólms fimmtudaginn 22. september. Líklegt er að um 200 manns hafi verið um borð í íslensku vélinni en árekstrarvarar í Icelandair-vélinni duga ekki þegar í nánd er vél sem sendir ekki frá sér nein viðvörunarmerki.

Á mbl.is er mánudaginn 26. september birt samtal við Alexeij Shadiskij, ráðunaut í rússneska sendiráðinu í Reykjavík. Hann segir rússnesku herþoturnar hafa virt alþjóðareglur en fréttir af atvikinu séu „skiljanlegar sem yfirskyn til að opna herstöð aftur í Keflavík. Verið sé að vekja upp gamla Rússagrýlu“ eins og segir á mbl.is.

Shadiskij segist hafa rætt við flugstjóra íslensku vélarinnar eftir hádegisfund Varðbergs föstudaginn 23. september og tekur sér fyrir hendur á mbl.is að rengja orð flugstjórans um þá hættu sem af flugi Rússanna hafi stafað. 

Shadiskij stendur gjarnan upp á Varbergsfundum og flytur boðskap rússneskra stjórnvalda. Oft má þar heyra svipað sambland af skætingi og útúrsnúningi og birtist á mbl.is. Í því tilviki sem hér um ræðir bætir hann gráu ofan á svart og sakar flugstjórann um að fara með rangt mál.

Eitt er að rússneskir herflugmenn fari að fyrirmælum yfirboðara sinna um að ögra ríkjum við N-Atlantshaf með flugi sínu. Annað að sendiráðsmaður sem dvelst hér til að stuðla að góðu sambandi við gistiríki sitt komi fram á þann veg sem birtist á mbl.is í dag. Veki einhver upp Rússagrýlu vegna þessa atviks er það sjálfur herra sendiráðunauturinn.

Alexeij Shadiskij er að vísu ekki annað en handbendi yfirboðara sinna. Þeir standa nú í ströngu við að bera af sér að sprengjum hafi verið varpað úr rússneskum herþotum á lestir með matvæli og hjúkrunargögn við Aleppo. Aðferð Shadiskíjs er í sama anda; að saka alla sem benda á óverjandi framferði Rússa um lygar.

Sunnudagur 25. 09. 16 - 25.9.2016 12:00

Af ályktun flokksráðs- og formannafundar Sjálfstæðisflokksins í gær verður ráðið að flokkurinn ætlar að nýta gífurlega mikinn árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum undir hans stjórn til þess að bæta innviði íslensks samfélags á öllum sviðum. Flokkurinn ætlar ekki að íþyngja borgurum landsins með nýjum álögum.

Styrkur Sjálfstæðisflokksins í áranna rás hefur ráðist af forystu hans við að bæta hag þjóðarinnar, huga að samfélagslegum málefnum, án þess að þrengja svo að svigrúmi einstaklinga að þeir leggi árár í bát. Stjórnartíð Jóhönnu og Steingríms J. einkenndist annars vegar af ofurtrú á ríkisforsjá, sem birtist meðal annars af tregðu til að afnema fjármagnshöftin, og hins vegar af ofurskattheimtu sem lamaði framtakssemi einstaklinga og fyrirtækja. 

Hvarvetna sem þar sem þjóðir hafa kynnst stefnu á borð við þá sem flokkarnir til vinstri við Sjálfstæðisflokkinn boða nú fyrir kosningarnar hefur orðið efnahagslegur kyrkingur sem leiðir fyrst til stöðnunar og síðan aukin atvinnuleysis. 

Össur Skarphéðinsson gerist nú talsmaður svartsýni íslenskra vinstrisinna. Hann hefur setið of lengi á þingi til að nenna að taka þátt í þingstörfum nema þegar sér ástæðu til að belgja sig í einhverju gælumáli sínu. Nú síðast var það út af EES-skuldbindingum sem hann sagði brjóta í bága við stjórnarskrána. Var þetta innlegg til að ýta við því stefnumáli að setja verði í stjórnarskrána ákvæði um framsal fullveldisins til alþjóðastofnana. Skortur á slíku ákvæði hindraði þó ekki Össur í að sækja um aðild að ESB þótt hann tali núna eins og sérlegur varðmaður stjórnarskrárinnar.

Í ályktun flokksráðs- og formannafundar sjálfstæðismanna frá í gær segir meðal annars: „Við viljum almenningsvæða banka. Rétt er að almenningur fái drjúgan hlut eignar sinnar milliliðalaust í hendur samhliða skráningu bankanna á markað.“

Þetta þolir Össur ekki og tekur til við að mála skrattann á veginn eins og hann gerði í Iceasave-málinu forðum þegar hann taldi Íslendingum helst til bjargar að borga Hollendingum og Bretum því að annars kæmust þeir ekki í ESB. 

Nú lætur Össur eins og sjálfstæðismenn séu andvígir skiptingu banka svo að þeir sinni ekki í senn fjárfestingum og viðskiptaþjónustu. Um að huga að slíkri skiptingu hefur verið ályktað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins eftir bankahrunið. Allt annað sem Össur segir í reiðilestri sínum vegna almenningsvæðingar bankanna er sama marki brennt: Innantómur vaðall.


 

Laugardagur 24. 09. 16 - 24.9.2016 11:00

Því var haldið fram hér fyrir nokkru að tilkynningu Sveinbjörns, fyrrv. aðstoðarmanns Guðna Ágústssonar, um formannsframboð í Framsóknarflokknum mætti líkja við það sem gerðist í Bretlandi: einhver ólíklegur til að ná kjöri byði sig fram til að ryðja brautina fyrir raunverulegan andstæðing sitjandi formanns.

Í gær, 23. september, skýrði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, frá því að hann ætlaði að bjóða sig fram til formennsku gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni á flokksþinginu eftir viku.

Þingflokkur framsóknarmanna kom saman til aukafundar í gær til að ræða stöðu mála í flokknum. Þetta er sami þingflokkurinn og tilkynnti Sigmundi Davíð 5. apríl 2016 að hann vildi hann ekki lengur sem forsætisráðherra. Þá hafði Sigmundur Davíð farið hroðalega illa út úr sjónvarpsþætti þar sem hann var leikinn grátt af illviljuðum spyrlum. Í gær var látið að því liggja að þingflokkur framsóknarmanna hefði komið saman vegna þess hve illa legðist í þingmenn að sjá Sigmund Davíð í hópi 12 flokksleiðtoga í tveggja tíma þætti í ríkissjónvarpinu.

Ég lagði ekki á mig að horfa á þennan kynningarþátt sjónvarpsins, hef aðeins séð glefsur úr honum og lesið orðaskipti. Ég lét þáttinn sigla sína leið meðal annars vegna aðferðar spyrlanna. Þeir láta eigin fordóma í garð svarenda ráða ferðinni sem skapar neikvætt og dapurlegt sjónvarpsefni og auk þess leiðinlegt. Raunar er þáttur með 12 svarendum sem vilja síst af öllu að samhljómur sé á milli þeirra dæmdur til að mistakast.

Auðvitað er ekki unnt að kenna óvinveittum sjónvarpsmönnum um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stendur höllum fæti innan Framsóknarflokksins. Þar hefur eitthvað meira gerst en frá hefur verið skýrt. Frá því að þingflokkurinn hafnaði honum sem forsætisráðherra hafa forráðamenn flokksins þar til fyrir skömmu keppst við að lýsa yfir stuðningi við hann sem formann. Líklega er það hluti af trúnaðarbrestinum milli Framsóknarflokksins og kjósenda að menn skynja að ekki er allt sem sýnist á æðstu stöðum í flokknum.

Nú þegar opinber formannsátök eru hafin í Framsóknarflokknum milli forsætisráðherra flokksins og flokksformannsins er óhjákvæmilegt að spilin verði lögð á borðið og upplýst um undirrót átkanna. Árið 1991 bauð Davíð Oddsson, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sig fram gegn Þorsteini Pálssyni, sitjandi formanni, af því að hann hafði einangrast og glutrað niður trausti innan flokksins og utan. Forystumenn annarra flokka hæddust að honum. 

Föstudagur 23. 09. 16 - 23.9.2016 19:15

Vefritið Kjarninn vill láta taka sig hátíðlega og ritstjórar þar skrifa af töluverðu yfirlæti um stjórnmál og segjast nú hafa komið á fót einhverju sem þeir kalla staðreyndavakt til að veitast að stjórnmálamönnum sem þeir eru ósammála – þrátt fyrir að skrifa eins og þeir séu hafnir yfir stjórnmálakarp eru þeir þátttakendur í því og líta ekki á allar hliðar mála ef þeir vilja styðja málstað eins á kostnað annars. Þetta gerist á staðteyndavakt þeirra föstudaginn 23. september þegar eftirfarandi orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, eru dæmd sem „haugalygi“ hvorki meira né minna. Bjarni sagði í sjónvarpsumræðum 12 flokksfulltrúa fimmtudaginn 22. september:

 „Þetta er bara rangt að þetta [að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ESB-aðild] hafi verið helsta lof­orð okk­ar. Okkar lof­orð hefur staðið til þess að halda Íslandi utan Evr­ópu­sam­bands­ins[...] Í kjarn­ann vorum við að segja það að við vorum viljug til að beita þjóð­ar­at­kvæða­greiðslum til að höggva á hnút­a.“

Í skýringum Kjarnans á orðum Bjarna fara þeir á staðreyndavaktinni yfir ummæli frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninganna 2013 en láta þess alfarið ógetið að það hefur allt frá 2009 verið stefna Sjálfstæðisflokksins að ekkert skuli gert varðandi aðild að ESB nema það sé fyrst borið undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Þeirri stefnu var hafnað 16. júlí 2009 þótt allir flokkar séu nú þeirrar skoðunar að ekkert skref verði framar stigið í ESB-málinu nema fyrst sé leitað til þjóðarinnar.

Kosningaúrslitin vorið 2013 voru svo afgerandi gegn ESB-flokkunum að fráleitt hefði verið að stjórn flokka á móti ESB-aðild færi að bera málið undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Áróður ESB-aðildarsinna og nú Kjarnans í þá veru er hluti af blekkingariðjunni sem ESB-aðildarsinnar hafa beitt frá 2009, blekkingariðju sem var svo rækilega afhjúpuð í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ að það er í raun furðuleg bíræfni þessara aðila að láta eins og þeir hafi efni á að saka andstæðinga sína um „haugalygi“ undir merkjum staðtreyndavaktar.

Það er eftir öðru að ESB-aðildarsinnar vilji ræða ESB-málið áfram í anda blekkinga. Blekkingar verða ekki að staðreyndum þótt menn þykist standa staðreyndavakt.

Fimmtudagur 22. 09. 16 - 22.9.2016 12:30

Viðtal mitt á ÍNN við Þórarin Tyrfingsson, yfirlækni á Vogi, er komið á netið og má sjá það hér

 Sú sérkennilega staða er í útlendingamálum hér, að hælisumsóknir margfaldast á sama tíma og þeim snarfækkar í nágrannalöndunum. Þessi staðreynd birtist til dæmis í frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram miðvikudaginn 21. september. Í greinargerð frumvarpsins segir:

„Útlendingastofnun hefur áætlað að hælisumsóknir gætu orðið á bilinu 600-1.000 samanborið við 375 árið 2015. Í því sambandi er lagt til að veita annars vegar 600 m.kr. aukna fjárheimild vegna kostnaðar við uppihald hælisleitenda hér á landi og hins vegar 200 m.kr., m.a. til Útlendingastofnunar og Kærunefndar útlendingamála, vegna aukinnar umsýslu og til að hraða málsmeðferð hælisumsókna.“

Síðar í sömu greinargerð segir:

„Hælisleitendur.

1.01 Hælisleitendur. Samtals m.krögð til 640 m.kr. hækkun á þessum lið. Annars vegar er óskað eftir 600 m.kr. viðbótarframlagi á liðnum vegna verulegrar fjölgunar hælisleitenda umfram forsendur fjárlaga. Kostnaður fjárlagaliðarins hefur aukist verulega síðustu árin, frá því að vera 60 m.kr. árið 2011 í 757 m.kr. árið 2015 en þá var fjöldi hælisleitenda 354. Áætlað er að fjöldi hælisleitenda verði um 700 á yfirstandandi ári, sem er tæp 98% aukning frá fyrra ári, og að heildarútgjöldin verði nærri 1.200 m.kr. eða meira en tvöfalt hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Hins vegar er lögð til 40 m.kr. hækkun á framlagi til talsmannaþjónustu Rauða kross Íslands til að standa undir kostnaði við fjölgun talsmanna vegna aukins fjölda umsókna. Er þessi ráðstöfun hluti af sérstakri ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að veita alls 200 m.kr. framlag til ýmissa stofnana og verkefna til að bregðast við stórauknum fjölda umsókna um hæli á Íslandi.“

Unnt er að stemma stigu við komu stærsta hluta þessa fólks til landsins með hertu eftirliti og breyttu skipulagi á Keflavíkurflugvelli og Seyðisfirði. Á því er hins vegar ekki áhugi meðal háttvirtra kjósenda ef marka má skoðanakönnun um forgangsmál og þingmenn virðast frekar vilja fleiri en færri hælisleitendur. Að stjórnmálin skuli vera svona langt á eftir veruleikanum í þessu efni er ekki bundið við Ísland eins og til dæmis má sjá á vandræðum Angelu Merkel

Miðvikudagur 21. 09. 16 - 21.9.2016 15:00

Í gær sá ég að einhverjum í útlöndum hafði tekist að brjótast inn á kreditkortið mitt og stela þaðan 300 dollurum. Þetta gerðist án þess að ég hafi nýlega átt í erlendum viðskiptum. Ég hafði strax samband við Valitor, Var mér tilkynnt að kortið yrði tafarlaust aftengt og nýtt gefið út. Ég gæti sótt um endurgreiðslu á eyðublaði á vefsíðu fyrirtækisins sem ég gerði. Í dag var mér tilkynnt að fjárhæðin hefði verið „bakfærð“ á reikning minn.

Ég hef ekki fengið neina skýringu á hvernig þjófinum tókst að brjótast í gegnum öryggiskerfi Valitors. Á því eru vafalaust tæknilegar skýringar sem ég skil ekki þótt afleiðingin blasi við mér. Skaði minn hefur verið bættur og þegar ég fæ nýja kortið get ég snúið mér að endurnýjun viðskiptasambanda minna við erlenda og innlenda aðila sem ég greiði með kortinu. 

Almennt séð eru innbrot af þessu tagi líklega mun algengari en sagt er frá  opinberlega. Fyrirtækjum er ekki ljúft að skýrt sé frá því að tölvuþrjótum takist að rjúfa öryggiskerfi þeirra og varnarviðbúnað. Þau óttast réttilega að tíðar fréttir af slíkum innbrotum dragi úr áhuga á að eiga viðskipti við þau.

Fyrir nokkrum árum voru fréttir af búðarhnupli algengar. Þá var þess oft einnig getið að lögreglan setti slík mál ekki í forgang. Nú berast slíkar fréttir ekki lengur. Í verslunum eru öryggisverðir og verslanir hafa reiknað kostnað sinn af búðarhnupli inn í vöruverðið þannig að heiðarlegir viðskiptavinir greiða fyrir rýrnunina – aukist þjófnaðir í verslunum hækkar verð vörunnar sem þar er seld.

Á dagbók lögreglunnar í Borgarnesi þriðjudaginn 20. september má lesa: Þrír menn af erlendum uppruna voru stöðvaðir í Borgarnesi að kvöldi sl. laugardags, eftir að sést hafði til þeirra í þjófnaðarleiðangri á Snæfellsnesi.“ Fréttin um þetta kom mér í huga þegar ég lenti í klóm netþjófsins. Vonandi kemst hann undir manna hendur eins og þeir sem gerðir eru út hingað í þjófnaðarleiðangra, til dæmis frá Hvíta Rússlandi.

Þriðjudagur 20. 19. 16 - 20.9.2016 15:00

Alþingi hefur verið rofið og boðað er til kosninga laugardaginn 29. október. Þetta er rökrétt ákvörðun miðað við þáttaskilin sem urðu í stjórnarsamstarfinu þriðjudaginn 5. apríl þegar þingflokkur framsóknarmanna tilkynnti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni (SDG) flokksformanni að hann nyti ekki lengur trausts til að gegna embætti forsætisráðherra. Dró til þessara stórtíðinda eftir að sjónvarpsviðtal við SDG í Kastljósi sunnudaginn 3. apríl.

Raunar er skynsamlegt að efna til kosninga í haust hvað sem örlögum fráfarandi forsætisráðherra líður þar sem orðið hafa þáttaskil í stöðu þjóðmála vegna góðra verka ríkisstjórnarinnar á sviði ríkisfjármála og efnahagsmála. Þar hefur allt gengið á besta veg. Leið hefur verið mörkuð út úr gjaldeyrishöftunum og stór skref stigin á henni, verðbólga er lág, atvinnuleysi lítið, kaupmáttaraukning mest í sögunni og hagvöxtur meiri en í nálægum löndum. Við þessar aðstæður er eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir leiti eftir nýju umboði og kynni hvernig þeir ætla að nýta sér nýjar og góðar aðstæður þjóðinni til heilla.

Nú eru fimm vikur til kosninga. Framboðslistar fæðast og síðan hljóta málefnin að verða kynnt. Margir hafa saknað þess að ríkisstjórnin sem enn situr hafi ekki gert nægilega vel og skipulega upp við stefnu og stjórnarhætti hreinu vinstri stjórnarinnar sem sat 2009 til 2013 og tafði fyrir framförum, laut forræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þorði ekki að gæta hagsmuna þjóðarinnar út á við af því að hún vann að svartasta kaflanum í utanríkissögu lýðveldisáranna með ESB-aðildarbröltinu.

Þegar stjórnarskipti urðu 1991 og Davíð Oddsson varð forsætisráðherra hratt hann af stað skýrslugerð um svonefndan fortíðarvanda, það er arfleifð fyrri ríkisstjórnar eða stjórna til að árétta skilin sem urðu með nýjum stjórnarháttum. Sigmundur Davíð beitti sér ekki fyrir neinu slíku þegar hann varð forsætisráðherra. Skilin urðu því aldrei nógu skörp. Að vísu var samin skýrsla um meðferð ESB-aðildarmálsins þar sem svipt var hulunni af blekkingartalinu, meðal annars um að semja mætti við ESB án þess að tapa ráðum yfir 200 sjómílunum og ákvörðunum um heildarafla.

Þörfin á slíku uppgjöri við stjórnartíð Jóhönnu og Steingríms J. verður augljósari en áður þegar fylgst er með áköfum deilum á alþingi um einkavæðingu bankanna til andlitslausra kröfuhafa undir stjórn Steingríms J. vorið 2009. Þar er aumur blettur á Samfylkingu og VG auk þess sem ráðgjafar og embættismenn kveinka sér. Vonandi tekst að kreista óþverrann úr þessu sári eftir hrun þrátt fyrir kveinstafina.

Mánudagur 19. 09. 16 - 19.9.2016 10:00

Þeir sem telja sig helstu boðbera nýrra tíma í stjórnmálum eftir hrun segjast allir leggja megináherslu á gagnsæi og ríkan vilja sinn til að upplýsa þjóðina um allt sem þeir gera og ætla að gera. Þegar betur er að gáð sést að þetta er allt vísvitandi blekkingartal.

Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. stundaði svo umfangsmikla blekkingariðju að segi menn frá henni eru þeir sakaðir um að stunda blekkingar. Einkavæðing bankanna til andlitslausra kröfuhafa vorið 2009, Icesave-samningarinar og ESB-aðildarferlið; öll þessi mál voru rekin í krafti blekkinga.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er rakið hvernig meirihlutinn í borgarstjórn, fyrst í tíð Jóns Gnarrs og Dags B., hefur þóst standa vel að rekstri leik- og grunnskólakerfi borgarinnar en í raun beitt blekkingum til að leyna borgarbúa hve illa nemendur í grunnskólum borgarinnar standa að vígi. Má þar nefna niðurstöðu í síðustu PISA-könnun. Í leiðaranum segir:

„Ekki voru allir eins áhyggjufullir af stöðu mála [vegna PISA] og kennarar. Í umræðum um PISA-niðurstöðurnar í borgarstjórn sló þáverandi borgarstjóri á létta strengi og fór með gamanmál.

Meirihlutinn í borgarstjórn reyndi að halda niðurstöðum PISA-könnunarinnar fyrir grunnskóla í Reykjavík leyndum fyrir almenningi. Jafnvel foreldrafélög og fulltrúar foreldra í skólaráðum grunnskóla áttu ekki að fá að sjá þær. Það var ekki fyrr en fjórum vikum eftir borgarstjórnarkosningarnar 2014 að niðurstöðurnar fengust birtar, og það eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði að borginni væri skylt að birta þær.“

Pukur- og blekkingarstefnan ræður enn í skólamálum Reykjavíkur. Henni hefur einnig verið beitt til að eyðileggja Reykjavíkurflugvöll.

Þriðja dæmið sem hér skal nefnt er ferlið ótrúlega hjá Pírötum við ákvarðanir um framboðslista vegna kosninganna 29. október. Þar er reynt að leyna ofríki fámennrar klíku sem lítur á flokkinn sem eign sína og svífst einskis til að koma ár sinni fyrir borð. Út á við láta forráðamenn Pírata eins og þeir berjist fyrir opnari og gegnsærri stjórnarháttum en allir aðrir. Þegar á reynir hjá þeim sjálfum nýta þeir sér hins vegar ófullburða leikreglur innan eigin flokks til að níðast á frambjóðendum sem eru þeim ekki að skapi.

 

 

Sunnudagur 18. 09. 16 - 18.9.2016 14:15

Nokkrar umræður hafa orðið um afgreiðslu alþingis á nýjum búvörusamningi. Þær snúast einkum um að 19 þingmenn hafi samþykkt hann, ríflegur minnihluti hafi þannig skuldbundið ríkið og skattgreiðendur. Efni málsins snýst um að skapa grundvöll fyrir landbúnaðarstarfsemi í landinu með samningi ríkis og bænda. Að sjálfsögðu ber að tryggja slíkan grundvöll til langs tíma, Ísland án landbúnaðar er staðleysa.

Stjórnarskráin heimilar að mál séu afgreidd á þennan hátt á alþingi. Ekki hafa heyrst neinar raddir um að krefjast beri aukins meirihluta á þingi þegar afgreidd eru mál tengd bændum. Í 48. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“ Enginn talar meira um stjórnarskrána á þingi en Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata. Spurning er hvort hún vilji breyta ofangreindu ákvæði og skylda þingmenn til að fara að reglum frá kjósendum sínum. Það væri að minnsta kosti í samræmi við afstöðu hennar til búvörusamningsins. Birgitta sagði í Kvennablaðinu föstudaginn 16. september: 

„Í hjarta mínu vildi ég segja NEI [við búvörusamningnum], ég ákvað að virða vinnureglur okkar og fylgja dómgreind þeirra sem áttu áheyrn í nefndinni [...] Það eru skrilljón mál í nefndum núna og ég hef kallað eftir aðstoð úr grasrót til að aðstoða við að lesa yfir þau svo að ég sé að taka ákvarðanir betur í takt við vilja grasrótar Pírata.“

Af þessum orðum má ráða að Birgitta brjóti hvað eftir annað gegn 48. gr. stjórnarskrárinnar í starfi sínu sem þingmaður. Hún segist bundinn af reglum kjósenda sinna fyrir utan að taka ekki ákvarðanir með vísan til eigin sannfæringar heldur „í takt við vilja grasrótar Pírata“. 

Þetta er ekki eini tvískinnungur Birgittu Jónsdóttur kafteins þegar dregur að kosningum. Upplýst er að hún beitti sér fyrir eyðileggingu á prófkjöri Pírata í norðvesturkjördæmi til að pota sínum manni ofar á lista en grasrótin vildi. „Birgitta Jónsdóttir, fór hamförum á leynilegri síðu flokksins“ segir Lilja Magnúsdóttir í kjördæmisráði Pírata á Pressunni laugardaginn 17. september þegar hún lýsir aðförinni að sigurvegaranum í prófkjörinu sem flokkseigendur Pírata fældu frá að berjast áfram fyrir sæti sínu í kosningu um framboðslista í kjördæminu meðal Pírata um land allt.

Birgitta var potturinn og pannan í prófkjörsplottinu í norðvesturkjördæmi og hefur síðan kallað fólk á fundi (með vinnustaðasálfræðingi?) til að segjast hafa meint annað en hún sagði!

 

 

 

 

Laugardagur 17. 09. 16 - 17.9.2016 13:15

Formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa birt samantekt eða skýrslu sem snýr að einkavæðingu bankanna undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar, þáv. fjármálaráðherra, sem framkvæmd var með leynd vorið 2009 á þeim tíma þegar ráðherrann var uppnuminn yfir því að félagi hans Svavar Gestsson væri að ná glæsilegri niðurstöðu í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana. 

Niðurstöðu Svavars átti að hraða með leynd í gegnum þingið í júní 2009 af ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. en umslagi með Icesave-samningunum var laumað nafnlaust inn á fréttastofu ríkisútvarpsins. Í ljós kom að um nauðungarsamninga var að ræða. Þeim var síðan hafnað tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu og að lokum sigraði málstaður Íslendinga fyrir EFTA-dómstólnum. Öll baráttan gegn Icesave-uppgjöfinni var í óþökk Steingríms J.

Því miður var einkavæðing Steingríms J. á bönkunum til andlitslausra kröfuhafa ekki tekin sömu tökum og Icesave-samningar hans og Svavars. Um einkavæðinguna hefur hins vegar verið fjallað síðan en ekki á þann markvissa hátt sem þarf til að leiða allan gang málsins í ljós.

Segja verður þá sögu eins og hún er að brotalöm er í ágætu framtaki formanns og varaformanns fjárlaganefndar. Þau sækja málið meira af kappi en forsjá og lenda í endalausum þrætum um aðferð sína og orðalag. Andstæðingar þess að efni málsins sé reifað halda sig við orðhengilsháttinn og formsatriðin og höfundar skýrslunnar hafa í raun misst forræði málsins og hrekjast undan vegna umræðna um aukaatriði í stað þess að koma efnisatriðunum til skila – tilefni þess að þau réðust í verkið.

Sé litið á PR-hlið málsins er hún í molum af hálfu málshefjenda. Engu er líkara en þau hafi ekkert leitt hugann að þessari mikilvægu hlið. Hefði þeim þó mátt verða ljóst strax eftir fyrsta samtalið við formann fjárlaganefndar um málið í Kastljósi, þar sem fréttamaðurinn talaði fyrir munn Steingríms J., að skýrslu þeirra yrði ekki fagnað af fréttahaukum ríkisins. 

Einkennilegt er að heyra þá sem bera blak af Steingrími J. í þessu máli tala á þann veg að honum sé til afsökunar að staða mála hafi verið erfið og flókin á þessum tíma og erfitt sé að setja sig í þau spor núna. Það verði með öðrum orðum að líta á yfirsjónir hans, hafi verið um þær að ræða, mildum augum. Málflutningur af þessu tagi er í hróplegri andstöðu við öll viðbrögð Steingríms J. sjálfs þegar hann grípur til stóryrða og hótana í garð andstæðinga sinna. Hann stóð til dæmis fremstur í röð þeirra sem drógu Geir H. Haarde fyrir landsdóm  en sagðist gera það með „sorg í hjarta“!

Föstudagur 16. 09. 16 - 16.9.2016 11:30

Athygli vakti að Landssamband sjálfstæðiskvenna var tilbúið með yfirlýsingu um slæma útreið kvenna í prófkjöri í suðvestur-kjördæmi og birti hana áður en talningu var lokið að kvöldi laugardags 10. september. Breytti landssambandið þar með fylgi sem einstakir frambjóðendur hlutu í vandamál sitt og kvenna almennt. Setti þetta ekki aðeins skugga á prófkjör sjálfstæðismanna heldur einnig ákvarðanir annarra flokka um framboðslista í fréttum þessa helgi.

Í Fréttatímanunum er í dag, 16. september, rætt við sjálfstæðiskonuna Elsu B. Valsdóttur lækni um úrslit prófkjaranna. Eftir Elsu er haft að „flokksmenn hafi lagt mat á störf þingkvennanna sem féllu í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins. Þær hafi ekki fallið vegna þess að þær voru konur, fremur en þær voru upphaflega kosnar vegna þess“. 

Ég er sammála þessu. Það er rangt að leggja þannig út af árangri einstakra frambjóðenda í prófkjörum að þar séu kjósendur að hafna einhverjum ákveðnum hópi, hvort heldur konum eða öðrum.

„Það er gott að vera kona í Sjálfstæðisflokknum, það hefur verið gæfa flokksins að falla ekki í kynjakvótagildruna og konur standa jafnfætis körlum í flokknum,“ segir Elsa B. Valsdóttir og einnig:

„Prófkjör eru eftir sem áður besta og lýðræðislegasta leiðin til að velja á lista. Flokksmenn leggja þar mat á það hverjir eigi að vera í framboði fyrir flokkinn. Ef þetta er það sem flokksmenn vilja, þá verðum við að una því. Það skal enginn segja mér að Ragnheiður Elín hafi fallið af því hún er kona. Hún var kosin fyrir átta árum þótt hún væri kona og aftur fyrir fjórum árum. Það eina sem hefur breyst er að hún fellur niður í fjórða sæti. Það eru hennar flokksmenn sem leggja mat á frammistöðu hennar og velja milli frambjóðenda.“

Úr því að sjálfstæðismenn ákveða að hafa prófkjör eiga þeir sem síðan raða á framboðslista að fara að niðurstöðu kjósenda en ekki fikta við hana. Þótt fiktið kunni að gleðja þrýstihópa í lokuðum flokksherbergjum skapar það reiði og hneykslan hjá enn stærri hópi.

Um það má deila hvort prófkjör séu besta leiðin til að ákveða framboðslista. Reynsla mín af þátttöku í nokkrum þeirra sannfærir mig ekki endilega um að svo sé þótt erfitt sé að benda á betri leið. Séu þau hins vegar leiðin ber að fara hana á enda.

 

Fimmtudagur 15. 09. 16 - 15.9.2016 18:30

Í gær ræddi ég við Njál Trausta Friðbertsson, bæjarfulltrúa og flugumferðarstjóra á Akureyri, í þætti mínum á ÍNN. Hér má sjá þáttinn.

Við ræddum meðal annars baráttuna fyrir að hafa 100% öryggi fyrir sjúkraflug á Reykjavíkurfkugvelli. Njáll hefur alla tölfræði í tengslum við þau mál á hreinu. Að hlusta á rök hans vekur undrun um að ákveðið hafi verið að loka neyðarbrautinni. Það er í raun með öllu óskiljanlegt að dómar hafi fallið á þann veg þegar til þess er litið að 100% öryggi í flugi til vallarins er hluti af heilbrigðiskerfinu sem hér er. Kerfið er reist á mikilli sérhæfingu á einu sjúkrahúsi sem taki við sjúklingum af landinu öllu. Nú hefur mikilvægur liður í því meistaraverki verið eyðilagður með tilheyrandi öryggisleysi.

Þá var ekki síður fróðlegt að heyra hvað Njáll sagði um þróun ferðamála og þó einkum flugmála. Hér skal það ekki rakið því að þetta allt má sjá og heyra í þættinum.

Í morgun klukkan 07.30 hóf ég að nýju að leiða hugleiðslu í miðstöð hugar og heilsu, Tveimur heimum, Suðurhlíð 35. Er þetta í boði á þessum tíma tvo morgna í viku, þriðjudaga og fimmtudaga. Staðurinn er friðsæll og aðstaða til hugleiðslu góð. Á vefsíðunni Stundinni birtist einmitt í dag vönduð grein eftir Braga Pál Sigurðarson um að vísindin staðfesti ávinning af hugleiðslu sjá hér.

Þetta er annar vetur minn með hugleiðslu á þessum stað. Hugleiðslan sjálf tekur 27 mínútur og er reist á qi gong aðferð. Kosturinn við tímasetninguna er meðal annars að morgun-umferðarþunginn er ekki orðinn yfirþyrmandi, hvorki þegar komið er eða farið úr Suðurhlíðina klukkan 08.00. Þeir sem hafa áhuga á kynnast þessu nánar geta haft samband við mig bjorn@bjorn.is

 Ótrúlega mikil breyting á afstöðu til hugleiðslu hefur orðið á almennum vettvangi undanfarin ár. Í grein Braga Páls er athygli beint að víðtækum læknisfræðislegum rannsóknum á gildi hugleiðslu. Tvö erlend orð eru notuð um hugleiðslu meditation og mindfulness. Síðara orðið má rekja til læknisfæðilegu rannsóknanna og hefur það verið íslenskað með orðunum gjörhygli eða núvitund. Finnst mér fyrra orðið betra.

Í stuttu máli má segja að hugleiðsla snúist um að brjóta ekki heilann með ofurþyngd hugsana heldur láta hugsanir líða um hann eins og ský á bláum himni. Þetta gerum við með því að leiða hugann að önduninni.

Miðvikudagur 14. 09. 16 - 14.9.2016 12:15

Evrópusambandið glímir að minnsta kosti að hluta við tilvistarkreppu, sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í upphafi stefnuræðu sinnar á ESB-þinginu miðvikudaginn 14. september. Á þeim mörgu árum sem hann hefði fylgst með og tekið þátt í starfi sambandsins hefði hann aldrei orðið vitni að svo lítilli samstöðu aðildarríkjanna eða svo litlum vilja þeirra til að vinna saman.

Hann hefði aldrei fyrr heyrt jafnmarga leiðtoga einstakra ríkja aðeins ræða um viðfangsefni sín á heimavelli og nefna aðeins Evrópu í framhjáhlaupi ef þeir myndu þá yfirleitt eftir henni.

Aldrei fyrr hefði hann séð fulltrúa stofnana ESB setja allt önnur mál á oddinn en ríkisstjórnir aðildarríkjanna, ef tillögunum væri ekki beinlínis beint gegn vilja ríkisstjórnanna og þjóðþinganna. Það væri engu líkara en ekki ættu sér stað nein skoðanaskipti milli ráðamanna ESB annars vegar og í höfuðborgunum hins vegar.

Aldrei fyrr hefði hann séð ríkisstjórnir einstakra landa standa svo höllum fæti andspænis lýðskrumurum og lamaðar af ótta við að taka áhættu vegna næstu kosninga.

Aldrei fyrr hefði hann kynnst jafnmiklu sundurlyndi og svo lítilli samheldni innan sambandsins.

Valið væri skýrt, ætti að gefast upp vegna vonbrigðanna, ætti að leggast í sameiginlegt þunglyndi, ætti að horfa á sambandið leysast upp fyrir framan nefið á sér? Eða ætti að snúa vörn í sókn, taka sig saman í andlitinu, bretta upp ermar og leggja harðar að sér? „Er ekki runninn upp sá tími þegar Evrópa þarfnast ákveðnari forystu en nokkru sinni í stað þess að stjórnmálamenn stökkvi frá borði?“ spurði Juncker og boðaði síðan stefnu sína í löngu máli.

Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi og ESB-þingmaður, sagði eftir ræðuna að hún hefði verið „bragðlaus og léleg“ hún hefði helst verið eins og „líkræða yfir ESB“. Með Brexit hefði bannhelgin innan ESB verið rofin, Brexit hefði sýnt að yfirgefa mætti ESB og bæta þannig stöðu sína. Yrði hún kjörin forseti Frakklands árið 2017 myndi hún leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu um Frexit.

Við yfirlýsingar Le Pen fer hrollur um alla keppinauta hennar í Frakklandi. Þeir velta fyrir sér hve langt þeir þurfa að ganga til móts við skoðanir hennar til að ná nægri hylli kjósenda.

Hér er nýr stjórnmálaflokkur, Viðreisn, sem er orðinn til í von um að koma Íslandi í ESB. Undrar nokkurn að hann feli höfuðstefnumál sitt?

 

Þriðjudagur 13. 09. 15 - 13.9.2016 14:45

Öðru hverju sendi ég efni inn á Facebook til að kanna viðbrögð þar við einhverju sem er ofarlega á baugi. Þegar fréttist að fyrrverandi aðstoðarmaður Guðna Ágústssonar hefði boðið sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni (SDG) vakti ég máls á því að í breskum stjórnmálaflokkum brytu menn ísinn gagnvart sitjandi flokksleiðtoga með svipaðri aðferð. Í dag hefur Guðni svo sjálfur gengið fram fyrir skjöldu og lýst þeirri skoðun að SDG verði að víkja úr formennskunni eigi flokkurinn að ná sér á strik. Guðni er ekki í framboði en formannsslagurinn er kominn á fullt skrið.

Eftir að SDG upplýsti að brotist hefði verið inn í tölvuna hans sagði ég á FB að þetta minnti á Jón Baldvin og Árna Pál um árið þegar þeir sögðu síma sína hafa verið hleraða við störf þeirra í utanríkisráðuneytinu. Lögregla rannsakaði mál þeirra félaga án niðurstöðu en SDG hefur ekki kært tölvubrotið til lögreglu. Að ég skyldi vekja máls á þessu vakti mikla reiði huldumanns úr liði SDG sem hóf reiðilestur um að sjálfstæðismenn ynnu að því að bola SDG frá völdum í Framsóknarflokknum. Það sljákkaði í þessum ágæta manni í morgun eftir að hann hafði kynnt sér ummæli Guðna. Áður hafði hann hins vegar meðal annars bent mér á að lesa Morgunblaðið, það gæti ef til vill leitt mig á „rétta braut“ gagnvart SDG.

Í leiðara blaðsins í morgun en fjallað um kosti og galla prófkjara og hefst hann á þessum orðum:

„Kunnugleg umræða er hafin eftir prófkjör flokka og framboða. Ríkisútvarpið einbeitir sér að Sjálfstæðisflokknum og gengur í þeim efnum ekki gott til fremur en endranær. [...] Er undrunarefni að liðsmenn þessarar ríkisfréttastofu skynji aldrei neitt skrítið í þessari framgöngu sinni.“

Undir þessi orð skal tekið. Fréttaflutningurinn af prófkjörum Sjálfstæðismanna miðar nú eins og stundum áður að því að efla sem mesta reiði vegna árangursleysis kvenna. Hvað sem því líður er óþarft að yfirfæra það á allar konur í stað þess að vega og meta stöðu hverrar þeirrar fyrir sig.

Að efna til prófkjara til þess eins að gera niðurstöðu þeirra að engu vegna þrýstihópa sem myndast eftir kjördag er fráleitt. Annaðhvort láta menn slag standa eða velja aðra leið til að ákveða framboð – til dæmis að tísta um það á Twitter eins og Viðreisn gerir.

Mánudagur 12. 09. 16 - 12.9.2016 12:15

Hillary Clinton (68 ára), forsetaframbjóðandi demókrata, er sögð með lungnabólgu eftir að öryggisverðir leiddu hana máttvana frá athöfn í New York sunnudaginn 11. september þar sem minnst var árásarinnar á borgina fyrir 15 árum. Í fyrstu var sagt að Hillary hefði fengið svimakast í 27 stiga hita og sól. Þá beindist athygli að hóstakasti sem hún fékk í miðri ræðu mánudaginn 5. september. Það var þá skýrt sem ofnæmishósti. Um sex klukkustundum eftir að hún var leidd inn í bifreiðina í New York sendi læknir Hillary frá sér tilkynningu um að hún væri með lungnabólgu, hún hefði verið greind föstudaginn 9. september og fengi hún lyf gegn henni. 

Bandarískir fjölmiðlamenn eru reiðir Hillary fyrir að hafa ekki efnt til blaðamannafundar í meira en 300 daga og hafa sakað hana um of mikla leyndarhyggju. Nú magnast frásagnir þeirra um þennan neikvæða þátt í kosningabaráttu hennar, höfuðáhersla sé lögð á að leyna almenning mikilvægum málum sem snerta frambjóðandann, þar á meðal heilsu Hillary.

Fyrstu viðbrögð við þessum fréttum eru á þann veg að um alvarlegt áfall fyrir Hillary sé að ræða tæpum tveimur mánuðum fyrir kjördag, 8. nóvember 2016. Áhrifin ráðast þó að lokum af því hve fljótt hún nær sér á strik og tekst að ýta veikindum aftur fyrir sig.

Fyrstu viðbrögð við veikri stöðu kvenna í prófkjörinu laugardaginn 10. september hafa verið hörðust innan Sjálfstæðisflokksins. Það er ekkert nýmæli þegar hlutur kvenna að loknu prófkjöri er til umræðu. Flestir taka þátt í prófkjörum í Sjálfstæðisflokknum. Hann skiptir mestu meðal íslenskra stjórnmálaflokka. Prófkjör hafa lengst sett mestan svip á ákvarðanir innan flokksins um framboðslista, ekki síst í Reykjavík. Þar hefur almennt fylgi hans þó minnkað jafnt og þétt. Eru prófkjör besta leiðin til að velja sigurstranglegan framboðslista? Þetta er spurningin sem menn verða að ræða. Það er nærtækara en að hafa prófkjör og ætla síðan ekki að virða niðurstöðu þess af því að þrýstihópar beita sér gegn henni.

Í Samfylkingunni hefur verið leitast við að slá á neikvæðar umræður um það hvernig vilji kjósenda birtist í prófkjörum með því að setja kvótareglur í þágu kynja og aldurshópa. Þetta varð til dæmis til þess að velta Margréti Tryggvadóttur, fyrrv. Þingmanni Hreyfingarinnar og samstarfskonu Birgittu, niður listann hjá Samfylkingunni í sv-kjördæmi, Margréti til lítillar ánægju.

 

Sunnudagur 11. 09. 16 - 11.9.2016 12:15

Vali á framboðslista er lokið innan Sjálfstæðisflokksins og vafalaust hjá fleiri flokkum þótt ég hafi ekki vitneskju um þá alla eða hve margir flokkar ætla að bjóða fram í kosningunum 29. október. Sjálfstæðismenn hafa hins vegar ekki enn raðað á lista sína.

Þótt oft hafi mun fleiri tekið þátt í prófkjörum sjálfstæðismanna kemst enginn flokkur með tærnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hælana þegar til þátttökunnar er litið.

Vandræðagangurinn við val á lista hefur verið mestur hjá Pírötum. Þeir hafa greinilega ekki neina burði til að standa að slíkum ákvörðunum á opinn og skipulegan hátt auk þess sem innra kerfi þeirra er reist á leyndarhyggju þótt þeir láti út á við eins og starf þeirra sé opnara og gagnsæjara en annarra stjórnmálaflokka.

Reynslan af prófkjörum er mikil, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins. Eftir að þeim lýkur er fastur liður í umræðunum að þessum eða hinum hópnum vegni ekki nógu vel. Að þessu sinni er augljóst að konur fá ekki þann framgang sem þær vildu og skynsamlegt væri til að skapa sem best jafnvægi milli kynjanna. Er þetta ekki nýmæli en jafndapurlegt engu að síður.  Að laga þessa vankanta eftir að niðurstaða prófkjara er kynnt reynist erfitt. Vissulega hugsa margir um nauðsyn kynjajafnræðis við ráðstöfun á atkvæði sínu í prófkjöri þótt úrslitin beri það ekki alltaf með sér.

Miðstjórn Framsóknarflokksins kom saman á Akureyri í gær, 10. september. Þar var ákveðið að boða til flokksþings 1. og 2. október. Af ákvörðuninni sýnir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) flokksformaður og hans menn urðu undir innan flokksins. Krafan um flokksþing fyrir kosningar hefur tengst kröfu um að SDG víki úr formennskunni. Hann hefur gripið til þess ráðs að reyna að draga allar ákvarðanir um boðun þingsins á langinn. Kjördæmisþing tóku fyrst fram fyrir hendur hans og nú miðstjórninn.

Eftir miðstjórnarfundinn talar Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður flokksins, öðru vísi en áður um flokksformennskuna. Hann segir ekki lengur það eitt að hann styðji formanninn heldur séu örlögin „algjörlega í höndum flokksmanna“. Fréttastofa ríkisútvarpsins sagði laugardaginn 10. september að á miðstjórnarfundinum hefði verið skorað á Sigurð Inga að gefa kost á sér í formannsembættið. Sigurður Ingi svaraði ekki afdráttarlaust hvort hann treysti Sigmundi Davíð lengur sem formanni en staðfesti að á sig hefði verið skorað.

 

 

 

 

Laugardagur 10. 09. 16 - 10.9.2016 13:30

Á morgun, sunnudag 11. september kl. 14.30, verða tónleikar í Hlöðunni hjá okkur á Kvoslæk í Fljótshlíð (10 km frá Hvolsvelli). Anna Málfríður Sigurðardóttir píanóleikari flytur dagskrá með verkum eftir Mozart og Liszt og segir frá tónskáldunum og verkunum. Boðið er upp á kaffi í hléinu. Miðaverð er 2000 kr. og ekki tekin greiðslukort.

Við höfum nokkrum sinnum efnt til tónleika í Hlöðunni hjá okkur. Þar er hátt undir loft og hljómburður góður. Hlaðan er nákvæm eftirgerð hlöðunnar sem þarna stóð þar til útihúsin fuku í óveðri fyrir nokkrum árum. Áður en húsin fuku hafði Sigurður K. Oddsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, teiknað þau og notuðum við teikningar hans við endurgerðina. Öll hlutföll eru eins og í gömlu húsunum en við hækkuðum þau um 50 cm. Ég veit ekki hvort annars staðar í landinu er að finna jafnnákvæma endurgerð af útihúsum eins og þessum en Óskar í Krappa og samstarfsmenn hans á Hvolsvelli reistu húsin á árunum 2007 og 2008.

Enn skýrist myndin í gegnum blekkingarvefinn sem ofinn hefur verið til fela stjórnarhætti Birgittu Jónsdóttur meðal Pírata. Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, var í þættinum Í vikulokin á rás 1 að morgni laugardags 10. september. Eftir henni var haft á mbl.is að ekki sé unnt að skilja Birgittu Jónsdóttur rétt án þess að styðjast við ráð frá vinnustaðasálfræðingi.

Ásta Guðrún viðurkenndi að prófkjör Pírata í nv-kjördæmi hefði verið klúður, fara yrði ítarlegra yfir niðurstöðuna og læra af henni. Þá segir á mbl.is:

„Þegar Ásta var spurð hvort Birgitta sjálf væri rót samskiptavandans, sagði hún að því mætti velta fyrir sér. „Ég á alltaf í mjög góðum samskiptum við Birgittu en oft er það þannig með fólk sem er mjög skapandi og með hugsun út á við að það segir svolítið margt. Maður þarf stundum að spyrja: „Hvað ertu að meina með þessu?“,“ sagði hún. „Mín samskipti við Birgittu hafa nánast að öllu leyti verið mjög jákvæð, ekki síst eftir að við fengum vinnustaðasálfræðing við að búa til ferla til að gera greinarmun á upplifun okkar á orðum fólks og því sem manneskjan var virkilega að segja.“

Á þennan veg vill Ásta Guðrún reyna að skapa Birgittu svigrúm gagnvart fullyrðingum að minnsta kosti þriggja nafngreindra pírata í nv-kjördæmi sem telja Birgittu gafa viljað ráða niðurstöðu prófkjörsins þar.

Föstudagur 09. 09. 16 - 9.9.2016 15:30

Samfylkingarfólk í Reykjavík, norðvestur- og suðvesturkjördæmum gengur til forvals á fólki á framboðslista dagana 8. til 10. september. Einn þeirra sem keppir um fyrsta sætið í Reykjavík er Össur Skarphéðinsson. Hann situr, að minnsta kosti óbeint, undir alvarlegri ásökun á vefsíðunni visir.is föstudaginn 9. september.

Helga Vala Helgadóttir lögmaður fullyrðir við Jakob Bjarnar, blaðamann á Vísi, að fyrir fjórum árum hafi fólki af víetnömskum uppruna verið lofað ríkisborgararétti gegn því að kjósa Össur Skarphéðinsson, þá utanríkisráðherra, í 1. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar. „Helga Vala ítrekar að hún viti ekki til þess að Össur sjálfur hafi staðið fyrir þessu, heldur einhver sem var mjög í mun að Össur kæmi vel út úr því prófkjöri,“ segir á vefsíðunni.

Í Facebookskilaboðum til Vísis hafnar Össur þessum ásökunum, honum þyki þær sérkennilegar og sannarlega hafi hann sjálfur aldrei komið nálægt neinum slíkum æfingum. Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og Viðreisnarmaður, blandar sér í umræður um málið á Facebook. Vísir birtir þessi orðaskipti:

„Pawel Bartoszek: Hefur þú það staðfest að frambjóðandi hafi lofað kjósanda persónulega ríkisborgararétti í skiptum fyrir stuðning í prófkjöri?

Helga Vala Helgadóttir: Já

Pawel Bartoszek: Það er lögreglumál.

Helga Vala Helgadóttir: Já.“

Vísir spurði Helgu Völu nánar út í þessar ásakanir, sem hún segir vissulega alvarlegar. Hún hafi sjálf rætt við Víetnamana með aðstoð túlks. Hún segir: 

„Ég varð vitni að þessu, þá var það þannig að ég sá á nýskráningum [í kjörskrá í prófkjörinu], sem þarna voru, að þar voru óvenju mörg nöfn sem mátti rekja til Víetnama. Ég þekkti nöfnin. Vissi upprunann. Ég fékk mér til aðstoðar túlk á víetnömsku og fékk hana til að hringja fyrir mig nokkur símtöl og þá var þetta staðfest.“

En, hvaða frambjóðandi er þetta sem fólk átti að kjósa?spyr Jakob Bjarnar blaðamaður á Vísi.

„Þetta fólk sem ég lét hringja í átti allt að kjósa Össur Skarphéðinsson. Og þá var hann utanríkisráðherra. Það átti að kjósa hann í 1. sæti,“ svarar Helga Vala en segist ekki væna Össur um að hafa lofað þessu.

Hvers vegna þykir þetta fréttnæmt núna? Til að sýna Össur í undarlegu ljósi. Þess er ekki getið hvort Víetnamarnir hafi fengið ríkisborgararétt eftir almennri leið eða með lögum frá alþingi.

 

 

 Fimmtudagur 08. 09. 16 - 8.9.2016 12:00

Samtal mitt við Pál Magnússon, frambjóðanda í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, er komið á netið og má sjá það hér.

Enn á ný er ástæða til að halda furðufrétt úr prófkjöri Pírata til haga hér á síðunni. Yfirprófkjör, það er með þátttöku Pírata af landinu öllu, fór fram vegna listans í Norðvesturkjördæmi. Var til þess efnt vegna ásakana um að sá sem varð efstur þegar kosið var innan kjördæmisins reyndist „sekur“ um smölun atkvæða – 18 atkvæði honum greidd þóttu sanna það.

Lauk yfirprófkjörinu miðvikudaginn 7. september og sigraði Eva Pandora Baldursdóttir. Hún lenti í fjórða sæti í prófkjöri heimamanna og Gunnar Ingiberg Guðmundsson í sjötta en hann varð í öðru sæti nú.

Í Morgunblaðinu fimmtudaginn 8. september er vakin athygli á að Gunnari Ingibergi „var raðað langoftast frambjóðenda í efsta sæti á listanum“ í  yfirkosningunni. Röðuðu 86 honum efst á lista en til samanburðar var Eva Pandora sett 49 sinnum efst á lista.

 Þar sem Evu Pandoru var oftar raðað ofar á lista en Gunnari hlaut hún efsta sæti á listanum. Gunnari var á hinn bóginn raðað 17 sinnum í ellefta og neðsta sæti á listanum en Evu Pandoru aldrei. Í heild var Evu raðað 233 á lista en Gunnari 236 sinnum.

Menn þurfa ekki að búa yfir neinni sérkunnáttu til að átta sig á að skipulega hefur verið unnið gegn Gunnari í prófkjörinu á landsvísu að öllum líkindum með smölun. Nú bregður hins vegar svo við að yfir-kafteinn Pírata, sjálfur Smári McCarthy, segir ekki víst að um smölun hafi verið ræða: „Ég hef litlar áhyggjur af þessu. Það er aldrei hægt að stýra kosningahegðun. Maður verður að treysta fólki í lýðræðisstarfi. Þó svo að við bönnum smölun er aldrei alveg hægt að staðfesta hana 100 prósent,“ segir hann við Morgunblaðið.

Með öðrum orðum: Málið er dautt. Flokkseigendur eru sáttir. Sé smalað í þágu óverðugra er gripið til refsinga, sé smalað gegn óverðugum „verður að treysta fólki“.

Miðvikudagur 07. 09. 16 - 7.9.2016 14:30

Þriðjudagur 06. 09. 16 - 6.9.2016 16:45

Í sumum málum er þingmönnum um megn að taka mark á staðreyndum e Þetta á ekki síst við þegar rætt er fjárhagsmálefni útgerðarfyrirtækja. Mætti ætla að markmið vinstri flokkanna væri að koma fyrirtækjunum á vonarvöl vegna ákvarðana um kvóta og fiskveiðistjórnarkerfi sem kom til sögunnar fyrir 33 árum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, áréttaði á alþingi mánudaginn 5. september að sér fyndust ákvarðanir um kaupauka hjá slitabúum bankanna hafa yfirbragð sjálftöku vegna þess hvernig þessi fyrirtæki hefðu komið til sögunnar. Hluthafahópurinn væri ekki hópur sem hefði fjárfest í þessum félögum heldur hefði hann endað uppi sem hluthafahópur eftir nauðarsamningagerð. Ætla mætti að það væru mörg þúsund á bak við þessi félög en „ofboðslega þröngur píramídi“ tæki ákvörðun um þessa hluti efst í hluthafahópnum. Þar með kæmi þetta yfirbragð sjálftöku.

Ráðherrann sagði þetta þegar hann svaraði Björt Ólafsdóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar, sem sagði síðan í þingræðu að auðvitað væri „það sjálftaka að greiða sér arð“ alveg eins og kaupaukinn væri sjálftaka. 

Í svarræðu við þessum ummælum sagðist Bjarni ekki geta fallist á að það væri „sjálftaka þegar menn greiða sér arð í atvinnustarfsemi“. Það væri ekki í nokkru samhengi við umræðuna um kaupaukana.

Þá mótmælti hann því sem kom fram hjá Björt að ríkisstjórnin hefði „lækkað veiðigjöldin svo mjög að það muni milljörðum og að mismunurinn hafi verið greiddur út í arð“. Það væri alrangt. Ríkisstjórnin hefði tekið á annan tug ef ekki á þriðja tug milljarða í veiðigjöld umfram það sem gert hefði verið á síðasta kjörtímabili. Engin ríkisstjórn nokkru sinni hefði innheimt jafnhá veiðigjöld í ríkiskassann og gert hefði verið á þessu kjörtímabili.

Þá hrópaði Björt Ólafsdóttir: „Þetta er bull!“  Bjarni sagðist ætla að senda Björt yfirlit yfir þessar greiðslur þannig að hún gæti dregið til baka orð sín um að þetta væri bull. Þetta væri staðreynd.

Vonandi fær Björt þessi gögn í hendur. Ástæða er þó til að óttast að viðleitni ráðherrans til að beina umræðum um veiðileyfagjöldin inn á braut staðreyndanna beri ekki árangur. Of margir stjórnmálamenn og flokkar hafa fest sig í vísvitandi rangfærslum um útgerðina og kvótann til að eitt minnisblað með tölum verði þeim til bjargar.

Mánudagur 05. 09. 16 - 5.9.2016 15:00

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins í dag var sagt frá niðurstöðum nýrrar könnunar Maskínu fyrir Íslandsdeild Amnesty International sem sýndi að tæplega 74% Íslendinga teldu að stjórnvöld ættu að gera meira til að hjálpa flóttafólki.

Marktækur munur var á afstöðu karla og kvenna. Fleiri konur voru sammála því að flóttamenn sem væru að flýja stríð eða ofsóknir ættu að geta leitað hælis í öðrum löndum eða 57,2 prósent samanborið við 43,7 prósent karla. Einnig voru marktækt fleiri konur en karlar tilbúnar til að taka á móti flóttamönnum inn í hverfið sitt. Ekki var munur á milli kynjanna hjá þeim (13%) sem sögðust tilbúin að hleypa flóttamanni inn á heimili sitt.

Sömu spurningar voru lagðar fyrir þátttakendur í könnun Globescan sem aðalstöðvar Amnesty International létu gera í 27 löndum í maí 2016. Sú könnun náði þvert á allar heimsálfur. Þegar niðurstöður eru bornar saman kemur í ljós að íslenskir þátttakendur eru jákvæðari í garð flóttamanna en þeir sem svöruðu Globescan könnuninni. Miklu fleiri eru tilbúnir til þess að taka á móti flóttafólki i í hverfið sitt, en einungis 22 prósent svarenda í Globescan könnuninni sögðu tilbúin til þess, samanborið við 52,2 prósent íslenskra svarenda. Þá eru færri sem eru sammála eða mjög sammála því í könnun Globescan að flóttamenn sem flýja ofsóknir og stríð geti leitað hælis í öðrum löndum, 72 prósent, samanborið við 84,6 prósent íslenskra svarenda.

1.159 svöruðu könnun Maskínu sem fór fram á netinu og dagana 22. júlí til 2. ágúst.

Fróðlegt er að skoða þessa niðurstöðu í ljósi frétta frá Þýskalandi sem sýna að flokkurinn Alternative für Deutschland (AfD), sem leggst gegn útlendingastefnu Angelu Merkel kanslara og vill loka Þýskalandi fyrir aðstreymi farand- og flóttafólks, vann í gær stórsigur í sambandslandinu Mecklenburg-Vorpommern og ýtti flokki Merkel (CDU) í þriðja sæti á sambandslandsþinginu. Er það mál manna að stefna Merkel í útlendingamálum dragi hratt úr vinsældum hennar, fólk vilji ekki að Þýskaland sé opnað á þann hátt sem Merkel gerði í fyrra.

Óvíst er hvort Merkel býður sig fram í sambandsþingskosningum haustið 2017. Hana skorti traust og fylgi. Hún ætti að bjóða sig fram hér þar sem svona mikill hljómgrunnur er fyrir útlendingastefnu hennar.

 

Sunnudagur 04. 09. 16 - 4.9.2016 13:30

Árið 2006 greiddu 10.486 atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Í prófkjöri í mars 2009 voru atkvæðin um 7.800, á árinu 2012 voru 7.322 atkvæði gild í prófkjörinu í Reykjavík en aðeins 3430 laugardaginn 3. september 2016 eða um 32% af þeim sem kusu árið 2006 í prófkjöri flokksins.

Frá 2006 hefur margt breyst, meðal annars framkvæmd prófkjöra og umsvif frambjóðenda fyrir þau. Það dugar þó ekki til að skýra minni þátttöku í prófkjörinu fyrir 10 árum og nú. Í þessum tölum endurspeglast stærsti vandi Sjálfstæðisflokksins, hann hefur tapað sterkri stöðu sinni í Reykjavík. 

Fallið í fjölda kjósenda í prófkjörinu milli kosninganna 2012 og núna er sláandi. Frambjóðendur og ráðamenn í flokksstarfinu í Reykjavík hljóta að átta sig á að staðan er í raun óviðunandi. Á árum áður lyfti fylgið í Reykjavík flokknum í öllum könnunum en nú dregur það hann niður.

Hér eru margir þættir sem hljóta að koma til skoðunar og snúa þeir að málefnum, mönnum og flokksskipulagi. Þeir sem telja sig búa yfir ráðum til að snúa vörn í sókn fyrir flokkinn í höfuðborginni ættu að taka höndum saman og láta til skarar skríða. Of lítils frumkvæðis í þá veru hefur gætt.

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var í dag vitnað til framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins á þann veg sem birtist síðan á ruv.is: „Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri flokksins, segir margt skýra þetta [minni kjörsókn]. Stutt hafi verið frá því framboðsfrestur rann út þar til kosið var, einhugur hafi verið um efsta sætið og prófkjörið hafi verið prúðmannlegt og lítið um auglýsingar.“

Vissulega er þetta allt rétt hjá framkvæmdastjóranum en betur má ef duga skal. Finna verður leið fyrir flokkinn til að auka fylgi sitt í Reykjavík án þess að frambjóðendur í prófkjöri greiði kostnað af því eða láti prúðmannlega framgöngu lönd og leið. Fjárhagur flokksins leyfir örugglega ekki aðkeypta og nákvæma greiningu á vanda hans í Reykjavík, undan slíkri greiningu verður þó ekki komist sé hún nauðsynleg til að skapa Reykvíkingum og þjóðinni sambærilegt framfaraafl og Sjálfstæðisflokkurinn var í höfuðborginni á árum áður.

Frambjóðendum eru færðar heillaóskir.

Laugardagur 03. 09. 16 - 3.9.2016 15:00

Fundur fólksins er haldinn núna í fyrsta sinn hér á landi að norrænni fyrirmynd. Fer hann fram í Norræna húsinu. Föstudaginn 2. september komu fulltrúar stjórnmálaflokkanna til samtals í beinni útsending. Arnar Páll Hauksson, fréttamaður á ríkisútvarpinu, raðaði þátttakendum í viðræðunum við hljóðnema og spurði svo heyrðist í útsendingunni: „Hvar ætlið þið að láta þennan feita vera?“ Hann fékk ekki svar. Nokkru síðar segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG: „Framsókn, er enginn úr Framsókn?“ Arnar Páll svarar: „Hann, ég segi hvar eigum við að koma honum fyrir, þessum feita.“ Fréttamaðurinn átti sem sagt við Sigurð Inga Jóhannsson, forsætisráðherra og fulltrúa Framsóknarflokksns.

Framsóknarmenn og fleiri tóku þessum ummælum fréttamannsins illa. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagði til dæmis á Facebook: „Fitufordómar á RÚV. Þeir velja sér hópana til að ráðast á.“

Egill Helgason, álitsgjafi og þáttagerðarmaður á ríkisúvarpinu, segir á Facebook: „ ég varð fyrir fitufordómum frá Arnari Páli í mötuneytinu um daginn“ og telur það sanna að fleiri en framsóknarmenn sæti þessum fordómum, þeir beinist meira að segja að starfsmönnum ríkisútvarpsins eins og sér.

Arnar Páll hringdi í Sigurð Inga forsætisráðherra og bað hann afsökunar.

Er þessu fitufordómamáli Arnars Páls þar með lokið? Velta má fyrir sér viðbrögðunum ef stjórnmálamanni hefði orðið svona á í messunni. Hann hefði sagt eitthvað fordómafullt opinberlega við skyldustörf sín. Kannske hefðu umsjónarmenn Spegilsins á fréttastofu ríkisútvarpsins talið ástæðu til að kanna hvað gerðist lentu stjórnmálamenn í slíkum vandræðum erlendis?

Fordómafull ummæli Arnars Páls á Fundi fólksins verða enn andkannalegri fyrir þá sök að viðburðirnir í Norræna húsinu vekja einna mesta almenna athygli vegna svonefndar Stoltgöngu laugardaginn 3. september. Gengið var frá Austurvelli að Norræna húsinu. Slagorðin í göngunni voru: sterk, stolt og sýnileg. Í kynningu á göngunni sagði einnig: Í Stoltgöngunni göngum við saman hönd í hönd og berum höfuðið hátt. Tilgangur göngunnar var að vekja athygli á tilveru fólks með þroskahömlun í fjölbreyttu samfélagi nútímans.

Hliðarfréttir af nýlegum Ólympíuleikum voru meðal annars um örlög fréttamanna sem urðu sér til skammar í tengslum við leikana og hvernig yfirmenn þeirra tóku á málinu. Hvað gerir útvarpsstjóri í máli Arnars Páls? Skyldi verða leitað eftir svari við því í Speglinum?

Föstudagur 02. 09. 16 - 2.9.2016 11:30

„Mikil umræða hefur verið síðustu daga um framlög til skólamála í Reykjavíkurborg og hafa stjórnendur grunnskóla og leikskóla ályktað um niðurskurð undangenginna ára. Af því tilefni er mikilvægt að halda til haga nokkrum staðreyndum.“

Á þessum orðum hefst stutt grein í Fréttablaðinu í dag þar sem samfylkingarmaðurinn og borgarfulltrúinn Skúli Helgason, formaður skólamálaráðs borgarinnar, reynir að klóra í bakkann vegna ófremdarástandsins sem skapast hefur í leikskólum og grunnskólum borgarinnar.

Nú er svo komið að stjórnendur leikskóla segja starf þeirra komið út fyrir öll skynsamleg fjárhagsleg þolmörk. Stjórnendur og kennarar í grunnskólum kjósa að leita annað og í betra starfsumhverfi til að vinna að menntun barna. Er það svo að stjórnendur skólanna hafi „ályktað um niðurskurð undangenginna ára“? Hafa þeir ekki einmitt ályktað um stöðuna eins og hún er núna? Að óbærilegt sé að borgaryfirvöld sem stæra sig af, eins og Skúli gerir i grein sinni, auknum framlögum til skólamála skuli með hinni hendinni þrengja svo fjárhagslega að skólunum að þeir séu komnir að fótum fram.

Það er dæmigert fyrir almennan málflutning samfylkingarmanna að ræða ekki hlutina eins og þeir eru heldur láta eins og málið snúist um eitthvað annað. Af grein Skúla mætti halda að Reykjavíkurborg hefði gert eitthvað betur við starfsfólk í leikskólum og grunnskólum borgarinnar en önnur sveitarfélög hafa gert. Svo er ekki. Launasamningar kennara eru hinir sömu um land allt, neyðarkallið vegna fjárskorts er þó hæst í Reykjavík og borgin missir starfsmenn úr skólum til nágrannasveitarfélaga af því að þau bjóða betra starfsumhverfi.

„Þá er rétt að benda á að samkvæmt gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga voru framlög á hvern grunnskólanema árið 2014 næsthæst í Reykjavík af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Skúli.  Nú er að vísu árið 2016 en á að skilja orð hans á þann veg að það séu skólastjórnendur í Reykjavík sem fari verr með fé en þeir sem starfa í nágrenni höfuðborgarinnar?

Afneitun einkennir orð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra þegar hann ræðir fjármál Reykjavíkurborgar. Sömu sögu er að segja þegar formaður skólaráðs ræðir fjárhag leikskóla og grunnskóla. Grein Skúla Helgasonar ber með sér að vinstri meirihlutinn í Reykjavík hafi engin úrræði til að bjarga skólunum úr fjármálakreppunni – það hefur einfaldlega orðið hrun í Reykjavík í miðju góðærinu.

Fimmtudagur 01. 09. 16 - 1.9.2016 14:30

Samtal mitt við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér.

Þórdís Kolbrún er aðstoðarmaður innanríkisráðherra og í framboði í prófkjöri sjálfstæðismanna í norðvesturkjördæmi nk. laugardag þar sem hún óskar eftir stuðningi í 2. sætið.

Henni var tíðrætt um nauðsyn þess að standa vörð um innviðina á landsbyggðinni eins og annars staðar á landinu. Ég spurði hvort nokkur stofnaði til umræðu við hana um nauðsyn þess að breyta stjórnarskránni þegar hún hitti kjósendur. Hún sagði svo ekki vera. Áhugamenn um það væru líklega í öðrum flokkum. Ég minnti á sérstakt framboð hefði verið vegna breytinga á stjórnarskránni í kosningunum 2013.

Líklega er tillagan nauðsyn þess að kollvarpa stjórnarskránni vegna hruns bankakerfisins vitlausasta tillagan sem fram hefur komið vegna hrunsins. Næst vitlausasta en þó dýrari er svikatillagan um ESB-aðild Íslands. Undarlegt er að vegna þessara tillagna hafa orðið til tveir stjórnmálaflokkar: Lýðræðisvaktin 2013 vegna stjórnarskrárinnar og Viðreisn núna vegna ESB-málsins.

Fylgi Lýðræðisvaktarinnar í alþingiskosningum 2013 var 2,46461546601762% eins og sagði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í febrúar 2016. Lýðræðisvaktin taldi að námunda ætti fylgið við 2,5% en það er atkvæðamagnið sem nauðsynlegt er svo stjórnmálaflokkur fái fjárframlag frá ríkinu. Flokksmenn fengu því engan styrk frá ríkinu vegna framboðs síns.

Nú segir hvað eftir annað í fréttum að þjóðkunnir Íslendingar verði í framboði fyrir Viðreisn. Frambjóðendur Lýðræðisvaktarinnar voru vissulega þjóðkunnir og töldu sig eiga brýnt erindi við þjóðina, fylgið reyndist þó ekki meira. 

Lýðræðisvaktin fór ekki leynt með meginstefnumál sitt eins og Viðreisn gerir núna, flokkurinn flaggar ekki ESB-aðildinni þótt hún sé ástæða framboðsins.

Ég spurði Þórdísi Kolbrúnu um Sundabrautina sem yrði til að greiða fyrir allri umferð á Vesturland sem nú fer um Mosfellsbæ. Hún sagði afstöðu borgaryfirvalda í Reykjavík óljósa. Það er stórundarlegt því árið 2002 var lagning Sundabrautar eitt af höfuðmálunum i borgarstjórnarkosningum Síðan hefur málið orðið að engu og í Reykjavík hefur skipulagsvandi vegna brautarinnar ekki einu sinni verið leystur enn.

Stjórnarhættir í Reykjavík eru til skammar. Í blöðum í morgun má lesa að í Garðabæ, Kópavogi og Hafnarfirði þar sem íbúar búa ekki við vinstri stjórn sé fjárhagsstaða leikskóla mun betri en í borginni og starf þeirra sé ekki sligað af  uppsöfnuðum halla fyrri ára.